Færsluflokkur: Dægurmál

Hrottaleg árás - mun lögreglan fá rafbyssur?

Þær eru ekki fagrar lýsingarnar af árás litháanna á lögreglumennina í síðasta mánuði. Eitt vitnið sagði frá árásinni á útvarpsstöðinni X-inu í dag og sagði þar að þetta hefði ekki verið handahófskennd árás og hún hefði verið hrottaleg. Lýsingar konunnar, sem vitnað er til í þessari frétt, er með sama hætti, en þar er talað um rothögg í takt við box í þessari árás. Það er eðlilegt að velta því fyrir sér, miðað við hversu brútal þessi árás er, hvort að mennirnir séu herþjálfaðir og með sérstaka reynslu í að berja á fólki og verjast með öllum tiltækum brögðum.

Það er alveg ljóst að þessi árás á lögreglumennina mun verða notað sem ástæða til að vopnvæða lögregluna enn frekar og það er þegar augljós undiralda í þá átt nú þegar að lögreglan þurfi að fá rafbyssur til að verjast. Þessi árás er það hrottaleg og skelfileg að það verður erfitt að stöðva það að löggan fái þau vopn og greinilegt er að yfirmenn lögreglunnar og ráðherrann horfa til þess í kjölfar þessarar árásar að lögreglan geti varið sig betur.

Hef ekki verið hlynntur því að lögreglan noti rafbyssur en það er ljóst að þessir menn hafa veitt lögreglunni og þeim sem ráða þar för sterk rök fyrir máli sínu að taka upp þessi vopn.

mbl.is Minnti á rothögg í boxi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgin á verk Kjarvals - fjölskyldukröfu hafnað

Jóhannes Kjarval Fjölskylda Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals hefur nú tapað baráttu sinni við Reykjavíkurborg fyrir því að fá málverk ættarföðurins aftur í sína vörslu. Nær allt ævistarf Jóhannesar hefur verið eign Reykjavíkurborgar frá árinu 1968. Hörð deila hefur verið á milli aðila um það hvort Jóhannes hafi gefið safnið með löglegum hætti og allt standist í þeim efnum. Fullyrðir fjölskylda listmálarans að andlegt ástand hans hafi verið með þeim hætti að hann hefði ekki verið með réttu ráði á þessum tíma sem um ræðir.

Eins og flestir vita er meginhluti verkanna geymdur á Kjarvalsstöðum, en safn borgarinnar var nefnt eftir Jóhannesi og er á Klambratúni í Reykjavík. Barátta Ingimundar og fjölskyldu hans er orðin mjög löng. Hef ég fylgst með henni nokkurn tíma, en á síðustu árum hefur Ingimundur verið virkur við að skrifa á spjallvefnum Málefnin, en þar skrifaði ég reglulega þar til að ég hætti því endanlega fyrir rúmu ári.

Niðurstaðan í dag er mjög lík niðurstöðu héraðsdóms í janúar 2007. Stór hluti niðurstöðunnar í dómnum í dag virðist enda, rétt eins og í héraðsdómi, byggður á orðum og ummælum Geirs Hallgrímssonar, fyrrum forsætisráðherra, sem var borgarstjóri í Reykjavík árið 1968 er samningurinn kom til sögunnar.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu máli í kjölfarið. Ingimundur hefur barist árum saman fyrir því að fá yfirráð yfir listasafni afa síns. Sú barátta er nú töpuð og fróðlegt að heyra viðbrögð Ingimundar við þessu.

mbl.is Dánarbú Kjarvals á ekki myndir Reykjavíkurborgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurt ástand - verður Eurovision haldið í Serbíu?

Marija Serifovic Það vekur athygli að sérstaklega þurfi að hafa áhyggjur af öryggi þátttakenda í Eurovision er keppnin verður haldin í Serbíu eftir nokkra mánuði. Það er svosem eðlilegt að umræða sé um pólitíska stöðu í landinu og greinilegt er að staða mannréttinda þar er ekki beint beysin. Samkynhneigðir þátttakendur virðast óttast um öryggi sitt við að fara til Serbíu og reyndar er öllum ljóst eftir óeirðir og læti í Serbíu að það er ekkert öruggt við að fara þangað.

Sérstaklega er þessi umræða um stöðu samkynhneigðra í Serbíu mjög merkileg einkum í ljósi þess að serbneska söngkonan, Marija Serifovic, sem vann keppnina í Helsinki í fyrra er samkynhneigð og var mjög fjallað um persónu hennar og lífsstíl einmitt fyrir ári þegar að hún vann. Það er eðlilegt að rætt sé opinskátt um stöðuna í Serbíu. Heyrði umræðu um daginn þar sem velt var fyrir sér hvort Serbía væri ákjósanlegur keppnisstaður og öruggur að öllu leyti. Sitt sýnist hverjum um það og það virðist vera ólga undir niðri með staðsetninguna.

Það hefur þó ekki gerst áratugum saman, jafnvel frá upphafi, að keppnin sé færð til og gestgjafinn afsali sér því að halda utan um pakkann. Var síðast rætt um það þegar að Írland hélt keppnina í fimmta skiptið á innan við áratug og þótti mörgum þar þá nóg komið um kostnaðinn og fleira. Síðan hafa Írar reyndar ekki þurft að hafa miklar áhyggjur og er reyndar svo komið nú að þeir senda kalkún sem sinn fulltrúa.

Mér finnst áhyggjur um stöðuna í Serbíu réttmætar og eðlilegt að taka þessa umræðu. Það bendir þrátt fyrir allt þó til þess að þeir sem greinilega óttast um öryggi sitt verði að fara til Serbíu, nema þá að yfirmenn keppninnar taki af skarið af ótta við stöðu mála á svæðinu. En kannski munu menn taka áhættuna, vitandi af pólitísku ástandi þar og stöðu mannréttindamála.


mbl.is Samkynhneigðir varaðir við því að fara til Serbíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga stjörnurnar sér einhvern snefil af prívatlífi?

Jennifer Aniston Það er stundum svolítið spes að fylgjast með umræðunni um líf stjarnanna í glysheimum. Áhugi pressunnar á lífi þeirra virðist æði oft ótakmarkaður. Gott dæmi um fórnarlömb glamúrsins sem verða margtuggnar eru Britney Spears og Anna Nicole Smith. Allir vita hvernig umfjöllun um líf þeirra var.

Mér finnst svolítið spes að lesa þessa frétt um Jennifer Aniston. Er þetta ekki umræða sem fer ansi nærri prívatlífi viðkomandi stjörnu? Hvernig stendur á því að þessi atriði koma okkur yfir höfuð við? Veit ekki hvers vegna við ættum að vera að velta því fyrir okkur hvernig ástalífi þessi stjarna lifir og hverjir sofi hjá henni og hversu langt er síðan.

Rými stjarnanna er oft ekki mikið. Líf þeirra hlýtur æði oft að vera litlaust og leiðinlegt. Einkalíf stjarnanna verður almannaeign merkilegt nokk. Ég veit ekki af hverju þetta kemur okkur við. En það virðist samt eiga að vera okkur mikilvægt.

Það er svosem ekkert að hugleiðingum um feril stjarnanna og hvað þau eru að gera í sínum verkum en svona prívat finnst mér að eigi að vera þeirra, ekki annarra.

mbl.is Ekkert kynlíf í hálft ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umferðarslys á Reykjanesbraut

Það er dapurlegt að heyra af enn einu alvarlegu umferðarslysinu, nú á Reykjanesbraut. Enn er ekki lokið framkvæmdum við brautina og er það óskiljanlegt að ekki hafi tekist að klára verkið enn og eftir standi lausir endar í framkvæmdum. Þrátt fyrir það er orðið nokkuð langt síðan að fréttir hafa borist af slysi á þeirri miklu hraðbraut, ef undan er aðeins skilið eitt slys undir lok síðasta árs.

Eftir að hluti Reykjanesbrautar var tvöfaldaður hefur slysatíðni minnkað verulega og ég held að það sé rétt munað hjá mér að þar hafi ekki verið banaslys frá því að tvöfölduð braut var vígð. Það var mikil samgöngubót að tvöfalda Reykjanesbrautina og vonandi verður því verki lokið sem fyrst. Þar dugar ekki hik.

Tvöföldun Reykjanesbrautar hefur sýnt vel hversu mikilvægt verk það var og hversu mikilvægt er að stefna að tvöföldun stofnleiðanna út frá Reykjavík.


mbl.is Harður árekstur á Reykjanesbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaukur áfrýjar - eðlilegt að fá álit Hæstaréttar

Gaukur Úlfarsson Það er ánægjulegt að Gaukur Úlfarsson áfrýji bloggdómnum sögulega í gær. Mér finnst það mikilvægt að þessi dómur fari fyrir Hæstarétt og þar komi annaðhvort staðfesting á þessari sýn héraðsdóms eða henni verði algjörlega hnekkt. Það er eiginlega varla komið alvöru fordæmi um niðurstöðu í dómum um bloggskrif nema að Hæstiréttur felli úrskurð í málinu.

Ég fagna því hinsvegar að fram komi dómur sem sýni hvað sé eðlilegt og hvað ekki á netinu. Enda mátti finna fyrir því að sumir sem skrifa hvað sem þeim dettur í hug án þess að bera virðingu fyrir öðrum var ekki pent sama um niðurstöðuna. Það er eðlilegt að öllu frelsi fylgi ábyrgð. Það verður að vera öllum ljóst að bloggskrif eru opinber, þetta er fjölmiðill sem þarf að skrifa á af ábyrgð og við berum fulla ábyrgð á því sem við skrifum. Bloggskrif eru ekki bara blaður út í bláinn.

Það er gott að fram komi hvar mörkin séu og hver staða mála sé. Í aðstæðum sem þessum þarf að fá álit Hæstaréttar og er eiginlega þarfaverk að fara með málið alla leið til að fá úrskurð þar um.

mbl.is Gaukur mun áfrýja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umdeild ummæli Friðriks Ómars

Friðrik Ómar Það hefur verið mikil umræða í bloggheimum um ummæli Friðriks Ómars eftir sigurinn í Eurovision um síðustu helgi. Miðað við forsögu þess máls er eðlilegt að Friðrik hafi orðið argur yfir framkomu í garð ættingja sína í Smáralind og leiðinlegu orðavali, en það er mannlegt að geta gert mistök og ég tel að hann hafi farið vel yfir allt málið.

Það er eðlilegt að hver og einn hafi skoðanir á ummælunum en eftir stendur að Friðrik Ómar hefur tjáð sig vel um það hverjum ummælin voru ætluð og hver ástæðan að baki þeim hafi verið. Það hlýtur að teljast nægjanleg skýring og málinu eigi þar með að vera lokið. Það er enda ekkert meira eftir um að tala og staða málsins vel ljós eftir yfirlýsingar Friðriks Ómars, t.d. í Kastljósi.

Það er ljóst að mikil keppnisharka var á milli Mercedes Club og Eurobandsins og það féllu leiðinleg ummæli frá báðum aðilum fyrir og eftir keppnina. Það er ekkert meira um það að segja. Úrslitin eru ljós og þjóðin valdi sigurvegarann mjög afgerandi. Það deilir vonandi enginn um það hver sigraði og hvort lagið var betra.

Þessi deila um ummælin er þó ekki til neins fallin nema að rýra báða aðila og vonandi er að þeir aðilar geti sæst og hætt leiðinlegum persónulegum hnútuköstum og árásum hvort í annars garð.

mbl.is Mikil umræða um ummæli Friðriks Ómars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru nafnleysingjarnir hræddastir við bloggdóminn?

Bloggdómurinn er sögulegur og markar tímamót í bloggheimum. Eðlilega, enda er þar loksins ljóst að bloggið er fjölmiðill og þeir sem þar skrifa bera fulla ábyrgð á því sem þeir segja. Það er mjög gott að þeir sem ganga lengst í skítkasti og vega að fólki með skrifum sínum viti að þeir verða að bera ábyrgð á því sem þeir segja. Það er væntanlega svo að nafnleysingjarnir sem blogga og ráðast að fólki með ómerkilegum hætti eru einna hræddastir við þennan dóm og þau tímamót sem hann boðar. Það er eðlilegt í sjálfu sér.

Það er fjarstæða að þessi dómur sé atlaga að málfrelsinu. Öllu frelsi verður að fylgja ábyrgð. Við eigum alveg að geta tjáð skoðanir okkar og tjáð það sem við viljum um málefnin sem hæst bera án þess að ráðast persónulega að fólki og vega að einhverjum ómerkilega og vera rætin í skrifum. Það er eðlilegt að þeir sem verði fyrir þannig árásum sæki sinn rétt og það gerði Ómar R. Valdimarsson. Eðlilegt bara. Hann vildi fá ummæli dæmd dauð og ómerk, fannst vegið að sér. Dómarinn tekur undir kröfu hans.

Það er virkilega gaman að blogga. Sem betur fer er okkur bloggurum alltaf að fjölga. En það verður að vera öllum ljóst að öllu frelsi fylgir ábyrgð - með því að skrifa erum við að byggja upp eigin fjölmiðil og við verðum að vera meðvituð um að skrifin geta orðið umdeild. Þessi sögulegi dómur mun vonandi færa okkur uppbyggilegri og heiðarlegri skrif og umfjöllun á netinu. Það er eðlilegt að ljóst sé að þeir sem blogga bera fulla ábyrgð á skrifum sínum, það er ekkert prívat við það.


Formaður víkur vegna vínveitinga nemendafélags

Mér finnst formaður nemendafélagsins í FVA á Akranesi gera hið rétta með því að víkja og taka ábyrgð á því að félagið veitti nemendum áfengi. Nemendafélög framhaldsskólanna eiga að gera eitthvað allt annað en kaupa áfengi til að gefa nemendum. Þar á að vera heilsteypt og vandað félagsstarf, þau eiga að standa fyrir áfengislausum samkomum og eiga að sýna gott fordæmi að hægt sé að skemmta sér áfengislaust allavega þegar að skólinn er annars vegar.

Það er aldrei hægt að koma í veg fyrir unglingadrykkju, en þeir sem stýra nemendafélögunum eiga að vera fyrirmyndir að því leyti að geta haldið skemmtanir eða farið í skólaferðir án þess að áfengi sé þar í aðalhlutverki. Þetta er ekki til fyrirmyndar og því er það rétt hjá formanninum að taka ábyrgðina og víkja. Það er eðlilegt að skólayfirvöld vilji tryggja að nemendafélögin hafi á sig aðra ímynd en vera að veita áfengi.

Þessi strákur sem leiddi nemendafélagið er allavega maður að meiri að taka ábyrgðina á sig með þessum hætti og segja af sér. Það er mannlegt að gera mistök en það verður að tryggja að nemendafélögin séu á hærri standard en svo að standa fyrir nemendafylleríi.


mbl.is Sagði af sér formennsku að beiðni skólameistara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaukur áfrýjar bloggdómi til Hæstaréttar

Ómar R. Valdimarsson Það er nær öruggt að Gaukur Úlfarsson mun áfrýja tímamótadómi sem setur ramma utan um bloggskrif, þar sem ummæli hans um Ómar Valdimarsson voru dæmd dauð og ómerk. Mér finnst það eiginlega mikilvægt að þessi dómur fari fyrir Hæstarétt og þar komi annaðhvort staðfesting á þessari sýn héraðsdóms eða henni verði algjörlega hnekkt.

Það er eiginlega varla komið alvöru fordæmi um niðurstöðu í dómum um bloggskrif nema að Hæstiréttur felli úrskurð í málinu. Það er því vonandi að Gaukur áfrýji og farið verði með málið alla leið í réttarkerfinu hérna heima. Mér finnst reyndar ákjósanlegt að það sé ljóst hvað megi og megi ekki. Fari svo að Ómar vinni í Hæstarétti er enda kominn upp viss siðferðisrammi yfir það sem skrifað er á netinu, einkum í bloggheimum, um persónur og eitthvað fordæmi um hvernig slík mál fara.

Mér fannst reyndar Gaukur ganga mjög langt í orðavali sínu og skil vel að Ómar hafi ekki viljað sitja undir slíkum nafngiftum og hann fékk í skrifum Gauks. En það eru ekki allir sem nenna að eltast við slík skrif um sig, enda held ég að mjög margir hafi lent í einhvers konar skítkasti og leiðindum í bloggheimum. En þess þá betra er að setja upp ramma um hvernig skrifa skal í bloggheimum og ágætt að til staðar sé dómur sem hægt er að vitna í þegar að deilt er um bloggskrif, hvernig svo sem þau eru og hversu slæmt skítkastið verður.

Ég hef bloggað í mörg ár og eiginlega finnst mér merkilegt hvað svona dómur kemur seint hérna heima þar sem bloggið er til umfjöllunar. Það eru orðnar mjög margar bloggsíðurnar hér heima sem eru virkar og bloggbólan er fjarri því sprungin, eins og svo margir hafa spáð árum saman. Því er það til hins góða að svona mál fari fyrir dómstóla og þessi umræða um skítkast í bloggheimum fari í dómssali en verði ekki bara virk í netpælingum.

mbl.is Dómi líklega áfrýjað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband