Guðbjartur sigrar - Anna Kristín fellur um sæti

Guðbjartur Hannesson Úrslit liggja nú fyrir í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Guðbjartur Hannesson, skólastjóri á Akranesi, sigraði í prófkjörinu og verður leiðtogi Samfylkingarinnar í kjördæminu í stað Jóhanns Ársælssonar, sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Guðbjartur hefur ekki áður setið á þingi og er því nýliði í þessum efnum. Guðbjartur hlaut fyrsta sætið með 477 atkvæðum. Ekki var langt á milli efstu manna, en alls sóttust fimm eftir fyrsta sætinu í þessu prófkjöri.

Í öðru sætinu varð Karl V. Matthíasson, sem hlaut 552 atkvæði í 1.-2. sætið. Karl ætti því að komast aftur á þing, en hann var þingmaður Vestfirðinga 2001-2003. Anna Kristín Gunnarsdóttir, alþingismaður, varð þriðja og með 582 atkvæði í 1.-3. sæti og Sigurður Pétursson, bæjarfulltrúi á Ísafirði, 790 atkvæði í 1.-4. sæti. 1668 greiddu atkvæði og voru 69 seðlar auðir og ógildir. Þetta eru merkileg tíðindi og boða nokkra uppstokkun.

Með þessu fellur Anna Kristín um sæti og er í raun komin í varamannsframboð og komin í óvissuna. Mjög merkilegt alltsaman, enda er Anna Kristín þegar farin að tala um tap kvenna í kjördæminu. Það er því ljóst að ekki eiga konur upp á pallborðið í kjördæminu, en Anna Kristín er eina þingkona kjördæmisins.

Auk þess datt Helga Vala Helgadóttir niður er leið á, en hún var fyrst þriðja og svo fjórða áður en hún datt út endanlega úr efstu sætum. Mikla athygli vekur að Sveinn Kristinsson, leiðtogi Samfylkingarinnar á Akranesi, komst aldrei á blað í talningunni og hljóta sárindi hans að vera nokkur er úrslitin liggja fyrir.

Það verður fróðlegt hver umræðan verður að prófkjöri loknu, en það hlýtur að teljast vonlítið fyrir Samfylkinguna að ná þrem inn í NV, miðað við að kjördæmið missir tíunda þingsæti sitt til kragans.

mbl.is Öll atkvæði talin í NV-kjördæmi; Guðbjartur sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Castro Live on Cuban TV

Fidel Castro

Það var svolítið merkilegt að sjá fréttamyndir í dag frá Kúbu, sem eiga að sýna leiðtogann sjálfan á sjúkrabeði. Það er enda reynt með þessum myndum að telja fólki trú um að kallgreyið sé í "lagi" og sé rólfær enn. Það að vera ráðandi í stjórnmálum snýst að mörgu leyti um það að koma vel fram. Betur en margir aðrir veit Fidel Castro þetta. Hann hefur stjórnað með sýnilegu valdi á Kúbu í tæpa hálfa öld, þar sem stormandi boðskapur hans hefur skipt sköpum fyrir hann að hafa haldið völdum og getað ríkt þar þetta lengi.

Að því kemur á ævi hans sem og allra annarra að halla tekur undan fæti. Það er óhjákvæmilegt, sama hver um er að ræða. Framkoma í stjórnmálum á okkar fjölmiðlatímum snýst oftast nær um það hvernig fólk kemur fram. Komi það ekki fram eða er fjarverandi hlýtur kastljósið að beinast að fjarverunni. Í landi eins og Kúbu snýst allt um að sýna fram á vald sitt. Það hefur Castro gert og gerði margoft meðan að hann var veikur fyrir nokkrum árum er hann féll illa á opinberri samkomu og lærbrotnaði.

Það vekur því athygli að það sem sjáist til Castro nú séu myndir af honum alvarlegum á svip í adidas jogging-galla (talandi um sannkallaða kaldhæðni) og greinilega fölan á brá að reyna að staulast nokkur skref með dagblaði í hendi sem sýnir tímasetninguna. Þetta er eins og í gíslatöku þegar að gíslinn er sýndur með nýjasta dagblaðið í hendinni, til að sýna að hann sé örugglega enn þessa heims. Þetta er í senn bæði skondið og skemmtilega óraunverulegt í sinni fyndnustu merkingu.

Það er mjög erfitt að vera yfirgnæfandi í lokuðu samfélagi eins og Kúbu, með einræði og engum alvöru kosningum, þar sem leiðtoginn er heilsuveill og sá sem með völdin á að fara á meðan sést varla heldur. Það er því varla undrunarefni að það gerist fyrr en síðar að reynt sé að loka á orðróminn. Þetta var vandræðalegt í tilfelli Leonid Brezhnev og ekki síður Boris Yeltsin, þegar að reynt var að telja fólki trú um að hann væri heilsuhraustur.

Að því kemur væntanlega fyrr en síðar að þessi staða mála, með leiðtogann greinilega fárveikan, veki kúbverja til meðvitundar í samfélagi sem hefur vanist einræði og einum leiðtoga, án kosninga, til áratuga og þá sem fylgjast með einræðinu fjarri eymd kommúnismans, sem enn ómar í ríki einræðisherrans.

mbl.is Castro segir fregnir af andláti sínu orðum auknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjörsbaráttan í Suðvesturkjördæmi

Bjarni Benediktsson

Bjarni Benediktsson, alþingismaður, opnaði í dag prófkjörsskrifstofu sína í Garðabæ og heimasíðu sína. Ekki virðist mikil barátta blasa þó við Bjarna í prófkjörinu þann 11. nóvember nk. í kraganum. Enginn annar býður sig fram í annað sætið og hann virðist hafa nær óumdeilda stöðu í forystusveit flokksins í kjördæminu. Staða Bjarna hefur styrkst jafnt og þétt allt þetta kjörtímabil. Hann var valinn til setu í fimmta sæti framboðslistans í kraganum í uppstillingu fyrir kosningarnar 2003 og náði þá kjöri á þingi. Hann varð formaður allsherjarnefndar í árslok 2003 þegar að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varð ráðherra.

Bjarni hefur styrkst við hvert málið undir hans verksviði í þinginu. Hann t.d. kom fram af krafti og ábyrgð í fjölmiðlamálinu árið 2004 og stóð sig mjög vel við að tala fyrir því. Rimmur hans við stjórnarandstöðuna á því átakavori og sumri eru eftirminnilegar okkur stjórnmálaáhugamönnum. Það hefur blasað við nær allt kjörtímabilið að Bjarni myndi hækka verulega á listanum í kraganum við þessar kosningar og var jafnvel um tíma talað um að hann myndi gefa kost á sér í fyrsta sæti framboðslistans er Árni M. Mathiesen tók ákvörðun um að færa sig í annað kjördæmi. Svo fór að hann gaf kost á sér í annað sætið.

Það virðist lítill hasar vera um fyrsta og annað sætið í væntanlegu prófkjöri eftir hálfan mánuð. Meginátakalínurnar virðast vera um þriðja til sjötta sætið, sem gætu allt á góðum degi orðið þingsæti, enda mældist Sjálfstæðisflokkurinn í Suðvesturkjördæmi með 49% í síðustu mánaðarkönnun Gallups. Það er mikilvægt að mínu mati að Bjarni Ben fái þar öfluga og góða kosningu, efast ég vart um að svo myndi fara. Bjarni er enda öflugur framtíðarmaður í flokknum sem hefur sannað kraft sinn og mátt - sannað að hann er forystumaður þar.

Í dag opnuðu ennfremur Kópavogsbúarnir Ármann Kr. Ólafsson og Sigurrós Þorgrímsdóttir heimasíður sína og kosningaskrifstofu. Ármann keppir um þriðja sætið við Ragnheiði Ríkharðsdóttur, bæjarstjóra í Mosfellsbæ, en Sigurrós um hið fjórða við þau Bryndísi Haraldsdóttur, Jón Gunnarsson og Ragnheiði Elínu Árnadóttur.


Spenna hjá Samfylkingunni í Norðvestri

Samfylkingin Norðvestur

Talning stendur nú yfir í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Virðist talning hafa hafist seint en er nú komin í fullan gang. Skv. fyrstu tölum eru Guðbjartur Hannesson, skólastjóri á Akranesi, Anna Kristín Gunnarsdóttir, alþingismaður, Helga Vala Helgadóttir, fjölmiðlakona, og Sigurður Pétursson bæjarfulltrúi á Ísafirði, í efstu sætum, en litlu virðist muna.

Það verður fróðlegt að sjá hver sigrar prófkjörið, en fimm sóttust eftir fyrsta sætinu; þau Guðbjartur, Anna, Sigurður, Sveinn Kristinsson og Karl V. Matthíasson. Barist var um lausan leiðtogastól, en Jóhann Ársælsson hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs að vori, en hann hefur setið á þingi fyrir Alþýðubandalagið og Samfylkinguna nær samfellt frá árinu 1991.

Það verður væntanlega fylgst með því hvernig fer í Norðvesturkjördæmi. Flokkurinn hlaut aðeins tvo þingmenn kjörna í þingkosningunum 2003, en var lengi vel spáð þar 3-4 þingsætum. Ef marka má fyrstu tölur stefnir í að dreifing verði á efstu sætum, en ekki muni fulltrúar einungis eins svæðis í þessu víðfeðma kjördæmi raða sér í efstu sætin.

Viðbót - kl. 20:55
Þegar að talin hafa verið rúm 1000 atkvæði af rúmum 1700 í þessu prófkjöri nú laust fyrir níu hefur Guðbjartur Hannesson enn forystu og flest stefnir í að  hann muni leiða framboðslista flokksins að vori. Sú breyting hefur nú orðið að Karl V. Matthíasson, fyrrum alþingismaður, er kominn upp í annað sætið. Þriðja er Anna Kristín Gunnarsdóttir, alþingismaður, og fjórði er Sigurður Pétursson, bæjarfulltrúi á Ísafirði.

Í frétt á mbl.is nú fyrir stundu kemur fram að Anna Kristín óttist að útkoman verði slæm fyrir konur í kjördæmastarfi flokksins og staða þeirra versna, þar sem engin kona yrði þar með í öruggu þingsæti í kosningum að vori.

mbl.is Fyrstu tölur úr prófkjöri Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn fer yfir úrslit prófkjörsins

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur nú ritað ítarlegan pistil á heimasíðu sína um úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem lágu fyrir endanlega í nótt. Björn hlaut þriðja sætið í fjórða skiptið í prófkjöri flokksins í borginni, en hann hlaut það sæti strax árið 1990, þegar að hann gaf fyrst kost á sér til þingframboðs. Í pistlinum fer Björn ekki aðeins yfir úrslit prófkjörsins, heldur stöðu mála í sjálfum prófkjörsslagnum og ennfremur þá atburðarás sem leiddi til fundarins sem haldinn var í Valhöll með honum og Geir H. Haarde, forsætisráðherra, fyrir rúmri viku.

Víkur hann með merkilegum hætti að álitsgjöfunum Sigurjóni M. Egilssyni og Agli Helgasyni, og telur að Egill hafi talið að eins myndi fara fyrir honum í þessu prófkjöri og Geir Hallgrímssyni í hinu sögufræga krossaprófkjöri í nóvember 1982. Ennfremur er þar fjallað um grein Jóns Baldvins Hannibalssonar í Morgunblaðinu í gær, en hún var greinilegt innlegg í prófkjörsslag sjálfstæðismanna í Reykjavík. Í lok pistilsins minnist Björn á að þessi úrslit séu varnarsigur fyrir sig í þeirri stöðu sem uppi hafði verið, t.d. innan Sjálfstæðisflokksins.

Athyglisverðar niðurstöður í prófkjörinu

Fylgst með úrslitum

Það er athyglisverð staða sem við blasir eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þegar að ég vaknaði í morgun fór ég yfir skiptingu atkvæða og fannst merkilegt að líta yfir þá stöðu mála. Það er alveg ljóst að Guðlaugur Þór Þórðarson vann afgerandi sigur í baráttunni um annað sætið og hefur þar mikið forskot. Merkilegast fannst mér að sjá hvernig atkvæðin skiptast á tólf efstu. Sérstaklega hvað varðar fyrsta sætið, en Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, fékk næstflest atkvæði í það sæti og meira að segja Grazyna M. Okuniewska hlaut nokkur atkvæði í það sæti. Merkilegast finnst mér að sjá hversu þó mörg atkvæði Geir og Björn fá t.d. í tíunda sætið.

Heilt yfir finnst mér glæsilegt að sjá flotta útkomu nýliða, en Guðfinna S. Bjarnadóttir og Illugi Gunnarsson fljúga beint inn á þing í sínu fyrsta prófkjöri. Guðfinna er með sérstaklega glæsilega kosningu og er t.d. með vel yfir 8000 atkvæði. Sögufrægt varð er Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, féll í umdeildu krossaprófkjöri í nóvember 1982. Hann varð þá í sjöunda sæti. Það er merkilegt að sjá hvernig staðan hefði orðið ef slíkt fyrirkomulag hefði verið nú, en það er ljóst að nokkrir frambjóðendur sem urðu ofarlega hefðu getað fengið slæma útreið við slíkar aðstæður. En greining atkvæða er athyglisverð, svo ekki sé meira sagt.

Fylgst með talningu

Ég skrifaði hér um úrslitin í nótt, þegar að þau lágu fyrir, eins og þau blöstu þá við mér. Það er ánægjulegt að margir hafi lesið það og kommentað á þau skrif. Ég vona að efstu menn geti vel við unað, þrátt fyrir allt. Björn er á sama stað eftir þetta prófkjör og hann var eftir hið síðasta. Hann er í öðru sæti á öðrum framboðslistanum. Það eru viss vonbrigði að hann skuli ekki hafa náð leiðtogastöðu, því neita ég ekki, en vilji flokksmanna liggur fyrir í þessum efnum. Það er greinilegt að mikil smalamennska var viðhöfð í gær og úrslitin endurspegla þá smölun mjög vel. Nú ræðst hvað Björn gerir, ef marka má fyrstu viðbrögð mun hann taka sætið.

Ég vil auðvitað óska Guðlaugi Þór til hamingju. Hann er einn forvera minna sem formaður Varðar hér á Akureyri. Met þessa menn báða mikils, en hef aldrei farið leynt með stuðning minn við Björn. Hann á þann stuðning skilið. Ég tel að fáir hafi lagt mér meira lið í minni pólitík og þeim verkum sem ég hef sinnt á netinu t.d. en Björn. Hann hefur ávallt minn stuðning. Samfagna þó vissulega með Guðlaugi Þór. Það er auðvitað visst gleðiefni að ungum manni sé falin slík forystustörf en Guðlaugur Þór var formaður SUS á þeim árum sem ég gekk í flokkinn og fór að starfa þar að ráði fyrst. Guðlaugur Þór markar sig sem framtíðarmann í Sjálfstæðisflokknum með þessu.

Guðfinna

Árangur Guðfinnu S. Bjarnadóttur er glæsilegur og vil ég óska henni til hamingju. Mitt nafn birtist í stuðningsauglýsingu fyrir hana, svo að ég fagna árangri hennar mjög. Hún er framtíðarkona fyrir flokkinn og verður forystukona hans í borginni í þessu prófkjöri. Sigur hennar er mikill og öllum ljóst að nú tekur pólitíkin við hjá henni og endalok orðin á glæsilegum rektorsferli hennar við Háskólann í Reykjavík, en hún hefur byggt skólann upp með mikilli elju og gríðarlegum metnaði. Öll bindum við vonir að verk hennar verði jafn farsæl og öflug í pólitísku starfi innan Sjálfstæðisflokksins. Mér fannst Guðfinna standa sig vel í prófkjörsslagnum og hún sannaði kraft sinn.

Illugi er öflugur ungur maður sem á góðan árangur skilið. Fagna mjög að Guðfinna og Illugi fari á þing. Svo er gott að Pétur náði að hækka sig, en hann hefur staðið sig vel á þingi og verið mikill talsmaður frelsisins. Svo er Ásta þarna, leitt að hún skyldi falla um sæti, en svona er þetta alltaf í prófkjörum að menn hækka og lækka fram og til baka reglulega. En fyrir mestu er að hún sé í öruggu þingsæti. Gott að Sigríður Andersen nái ofarlega, það er töggur í henni og vonandi fer hún á þing. Þannig að heilt yfir gleðst ég með tíu efstu, þetta er það fólk sem ég spáði að yrði í topp tíu og því ekkert annað en gott um þetta að segja í heild sinni.

Björn

Ég veit ekki hverjir eftirmálar prófkjörsins verða, ef nokkur eru. Beðið er viðbragða og greiningu Björns Bjarnasonar á stöðu mála. Það voru viss hættumerki fyrir prófkjörið að næði hann ekki öðru sætinu sem hann batt vonir sínar við gæti hann fallið niður listann, enda eru ruðningsáhrif alltaf til staðar nái menn ekki markmiðum sínum. Það er gleðiefni að hann haldi þó allavega sínu sæti frá síðasta prófkjöri. Það hefði verið afleit niðurstaða fyrir Sjálfstæðisflokkinn hefði Björn fengið verri útkomu en þessa.

En úrslit liggja fyrir. Það verður spennandi að heyra meiri viðbrögð á þessari stöðu mála. Það er alveg ljóst að þessi úrslit boða viss þáttaskil fyrir Sjálfstæðisflokkinn og kynslóðaskipti á vissum stöðum. En ég vona að samstaða Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verði sú sama og áður í langri leiðtogatíð Davíðs Oddssonar. Það verður nú að ráðast hvort mönnum ber gæfa til að halda sameinaðir til verka, nú þegar að hans nýtur ekki lengur við.


mbl.is Niðurstaða prófkjörs Sjálfstæðisflokksins bindandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrslit liggja fyrir í prófkjörinu í Reykjavík

Farið yfir úrslitin

Úrslit í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík lágu fyrir á þriðja tímanum í nótt. Ljóst er að sigurvegarar prófkjörsins voru Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðfinna S. Bjarnadóttir og Illugi Gunnarsson. Tvö hin síðarnefndu komust bæði beint í forystusveit Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en þau eiga ekki sæti á þingi nú og urðu ofar en fjórir sitjandi þingmenn flokksins. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, munu leiða framboðslista Sjálfstæðisflokksins í höfuðborginni í kosningunum að vori, en Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, og Guðfinna munu skipa annað sæti skv. úrslitunum, en þau urðu í þriðja og fjórða sæti.

Lokatölur í tólf efstu sætin eru svohljóðandi:
Geir H. Haarde: 9.126 atkvæði í 1. sæti
Guðlaugur Þór Þórðarson: 5.071 atkvæði í 1.-2. sæti
Björn Bjarnason: 4.506 atkvæði í 1.-3. sæti
Guðfinna S. Bjarnadóttir: 4.256 atkvæði í 1.-4. sæti
Illugi Gunnarsson: 4.526 atkvæði í 1.-5. sæti
Pétur Blöndal: 5.175 atkvæði í 1.-6. sæti
Ásta Möller: 6.057 atkvæði í 1.-7. sæti
Sigurður Kári Kristjánsson: 6.735 atkvæði í 1.-8. sæti
Birgir Ármannsson: 7.106 atkvæði í 1.-9. sæti
Sigríður Á. Andersen: 6.328 atkvæði í 1.-10. sæti
Dögg Pálsdóttir: 5.991 atkvæði í 1.-10. sæti
Grazyna M. Okuniewska: 3.514 atkvæði í 1.-10. sæti

Listarnir verða því með þessum hætti í kjördæmunum tveimur, en eftir á að draga um röð þess hvort kjördæmið Geir H. Haarde mun leiða og hinsvegar Guðlaugur Þór Þórðarson.

Geir H. Haarde
Björn Bjarnason
Illugi Gunnarsson
Ásta Möller
Birgir Ármannsson
Dögg Pálsdóttir

Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðfinna S. Bjarnadóttir
Pétur Blöndal
Sigurður Kári Kristjánsson
Sigríður Á. Andersen
Grazyna M. Okuniewska

Björn Bjarnason

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, fékk glæsilega kosningu í fyrsta sætið, en hann hlaut rúmlega 95% greiddra atkvæða. Hann fær því gott umboð til forystustarfa. Guðlaugur Þór fær ennfremur góða kosningu til forystustarfa í sínu öðru prófkjöri í landsmálastjórnmálum, en hann varð í sjötta sæti í síðasta prófkjöri og kom þá nýr beint inn á Alþingi. Björn Bjarnason, sem setið hefur á þingi frá árinu 1991 og ráðherra nær samfellt frá 1995, náði ekki að tryggja sér leiðtogastöðu en lenti fjórða prófkjörið í röð í þriðja sætinu, sem enn og aftur verður hans sæti, en hann hefur aldrei orðið í neinu öðru sæti en því í prófkjöri hjá Sjálfstæðisflokknum.

Guðfinna S. Bjarnadóttir tryggir sér með glæsilegri kosningu titil forystukonu meðal sjálfstæðismanna í Reykjavík og tekur við því hlutverki af Sólveigu Pétursdóttur, sem setið hefur á þingi í tæp sextán ár, en ákvað að draga sig nú í hlé. Guðfinna, sem verið hefur rektor Háskólans í Reykjavík frá árinu 1998, kom nú beint inn í stjórnmál og fær flott umboð frá flokksmönnum. Illugi Gunnarsson flýgur inn í forystusveit flokksins í borginni ennfremur og fær góða kosningu í fimmta sætið, sem er þriðja sætið, á eftir Geir og Birni. Illugi, sem var aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar í fimm ár, hefur pólitískan feril sinn með miklum glans.

Ásta og Guðfinna

Lengst af kvöldsins var Pétur H. Blöndal í sjöunda sætinu en tókst undir lok talningarinnar að komast upp í sjötta sætið, og verður þriðji á eftir Guðlaugi Þór og Guðfinnu. Í síðasta prófkjöri skákaði hann Sólveigu Pétursdóttur og varð fjórði, hlaut annað sætið í Reykjavík suður á eftir Geir. Nú lækkar hann nokkuð en tókst að hækka sig á lista með því að hljóta sjötta sætið. Ásta Möller varð sjöunda. Framan af kvöldi varð hún fimmta, ofan við Illuga Gunnarsson en lækkaði svo í sjötta sætið í þriðju tölum. Undir lok talningar höfðu hún og Pétur stólaskipti. Úrslitin eru betri en síðast fyrir Ástu, en hljóta þó vissulega að teljast nokkur vonbrigði.

Sigurður Kári lendir í áttunda sætinu, sæti neðar en síðast. Úrslitin hljóta því að vera viss vonbrigði miðað við það sem þá var, en hann hefur sama sess á nýjum framboðslista og var árið 2003, fjórða sætið á öðrum listanum. Birgir Ármannsson hækkar sig um sæti, hann varð tíundi árið 2003 en varð nú níundi. Hann hlýtur eins og Sigurður Kári að hafa vænst betri árangurs en hann er á nákvæmlega sömu slóðum nú og árið 2003, í fimmta sæti annars framboðslistans og enn í baráttusæti. Sigríður Á. Andersen er tíunda og hlýtur að vera ánægð með þá útkomu, þó hún hafi stefnt hærra. Hún verður í baráttusæti að vori, fimmta á öðrum listanum.

Það vekur athygli að Dögg Pálsdóttir skyldi ekki færa hærra. Hún stefndi á fjórða sætið en varð ellefta, og skipar því hið sjötta á öðrum listanum. Mörgum að óvörum varð pólski hjúkrunarfræðingurinn Grazyna M. Okuniewska í tólfta sæti og er því komin í baráttusætin, mörgum að óvörum. Fáir áttu von á svo glæsilegum árangri hjá henni, en henni er óskað innilega til hamingju með árangurinn. Hún auglýsti lítið sem ekkert, hafði einfalda blogspot-kosningavefsíðu og eyddi litlum peningum í baráttuna. Árangur hennar er því óvenjuglæsilegur og gott að hún skuli vera svo ofarlega sem raun ber vitni. Heilt yfir eru þetta sterkir listar.

Geir og Björn

Úrslitin eru merkileg. Ég nefndi tíu aðila á vefnum á föstudagskvöldið, sem þá er ég myndi kjósa. Þeir urðu í tíu efstu sætunum, svo ég get vart annað en verið sáttur við val flokksmanna, þó ekki hefði ég númerað þá með þessum hætti. Það er svo aftur á móti annað mál. Nú tekur við að greina úrslitin. Eins og fyrr sagði eru Guðlaugur Þór, Guðfinna og Illugi sigurvegarar. Beðið er nú viðbragða Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, sem náði ekki sínu markmiði að fá umboð til leiðtogastarfa, en heldur þess í stað sinni stöðu á öðrum framboðslistanum. Það verður fróðlegt að heyra viðbrögð hans og annarra áhrifamanna með morgni.

Heilt yfir vona ég að þetta prófkjör hafi styrkt Sjálfstæðisflokkinn. Prófkjörið tókst vel og margir tóku þátt, þó mun færri en í prófkjörinu í nóvember í fyrra vegna borgarstjórnarkosninganna. Það eru viss vonbrigði. En vonandi boðar þetta prófkjör sterka framboðslista sem tryggja Sjálfstæðisflokknum góð úrslit að vori, þar sem fleiri þingsæti nást en vorið 2003, þegar að flokkurinn hlaut 9 þingmenn kjörna í Reykjavík. Nú er stefnan sett væntanlega á 10-11 hið minnsta.


mbl.is Geir H. Haarde í 1. sæti og Guðlaugur Þór í 2. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. október 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband