22.11.2006 | 23:35
Hægriöflin lýsa yfir sigri í Hollandi

Ég sé á fréttavefum að mikið er talað um að jafnvel muni erkifjendur kosninganna, CDA og Verkamannaflokkurinn, fara í stjórnarmyndunarviðræður eftir þessar þingkosningar. Það yrði ekki ósvipað eins og var eftir þýsku þingkosningarnar í fyrra, þar sem að vinstristjórnin féll og hægriblokkin myndaði stjórn með jafnaðarmönnum undir forystu dr. Angelu Merkel. Í dag er einmitt ár frá því að stóra samsteypa aflanna tók við völdum.
Skoðanakannanir höfðu sýnt í Hollandi að jafnt væri með fylkingunum en líklegast þó að hægriblokkin héldi velli með naumindum. Svo fór ekki, en nú reynir á samningalipurð forsætisráðherrans.
![]() |
Balkenende lýsir yfir sigri í hollensku kosningunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.11.2006 | 20:07
Prófkjör á laugardaginn - nýr leiðtogi kjörinn

Þetta eru því lífleg en um leið heiðarleg prófkjörsbarátta, eftir því sem ég heyri allavega. Það sem gerir baráttuna líflegri hér en ella eru einmitt prófkjörsskrifstofurnar, sem er nýbreytni í svona prófkjörsbaráttu hér um slóðir. Sjö frambjóðendur af níu hafa opnað heimasíður og í bréfalúgur okkar hafa safnast saman dreifirit frambjóðenda og kynningarefni. Þetta er því ekta prófkjörsslagur að hætti þess sem gerist og gengur í Reykjavík. Það er svosem ekkert nema gott um það. En fyrir leiðtogaefnin er þetta greinilega mjög dýr barátta og mikið lagt í verkefnið. Það er engin furða, enda gæti leiðtogastóllinn verið ráðherrastóll að vori.
Mikið er spáð og spekúlerað í prófkjörsúrslitin. Mér finnst vera nokkur óvissa yfir. Flokksmenn hér halda hver með sínum kandidat, en flestir telja þó fjarri því öruggt hvernig fari. Það eru tveir frambjóðendur frá Akureyri sem gefa kost á sér til forystu og einn Austfirðingur. Að því gefnu ætti þetta hvergi nærri öruggt að vera, enda skiptast atkvæði á Akureyri á þessa tvo en fátt er vitað svosem að austan, þó flestir gefi sér að Arnbjörg njóti þar mikils stuðnings til forystu. Örlögin ráðast hér á Akureyri. Það hafa allir leiðtogaframbjóðendurnir sýnt með afgerandi hætti með þeim þunga sem lagt er í kosningabaráttuna þar. Þar eru enda flest atkvæðin í pottinum.
Það stefnir í spennandi helgi. Á laugardaginn er kjörfundur í Oddeyrarskóla hér á Akureyri frá 09:00-18:00 og á 21 kjörstað öðrum vítt og breitt um kjördæmið. Fyrstu tölur verða lesnar upp á talningarstað í Kaupangi, höfuðstöðvum flokksins hér á Akureyri af Önnu Þóru Baldursdóttir, formanni kjörnefndar, kl. 18:00 á sunnudagskvöldið. Þá er sólarhringur liðinn frá lokun kjörstaðar, en tíma tekur að safna öllum kjörgögnum saman og hefst talning kl. 14:00 á sunnudaginn. Það má búast við að mikil spenna verði meðal frambjóðenda og flokksmanna þennan sólarhring frá lokun kjörstaða til fyrstu talna.
Á morgun gefst Akureyringum tækifæri til að hitta frambjóðendur á framboðsfundi á Hótel KEA kl. 20:00. Við í stjórn málfundafélagsins Sleipnis stöndum fyrir þessum fundi og verður Sigrún Vésteinsdóttir, fréttamaður N4 á Akureyri, fundarstjóri. Hvet alla Akureyringa til að mæta á fundinn annaðkvöld og heyra í frambjóðendunum níu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2006 | 16:18
Snilld Megasar

Fullyrða má að Megas sé merkilegur tónlistarmaður í tónlistarsögu landsins. Hann er snillingur orðsins í nútíma ljóðlist og hefur tekist með undraverðum hætti að tjá sig með næmleika og merkilegri fegurð um daglegt líf og getur tjáð sig með svipmiklum hætti um samtíma sinn. Umfram allt er þó Megas kaldhæðinn og napur í yrkisefnum, það er viss ádeila í honum sem alltaf er gaman af.
Það hefur líka verið gaman af því hvernig hann hefur notað heimsbókmenntirnar, sagnaarfinn okkar og þá hefð sem hann byggist á og kveðskap fyrri tíma sem efnivið í verk sín. Hann hefur með merkilegum hætti náð að flétta saman slangri, rokkfrösum seinustu áratuga, nýyrðum og sett saman við gullaldarmál fyrri tíma, svo úr verði næm meistaraverk. Hef ég lengi borið mikla virðingu fyrir verkum hans og tónverkum. Með vinnubrögðum sínum hefur hann tekist bæði að heilla og hneyksla.
Hvað sem segja má þó um Megas leikur þó enginn vafi á því að hann hefur náð til fólks og hreyft við samtímanum með merkilegum hætti. Það er hans afrek og verður það sem mun ávallt setja mestan svip á feril hans. Hvernig er annars hægt að gera upp tónlistarsögu 20. aldarinnar án þess að taka fyrir plötur hans, t.d. Millilendingu, Fram og aftur blindgötuna, Á bleikum náttkjólum, Drög að sjálfsmorði og síðast en ekki síst Loftmynd?
Fallegasti texti Megasar er þó hiklaust Tvær stjörnur. Gríðarlega fallegt og táknrænt. Eitt af uppáhaldslögunum mínum. Sætt og ljúft lag.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2006 | 15:03
Borat

Nú eru að spretta upp málaferli vegna myndarinnar, eins og fram hefur komið á fréttavefsíðum, t.d. fréttinni hér fyrir neðan. Er þar um að ræða að tveir Rúmenar sem komu fram í myndinni krefja kvikmyndaverið 20th Century Fox um skaðabætur upp á 30 milljónir dala.
Það verður seint sagt um Sacha Baron Cohen að hann sé ekki umdeildur og svo mikið er víst að túlkun hans er kostuleg og viðtölin sprenghlægileg.
![]() |
Rúmenar í mál við 20th Century Fox vegna myndarinnar um Borat |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.11.2006 | 12:24
Sturla boðar stórátak í vegamálum

Það er ánægjulegt að heyra að ráðherra hefur metnað fyrir því að leggja fjögurra akreina veg hingað norður í land. Allir sem fara leiðina Akureyri - Reykjavík sjá vel að leiðin er löngu sprungin og kominn tími til að hugsa stórt í þessum efnum. Okkur hér fyrir norðan hefur fundist leitt að ráðherrann hafi ekki hugsað nógu stórt varðandi styttingu leiðarinnar. En það er eins og það er bara.
Þetta er gott skref og við hljótum að fagna því hér fyrir norðan að heyra af þessum hugmyndum ráðherrans, sem eru stórátak svo sannarlega og boða mikil tíðindi.
![]() |
Samgönguráðherra segir þörf á stórátaki í vegamálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.11.2006 | 10:39
43 ár liðin frá dauða John F. Kennedy

Opinber rannsóknarnefnd, Warren-nefndin, komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði framið morðið og verið einn að verki en margir aðhyllast þá kenningu að árásarmennirnir hafi verið tveir og sumir segja allt að fjórir, eins og vel kom fram í umdeildri kvikmynd Oliver Stone, JFK, árið 1991. Einnig hafa komið fram kenningar um að mafían, bandaríska leyniþjónustan, útsendarar erlendra ríkja eða jafnvel Lyndon B. Johnson, eftirmaður Kennedys á forsetastóli, hafi skipulagt ódæðið. Kvikmyndin kemur með aðra útgáfu en þá opinberu og þær samsæriskenningar sem þar komu fram hafa alltaf verið umdeildar.
Ólíklegt er að niðurstaða, sem allir sætta sig við, fáist nokkurn tíma en ekkert lát er á umfjöllun um morðið, bæði í bókum og fjölmiðlum þótt rúmir fjórir áratugir séu liðnir frá morðinu á forsetanum. Enn er mikið fjallað um pólitíska arfleifð forsetans og 1000 daga hans á forsetastóli. Fyrir þrem árum, þegar að fjórir áratugir voru liðnir frá morðinu á forsetanum, birtist á vef Heimdallar ítarlegur pistill minn um stjórnmálaferil og ævi Johns Fitzgerald Kennedy.
Kennedy forseti, fæddist í Brookline í Massachusetts, þann 29. maí 1917, næstelstur í hópi 9 barna hjónanna Joseph og Rose Kennedy. Hann nam í Choate menntaskólanum og Harvard, fór að því loknu í herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni. Hann hóf þátttöku í stjórnmálum, 29 ára gamall árið 1946 er hann var kjörinn þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. 1952 var hann kjörinn til setu í öldungadeild þingsins fyrir Massachusetts.
Árið 1960 var hann kjörinn forseti Bandaríkjanna, sigraði Richard M. Nixon naumlega í spennandi kosningum. Hann sat á forsetastóli í rúmlega 1000 daga, var myrtur 22. nóvember 1963 í Dallas í Texas, skömmu eftir að hann kom þangað en hann hafði dagana á undan verið á ferðalagi um fylkið. Kennedy forseti var jarðsettur í þjóðargrafreitnum í Arlington, 25. nóvember 1963.
Í ferð minni til Washington í október 2004 fór ég í Arlington-þjóðargrafreitinn að grafreit Kennedys forseta. Á gröf hans og Jacqueline, konu hans, sem lést árið 1994, lifir hinn eilífi logi, táknmynd þess að vonarneistinn slokknar aldrei, hvað sem á bjátar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2006 | 09:56
Sala Landsvirkjunar samþykkt í borgarstjórn

Það er greinilegt að þær viðræður voru bara til málamynda, enda er greinilegt að aldrei hefði náðst saman milli borgar og ríkis um söluna í valdatíð R-listans. Það sést sífellt betur af hverju Þórólfi Árnasyni og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur gekk ekki að ná samkomulagi af hálfu borgarinnar, enda greinilegt að sú von var alltaf byggð á sandi að VG samþykkti málið innan R-listans. Það var æðsta markmið Þórólfs Árnasonar að ná málinu í gegn áður en hann varð að hætta störfum sem borgarstjóri í nóvemberlok 2004 og honum tókst það ekki, eins og allir vita. Málið komst oft í sjálfheldu innan borgarstjórnar vegna oddaatkvæða vinstri grænna og það komst aldrei neitt áfram.
Fyrir tæpum tveim árum undirritaði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þáv. borgarstjóri, undir viljayfirlýsingu um söluna af hálfu Reykjavikurborgar ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni, bæjarstjóra, og ráðherrunum Geir H. Haarde og Valgerður Sverrisdóttir. Mikla athygli hefur vakið nú hversu lítið sýnileg Steinunn Valdís er í umræðunni um málið. Dagur B. Eggertsson, leiðtogi Samfylkingarinnar í borgarstjórn, hefur tæklað málið af þeirra hálfu og verið nær algjörlega í fjölmiðlum vegna þess. Það er greinilegt að undirskrift þáverandi borgarstjóra í febrúar 2005 var marklaus enda var ekki stuðningur við hana innan borgarstjórnar. Það skilst æ betur af hverju aldrei tókst að keyra málið í gegnum R-listann.
Vinstri grænir eru alltaf við sama heygarðshornið. Það er nú greinilegt að það hefur verið bjartsýni sögunnar fyrir Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn að halda að fulltrúar þess flokks myndu standa að sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun á valdatíma R-listans, þar sem þeir höfðu oddaatkvæðið. Þeir eru greinilega mjög hræddir við að mögulega verði Landsvirkjun einkavædd. Sömu gömlu dómsdagsspárnar þar á ferð og ávallt áður. Það er ekkert nýtt við þær.
![]() |
Sala á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun samþykkt í borgarstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2006 | 00:47
Aðskilnaður ríkis og kirkju
Fyrr í þessum mánuði bauð Erlingur Þór Tryggvason, formaður Hugins, félags ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ, mér að rita gestapistil á vef félagsins. Þáði ég þann heiður með þökkum. Það sést vel á góðum vef Hugins hversu mikill kraftur er í starfinu þar. Það er öflugt og gott fólk í stjórninni þar og ávöxtur þessa góða starfs sást vel í kosningunum í vor. Þar er ungliðum treyst fyrir alvöru ábyrgð og forystuverkum, sem er auðvitað ánægjuefni. Huginn hefur alla tíð verið mjög áberandi í ungliðastarfi flokksins, enda Garðabær sterkasta vígi flokksins.
Ég ákvað strax er ég settist niður til að skrifa pistil að þar yrði fjallað um aðskilnað ríkis og kirkju. Við eigum það sameiginlegt, ég og stjórnarmenn í Huginn, að við viljum aðskilnað ríkis og kirkju. Það er eitt af grunnmálum Sambands ungra sjálfstæðismanna að mínu mati, og á ávallt að vera, að mínu mati að berjast fyrir þeim aðskilnaði og það hefur sést vel í ályktunum Sambandsins. Þetta er eitt af þeim málum sem sameinar okkur og því auðvitað hið eina rétta að benda á þetta efni og vekja sérstaka athygli á því og koma með innlegg í þá umræðu.
Í þessum pistli koma vel fram skoðanir mínar á því hvernig staða mála á að vera. Skoðanakannanir hafa sýnt það og sannað að þetta er vilji meirihluta landsmanna. Ég tala því ekkert eyðimerkurtungumál í þessum pistli. Vissulega yrði aðskilnaður flókinn, en verkefnin eru og verða ávallt til að takast á við þau. Þessi skrif og þessar skoðanir koma ekki fram vegna þess að ég sé efasemdarmaður í trúmálum. Ég var alinn upp í kristinni trú og grunngildum hennar. Amma mín, Hanna Stefánsdóttir, var í áratugi öflug í starfi KFUM og í sókninni hér og hún var forystukona á Hólavatni, sumarbúðum KFUM og K í Eyjafirði, um árabil.
Ég fór ungur vikulega í sunnudagaskóla og ég fer enn hið minnsta einu sinni í mánuði til kirkju. Á stórhátíðum er fastur liður hjá mér og mínum að fara til kirkju. Ég lít svo á að trúarlegt uppeldi guðmæðra minna, Línu ömmu og Hönnu ömmu, sem báðar voru mjög trúaðar, hafi verið mikilvægt. Það færði mér mikið. Þessi skrif koma svo sannarlega ekki vegna þess að ég meti trú ekki mikils. Enda kemur það vel fram í þessum pistli á vef Hugins - þar kemur grunnur þessa alls mjög vel fram. Það eru þau grunngildi sem hafa ráðið afstöðu minni, sem ég hef haft síðan að ég var unglingur. Á það minni ég.
Fyrr á þessu ári tók ég sæti í stjórn SARK. Þar sit ég sem trúaður maður skoðana í þessum efnum. Þar situr fólk með ólíkan bakgrunn, bæði trúað fólk og efasemdarfólk í trúmálum. Það er heiðarleg og góð blanda. Ég sit þar á mínum eigin forsendum og skrifa og haga mínum verkum á eigin forsendum. Ég á mig nefnilega sjálfur.
Ég þakka stjórn Hugins því kærlega tækifærið til að skrifa um þetta á vef félagsins og óska stjórninni alls hins besta í störfum sínum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)