Færsluflokkur: Íþróttir

Boltasviptingar - stjörnuhrap meistaranna

Úr leiknum Ekki vantaði sviptingarnar í boltanum í kvöld. Íslands- og bikarmeistarar Vals og FH úr leik í bikarnum - Breiðablik og Haukar komast í átta liða úrslitin en meistararnir ekki. Merkileg tíðindi og ekki beint í takt við spár. Meiri óvissa en ella yfir bikarnum.

Er viss um að sá hefði varla verið talinn mikill boltaspekúlant sem hefði spáð Haukum áfram sem fulltrúum Hafnfirðinga í átta liða úrslitin og þeir myndu komast lengra en margverðlaunaðir nágrannar þeirra í FH.

Blikarnir hafa verið að spila mjög gloppótt í sumar og tekst nú að sparka Völsurum út úr bikarnum. Allavega er þetta mómentið til að brillera fyrir þá í Kópavogi og bætir upp vonbrigði sumarsins.

Keflavík, Fjölnir og KR hljóta að telja vænlegust fyrirfram í bikarnum. Í fyrra tókst Fjölni að komast í úrslitaleikinn gegn FH. Þeir voru spútnikk-lið þess sumars og verða það kannski aftur núna. Keflavík hefur verið að standa sig vel í sumar og gætu tekið þetta.

Svo eru KR-ingar örugglega orðnir hungraðir í titil. Þeir hafa ekki unnið titil í hvað fimm ár að mig minnir. Hafa ekki unnið titil síðan Willum þjálfaði þá fyrr á þessum áratug og ekki unnið bikarinn síðan 1999.

Stjörnuhrapið í kvöld gerir bikarúrslitin vonandi bara ennþá meira spennandi. Lið sem fáir spáðu áfram geta svo líka haldið áfram að koma á óvart. Hver veit.

mbl.is Bikarmeistaralið FH féll úr keppni í Keflavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðskuldaður sigur hjá Spánverjum á EM

Spánverjar fagna sigri Spánverjar unnu Evrópumeistaratitilinn í kvöld mjög verðskuldað. Þeir voru hungraðir í sigur eftir mörg mögur ár á stórmótum knattspyrnunnar og áttu sigurinn meira skilið en Þjóðverjar. Mér fannst Spánverjar eiga þennan úrslitaleik frá upphafi til enda, Þjóðverjar byrjuðu ágætlega en þetta rann út í sandinn hjá þeim um miðjan fyrri hálfleikinn. Torres var svo arkitektinn að sigri sinna með glæsilegu marki.

Þó að ég hafi haldið með Þjóðverjum alla tíð var ekki annað hægt en verða fyrir vonbrigðum með hversu daufir þeir voru í þessum úrslitaleik. Átti von á sterkari leik og hann myndi verða jafnari. Bæði lið voru hungruð í sigur á mótinu en krafturinn, einbeitingin og samstaðan í spænska liðinu var miklu sterkari. Þeir tóku þetta mót yfirvegað og klókt, voru mjög góðir.

Eiginlega átti ég von á því fyrirfram að þetta yrði enn eitt mótið þar sem Spánverjar myndu klúðra sínum málum. Þeir hafa ekki unnið titil síðan á heimavelli á EM 1964. Þeir voru eiginlega í bakgrunni góðs árangurs Króata, Rússa og Hollendinga. Fóru síðar lengra en þeir og trompuðu mótið, slógu niður þýska stálið.

Þeir eiga þetta skilið. Það kemur sér allavega vel núna að Spánn er það lið sem ég hef haldið með á EM, fyrir utan Þýskaland. Er ánægður með að þeim tókst loksins að losna við bölvunina miklu, að ná ekki að vinna stórmót áratugum saman.

Ekki annað hægt en hugsa hlýlega til Spánar á þessum kuldalega sumardegi hér fyrir norðan. Mikið væri helvíti gaman að vera á spænskri sólarströnd eða í Barcelona, fallegustu borg Evrópu, núna.

Viva España! :)


mbl.is Spánn Evrópumeistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spánverjar valta yfir Rússana

Silva og Fabregas fagna sigrinum Ekki var mikið um spennu í undanúrslitaleik Spánverja og Rússa á EM í kvöld. Spánverjar tóku Rússa í kennslustund um grunnatriði knattspyrnu, mörgum að óvörum, völtuðu algjörlega yfir þá og niðurlægðu þá. Ekki var vottur af baráttukrafti í Rússum og þeir fengu laglegan skell, sem flestir knattspyrnuáhugamenn áttu ekki von á eftir frábært gengi þeirra á mótinu.

Varla var að sjá að Rússar væru hungraðir í sigur, voru skugginn af liðinu sem valtaði yfir Hollendinga um síðustu helgi og virtust líklegir til að fara jafnvel alla leið. Í kvöld voru þeir lélegir og báru meiri virðingu fyrir Spánverjum en flestir áttu von á að þeir myndu sýna í svo mikilvægum leik. Niðurstaðan því háðugleg útreið fyrir Rússa og eflaust er bömmer í Rússlandi í kvöld.

Maðurinn sem stýrði yfirtökunni á Hollandi á laugardaginn, Arshavin, var tekinn úr umferð og var ekki mjög áberandi. Auk þess var greinilegt að Rússar voru ekki í stuði og því fengu þeir svo vondan skell.

Líst vel á úrslitaleikinn á sunnudag. Verður fínn lokapunktur á mótinu. Spánverjar hafa beðið lengi eftir sínu tækifæri og Þjóðverjar eiga harma að hefna eftir HM 2006. Bæði lið ættu því að mæta hungruð til leiks.

Fátt annað hægt að segja í lokin en Deutschland über alles! Grin

mbl.is Spánn mætir Þýskalandi í úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stelpurnar að brillera - farseðill á EM í sjónmáli

Úr leik Íslands og Grikklands Alveg var það yndislegt að sjá leikgleðina og kraftinn í íslenska kvennalandsliðinu þegar að þær tóku þær grísku í kennslustund í boltanum og sigruðu þær 7-0 í landsleiknum áðan. Liðið er í fyrsta klassa og er vonandi á leiðinni á EM í Finnlandi 2009. Þeim dugar nú bara jafntefli til að fá farseðilinn.

Ef þær halda áfram að spila eins og þær gerðu í kvöld er næsta víst að það mun takast. Fókusinn er nú á kvennalandsliðið mun frekar en karlaliðið, sem er heillum horfið og í tómum vandræðum. Nú flykkist fólk á völlinn til að sjá stelpurnar okkar, sem eru að uppskera flott. Loksins er kvennaboltinn að fá verðskuldaðan sess. Nú er hann í ljóma sigursældar og góðs árangurs.

Þeir dagar eru liðnir að litið sé á kvennaboltann sem minna spennandi en karlaboltann. Þetta er hið besta mál. Þetta er lið sem getur farið mjög langt - liðsheildin er öflug og landsmenn styðja stelpurnar 110%. Allt skiptir þetta máli - úr verður sigursæl blanda, sem varla getur klikkað. Það sjáum við vel á þessum fagra júnídegi.

mbl.is Yfirburðasigur á Grikkjum, 7:0
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðverjar í úrslit - Tyrkir fara heim með sæmd

Philipp Lahm Mikið var það nú sætt að sjá Þjóðverja komast í úrslitin á EM í kvöld. Eftir tapið á heimavelli á HM 2006 vilja Þjóðverjar fara alla leið og vonandi munu þeir vinna mótið á sunnudaginn. Tyrkir fara þó heim með sæmd, þeir stóðu sig mjög vel á mótinu, hiklaust einn af senuþjófum mótsins - komust lengra en flestum óraði fyrir. Áttu góðan leik í kvöld og litlu munaði að þeim tækist að tryggja sér framlengingu.

Þvílíkur megapirringur að leikurinn datt út æ ofan í æ og aðeins hægt að sjá á svipbrigðum stuðningsmanna í Tyrklandi og Þýskalandi hvernig staða leiksins var - hvað væri eiginlega að gerast. Sérstaklega var biðin eftir sambandi við leikinn erfið á meðan tvö mörk komu undir lokin og menn voru að reyna að spá í svipbrigði fólksins hvað væri að gerast í leiknum. Svolítið sérstakt að horfa á leik þannig og eiginlega ekki beint áhugavert.

En þetta var fínn leikur og flott að sjá Þjóðverja í úrslitum. Þjóðhetjan Lahm tók þetta með trompi undir lokin og sendi Tyrkina heim með stæl. Hef haldið með þýska landsliðinu á knattspyrnustórmótum síðan ég man eftir og þetta mót engin undantekning þar á. Vonandi ná þeir að vinna Spánverja eða Rússa á sunnudag.

Rússar hafa verið að standa sig mjög vel og eru með sannkallað spútnikk-lið með Arshavin fremstan í flokki. Finnst líklegra að þeir komist í úrslitin. Verður spennandi fótboltakvöld á morgun.

mbl.is Þjóðverjar unnu Tyrki 3:2 og leika til úrslita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur sigur - nýjir tímar í kvennaboltanum?

Margrét Lára fagnar með stelpunum Margrét Lára fagnar með stelpunum Stelpurnar okkar stóðu sig frábærlega í dag og burstuðu slóvenska liðið í sumarblíðunni 5-0; takk fyrir! Glæsilegur sigur, stelpurnar áttu hann svo sannarlega skilið. Liðsandinn og stemmningin skein af liðinu og þær fóru algjörlega á kostum. Margrét Lára, íþróttamaður ársins 2007, var stjarna leiksins og sýnir enn og aftur hversu góð hún er.

Ekki fer á milli mála að þetta landslið er að blómstra - þjálfari og leikmenn samstíga í góðum verkum. Þarna er gott starf til fjölda ára að skila sér svo sannarlega. Auðvitað eru nýjir tímar í kvennaboltanum. Fókusinn er nú á kvennalandsliðið mun frekar en karlaliðið, sem er heillum horfið og í tómum vandræðum. Nú flykkist fólk á völlinn til að sjá stelpurnar okkar, sem eru að uppskera flott.

Þetta er auðvitað stórglæsilegur árangur - loksins er kvennaboltinn að fá verðskuldaðan sess. Nú er hann í ljóma sigursældar og góðs árangurs. Þeir dagar eru liðnir að litið var á kvennaboltann sem minna spennandi en karlaboltann. Svo góður árangur byggir ekki bara góða liðsheild heldur tryggir að landsmenn vilja fylgjast með. Landsmenn hafa sjaldan stutt eins vel við bakið á kvennalandsliðinu og nú, enda er stemmningin þannig að landsmenn fylgjast með.

Ekki fer á milli mála, eftir þennan sigur og á Serbum í fyrra, að þetta er lið sem eru allir vegir færir. Þetta er lið sem getur fært góða sigra, liðsheildin er öflug og landsmenn styðja stelpurnar 110%. Það allt skiptir máli. Þetta er blanda sem getur varla klikkað. Það sjáum við vel á þessum fagra júnídegi.

mbl.is Ísland vann stórsigur á Slóveníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatík í Vín - ævintýralegur sigur Tyrkja

Semih Senturk Næsta víst er að þjóðarsorg er í Króatíu eftir að Tyrkjum tókst að slá þá út úr EM með ævintýralegum hætti fyrir stundu, eftir framlengingu og vító. Þvílík dramatík og spenna - frábær leikur. Þegar Króatar voru farnir að fagna sigri eftir mark á lokamínútu framlengingar náði Semih Senturk að jafna og halda Tyrkjum inni í leiknum. Tóku svo vító með bravúr.

Króatar voru alveg eins og sprungin blaðra eftir mark Senturk og fundu ekki fjölina í vító, klúðruðu þrem vítaspyrnum og færðu Tyrkjum sigurinn, sem þeir áttu svo sannarlega skilið eftir þennan dramatíska lokakafla. Fannst eins og æðri máttarvöld væru með Tyrkjum og stýra þeim í gegnum leikinn. Hvað er annars hægt að segja eftir svona leik? Mögnuð frammistaða. Lið sem nær svona endaspretti getur farið mjög langt.

EM-sumarið hefur verið stórskemmtilegt. Hef horft á flesta leikina, ekki getað séð þá alveg alla. En þetta er pottþétt kvöldstund og spennandi leikir framundan á næstu dögum. Finnst Sjónvarpið haf staðið sig vel með EM-umfjöllunina. Þorsteinn J. og spekingar hans að brillera með fínan pakka. Ekki hægt að hafa þetta betra. Á morgun er svo meiri spenna þegar Hollendingar og Rússar mætast.

Finnst Hollendingar vera með skemmtilegasta lið mótsins, verið stjörnur þess það sem af er. En fyrst verða þeir að leggja Rússa og svo annaðhvort Spánverja eða Ítali. Fróðlegt að sjá hvernig það gengur. Hef alltaf haldið með Þjóðverjum svo ég vona að þeir nái að slá á tengsl Tyrkjanna við æðri máttarvöld í næstu viku.

mbl.is Tyrkir unnu í dramatískum leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland fær ekki farmiða á HM - töpuðu úti

Guðjón Valur Það fór eins og flestum grunaði; íslenska landsliðið náði ekki að tryggja sér farmiða á HM á næsta ári og að leggja Makedóna. Þó seinni leikurinn væri spilaður hér töpuðu okkar menn ekki möguleikanum á farmiðanum á heimavelli heldur úti. Liðið lék afspyrnuilla gegn Makedónum fyrir viku - fengu einfaldlega vænan rassskell.

Þeir áttu ekki betra skilið en þetta og verða bara að bíta í það súra að þurfa að sitja heima. Þess í stað verður liðið að sýna sitt besta á Ólympíuleikunum í Peking núna í sumar. En auðvitað er það slæmt að landsliðinu hafi ekki tekist að tryggja sæti á HM, en þetta er einfaldlega staðan. Þrátt fyrir góðan seinni hálfleik tókst þetta ekki. Með tapinu úti gerði liðið sér baráttuna erfiðari en ella og svo fór sem fór.

Vonandi er að landsliðið taki sig saman í andlitinu og færi okkur betri handbolta á Ólympíuleikunum en þeir sýndu úti fyrir viku þar sem baráttan fyrir HM-sætinu tapaðist með afspyrnuslappri frammistöðu.

mbl.is Ísland kemst ekki á HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonbrigði í Makedóníu - þvílík rassskelling

Guðjón Valur Mikil eru vonbrigðin eftir landsleikinn í kvöld. Strákarnir okkar voru rassskelltir svo um munaði af Makedónum á heimavelli. Neistann vantaði algjörlega í leikinn í kvöld. Varla var að sjá að þetta væri sama liðið og tók Svíana um síðustu helgi og kom okkur á Ólympíuleikana í Peking í sumar. Varla er bjóðandi heilli þjóð að horfa upp á svona algjört and- og máttleysi eins og við blasti í kvöld.

Verð að viðurkenna að ég var allt að því farinn að gapa af undrun og ergju á vissum kafla leiksins. Allir keppnis- og skapmenn þola svona áberandi down-tíma. Hreint út sagt. Ef landsliðið leikur svona illa á heimavelli gegn Makedónum getum við búist við vondum skelli. Allt þarf að ganga upp til að snúa megi þessu við.

Enn hafa strákarnir tíma til að hysja upp um sig brækurnar og taka á þessu. En það er með handboltann eins og annað; you win some - lose some. Verðum bara að vona það besta fyrir hönd liðsins.

En svona skelfingarpakki og við sáum í kvöld er merki þess að eitthvað sé að og eðlilegt að hugleiða ekki bara hvernig næsti leikur fari heldur hvort við fáum skell í Kína í sumar.

mbl.is Ísland tapaði með átta marka mun, 34:26, fyrir Makedónum í Skopje
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland á ÓL - glæsilegur sigur á Svíum

Úr leik Íslands og Svíþjóðar Mikið innilega var það nú sætt og gott að sjá íslenska liðið sigra það sænska í kvöld í Póllandi og komast þar með á Ólympíuleikana í Peking í sumar. Þetta er góð hefnd fyrir rasskellinn sem þeir veittu okkur á EM í janúar, sem var skelfilegur leikur hjá okkur og markaði ekki gott mót fyrir okkur. Því er þetta svo góður sigur, einkum í ljósi þess.

Þetta er sannarlega langþráður íslenskur sigur gegn Svíum og bætir upp katastrófuna sem við upplifðum er við mættum þeim síðast. Er svo beinlínis fyndið að sjá Svíana kvarta yfir að hafa ekki fengið dæmt eitt markið sitt. Þetta væl hljómar sem síðasta hljóðið í þjálfaranum þeirra, sem var rekinn eftir tapið. Væntanlega er Faxi hinn margþekkti að verða þjálfarinn þeirra. Skiptir svosem ekki máli. Þetta er sætt fyrir okkur og Svíar hafa gott af því að sleikja sárin sín.

En til hamingju strákar. Ykkur tókst að vekja aftur áhugann á handboltanum og það var glaðst í hverri stofu landsins er sætið til Peking var tryggt. Vonbrigðin eftir EM eru gleymd og nú verður horft af áhuga á ólympíuhandbolta í sumar.

mbl.is Svíar kvarta en kæra ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband