Ísland fær sína stundarfrægð í Grey´s Anatomy

Liðið í Grey´s Anatomy Ég er einn þeirra sem er ekki beint hrifinn af spítalaframhaldsþáttum, einskonar blöndu af rómans og raunveruleika sjúkrahúsanna. Þannig að það verður seint sagt að ég hafi gaman af Grey´s Anatomy og ER. Finnst tilveran á sjúkrahúsunum stundum einum of slétt og felld í bland við alvöru lífsins sem þar er, en það er bara mitt heiðarlega mat. Margir eru miklir aðdáendur svona þátta eins og áhorfsmælingar sýna.

Það leikur lítill vafi á því að Grey´s Anatomy er einn heitasti þátturinn vestanhafs. Nú er Ísland að fá sína stundarfrægð í þeim þætti, minnst er á landið í hugleiðingum dauðvona sjúklings sem vill fá að kveðja þennan heim sáttur við lífið og tilveruna á Íslandi. Það er ánægjulegt að Ísland fái þessa frægð og vonandi getum við notað þetta sviðsljós eitthvað. Þetta gefur okkur vonandi færi á fleiri ferðamönnum til landsins og því að Bandaríkjamenn líta til litlu eyjarinnar í norðri og vilji koma hingað og upplifa náttúruna frá öllum hliðum.

Síðustu mánuði hafa fjöldamargar stjörnur verið að kynna Ísland með mjög áberandi hætti. Meðal þeirra má nefna óskarsverðlaunaleikkonuna Jodie Foster og 24-leikarann Kiefer Sutherland. Það eru ekki mörg ár frá því að Ísland komst vel á kortið í tveim bandarískum þáttum, þó með mjög ólíkum hætti. Fyrra tilfellið var í The West Wing, sem hefur reyndar því miður runnið sitt skeið á enda, en það var öllu meira mitt áhugasvið í sjónvarpi að horfa á þá þætti. Þar var minnst á við forseta þáttanna, Martin Sheen, að sinfóníuhljómsveitin myndi leika í tónlistarhúsi í Washington og skemmtilegur söguþráður spannst út frá því.

Í hinu tilfellinu voru það mafíuþættirnir frábæru um Soprano-fjölskylduna. Þar voru mafíufélagarnir að gamna sér með íslenskum flugfreyjum í ansi skemmtilegu atriði og þar bar Ísland á góma með skondnum hætti. Ólík atriði en Ísland fékk sína stundarfrægð. Það er ekki síður skemmtilegt að heyra af því að minnst sé á landið okkar í þessum vinsæla þætti og vonandi koma góð tækifæri útfrá því, eins og nú er að sýna sig með auknum áhuga á landinu.

mbl.is Ísland í Grey's Anatomy þættinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þú hefur nú misst af miklu ef þú hefur ekki horft á Grey's algjörlega ómissandi, allavega fyrsta serían, sú númer 2 var soldið þynnri svo nú bíð ég eftir no. 3. Spennandi eins og landið okkar ljúfa.

Ásdís Sigurðardóttir, 25.10.2007 kl. 00:54

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Æi Ásdís mín, þetta er ekki alveg minn tebolli hehe. En margir í kringum mig hafa talað vel um þáttinn, einhvernveginn ekki komist inn í hann eða stúderað hann mikið.

Vona að gangi vel með undirskriftasöfnunina. :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 25.10.2007 kl. 00:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband