Færsluflokkur: Dægurmál

Baltasar kvikmyndar Grafarþögn eftir Arnald

Grafarþögn Ákveðið hefur verið að Grafarþögn, ein þekktasta skáldsaga Arnaldar Indriðasonar, um lögreglumanninn Erlend Sveinsson og aðstoðarfólk hans; Elínborgu og Sigurð Óla, verði brátt kvikmynduð af Baltasar Kormák. Grafarþögn, sem kom út árið 2001, er ein víðlesnasta íslenska skáldsaga hérlendis á síðustu árum og er rómuð meðal bókalesenda víða um heim, en bókin hefur verið þýdd á fjölda tungumála.

Fyrir rúmu ári var kvikmyndaútgáfa af sögu Arnaldar, Mýrinni, frumsýnd. Mýrin hefur slegið í gegn víða um heim. Hún var sigursæl á Edduverðlaununum í nóvember 2006 og hlaut fimm verðlaun, þar á meðal sem besta mynd ársins og fyrir leik Ingvars E. Sigurðssonar í hlutverki Erlends Sveinssonar, rannsóknarlögreglumanns. Ingvar fór á kostum í hlutverkinu og varð Erlendur, hvort sem við höfðum áður séð hans týpu í karakternum eður ei.

Ég var virkilega ánægður með Mýrina þegar að ég sá hana á sínum tíma og skrifaði þá þessa ítarlegu umfjöllun um hana. Þjóðin hefur með því að fjölmenna í bíó sýnt það með skýrum hætti að hún vill framhald á. Öll viljum við sjá bækur Arnaldar lifna við. Það er því gleðiefni að bráðlega muni Grafarþögn verða kvikmynduð.

Gæslan fær nýja þyrlu í stað TF-Sifjar

Nýja þyrlan Það er ástæða til að óska Landhelgisgæslunni til hamingju með nýja þyrlu sína. Það hefur sést vel síðustu árin að mikilvægt er að hlúa vel að Gæslunni. Það er full þörf á að bæta flotann og hefur verið unnið vel í þeim efnum. Það sem skiptir máli nú er að dreifa björgunarþyrlum um landið, en ekki loka þær inni á einum stað í Reykjavík.

Höfum við á landsbyggðinni talað með áberandi hætti á pólitískum vettvangi fyrir mikilvægri uppstokkun í þeim efnum, sérstaklega hvað varðar að björgunarþyrla sé til taks á Akureyri. Hefur hugur pólitískra fulltrúa hér verið ljós lengi, en bæjarstjórn Akureyrar hefur oft ályktað um þessi mál. Hefur pólitískur vilji alþingismanna í Norðausturkjördæmi komið vel fram í þingsölum, síðast í umræðu á Alþingi fyrir nokkrum vikum.

Það er mikilvægt að Gæslan sé vel búin og vel hlúð að henni, enda er hún okkur öllum svo mikilvæg á örlagastundum þar sem hver mínúta getur skipt máli varðandi björgun fólks. Nýja þyrlan kemur í stað TF-Sifjar sem fórst í Straumsvík í sumar, þar sem tókst að bjarga öllum sem um borð voru með giftusamlegum hætti. TF-Sif markaði stór skref í sögu Landhelgisgæslunnar og það er alveg ljóst að ný þyrla verður okkur ekki síður mikilvæg og TF-Sif.

mbl.is Ný þyrla Landhelgisgæslunnar komin til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurfyrirsætan Kate með lítið vit á stjórnmálum

David Cameron Það er oft sagt að fyrirsætur lifi í eigin heimi og spái ekki alltaf í smáatriðum lífsins, að þeirra mati, utan þess bransa, t.d. stjórnmálum. Það sannast heldur betur með þessari kostulegu uppljóstrun að ofurfyrirsætan Kate Moss, sem talin er veraldarvön að mörgu leyti, hafi haldið að David Cameron, leiðtogi breska Íhaldsflokksins, væri pípari að atvinnu.

Þó að Cameron hafi ekki setið nema sex ár á breska þinginu og ekki verið nema rúm tvö ár í sviðsljósinu um allan heim þarf heldur betur að vera clueless til að kveikja ekki á perunni um hver Cameron sé. Cameron gæti orðið næsti forsætisráðherra Bretlands og hefur því sennilega hlegið vel af því að Moss hafi viljað númerið hans til að fá hann í pípulagningavinnu. Hann fær varla mörg þannig boð í vinnunni.

Þessi umfjöllun er ekki beint til að auka hróður Kate Moss, sem hefur löngum verið mikið í sviðsljósinu og heimsþekkt vegna starfa sinna. Það væri kannski ráð að einhver keypti handa henni Encyclopaedia Britannica svo hún gæti gluggað í milli fyrirsætuverkefna, svona til að átta sig á því hvernig heimsmyndin er, sérstaklega veitti henni greinilega ekki af að spá smá í þeirri bresku.

mbl.is Hélt að Cameron væri pípari að atvinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mafían setur boðorð til að hækka standardinn

Marlon Brando sem Don Vito Corleone Allir sem horft hafa á framhaldsþætti og kvikmyndir um mafíuna vita að þar snýst allt um aga og að hafa stjórn á þeim verkum sem sinna þarf, hversu ólögleg sem þau annars kunna að vera. Eitthvað virðist hafa versnað yfir mafíunni með yngri kynslóðum, eins og sést á svokölluðum boðorðum mafíunnar sem hafa nú fundist á Sikiley. Þar er settar leikreglur til að hækka standardinn til muna.

Þeir sem kynntust Corleone-fjölskyldunni í trílógíunni um Guðfaðirinn, í leikstjórn Francis Ford Coppola, kynnast þar mafíunni eins og hún er við innsta bein. Þar snýst allt um fjölskyldugildin og að passa upp á það sem gera þarf; aginn er í grunninn númer eitt, tvö og þrjú, svo má ekki gleyma virðingunni fyrir því sem sinna þarf. Fjölskyldan var Don Vito, í magnþrunginni túlkun Marlon Brando, allt. Það breyttist þegar að næstu kynslóðir tóku við og allir sem sjá Guðfaðirinn 2 finna vel fyrir því hvernig Michael tókst að eyðileggja lykilstoðir veldisins.

Hann eyðilagði fyrst og fremst fjölskylduna með því að rækta ekki rætur hennar; sinna ekki helstu stoðum veldisins innan frá. Það molnaði vegna stjórnleysis hans á þeim þáttum sem mestu skiptu. Það er greinilegt að á Sikiley hafa boðorðin margfrægu verið sett til að taka á því, minna á hlutverk fjölskyldunnar og þess að hafa prinsipp í starfi; sýna hollustu í hvívetna, vera stundvísir og svona mætti lengi telja. Þar er talað um Cosa Nostra, frægt heiti yfir mafíuna.

Það hefur verið lýst mafíunni oftar - flest okkar þekkjum Soprano-fjölskylduna í New Jersey. Þar sjást lykilþættir þess sem um er talað vel. Yngri kynslóðirnar misstu fótanna og veldi hnignuðu. Gott dæmi nútímans í mafíubransanum kristallast þar mjög vel. Þessi boðorð sýna okkur þó vissulega mótsagnir. Umfram allt sýna þau þó vel að veldi mafíunnar er farið að hnigna, meira að segja á Sikiley. Þar sem sett eru boðorð er veikleiki til staðar. Það sést vel á hvers eðlis boðorðin eru.

Það virðist sem að örlög skáldsagnapersónunnar Michael Corleone séu þeim ítölsku ofarlega í huga miðað við þetta. Ætli þeir hafi ekki áður lesið bókina og eða séð trílógíuna?

mbl.is Lögreglan finnur 10 boðorð mafíunnar á Sikiley
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byssulöggjöf hert í Finnlandi - nauðsynlegt skref

Morðvopnið í Finnlandi Norrænir fjölmiðlar og lögregluyfirvöld eru nú komin á fullt í það verkefni að kortleggja ævi og persónu Pekka-Erics Auvinen, hins 18 ára gamla fjöldamorðingja í Jokela-framhaldsskólanum, sem myrti átta manneskjur á miðvikudag. Mun hann hafa verið einfari, mjög sér á báti og ekki mjög inntengdur í stóra vinahópa á skólasvæðinu ef marka má fréttir.

Þetta er fjarri því fyrsta skotárásin þar sem óður byssumaður skýtur niður allt sem á vegi hans verður og er varla sú síðasta. Það er bitur staðreynd auðvitað. Erfitt er að finna einhverja eina töfralausn. Ein þeirra er þó að endurskoða byssulög og herða viðurlög til muna en það er ekki ein gullin töfralausn, enda hefur sannast að sé nógu kaldrifjaður vilji að baki þess að gera slíkt og hugurinn að baki er brenglaður getur fátt stöðvað hann.

Þetta fjöldamorð vekur fólk til umhugsunar að mörgu leyti. Fyrst og fremst er þetta áfall fyrir finnskt samfélag. Það að slíkur voðaverknaður eigi sér stað í kyrrlátum norrænum framhaldsskóla, því sem á að vera fyrirmyndarsamfélag, rólegt og yfirvegað, er sláandi og fær fólk til að hugsa hlutina að mörgu leyti algjörlega upp á nýtt. Ég hef fengið komment hér og líka tölvupósta, m.a. frá vinum mínum sem búa á Norðurlöndum. Þetta er eins og gefur að skilja í öllum fjölmiðlum þar og er frétt um allan heim. 

Einn sendi mér póst og spurði um hvaða skoðun ég hefði á byssueign og tengdum málum. Ég hef alla tíð verið talsmaður þess að herða lög um byssueign og setja ströng viðurlög í þeim efnum. Það á að vera grunnmál. Það er gott að vita að Finnar ætla að taka sín mál vel í gegn og ég held að hugleiðingar þeirra séu réttar á þessu stigi - þar á að herða byssulögin, en þau hafa verið mjög frjálsleg þar, eða ég hef heyrt það allavega eftir þetta fjöldamorð.

Ég hef sjálfur alltaf verið á móti skotvopnum til einkaafnota og vildi helst banna það að nær öllu leyti. Í þessum efnum þarf að tala hreint út. Ég tel að ströng byssulög skipti máli og fagna því að Finnar hugsi með þessum hætti nú. Reyndar er mikilvægt heilt yfir að við tökum heilsteypta umræðu um þessi mál á öllum Norðurlöndum. Það sem getur gerst í Finnlandi getur jú gerst hér.

Það er reyndar talað um að við stöndum vel hvað varðar byssulög hérna heima. Það er þó varhugavert að tala með þeim hætti. Við höfum jú upplifað skelfilegt morðmál af þessu tagi hérna heima, þó ekki hafi það vissulega verið fjöldamorð. Morðið á manninum á Sæbrautinni í sumar vekur vondar minningar. Það var nöturlegt morð, sem vakti óhug þjóðarinnar.

Móðir hins látna hefur sjálf sagt að sonur hennar hafi verið drepinn af manni sem hafði ekki byssuleyfi. Það er gott að heyra hennar skoðun. Hvað varðar byssumálin erum við sammála. Fram hefur komið að það mikið sé til af byssum hérlendis til að hver íbúi í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur eigi skotvopn. Það þarf að hugsa þessi mál öll frá grunni.

mbl.is Finnar hyggjast herða byssulöggjöfina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í minningu Gíslínu og Mörtu

Tvær kjarnakonur sem vakið hafa athygli í samfélaginu létust í þessari viku úr krabbameini, þær Gíslína Erlendsdóttir og Marta Guðmundsdóttir. Það er alltaf sorglegt að heyra af andláti þeirra sem hafa barist þrátt fyrir erfiðan sjúkdóm og verið duglegar að tala með ákveðnum hætti í skugga veikinda. Gíslína skrifaði um veikindi sín hér á Moggablogginu af miklum krafti, nær alveg fram í andlátið og öðlaðist virðingu okkar allra fyrir. Las ég skrif hennar og dáðist af styrk hennar í erfiðum veikindum sem reyndu á hana og fjölskylduna.

Gíslína öðlaðist að ég tel sess í huga okkar því að hún gerði baráttu sína opinbera í netskrifum sem halda nafni hennar á lofti, hún hikaði ekki við að deila hugsunum sínum; allt í senn vonbrigðum, vonum, væntingum, eldmóð, bakslögum og baráttuþreki með okkur. Við urðum að áhorfendum að baráttu hennar, rétt eins og áður hjá þeim sem hafa skrifað um erfið veikindi. Það er ekki auðvelt að lifa svona baráttu svo opinbert og halda reisn sinni og glæsileik allt til enda. Það tókst Gíslínu. Við sem lásum bloggið söknum hennar.


Marta Guðmundsdóttir vakti athygli landsmanna þegar að hún gekk þvert yfir Grænlandsjökul í vor, skömmu eftir erfiða lyfja- og geislameðferð í kjölfar þess að greinast með brjóstakrabbamein. Gangan tók þrjár vikur og það var stolt baráttukona sem kom heim og náði sess í hug og hjarta þjóðarinnar með göngunni. Það var aðdáunarvert að fylgjast með þessu afreki hennar eftir erfið veikindi og hún talaði af miklum krafti við heimkomuna, sýndi vel að það er hægt að gera svo margt til að lifa með erfiðum sjúkdómi.

Man vel eftir góðu viðtali við Mörtu í sumar við heimkomuna. Bendi á það hérmeð. Það er sorglegt að heyra fréttir af andláti hennar, enda höfðu allir vonað og treyst á það að hún myndi ná heilsu eftir erfið veikindi.


Ég vil votta fjölskyldum Gíslínu og Mörtu innilega samúð mína. Minningin um þær, hinar miklu kjarnakonur, lifir.

Björgólfur hjálpar ríkinu að framleiða íslenskt efni

Ríkisútvarpið Ég fagna því að Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður Landsbankans, leggi ríkinu lið við að framleiða leikið íslenskt sjónvarpsefni. Ekki er vanþörf á að bæta úr í þeim efnum og fjölga íslenskum mínútum í dagskrá Ríkissjónvarpsins. Það er að mínu mati grunnkrafa til ríkisins ætli það sér að reka sjónvarpsstöð að þar sé lögð grunnáhersla á íslenskt sjónvarpsefni, íslenska dagskrárgerð. Það hefur vantað talsvert upp á það.

Í vetur hefur Ríkissjónvarpið bætt sig þó svo eftir hefur verið tekið í dagskrárgerð en enn vantar talsvert upp á að leikið íslenskt efni sé meira áberandi á dagskrá Ríkissjónvarpsins. Á dagskrá Sjónvarpsins er fjöldi ágætra þátta en leikna efnið hefur setið á hakanum og ekki verið nógu stór hluti af sjónvarpsdagskránni. Hefur Stöð 2 sýnt vel með gerð Næturvaktarinnar að fólk kallar á svona efni, en þeir þættir eru með því vinsælasta í imbakassanum um þessar mundir, þetta er efni sem fólk vill sjá.

Enda hefur það sést vel með leiknu íslensku efni á borð við Undir sama þaki, Sigla himinfley, Heilsubælið í Gervahverfi, Fastir liðir eins og venjulega og Allir litir hafsins eru kaldir að þetta er efni sem vekur áhuga sjónvarpsáhorfenda. Það er kallað eftir meira af leiknu efni á skjánum. Ríkisstöðin hefur ekki verið í fararbroddi í þessum efnum. Eftir því hefur verið kallað til að hægt sé að réttlæta að ríkið reki sérstaka sjónvarpsstöð. Þar á megináhersla ekki að vera á erlent afþreyingarefni sem getur allt eins verið á einkareknu stöðvunum.

Þetta er því jákvætt skref og áhugaverðir tímar framundan tel ég hjá Ríkissjónvarpinu. Reyndar er nýlega lokið tökum á nýrri þáttaröð, Mannaveiðar, sem verða sýndir eftir jólin. Stöð 2 mun svo sýna bráðlega sjónvarpsþáttaröðina Pressan. Þó að Næturvaktin renni brátt sitt skeið á enda er því í vændum gott íslenskt leikið efni. Það er ánægjulegt að Björgólfur sjái sér hag í að bæta stöðu Sjónvarpsins í þessum efnum og hann á heiður skilinn fyrir þetta.

mbl.is Björgólfur Guðmundsson leggur fram fé til framleiðslu sjónvarpmynda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru þulurnar orðnar úreltar hjá Sjónvarpinu?

Ellý Ármanns Sumir hafa talið það einn helsta aðal Ríkissjónvarpsins að hafa þulur á skjánum, fagrar konur til að kynna dagskrána, í stað þess að hafa bara dagskrárrödd eins og hinar stöðvarnar hafa. Flestar þeirra hafa orðið landsþekktar í kjölfarið; nægir þar að nefna Sigríði Arnardóttur, Ásu Finnsdóttur, Ellý Ármanns, Ragnheiði Clausen, Guðmundu Jónsdóttur, Jóhönnu Vilhjálmsdóttur, Sigurlaugu Jónasdóttur, Evu Sólan og Rósu Guðnýju Þórsdóttur.

Einkareknu stöðvarnar hafa farið aðrar leiðir og haft rödd, oftar en ekki karlmanns sem aðalrödd. Stöð 2 hefur í fimmtán ár haft söngvarann Björgvin Halldórsson sem rödd stöðvarinnar og hefur hann sett svip á dagskrána með kynningum sínum, beitt röddinni bæði milt og léttilega og ennfremur talað með draugalegum hætti sérstaklega þegar að kynntar eru spennu- eða draugamyndir. Atli Rafn Sigurðarson, leikari, hefur verið rödd Sirkuss og Ólafur Darri Ólafsson var rödd Skjás 1, en ég held að Valur Freyr Einarsson hafi tekið við af honum.

Ég hef verið einn þeirra sem finnst þulurnar tákn síns tíma. Sé eiginlega ekki þörfina á þeim lengur. Þó er vissulega ánægjulegt að horfa á fallegar konur lesa dagskrána. Það er skemmtilega gamaldags og sjarmerandi upp að vissu marki. Þó er augljóst að tími þulanna á skjánum hefur minnkað mjög. Þær vaka ekki fram yfir miðnættið eftir dagskrárlokum um helgar og byrja seinnipartinn á vakt, fylgja ekki dagskránni alla daga frá byrjun. Þær eru þó á vakt á stórhátíðisdögum. Fyrirfram hélt ég að kynningar þeirra væru teknar upp fyrirfram þá, en svo mun ekki vera.

Sumir hafa viljað halda í þulurnar til að halda í gömlu góðu tímana. Þórhallur Gunnarsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins, hefur nú ákveðið að ráða fjórar nýjar þulur, svo að það er ekki beint að stefna í endalok þuluhlutverksins í tíð Þórhalls. Spyrja má sig; eru þulurnar orðnar úreltar hjá Sjónvarpinu? Er ekki kominn tími til að hætta með þulurnar og hafa bara svipað fyrirkomulag og er hjá einkareknu stöðvunum? Væri gaman að heyra í öðrum með það.

Persónulega skil ég þessa sérstöðu Ríkissjónvarpsins, sem hefur staðið allt frá því að Ása Finnsdóttir kynnti dagskrána sem fyrsta þulan á fyrsta útsendingadeginum 30. september 1966, en myndi ekki kippa mér upp við það þó að þulurnar liðu undir lok. En kannski eru stærstu rökin þau að fólk vilji horfa á fallegar konur. Það eru vissulega góð rök í sjálfu sér.
mbl.is Flugfreyja flýgur í þulustarfið á RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áberandi afsökunarbeiðni frá 24 stundum

Bacardi Breezer Fannst athyglisvert að lesa umfjöllun 24 stunda í morgun um drykkinn Bacardi Breezer og verðlagningu á honum. Nú hefur blaðið hinsvegar sent út frá sér afsökunarbeiðni vegna villandi upplýsinga. Mér finnst það heiðarlegt af blaðinu að gera það, byggt á betri upplýsingum, og með áberandi hætti. Það er alltof oft sem leiðréttingar eru birtar bara sem lítil frétt í blaði, hornklausa sem fáir taka eftir.

Nú setur 24 stundir út fréttina sem svo mjög var rætt um í dag og kemur með afsökunarbeiðnina þar inn á sama stað, svo að allir taki vel eftir henni. Vel gert hjá blaðinu. Finnst reyndar 24 stundir vera mjög gott blað, les það fyrst á morgnana og finnst það eiginlega orðið þeirra best. Enda er lestur þess að aukast og áhugavert að sjá hvernig þróun mála verði í næstu lestrarkönnunum.

Hvað Bacardi Breezer varðar má kannski telja eðlilegt að einhverjir hafi misskilið stöðuna. Það er þannig heilt yfir að áfengir drykkir hérlendis séu of dýrir og ansi margir sem kalla á uppstokkun í þeim efnum.

mbl.is Leiðrétting og afsökunarbeiðni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pekka-Eric kvaddi fjölskyldu og skýrði sína hlið

Pekka-Eric Auvinen Það er gott að vita að Pekka-Eric Auvinen, fjöldamorðinginn í Jokela-framhaldsskólanum, skildi eftir sig bréf. Þar virðist hann kveðja fjölskylduna og skýra sína hlið mála, segja frá því sem hvatti hann til að verða valdur að þessum harmleik. Það virðist ljóst nú að þetta fjöldamorð varð vegna haturs hans á samfélaginu, varð að ákalli hans um að rísa upp og gefa frá sér einhverskonar yfirlýsingu.

Þetta er í grunninn nákvæmlega það sama og var í Columbine, Virginia Tech og fleiri skólum þar sem sömu hörmungar hafa gengið yfir. Að flestu leyti voru þetta skotárásir þar sem vegið var að samfélaginu, óður byssumaður að tala gegn samfélaginu og gildum þess. Heilt yfir er þetta samt svo sorglegt. Það er ólýsanlega sorglegt að norrænn framhaldsskólanemi sé tilbúinn til að fórna lífinu og drepa aðra vegna slíks boðskapar.

Það hefur svo margt heyrst um mál af þessum toga síðustu árin. Flestir líta til Bandaríkjanna í þeim efnum. Ekki má þó gleyma því að fyrir ellefu árum áttu sér stað fjöldamorð í íþróttasalnum í barnaskólanum í Dunblane í Skotlandi. Það var voðaverk sem enn hvílir sem mara yfir samfélaginu þar. Thomas Hamilton, 43 ára skoskur maður, myrti þá 16 skólabörn og kennara þeirra - hann var ekki tengdur skólanum en trylltist að flestra mati eftir að hann var rekinn sem skátahöfðingi á svæðinu.

Margir hafa horft til byssueignar. Michael Moore gerði heila heimildarmynd þar sem hann tók fyrir þau mál, Bowling for Columbine, sem var inspíruð af Columbine-fjöldamorðunum sem Harris og Klebold stóðu að. Ég hef hér áður fjallað um það mál og hvaða áhrif þeir tvímenningar hafa haft, ekki bara í Jokela heldur líka í Virginia Tech, skelfilegasta fjöldamorði í sögu Bandaríkjanna, fyrr á þessu ári. Það er þáttur sem velta verður fyrir sér en farið er að deila um af hverju Auvinen fékk leyfi fyrir byssu.

Það blasir við að Pekka-Eric Auvinen var orðinn truflaður og ofbeldisfullur. Myndbrotin á YouTube sanna það. Sama má segja um umfang árásarinnar. Hann skaut skólastýruna ótalmörgum sinnum og fór með um 70 skot á þá átta sem dóu. 20 skot voru í einu fórnarlambinu, skólastýrunni, eftir því sem fréttir herma. Það var þó skólastýrunni að þakka að fjöldamorðið varð ekki skelfilegra, hún náði í gegnum hátalarakerfi að aðvara nemendur sem tókst að flýja.

Þessi harmleikur verður sífellt sterkari myndræn áminning um að klikkaður árásarmaður leynist ekki bara í bandarískum skólum. Hættan er til staðar allsstaðar að því er virðist. En það er gott að fjöldamorðinginn skildi eftir sig kveðju og fór yfir sína hlið þessa voðaverks. Vonandi verður þá ekki erfitt að raða púslum þess saman.


mbl.is Finnland: Morðinginn skildi eftir sjálfsvígsbréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband