Uppstokkun á þingi - vefir frambjóðenda

Alþingi

Dagarnir líða varla núna um þessar mundir án þess að við fáum fréttir af því að þingmenn séu að hætta eða að einhver maður eða kona úti í bæ vilji fara í prófkjör eða komast með öðrum hætti í mjúkan stól í steingráu húsi við Austurvöll. Þetta er merkilegur tími í stjórnmálum og svolítið gaman að upplifa þetta allt. Ég hef það mikinn áhuga á stjórnmálum að mér leiðist ekki svona árstími. Held reyndar að við séum að horfa upp á einhverja mestu uppstokkun á Alþingi í komandi kosningum. Mér telst til að 16 alþingismenn, kjörnir árið 2003 séu annaðhvort hættir eða að hætta. Svo munu einhverjir þingmenn fá reisupassann í prófkjöri væntanlega - verða hent út fyrir nýliða.

Það verður spenna í prófkjörunum um allt. Í gær voru birtir nafnalistar yfir frambjóðendur hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík og hjá Samfylkingunni í Suður- og Suðvesturkjördæmi. Í öllum prófkjörunum eru um 20 manns að gefa kost á sér. Það er gleðiefni að það er gott val í boði og nægir kostir fyrir kjósendur flokkanna er kemur að því að velja hverjir eigi að vera í forystusveit flokkanna fyrir þessar kosningar. Í samræmi við þennan áhuga eigum við von á miklu fleiri pólitískum heimasíðum býst ég við. Fólk fer varla orðið í prófkjör nú til dags nema að bjóða upp á eigin vettvang skoðana eða pælinga um stjórnmál, enda lágmark að þeir séu til staða fyrir kjósendur.

Í dag skoðaði ég nýjan og glæsilegan vef Ástu Möller, alþingismanns. Hún var í dag að opna kosningaskrifstofu sína í leiðinni. Finnst slagorðið hennar í prófkjörinu flott. Það er: Ásta - í ljósi reynslunnar. Þetta er flott slagorð. Það hefur flotta merkingu. Getur bæði þýtt að hana eigi að kjósa í ljósi reynslunnar síðast þegar að konur fengu skell. Þá féllu Ásta, Kata Fjeldsted og Lára Margrét úr öruggum sætum og duttu út í kosningunum 2003. Einnig getur það þýtt að hana eigi að kjósa vegna þess að hún er konan með reynsluna í prófkjörinu, eina konan í boði sem hefur átt sæti á Alþingi. Margir kostir. Allir góðir. Líst vel á þetta hjá Ástu.

Sigurður Kári opnaði í dag kosningaskrifstofu sína og vefsíðu framboðsins. Var að líta yfir hana nú í kvöld og líst virkilega vel á. Mér finnst Sigurður Kári hafa unnið vel á þingi og óska honum því að sjálfsögðu góðs. Ég skrifaði grein til stuðnings honum í síðasta prófkjöri og minnti vel þá reyndar á að ungu fólki yrði að treysta ofarlega. Það var gert. Gott yngra fólk flaug inn á þing og það á erindi að sjálfsögðu áfram. Siggi Kári er enn ungliði og þeirra fulltrúi. Það eru viss vonbrigði nú að ekki sé neinn í prófkjörinu undir þrítugu. Ég sakna þess að ungt og öflugt fólk skelli sér nýtt í slaginn, en það var mikið um það síðast og verður svosem ekki alltaf.

Í dag sá ég auglýsingar Guðfinnu S. Bjarnadóttur, rektors Háskólans í Reykjavík, í blöðunum. Hún fer af stað á morgun með skrifstofu og vef. Þar er þó kominn banner á vefinn fyrir formlega opnun. Líst vel á þá tóna sem Guðfinna setur sínu framboði. Þar er komin kona sem er reynslumikil á mörgum sviðum og býður sig fram sem öflugan valkost. Slagorðið hennar er líka virkilega flott og mér að skapi: Valfrelsi og skapandi umhverfi. Líst vel á alla tóna sem slegnir eru um meira frelsi og fagna því að hún nefni þetta orð. Það sýnir okkur vel hvert hún stefnir í sinni baráttu. Það verður að ég tel virkilega gaman að sjá stefnumálin hennar. Toppkona sem veit hvað hún syngur.

Illugi Gunnarsson, hagfræðingur, er kominn á flug. Það er virkilega gaman að líta á vefinn hans. Þetta er vefur lifandi skoðana og pælinga og vel uppfærður. Slagorðið er grípandi og gott: Ný verkefni - nýjar áherslur. Mér hefur alltaf líkað vel við Illuga og talið hann framtíðarmann í flokknum. Það er gaman að horfa á ávarpið hans Illuga á vefnum. Það er hárrétt sem hann segir að stjórnmál snúist svo mikið um að hlusta á aðra - skoðanir fólksins úti í bæ. Það á alltaf að vera svo að auðvelt sé að ná í stjórnmálamenn og fólk geti sent til þeirra skoðanir sínar og athugasemdir. Illugi slær allavega rétta tóna með vefnum og það er gaman að líta í heimsókn til Illuga.

Björn Bjarnason hefur breytt vefnum sínum og hefur breytt honum í lifandi prófkjörsvettvang í bland við sígildan vef skoðana og pælinga. Slagorðið hans er: Samstaða til sigurs. Flott slagorð. Björn hefur mikla reynslu að baki og þekkingu á lykilmálum í pólitík - hún er okkur nauðsynleg. Það var kostulegt að heyra undarlega stjórnmálaskýringu Steingríms Ólafssonar í Kastljósi í gær um Björn og Guðlaug Þór. Líkti hann þeim Guðlaugi og Birni við tölvu og ritvél og nefndi Björn greinilega sem ritvélina. Það mátti greinilega skilja orð hans með þeim hætti að Björn væri mjög gamaldags. Það er ljóst að hvorki hann né sessunautur hans í þættinum vilja veg Sjálfstæðisflokksins sem mestan.

Björn Bjarnason var fyrsti íslenski stjórnmálamaðurinn sem byrjaði með virka og lifandi heimasíðu þar sem birtust reglulega greinar um stjórnmál og málefni dagsins í dag. Hann hefur verið með vefsíðu í ellefu ár og alltaf verið þar hið minnsta með vikulegar greinar, síðustu árin hefur hann haldið dagbók þar. Þetta er því stórt safn skrifa um stjórnmál og þetta er eiginlega fjársjóður að lesa, enda er allt efnið auðvitað aðgengilegt með auðveldum og góðum hætti. Björn var því frumkvöðull í pólitík á netinu hérlendis.

Þegar að hann byrjaði með vef sinn voru margir að undrast það að Björn væri að leggja áherslu á þennan þátt sinnar stjórnmálaþátttöku. Þá þótti þetta ekki nógu kórrétt pólitík og það eru reyndar margir enn í pólitík svo virkilega gamaldags og úr öllum takti að varast netið með öllu og þora ekki að skrifa þar á hverjum degi um skoðanir sínar og pælingar. Á þessum grunni öllum er hlægilegt að heyra ummæli Steingríms Ólafssonar sem eru að mínu mati gjörsamlega út í hött að öllu leyti.

Sögupistill - Ragnhildur Helgadóttir

Ragnhildur Helgadóttir

Í sögupistli mínum sem birtist á vef SUS í dag fjalla ég um stjórnmálaferil Ragnhildar Helgadóttur. Hún var kjörin á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn, 25 ára gömul, árið 1956 og sat á þingi fyrir flokkinn um árabil. Hún varð önnur kvenna ráðherra í maí 1983 og var áberandi sem menntamála- og heilbrigðisráðherra. Undir hennar forystu var einokun ríkisins á ljósvakamarkaði hnekkt og samþykkt ný fæðingarorlofslöggjöf.

Sæunn í framboð í Norðausturkjördæmi

Sæunn Stefánsdóttir

Í kjölfar ákvörðunar Dagnýjar Jónsdóttur um að hætta þingmennsku í vor blasir við að Sæunn Stefánsdóttir, alþingismaður og ritari Framsóknarflokksins, gefi kost á sér í þriðja sæti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum. Það er alveg greinilegt að Halldórsarmurinn í Framsóknarflokknum vill að Sæunn færi sig um set og fari í þriðja sætið, sem var sæti Dagnýjar Jónsdóttur í alþingiskosningunum 2003. Sæunn tók sæti á Alþingi þann 5. september sl. er Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði af sér þingmennsku. Sæunn tók afgerandi afstöðu með Jóni Sigurðssyni í formannsslagnum í ágúst.

Sæunn er mjög tengd inn í valdakjarna flokksins og er traustur bandamaður Jóns Sigurðssonar, Valgerðar Sverrisdóttur og Jóns Kristjánssonar. Það má enda ekki gleyma því að Sæunn var aðstoðarmaður Jóns Kristjánssonar í heilbrigðisráðuneytinu. Það má því telja alveg gulltryggt að Sæunn hefur stuðning allra í senn til forystu. Þegar að nefnd eru öll nöfnin Valgerður, Jón, Dagný og Birkir Jón sem voru kjörnir þingmenn flokksins í Norðaustri blasa við bandamenn hennar innan flokksins. Ég held að það megi því telja nokkuð líklegt að hún verði í þriðja sætinu. Bandalag verður greinilega milli Birkis og Sæunnar um að skipa þessi tvö af þrem efstu sætunum með Valgerði.

Þarna mun Valgerður tryggja sér nýjan og öflugan ungan bandamenn í stað Dagnýjar og hún mun fylla skarð Jóns Kristjánssonar. Ekki er víst að öllum líki þetta bandalag en svona mun þetta verða. Það sjá allir sem vilja sjá sem líta raunhæft á málið. Það er greinilegt að Sæunni er falið að verða "Austfirðingurinn" á listanum að vori af Halldórsarminum gamla og góða sem er enn til þó að húsbóndi armsins sé nú orðinn rólegheitamaður heima hjá sér í Breiðholtinu. En það kæmi mér ekki á óvart þó að Halldór muni fara austur og tryggja að Sæunn verði sú sem fari inn með Valgerði og Birki. Þetta er allt fólk sem vann lengi fyrir hann í flokknum og hefur hans stuðning.

En margir spyrja eflaust um tengsl Sæunnar við Austfirði. Hún mun hafa búið á Seyðisfirði er hún var kornung. Það eru öll tengslin, en það sem vigtar meira fyrir hana er að vera í miðpunkti valdakjarnans. Auk alls þessa er hún ritari flokksins og stýrir öllu innra starfi hans. Ég held að við í kjördæminu getum því bókað það að Sæunn er á leið austur í sinni pólitík.

Dagný Jónsdóttir gefur ekki kost á sér

Dagný Jónsdóttir

Dagný Jónsdóttir, alþingismaður, ætlar ekki að gefa kost á sér í alþingiskosningunum að vori. Hún tilkynnti þetta á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, sem haldið er á Djúpavogi, í dag. Þetta teljast mikil tíðindi, enda hafði Dagný margoft lýst því yfir að hún ætlaði að fara aftur í framboð og bjuggust flestir við að hún myndi taka slaginn við Birki Jón Jónsson um annað sæti listans. Samkvæmt þessu er því orðið ljóst að báðir Austfirðingarnir innan Framsóknarflokksins í Norðaustri á þingi, Jón Kristjánsson og Dagný, verða ekki í kjöri að vori.

Dagný varð aðalstjarna Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í þingkosningunum 2003. Henni var falin mikil ábyrgð og mikið bar á henni í baráttunni. Framsóknarflokkurinn skreytti öll auglýsingaspjöld sín með henni og hún var sá frambjóðandi sem mest var auglýstur í kosningunum þá. Mun minna bar á Valgerði Sverrisdóttur og Jóni Kristjánssyni en Dagnýju. Hún var sett fram sem baráttukona í baráttusæti og var Dagný vissulega táknrænn sigurvegari kosninganna, en með þessari taktík tókst bæði að tryggja henni þingsæti og ekki síður Birki Jóni sem datt inn í lok talningar.

Dagný var dugleg í sinni stjórnmálabaráttu. Hún var þó aldrei hugsjónastjórnmálamaður. Ég hef oft velt fyrir mér hennar pólitík og vil halda þeim skoðunum fyrir mig. En dugleg var hún, það verður ekki af henni tekið og hún vann mikið í baráttunni fyrir sig og sinn flokk. Sögusagnir eru nú um að Sæunn Stefánsdóttir, eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar á þingi, verði í þriðja sæti flokksins í kosningunum. Öllum er væntanlega ljóst nú að Birkir Jón verður í öðru sætinu, enda eini þingmaður flokksins í kjördæminu sem fram fer auk leiðtogans Valgerðar.

Það stefnir svo sannarlega í spennandi kosningar hér í Norðaustrinu að vori og spennandi að sjá hvort að ritarinn Sæunn kemst inn ef hún skipar þriðja sætið. Enn er svo þeirri spurningu ósvarað hvort að Jakob Björnsson, fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, gefi ekki kost á sér og vilji komast á þingi. Skv. nýjustu könnun Gallups er Framsóknarflokkurinn með 20% fylgi í Norðausturkjördæmi og tvo þingmenn inni. Vissulega er það sögulega lítið fyrir Framsókn en þó mesta fylgið sem flokkurinn mælist með í kreppu sinni þessa mánuðina.

mbl.is Dagný Jónsdóttir býður sig ekki fram til þings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján Þór og Þorvaldur í leiðtogaframboð?

Kristján Þór Júlíusson Þorvaldur Ingvarsson

Telja má öruggt að á mánudag í síðasta lagi ráðist hvað þeir Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, og Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri FSA, ætlast fyrir í framboðsmálum sínum. Flest bendir þó til að þeir muni takast á í væntanlegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem væntanlega verður haldið laugardaginn 25. nóvember nk. Eftir viku verður haldið kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi og þar verður tekin afstaða til þess hvort haldið verði prófkjör eða stillt upp á lista. Tillaga stjórnar kjördæmisráðsins er að fram fari prófkjör. Óhætt er þó að segja að Akureyringar í flokksstarfinu bíði eftir ákvörðun Kristjáns Þórs og Þorvaldar. 

Ákvörðun þeirra mun hafa áhrif á prófkjörið, sést þess vel merki í því að beðið er eftir hvað þeir hyggjast fyrir. Nú þegar hafa enda aðeins þrír tilkynnt formlega um framboð. Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður, hefur tilkynnt um leiðtogaframboð, og Kristinn Pétursson og Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrum þingmenn, hafa tilkynnt um framboð í 2. - 3. sætið. Öruggt má teljast að bæði Kristján Þór og Þorvaldur fari í prófkjörið. Nær alla tíð frá afsögn Tómasar Inga Olrich árið 2003 hefur verið rætt um að Kristján Þór færi í landsmálin við þessar kosningar og sá orðrómur var mikill fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar þegar að fréttamenn gengu nærri honum með svör.

Það leikur enginn vafi í huga fólks hér að Kristján Þór fari í leiðtogaslaginn. Vangavelturnar snúast meira um Þorvald. Hann var í sjötta sæti framboðslista flokksins í Norðausturkjördæmi í síðustu kosningum og hefur verið formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar frá haustinu 2003, þegar að Helgi Vilberg, ritstjóri Íslendings, lét af formennsku félagsins. Þorvaldur hefur verið að þreifa fyrir sér með sín framboðsmál og eftir því sem sagan segir vill hann reyna á leiðtogasætið sjálft, enda sé það laust. Þorvaldur sagðist í sumar í viðtali við Akureyrarblaðið Vikudag stefna á 1. - 3. sætið. Spurningin nú er sú hvort hann fari beint í leiðtogaframboð eða stefni á neðri mörkin.

Það má búast við spennandi átökum fari svo að Þorvaldur Ingvarsson bætist í fyrirfram planaðan leiðtogaslag Arnbjargar Sveinsdóttur og Kristjáns Þórs Júlíussonar. Flest bendir til að þeir tilkynni um framboð sín og fyrirætlanir sínar fyrir mánudagskvöldið í síðasta lagi. Það kvöld verður aðalfundur fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri haldinn í Kaupangi og má telja öruggt að eigi síðar en þá verði staða mála ljós með þeirra framboðsmál. Fari svo að þetta verði þriggja til fjögurra manna leiðtogaslagur má eiga von á miklu fjöri næstu vikurnar.

Umdeild gerviheimildarmynd um George W. Bush

George W. Bush

Það leikur enginn vafi á því að George W. Bush er einn umdeildasti forsetinn í sögu Bandaríkjanna. Hann hefur þó sigrað tvær forsetakosningar með sögulegum hætti, þær fyrri með naumasta hætti í sögu kjörmannasamkundunnar í forsetakjöri í Bandaríkjunum (fékk færri atkvæði en Al Gore) og átti í sögulegum lagadeilum fyrir dómstólum við keppinaut sinn í tæpa 40 daga eftir kjördag, og í þeim seinni varð hann fyrsti forseti Bandaríkjanna frá 1988 til að hljóta meirihluta greiddra atkvæða. Nú eru þáttaskil framundan á stjórnmálaferli hans - síðustu kosningarnar sem hann tekur þátt í verða til þingdeildanna í nóvember. Hann getur ekki farið fram í forsetakjörinu 2008.

Eitt helsta umræðuefnið vestanhafs síðustu mánuðina hefur verið umdeild gerviheimildarmynd, sem ber heitið Dauði forseta, Death of a President. Er þar lýst umdeildri og fyrirfram markaðri sögulegri atburðarás á bakvið morð á forseta Bandaríkjanna. Það er vissulega ekki nýtt viðfangsefni eða nýr raunveruleiki. Fjórir forsetar Bandaríkjanna hafa verið myrtir, þeir Abraham Lincoln, 16. forseti Bandaríkjanna, árið 1865, James Garfield, 20. forseti Bandaríkjanna, árið 1881, William McKinley, 25. forseti Bandaríkjanna, árið 1901 og John F. Kennedy, 35. forseti Bandaríkjanna, árið 1963. Auk þess hefur andlát forseta oft orðið umfjöllunarefni í skáldskaparverkum og kvikmyndum.

Það sem er frábrugðið þessu öllu í tilfelli fyrrnefndrar myndar er að lýst er morði á George W. Bush sem gerast á í Chicago á árinu 2007 og framhaldinu sem við tekur eftir lát forsetans er Dick Cheney, varaforseti, á að taka við völdum sem 44. forseti Bandaríkjanna. Um er að ræða afar kalt umfjöllunarefni og verið er með frekar lágkúrulegum hætti að leika sér að sögunni. Það virðist skv. fréttum ganga erfiðlega fyrir Newmarket Films-fyrirtækið, sem sér um dreifingu á myndinni, að koma henni í ýmis stærstu kvikmyndahús í Bandaríkjunum. Myndin er gríðarlega umdeild, af skiljanlegum ástæðum, og við blasir að hún stuðar marga landsmenn.

Það telst vart annað en lágkúra að uppdiktuð sé saga um morð á forseta sem er lifandi og beitt þeim brögðum sem virðist gert í þessu tilfelli.
Blandað er saman í myndinni raunverulegu fréttaefni og tilbúnu svo úr verður saga sem virðist raunveruleg en er það auðvitað ekki. Það er alveg eðlilegt að fólk hafi ólíkar skoðanir á verkum og stjórnmálaskoðunum Bush forseta, en þessi mynd gengur yfir öll eðlileg mörk og því vart undrunarefni að ekki gangi vel að sýna hana í kvikmyndahúsum vestan hafs.


mbl.is Neita að sýna mynd um morð á George W. Bush
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. október 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband