Færsluflokkur: Dægurmál
4.11.2007 | 19:15
Á löggan að vera leigubílastöð ölvaðra?

Það er reyndar oft spes að heyra fréttirnar af þeim ölvuðu sem vantar far. Ófáar þeirra hafa orðið goðsagnakenndar og bætt við sig talsverðu í meðförum manna á milli. Það er vissulega svo að þeir sem verða mjög ölvaðir keyra ekki burt af vettvangi séu þeir handteknir. Heilt yfir væri eðlilegast, sé ekki möguleiki á að koma þeim til síns heima fljótt og vel innan eigin sveitarfélags, að þeir sofi úr sér hjá lögreglu eða komið burt þá með leigubílum ella, þar sem þeir eru þá til staðar.
Það er varla hægt að ætlast til að það sé í verkahring lögreglu að ferðast sveitarfélaganna á milli til að fara með fólk heim til sín. Þetta virðist þó hafa farið ágætlega á Selfossi, enda fékk viðkomandi maður að sofa nóttina og ölvímuna af sér hjá lögregluyfirvöldum.
![]() |
Vildi fá far með lögreglunni til Reykjavíkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2007 | 00:12
Vítisenglafrú ákveður að vera áfram á Íslandi
Það verður ekki annað séð en að aðgerðirnar hafi gengið vel á Keflavíkurflugvelli. Það er alveg ljóst að þeir vítisenglar sem ætluðu sér að koma til landsins um helgina hafa hætt við ferðina eftir að hinir átta voru handteknir, enda blasti við að tekið yrði eins á máli þeirra.
Jóhann Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, tjáði sig vel um málið í kvöldfréttum og fór yfir sína hlið þeirra mála. Það hafa með þessu verið send afgerandi skilaboð til vítisengla um hug íslenskra stjórnvalda til þeirra.
![]() |
Eiginkona Vítisengils varð eftir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.11.2007 | 21:58
Samráðsblærinn vofir yfir Baugi og Krónunni

Það er algjörlega ljóst að það er grafalvarlegt mál ef sérstaklega ummæli þess manns eru rétt. Þar var gengið lengst í því að taka undir sögusagnirnar. Skiljanlega kom maðurinn ekki fram undir nafni, enda er hætt við því að líf mannsins breyttist fljótt í hreina martröð ef hann myndi tjá sig um þessi mál undir nafni. En það er alveg ljóst að það að svo margir taki undir sögusagnirnar er merki um að eitthvað mjög rangt hefur gerst hjá þessum verslanakeðjum, hversu ólöglegt sem það annars má vera.
Það blasir við að verðkannanir í þeirri mynd sem við höfum þekkt þær síðustu árin eru gjörsamlega marklausar. Það tekur enginn mark á þeim skáldskap framvegis. Það hvernig þær eru gerðar er bara móðgun við allt hugsandi fólk, neytendur í þessu landi. Að hlusta á Gylfa Arnbjörnsson lýsa því um daginn hvernig þetta er gert var alveg hlægilega kostulegt. Þetta er bara sýndarmennska hin mesta þessar kannanir og verslanakeðjurnar ganga bara á lagið að afvegaleiða umræðuna. Það er heiðarlegra að hætta með þessar svokölluðu verðkannanir en að standa fyrir leiktjaldaplotti eins og þetta er í dag.
Heilt yfir er þetta skelfilegt mál í alla staði. Það þarf að fara fram rannsókn á öllum þáttum þess. Umræðan er annars of umfangsmikil og með marga þræði inn í verslanakeðjurnar til að framhjá henni verði litið. Það verður ekki hægt að treysta þessum aðilum framar ef þeir verða ekki hreinsaðir af ávirðingum beint með rannsókn.
![]() |
Kerfisbundið haft áhrif á verðkannanir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.11.2007 | 18:05
Umfjöllun um íslenskt sjónvarpsefni
Ætla að fara yfir nokkra íslenska þætti sem ég man eftir og skrifa aðeins um þá.
Næturvaktin
Frábærir gamanþættir sem hitta algjörlega í mark. Einfaldir en vel skrifaðir með nettu skotheldu gríni. Pétur Jóhann Sigfússon er stjarna þáttanna, sem bensíntitturinn Ólafur Ragnar, en þeir Jón Gnarr og Jörundur Ragnarsson slá sannarlega ekki feilnótu. Góðir aukaleikarar krydda þættina. Með því að hafa svo ólíkar persónur saman á einum stað og byggja söguþráð í kringum hverja þeirra er mynduð bæði hlægileg stemmning og áhugaverð. Þetta er klárlega augljóst merki þess að við getum gert alvöru gamanþætti sem slá í gegn. Með bestu gamanþáttum í íslensku sjónvarpi fyrr og síðar.
Kiljan
Frábær bókmenntaþáttur á mannamáli. Agli Helgasyni hefur tekist það sem svo oft hefur mistekist hérna heima; að fjalla um bækur fagmannlega og á máli sem fólk, almennir bókalesendur á öllum aldri, skilur. Vönduð viðtöl, heiðarleg umfjöllun um bækur frá öllum hliðum og skemmtilegar álitspælingar með Kolbrúnu og Páli Baldvin. Þetta er frábær samsetning. Egill hefur áður fjallað um bækur í þáttum sínum með vönduðum hætti en hann blómstrar í þessu formi. Sérstaklega áhugavert að heyra í Braga Kristjónssyni, fornbókasala, sem kryddar þáttinn með frásögnum sínum. Besti sjónvarpsþáttur vetrarins, það sem af er.
Silfur Egils
Besti umræðuþáttur á Íslandi. Kannski er Silfrið eitthvað staðnað í uppbyggingu, en þetta form sem Egill hefur byggt upp er skothelt engu að síður. Bæði spjall með fjórum viðmælendum og svo viðtal þar sem Egill tekur fyrir einn gest til að ræða eitt efni, eða fara vítt yfir sviðið. Egill er frábær spyrill sem þorir að fara alla leið í spurningum en er líka með næmt sjónarhorn á það sem hann er að tala um. Eftir tvö kjörtímabil á sitthvorri stöðinni er Silfrið komið á RÚV í sama pakkanum, enda óþarfi að breyta því sem gengur vel. Þetta er þáttur sem klikkar ekki.
Mannamál með Sigmundi Erni
Sigmundur Ernir fer vel af stað með nýjan spjallþátt sinn. Hann er ekki að taka sama pakkann og Egill Helgason, heldur gerir hlutina á sinn hátt. Uppbyggingin er góð og viðtölin eru áhugaverð og tekið er fyrir það sem skiptir máli. Það er talað á mannamáli í þessum þáttum. Sigmundur Ernir er með snarpan stíl sem kemur sér oftast mjög vel. Er góð viðbót að taka fyrir menningu og listir og pistlar Einaranna fylla þáttinn. Eini gallinn, sem er mjög stór, er leikmyndin sem er ekki nógu góð og skemmir nokkuð fyrir þættinum í heildina.
Laugardagslögin
Ágætis skemmtiþáttur sem hefur þó tekið smátíma að koma í gírinn. Byrjaði ekkert sérstaklega vel en hefur slípast til með hverju laugardagskvöldinu. Það er ágætt að hlusta á ný lög en mér finnst þó kannski einum of fátt að hafa þrjú lög og byggja heilan þátt upp í kringum það. Ágætis hliðarþættir með. Hinsvegar finnst mér Ragnhildur Steinunn og Gísli Einarsson ekki passa vel saman sem par til að stjórna þáttunum. Verst var það í fyrsta þættinum þar sem þetta var beinlínis vandræðalegt. Gríninnkomur Tvíhöfða eru alltof einhæfar.
Söngvaskáld
Góðir þættir að erlendri fyrirmynd þar sem söngvari kemur, tekur lagið og segir sögur af sér, lögunum og öllu milli himins og jarðar. Skothelt prógramm sem er virkilega áhugavert að fylgjast með. Einfaldur og góður þáttur.
Útsvar
Ágætis spurningaþáttur, í og með svolítið dreifaralegur og skemmtilega hallærislegur. Það er alltaf gaman að horfa á spurningaþætti og stemmningin er hin besta. Þóra og Sigmar standa sig vel að halda utan um þáttinn. Liðin eru oftast nær góð og fókusinn er hraður og góður. Þetta eru þættir sem renna vel í gegn og þeir sem hafa virkilega gaman af spurningaþáttum falla vel inn í stemmninguna í þessum.
07/08 bíó-leikhús
Snarpur en vandaður lista- og menningaþáttur sem tekur fyrir kvikmyndir og leikhús með góðum hætti. Þorsteinn J. og Andrea passa vel í að halda utan um þáttinn og úr verður áhugaverður blær umfjöllunar. Ásgrímur tekur kvikmyndir fyrir með skemmtilegum hætti, er ekki ofstúderaður í pælingum sínum og gerir sitt mjög vel, sem ávallt fyrr. Þetta er þáttur sem er ekki bara fyrir elítuna, heldur alla áhorfendur með snefilsáhuga á listum. Ekki ofsnobbaður þáttur eins og Mósaík áður.
Logi í beinni
Notalegur spjallþáttur með Loga Bergmanni. Er vissulega í anda Laugardagskvölds með Gísla Marteini sem var vinsælasti þáttur Sjónvarpsins fyrir nokkrum árum, en samt eru hlutirnir gerðir með þeim hætti sem hentar Loga. Góðir gestir, góð tónlist og yndislegt andrúmsloft. Getur ekki klikkað. Logi Bergmann er í essinu sínu þarna.
Spaugstofan
Langlífasti gamanþáttur íslenskrar sjónvarpssögu. Fjallar um fréttir vikunnar með sínum gamla góða hætti í grunninn. Brotthvarf Randvers var umdeilt og ekki bætti það þáttinn. Gestaleikarar setja svip sinn á þættina en gera misjafnlega mikið fyrir stemmninguna. Spaugstofan á það til að gera heilsteypt og vandað gamanefni en getur klikkað stórlega inn á milli. Heilt yfir alltaf áhugavert að fylgjast með. Þegar að þeir eru góðir toppar þá enginn en þeir eru orðnir gloppóttari en áður.
Sunnudagskvöld með Evu Maríu
Einlægir og vandaðir spjallþættir. Eva María er snillingur í að skapa hið rétta andrúmsloft, lætur viðmælandann tjá sig hreint út og nær inn að hjartarót með næmum spurningum og persónulegum. Kemur beint að kjarna málsins og kann sitt fag. Eva María er einn besti sjónvarpsmaðurinn sem við eigum í dag og er svona einskonar Jónas Jónasson nútímasjónvarpsins.
Allt í drasli
Áhugaverðir þættir þar sem skyggnst er inn í sóðaveröld landsmanna. Eva Ásrún og Margrét passa vel saman sem teymi í þessu þáttaformi og eru bæði einbeittar og líflegar. Rödd þulsins á milli atriða á vel við. Það er ótrúlegt að sjá hvað sumir geta safnað upp miklu af "drasli" inn í híbýli sín. Skemmtilega hversdagslegt sjónvarpsefni.
Kompás
Frábær fréttaskýringaþáttur sem þorir að taka á málum og talar mannamál í umfjöllun sinni. Stöð 2 gerir betur en Sjónvarpið í þessum efnum, en það er auðvitað með ólíkindum að ríkismiðillinn hafi ekki almennilegan fréttaskýringaþátt á dagskrá sinni. Það var reynt með Brennidepli, en svo var hann tekinn af dagskrá, eins kostulegt og það hljómar.
Tekinn 2
Áhugaverðir þættir, að bandarískri fyrirmynd Punk´d með Ashton Kutcher, þar sem þekkt fólk er tekið fyrir og hrekkt, oftast nær með sprenghlægilegum afleiðingum. Pottþéttur pakki og Auddi Blö er rétti maðurinn til að halda utan um hann.
Stelpurnar
Góðir gamanþættir með skemmtilegri blöndu af tvíræðum bröndurum og notalega svínslegum. Með bestu gamanþáttum síðustu ára. Stelpurnar klikka ekki.
Ertu skarpari en skólakrakki
Líflegir og snarpir þættir þar sem fullorðnir keppa við skólakrakka í gáfum. Gunnar Hansson stendur sig vel sem stjórnandi - klárir og skemmtilegir þættir.
Það sem mér finnst í heildina leiðinlegast eru auglýsingahléin inni í íslensku þáttunum, sem stundum eru sponseraðir af stórfyrirtæki og eru sýndir á áskriftastöðum. Þetta er alveg ólíðandi. Varð að bæta þessu við í blálokin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.11.2007 | 16:18
Vítisenglarnir farnir frá Íslandi

Fékk bæði tölvupósta og komment hér um skrif mín um þetta mál. Langflestir þeirra voru ánægðir með skrifin og sammála þeim. Það er mikilvægt að taka vel á þessu og sýna vítisenglum hver stefna íslenskra stjórnvalda er í þeim efnum. Það er talað um að þeir fari jafnvel í mál vegna þessara aðgerða. Það er auðvitað þeirra mál. Ég fæ ekki betur séð en að lögreglan hafi tekið á vanda með skynsömum hætti.
Það er kómískt að heyra suma líkja þessu máli við Falun Gong-málið fyrir fimm árum. Þetta tvennt á ekkert sameiginlegt. Þá kom til landsins hópur friðsamra mótmælenda sem vildi tjá skoðun sína vegna opinberrar heimsóknar Jiang Zemin. Vítisenglar eru útlent glæpagengi, þekkt fyrir hrotta. Þeir eiga ekkert erindi hingað. Þessar aðgerðir voru nauðsynlegar að öllu leyti.
![]() |
Vítisenglarnir farnir af landi brott |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.11.2007 | 23:14
Lögreglan heldur vel á málum í Leifsstöð

Það er reyndar með ólíkindum að íslenskir bifhjólamenn vilji samstarf með einum eða öðrum hætti við útlend glæpagengi, sem þekkt eru fyrir gróft ofbeldi og dópmál, og vilji greiða götu þeirra hérlendis. Af því stafar áberandi ógn sem taka verður á án þess að hika hið minnsta.
Greiningardeild lögreglunnar hefur gert sitt vel og heilt yfir eru þetta ákvarðanir sem skipta máli og ég held að meginþorri landsmanna sé ánægður með þessa niðurstöðu sem blasir við.
![]() |
Félögum í Vítisenglum neitað um landgöngu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.11.2007 | 18:39
Vítisenglar handteknir á Keflavíkurflugvelli
Ég held að enginn vilji sé meðal landsmanna fyrir því að taka á móti þessu fólki. Lögreglan hefur tekið sömu ákvörðun oft og er farið yfir sögu þess síðustu árin í fréttinni sem tengill er á neðst í færslunni. Þetta er rétt stefna. Vítisenglar eru að mestu leyti samansafn glæpamanna sem ferðast um heiminn. Saga þeirra er þekkt og talar sínu máli í gegnum síðustu árin sérstaklega.
Mikill aðbúnaður hefur verið á Keflavíkurflugvelli, sem er til marks um hversu alvarlegt þetta mál er metið. Lögreglan hefur unnið gott verk. Það er vert að hrósa henni gott verk.
![]() |
Vítisenglum snúið við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.11.2007 | 16:57
Englar vítis á leiðinni til Íslands
Það er sem flesta grunaði í gær; englar vítis hinir dönsku eru á leiðinni til Íslands í heimsókn. Ekki verður sagt að þetta séu aufúsugestir okkar hér og viðbúnaður við komu þeirra því enn meiri en gengur og gerist þegar að von er á farþegum frá Norðurlöndunum hingað á Frón. Það verður áhugavert að sjá hvað gerist á Keflavíkurflugvelli síðar í dag. Hversu harkalegt andrúmsloftið verður yfir komu gestanna.
Þessir englar vítis hafa komið hingað áður og ekki verið teknir neinum vettlingatökum. Árið 2002, að mig minnir, kom fjöldi þessara manna hingað til lands og þeim var vísað úr landi án tafar, áður en gestgjafarnir gátu svo mikið sem spurt hinnar margteygðu lykilspurningar til allra ferðamanna; How do you like Iceland? Sama hefur gerst nokkrum sinnum síðan.
Þessi heimsókn engla vítis á sér stað innan við sólarhring eftir að dóp og vopn voru gerð upptæk hjá Fáfni í Reykjavík. Margir spyrja sig í hvaða átt svartasti hluti þessa bransa er að þróast. En það er vonandi að tekið verði á komu þessara manna.
Að mínu mati eru þeir ekki velkomnir til Íslands. Það sést vel af viðbúnaði á Keflavíkurflugvelli þar sem um 70 lögreglumenn bíða komu vítisenglanna. Væntanlega verða þeir sendir aftur til síns heima í kvöld.
![]() |
Ríkislögreglustjóri með viðbúnað vegna komu Vítisengla til landsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2007 | 10:28
Million Dollar Baby - rífleg fatakaup

Það er oft erfitt að hugsa sér heiminn séð með augum þessara stjarna vestanhafs sem lifa sínu lífi í myndavélablossum og mismikilli óreglu í og með. Það er vissulega svo að flestar þessar stjörnur þurfa að eyða vænni fúlgu í að hugsa um útlitið, fötin og allt annað sem máli skiptir.
Samt eru þetta upphæðir sem meðaljóninn í mannlífshafinu botnar ekkert í. Ekki færa þessir peningar fólkinu hamingju en það þarf vænan skilding til að halda þeim lífsstandard sem mestu skiptir.
![]() |
Britney kaupir föt fyrir milljón á mánuði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.11.2007 | 22:28
Vopn og fíkniefni finnast hjá Fáfnismönnum

Mikið er talað um mögulega yfirvofandi komu meðlima Hells Angels hingað til lands í ellefu ára afmælishóf Fáfnis. Það eru nokkur ár síðan, sennilega fimm til sex, síðan að mikið var fjallað þá um komu fulltrúa danskra bifhjólamanna, sem hafa verið mjög umdeildir og var þeim vísað úr landi með hraði.
Mér finnst Hells Angels lítið hafa hingað að gera og fagna því að lögreglan taki á þessu máli fljótt og vel. Árangur húsleitarinnar segir allt sem segja þarf um stöðuna í þessum geira.
![]() |
Lögreglan lagði hald á vopn í félagsheimili Fáfnis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)