Færsluflokkur: Dægurmál

Annþór strauk til að halda upp á afmælið

Annþór Annþór Karlsson strauk úr fangelsi til að halda upp á afmælið sitt eftir því sem fréttir herma, en hann náði víst ekki að halda upp á 32 ára afmælið sitt vegna þess að hann var í haldi. Er nú verið að reyna að leita uppi leyndustu afmælisveislu ársins, þar sem hinn stórhættulegi glæpamaður ætlar að fagna afmælinu.

Þó þarf varla að búast við því að þar verði blásið á 32 kerti á köku eða boðið verði upp á rjómatertu með léttum veigum. Mun frekar má búast við æsilegri svallveislu þar sem krimminn ætlar að bæta sér upp um afmælisleysið í steininum. Löggan vill eðlilega fá að vita hvar veislan fari fram svo að þeir geti komið afmælisbarninu á óvart.

Að öllu gamni slepptu; þvílíkt klúður hjá löggunni. Þeir tala um að Annþór sé stórhættulegur, samt var hann á gang fyrir einhverja "fyrirmyndarfanga". Það er ekki nema von að þeir séu sorrí yfir þessu skelfilega klúðri sínu.

mbl.is Víðtæk leit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hasarlegur flótti Annþórs

Annþór Karlsson hefur verið einn umtalaðasti glæpamaður landsins árum saman. Það var eftir öðru að mál hans tæki á sig enn dramatískari mynd með hasarlegum flótta frá fangageymslunni á Hverfisgötu. Allar lýsingarnar minna á bandaríska hasarmynd, rétt eins og svo margt úr máli Annþórs sjálfs sem hefur verið mikið í fjölmiðlum.

Öryggisgæslan er ekki sérstök þarna fyrst að fólk getur látið sig hverfa og eðlilegt að spá aðeins betur í hvort þetta sé varðhaldsstöð eða vettvangur þar sem hægt er að fara inn og út að eigin vali. Þvílík skömm fyrir lögguna, segi ég bara.

Það verður áhugavert að sjá hversu lengi þessi stórhættulegi glæpamaður getur verið á flótta. Vonandi finnst hann fljótlega.

mbl.is Hættulegur strokufangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldamorð í Illinois - hið minnsta fjórir látnir

Frá vettvangi Það er skelfilegt að heyra fréttirnar af fjöldamorðinu í háskólanum í Northern Illinois-háskólanum. Að minnsta kosti fjórir féllu í valinn, en byssumaðurinn svipti sig lífi. Um 20 manns særðust í skotárásinni. Þetta er versta fjöldamorð sem á sér stað í bandarískum skóla frá því að 32 voru myrtir í Virginia Tech-tækniháskólanum í apríl á síðasta ári.

Var að horfa á umfjöllun um þetta á Sky, atburðarásin og staða mála er hægt og rólega að verða ljósari. Þetta eru óneitanlega mjög sjokkerandi tíðindi, þetta er gríðarlegt áfall fyrir bandarískt samfélag, svo skömmu eftir Virginia Tech- og Columbine-fjöldamorðin. Man mjög vel eftir þeirri skelfingu í fyrra og Columbine er ekki síður greipt í minni fólks um allan heim. Þetta er skelfilegur veruleiki í alla staði.

Þetta er mikill sorgardagur vestanhafs og þessi vondu tíðindi skekja samfélagið þar og mun víðar. Ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan að þessi napri veruleiki varð staðreynd hér á Norðurlöndunum, er nemandi myrti samnemendur og kennara í Jokela-framhaldsskólanum í Finnlandi. Bowling for Columbine, mynd Michael Moore, í kjölfar skelfingarinnar í Columbine árið 1999 vakti ekki síðri alheimsathygli en voðaverknaðurinn sjálfur og myndin hlaut óskarsverðlaun sem besta heimildarmyndin árið 2003.

Myndin er eftirminnileg flestum sem hana sjá. Það er ógnvænlegt að sjá svona atvik gerast enn eina ferðina. Og enn vakna spurningar um byssueign og hvort ekki sé hægt að reyna að ná tökum á þessum napra veruleika. Það er skelfilegt þegar að venjulegur skóli í friðsælu samfélagi breytist í vettvang blóðbaðs af þessu tagi.

Spurningar vakna í svona stöðu. Oftar en ekki er sagan á bakvið svona harmleik nemendur í eigin heimi, einfarar sem verða eins og tímasprengjur vegna innri sálarkrísu og grípa til vopna og ráðast að þeim sem þeir umgangast einna mest, í skólanum. Það verður áhugavert að heyra söguna bakvið þetta voðaverk.

mbl.is Fjórir alvarlega særðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þórhallur reynir að halda í Jóhönnu Vilhjálms

Þórhallur og JóhannaÞórhallur Gunnarsson, dagskrárstjóri Sjónvarps og ritstjóri Kastljóss, reynir nú allt sem getur til að halda Jóhönnu Vilhjálmsdóttur í Kastljósi. Tilkynningin í gær um að hún væri hætt í þættinum vakti mikla athygli og flestir töldu að ástæða brotthvarfs hennar væri umfjöllun um föður hennar Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóra, og var mikið skrafað um það.

Annarskonar fjölskylduaðstæður munu ráða för hjá Jóhönnu, en hún vill vera meira með syni sínum, sem fæddist á síðasta ári. Þórhallur mun ætla að reyna að halda í Jóhönnu með öllum tiltækum ráðum. Það er skiljanlegt að hann vilji halda henni hjá Sjónvarpinu. Eins og ég sagði hefur Jóhanna sýnt og sannað með verkum sínum að hún er ein besta sjónvarpskona landsins og hefur staðið sig vel í verkum sínum; verið beitt sem spyrill og heiðarleg í umfjöllun.

Þórhallur og Jóhanna hafa starfað saman í mörg ár; byrjuðu saman með því að taka við stjórn morgunþáttarins sáluga Íslands í bítið árið 2001 og sáu um dægurmálaþáttinn Ísland í dag á árunum 2003-2005. Þegar að Þórhallur var settur yfir hið nýja Kastljós Sjónvarpsins árið 2005 fór Jóhanna með honum af Stöð 2. Þau þekkjast því vel og eðlilega er það mikilvægt fyrir Þórhall að halda þessari öflugu sjónvarpskonu í Efstaleiti. Vonandi tekst honum það.

Gott framtak hjá Bubba og Geir

Bubbi Mér finnst það gott framtak hjá Bubba Morthens að boða til tónleika gegn fordómum gegn útlendingum, sem hafa grasserað að undanförnu og sést t.d. á vefsíðum. Það styrkir baráttuna að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, skuli veita stuðning sinn með því að taka lagið á tónleikunum.

Það er full þörf á að ræða málefni innflytjenda, en það verður þó að gerast án fordóma og kuldalegra orða í garð eins tiltekins hóps, eins og sést hefur í garð Pólverja að undanförnu. Það er ekki þörf á fordómafullri umræðu og eðlilegt að tala gegn henni. Forsætisráðherrann á hrós skilið fyrir framlag sitt.

mbl.is Forsætisráðherra ætlar að taka lagið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markús Örn settur yfir Þjóðmenningarhúsið

Markús Örn Antonsson Það eru merkileg tíðindi að Markús Örn Antonsson, sendiherra og fyrrum borgarstjóri og útvarpsstjóri, sé á heimleið frá Kanada og hafi verið settur yfir Þjóðmenningarhúsið. Þar kemur til samkomulag tveggja ráðuneyta, þar sem Markús Örn er sem sendiherra starfsmaður utanríkisráðuneytisins en fer nú í verkefni af hálfu forsætisráðuneytisins.

Það kemur varla í sjálfu sér að óvörum að Markús Örn sé á heimleið frá störfum sínum í Kanada síðustu þrjú árin, en ég hélt að hann myndi þó verða sendiherra fram að eftirlaunum. Það líður að því hjá Markúsi Erni, en hann verður 65 ára í vor. Það verður áhugavert að sjá hvaða sendiherrakapall fer af stað fljótlega, en búast má við miklum breytingum. Það verður í fyrsta skipti sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, mun hafa áhrif á skipan sendiherra.

Markús Örn hefur lítið sem ekkert verið í fréttum hér heima síðustu þrjú árin. Hann fór þó úr sviðsljósinu eftir mikinn hvell, en segja má að hann hafi yfirgefið útvarpshúsið í Efstaleiti stórlega skaddaður eftir umdeilda skipan hans á Auðuni Georg Ólafssyni sem fréttastjóra útvarpsins í mars 2005. Hún leiddi meðal annars til þess að nær allir starfsmenn Ríkisútvarpsins lýstu yfir vantrausti á Markúsi Erni. Þó að fréttastjórinn hafi aðeins starfað í einn dag að þá var andrúmsloftið breytt og innan við tveim mánuðum síðar hafði hann verið skipaður sendiherra í Kanada.

Annars hefur Markús Örn alltaf verið áberandi og í sviðsljósi umfjöllunar. Hann varð borgarfulltrúi í Reykjavík ungur að aldri árið 1970, eftir stuttan feril sem fréttamaður Sjónvarps, og gegndi þeim störfum í fimmtán ár og var þar af forseti borgarstjórnar síðustu tvö árin, áður en hann var skipaður útvarpsstjóri í stað Andrésar Björnssonar. Það kom mörgum að óvörum þegar að hann var valinn sem málamiðlun eftirmaður Davíðs Oddssonar á borgarstjórastóli eftir átök innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins.

Þrátt fyrir að Markús Örn hafi verið vel kunnugur borgarmálunum eftir fimmtán ára störf áður sem borgarfulltrúi í Reykjavík var staða hans sem borgarstjóra undarleg. Það hafði aldrei gerst áður að Sjálfstæðisflokkurinn veldi borgarstjóra utan borgarstjórnarflokksins og sagan sýndi vel að það reyndist ekki vel. Markús Örn sagði af sér embætti borgarstjóra í mars 1994, 80 dögum fyrir kosningar, skv. könnunum þá stefndi í afhroð fyrir Sjálfstæðisflokkinn gegn nýstofnuðum R-lista. Þrátt fyrir breytingar var tap ekki umflúið.

Þjóðmenningarhúsið er vönduð stofnun, merkileg starfsemi þar sem ég hef haft gaman af að kynna mér. Markús Örn hefur víðtæka reynslu eftir langan útvarpsstjóraferil og sem stjórnmálamaður. Það verður áhugavert að sjá hvernig honum gangi þar. Friður hefur ríkt yfir Þjóðmenningarhúsinu eftir frægt hneykslismál þegar að Guðmundur Magnússon, blaðamaður, hrökklaðist frá störfum þar sem forstöðumaður árið 2002. Vonandi verður svo áfram.

Það kemur mér samt að óvörum að Markús Örn sé sóttur heim fyrir starfslok til þessa verkefnis, en það er varla hægt að segja annað en að hann hafi víðtæka reynslu til þess.

mbl.is Markús Örn skipaður forstöðumaður Þjóðmenningarhúss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna Vilhjálmsdóttir hættir í Kastljósi

Jóhanna og Þórhallur Það er leitt að Jóhanna Vilhjálmsdóttir, dóttir Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, borgarfulltrúa, hafi ákveðið að hætta í Kastljósi. Eflaust hefur verið erfitt fyrir hana að vinna í þættinum meðan að ólga hefur verið um verk föður hennar og erfitt við að eiga.

Samt sem áður er Jóhanna ein hæfileikaríkasta sjónvarpskona landsins og staðið sig vel á þeim vettvangi, síðast í Kastljósi og þar áður í Íslandi í dag á Stöð 2. Það er vonandi að hún haldi áfram í sjónvarpi, enda tel ég að hún hafi gert góða hluti þar og verið beitt í umfjöllun um mikilvæg málefni.

Það er eflaust erfitt að vera í svona verkefnum og eiga foreldri í forystustöðu í stjórnmálum. Samt sem áður hefur Jóhönnu tekist það vel og það hefur sjaldan sést í umfjöllun hennar að hún hafi eitthvað verið að tala máli Sjálfstæðisflokksins og verið ófeimin við að taka á málum.

Aftakaveður um allt land

Aftakaveður Dagurinn hefur verið heldur betur stormasamur. Sennilega hefur veðrið verið verst fyrir sunnan. Hér hefur gengið á með suðvestanroki, sem er leiðinleg átt hér á Akureyri. Virðist ætla að verða ekta hvassviðrisnótt. Hef fengið margar lýsingar á stöðunni fyrir sunnan í spjalli við vini og ættingja þar. Svona óveður eru alltaf ömurleg. Við verðum oft ansi hjálparlaus þegar að máttarvöldin minna á sig.

Það hlýtur að hafa verið alveg skelfileg lífsreynsla að húka um borð í flugvélunum á Keflavíkurflugvelli og komast hvorki lönd né strönd. Finn til með þessu fólki hreinlega að þurfa að bíða þar klukkustundum saman eftir aðstoð til að komast í burtu. Það sannast alltaf vel á þessum stundum hvað við eigum góðar björgunarsveitir sem eru til taks. Þær sanna alltaf mátt sinn er veðrið versnar og við þurfum einhverja aðstoð í nauð.

Annars er best bara að vera heima núna og slappa af og bíða óveðrið af sér. Hér fyrir viku var sama staða uppi í kafsnjókomu. Nú er snjórinn að fara og aðstæðurnar aðrar. En samt sem áður er best að taka því bara rólega í óveðrinu.

Kannski ég horfi bara á meistaraverk John Huston Key Largo, með Bogart og Bacall, á eftir. Það er viðeigandi að horfa á myndina í því leiðindaveðri sem er hérna fyrir norðan þessa stundina - myndin gerist jú í aftakaveðri. :)

mbl.is Flutningi úr flugvélum lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umdeild auglýsing á moggablogginu

Mér brá svolítið í gær þegar að það var komin auglýsing frá Nova í hornið á bloggvefnum mínum, og öllum öðrum hér á moggablogginu. Er svolítið hissa á því að okkur sem skrifum hér sé ekki einu sinni tilkynnt fyrirfram að plássið hafi verið selt og við þurfum að auglýsa stórfyrirtæki með skrifum okkar. Það hefur verið sendur póstur til okkar moggabloggara frá yfirstjórn blog.is af mun minna tilefni en þessu allavega.

Þegar að ég byrjaði að blogga hér haustið 2006 var auglýsing frá Landsbankanum að mig minnir í þessu plássi. Svo hvarf hún og plássið autt í mjög langan tíma. Á miðju þessu auglýsingalausa tímabili var nokkrum moggabloggurum boðið að auglýsa sparisjóðinn Byr og ákváðu sumir þeirra að taka því boði. Þá var meira að segja talað um að hver bloggari gæti jafnvel selt sitt auglýsingapláss með sínum hætti.

Er svosem ekkert á móti því að auglýsing sé, en hún er ansi áberandi, allavega eftir svo langan auglýsingalausan tíma. Verst er að þeim sem skrifa er ekki tilkynnt um þessa stefnubreytingu. Hef fundið vel fyrir ólgu meðal fjölda bloggara með þessar nýjustu vendingar. Annars lít ég svo á að ég hafi bloggplássið algjörlega ókeypis og það er mjög gott, hingað koma lesendur og það er jákvætt og gott auðvitað.

Skil að sumir séu pirraðir yfir þessu. Held samt að enginn sé pirraðri en Vodafone, en mér fannst fyndnast af öllu að sjá auglýsingu Nova á bloggvef fyrirtækisins hér.

Þjóðkirkjan bolar fjölskyldu séra Péturs úr Laufási

Laufás Mér finnst það verulega dapurlegt að þjóðkirkjan ætli að bola fjölskyldu séra Péturs heitins Þórarinssonar, vinsæls og virts sóknarprests, úr Laufási og það þrátt fyrir að nær öll sóknarbörn hafi lýst yfir andúð á því verklagi. Hvað varð um manngæskuna og kærleikann sem þjóðkirkjan er að boða? Það er ekki nema von að fólk hér á þessu svæði spyrji sig þeirrar spurningar.

Mér finnst það gott hjá Ástu Flosadóttur á Höfða í Grýtubakkahreppi að skrifa opið bréf til biskups vegna þessa máls og vil ég taka undir hvert orð í skrifum hennar. Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi, hefur líka verið áberandi í þessari baráttu og sveitarstjórn hefur ályktað vegna málsins og þarf það varla að koma að óvörum í ljósi undirskriftasöfnunar íbúa á svæðinu.

Það er eðlilegt að fólk hér sé hugsi yfir framgöngu forystu Þjóðkirkjunnar gegn Ingu og Þórarni sérstaklega, en afarkostir kirkjunnar eru óaðgengilegir og eðlilegt að fólk láti í sér heyra. Fólki hér svíður þetta verklag og það eigi að bola fjölskyldu séra Péturs burt með þessum ómerkilegu vinnubrögðum. Þjóðkirkjan er að sýna allt annað en manngæsku með þessari lágkúru.

mbl.is Gert að flytja húsið frá Laufási
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband