Tony Blair skrifar um árin í Downingstræti 10

Tony BlairÞað kemur engum að óvörum að Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, vilji rita pólitíska ævisögu sína, sögu áranna í Downingstræti 10. Fetar hann þar í fótspor Margaret Thatcher sem ritaði eftirminnilega minningasögu um árin ellefu í Downingstræti. Bók hennar The Downing Street Years varð metsölubók, enda opinská og einlæg í senn, og er ofarlega í hillunni minni allavega. Algjörlega ómetanleg heimild um litríkan stjórnmálamann í innsta hring eftirminnilegra ákvarðana sem markaði spor í sögu eins öflugasta ríkis heims, um leið heimsmyndarinnar.

Eðlilega er slegist um útgáfuréttinn á þessari minningasögu Teflon-Tony, rétt eins og Thatchers áður. Þrátt fyrir hæðir og lægðir áranna tíu í Downingstræti er Tony Blair hiklaust einn sigursælasti stjórnmálaleiðtogi breskrar stjórnmálasögu. Hann er sterkasti leiðtogi breskra vinstrimanna í Bretlandi til þessa, stýrði flokki sínum til þriggja kosningasigra, þar af þeim stærsta í stjórnmálasögu Bretlands, og hefur því sannarlega sögu að segja. Ég hef á tilfinningunni að Tony Blair ætli að vera mjög opinskár í þessari bók sinni, sem hann ætlar að rita sjálfur eins og Thatcher gerði forðum. Tímasetning útgáfunnar er varla tilviljun en hún kemur væntanlega út eftir næstu þingkosningar í Bretlandi. Þetta verður tæpitungulaus saga.

Þannig tel ég að Tony ætli sér að tala af alvöru um hitamálin sem skiptu máli á þessum tíu árum og vonandi allt annað hið litla sem í raun skiptir varla minna máli. Tony Blair kom til valda á ótrúlegri bylgju stuðnings á vordögum fyrir áratug og var sem risi á vettvangi breskra stjórnmála mjög lengi. Honum entist ótrúlega vel á pólitísku lífunum níu og átti jafnvel til staðar fleiri en bara þau. Hann kom sem ferskur vindblær vorið 1997 og gerði stöðuna að sinni. Hann varð táknmynd nýrra tíma og persónugerði þreytuna í garð Íhaldsflokksins að sinni og var augljóst mótvægi nýrra tíma við þá eldri. Íhaldsflokkurinn átti aldrei séns þetta vor breytinganna. Það var bara þannig.

Ég dáðist mjög að hlutverki hans í kjölfar dauða Díönu. Hann lét gamlar hefðir og venjur lönd og leið og lagði til verka við að minnast hennar, þó að greinileg kergja væri bakvið tjöldin. Ég fer aldrei ofan af því að glæstasta stund Tonys var þegar að hann ávarpaði bresku þjóðina í Sedgefield að morgni 31. ágúst 1997. Sú ræða súmmaði algjörlega upp stöðuna. Hún var örlagavaldur. Hún kom af stað bylgjunni miklu sem síðar var nærri búin að taka með sér Elísabetu II og granda lykilstöðu hennar, í ljósi þess að hún lét ekki segjast og hélt til London til að halda utan um þjóð í sorg. Hún áttaði sig seint og um síðir. Ég er þess fullviss að ef Blair hefði ekki leiðbeint hinni lífsreyndu drottningu þessa haustdaga hefðu gullnu dagar hennar liðið undir lok.

Margir hafa spurt sig hvort að Tony Blair hafi verið að reyna að leika Margaret Thatcher allan sinn stjórnmálaferil. Að vissu marki má segja það. Hann auðvitað gjörbreytti Verkamannaflokknum. Hann á þó ekki heiðurinn af því einn. Þar átti John Smith lykilþátt ennfremur en honum entust ekki lífsins dagar til að koma því í framkvæmd. Blair gerði stefnuna að sinni og fullkomnaði hana. New Labour var skothelt plagg í kosningunum 1997 og það var grunnur nýrra tíma. Þó gengið hafi svona og svona er öllum ljóst hvaða áhrif breytingarnar vorið 1997 höfðu. Blair var auðvitað aldrei verkalýðskrati eða kommi. Hann var hægrikrati sem hélt flokknum á miðju og gat höfðað til hægrimanna. Þar lá stærsta farsæld flokksins.

Tony Blair ríkti lengi. Sama hversu molnaði undan honum var komið í veg fyrir hrapið á þeim stað sem hættulegastur var og hann náði alltaf að bjarga sér. Undir lokin varð staðan vissulega mjög erfið en það er auðvitað aðdáunarvert hversu vel honum tókst að halda lykilstöðu. Meira að segja tókst honum, þvert á flestar spár, að bjarga sér frá nöprum endalokum eftir sjálfsmorð dr. Davids Kelly, sem var auðvitað hreinn harmleikur pólitískt og persónulega, Cash-for-honours fíaskóið og síðast en ekki síst tapið auðmýkjandi í þinginu í nóvember 2005. Í síðastnefnda tilfellinu stóð hann tæpast, enda var naumur þingmeirihluti skaðlegur enda höfðu andstæðingarnir í flokknum hann í spennitreyju og það flýtti fyrir endalokunum.

Í ósigri eða endalokum getur mesti sigurinn falist. Þetta kom vel fram þegar að Margaret Thatcher var í raun sett af sem leiðtogi Íhaldsflokksins. Það voru nöpur endalok. Daginn sem hún sagði af sér leiftraði hún af fjöri og orðfimi sem aldrei fyrr í þingumræðum. Flestir sem upplifðu að sjá þann dag muna eftir henni berjast af fimi við Neil Kinnock, í bláu dragtinni sinni og sennilega með flottustu hárgreiðsluna. Þrátt fyrir niðurlægjandi endalok gat hún gert stund endalokanna að sínum og náði að bægja frá mestu gagnrýni. Þetta tókst líka Tony Blair á stund endaloka. Hann stjórnaði þeim og var klappaður upp eins og leikari eftir sinn glæstasta leiksigur.

Flestir munu horfa til uppgjörs Blairs við eftirmanninn Gordon Brown; hvernig þeim verði lýst. Margar sögur hafa gengið af erfiðum samskiptum og tímasetning útgáfunnar er sérlega heppileg til að tala hreint út án þess að skaða. Árin tíu í Downingstræti frá sjónarhóli húsbóndans Tony Blair verður áhugaverð lesning, hvaða skoðun sem stjórnmálaáhugamenn hafa á Tony Blair og verkum hans. Það má gefa sér að pólitískt uppgjör hans verði spennandi súmmering á lykilmálum áranna fyrir og eftir forsætisráðherraferilinn.


mbl.is Hart barist um útgáfuréttinn á endurminningum Blairs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun eyrnamergsátið umdeilda skaða Kevin Rudd?

John Howard og Kevin Rudd Eitt mesta hitamálið í Ástralíu þessa dagana er athyglisvert eyrnamergsát Kevin Rudd, leiðtoga Verkamannaflokksins. Hefur myndband af þeirri lítt geðslegu iðju hans farið eins og eldur í sinu um allan heim á netinu. Skoðanakannanir hafa bent til þess nú um nokkuð skeið að hinn fimmtugi Rudd muni verða næsti forsætisráðherra Ástralíu að loknum þingkosningum eftir mánuð og Verkamannaflokkurinn muni vinna stórsigur á hægriblokkinni.

Muni Rudd vinna kosningar markar hann sér sess á spjöldum sögunnar og mun þá endir verða bundinn á ellefu ára valdaferil hægristjórnarinnar sem leidd hefur verið af einum sigursælasta stjórnmálamanni ástralskrar stjórnmálasögu, John Howard, sem hefur unnið fjórar þingkosningar og er orðinn einn þaulsetnasti forsætisráðherra Ástralíu, allt frá því að hann felldi Paul Keating og kratana frá völdum með afgerandi hætti í ársbyrjun 1996 og verið eins og teflon-maður alla tíð síðan.

John Howard hefur verið eins og kötturinn með níu lífin á sínum forsætisráðherraferli. Flestir töldu hann búinn að vera í aðdraganda kosninganna 2004 en hann vann að lokum góðan sigur á Mark Latham, sem spáð var forsætisráðherraembættinu um langt skeið. Man ég vel eftir fregnunum af kosningasigri hans í október 2004 en ég var staddur í Washington þá vegna forsetakosninganna, var í leigubíl frá Arlington til hótelsins í miðborginni er fyrstu fregnir heyrðust af sigri hans og hægriblokkarinnar. Það var óvæntur sigur eftir vonda stöðu Howards lengst af.

Það hefur reyndar verið ólga með Howard um nokkuð skeið. Flestir telja tíma hans liðinn og margir vildu að hann rýmdi til fyrir Peter Costello, augljósum arftaka hans allan valdaferilinn, frekar en að sækjast eftir fimmta kjörtímabilinu. Sú ólga hefur nú leitt til þess að Howard hefur tilkynnt um að sigri hann í kosningunum muni hann rýma til fyrir arftakanum Costello fljótlega á næsta kjörtímabili. Hann segist ekki vera heigull og vilji verja verk sín og stjórnarinnar. En fjöldi landsmanna er orðinn hundleiður á Howard og flestir hafa talið að þjóðin myndi refsa honum harkalega.

Nú er Kevin Rudd með öll spil á hendi - allar kannanir benda til þess að hann verði nú örlagavaldur ástralskra stjórnmála, muni fella Howard af stalli sínum. En mun eyrnamergsátið leggja vonir hans um kosningasigurinn í rúst eða veikja hann umtalsvert? Vissulega er þetta frekar ógeðsleg iðja, held að flestum sundli örlítið við myndunum. En nú verður áhugavert að sjá hversu klígjugjarnir Ástralir eru í raun og veru.

mbl.is Eyrnamergsát gæti skaðað stjórnmálaferilinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umdeildur sakamálaþáttur

Sönn íslensk sakamál Eitt athyglisverðasta sjónvarpsefni síðustu ára voru þættirnir Sönn íslensk sakamál, þar sem fræg sakamál voru kortlögð nánar og atburðarás sviðsett til að gefa fyllri mynd á öllum hliðum þeirra. Þó að þættirnir hafi vissulega verið fræðandi og áhugaverðir var ekki óeðlilegt að einhverjir væru ósáttir við sumar hliðar þeirra og tekist væri á um túlkun sem farið væri eftir, enda í öllum tilfellum eru þetta mál sem eru viðkvæm að einhverju leyti.

Eitt grimmdarlegasta morðmál Íslandssögunnar er morðið á bensínstöðinni í Stóragerði í Reykjavík fyrir tæpum tveim áratugum, þar sem bensínafgreiðslumanni var ráðinn bani árla dags með melspíru. Leitun er að hrottalegra morðmáli hérlendis og eðlilegt að áhugi hafi vaknað hjá umsjónarmönnum þáttanna að kortleggja það í einum þættinum. Átök hafa verið milli aðstandenda þáttanna og fjölskyldu hins látna. Einkum virðist það hafa verið vegna samskiptaleysis við gerð þáttarins um málið og að friðhelgi einkalífs þeirra hefði verið vanvirt.

Þessi þáttur er mér einna helst eftirminnilegur af þeim sem ég hef séð í þessum seríum. Kannski er það vegna þess hversu málið var kaldrifjað og skelfilegt, eða vegna grimmdarinnar í verknaðinum. Er ekki alveg viss. Hinsvegar skil ég vel fjölskyldu mannsins og skil vel þeirra tilfinningar í málinu. Það þarf alltaf að hafa aðgát í nærveru sálar. Mál af þessu tagi skilur eftir sig sár, sár sem eflaust aldrei gróa. Það er með ólíkindum að aðstandendur þáttanna hafi ekki leitað eftir samþykki aðstandenda við að taka málið fyrir.

Heilt yfir finnst mér lágmark þegar að tekið er fyrir mál af þessu tagi sem er sérstaklega viðkvæmt, í ljósi allra aðstæðna, að reynt sé að hafa samráð við fjölskylduna um framsetningu þáttarins eða hvort að hún vilji umfjöllun um málið. Í grunninn hlýtur allt siðmenntað fólk að taka undir það. Dómurinn er nokkuð afgerandi en mér finnst rétt að hugsa til mannlegra tilfinninga við gerð svona efnis, einkum þegar að fjallað er um morðmál sem skildi eftir fjölskyldu í sárum.

mbl.is RÚV sýknað af bótakröfu vegna heimildarmyndar um morð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Golfferð verður að golflausri fjölskylduferð

Airplane (kvikmyndalógó) Það eru alltaf vonbrigði þegar að farið er í flugferð og maður áttar sig á því er áfangastað er náð að farangur af einhverju tagi vanti. Ég hef upplifað það, en ég fór einu sinni í utanlandsreisu og vantaði aðra töskuna mína. Mér var síður en svo hlátur í huga þegar að ég barðist fyrir því að fá töskuna sem vantaði, sem tókst reyndar eftir japl, jaml og fuður að finna á vissum stað. Það var lítið um hlátur í huga mér þann daginn. En töskuna fékk ég eftir vissa baráttu.

Mér finnst Ólafur golfari ótrúlega brosmildur yfir því að hafa misst af golfinu úti í Bandaríkjunum, vera í golflausri fjölskylduferð vegna þess að hann fékk ekki golfsettið sent út. Ég er einn þeirra sem hef aldrei fundið mig í golfinu algjörlega. Hef þó prófað það og haft gaman af. Eflaust kemur þetta með aldrinum.

Þekki ansi marga golfara sem myndu verða rauðari í framan en Rúdolf með rauða trýnið yfir að fara í golfferð án settsins en Ólafur tekur þessu greinilega af ró, enda er svo margt hægt að gera á Flórída. Sannarlega yndislegur staður.

mbl.is Icelandair skildi 30 golfsett eftir á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæpsamleg skemmtiatriði á barnum

Stelpa með bjór Viss goðsagnablær hefur verið yfir hlutverki gengilbeinanna á barnum og þær hafa verið túlkaðar með ýmsum hætti í eiginlega óteljandi kvikmyndum. Held þó að þessi í Perth í Ástralíu slái þær allar út með skemmtiatriði sínu á barnum, sem virðist hafa endað sem glæpsamlega skemmtilegt. Nú á að sekta hana fyrir að kremja dósir og gera fleiri skondin atriði sem vekja kátínu fólks um allan heim.

Það er nú reyndar vandséð hverjum hún eigi að hafa verið að vinna skaða með athæfi sínu, sem hún var vel meðvituð um. Sé reyndar fyrir mér viðbrögð hörðustu femínistanna sem lesa þessa frétt og eru sennilega gapandi hissa yfir skemmtiatriðum gengilbeinunnar. Hún flippaði kannski yfir um, en hún er ákærð fyrir brot á áfengislöggjöfinni. Veit ekki hvort er skondnara það eða atriðið sem slíkt.

Fannst reyndar fyndnast að kráareigandinn var sektaður líka fyrir að hafa ekki stöðvað aumingja konuna af við það sem hún ákvað sjálf. Finnst nú siðsemin hafa tekið einum of mikið völdin þarna. En spurningin hlýtur í grunninn að vera; hvaða lög braut konan í raun og veru? Særði hún kannski helst stolt vissra einstaklinga með athæfi sínu?

mbl.is Sektuð fyrir að kremja bjórdósir með berum brjóstunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einum of væn búbót fyrir varaborgarfulltrúa

Óskar BergssonÞað er ekki hægt að segja annað en að launakjör varaborgarfulltrúa framboðanna fimm sem náðu kjöri í kosningunum 2006 séu væn. Mér finnst það algjörlega út í hött að stjórnmálamenn geti fengið 300 þúsund krónur fyrir einn fund í viku jafnvel. Get ekki ímyndað mér annað en að þetta verði nokkuð hitamál, enda afleitt verklag á meðan að hinar ýmsu stéttir sitja óbættar hjá garði. Þetta gerir ekkert annað en að hella olíu á það bál sem til staðar er hjá fólki almennt í samfélaginu.

Það virðist reyndar vera að sá varaborgarfulltrúi sem nýtur þessa mest sé Óskar Bergsson, varamaður Björns Inga Hrafnssonar. Það er svosem varla furða enda hafa framsóknarmenn haft vægi í borgarstjórn Reykjavíkur langt umfram kjörfylgi. Þeir höfðu yfir 35% vægi í meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og héldu því í vinstrimeirihlutanum nýja, þó þar séu tvö framboð fleiri. Þeir sem hæst töluðu um of mikið vægi framsóknarmanna áður hafa haldið þeim áfram í sömu hæðum, svo að gagnrýni þeirra var máttlaus er yfir lauk.

Óskar er t.d. formaður framkvæmdaráðs borgarinnar og mjög valdamikill í nefndakerfinu, valdamestur varaborgarfulltrúa ef Margrét Sverrisdóttir, forseti borgarstjórnar, er undanskilin, en hún er ekki kjörinn aðalfulltrúi, enn er Ólafur F. Magnússon þar, en er í óskilgreindu leyfi vegna persónulegra erfiðleika ef marka má Séð og heyrt. Heilt yfir vekja þessi launakjör varaborgarfulltrúa í Reykjavík stórar spurningar um almennt pólitískt siðferði. Almenningi mun blöskra svona verklag og væntanlega verður spurt að því hvort að þetta sé eðlilegt. Það getur varla talist það.

Það verður áhugavert að sjá hvaða afstöðu vinstrimeirihlutinn brothætti tekur til þessa máls, en það yrði ekki undrunarefni ef almennar kröfur færu að heyrast um að þetta yrði stokkað upp.


mbl.is Varaborgarfulltrúar fá 300 þúsund á mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland fær sína stundarfrægð í Grey´s Anatomy

Liðið í Grey´s Anatomy Ég er einn þeirra sem er ekki beint hrifinn af spítalaframhaldsþáttum, einskonar blöndu af rómans og raunveruleika sjúkrahúsanna. Þannig að það verður seint sagt að ég hafi gaman af Grey´s Anatomy og ER. Finnst tilveran á sjúkrahúsunum stundum einum of slétt og felld í bland við alvöru lífsins sem þar er, en það er bara mitt heiðarlega mat. Margir eru miklir aðdáendur svona þátta eins og áhorfsmælingar sýna.

Það leikur lítill vafi á því að Grey´s Anatomy er einn heitasti þátturinn vestanhafs. Nú er Ísland að fá sína stundarfrægð í þeim þætti, minnst er á landið í hugleiðingum dauðvona sjúklings sem vill fá að kveðja þennan heim sáttur við lífið og tilveruna á Íslandi. Það er ánægjulegt að Ísland fái þessa frægð og vonandi getum við notað þetta sviðsljós eitthvað. Þetta gefur okkur vonandi færi á fleiri ferðamönnum til landsins og því að Bandaríkjamenn líta til litlu eyjarinnar í norðri og vilji koma hingað og upplifa náttúruna frá öllum hliðum.

Síðustu mánuði hafa fjöldamargar stjörnur verið að kynna Ísland með mjög áberandi hætti. Meðal þeirra má nefna óskarsverðlaunaleikkonuna Jodie Foster og 24-leikarann Kiefer Sutherland. Það eru ekki mörg ár frá því að Ísland komst vel á kortið í tveim bandarískum þáttum, þó með mjög ólíkum hætti. Fyrra tilfellið var í The West Wing, sem hefur reyndar því miður runnið sitt skeið á enda, en það var öllu meira mitt áhugasvið í sjónvarpi að horfa á þá þætti. Þar var minnst á við forseta þáttanna, Martin Sheen, að sinfóníuhljómsveitin myndi leika í tónlistarhúsi í Washington og skemmtilegur söguþráður spannst út frá því.

Í hinu tilfellinu voru það mafíuþættirnir frábæru um Soprano-fjölskylduna. Þar voru mafíufélagarnir að gamna sér með íslenskum flugfreyjum í ansi skemmtilegu atriði og þar bar Ísland á góma með skondnum hætti. Ólík atriði en Ísland fékk sína stundarfrægð. Það er ekki síður skemmtilegt að heyra af því að minnst sé á landið okkar í þessum vinsæla þætti og vonandi koma góð tækifæri útfrá því, eins og nú er að sýna sig með auknum áhuga á landinu.

mbl.is Ísland í Grey's Anatomy þættinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. október 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband