Færsluflokkur: Dægurmál

Neyðarlegur flótti á Suðurnesjum

Ekki er hægt annað en kenna eilítið í brjósti um lögreglumennina á Suðurnesjum sem misstu belgíska fangann úr varðhaldi. Þetta er mjög neyðarlegt klúður. Þessi flótti er ekki síður vandræðalegur en þegar löggan í Reykjavík missti Annþór Karlsson úr haldi með miklum mistökum. Vonandi tekst að handsama fangann og ljúka þessu máli með sóma.

Lögreglan getur vissulega gert mistök. Mistök hennar verða þó neyðarlegri en ella í svona tilfellum. Vonandi tekst þó að leysa úr þessari vandræðalegu flækju.

mbl.is Enn leitað að Belganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðastríð í beinni útsendingu



Jade Goody var algjörlega óþekkt þegar hún tók þátt í raunveruleikaþættinum Big Brother árið 2002, en náði að nota sviðsljósið sem farmiða inn í heimsfrægð á einni nóttu. Hún veiktist af krabbameini og háði mjög opinbera baráttu gegn sjúkdómnum í kastljósi fjölmiðla. Jade nýtti fjölmiðlaathyglina til að vekja athygli á sjúkdómnum og sjálfri sér, varð talsmaður á opinberum vettvangi allt til síðustu stundar.

Síðustu mánuðir á ævi hennar voru dókúmenteraðir frá upphafi til enda. Hún seldi fjölmiðlum algjöran aðgang að einkalífi sínu undir lokin. Þeir fengu aðgang að henni á sjúkrahúsi, fulla aðkomu að brúðkaupi hennar og Jack Twist. Hver mínúta varð að augnabliki í kastljósi fjölmiðla. Sjaldan áður hefur ein persóna kvatt og deilt síðustu augnablikum í fjölmiðlum.

Sumum fannst þetta sjúkt en aðrir dáðust að styrk hennar. Jade Goody mun væntanlega aldrei gleymast. Fólk verður svo að meta hvort dauðastríð í beinni útsendingu sé viðeigandi endalok baráttu eða siðlaust fjölmiðlaaugnablik. Allt hefur sinn tilgang sagði frægur fjölmiðlakóngur eitt sinn. Jade Goody lifði eftir því mottó til hinstu stundar allavega.


mbl.is Jade Goody látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Straumi kippt úr sambandi

Gott er að heyra að Fjármálaeftirlitið hafi tekið á málum Straums og komið þeim fyrir. Ljóst er að Straumi verður nú kippt úr sambandi, ólíkt viðskiptabönkunum þremur. Brunaútsala verður á eignum bankans. Þetta eru sorgleg endalok. Mikil verðmæti kröfuhafa og eigenda allt að því gufa upp.

Ég vorkenni starfsfólki bankans, samt öllu meir, en nokkru sinni hinum aðilum málsins. Þeirra bíða erfiðir tímar.

mbl.is Innistæður Straums flytjast yfir til Íslandsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andlit illskunnar afhjúpað án möppunnar

jfritzl
Josef Fritzl hefur verið nefndur andlit illskunnar í austurrískum fjölmiðlum, sem hafa ekki hikað við að niðurlægja hann, gera grín að honum og uppnefna, ekki að ástæðulausu. Fritzl hefur ekki þorað að sýna andlit sitt í réttarhöldunum og hefur falið það í blárri möppu, fullri af gögnum, til þess að fjölmiðlar geti ekki myndað svipbrigði hans. Fyrsta myndin af honum án möppunnar hefur farið á alla fréttavefi í heiminum í dag. Varð auðvitað fyrirsögn strax á fréttamiðlum að þeir hefðu náð bráðinni.

Pressan lýsir Fritzl sem aumingja, hann sé heigull að sýna ekki andlit sitt. Tek undir það. Dómurinn yfir honum verður þungur, bæði af hálfu dómstóla og almennings. Sálfræðilega er mikilvægt að skyggnast inn í svo sýktan huga; fá svör við spurningunum áleitnu og átta sig á því afli sem knúði hann í þennan blekkingarleik og misnotkun á eigin barni.

Og hvernig er hægt að færa afkomendur blóðskammarinnar lífið, sum eru um tvítugt fyrst að upplifa lífið. Áleitin viðfangsefni blasa við til að gefa þolendum tækifæri til að upplifa það líf sem við teljum sjálfsagðast af öllu í veröldinni. Og þessi hundingi fær þungan skell og á hann skilið.

mbl.is Fritzl sýnir andlitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Djöfull í mannsmynd

Eftir því sem Josef Fritzl talar meira um ástæður meðferðar sinnar á eigin dóttur verður það óhugnanlegra og sorglegra - hann er einfaldlega djöfull í mannsmynd. Mjög undarlegur er að hann reyni að milda álit fólks á sér með því að vitna í að hann hafi nú verið fórnarlamb sjálfur, sé annað hvort geðveikur eða bugaður af eigin lífsreynslu forðum daga. Þetta er útspil til að reyna að milda dóminn. Dæmt til að mistakast.

Öll verk þessa manns síðasta hálfan þriðja áratuginn sýna og sanna að maðurinn var viti sínu fjær, hreinlega djöfull í mannsmynd. Óhugur almennings er skiljanlegur og eðlilega er talað um dauðadóm. Æ fleiri styðja að taka upp dauðadóm í Austurríki svo taka megi Fritzl af lífi. Dómharkan er eðlilegt, enda velta allir fyrir sér hvernig nokkur maður geti komið fram við afkomendur sína með svo djöfullegum hætti.

Lýsingarnar á því hvernig hann gat spunnið verk sín áfram allan þennan tíma eru í senn sorglegar og ógnvekjandi. Sá maður sem getur beitt fólk af eigin holdi og blóði svo ógeðslegri meðferð er auðvitað fjarri því að vera heill á geði og væntanlega átti heldur enginn von á því. Þetta mál er fyrst og fremst áfellisdómur yfir þeim sem rannsökuðu það og áttu að kveikja á perunni.

Veigamiklar staðreyndir, sem gátu aldrei myndað heilstæða og eðlilega mynd, um Fritzl og heimilisaðstæður hans, auk þess karaktereinkenni hans og fyrri afbrot áttu að leiða menn rétta leið löngu fyrr. Þessi djöfull í mannsmynd mun vonandi hljóta makleg málagjöld að lokum.


mbl.is „Notaði hana eins og leikfang“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigga hafnað þrisvar - stórskandall í Idol

Maður er eiginlega alveg orðlaus eftir að horfa á mistökin gríðarlegu í Idol. Þvílíkur skandall. Meðferð stjórnenda þáttarins og dómnefndar á Sigga, frænda mínum frá Eskifirði, er alveg rosaleg. Fyrst er honum sagt að hann komist áfram úr kosningunni. Svo er það dregið til baka og annar tekur sætið vegna mistakanna þáttastjórnenda. Svo velur dómnefndin annan mann áfram og hafnar Sigga. Svo er tilkynnt um eitt aukasæti og stigahæsti tapari kvennaliðsins valin áfram og Sigga enn hafnað.

Þetta var einum of - til skammar fyrir einn sjónvarpsþátt. Er ekki lágmark að fara fram á fagmennsku í þáttastjórn og í dómnefndinni. Hún stóð sig engan veginn í kvöld. Valdi keppanda áfram sem var mun síðri en Siggi og fékk þar að auki mjög lélega dóma. Nú allt í einu vigtaði frammistaða kvöldsins ekkert heldur eitthvað allt annað. Þetta er nú meira klúðrið.

Menn verða að standa betur að málum eigi þessi þáttur að hafa snefil af trúverðugleika!


Kópavogur með Íslandsmetið í Útsvari

Vil óska Hafsteini, Víði og Kristjáni til hamingju með að sigra í Útsvari og tryggja þar með Kópavogi Íslandsmetið í Útsvari annað árið í röð. Hef fylgst með Útsvari af miklum áhuga í vetur. Þetta er ágætis spurningaþáttur, í og með svolítið dreifaralegur og skemmtilega hallærislegur í einfaldri umgjörð sinni.

Litasamsetningin í settinu og kynningarstiklunni, auk hins einfalda en smellna stefs er hallærisleg en flottur heildarpakki utan um pottþétt form á sjónvarpsefni sem allir fylgjast með, allavega með öðru auganu þó þeir vilji ekki viðurkenni það og stundum þeim báðum.

Alltaf er gaman að horfa á spurningaþætti og stemmningin var hin besta í þessum pakka. Þóra og Sigmar hafa staðið sig vel að halda utan um þáttinn. Liðin oftast nær verið mjög góð og fókusinn er hraður og góður.

Sumir hafa ekki tekið sig alvarlega, sem er mjög gott í og með. Enda á þetta að vera mest til gamans gert og baráttuhugurinn í keppninni á að vera að standa vörð um heiður sinnar heimabyggðar.

Sumir hafa gagnrýnt að keppnin sé að verða vettvangur fornra Gettu betur kappa. Má vera. Kannski er ágæt blanda að hafa þá inn á milli. En það er gott að hafa metnað í þessari keppni með öðru.

mbl.is Kópavogur vann Útsvarið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldamorð í Þýskalandi - fyrirmyndin í Columbine

Enn einu sinni er framið fjöldamorð í skóla, að þessu sinni í Þýskalandi og fyrr í vikunni í Alabama í Bandaríkjunum. Málin er eins og flest hin fyrri. Dagfarsprúður nemandi á sér dökka hlið, missir stjórn á sér, hefnir sín á öllum sem hann þolir ekki og slátrar þeim. Í Alabama var fjöldamorðinginn t.d. með skrifaðan lista yfir þá sem hann ætlaði sér að drepa. Sá þýski drap eins flestar stelpur og hann gat, öllum sem hann sá.

Mér finnst þessi mál öll sýna mjög mikið hatur og innbyrgða reiði, sennilega á samfélaginu og öllu í kringum hann. Þetta minnir sérstaklega á fjöldamorðið í Columbine. Öll þekkjum við hin málin: Kauhajoki og Jokela í Finnlandi, Virginia Tech og Dunblane. Að flestu leyti voru þetta skotárásir þar sem vegið var að samfélaginu, óður byssumaður að tala gegn samfélaginu og gildum þess, auk þess að hefna sín á öðrum.

Samt er það svo ólýsanlega sorglegt að námsfólk með framtíðina fyrir sér sé tilbúið til að fórna lífinu og drepa aðra vegna slíks boðskapar. Margir hafa horft til byssueignar. Michael Moore gerði heila heimildarmynd þar sem hann tók fyrir þau mál, Bowling for Columbine, sem var inspíruð af Columbine-fjöldamorðunum sem Harris og Klebold stóðu að. Þetta eru oftast einfarar í skugga félagslífsins og lifðu sínu lífi.

Mjög margt í öllum þessum málum er rakið til áhrifa frá Columbine og Virginia Tech-málunum. Fjöldamorðingarnir Cho Seung-Hui í Virginia Tech og Auvinen í Jokela stúderuðu Harris og Klebold og töluðu báðir um þá sem píslarvætti. Columbine er orðið ógnvekjandi cult-fyrirbæri margra nemenda um víða veröld.

Þessi þýski harmleikur og hinir finnsku áður verða sífellt sterkari myndræn áminning um að klikkaður árásarmaður leynist ekki bara í bandarískum skólum. Hættan er til staðar allsstaðar.

mbl.is Byssumaðurinn: Eruð þið nú öll dáin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vestfirskir barnavagnadekkjaþjófar

Ekki finnst mér nú mikil reisn yfir því að sautján ára strákar geti ekki fundið sér önnur dekk á kassabílinn sinn nema að stela því að barnavagni. Ekki mjög frumlegt og eiginlega pínlega slappt að öllu leyti. Get ekki ímyndað mér að þeir séu stoltir af því að verða þekktir sem barnavagnadekkjaþjófar. Ekki mikil karlmennska yfir því, satt best að segja.

Þeir sem hafa ekkert við tímann að gera nema að stela frá smábörnum eru ekki beint merkilegir. En vonandi gengur þeim betur við kassabílinn og geta fengið sér almennileg dekk án þess að leita til smábarnanna.

mbl.is Stálu dekkjum undan barnavagni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfilegur bandarískur raunveruleiki

Dapurlegra er en orð fá lýst að lesa fréttir af því að bandarískur strákur hafi ákveðið að drepa ófríska sambýliskonu pabba síns, að því er virðist að tilefnislausu. Þó að bandarískt samfélag sé að mörgu leyti óútreiknanlegt er þetta svo kaldrifjaður verknaður að það er ekki nema von að spurt sé hvernig að börn komist í skotvopn með þessum hætti og brenglist svona gjörsamlega.

Þetta mál minnir á mörg þekkt af þessu tagi í bandarísku samfélagi þar sem hin fullkomna fjölskylda býr í flottu hverfi en eitthvað er þar stórlega að. Erfitt er að fá svör við stóru spurningum þessa máls. Fyrstu viðbrögðin verða þó eðlilega undrun. Þó bandarískt samfélag sé óútreiknanlegt og kaldrifjað hlýtur þetta að teljast merki um veikar stoðir samfélags.

Er tölvuleikjaveruleikinn, þar sem hægt er að skjóta niður fólk endalaust, og kuldalegt efni þar sem morð og óhugnaður er aðalefnið að hafa slík áhrif á ungt fólk að það geti verið svo kaldrifjað að slátra sínum nánustu, jafnvel algjörlega af tilefnislausu? Ekki nema von að spurt sé.

Rætt hefur verið mörgum sinnum á undanförnum árum um skotvopnaeign í Bandaríkjunum; hversu auðveldlega ungt fólk geti komist í skotvopn og misst algjörlega stjórn á sér; nægir þar að hugsa til fjöldamorðanna í bandarískum skólum. Við höfum séð slíkar árásir hér á Norðurlöndum.

Erfitt er að finna einhverja eina töfralausn. Ein þeirra er þó að endurskoða byssulög og herða viðurlög til muna en það er ekki ein gullin töfralausn, enda hefur sannast að sé nógu kaldrifjaður vilji að baki þess að gera slíkt og hugurinn að baki er brenglaður getur fátt stöðvað hann.

En þegar að ellefu ára gamalt barn getur framið slíkan verknað og hafa aðgang að vopnum er eðlilegt að spurningin sé hvað sé eiginlega að gerast. Hvar er samfélagið að bresta?

Vonandi leggjast Bandaríkjamenn nú í alvöru pælingar um skotvopnavandann og hvað sé að gerast í þeirra samfélagi.

mbl.is 11 ára drengur ákærður fyrir morð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband