Romano Prodi segir af sér

Romano ProdiRomano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, sagði af sér í kvöld fyrir hönd stjórnar sinnar eftir að hafa tapað mikilvægri atkvæðagreiðslu um stefnumótun í utanríkismálum í efri deild ítalska þingsins. Prodi hefur verið forsætisráðherra í tæpt ár, frá 17. maí 2006, en Ólífubandalagið vann nauman sigur í þingkosningum á Ítalíu í apríl 2006. Hefur bandalagið aðeins haft eins sætis meirihluta í efri deildinni.

Vinstrimenn sögðu eftir kosningarnar að þeir gætu verið í sterkri stjórn allt kjörtímabilið þrátt fyrir þessa stöðu en Silvio Berlusconi, fyrrum forsætisráðherra, og samherjar hans sögðu stjórnina varla geta setið í meira en ár. Það hefur nú sannast með þessari þingkosningu. Ólífubandalagið er bandalag alls níu vinstriflokka með mjög ólíka eigin stefnu og það hafa flestir séð allan þennan tíma að það yrði erfitt ef ekki ómögulegt að halda völdum og ná samkomulagi í öllum málum við svona aðstæður.

Það er enda svo að Romano Prodi er ekki leiðtogi neins flokksins heldur bara forsætisráðherra í nafni flokkanna níu og andlit þeirra. Prodi var forsætisráðherra í nafni samskonar bandalags á árunum 1996-1998 en gafst þá upp og aðrir tóku við. Nú er meirihlutinn mun brothættari en þá og greinilegt að það gengur illa að halda honum saman.

Nú er vinstristjórnin búin að segja af sér. Vinstrimaðurinn Giorgio Napolitano er forseti Ítalíu. Það verður hans að meta nú stöðuna, ræða við leiðtoga flokkanna og kanna hvað sé rétt að gera. Það er enn ekki ár liðið frá þingkosningum og fróðlegt að sjá hvort Napolitano felur þjóðinni að leysa úr erfiðri pólitískri stöðu með því að óska eftir áliti landsmanna.

Þetta er mjög erfið staða og vandséð hvernig að hún verður leyst öðruvísi með sómasamlegum hætti.


mbl.is Forseti Ítalíu hefur tekið við afsagnarbeiðni Prodis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnús Þór í Reykjavík - minni hasar í Suðri

MÞH Það er nú ljóst að Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, fer fram í Reykjavík í komandi alþingiskosningum og mun því ekki ætla sér aftur í framboð í Suðurkjördæmi, sem hann er nú þingmaður fyrir. Verður fróðlegt að sjá hvort að hann fer fram í norður- eða suðurhlutanum. Fari hann fram í suðurhlutanum mun hann mæta Margréti Sverrisdóttur, varaborgarfulltrúa og fyrrum framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins, sem leiðir þar væntanlega lista nýs framboðs síns.

Tilfærsla Magnúsar Þórs þýðir um leið að hann mun ekki mæta Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, í Suðurkjördæmi, en Árni er nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu. Rimma Magnúsar Þórs og Árna í hinu fræga brottkastsmáli fyrir nokkrum árum þótti eftirminnileg, en harðar árásir gengu þeirra á milli og málið fór fyrir dóm og lauk að lokum með sigri fjármálaráðherrans skömmu fyrir þingkosningarnar 2003. Nú mun það væntanlega verða Grétars Mars Jónssonar, skipstjóra og fyrrum forseta FFSI, að leiða lista frjálslyndra á þeim slóðum, en hann er nú varaþingmaður Magnúsar Þórs.

Ekki er hægt að segja að ákvörðun Magnúsar Þórs um framboð í Reykjavík komi að óvörum. Þó höfðu einhverjir átt von á að hann færi fram í Kraganum, en það er nú greinilega ætlað Valdimari Leó Friðrikssyni, sem var þingmaður Samfylkingarinnar eftir afsögn Guðmundar Árna Stefánssonar þar til að sá fyrrnefndi var óháður í nóvember, að leiða listann þar. Hann fetar þar í fótspor Gunnars Örlygssonar, sem náði kjöri sem frjálslyndur í kjördæminu en gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn í maí 2005. Eitthvað hefur minna farið fyrir andstöðu frjálslyndra við að Valdimar Leó skipti um þingflokka á kjörtímabilinu en þegar að Gunnar Örlygsson gerði slíkt hið sama.

Það verður fróðlegt að sjá kosningabaráttu Magnúsar Þórs í Reykjavík. Þar heldur hann í höfuðvígi Margrétar Sverrisdóttur, en meginþorri þeirra sem studdu F-listann í sveitarstjórnarkosningunum í fyrra og skipa forystusveit lista frjálslyndra og óháða hafa nú yfirgefið Frjálslynda flokkinn og gerst óháðir og skipa framvarðarsveit nýs framboðs, eða flokks, Margrétar. Þar þarf Magnús Þór því að byggja sér nýtt bakland. Hann er þó kominn nær heimaslóðum sínum, en hann býr á Akranesi.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig að Magnúsi Þór gengur að byggja sér pólitískt bakland í höfuðborginni. Þeir verða sennilega ágætir saman hann og Jón Magnússon þarna. Mun hann kannski leiða hinn listann?

mbl.is Magnús Þór væntanlega í framboð í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiriháttar klúður á Moggablogginu

Ég verð að viðurkenna að ég varð nokkuð hissa þegar að ég ætlaði að fara hingað inn á öðrum tímanum en komst ekki inn. Skýringin beið mín í tölvupóstinum - það væri búið að skipta um lykilorð því það fyrra hafði verið opinberað á bloggsíðunni vegna mistaka þjónustuaðila síðunnar. Ergó: leynilegasta tenging milli mín og síðunnar var opinberuð! Þetta er meiriháttar klúður - einfalt mál. Sannkallaður stórskandall þeirra sem halda úti Moggablogginu. Það er ekkert annað hægt að segja um málið.

Hef verið lítið við tölvu í dag og því lítið getað skrifað og kynnt mér málið. En ég las þessa frétt og blogg nokkurra annarra hér sem skrifa og eru auðvitað ekki sáttir. Það er ég líka. Finnst þetta mjög slæmt mál og skil ekki í þessu sleifarlagi satt best að segja. Það þýðir ekki að segja bara að svona komi ekki fyrir aftur. Þetta er mjög alvarlegt mál svo vægt sé að orði komist. Það að einhver sem lesi hér geti séð lykilorðið og breytt stillingum er alvarlegt mál.

Þetta er ekki til vegsauka fyrir Moggabloggið og á svona vandræðalegu klúðri þarf að taka!

mbl.is Lykilorð sýnileg á blog.is fyrir mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samband tveggja skaphunda í uppnámi

Brad Pitt og Angelina Jolie Ástarsamband Brad Pitt og Angelinu Jolie hefur verið eitt af þeim mest áberandi á síðustu árum og telst eitt það heitasta í kvikmyndabransanum til fjölda ára. Umtalið við upphaf sambands þeirra við gerð kvikmyndarinnar Mr. and Mrs. Smith árið 2005 var enda engu minna en þegar að Elizabeth Taylor og Richard Burton voru að byrja að draga sig saman við gerð kvikmyndarinnar Kleópötru í upphafi sjöunda áratugarins.

Um fá sambönd hefur meira verið skrifað og pælingarnar um eðli sambandsins var deilt nær allt árið 2005 uns að því kom að það var að fullu opinberað. Ástríðuhitinn milli þeirra leynir sér enda ekki þegar að kvikmyndin, sem reyndar er ekkert meistaraverk en hörku hasarbomba, er skoðuð. Lengi vel var reyndar spáð í hvort að þau ættu nokkru sinni skap saman. Þau eru báðir vel þekktir skaphundar og er Angelina Jolie með skapmeiri konum sem þekkjast í kvikmyndabransa nútímans og hefur ekki langt að sækja það þar sem er faðir hennar, óskarsverðlaunaleikarinn Jon Voight.

Nú virðist þetta allt vera að stranda á því hvort þau muni ganga í hjónaband. Jolie vill það ekki en Pitt krefst þess. Deilupunkturinn liggur þar á hvort þeirra hafi betur og virðist það vera að sliga þetta fræga samband. Hvorugt þeirra vill gefa eftir. Jolie er reyndar illa brennd af hjónaböndunum, hún hefur tvisvar gengið í það heilaga, en það má fullyrða að ekki hafi það verið farsæl hjónabönd; hún giftist breska leikaranum Jonny Lee Miller (syni leikarans Bernard Lee sem lék M í Bondmyndunum 1962-1979) árið 1996 og skildi við hann árið 1999 og giftist ári síðar leikaranum Billy Bob Thornton og var gift honum í þrjú ár.

Samband Jolie og Thornton var gríðarlega umdeilt og kom mjög óvænt aðeins örfáum mánuðum eftir að Jolie hlaut óskarsverðlaunin fyrir Girl, Interrupted í mars 2000. Thornton, sem er tveim áratugum eldri en Jolie, þótti vera fjarri því hennar týpa en hann er mjög skapmikill og kostulegur karakter. Enda var sambúðin hæðótt, upp og niður eins og rússíbani. Að því kom að sambúðin gekk ekki og varð ekki mörgum undrunarefni. Pitt á að baki eitt hjónaband, mjög þekkt auðvitað, en hann var giftur "Vininum" Jennifer Aniston í fimm ár.

Því hefur oftar en einu sinni verið spáð frá frægu skoti þeirra skötuhjúa við gerð Mr. and Mrs. Smith að þau ættu hvorki skap saman né gætu verið saman. Nú virðist vera að steyta allverulega á skeri hjá þeim. Það yrðu fáir hissa myndi þessu ástríðufulla og sviptingasama sambandi ljúka einmitt vegna þess að gætu ekki komið sér saman um að heita hvoru öðru ævilanga trú og ástúð.

mbl.is Samband Jolie og Pitt sagt í vanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreinn Loftsson skrifar færslu um mútumálið

Hreinn Loftsson Um þessar mundir eru fjögur síðan liðin frá eftirminnilegu bolludagsviðtali Óðins Jónssonar við Davíð Oddsson, seðlabankastjóra og þáv. forsætisráðherra, þar sem hann sagði að forsvarsmenn Baugs hefðu gefið í skyn á frægum leynifundi Davíðs og Hreins Loftssonar í London í janúar 2002 að múta ætti Davíð til að hann yrði þægur í taumi. Davíð sagði að Hreinn hefði sagt þar að Jón Ásgeir væri tilbúinn til að greiða honum 300 milljónir fyrir að hætta að tala illa um Baug. Hreinn Loftsson sagði að þetta hefði allt verið sagt í hálfkæringi.

Lítið hefur verið rætt um þetta mál síðustu árin, nær ekkert eftir að Davíð Oddsson hætti í stjórnmálum. Þetta var eitt mestu hitamála í aðdraganda alþingiskosninganna 2003, síðustu kosningabaráttu Davíðs á þriggja áratuga stjórnmálaferli, enda auðvitað athyglisvert þegar að forsætisráðherra heillar þjóðar fullyrðir að bornar hafi verið á hann mútur eða tilraun til þess gerð. Þetta endaði sem hitamál tengt kosningunum og barátta Davíðs og Ingibjargar Sólrúnar varð gríðarlega hörð. Málið er eitt hið torskildasta í stjórnmálasögu seinni ára.

Hreinn Loftsson skrifaði athugasemd við grein Ragnars Sverrissonar, kaupmanns, á bæjarmálavefritinu Pollinum. Grein Ragnars hét Smjörklípudagurinn mikli og fjallar því um þetta mál. Það er svo sannarlega athyglisverð athugasemd. Birti ég hana orðrétt hér á eftir og lesendur geta dæmt hana sjálfir, en athyglisverð er hún:

"Eitt skulum við hafa alveg á hreinu. Davíð Oddssyni voru aldrei boðnar mútur eða tilraun gerð til þess að bera á hann mútur. Öðru nær. Aðspurður í MBL og KASTLJÓSI sagði hann að hann ætlaði mér ekki slíkt. Sagan ("smjörklípan") var einmitt svo slóttug vegna þess að hann sagði að ég hefði trúað sér fyrir því að Jón Ásgeir hefði á einhverjum tímapunkti áður nefnt þetta við mig en ég drepið hugmyndina vegna þess að Davíð Oddsson væri ekki slíkur maður (og ég tek fram að hann er ekki slíkur maður).

Jón Ásgeir hefði á hinn bóginn látið sér til hugar koma að Davíð Oddsson væri slíkur maður og að ég hafi sagt honum þetta, trúað honum fyrir þessu. Hann gat þess ekki í viðtalinu við RUV undir hvaða kringumstæðum þetta var sagt eða í hvaða samhengi, þ.e.a.s. að ég hefði sagt sér þessa sögu sem svar við söguburði hans um feðgana í Bónus. Menn skyldu ekki trúa öllu sem sagt væri um nafntogaða menn.

Um hann (Davíð Oddsson) væru sagðar sögur sem ég legði ekki trúnað á, t.d. hefði Jón Ásgeir sagt mér sögu sem gengi manna á meðal um meinta greiðslu að fjárhæð 300 m. kr. og slegið fram í framhaldinu hvort þetta væri kannski aðferðin! (Á ensku kallast þetta "sarcasm", "bitter irony" eða kaldhæðni á íslensku). Davíð greip þetta á lofti - áróðursmaðurinn sem hann er og sneri þessu strax upp í andhverfu sína - en ég sagði honum um leið að þetta hefði verið sagt í hálfkæringi af Jóni Ásgeiri. Engin alvarleg meining hefði legið þar að baki.

Þetta hefði verið nefnt í dæmaskyni um hve varlegt væri að leggja trúnað á söguburð. Hér var aðalatriðið auðvitað slúðrið en ekki kaldhæðni Jóns Ásgeirs. Ég minnti hann einmitt á að morgni "bolludagsins" - þegar hann hringdi í mig áður en hann fór í viðtalið á RUV - að ég hefði notað orðið "hálfkæringur" strax þarna um kvöldið. Þetta var ekki sagt sem fyndni af minni hálfu heldur til að vara Davíð Oddsson við að trúa kjaftasögum. Þetta er því ekta "smjörklípa" hjá honum. Hlutir teknir úr samhengi til að draga athyglina frá óþægilegri umræðu um önnur mál.

Í þessu tilviki - í framhaldi af lýsingu Fréttablaðsins frá því á laugardeginum fyrir "bolludaginn" - hvað vissi Davíð Oddsson um aðdraganda Baugsmálsins? Vissi hann eitthvað? Hitt er síðan annað mál að stuðningsmenn Davíðs Oddssonar í Sjálfstæðisflokknum og annars staðar fóru að spinna, t.d. með því að spyrja: "já, en er það ekki einmitt svona sem menn ámálga slíka hluti" o.s.frv. Þá vil ég einnig mótmæla því að þetta hafi verið eitthvað fyllerí þarna úti í London eins og stundum er haldið fram manna á meðal og í fjölmiðlum.

Á hinum eiginlega fundi okkar tveggja í Lundúnum 26. janúar 2002 drakk annar kaffi en hinn te. Eftir heimkomuna og fram í febrúar 2002 áttum við Davíð Oddsson nokkur samskipti þegar ég gekk frá störfum mínum fyrir hann sem forsætisráðherra og ég varð þess ekki var þá að hann teldi að alvarlegir hlutir hefðu gerst í samskiptum okkar. Öðru nær. Hann þakkaði mér með hlýjum orðum fyrir náið og gott samstarf og góðan árangur við framkvæmd einkavæðingar á árunum 1992-2002."

Leyndardómurinn um Bónus-kartöflurnar

BónusUm fátt hefur meira verið rætt í dag en rúllandi kartöflur í Bónus, í bakgrunni Sölva Tryggvasonar, fréttamanns, í Íslandi í dag í umfjöllun um verð í lágvöruverslunum hér heima og í Danmörku. Ég verð að viðurkenna að ég tók ekki eftir þessu er ég sá umfjöllunina fyrst en leit á þetta síðdegis þegar að ég heyrði umræðuna um þetta. Ég var svo upptekinn að spá í verðlagi milli þess sem gerist hér og í Danmörku að þetta fór framhjá mér.

Það hefði verið skelfilegt fyrir Bónus hefði verið músagangur þar. Hefði verið vont fyrir orðsporið og það. Þeir geta þó andað léttar enda er ljóst að þetta voru kartöflur en ekki kartöflumús þó. Hún fæst bara í duftpakkaformi þarna semsagt. Lifandi mýs eru því ekki til staðar. Í Íslandi í dag í kvöld var sýnt vel í nærmynd hvers eðlis málið er. Það þarf ekki að efast um eftir þær myndir hvernig allt er í pottinn búið semsagt.

Ég dáist að þeim sem sáu þetta í gærkvöldi meðan að háalvarleg verðmæling fór fram. Þetta fór allavega framhjá mér. Pælingarnar um þetta mál allt í dag hafa verið spekingslegar og lifandi. Skiptar skoðanir voru; sumir töldu þetta mýs og aðrir kartöflur. Það þarf semsagt ekki að rífast um þetta lengur. Kartöflur voru það, mjög vænar meira að segja; kartöflur sem myndu sóma sér sem bakaðar með grillsteikinni.

En já, leyndardómurinn um Bónus-kartöflurnar hefur verið sviptur hjúp óvissunnar og hægt að spá því í einhverju öðru. Við getum því öll sem eitt andað léttar.... með Baugi.


mbl.is Kartöflumús í Bónus?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband