4.2.2007 | 22:09
Mun Framsókn ná að rétta úr kútnum?
Það er ekki ofsögum sagt að nýjasta könnun Gallups hafi verið slæm fyrir Framsóknarflokkinn; hann mælist aðeins með sex þingsæti og hefur misst helming þingflokksins og tíu prósenta fylgi frá kosningunum 2003. Bæði Jón Sigurðsson og Siv Friðleifsdóttir mælast utan þings, en eins og flestum er kunnugt tókust þau á um formennsku Framsóknarflokksins á síðasta ári þegar að Halldór Ásgrímsson hætti í stjórnmálum.
Það eru alltaf tíðindi þegar að ráðherrar og forystumenn stjórnmálaflokka mælast utan þings þrem mánuðum fyrir alþingiskosningar. Sérstaklega ef um er að ræða formann flokksins ennfremur. Jón Sigurðsson virðist í sömu vandræðunum á þessum tímapunkti fyrir kosningar og Halldór Ásgrímsson fyrir kosningarnar 2003. Hann færði sig í borgina fyrir þær kosningar, sem urðu hans síðustu á stjórnmálaferlinum, eftir að hafa verið þingmaður Austfirðinga í þrjá áratugi. Honum tókst hægt og rólega að byggja upp fylgið þar og komst inn að lokum við annan mann, Árna Magnússon.
Á þessum tímapunkti blasir erfið kosningabarátta við Framsóknarflokknum á höfuðborgarsvæðinu. Aðeins Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, mælist þar inni nú. Eins og fyrr segir er Siv ekki inni í Kraganum, þrátt fyrir að hafa verið mjög áberandi. Það er freistandi að kenna lánleysi Jóns um pólitísku reynsluleysi hans og því að hafa aðeins stigið inn á hið pólitíska svið fyrir níu mánuðum er hann varð viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Geirs Haarde, sama daginn og Halldór yfirgaf stjórnmálin. En það eitt og sér skýrir stöðuna ekki. Ef það væri skýringin á samt enn eftir að skýra út af hverju Siv er ekki að mælast inni, hún hefur enda verið þingmaður í tólf ár og ráðherra nær samfellt frá 1999.
Það blasir við að staða Framsóknarflokksins hefur versnað mjög í öllum kjördæmum landsins frá kosningunum 2003 er litið er á mælingu flokksins á landsvísu hjá Gallup. Ef könnunin yrði raunveruleiki fengi flokkurinn tvo menn í Norðaustri og Suðri og einn í Norðvestri og Reykjavík suður. Eins og fyrr segir mælist flokkurinn ekki með mann inni í Kraganum og Reykjavík norður. Það yrðu óneitanlega athyglisverð úrslit myndi Bjarni Harðarson komast í þingflokk Framsóknarflokksins frekar en þéttbýlisparið Jón og Siv. Það yrði rosalegt högg fyrir flokk og formann næði formaðurinn ekki inn.
Ég held að þetta fari eins með Jón og Björn Inga í borgarstjórnarkosningunum. Hann skreið inn svona fyrir rest. Ég sagði í prívatspjalli við góðan vin minn (ætla að voga mér að vitna í þetta tveggja manna spjall :) að Framsókn fengi átta ef kosið yrði núna; þau sex sem nefnd eru í könnuninni og auk þeirra þau Jón og Siv. Þá er enn Herdís Sæmundar utan þings af þeim sem ég veit að Framsókn leggur grunnáherslu á að ná inn. Væntanlega vilja flestir framsóknarmenn líka ná inn Sæunni Stefáns, ritara sínum, sem skipar annað sætið í R-Suðri á eftir umhverfisráðherranum. Það verður að teljast vonlítið nú. Svo má ekki gleyma skrifstofukonunni stálheppnu frá Suðurnesjum.
Framsóknarflokkurinn er níræður flokkur - gamall en þó keikur á brá. Hann stefnir væntanlega á að reyna að standa óboginn eftir þessa kosningahrinu. Flokkurinn væri dæmdur til stjórnarandstöðu fái hann skell af því kalíberi sem Gallup kynnir okkur þessa dagana. Þar er mikil varnarbarátta framundan. Stóra spurningamerkið er og verður Jón Sigurðsson, formaður flokksins. Hann hefur aldrei verið miðpunktur í kosningabaráttu áður. Val hans sem formanns var djarft að mínu mati. Annaðhvort klúðrar hann þessu eða reddar því stórt. Það verður varla mikið millibil þar.
Þegar að Jón Sigurðsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins í ágúst á síðasta ári skrifaði ég grein sem hét einfaldlega; Hver er Jón Sigurðsson? Sú spurning á enn allvel við. Mér finnst ég ekki enn vita hver þessi stjórnmálamaður sé. Mér finnst hann vera eitt stórt spurningamerki í fjölda mála - hann þarf að tala með meira áberandi hætti og vera meira afgerandi í tali og töktum. Hann hefur þó skánað frá því sem fyrst var.
En já; betur má ef duga skal. Þessari spurningu hefur víða ekki enn verið svarað og þetta verður stóra spurning framsóknarmanna í kosningabaráttunni. Fáist henni ekki svarað betur gæti Framsókn staðið eftir með formannslausan þingflokk þann 13. maí. Verður Jón áfram fái hann ekki þingsæti? Hvað gerist fari svo; munu menn kannski þá horfa til Brúnastaða með pólitíska leiðsögn í gegnum eyðimörkina?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2007 | 20:28
Drög lögð að Norðurvegi - flott framtak

Norðurvegur ehf. var formlega stofnað á Akureyri í febrúar 2005. Fyrst var stefnt að því að leggja hálendisveg úr Skagafirði um Stórasand, Arnarvatnsheiði og Kaldadal sem stytt hefði leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um rúmlega 80 kílómetra og leitt til mikilla þáttaskila í samgöngumálum Norðlendinga. Sú tillaga sem stjórnmálamenn hér á svæðinu höfðu m.a. talað fyrir og var áberandi í kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi við þingkosningarnar 2003 er nú ekki lengur á borðinu og þessi nýji valkostur, leiðin yfir Kjöl, kominn til sögunnar.
Hef ég lengi verið mjög hlynntur því að vegagerð af þessu tagi komi til sögunnar. Stytting á borð við þá sem um er að ræða mun skipta sköpum varðandi vöxt og viðgang Akureyrar á komandi árum og skiptir okkur hér mjög miklu máli. Er enginn vafi á að mikilvægt er að ná fram sem mestri styttingu á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur. Það er nauðsynlegt að lækka flutningskostnað milli Akureyrar og Reykjavíkur og ekki síður milli Norðausturlands og Austfjarða til Reykjavíkur. Hér er um mikið forgangsmál að ræða fyrir okkur á landsbyggðinni og mikilvægt að hefjast handa og sameinast um að koma þessu í gegn sem fyrst.
Við hér fyrir norðan fögnum því mjög að alvöru tillögur að verklagi eru komin á borðið. Það er mjög til eflingar landsbyggðinni og okkar mikilvægustu þáttum að fá þennan mikilvæga samgöngukost í gegn. Svo má auðvitað benda á að slíkur vegur mun auðvitað ekki einvörðungu nýtast Akureyringum og Eyfirðingum, vel enda er sýnilegt að Austfirðingar og fólk frá Norð-Austurlandi muni njóta góðs af þessum vegi, enda leiði þessi stytting til þess að norðurleiðin muni verða góður valkostur fyrir fólk sem býr á Austfjörðum.
![]() |
Vilja hefja undirbúning nýs vegar yfir Kjöl í einkaframkvæmd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
4.2.2007 | 17:44
NYT fjallar um stóriðjuframkvæmdir á Íslandi

Það er gott mál að erlendir fjölmiðlar sýni því áhuga að fjalla um íslenskan veruleika, þessar framkvæmdir og stöðu mála. Það er gleðiefni að svo virðist að blaðakonan, Sarah Lyall, birti í umfjöllun sinni báðar hliðar mála; enda öllum ljóst að þetta mál á sér bæði fylgismenn og andstæðinga. Þetta hefur verið hitamál og það er því algjört lágmark að báðum skoðunum sé gert hátt undir höfði. Sjálfur hef ég margoft sagt mína skoðanir á verkefninu en kvarta ekki yfir því að þeir sem hafa aðrar skoðanir fái sitt pláss með sína rödd.
Það eru vissulega skiptar skoðanir um þær framkvæmdir sem eiga sér stað á Austurlandi. Hinsvegar hefur það birst í skoðanakönnunum og í umræðu á lýðræðislega kjörnu Alþingi Íslendinga að meirihluti landsmanna styður þessar framkvæmdir og hefur lagt þeim lið. Baráttan fyrir því að tryggja þessar framkvæmdir á Austurlandi hefur verið í senn löng og tekið á. Í mörg ár biðu Austfirðingar eftir því að þessi framkvæmd yrði að veruleika og það hefur sannast að Austfirðingar hafa stutt framkvæmdina með mjög áberandi hætti.
Átök voru um þetta mál milli fylkinga í síðustu þingkosningum og reyndi þá á stjórnmálamennina sem leiddu málið á öllum stigum þess. Þeir höfðu sigur á meðan að andstæðingarnir fóru mjög sneyptir frá sinni baráttu. Auðvitað hefur þetta verið umdeild framkvæmd og mörgum sem hafa verið á móti henni hefur borið sú gæfa að mótmæla málefnalega, þó að þau hafi tapað baráttunni. Sumir náttúruvinir hafa mótmælt friðsamlega virkjun og álveri á Austurlandi. Þau hafa til þess sinn rétt að hafa sínar skoðanir og láta þær í ljósi. Sumir hafa þó gengið lengra.
Það verður fróðlegt hvort þetta hitamál verði rætt í aðdraganda alþingiskosninga eftir þrjá mánuði. Í raun má setja stóriðjumál í heilsteyptri mynd á borðið. Niðurstaða er enda fengin hvað varðar Kárahnjúkavirkjun og tengd verkefni. Það er ekki óeðlilegt að spurt sé um kúrsinn á næstu árum. Þar eru deildar meiningar uppi og ekkert að því að hafa hreinar línur í þeim efnum.
![]() |
New York Times fjallar um stóriðjuframkvæmdir á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2007 | 17:13
Þjóðverjar heimsmeistarar á heimavelli

Stemmning Þjóðverja á heimavelli hefur skipt sköpum fyrir þennan árangur. Fyrir tólf árum var heimsmeistaramótið í handbolta haldið hér heima á Íslandi. Frammistaða okkar liðs þá var eitt af svörtu hliðum mótsins og stemmningin náði ekki að myndast með sama góða hættinum. Ég fór á nokkra leiki hér á Akureyri á sínum tíma, en riðlakeppnin var m.a. haldin hér. Stemmningin á mótinu varð aldrei góð og t.d. varð miðasalan langt undir öllum væntingum. Mótið varð ekki eins öflugt og eftirminnilegt allavega og að var stefnt.
En líst vel semsagt á Þjóðverjar hafi tekið þetta. Þó að við Íslendingar séum enn hundfúlir með að Danir hafi slegið okkur út í undanúrslitunum og við sitjum eftir er ekki annað hægt en að samfagna Dönum, þó seint verði sagt að ég hafi verið hryggur yfir því að þeir kæmust ekki í úrslitaleikinn.
![]() |
HM: Þjóðverjar heimsmeistarar í þriðja sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2007 | 12:31
...að vera rukkaður án þess að vilja það
Það getur varla verið þægilegt að vakna upp við það að vera rukkaður um eitthvað sem maður hefur hvorki óskað eftir að fá eða kannast ekki við að hafa pantað beint. Þetta virðist gerast í auknum mæli. Las athyglisverða umfjöllun um þessi mál í Sunnudagsmogganum sem segir sína sögu vel. Þar er rætt við Gísla Tryggvason, talsmann neytenda, sem fjallar um þessi mál með fróðlegum hætti.
Ég veit af einum fjölskyldumeðlimi mínum sem vaknaði upp í þessari stöðu, en það var ekki nein rosaleg upphæð.... en þetta er nóg samt. Þetta er slæmt mál og hlýtur að vekja fólk til umhugsunar. Ekki vildi ég allavega fá kvittun í gegnum heimabankann fyrir eitthvað sem ég kannaðist ekki við.
Það þarf að standa betur að þessum málum. Það getur aldrei talist eðlilegt að svona geti gerst.
![]() |
Greiðsluseðlar sendir í heimabankann án þess að vara sé pöntuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.2.2007 | 12:05
Fjarar mjög hratt undan Tony Blair
Eftir þrjá mánuði hefur Verkamannaflokkurinn verið við völd í Bretlandi í áratug. Á þessum tímamótum í breskum stjórnmálum hafa breskir kjósendur endanlega fengið nóg af Tony Blair og stjórnmálaferli hans. Tæp 60% landsmanna vilja að forsætisráðherrann hætti strax - er aðeins er litið til stuðningsmanna Verkamannaflokksins vilja aðeins 43% þeirra að hann haldi áfram. Blair tilkynnti 7. september sl. að hann myndi hætta í stjórnmálum innan árs og verði farinn frá völdum fyrir júlílok.
2. maí 2007 er dagsetning sem Blair vill ná að ríkja enn á til þess að komast í sögubækurnar. Þá er áratugur frá því að hann kom brosandi og með sögulegum hætti í Downingstræti á bylgju stórsigurs og velvildar flestra kjósenda. Hann var yngsti forsætisráðherra breskrar stjórnmálasögu og Verkamannaflokknum hafði tekist að berja Íhaldsflokkinn niður eftir átján ára stjórnarandstöðu. Blair varð tákngervingur nýrra tíma og tók við embættinu með mesta stuðning í skoðanakönnunum í sögu mælinga.
En nú er komið að nöpru endalokunum í sinni köldustu mynd. Stjórnmálaferill forsætisráðherrans er orðin sorgarsaga sem hann hefur enga stjórn á. Hann er orðinn hataður og óvinsæll meðal þegna sinna og meira að segja stór hluti flokksmanna hans hefur misst allt traust til hans. "Cash-for-honours"-skandallinn er að ganga endanlega frá pólitískum ferli forsætisráðherrans. Hann hefur enga stjórn lengur á stöðu mála. Versni staðan enn frekar verður hann að segja af sér embætti með skömm. Það vill hann forðast í lengstu lög.
Þegar að pólitískur ferill Tony Blair verður rakinn síðar meir mun Íraksmálið væntanlega verða þar ofarlega á baugi. Það er eitt stærsta mál hans ferils og grafskriftin sem því fylgir er öllum ljós sem með hafa fylgst. Oftar en þrisvar á fjórum árum Íraksstríðsins var hann nærri kominn að því að hrökklast frá embætti. Tæpast stóð hann sumarið 2003 þegar að vopnaeftirlitsmaðurinn dr. David Kelly fyrirfór sér. Hann stóð það mál af sér, með naumindum þó, og hvítþvottaskýrslan var svo augljóslega lituð og undarleg að enn er um talað. Íraksstríðið eyðilagði pólitíska arfleifð Blairs, það blasir við öllum.
Hvað er hægt að segja um Blair þegar að hann fer? Hann hafði jú vissulega níu líf kattarins og tókst svipað oft að sleppa frá afsögn og skammarlegum pólitískum endalokum. Hann reddaði sér fyrir horn síðast í september er litlu sem engu munaði að hallarbylting yrði gerð. Hann beygði sig undir óvildarmennina til að redda sér og varð að gefa upp dagsetningu til að hann næði valdaafmælinu í maí. Það var eina ambítíón Blairs þá - að geta staðið brosandi vígreifur í dyragættinni í Downingstræti, rétt eins og Thatcher árið 1989. Hann fer þó þaðan eins og Thatcher; skaddaður og rúinn í gegn.
Einu sinni fannst mér Tony Blair vera einhvers virði, ég viðurkenni það fúslega. Mér fannst John Major aldrei spes. Það að Thatcher skyldi ekki þekkja vitjunartíma sinn var mikill pólitískur harmleikur og öflugur eftirmaður kom ekki til sögunnar. Major dugaði, en ekki hótinu meira en það. Hann virkaði á mig og flesta aðra sem meinleysislegt grey sem reyndi sitt besta og tókst hið ómögulega; að vinna kosningarnar 1992. En honum var sturtað út fimm árum síðar. Þó að ég vonaði lengi að Major hefði það fannst mér ferskleiki yfir innkomu Blairs, enda var hann byrjun á einhverju nýju. Hann hlýtur að hafa valdið mestu stuðningsmönnum sínum gríðarlegum vonbrigðum.
Þeir segja spekingarnir sem ég met mest hjá Guardian að Gordon Brown sé enn nógu sterkur til að halda það lengi út að geta tekið við af honum Blair fyrir haustvindana. Það hafa orðið sættir milli hans og helstu Blair-istanna og Brown fær að öðlast lyklavöldin þegar að Blair fer loksins. Brown hefur beðið í árafjöld eftir tækifærinu. Fær hann að blómstra í embættinu? Er hann ekki orðinn einn þeirra krónprinsa sem biðu of lengi? Getur hann blómstrað í slag við David Cameron? Þetta er stóra spurning breskra stjórnmála nú.
Nú stendur nefnilega Brown blessaður og fellur með arfleifð Blairs. Hann tekur hana nefnilega í arf með öllu því vonda og beiska sem henni fylgir. Nú verður fróðlegt að sjá hvort að skotinn plotteraði stendur undir þeirri arfleifð er Teflon-Tony keyrir inn í sólsetrið í eftirlaununum á besta aldri.
![]() |
Flestir Bretar vilja að Blair hætti þegar í stað skv. könnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2007 | 02:10
Hvar og hver eru vandamál Sjálfstæðisflokksins?
Skoðanakönnun Gallups í vikunni sýnir Sjálfstæðisflokkinn vel yfir kjörfylgi sínu í alþingiskosningunum 2003 á meðan að Samfylkingin, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, hefur minnkað um tæp tíu prósentustig á kjörtímabilinu. Þessi staða ætti vissulega að teljast ánægjuleg eftir sextán ára samfellda stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins, en hann hefur leitt stjórn samtals í 14 ár frá árinu 1991. Þó vekur staða mála meiri athygli á sumum stöðum en öðrum.
Það sem mér finnst mest áberandi þegar litið er á stöðu flokksins í kjördæmunum sex nú og borin saman t.d. skipting þingmanna við það sem gerðist í kosningunum 2003 er að Sjálfstæðisflokkurinn styrkist á landsbyggðinni en veikist á höfuðborgarsvæðinu. Miðað við þessa könnun er flokkurinn að bæta við sig þingmanni í öllum kjördæmum landsbyggðarinnar, þó t.d. fækki þingmönnum kjördæmaheildanna í Norðvesturkjördæmi og í Norðaustri og Suðri bætist við eitt þingsæti fyrir flokkinn þar. Sjálfstæðisflokkurinn hækkar mest í Norðausturkjördæmi, um 8 prósentustig, en hann fékk þar minnst fylgi síðast á landsvísu.
Það er athyglisvert að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að styrkjast á höfuðborgarsvæðinu. Hann mælist með 8 þingsæti í Reykjavíkurkjördæmunum, 4 í hvoru. Hann fékk samtals 9 í kosningunum 2003. Birgir Ármannsson myndi falla af þingi, skv. könnuninni. Flokkurinn er þó með mest fylgi í báðum kjördæmum og yrðu Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, því fyrstu þingmenn kjördæmanna. Skv. þessu eru þau sem talin hafa verið af sjálfstæðismönnum frambjóðendur í baráttusætum; Sigríður Ásthildur Andersen og Birgir ekki inni.
Í Suðvesturkjördæmi eru vissulega vonbrigði að flokkurinn hafi misst fylgi milli mánaða. Lengi vel undir lok síðasta árs var flokkurinn að mælast með sex menn inni í kjördæminu. Það er ekki nú og flokkurinn mælist nú með fimm þingmenn rétt eins og í kosningunum 2003. Í þessum kosningum fær Suðvesturkjördæmi sinn tólfta þingmann, hann færist frá Norðvesturkjördæmi sem hefur níu þingsæti eftir breytinguna. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, skipar baráttusætið í Kraganum og hljóta flokksmenn að leggja þar allt kapp á að Ragnheiður fari inn.
Það vakti mesta athygli mína við útreikninga þessarar könnunar að Herdís Þórðardóttir á Akranesi, fjórða á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi, er inni á þingi í kjördæminu. Það gerist þó þingmönnum kjördæmisins fækki úr tíu í níu. Herdís er inni sem jöfnunarmaður en það sæti getur færst til hvert sem er, líklegast í stöðunni er að það dansi á milli NV og höfuðborgarsvæðisins. Persónulega tel ég mun líklegra að baráttan standi á milli Ragnheiðar og Sigríðar Andersen um sætið við Herdísi. Ef marka má stöðu mála er það nær örugglega svo.
Það eru því góð tíðindi og vond í könnuninni. Þau góðu að fylgið á landsbyggðinni hækkar en hin vondu að fólkið í baráttusætum á höfuðborgarsvæðinu er ekki inni. Ef ég þekki félaga mína fyrir sunnan rétt efast ég um að þeir séu sáttir við fjóra inn í báðum kjördæmum borgarinnar og fimm í Kraganum. Heilt yfir finnst mér gott auðvitað að fylgi flokksins sé yfir fylginu fyrir fjórum árum. Ég gerði mér þó vonir um meira miðað við að ný forysta er tekin við flokknum og breytingar hafa verið yfir.
Það er öllum ljóst að þetta eru neðri mörk þess sem Sjálfstæðisflokkurinn telur viðunandi þrem mánuðum fyrir alþingiskosningar, enda segin saga í kosningum að fylgið sé meira í könnunum en það sem kemur upp úr kjörkössunum. Gott dæmi er staða flokksins í Reykjavík fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Þar kom mun minna úr kössunum en kannanir t.d. í febrúar og mars höfðu sagt. Það verður því að vinna vel á þessu svæði til að ná betri árangri en síðast, þetta segir sagan okkur!
En heilt yfir er þessi könnun góð vísbending. Sjálfstæðismenn mega þó vel við una á meðan að Samfylkingin fær slíka dýfu að með ólíkindum er. Þar innanborðs hlýtur allt að vera logandi í vandræðakasti ef marka má landslagið nú. 100 dagar hljóma mikið, en það er áhyggjuefni fyrir andstöðuflokk að vera svo undir á þessum tímapunkti. En fyrst og fremst sýnir þessi könnun sjálfstæðismönnum að mikil vinna er framundan - á höfuðborgarsvæðinu gæti staðan verið betri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)