Færsluflokkur: Dægurmál

Áhrif Columbine á fjöldamorðin í Finnlandi

SaariEins og ég benti á í skrifum mínum eftir fjöldamorðið í iðnskólanum í Kauhajoki var ótrúlega margt líkt með Saari og Auvinen, finnsku fjöldamorðingjunum. Nú er ljóst að þeir þekktust og heilluðust báðir af Klebold og Harris, fjöldamorðingjunum í Columbine í Colorado í Bandaríkjunum árið 1999. Augljóst er að bæði finnsku fjöldamorðin eru gerð undir mjög sterkum hughrifum af því sem gerðist í Columbine. Sturlunin og mannvonskan í þeim báðum er mjög lík hugarfari Klebold og Harris.

Einelti virðist líka blandast í þetta. Oftast nær eru fjöldamorðingjar í svona skólum utangarðsmenn skólastarfsins, hafa annað hvort orðið fyrir miklu einelti, verið taldir spes eða hreinlega beðið skipbrot að mörgu leyti. Eru algjörlega utanveltu. Cho Seung Hui, sem framdi fjöldamorðið í Virginia Tech hafði t.d. orðið fyrir einelti í skólanum og sama má segja um Auvinen, sem hafði verið mjög utangarðs í skólanum.

Oft beinist heiftin að kennurum í þessari stöðu. Árásin verður því oft á tíðum hefnd eða aðför að þeim sem byssumaðurinn telur að hafi farið illa með sig, jafnvel ekki passað sig eða ekki tekið á einelti eða árásum gegn þeim, eða ráðskast með þá. Auvinen skaut skólastýruna í Jokela-framhaldsskólanum yfir 20 sinnum og fór með um 70 skot á þá átta sem dóu. Grimmdin var því algjör.

YouTube hefur leikið lykilhlutverk í að kynna okkur árásarmennina í öllum þrem skólunum að undanförnu. Þar sést niðurbæld ólga gegn öllu í kringum árásarmennina. Nútímatæknin hefur skilið eftir mikilvæg sönnunargögn í málinu og gert auðveldara að greina þá sem fremja slík voðaverk. Löngu er vitað að einelti getur kveikt elda ólgu í huga þeirra sem verða fyrir og það getur brotist út með krafti.

Allir sem hafa kynnt sér skotárásina í Columbine í apríl 1999 vita að sá þáttur skipti lykilmáli. Skotmennirnir þar voru einfarar, í skugga félagslífsins í skólanum og lifðu sínu lífi, voru í eigin heimi. Báðir finnsku fjöldamorðingjarnir falla í þennan sama hóp og hafa þar að auki dýrkað Klebold og Harris sem goð lífs síns, hetjur sem hafi gert hið eina sem þeir gátu gert. Þeir gerðu það sem þeir vildu gera.

Bæði Auvinen og Cho Seung-Hui stúderuðu Harris og Klebold og allt þeim tengt - báðir töluðu um þá sem píslarvætti. Ég man vel þegar fjöldamorðin í Columbine áttu sér stað að því var lýst sem brenglun bandarísks hugarfars. Þetta gæti aðeins gerst þar og þetta væri skipbrot bandarísks þjóðfélags. Michael Moore gerði heila mynd um þetta.

Sú sögusögn er dauð, altént á Norðurlöndum með fjöldamorðunum tveim í Finnlandi. Þetta er því miður orðinn veruleikiu okkar. Við getum ekki sagt það lengur að þetta sé fjarlægur veruleiki þegar norræn ungmenn lifa í sama anda og dá þá tilhugsun að drepa alla í kringum sig, sem þeir telja að hafi gert eitthvað á sinn hlut.

Einelti í skólastarfi er ekki bara bandarískur veruleiki. Því breytir þessi þróun öllu, sérstaklega fyrir okkur á Norðurlöndum. Það sem eitt sinn var fjarlægur veruleiki og lýst sem skipbroti bandarísks skólalífs er ekki lengur bara þeirra vandamál.


mbl.is Umbreyttist við andlát bróður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

World Class, handrukkarinn og Kompás

Um fátt var meira talað í gær en Kompás-þáttinn. Stöð 2 átti heldur betur óskabyrjun með Kompás í vetur. Allir höfðu sínar skoðanir á hvor væri vondi eða góði gæinn í uppsetningu þáttarins og talað hefur verið um að handrukkarinn sé dæmdur barnaníðingur og hafa spunnist miklar umræður á bloggi Jens Guð, sem hefur bent á fortíð handrukkarans og tekið málið lengra.

Þessu var reyndar stillt þannig upp eftir þáttinn að umræðan var dæmd til að snúast um hvor væri góði gæinn og kannski mun frekar hvort handrukkarinn hafi verið djöfull í mannsmynd. Að því leyti tókst Kompás að ná umræðunni á sitt vald og hafði mikil áhrif á að kynna báða mennina fyrir þjóðina, þó þeir hafi sennilega verið fáir sem ekki þekktu þann sem var barinn.

Eftir skrif nokkurra bloggara, t.d. Jens Guð, hefur umræðan tekið á sig þá mynd að World Class vill ekki af manninum vita meira. Kannski kemur það ekki beint að óvörum eftir umræður þar sem lógó World Class hefur verið sett upp í sömu andrá og talað er um handrukkarann. Ekki beint góð auglýsing.

Svo má velta því fyrir sér hvort rétt sé að dæma einhvern fyrirfram í þessu máli. Bloggarar hafa með þessu dæmt í mjög hörðu máli og eðlilegt að velta því fyrir sér hvort það sé rétt skref. En hafa svosem ekki allir fellt einhvern dóm eftir umfjöllun Kompás?

mbl.is Starfar ekki lengur hjá World Class
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólýsanleg bilun hjá finnska fjöldamorðingjanum

Eftir því sem meira kemur fram um finnska fjöldamorðingjann í Kauhajoki verður ljóst hversu mjög hann hefur líkt eftir fjöldamorðingjanum Auvinen í Jokela og þeim Klebold og Harris í Columbine árið 1999. Kveðjubréfið hans er eiginlega nákvæmlega eins og það sem Auvinen skildi eftir fyrir ári. Sturlunin og reiðin í garð samfélagsins og allra sem voru í kringum hann er ólýsanleg. Hann hefur greinilega verið búinn að loka sig af og gera plan um þessa árás mjög lengi.

Finnst verst af öllu að finnsk stjórnvöld hafa ekki lært lexíuna fyrir ári. Þessi strákur var ekki stöðvaður, þrátt fyrir yfirheyrslur sólarhring fyrir fjöldamorðið, og enn er Finnland eitt af þeim löndum þar sem mest vopn eru af. Talað var um það í fyrra að herða ætti vopnalöggjöfina og stokka mál upp. Finnar eru í miklu sjokki, enda hlýtur að vera alveg gríðarlega mikið áfall að upplifa svona fjöldamorð tvisvar á innan við ári.

Vel sést á youtube-myndböndunum hvað Saari var truflaður og ofbeldisfullur. Algjörlega vægðarlaus í aftökunni á samnemendum sínum. Lét sér ekki nægja að drepa allan þennan fjölda heldur kveikti í eftir voðaverkið og enn á eftir að bera kennsl á fjölda nemenda. Ótrúleg klikkun og óhugnaður.

Skólinn á að vera griðastaður og skjól. Þessi finnski harmleikur er óþægilega nærri okkur. Svo margir hérlendis hafa talað um að þetta sé bara bandarískur veruleiki og beri merki klikkun þess samfélags. Við verðum að fara að líta okkur nær.


mbl.is Sagðist hata mannkynið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegt mál

Morðið á Hrafnhildi Lilju Georgsdóttur er mikill harmleikur. Hún hefur verið myrt með kaldrifjuðum hætti, bæði stungin og barin illa, málið vekur mikinn óhug meðal þjóðarinnar. Við erum ekki vön því að fá fréttir af því að íslenskir ríkisborgarar séu myrtir á hótelherbergjum sínum á erlendri grundu. Í þeim efnum er þetta mál sérstaklega sorglegt.

Ætla að vona að lögregluyfirvöld á staðnum nái að raða saman púslum málsins og leysa það fljótlega.

Vil votta aðstandendum Hrafnhildar Lilju innilega samúð mína.

mbl.is Fannst látin í Dóminíska lýðveldinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldamorðinginn í finnska iðnskólanum deyr

Matti Juhani SaariFjöldamorðinginn Matti Juhani Saari, sem myrti að minnsta kosti tíu manns í iðnskólanum í Kauhajoki í Finnlandi, er nú látinn af sárum sínum. Þetta er mikil sorgarsaga og að vissu marki leitt að Saari lifði ekki til að hægt væri að heyra hans hlið þessa mikla harmleiks sem hann var valdur að. Þetta skelfilegasta fjöldamorð í norrænni sögu stendur enda eftir sem óráðin gáta sem þarf að leysa án fjöldamorðingjans.

Mér finnst youtube-myndböndin hans sýna mjög mikið hatur hans og innbyrgða reiði, sennilega á samfélaginu og öllu í kringum hann. Saari virðist senda ákall frá sér um að rísa upp og gefa frá sér einhverskonar yfirlýsingu. Þetta er í grunninn nákvæmlega það sama og var í Jokela í Finnlandi fyrir ári, Columbine, Virginia Tech og fleiri skólum þar sem sömu hörmungar hafa gengið yfir. Að flestu leyti voru þetta skotárásir þar sem vegið var að samfélaginu, óður byssumaður að tala gegn samfélaginu og gildum þess.

Samt er það svo ólýsanlega sorglegt að norrænn námsmaður sé tilbúinn til að fórna lífinu og drepa aðra vegna slíks boðskapar. Svo mörg mál af þessum toga hafa átt sér stað síðustu árin, oftast nær í skólastofnunum. Flestir líta til Bandaríkjanna í þeim efnum. Ekki má þó gleyma því að fyrir ellefu árum áttu sér stað fjöldamorð í íþróttasalnum í barnaskólanum í Dunblane í Skotlandi. Thomas Hamilton, 43 ára skoskur maður, myrti þá 16 skólabörn og kennara þeirra - var ekki tengdur skólanum en trylltist eftir að hann var rekinn sem skátahöfðingi á svæðinu.

Margir hafa horft til byssueignar. Michael Moore gerði heila heimildarmynd þar sem hann tók fyrir þau mál, Bowling for Columbine, sem var inspíruð af Columbine-fjöldamorðunum sem Harris og Klebold stóðu að. Fyrirmyndin að Jokela-fjöldamorðinu var skotárásin í Columbine-skólanum í Colorado í apríl 1999. Auvinen spilaði lagið Stray Bullet með rokkbandinu KMFDM á Youtube myndklippu sinni, lagið sem hafði svo mikil áhrif á Klebold og Harris.

Klebold og Harris voru einfarar, menn sem voru í skugga félagslífsins og lifðu sínu lífi, voru í eigin heimi. Mjög margt í þessu máli líkist bæði Columbine og Virginia Tech-málunum. Bæði Cho Seung-Hui og Auvinen stúderuðu Harris og Klebold og talaði sá fyrrnefndi um þá sem píslarvætti. Klippurnar með Saari líkjast mjög því sem Auvinen gerði.

Harris og Klebold hafa reyndar öðlast sess í huga margra og er enginn vafi að Columbine er í senn bæði cult-fyrirbæri margra og fjöldi ungra Bandaríkjamanna líta t.d. á Harris og Klebold sem uppreisnarmenn sem hafi gert það eina sem þeir gátu gert

Við blasir að Saari var gangandi tímasprengja. Hann var yfirheyrður í gær og ótrúlegt að lögreglan hafi ekki gert neitt meira. En kannski var ekkert hægt að gera. Ekki er hægt að mæla hversu vitfirrtur sjúk sál mannsskepnunnar getur orðið.

Þessi harmleikur verður sífellt sterkari myndræn áminning um að klikkaður árásarmaður leynist ekki bara í bandarískum skólum. Hættan er til staðar allsstaðar.


mbl.is Finnski byssumaðurinn látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarsorg í Finnlandi - nöturlegur harmleikur

Byssumaðurinn Þjóðarsorg er í Finnlandi eftir fjöldamorðið í iðnskólanum í Kauhajoki. Þetta fjöldamorð í norrænum skóla hefur hreyft við öllum sem fylgjast með fréttum - þetta er nöturlegur harmleikur sem erfitt er að lýsa með orðum í sannleika sagt. Sorg hvílir yfir friðsælu skólasamfélagi og frændum okkar Finnum öllum. Mikilvægt að sýna þeim samúð, svo skömmu eftir Jokela-fjöldamorðið fyrir tíu mánuðum.

Í finnsku samfélagi gnæfa spurningarnar eins og brot í stóru púsli, þau munu vonandi ná að mynda heilstæða mynd að lokum - mynd sem sýnir atburðarásina í réttu ljósi og svarar því sem eftir stendur að lokum. Fyrst og fremst er þetta mál mikið áfall fyrir okkur á Norðurlöndum. Við höfum talið okkur trú um það að við lifum í vernduðu samfélagi, það sem gerist af þessu tagi í Bandaríkjunum sé fjarlægur veruleiki og komi okkur ekkert svo mikið við. Þetta er veruleiki sem hefur nú náð til okkar á þessu samnorræna svæði. Það er skelfilegt.

Mér finnst þetta sýna okkur mjög vel að við lifum ekki í vernduðu samfélagi. Klikkað fólk getur verið á ferli hvar sem er, fólk sem getur breytt örlögum þeirra sem við þekkjum á augabragði. Fyrst svona skelfingaratburður getur átt sér stað í norrænum framhaldsskóla þurfum við að líta á heildarmyndina öðrum augum. Það sem gerist í Bandaríkjunum er ekki lengur veruleiki sem er okkur fjarlægur. Þetta er dapurleg lexía sem við sjáum gerast með þessu. Það er ekki lengur hægt að líta á þennan veruleika sem bandarískan, sem fjarlægan.

Öll vottum við Finnum samúð okkar. Þetta er þeim gríðarlegt áfall skiljanlega, þetta er þó ekki bara áfall þeirra heldur okkar allra. Þessi veruleiki er mikill fyrir okkar norræna umhverfi.

mbl.is Níu látnir í Finnlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver var góði gæinn í Kompás í kvöld?

Kompás Dúndurbyrjun hjá Kompás í kvöld. Fyrsti þátturinn hafði verið kynntur svo vel að ekki var annað hægt en fylgjast með myndklippunni af Benjamín og Ragnari. Sjónvarpið stillti upp Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, á sama tíma þar sem hann sló á umræðuna um sig og Landsvirkjun. Ég valdi Kompás fram yfir Árna, örugglega ekki einn um það.

Kompás er djarfur og öflugur fréttaskýringarþáttur. Gengur langt og hefur náð athygli út á það að vera ferskur og afgerandi, hefur komið upp um barnaníðinga og hneyksli af ýmsu tagi, kom t.d. upp um það sem gerðist í Byrginu árum saman án þess að ríkið fylgdist með því er það dældi peningum í starfsemina.

Myndefnið með földu myndavélinni var ansi öflugt - traust myndræn framsetning sem mun vekja umtal og deilur. Þátturinn fékk sína auglýsingu og gott betur en það, löngu áður en fyrsti þáttur vetrarins var sýndur og fær meira umtal á næstunni.

Eflaust átti þetta að vera svona góði gæinn vs. vondi gæinn uppsetning. Átti erfitt með að sjá hvort einhver góði gæi var í þessu. Á erfitt með að gera upp við mig hvort var ógeðfelldari og meiri durtur.

En Stöð 2 stendur sig vel með Kompás og á hrós skilið fyrir að vera með fréttaskýringarþátt, sem er eitthvað meira en Sjónvarpið getur státað sig af.


Óþolandi auglýsingahlé í Dagvaktinni á Stöð 2

Dagvaktin Mikið innilega var það nú notalegt að sjá þá félaga Georg, Ólaf Ragnar og Daníel aftur. Dagvaktin lofar svo sannarlega góðu. Hinsvegar var auglýsingahléið sem skar þáttinn í sundur í tvo búta algjörlega óþolandi. Stöð 2 gerði það sama með Næturvaktina, en svei mér þá ef þetta var ekki lengra auglýsingahlé og meira pirrandi en það.

Fyrir okkur sem erum áskrifendur að Stöð 2 er algjörlega ömurlegt að sjá svona gæðaefni skorið í sundur. Þættirnir eru með tvo styrktaraðila, auglýsta í bak og fyrir í þættinum, svo að maður hélt að kannski væri nóg að dæla nóg af auglýsingum fyrir og eftir þáttinn. Ónei, ekki beinlínis. Auglýsingum er smurt svoleiðis í þáttinn og eyðileggur skemmtanagildi hans allnokkuð.

Ríkissjónvarpið gerði ekki hið sama og skar ekki Svörtu englana í tvennt. Enda á svona gæðaefni að vera sent út í einni heild en ekki skorið í sundur. Kannski væri hægt að skilja þessa auglýsinganauðgun á leiknu íslensku efni ef Stöð 2 væri ekki áskriftasjónvarp. Stöð 2 minnir í þessu illilega á Skjá einn - mikil afturför vægast sagt.

Niðursveiflan og unga fólkið

Nú þegar kreppir að í niðursveiflunni kemur hún helst niður á ungu fólki, sem þarf að leigja og kaupir mat. Ekkert annað er í kortunum en þetta verði erfiður vetur fyrir þennan hóp og mjög þröngt um allt. Ég hef heyrt margar sögur af þessu nú þegar haustar að og ekki eru allir svo lánsamir að geta staðið undir öllum þunganum sem fylgir niðursveiflunni.

Staðan hérna heima hefur komið fram í því að ungt fólk sem fer út til að læra hefur ekki séð hag í því að flytja heim aftur, en ákveður þess í stað frekar að vera áfram á þeim slóðum.

Annars vonum við öll að niðursveiflan standi ekki lengi yfir, þó öll teikn séu á lofti um að veturinn verði mjög erfiður.


mbl.is Kreppir að fjárhag unga fólksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrkur Gísla

Ég dáist að styrk Gísla Sverrissonar og fjölskyldu hans við erfiðar aðstæður. Held að okkur öllum hér fyrir norðan sé hugsað til þessarar fjölskyldu á erfiðum tímamótum sem fylgja alvarlegum veikindum Gísla, eftir að hann varð fyrir mænuskaða fyrr í þessum mánuði. Mikilvægt er að þau finni fyrir stuðningi og hlýjum hugsunum nú.

Viðtalið við Gísla í Íslandi í dag í gærkvöldi sýndi vel að hann er baráttumaður sem ætlar ekki að láta þetta slá sig út af laginu, hann ætlar að berjast og reyna að ná einhverju af fyrri styrk. Auðvitað er það mikið áfall fyrir ungan mann og fjölskylduna alla að þurfa að horfast í augu við þessi veikindi en styrkur þeirra er mikils virði í því.

Auðvitað eru það þung örlög að verða fyrir svo þungu höggi og þurfa að berjast fyrir því einu að hreyfa sig. Þjóðin hefur stutt mjög vel þá sem hafa orðið fyrir mænuskaða og söfnunin í gær sýndi mjög vel stöðu þeirra mála.

mbl.is Gengið fyrir Gísla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband