Færsluflokkur: Dægurmál

Bloggari dæmdur - Gaukur tapar fyrir Ómari

Gaukur Úlfarsson Það felast stórtíðindi í því að Ómar R. Valdimarsson hafi sigrað í málinu sem hann höfðaði gegn Gauki Úlfarssyni vegna ummæla hans í sinn garð. Þetta er eftir því sem ég best veit fyrsti alvöru dómurinn þar sem bloggari þarf að taka út ummæli sín og þau dæmd dauð og ómerk. Þarna er fjallað um bloggfærslur fyrir dómi með þessum hætti í fyrsta skiptið.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að fólk verði að gá að sér þegar að það skrifar á blogg. Eitt er að hafa skoðanir, annað er að ráðast ómerkilega að fólki og með ósmekkleg ummæli. Það sést í þessu máli þar sem ummæli sem greinilega fóru langt yfir markið eru dæmd dauð og ómerk og bloggari verður að greiða miskabætur til þess sem hann fjallaði um. Eflaust verða málin fleiri síðar meir en þetta er sögulegur dómur og mjög merkilegur vegna þess fordæmis sem hann setur um ábyrgð á orðavali og umfjöllun í bloggheimum.

Það er ágætt að svona standard sé settur yfir, að fólk passi sig á því hvað það skrifar. Það er ágætt að tjá sig vel um þau mál sem eru í gangi en það verður að gera af ábyrgum og siðlegum hætti en ekki með blammeringum í allar áttir. Þessi dómur verður sem ágætis lexía í þeim efnum.

mbl.is Sekur um meiðyrði á bloggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ódýrara að fara í Hvalfjarðargöngin

Hvalfjarðargöng Það er gott að heyra að lækka eigi veggjaldið í Hvalfjarðargöngin. Það er eiginlega kominn tími til að prísinn verði ódýrari, enda verða göngin tíu ára í sumar og ágætt að þeir sem fara um göngin finni fyrir einhverri verðlækkun á þeim tímamótum.

Annars hefur umferðin um göngin verið mun meiri en áður var talið og þeir eru fáir sem keyra Hvalfjörðinn. Man að þegar að göngin voru vígð voru áætlanir um að það tæki sautján ár að borga göngin með þeim vegtolli sem þá var lagt upp með.

Það eru tíu ár liðin frá opnun og mér minnir að tölur hafi sýnt að um 95% sem fara leiðina, hið minnsta, fari göngin og sleppi Hvalfirðinum. Það segir allt sem segja þarf um hversu mikil samgöngubót Hvalfjarðargöngin voru.

mbl.is Veggjald í Hvalfjarðargöngum lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algjört ógeð

Það er ekki hægt annað en að bjóða við því þegar að karlmenn reyna að setja lyf í áfenga drykki stúlkna á skemmtistöðunum til að eiga auðveldar með að nauðga þeim. Þetta er ískaldur raunveruleiki erlendis og hefur heyrst af tilfellum af þessu tagi hérna heima. Það er erfitt að eiga við svona á skemmtistöðunum þar sem er fjöldinn allur af glösum og er auðvitað besta ráðið að aldrei sé drukkið úr glösum nema þeim sem fólk sækir sjálft eða getur treyst öðrum fyrir með áreiðanlegum hætti.

Þess eru reyndar dæmi að þetta hafi verið gert við karlmenn líka, að konur hafi sett ólyfjan í drykki þeirra. Þetta er ógeðslegur heimur sem felst í notkun svona lyfja og er dapurlegt að öllu leyti.

mbl.is Grunaðir um að hafa sett lyf í drykki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórsigur Eurobandsins - ekki skipt um söngvara

Regína Ósk og Friðrik Ómar Þær eru furðulegar þessar kjaftasögur vissra aðila um að skipta eigi um söngvara í sigurlaginu í Eurovision, This Is My Life. Eitthvað segir mér að þær komi ekki upp sem tilviljun. Það hefur nú verið sagt afgerandi að Friðrik og Regína muni syngja lagið úti svo að það þarf ekki að velta því meira fyrir sér.

Enda er nákvæmlega engin þörf á að skipta um söngvara í laginu. Þjóðin valdi þau enda með afgerandi hætti til að fara út og greinilegt að það er verið að koma á flot kjaftasögum til að reyna að rýra sigur þeirra eða skemma fyrir þeim með einhverjum hætti. Það virðist þó ekki hafa tekist, enda hefur höfundur lagsins nú talað afgerandi um þetta.

Sigur Eurobandsins í keppninni var traustur og afgerandi. This Is My Life hlaut meira en helmingi fleiri atkvæði en næsta lag á eftir, Ho Ho Ho, We Say Hey Hey. Það deilir því vonandi enginn um úrslitin. Þjóðin valdi þetta lag og ekkert meira um það að segja.

Þorsteinn Már tekur til hjá Glitni

Þorsteinn Már Baldvinsson Það er ánægjulegt að sjá hversu öflugur Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, kemur til leiks sem stjórnarformaður Glitnis. Þar á greinilega að taka til og læra af öllu bruðlinu sem hefur einkennt íslenska bankageirann síðustu árin. Það eru góð skilaboð að Mái ætli að fara af braut digurra starfslokasamninga og óráðsíu.

Ég held að bruðlið vegna samningsins við Lárus Welding hafi skaðað orðspor Glitnis að undanförnu. Það er bara þannig að fólki, hvort sem það er í viðskiptum við Glitni eður ei, blöskrar það að borga þurfi Lárusi 300 milljónir sem grunngreiðslu fyrir það eitt að hefja störf. Þetta er díll sem fólk skilur ekki og virkar mjög undarlega séð frá þeirri stöðu sem blasir við á þessum tímapunkti þar sem viðskiptaheimurinn nötrar og allt virðist á hverfanda hveli. Það þarf greinilega að fara út í það að taka til við þær aðstæður.

Það var góð byrjun hjá Máa að lækka laun stjórnarmanna í Glitni og næstu skilaboð hans sem stjórnarformanns sýna vel að það á að stokka hlutina upp. Líst vel á hans boðskap í þessu, enda þarf að taka til. Það sjá það allir sem líta á stöðu mála.

mbl.is Ekki fleiri starfslokasamninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blessað barnalán?

Flestum þykir nógu erfitt fyrir ungar stelpur að eiga eitt barn áður en átján ára aldri er náð og tala um hversu mikið líf þeirra breytist. Það virkar svei mér þá smámál þegar að fjallað er um þessa ungu stelpu í Argentínu sem hefur eignast sjö börn sextán ára gömul og hefur eignast svo stóra fjölskyldu að hlýtur að vera meira en nóg verkefni fyrir hvaða konu sem er, jafnvel eldri, þar sem ekki lengur tíðkast orðið að eiga meira en vísitölufjölskyldueiningu.

Það væri áhugavert að heyra hvernig umræðan væri hér heima ef stelpa á þessum aldri ætti sjö börn áður en lögaldri er náð. Það væri sennilega víða hneykslun í þeirri stöðu, enda ekki undarlegt að þetta veki heimsathygli. En það er sem betur fer margt ólíkt með Argentínu og Íslandi í þessum efnum, sem og öðrum.

mbl.is Unglingsstúlka eignast aftur þríbura
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýst eftir ungu fólki

Eins og ég hef áður bent á hér finnst mér það eiginlega orðið sláandi hversu algengt er orðið um að auglýst sé eftir ungu fólki, flestu á aldrinum 13-17 ára. Nú er lýst eftir stelpu sem fór frá Dalvík og virðist vera á suðurleið. Nokkrar umræður urðu um hvarf ungmenna á vefnum fyrr í vikunni, en ég skrifaði um það eftir að stelpa, jafngömul þeirri sem lýst er eftir nú, hafði ekki skilað sér heim en hún kom svo í leitirnar eftir nokkra daga.

Um er að ræða ólögráða ungmenni og eðlilegt er að spurningar vakni. Svörin við aðstæðum þeirra sem hverfa með þessum hætti eru mörg og ólík, en stundum þó með svipaða forsögu. Oft er um að ræða ungmenni sem eru í neyslu af einhverju tagi eða sinnast á við foreldra sína. Á okkar tímum er mikill vandi víða og þar geta ungmennin farið út af sporinu og eiga erfitt með að rata á beinu brautina aftur.

Fékk ég mörg ágætis komment á umræðuna fyrr í vikunni. Var áhugavert að heyra skoðanir annarra. Er vissulega rétt að lýsa eftir þeim unglingum sem ekki skila sér heim, í þeim efnum er biðin ekki góð. Sé eitthvað óvenjulegt eða þau koma ekki heim á eðlilegum tíma ber að lýsa eftir þeim. En þetta er orðið mjög algengt, allt að því sláandi og eðlilegt að spurningar vakni.

mbl.is Lýst eftir 14 ára gamalli stúlku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurlegt

Það er dapurlegt að heyra fregnir af því ekkert sjáist til flugvélarinnar á leitarsvæðinu. Aðstæður á svæðinu eru mjög erfiðar og geta varla verið verri, enda bæði mikil ölduhæð og knappur vindur, sem gerir allt mun erfiðara og vonina um að maðurinn sem var í vélinni geti lifað af slysið enn veikari. Það var viss vonarneisti í því að merki barst frá neyðarsendinum, það er alltaf góðs viti, en það er um leið ljóst að aðstæður á slysstaðnum eru eins erfiðar og geta orðið.

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með fréttum af þessu slysi. Erfiðast hefur verið að bíða eftir alvöru fregnum af slysstað, enda er leiðin löng og erfitt að eiga við slys af þessu tagi út á rúmsjó. Vonandi tekst að bjarga þessum flugmanni, þó vonin sé veik vissulega.

mbl.is Ekkert sést til flugvélarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðileg frétt

Það er alltaf sorglegt að heyra fréttir af því að flugvél missi vélarafl og fari í sjóinn. Það er vonandi að Landhelgisgæslan nái að gera eitthvað í þessari erfiðu stöðu. Það eru aðeins tíu dagar liðnir frá því að flugvél fór síðast í sjóinn, en þá fórst tveggja hreyfla Cessna-flugvél og einn maður með henni.

Enn verra er að veðrið er vont á þessum slóðum og gerir það allar aðstæður enn verri. Vonandi mun Gæslunni takast að bjarga manninum um borð.


mbl.is Eins hreyfils flugvél í sjóinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott framtak hjá Bubba og Geir

Bubbi og Geir Mér finnst það glæsilegt framtak hjá Bubba Morthens að boða til tónleika sem mæla á móti fordómum gegn útlendingum, sem hafa grasserað að undanförnu og sést t.d. á vefsíðum. Það styrkir baráttuna að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, skuli veita stuðning sinn með því að taka lagið á tónleikunum.

Það er full þörf á að ræða málefni innflytjenda, en það verður þó að gerast án fordóma og kuldalegra orða í garð eins tiltekins hóps, eins og sést hefur í garð Pólverja að undanförnu. Það er ekki þörf á fordómafullri umræðu og eðlilegt að tala gegn henni. Forsætisráðherrann á hrós skilið fyrir framlag sitt.

mbl.is Sungið gegn fordómum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband