Færsluflokkur: Dægurmál

Einfaldleikinn sigrar maskínuna í Eurovision

Mér finnst það svolítið skondið að lögin sem mest voru prómóteruð af einhverjum pr-sérfræðingum og hafin upp til skýjanna með ofspilun hafa tapað Eurovision-keppninni tvö ár í röð. Þetta gerðist í fyrra með lag Merzedes Club og aftur nú með Elektru. Reyndar er merkilegast af öllu við keppnina í ár að ballaða, mjög einföld í sniðum og látlaus, vinni keppnina umfram þau sem mest voru kynnt og voru í einhverju svokölluðu Eurovision-formi.

Þrátt fyrir að reynt hafi verið að höfða til ungra sms-kjósenda tókst markaðssetningin einfaldlega ekki, einhverra hluta vegna. Einhverjir myndu kannski segja að þessi blokk hafi einfaldlega skipst á Elektru og Ingó Idol og það tryggt Jóhönnu Guðrúnu sigur. Ég hallast þó að því að einfaldleikinn hafi einfaldlega sigrað pr-maskínuna sem sett var upp með lagi Elektru.

mbl.is Elektra miklu vinsælli en Jóhanna?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiðarleg viðurkenning hjá Birni Jörundi

Björn Jörundur Friðbjörnsson gerir rétt í því að viðurkenna alvarleg mistök sín með viðskiptum við dópsala. Þetta er heiðarlegt og rétt skref, enda ekki hægt að tala í kringum þetta mál eins og staðan er orðin. Þetta er skaðlegt mál og mjög vandræðalegt fyrir hann, enda er hann sem tónlistarmaður virtur fyrir sín störf og þátttaka hans í einum vinsælasta sjónvarpsþætti landsins setur hann á vissan stall í samfélaginu og hann á að vera meðvitaður um að hann verður að hafa trausta ímynd í framkomunni þar.

Stöð 2 þarf nú að ákveða hvernig ímynd Idol eigi að vera í kjölfarið. Þetta er vont mál og erfitt fyrir Stöðina, enda getur varla verið gott fyrir orðspor þáttarins að blandast í þetta mál vegna alvarlegra mistaka eins þáttarstjórnandans. Þegar vinir söngvarans og samstarfsfélagar eru farnir að gagnrýna veru hans í þættinum er eðlilegt að stöðin hugleiði hvernig þeir vilja að þátturinn líti út og hugleiði ímyndarmálin, ekki aðeins frá sinni hálfu heldur eins af andlitum þáttarins.

mbl.is Björn Jörundur viðurkennir mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Björn Jörundur rekinn úr Idolinu?

Enginn vafi leikur á því að atburðarás dagsins í fíkniefnamálinu í dag er áfall fyrir Stöð 2 og Björn Jörund Friðbjörnsson. Varla er hægt að sjá nokkra atburðarás þess efnis að hann haldi áfram sem dómari í vinsælum sjónvarpsþætti og verði kynntur til leiks á þeim vettvangi á næstu vikum eftir slíkan skell. Varla þarf sérfræðing til að sjá að hann talar um fíkniefnaviðskipti, enda hefur sjálfur Bubbi Morthens, sem valdi Björn Jörund sem dómari í þáttinn sinn á síðasta ári, talað hreint út um hvað Björn Jörundur meinti.

Stöð 2 hlýtur að hugsa um ímynd sína og trúverðugleika þáttarins þegar þeir hugleiða næstu skref í þessu leiðindamáli.

mbl.is Bíður yfirlýsinga frá Idol-dómara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttan um heimsfræga barnið

Óhætt er að segja að stúlkubarnið breska sem á unglingsforeldra hafi orðið heimsfrægt á einni nóttu og myndin af þrettán ára pabbanum, sem lítur frekar út eins og átta eða níu frekar ára, er á öllum helstu vefmiðlum heims. Í Bretlandi hefur umræðan þó aðallega snúist um siðferðilegu hliðina, þ.e.a.s. á hvaða leið breskt samfélag sé og hvort þetta sé dæmi um hnignandi siðferði og tákni veikari stöðu fjölskyldugildanna. Meira að segja Gordon Brown og David Cameron hafa komið í fjölmiðla til að lýsa yfir áhyggjum sínum af því að unglingar verði foreldrar.

Nú er komið í ljós að pabbinn ungi er kannski ekki pabbi eftir allt. Strákar standa víst í biðröð og gera tilkall til þess að eiga hið heimsfræga barn. Þetta mál er að snúast upp í algjöran skrípaleik og vekur sennilega einmitt frekar upp siðferðilegar spurningar en annað og vekur upp vangaveltur um breskt samfélag og þróun þess.

mbl.is Hver er pabbinn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil mildi að vel fór við Tjörnina

Óhætt er að segja að mikil mildi hafi verið að ekki hafi verr farið þegar hestarnir fóru niður um ísinn á Tjörninni. Þarna skiptir öllu máli hin réttu viðbrögð og taka á því af ábyrgð og úthugsað. Fjölnir virðist hafa bjargað því sem bjargað varð og staðið sig frábærlega. Hann hlýtur að fá hrós dagsins fyrir sín viðbrögð.

mbl.is „Einn í einu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur árangur hjá Heru Björk

Ég vil óska Heru Björk innilega til hamingju með glæsilegan árangur í dönsku Eurovision. Annað sætið er mjög fínt, þó vissulega hefði verið skemmtilegra ef hún hefði unnið keppnina og við átt tvö íslensk lið í keppninni þetta árið. Hera Björk söng lagið mjög vel og átti flotta sviðsframmistöðu og getur verið stolt af sínu.

Ekki er það á hverjum degi sem íslenskur söngvari kemst næstum því í Eurovision fyrir aðra þjóð en Ísland. Ætli Eiríkur Hauksson sé ekki sá eini sem hefur náð þeim árangri að syngja fyrir Ísland og aðra þjóð til í aðalkeppninni.

Þetta er útrás sem við getum sannarlega verið stolt af.


mbl.is Hera Björk í 2. sæti í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaukur sýknaður - merkilegur bloggdómur

Mér finnst merkilegt að Ómar R. Valdimarsson hafi tapað málinu sem hann höfðaði gegn Gauki Úlfarssyni vegna ummæla hans í sinn garð. Þarna er snúið við fyrri úrskurði þar sem ummælin voru dæmd dauð og ómerk og Gaukur þurfti að borga skaðabætur. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að fólk verði að gá að sér þegar að það skrifar á blogg. Eitt er að hafa skoðanir, annað er að ráðast ómerkilega að fólki og með ósmekkleg ummæli.

Mér fannst Gaukur ekki ganga mjög harkalega fram í þessu máli og skil því niðurstöðuna. Of langt hefði verið gengið í að dæma hann harkalega fyrir þetta. Eflaust verða málin fleiri síðar meir en þetta er sögulegur dómur og mjög merkilegur, enda hlýtur hann að setja svolítið fordæmi og hækka standardinn um hversu langt megi ganga í bloggskrifum.

Eflaust er metið hvert mál fyrir sig, en bloggskrif verða sífellt algengari og sumir ganga misjafnlega langt í orðavali. Á næstu árum mun sífellt meira reyna á hversu mikið er að marka bloggskrifin og hversu langt sé hægt að ganga.

mbl.is Sýknaður af ummælum í bloggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Telja dómstólar flengingar farsæla uppeldisaðferð?

Mér finnst það mjög sérstakt að dómstólar telji flengingu vera eðlilega og farsæla uppeldisaðferð. Í öllum siðmenntuðum samfélögum hljóta að vera betri leið til að ala upp börnin sín en beita þau ofbeldi eða flengja þau. Ég hef alltaf litið svo á að flenging sé lágkúra og geri börn beisk og reið frekar en þau verði betri einstaklingar fyrir vikið. Þetta á að vera hluti af fortíðinni.

Mér finnst reyndar mjög sérstakt að þessi maður er haldinn bdsm-órum. Fær fólk útrás fyrir það eðli sitt með því að flengja börn sambýlisfólks þess? Mér finnst þetta mjög sjúkt.

mbl.is Mátti flengja drengi kærustu sinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þreytuleg sparnaðarsöngvakeppni

Ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með undankeppni Eurovision að þessu sinni. Sum lögin eru ekkert spes og umgjörðin er frekar þreytuleg. Kannski er líka ekki stemmning fyrir þessu. Fannst samt notalegt og sætt að sjá hina sjötugu Erlu Gígju Þorvaldsdóttur úr Skagafirðinum komast áfram með lagið sitt, Vornótt. Gamaldags og gott lag, ekta lagasmíð og traust. Mjög merkilegt að sjá tvö svo gjörólík lög komast áfram, en lagið með Ingó var alveg ágætt - allavega stemmning í því rétt eins og Bahama.

Greinilegt er að sparað er eins og mögulegt má vera í söngvakeppninni að þessu sinni. Glamúrkjólar Ragnhildar Steinunnar eru komnir í geymsluna og hún látlaust klædd með Evu Maríu, aldrei þessu vant. Svo er gamla sviðsmynd þáttarins hennar Ragnhildar Steinunnar búin að fá nýtt hlutverk í söngvakeppninni. Eitthvað hljóta menn að spara með því að hætta með sérhönnuð dress og að byggja sérstakt svið fyrir fjóra til fimm þætti í sjónvarpssal.

En reyndar má tónlistin eiga það að hún sameinar fólk og flestir horfa á þetta hvort sem þeim svo líkar eður ei. Allir tala um þetta, hvort sem þeir tala showið í kaf eða lofsyngja það. En ég velti fyrir mér hvernig lögin hljómuðu sem var hafnað, miðað við það sem komið er þetta árið af lögunum sem hlutu náð fyrir augum dómnefndar.

Eitt að lokum, finnst ykkur ekki eins og mér að sumir brandarar þeirra Evu og Ragnhildar séu frekar ódýrir?

mbl.is Lögin sem komust áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðhetjan Sullenberger - frændi Jóns Geralds?

Á einni nóttu varð flugstjórinn Chelsey B. Sullenberger þjóðhetja í Bandaríkjunum. Stofnaðir hafa verið aðdáendahópar um hann á facebook og talað mjög vel um afrek hans. Auðvitað er þetta mikið afrek. Sumir segja að þetta sé fádæma heppni og hafa dregið úr afrekinu. Mér er alveg sama hvað sumir segja. Mér finnst það mikið afrek að ná að lenda vélinni svo vel og tryggja að allir sem um borð voru lifðu slysið af. Þessi nauðlending er eitt afrekanna í flugsögu síðustu ára, alveg hiklaust.

Ættarnafnið er samt mjög kunnuglegt. Ætli að þetta sé frændi Jóns Geralds?

mbl.is Ólík viðbrögð í nauðlendingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband