Þjóðkirkjan bolar fjölskyldu séra Péturs úr Laufási

Laufás Mér finnst það verulega dapurlegt að þjóðkirkjan ætli að bola fjölskyldu séra Péturs heitins Þórarinssonar, vinsæls og virts sóknarprests, úr Laufási og það þrátt fyrir að nær öll sóknarbörn hafi lýst yfir andúð á því verklagi. Hvað varð um manngæskuna og kærleikann sem þjóðkirkjan er að boða? Það er ekki nema von að fólk hér á þessu svæði spyrji sig þeirrar spurningar.

Mér finnst það gott hjá Ástu Flosadóttur á Höfða í Grýtubakkahreppi að skrifa opið bréf til biskups vegna þessa máls og vil ég taka undir hvert orð í skrifum hennar. Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi, hefur líka verið áberandi í þessari baráttu og sveitarstjórn hefur ályktað vegna málsins og þarf það varla að koma að óvörum í ljósi undirskriftasöfnunar íbúa á svæðinu.

Það er eðlilegt að fólk hér sé hugsi yfir framgöngu forystu Þjóðkirkjunnar gegn Ingu og Þórarni sérstaklega, en afarkostir kirkjunnar eru óaðgengilegir og eðlilegt að fólk láti í sér heyra. Fólki hér svíður þetta verklag og það eigi að bola fjölskyldu séra Péturs burt með þessum ómerkilegu vinnubrögðum. Þjóðkirkjan er að sýna allt annað en manngæsku með þessari lágkúru.

mbl.is Gert að flytja húsið frá Laufási
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég bara þoli ekki svona framkomu. Séra Pétur var svo einstakur maður að um svona hluti á að ríkja algjör sátt. 

Ásdís Sigurðardóttir, 8.2.2008 kl. 00:06

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Tek undir hvert orð sem þú segir þarna Stefán/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 8.2.2008 kl. 00:07

3 Smámynd: Bergur Thorberg

Við Pétur vorum skólabræður í MA og hann var einstök manneskja. Tek undir öll þín orð.

Bergur Thorberg, 8.2.2008 kl. 00:09

4 identicon

Algerlega sammála þér Stefán.

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 00:19

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentin.

Hef heyrt af þessu síðustu vikurnar. Ætlaði að skrifa um þetta í janúar, en ákvað að bíða enda trúði ég því hreinlega ekki að þetta færi á þetta stig. Að forysta Þjóðkirkjunnar væri svo gjörsamlega ísköld og tilfinningalaus að krefjast þess af Þórarni að fara burt með húsið sitt og bjóða honum svo jörðina í fjögur ár. Þegar að málið fer á þetta stig verð ég að blogga, mér er svoleiðis gjörsamlega nóg boðið.

Mér þótti mjög vænt um Pétur, hann var einn allra besti trúarleiðtogi okkar hér, persónulegur maður trúarinnar, hlýr og innilegur. Hann átti sess í huga okkar allra. Það sást best þegar að hann dó. Þar fór að mínu mati besti presturinn á svæðinu. Hann reyndist mér og mínum alltaf vel og ég leit upp til hans og ég ber mjög mikla virðingu fyrir Ingu og börnunum þeirra, því þau hafa rifið jörðina upp.

Það er alveg tilefni til að íhuga hvort maður eigi samleið með þjóðkirkjunni lengur haldi hún fast við þetta.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.2.2008 kl. 00:23

6 Smámynd: Þorsteinn Þormóðsson

Ég hef nú ekki alltaf verið sammála þér Stefán, en nú er ég þér hjartanlega sammála! Ég er búsettur á Grenivík og það er mikil ólga í hreppnum yfir þessari ákvörðun og víðar í Eyjafirði! Mér finnst þetta mikið virðingarleysi við þau Þórarinn og Ingu! Gleymum svo ekki því starfi sem Inga hefur unnið við "Gamla bæinn" í Laufási!! Þangað koma nú tugþúsundir ferðamanna á ári hverju! En hins vegar vona ég að þetta mál leysist farsællega! Það ertalað um að 97% hreppsbúa hafi skrifað undir í undirskriftasöfnunni, sem er rétt. En gleymum því ekki að ekki náðist í alla!!

Þorsteinn Þormóðsson, 8.2.2008 kl. 00:55

7 Smámynd: Karl V. Matthíasson

Dapurleikinn við þetta er sá að prestssetrin ganga ekki í arf. 

Þegar sr. Geir hættir í Reykholti taka börnin hans ekki við, hið sama gildir um prestinn í Stafholt og Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, Grenjaðarstað, Miklabæ, Holti í Önundarfirði, Borg á Mýrum og öll önnur prestssetur í landinu. ekki taka börn sr Egils Hallgríms við Skálholti þegar hann hættir og svona má lengi telja. 

Þegar prestur flytur á prestssetur þá veit hann og fjölskylda hans væntanlega líka að lok prestsskaparins þýða  því miður oft á tíðum sársaukafullan flutning. Við þetta hafa prestsekkjur og börn þeirra  búið um aldir og líka þeir prestar sem fara á eftirlaun, stundum eftir ártuga þjónustu.

Stundum finnst okkur þetta ranglátt. Ekki síst við slíkar aðstæður sem nú hafa komið upp í Laufásprestakalli. En svona er þetta.

Tek annars undir allt sem hefur verið sagt um sr. Pétur Þórarinsson hann var eitt fallegasta blóm kirkjunnar okkar.

Kalli Matt

Karl V. Matthíasson, 8.2.2008 kl. 00:57

8 identicon

Það er undarlegt að menn leyfi sér að nota svo gildishlaðin orð í þessari umræðu eins og sjást hér að ofan í pistli þínum nafni. "Dapurlegt", "afarkostir", "ómerkileg vinnubrögð" og "lágkúra" eru orð sem eiga hreinilega ekki heima í þessari umræðu.

Hvort skrifaði stjórnarmaður í SARK þennan pistil eða fyrrum stjórnarmaður í SUS, samtaka er ætíð hafa staðið vörð um eignarrétt lögaðila?

Menn verða að standa við gerða samninga og lög og reglur verður að virða. Biskup Íslands hefur teygt sig langt til þess að sýna fjölskyldu sr. Péturs virðingu og "manngæsku" svo orð úr pistlinum hér að ofan séu notuð til þess að lýsa stöðu mála. Það að mála hlutina öðrum litum er enn ein vond og ósanngjörn leið til þess að skora stig gegn Þjóðkirkjunni.

Stefán Einar Stefánsson (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 07:17

9 identicon

Það hefur komið fram að það er ekki 97% sóknarbarna heldur 97% þeirra sem náðist í, hvað eru það mörg % sóknarbarna? hef hvergi séð það!!!

Ég er sammála Karli V Matthías. grundvallarreglan er að prestsetur ganga ekki í arf.  Það átti skv. mínum heimildum að auglýsa eftir presti um áramótin en vegna þessara deilna hefur því verið frestað, hvernig væri að standa við gerða samninga og reyna að fá prest í sóknina.

Hrafnhildur Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 08:42

10 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Getur verið að kirkjan fari að lögum?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 8.2.2008 kl. 08:53

11 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Þetta er afskaplega dapurlegt mál allt saman. En  skoðum aðeins aðdragandann. Ef sá sem var prestur þarna á undan Pétri eða fyrir 100 árum hefði verið geysivinsæll og hans afkomendur fengið að sitja á jörðinni, þá hefði þessi staða aldrei komið upp, ekki satt?? Þá hefði Sr. Pétur aldrei fengið jörðina til afnota.

Gísli Sigurðsson, 8.2.2008 kl. 09:11

12 Smámynd: Kári Tryggvason

Þetta er sannarlega dapurlegt. Ég verð þó að segja að Karl hefur nokkuð til síns máls. En aftur á móti, ef fjölskyldu séra Péturs hefur verið lofað einhverju þá er algert lágmark að alla vega kirkjan standi við orð sín.

Kári Tryggvason, 8.2.2008 kl. 10:10

13 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég viðurkenni að ég er ekki hlutlaus í þessu máli vegna fjölskyldubanda. Leyfi mér þó að taka undir orð Stefáns og andmæla orðum klerksins hér á undan:

Samkvæmt fréttum hefur kirkjan boðið Þórarni að leigja jörðina í fjögur ár fjarlægi hann íbúðarhús sitt af henni. Málið snýst því greinilega ekki um þá reglu að prestssetur gangi ekki í arf heldur um eitthvað allt annað! Það er einkennilegt að leigja jörð með slíkum skilmálum enda verður ekki séð að lóðin sem húsið stendur á komi að miklu gagni að öðru leyti. Á það má jafnframt benda að það er orðið nánast einsdæmi að jarðir prestssetra séu nytjaðar af prestinum. Kirkjan ætti að því að vera fegin að geta leigt jörðina undir búskap.

Væri ekki nær að láta það sjónarmið ráða, að eðlilegt sé að kirkjan geri það sem hún getur til að tryggja byggð og landnytjar?

Þorsteinn Siglaugsson, 8.2.2008 kl. 10:18

14 identicon

Karl V kemur með kjarna málsins. Hvort sem um Reykholt eða Heydali að ræða þá er þetta reglan. Hitt er hvort hægt er að ná sáttum. Þið bloggfélagar JIC og þú Stebbi eru með þetta ásamt vanlætingu á kirkjunni. Ég skal segja álit mitt þegar kirkjan hefur sagt sína hlið. Hún hefur mér að vitandi ekki komið fram.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 10:33

15 identicon

Mér sýnist að Kalli Matt hafi hér að ofan sagt það sem segja þurfti, og eins hógværlega og unnt er undir þessum kringumstæðum.  Tilfinningarnar og persónuleg væntumþykja í garð Péturs heitins, þess dáða guðsmanns, föður þess sem í hlut á, meiga auðvitað ekki villa mönnum sýn, né slæva dómgreind.  Eitt verður yfir alla að ganga og hefur gert um allt land í aldaraðir eins og Kalli bendir á.  Engin bolabrögð hafa því verið höfð í frammi eins og skilja mætti á fyrirsögninni.  Mér sýnist aukinheldur að kirkjan hafi teygt sig lengra en hefð virðist fyrir, til sátta og samkomulags, etv. vegna sérstakra aðstæðna og er það vinabragð liklega vandi hennar nú.  Það er alltaf sorglegt þegar setja þarf í uppnám öflugan rekstur og afkomu dugmikilla manna, en þarna virðist nú samt sem að lagt hafi verið í að byggja upp heilmikinn búrekstur, þrátt fyrir það, að augljóst mætti vera, að trygg afnot af jörðinni yrðu aðeins til örfárra ára.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 11:38

16 identicon

Ég er ekki sammála þér Kristinn, réttarstaða þeirra á ekki að vera önnur þó að þau hafi byggt hús í Laufási, þau fengu leyfi frá kirkjunnarmönnum að byggja það með því skilyrði að fara með húsið þegar nýr prestur kæmi, Þórarinn vissi alveg að hverju hann var að ganga.  Umræðan hefur einkennst af miklum tilfinningum, Þórarinn á alla mína samúð ég skil vel að þetta sé ekki auðvellt, en svona eru bara reglurnar hvað sem fólki finnst um þær.  Mér finnst að það eigi að fara eftir þeim og efla gerða samninga

Hrafnhildur

Hrafnhildur Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 12:25

17 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Tek undir með Karli.  Þetta er starfsmannabústaður og nema það standi til að breyta því þá þurfa þau auðvitað að víkja fyrir nýjum starfsmanni.  Þannig er það bara.  Þau vissu það þegar þau fluttu á staðinn og hafa vitað það allan tímann.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 8.2.2008 kl. 13:21

18 Smámynd: Kári Tryggvason

Eftir að hafa skoðað þetta nánar þá kemur það skýrt fram þegar leyfi var veitt fyrir byggingunni á sínum tíma, sem menn voru þó efins að veita, að húsið yrði að fara með nýjum presti. Getur þetta verið nokkuð skýrara ?

Kári Tryggvason, 8.2.2008 kl. 13:48

19 Smámynd: Þorsteinn Þormóðsson

Ég vill benda á að það voru semsagt 97% allra hreppsbúa sem skrifuðu undir undirskriftalistann!!

Sigurður Viktor: Ekkja Péturs býr á prestssetrinu en Þórarinn í öðru húsi sem hann á sjálfur!

Þorsteinn Þormóðsson, 8.2.2008 kl. 13:59

20 identicon

Það voru 97% af þeim sem náðust í sem skrifuðu undir, hvað voru margir sem ekki náðist í?  Þessi tala segir mér ekki neitt hún er algerlega oftúlkuð.

kv Hrafnhildur

Hrafnhildur Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 14:42

21 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég vil þakka fyrir þær athugasemdir sem hér hafa komið. Það er alveg ljóst að það er mikil ólga hér á svæðinu vegna þessa máls. Fólk bar mikla virðingu fyrir Pétri og mér finnst þetta mjög sorgleg málalok, fari þetta svona. Held að ég hafi ekki notuð sterkustu orð þessa máls. Þetta mál hófst ekki með skrifum mínum og stendur ekki og fellur með þeim. Það er þó mikilvægt að tjá sig. Sé ekki eftir því.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.2.2008 kl. 15:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband