Færsluflokkur: Dægurmál

...að missa allt sitt

Það er alltaf dapurlegt að heyra fréttir af því að fólk missi aleigu sína í eldsvoða, þurfi að byrja upp á nýtt svo til með tvær hendur tómar. Það hlýtur að vera áfall að missa innbúið sitt, hluti sem hafa persónulegt gildi. Þó að það megi bæta húsgögn og þess konar hluti er gríðarlegt áfall að missa allt hið persónulega; ljósmyndir og þess háttar hluti. Heilt yfir er það þó svo að mannslífið eitt skiptir máli. Þegar að heyrist um eldsvoða er eðlilega fyrst spurt um hvort fólk hafi komist út heilt á húfi. Það hlýtur þó að taka á að þurfa að byggja upp heimilið sitt allt að því frá grunni.

Bróðir minn lenti í alvarlegum eldsvoða fyrir um áratug. Það mátti varla tæpara standa þá og hann mátti teljast stórheppinn að komast út. Hefði ekki verið reykskynjari í húsinu hefði þetta farið enn verr og hann bjargaði því að húsið fuðraði ekki upp. Þau misstu allt sitt. Það fór ansi nærri því að hver einasti hlutur í húsinu væri ónýtur, nær ekkert var eftir. Þá skipti hið eina máli að hann lifði af. Þó að áfallið við að missa innbúið hafi verið mikið er mannslífið ómetanlegt og það að fólk bjargist úr slíkum eldsvoða er mest um vert.

Hef oft hugleitt hversu erfitt það er að vera í þessum sporum. Eflaust er það eitt af því sem enginn skilur fyrr en hann kemst í. Vonandi gengur fjölskyldunni á Neshaga vel að byggja upp heimilið sitt aftur.

mbl.is Húsbruni á Neshaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig gat þetta staðið svona lengi?

Það er eiginlega sláandi að heyra af því að það hafi getað gengið vikum saman að sex ungmenni um tvítugsaldur á Akranesi hafi tekið án heimildar milljónir króna ófrjálsri hendi til að fjármagna fíkniefnaneyslu og sukklíferni í jólamánuðinum. Þetta er auðvitað verulegur áfellisdómur yfir fjármálastofnunum og hlýtur að leiða til þess að einhverjir hugsi sitt ráð allverulega. Þeir sem hafa verið í viðskiptum við tiltekinn sparisjóð hugsa eflaust sitt ráð, fyrst einn aðili gat gert þetta hlýtur að vera stór glufa til staðar.

Það er kannski eðlilegt að fólk geti farið framyfir og lifað hátt um vissan tíma, en þegar að þetta stendur vikum saman og allt að mánaðartíma hljóta spurningar að vakna um stöðu málsins. Ef marka má fréttir sólundaði unga fólkið fimm og hálfri milljón á þessum mánuði í neyslu sína. Það eru miklir peningar vægast sagt og ótrúlegur sofandaháttur sem liggur að baki því að þetta gat gengið. Það hlýtur að þurfa að vera í senn ansi óforskammaður og örvæntingarfullur til að leggja í svona fjársvikastarfsemi.

Það má alltaf eiga von á að glufur séu til staðar hjá fjármálastofnunum sem hægt er að misnota, en það hlýtur að vera ansi sofandi fjármálastofnun sem getur fært fíkniefnaneytendum svo sæluríkan mánuð í vímu.


mbl.is Sjö ungmenni handtekin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var áramótaskaupið skemmtilegra í annað skiptið?

Ragnar Bragason Horfði á áramótaskaupið í endursýningu í kvöld. Það er fínt að gefa okkur annað tækifæri til að njóta þess og eiginlega átta okkur betur á því, enda erum við eflaust mörg sem erum enn að melta boðskap þess. Kosturinn er líka að væntingarnar eru ekki eins háleitar í annað skiptið og boðskapurinn kemst jafnvel betur til skila. Í denn voru engar endursýningar og þetta var eins og heilagt efni sem aldrei mátti endursýna eða ekki var samið um fleiri sýningar á.

Áramótaskaupið hefur líka verið mjög misjafnt. Það er oft svolítið kúltúrsjokk að upplifa gömul skaup. Það sem manni fannst kannski rosalega fyndið hér áður verður allt í einu algjörlega ófyndið á meðan að sum skaupin eru gullslegin klassík sem sannkölluð synd er að ekki séu til á DVD. Annars eru sum skaup kannski best geymd í minningunni. Eru bara minning um árið og það móment sem það var gert. Horfði í einum rykk á nokkur gömul áramótaskaup milli jóla og nýárs. Sum fannst mér óþægilega flöt á meðan að önnur eru yndisleg. Gott dæmi um frábært skaup er það sem gert var árið 1991, þar sem Davíð Oddsson var stjarnan. Klassískur húmor.

Sagan segir jafnan að það sé betra að skilja skaupið í annað skiptið og brandararnir verði betri. Má vera. Viðurkenni alveg að ég hafði eiginlega meira gaman af því í kvöld en þegar að ég sá það fyrst á gamlárskvöldi. Enn fannst mér þó beinagrindin í því, Lost-þemað, frekar dautt, og ég hafði ekki gaman af því. Molarnir inn á milli voru þó margir gulls ígildi og virkilega skemmtilegir. Fannst eitt besta atriðið sem ég upplifði aftur í kvöld ansi gott, en það var Árni Tryggvason í hlutverki sjúklings sem kallar eftir að starfsstúlka færi honum vatnsglas. Þar er þó ekkert nema bergmálið og neyðaróp karlgreysins óma um tóma ganga sjúkrahússins.

Annars áttaði ég mig á einu atriði betur núna en á gamlársdag. Á þetta ekki að vera Ólafur Ragnar Grímsson sem er að koma í glæsibifreið á stofnfund félags íslenskra auðmanna? Verð að viðurkenna að ég tók bakföll af hlátri þegar að ég sá þetta atriði áðan og áttaði mig á því. Þarf kannski ekki að koma á óvart þetta atriði. Svo náði Bergur Þór mjög vel söngvaranum Geir Ólafs og tók hann alveg með brilljans. Umræðan um réttindabaráttu vændiskvenna í Silfri Egils var líka ansi smellið atriði. Svo var líka ansi nett að sjá Kristján Möller hlaupa á dyr í samgönguráðuneytinu þegar að talað var um Grímseyjarferjuna og ellefu ára "barna"afmæli Fáfnis.

Allavega, þetta var alveg ágætis móment, fínt að upplifa skaupið aftur, svona einu sinni í viðbót allavega. En hvað finnst ykkur. Hvernig var að sjá skaupið í annað skiptið? Hvað með gömlu skaupin, viljið þið eiga minningarnar um gömlu skaupin eða mynduð þið kaupa þau á DVD eða vilja eignast þau aftur?

Nóg um hasar á Bubbatónleikum

Bubbi

Það virðist vera hasar í kringum Bubba Morthens. Maðurinn sem lögreglan handtók í kvöld, með aðstoð sérsveitar, eftir eltingarleik í Holtahverfið, brjálaðist á tónleikum Bubba og stórsveitarinnar í Höllinni og otaði hníf að dyravörðum og sparkaði niður rúðu. Eins og flestum er kunnugt að þá urðu slagsmál á Þorláksmessutónleikum Bubba á Nasa og þar gekk sannarlega á ýmsu.

Eftir því sem ég heyrði frá manni sem var á tónleikunum með Bubba var nóg um að vera þar, rúða í anddyri var spörkuð niður og maðurinn sem var handtekinn skarst á fæti og stakk af frá vettvangi með konu en lögreglan náði honum síðar með aðstoð sérsveitarinnar. Þetta hefur því verið mikið drama og gott að sérsveitin getur aðstoðað í málum þar sem virkilega þörf á fagmennsku að halda og þarf að eiga við fólk sem er vopnað.

Mér skilst reyndar að þessu drama hafi lokið með því að drepist hafi á bíl mannsins og þannig hafi hann náðst, ætli hann hafi svo ekki bara endað á slysadeildinni. Væntanlega verið blóðugur eftir að sparka í rúðuna í Laugardalshöll. Þetta hlýtur að kallast íslenskt drama í nærmynd.

Annars virðist kóngurinn vera í miklum hasar þessa dagana og ekki nema von að spurt sé hvað gerist á næstu tónleikum hans. Allt er þegar þrennt er - segir jú máltækið.


mbl.is Sérsveitin kölluð út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju var skaupið styttra en venjulega?

Frá gerð skaupsins Sitt sýnist hverjum um Áramótaskaupið eins og venjulega. Eitt vakti þó athygli mína og ég finn vel að fleiri velta því fyrir sér. Skaupið var styttra en venjulega - var vel innan við 50 mínútur og aðeins rétt rúmar 40 mínútur ef lokalagið (Ísland er land þitt) er undanskilið. Innan þess ramma var auðvitað hin margfræga mínútulanga auglýsing frá Remax.

Þetta er því með því styttra síðustu árin. Skaupinu var lokið kl. 23:15, að mig minnir, og þá tók við uppfyllingarefni í um tuttugu mínútur er áramótakveðja Ríkisútvarpsins (án útvarpsstjóra, utan miðnæturkveðjunnar) fór í loftið. Tók mjög vel eftir þessu, enda hefur skaupið í mínu minni allavega staðið jafnan til hálf tólf og verið vel rúmar 50 mínútur og stundum slagað í klukkutíma, sérstaklega gömlu skaupin hér í denn. Þetta var allavega áberandi styttra skaup í þeim skilningu og var búið snemma.

Fann þetta vel enda var mun rýmri tími til að koma sér út og fara að skjóta upp flugeldum, en oft hefur verið, þar sem að þrjú kortér voru í áramót og kannski ekkert verra að hafa rýmri tíma í sjálfu sér. En styttra var skaupið. Hef heyrt vel í gær og fyrradag að þetta hefur fólk talað um, sem ég þekki allavega til. Fann þetta vel sjálfur líka. Annars er deilt um hversu sterkt skaupið er sem sjónvarpsefni. Margir tala mjög harkalega gegn þessu skaupi. Sjaldan eða aldrei hefur það verið umdeildara, mörgum fannst það hreinlega hið versta frá upphafi.

Það verður áhugavert að heyra hvað skaupið kostaði. Í fyrra átti skaupið 2006 að verða mikið trúnaðarmál og átti ekki upphaflega að gefa upp kostnaðartölur, sem var mikið klúður hjá Ríkisútvarpinu, eftirminnilegt klúður. Seint og um síðir var kostnaðurinn gefinn upp, að mig minnir í ræðu menntamálaráðherra í þinginu. Svona kostnaðartölur á að opinbera, það er mjög einfalt mál. Vonandi fáum við heildarverð á pakkann fljótlega.

Er áramótaskaupið orðið úrelt sjónvarpsefni?

Ragnar Bragason Ég er enn að melta áramótaskaupið sem okkur landsmönnum var boðið upp á í gærkvöldi. Varð eiginlega fyrir nokkrum vonbrigðum, enda átti ég von á meiru miðað við þann mannskap sem hélt utan um efnið. Reyndar er áramótaskaupið eitt umdeildasta sjónvarpsefnið á hverju ári og erfitt að gera öllum til hæfis. Þetta er kannski vanþakklátasta verkefni leikstjórans á hverju ári.

Mér fannst mörg atriði svosem alveg ágæt. Það sem mér fannst hinsvegar verst af öllu var uppbygging skaupsins og Lost-þemað sem var beinagrind þess. Það var sá þáttur sem mér fannst ekki hitta í mark og hann skemmdi fyrir heildarmyndinni allnokkuð. Mér fannst skaupið vera alllengi að komast af stað og fannst fyrstu mínúturnar hreinlega hundleiðinlegar og þetta varð ekki sá þétti pakki sem ég bjóst við frá Ragnari Bragasyni, sem átti besta leikna sjónvarpsefni ársins 2007, hina frábæru Næturvakt.

Þegar að það komst loks af stað voru atriði sem mér fannst sum hver ansi fyndin. Nægir þar að nefna grínið með tjaldsvæðamálin á Akureyri um verslunarmannahelgina, Steingrím J, Árna Johnsen, Randver og vinslitin í Spaugstofunni, hundinn Lúkas, okkur bloggarana, Bubba Morthens, svo dæmi sé nefnt. Þarna var greinilega mun meiri þjóðfélagsádeila en hefur verið í skaupum á síðustu árum og stjórnmálamenn fengu tiltölulega mikinn frið frá rætnu gríni. Við bloggarar fengum okkar sneið, sem var svolítið súrsæt en kómíst innst inni. Það var skautað að mestu yfir hitamál á borð við REI og pólitísk örlög eftir kosningarnar, sem var miður.

En heildarpakkinn var ekkert meistaraverk að mínu mati. Það var of lengi af stað og ég varð fyrir vonbrigðum. Átti einfaldlega von á betra efni og þéttari pakka, miðað við mannskapinn sem stóð að skaupinu. Það er þó fjarri því að það hafi verið dautt í gegn, þarna voru ágætispunktar en það var samt verulega gloppótt. Var svolítið hugsi yfir útkomunni og eiginlega þurfti að sjá það aftur til að  botna í sumu á meðan að annað varð enn óskiljanlegra kannski.

Hugleiði hvort að það sé kannski orðið svo að áramótaskaupið sé orðið úrelt sjónvarpsefni, sé orðið gloppótt og lélegt hreinlega. Auglýsingin komst þó vel til skila. Hinsvegar finnst mér það prinsippmál að klippa ekki þátt af þessu tagi í tvennt, aðeins fyrir auglýsingamaskínuna. Er ekki góð ákvörðun og gott hjá menntamálaráðherra að slá aðeins á puttana hjá þeim er stjórna för hjá RÚV, en það gerði hún með áberandi hætti en ekki dómínerandi svosem.

Það er því miður að verða árviss viðburður að ekki sé horfandi á þetta áramótaskaup eða það valdi gríðarlegum vonbrigðum hið minnsta. Miklu er kostað til, en það verður lélegra eða óskiljanlegra með hverju árinu. Ég man ekki eftir almennilegum skaupum síðan að Óskar Jónasson gerði tvö eftirminnileg árin 2001 og 2002. Skaup Spaugstofunnar árið 2004 var allt í lagi en ekkert meistaraverk, en það var þó hægt að hlæja að því og hafa gaman af. Skaupin síðustu tvö ár voru ekkert spes.

Sú spurning verður sífellt háværari hvort að skaupið líði senn í aldanna skaut eins og árin sem það á að dekka, nú í seinni tíð með sífellt gloppóttari hætti. En ég vil þó taka fram að þetta skaup var það skársta nú í nokkur ár en það var samt eitthvað sem stórlega vantaði. Annars skiptist fólk í tvo hópa eins og fyrri daginn og sitt sýnist jú hverjum.

Eldsvoði fyrir austan

Húsbruni á Eskifirði Það eru dapurlegar fregnir að heyra af eldsvoða austur á Eskifirði á stund gleðinnar á áramótum. Það er alltaf sorglegt þegar að hús fólks brennur og ekkert er hægt við að eiga. Það er vissulega bót í máli að enginn var heima og því ekki hætta á meiðslum á fólki, en það hlýtur þó að vera nöturlegt að heyra fregnir af því að húsnæði sitt brenni og ekkert við að eiga.

Þekki marga að austan, enda er mamma Eskfirðingur og veit vel hvaða hús þetta er. Þetta eru erfiðar aðstæður og sérstaklega er sorglegt að missa húsnæði sitt á stórhátíðum á borð við þessa. Óska eigendum hússins alls góðs á þessum erfiðu tímum.

mbl.is Hús stórskemmdist í eldsvoða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Freyja er maður ársins

Freyja Haraldsdóttir Að mínu mati er hetjan Freyja Haraldsdóttir maður ársins. Ég kaus hana í vali Rásar 2 og var eiginlega að vona að hún myndi ná titlinum. Rétt eins og hetjan Ásta Lovísa, bloggvinkona okkar allra, náði hún ekki titlinum, en Ásta var önnur í kjörinu fyrir ári. Mér fannst það mjög leitt að Ásta Lovísa vann ekki þá, enda var ég stoltur af hugrekki hennar og krafti í erfiðu stríði. Að henni var mikill sjónarsviptir er hún lést í maílok og það var mikil sorg yfir blogginu á dánardegi hennar.

En Freyja bloggvinkona er hetja þessa árs. Ég hef dáðst mjög að henni síðustu misserin. Freyja hefur að ég tel vakið okkur öll til umhugsunar um málefni fatlaðra, hvort sem er með útgáfu bókar sinnar, Postulín, eða með fyrirlestrum sínum víða. Hún hefur þrátt fyrir fötlun sína tekið þátt í hinu daglega lífi og lætur það ekki stöðva sig í því að reyna að nýta tækifærin sem lífið hefur upp á að bjóða.

Las rétt fyrir jólin bókina Postulín, bók eftir bloggvinkonur mínar, þær Freyju og Ölmu Guðmundsdóttur. Það var sterk og góð bók sem á að vera skyldulesning fyrir okkur öll. Að mínu mati var þetta árið hennar Freyju og hún er í huga mér maður ársins.

Áramótabrennum frestað vegna veðurs

Brenna Það er eflaust skynsamleg ákvörðun að fresta áramótabrennunum vegna veðurs. Það er sjaldan gaman að fylgjast með brennum í vondu veðri og það getur orðið grátt gaman í sjálfu sér. Samt vekur þessi ákvörðun athygli í ljósi þess að veðurspá er ekki eins slæm og var í gær. En varla mun sólarhringsfrestun breyta neinu til eða frá. Það verður víða gleði í kvöld óháð því hvort kveikt verður í brennunum.

Það er miklu áhugaverðara að vita hvernig flugeldaveðrið verður. Vonandi mun allt ganga þar og slysalaust. Það er mikilvægt að fólk sé vel vakandi við að skjóta upp flugeldum í kvöld og taki engar óþarfa áhættur. Það er því miður svo að varla eru áramót án slysa vegna flugeldanna. Vonandi verður ekki meira af því en ella vegna roksins. Það ætti allt að fara vel fram ef allir fara rólega að þessu og passi vel upp á allt.

Alla mína ævi hefur áramótabrennan skipt máli og það er hluti áramótanna. Það breytir í sjálfu sér engu hvort hún er haldin sólarhring fyrr eða síðar. Miklu mikilvægara er að hugsa um að ekki verði of mikil áhætta og því mikilvægt að bíða með þær. Annars vona ég að allir eigi gott kvöld við að skjóta upp flugeldum og allt verði stórslysalaust.

mbl.is Engar brennur í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farið yfir árið með Gesti og Hrafnhildi

Hrafnhildur og Gestur Einar Fór í morgunkaffi til Gests Einars og Hrafnhildar á Rás 2 klukkan hálf níu. Fórum þar yfir fréttir ársins og ræddum mál málanna nú við lok ársins. Það er alltaf gaman að kíkja til þeirra í spjall og fara yfir það sem er að gerast. Þetta hefur auðvitað verið líflegt ár í bloggheimum og mikið sem hefur verið skrifað um. Bloggsamfélagið hér á blog.is hefur reyndar sífellt vaxið og dafnað á árinu og væri reyndar gaman að vita hversu margir byrjuðu að blogga á þessu ári.

Það er fjarri lagi að bloggbólan sé eitthvað að springa eins og svo margir spekingar spáðu um í upphafi ársins 2007. Þvert á móti virðast bloggheimar sífellt að eflast og bætist í hópinn á hverjum degi. Þetta er vinsælasta tjáningarform nútímans, það blasir við öllum. Nú eru birtar tilvitnanir úr bloggum í dagblöðum og vitnað í það í öðrum fréttamiðlum. Það blasir við að bloggið er lykilmiðill í raun og þar verða fregnirnar ferskastar á meðan að blöðin og hinir hefðbundnu miðlar fylgja æ oftar á eftir umræðunni. Þetta er nútíminn í hnotskurn sennilega.

Ætli að Lúkasarmálið margfræga sé ekki eitt heitasta bloggmál ársins. Eftir að hinn margfrægi hundur hvarf sporlaust hér á Akureyri í sumar hófst mikið fár sem lauk með því að hann reis upp frá dauðum. Strák var kennt um að hafa komið hundinum fyrir kattarnef. Heit orð féllu í bloggheimum í garð hans. Eitthvað varð minna um afsökunarbeiðnir til hans eftir að hundurinn kom fram heill á húfi eftir vist upp á Glerárdal vikum saman. Hitinn í því máli varð mörgum lexía. Það er betra að hafa hemil á orðum sínum, það verður að skrifa af ábyrgð á blogginu eins og öðrum stöðum.

Enda hefur strákurinn sem var sótt að höfðað mál gegn þeim sem töluðu helst gegn honum. Það verður sennilega líflegt fréttamál næsta árs að sjá hvernig það fer allt saman og hver örlög bloggaranna sem höfðu ekki hemil á sér verður. Það var mikið talað um femínistana á blogginu, ekki má gleyma samúðarbylgjunni til Randvers eftir að hann var rekinn úr Spaugstofunni, Anna Nicole og Britney voru í annarri hverri bloggfærslu vissan part ársins eftir að önnur dó og hin rakaði af sér hárið, er Ísland floppaði í Eurovision, brúðkaup ársins og auglýsingamál RÚV.

Er þá aðeins fátt nefnt. Ekki má svo gleyma stjórnmálunum, en ný ríkisstjórn og meirihluti í borgarstjórn í kjölfar hins útúrtogaða REI-máls stendur þar hæst ásamt sögulegu falli Framsóknarflokksins, sem virðist í tilvistarkreppu í lok ársins. Komumst alls ekki yfir allt í morgun. En þetta var skemmtilegt spjall og gaman að líta um öxl.

Morgunspjall með Gesti Einari og Hrafnhildi

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband