Varnarsigur Valgerðar í Norðausturkjördæmi

Valgerður Sverrisdóttir Það er alveg ljóst að Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, vann varnarsigur í alþingiskosningunum í Norðausturkjördæmi í gær. Eftir kosningarnar hefur Framsókn þrjá þingmenn þar af sjö á landsvísu. Það er mjög sterk staða. Það er því ljóst að Valgerður er í raun að leiða flokkinn í gegnum þessar kosningar. Fyrir nokkrum vikum töldu flestir að framundan væri auðmýkjandi ósigur fyrir Valgerði, sem vann afgerandi sigur hér í kosningunum 2003. Lengst af töldu flestir að Framsókn fengi aðeins tvo menn kjörna.

Það er mikill varnarsigur fyrir Framsókn í Norðausturkjördæmi að hafa náð að tryggja kjör Höskuldar Þórhallssonar á Alþingi. Höskuldur var að flestra mati við ársbyrjun í vonlausu sæti en ég man að ég skrifaði á þennan vef í janúar orðrétt: "Það mun vafalaust styrkja flokkinn hér að hafa Akureyring í baráttusæti en væntanlega munu framsóknarmenn leggja áherslu á að Höskuldur fari inn á þing hið minnsta, allt annað yrði sögulegt afhroð fyrir þá. Ég held að listi framsóknarmanna verði sterkari en ella í ljósi þess að skýr fulltrúi stórs svæðis á borð við Akureyri er inni í vænlegu sæti."

Það er öllum ljóst að það er glæsilegt fyrir Valgerði eftir allt sem á hefur gengið að hafa tekist að tryggja Höskuld inn á þing sem þriðja mann og tekist þrátt fyrir allt að verða annar þingmaður Norðausturkjördæmis og trompa bæði Kristján Möller og Steingrím J. Sigfússon. Valgerður er mikil seiglukona, dugleg og beitt. Þessi sigur er mjög persónulegt afrek fyrir hana að mínu mati við mjög erfiðar aðstæður. Hún virðist enn og aftur leiða flokkinn á vondum tímum og það er reyndar að mínu mati með hreinum ólíkindum að henni skyldi ekki frekar verða falið að leiða Framsóknarflokkinn í gegnum þessar kosningar en Jóni Sigurðssyni. Ég held að Framsókn hefði farnast betur með hana við stjórnvöl.

Fyrir nokkrum vikum eða jafnvel dögum hefði ég talið Samfylkinguna örugga um að verða næststærst í kjördæminu. Það að Framsókn hafi hlotið sess sem afl númer tvö með svo áberandi öruggum hætti og staða Valgerðar tryggð svo afgerandi eru stórtíðindi. Framsókn vann baráttuna hér með miklum krafti. Eva Ásrún, frænka mín, er auðvitað rosalega dugleg og ég held að það hafi verið rosalega vel valið hjá Valgerði og hennar fólki að velja hana til forystu. Svo bjuggu þau vel að góðri reynslu Höskuldar sem kosningastjóra í sigrinum mikla vorið 2003.

Mitt í sögulegum óförum Framsóknarflokksins er eina ljósið þeirra að hafa tekist að tryggja kjör Höskuldar hér og Valgerður hlýtur mikinn varnarsigur í kosningum sem flestir töldu að yrðu hennar verstu og myndu enda sem niðurlæging hennar. Það að þrír af sjö þingmönnum Framsóknar komi héðan eru stórtíðindi og sýna betur en margt annað hversu mikið akkeri kjördæmið er fyrir flokkinn og umfram allt hve staða Valgerðar Sverrisdóttur er sterk hér.

Margir töldu að fjarvera hennar sem utanríkisráðherra myndi koma niður á henni. Það varð ekki. Mér fannst reyndar með ólíkindum hversu öflug Valgerður var þrátt fyrir utanríkisráðherrastólinn og mikil ferðalög. Fannst hún alltaf vera hér og sama hvaða mannfögnuður eða atburður að alltaf var Valgerður þar viðstödd. Ótrúlega dugleg og öflug, enda uppsker hún eftir því. Hún er eini leiðtogi Framsóknar sem getur brosað í þessu sögulega afhroði sem flokkurinn varð fyrir í kosningunum.

Kjarnakonan í Mosó kemst á þing

Ragnheiður Ríkharðsdóttir Ég var mjög ánægður með það í morgunsárið þegar að ljóst varð loks að Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, næði kjöri eftir tvísýna stöðu alla talninguna. Það er mikill fengur að því fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fá þessa miklu kjarnakonu í þingflokk sinn. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur verið lengi í pólitísku starfi. Hún leiddi Sjálfstæðisflokkinn í Mosfellsbæ til glæsilegs sigurs vorið 2002 þar sem að Sjálfstæðisflokkurinn hlaut hreinan meirihluta atkvæða.

Ragnheiði og sjálfstæðismönnum mistókst naumlega reyndar að halda meirihlutanum í kosningunum fyrir ári, en mynduðu meirihluta með vinstri grænum. Samið var um að Ragnheiður yrði bæjarstjóri framan af kjörtímabilsins en svo tæki Haraldur Sverrisson við embættinu í síðasta lagi á miðju kjörtímabili. Þau skipti verða væntanlega fyrr en ella.

Mosfellsbær hefur styrkst í bæjarstjóratíð Ragnheiðar og ekki verður deilt um að Ragnheiður hefur verið öflugur og traustur leiðtogi flokksins í sveitarfélaginu. Það er glæsilegt að sjá góðan sigur Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í þessum kosningum. Þar náðust sex þingmenn inn.

Þetta er auðvitað frábær árangur sem ég óska góðum félögum í Kraganum innilega til hamingju með! En fyrst og fremst gleðst ég með það að Ragga Ríkharðs hafi náð inn og tel hana glæsilegan nýjan þingmann okkar. Fannst alla tíð sérlega mikilvægt að hún nái kjöri og fagna því að það tókst að tryggja kjör hennar.

mbl.is Ragnheiður: Spennandi kjörtímabil framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir fyrrum formenn SUS kjörnir á Alþingi

Jón Magnússon Tveir fyrrum formenn Sambands ungra sjálfstæðismanna, Jón Magnússon og Ellert B. Schram, náðu kjöri á Alþingi í kosningunum í gær. Þeir hafa þó eins og flestir vita fyrir löngu yfirgefið Sjálfstæðisflokkinn og haldið til vistar í aðrar áttir. Það er vissulega mjög merkileg staða að þeir hafi báðir komist inn á þing í þessum kosningum og eflaust var það svona það helsta sem stóð eftir er kosningarnar voru gerðar upp.

Það eru tveir áratugir síðan að Ellert B. Schram átti sæti á Alþingi og þá fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ellert var fyrst kjörinn á þing í alþingiskosningunum 1971, eða fyrir 36 árum, og þá var hann fulltrúi ungliða innan Sjálfstæðisflokksins á framboðslista. Hann sat með hléum allt til ársins 1987. Ellert gekk til liðs við Samfylkinguna fyrir kosningarnar 2003 og verið varaþingmaður í Reykjavík norður á síðasta kjörtímabili. Kaldhæðnislegt er að nú fer Ellert aftur á þing, orðinn 68 ára gamall, og klárlega fulltrúi eldri borgara.

Jón Magnússon hefur verið mjög umdeildur í stjórnmálum og vakið athygli á þessum vettvangi í áraraðir. Eins og flestir vita væntanlega er Jón Magnússon forveri Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, á formannsstóli Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þeir félagar þekkjast því vel þegar að þeir mætast á þingi eftir kosningar. Jón var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 1983-1991. Eins og flestir vita var Jón um nokkuð skeið tengdasonur Jónasar Rafnar, fyrrum alþingismanns Sjálfstæðisflokksins, og því svili Þorsteins Pálssonar, ritstjóra Fréttablaðsins og fyrrum forsætisráðherra. Jón var á ferli sínum forðum daga bæði formaður Heimdallar (1975-1977) og SUS (1977-1981).

Jón hefur talsvert umdeildur verið í seinni tíð og flestir telja innkomu hans og félaganna úr Nýju afli, sem gárungarnir hafa nefnt Hvítt afl, hafa orðið upphaf klofnings Frjálslynda flokksins. Sverrisarmurinn sem leiddur er af Margréti Sverrisdóttur yfirgaf flokkinn með hvössum hætti. Það var athyglisvert að sjá Jón Magnússon, alþingismann, og Margréti Sverrisdóttur, borgarfulltrúa, takast á um málin í Silfri Egils í dag. Margréti mistókst aðrar kosningarnar í röð að ná kjöri á þing og Íslandshreyfingin náði engu flugi eins og skoðanakannanir hafa sýnt æ ofan í æ. Úrslitin hljóta að vera Margréti áfall.

Jón Magnússon og Ellert B. Schram eiga merka sögu að baki innan Sjálfstæðisflokksins. Þeir hafa fyrir margt löngu horft til annarra átta á vegferð sinni. Það er mjög athyglisvert að sjá þá báða hljóta kjör á þing í þessum sömu kosningum. Kaldhæðnislegt svo sannarlega. Og það verður fróðlegt að sjá til verka þeirra á þingi á næstu fjórum árum.

Timburmenn Samfylkingarinnar

ISG Framan af kosninganóttinni stefndi flest í að Samfylkingin væri að öðlast oddastöðu í íslenskum stjórnmálum. Svo fór ekki. Þegar að rykið hafði sest blasti við að Samfylkingin tapaði fylgi í öllum kjördæmum. Staðan góða sem blasti við fyrir miðnættið gufaði hægt og hljótt upp og svo fór að Samfylkingin komst ekki í þá oddastöðu sem blasti við framan af. Misjöfn var þó útkoma flokksins og staðan var ekki allsstaðar svosem slæm.

Það vakti athygli að Samfylkingin náði ekki inn Róbert Marshall, Láru Stefánsdóttur og Guðmundi Steingrímssyni. Flokkurinn missir Mörð Árnason og Önnu Kristínu Gunnarsdóttur af þingi. Hann græðir hinsvegar t.d. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Ellert B. Schram, Árna Pál Árnason og Karl V. Matthíasson. Hér í Norðausturkjördæmi tapar Samfylkingin þrem prósentustigum. Lára var mun fjarri þingsæti nú en vorið 2003, þó að hún hafi auðvitað verið rosalega nærri því.

Framan af blasti við að Samfylkingin myndi gjalda mikið afhroð. Kannanir höfðu gefið flokknum aftur vonir og framan af nóttinni var bros á Samfylkingarmönnum. Þeir töldu góða tíð framundan. Sveiflan minnkaði eftir því sem meira var talið upp úr kössunum og það hljóta að vera vissir timburmenn yfir Samfylkingarfólki á þessum sunnudegi eftir kjördag.

Staða Samfylkingarinnar við stjórnarmyndun er óljós. Það væri ekki ósennilegt að hann liti nú til þess að vinna með Sjálfstæðisflokknum. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist með Samfylkinguna, hvort hann verði áfram í stjórnarandstöðu eða komist í stjórnarsamstarf.

mbl.is Ingibjörg Sólrún: Ríkisstjórnin of veik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósendur í Suðurkjördæmi strika út Árna Johnsen

Árni Johnsen Það er athyglisvert að heyra af því hversu margar útstrikanir Árni Johnsen hefur fengið í alþingiskosningunum í gær í Suðurkjördæmi. Sé það rétt sem sagt sé að Árni hafi fengið um eða yfir 30% útstrikanir er það skýr vitnisburður um það hversu umdeildur Árni sé meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins.

Um leið er það skýr eftirmáli þeirrar umræðu sem varð í vetur vegna stöðu Árna Johnsen innan Sjálfstæðisflokksins eftir mjög vonda og óheppilega atburðarás þar sem hann sýndi enga iðrun á frægum afbrotum sínum. Það var verulega sorglegt allt saman, eflaust má kalla það mannlegan harmleik en það var fyrst og fremst skelfilegt mál fyrir Sjálfstæðisflokkinn í heild sinni. Það er mjög einfalt mál.

Sjálfur hafði ég mjög afgerandi skoðanir á því máli. Þær tjáði ég með afgerandi hætti bæði hér á þessum bloggvef og eins í viðtali við Stöð 2. Það var nauðsynlegt skref, enda gat ég ekki setið hjá þegjandi vegna þess máls. Þar kom ég fram sem sjálfstæðismaður með skoðanir, skoðanir sem urðu að verða opinberar. Ég sé ekki eftir neinu í því samhengi og það var ekkert hik eða hangs yfir mínu tali hvað þetta varðar.

Svona margar útstrikanir segja hug kjósenda Sjálfstæðisflokksins á þessu svæði til Árna og þessa umdeildu mála í fortíð hans og ekki síður orðum hans eftir prófkjörssigurinn í fyrra. Það var allt mjög óheppilegt. En það er auðvitað lýðræðislegur réttur kjósenda framboðslista að breyta honum telji þeir það mikilvægt. Stundum hefur það ekki verið áberandi sveifla en það sem virðist hafa gerst í Suðurkjördæmi er mjög afgerandi sveifla í þessa átt og það er mjög hávær skoðun sem birtist þar.

Það er mikilvægt að það kom fram með þessum hætti og persónulega tel ég þessar yfirstrikanir staðfesta endanlega hversu mjög umdeild pólitísk endurkoma Árna er og það að flokksmenn í kjördæminu hafi viljað tjá sig með afgerandi hætti. Þessi tíðindi eru allavega mjög athyglisverð og þau benda okkur á stöðu sem flestir höfðu reyndar séð áður en er nauðsynlegt að komi fram með svo skýrum hætti.

mbl.is 30% kjósenda Sjálfstæðisflokks strikuðu Árna Johnsen út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir H. Haarde með öll tromp á hendi sér

Geir H. HaardeÞað blasir við að Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur öll tromp á hendi sér við stjórnarmyndun að loknum þingkosningunum í gær. Sjálfstæðisflokkurinn vann glæsilegan sigur í kosningunum. Hann hlaut næststærsta þingflokkinn í sögu sinni og vann mjög sögulega sigra í öllum kjördæmum. Það hefur aldrei gerst fyrr að Sjálfstæðisflokkurinn sé með fyrsta þingmann allra kjördæma á sinni hendi.

Eftir sextán ára samfellda stjórnarsetu, lengst af forsæti í ríkisstjórn, er þetta óvenju glæsilegur sigur líka. Það er svo spurt hvað taki við. Það er Geir sem hefur úrslitavaldið núna. Stóru tíðindin eru þau að Geir þarf ekki að segja af sér. Ríkisstjórnin hélt þingmeirihluta sínum. Umboð til stjórnarmyndunar fór ekki úr höndum Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, og stjórnin situr enn meðan að stjórnarflokkarnir ræða sín á milli um framhaldið. Það er líka mjög athyglisvert að umboðið er ekki á Bessastöðum, það er í höndum Geirs sem hefur fjölda kosta í hendi sér.

Mér finnst rétt að það verði velt vel fyrir sér næstu kostum. Það er ekki rétt að ana að neinu í þessari stöðu. Geir á að hugleiða næstu kosti mjög vel í því ljósi að ríkisstjórnin hélt þingmeirihluta sínum. Það verður að hugleiða hvort þessi ríkisstjórn sé starfhæf eftir nýjustu tíðindi. Formaður Framsóknarflokksins lamaðist mjög pólitískt með því að ná ekki kjöri á Alþingi, verandi að óska eftir umboði þar til setu. Staða Framsóknarflokksins er mjög vond. Það blasir við öllum að það er ekki hægt að útiloka þó samstarf þessara flokka.

Það verður að sjá til hvað sé rétt og hvað sé rangt í stöðunni. Kostirnir eru upp á það að halda þessu samstarfi áfram eða leita eftir viðræðum við Samfylkinguna og Vinstrihreyfinguna - grænt framboð. Það er fjarstæða að útiloka nokkurn kost og greinilegt að Geir ætlar að hugleiða stöðuna vel. Spilin eru á höndum Geirs H. Haarde eftir glæsilegan sigur Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur mörg tromp á hendi.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig að forsætisráðherrann vinnur með þau ótvíræðu og sterku tromp sem hann hefur á hendi sér eftir þessar alþingiskosningar.


mbl.is Geir: Úrslitin kalla ekki á snöggar breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur kosningasigur Sjálfstæðisflokksins

Þorgerður Katrín og Geir H. Haarde Það leikur enginn vafi á því að Sjálfstæðisflokkurinn er stóri sigurvegari alþingiskosninganna 2007. Eftir sextán ára stjórnarsetu sigrar flokkurinn í öllum kjördæmum og fær 25 þingsæti, jafnmikið og í alþingiskosningunum 1995 og er næststærsti þingflokkurinn í sögu Sjálfstæðisflokksins. Það hlýtur að teljast glæsilegur árangur.

Það eru margir nýjir og glæsilegir þingmenn að koma inn í nafni Sjálfstæðisflokksins. Kristján Þór Júlíusson og Ólöf Nordal eru nýjir alþingismenn Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi, en hér vann flokkurinn glæsilegan kosningasigur. Þetta er í fyrsta skipti sem Sjálfstæðisflokkurinn ræður ríkjum á Austfjarðasvæðinu, en Halldór Blöndal var fyrsti þingmaður gamla Norðurlandskjördæmis eystra 1999-2003.

Heilt yfir eru úrslitin góð fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hann má vel við una og hlýtur að teljast með mjög vænlega stöðu við stjórnarmyndun. Einu vonbrigði okkar voru vissulega að Sigríður Ásthildur Andersen náði ekki kjöri í Reykjavík norður, en það er eins og það er. Annarsstaðar náðum við okkar lykilmarkmiðum og höldum með sterkan þingflokk til verkanna á komandi fjórum árum. Það hefur orðið mikil endurnýjun og svo sannarlega spennandi tímar framundan.

....og ekki má gleyma að þetta er í fyrsta skipti sem Sjálfstæðisflokkurinn á fyrsta þingmann allra kjördæmanna í stjórnmálasögu landsins. Yndislegt alveg!

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins

Geir H. Haarde - Reykjavík suður
Björn Bjarnason
Illugi Gunnarsson
Ásta Möller
Birgir Ármannsson
Guðlaugur Þór Þórðarson - Reykjavík norður
Guðfinna S. Bjarnadóttir
Pétur H. Blöndal
Sigurður Kári Kristjánsson
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir - Suðvesturkjördæmi
Bjarni Benediktsson
Ármann Kr. Ólafsson
Jón Gunnarsson
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Ragnheiður Ríkharðsdóttir
Sturla Böðvarsson - Norðvesturkjördæmi
Einar Kristinn Guðfinnsson
Einar Oddur Kristjánsson
Kristján Þór Júlíusson - Norðausturkjördæmi
Arnbjörg Sveinsdóttir
Ólöf Nordal
Árni M. Mathiesen - Suðurkjördæmi
Árni Johnsen
Kjartan Ólafsson
Björk Guðjónsdóttir

mbl.is 24 nýir þingmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Jón Sigurðsson segja af sér formennsku?

Jón Sigurðsson Sú spurning hlýtur að vakna eftir sögulegt afhroð Framsóknarflokksins í alþingiskosningunum hvort að Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, muni segja af sér formennskunni. Hann er landlaus pólitískt eftir kosningarnar; náði ekki kjöri í Reykjavík, en þar þurrkaðist flokkurinn út með athyglisverðum hætti. Þar fóru þrjú þingsæti fyrir borð. Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, fékk gríðarlegan skell í kosningunum og féll af þingi. Flest bendir til að stjórnmálaferli hennar sé lokið.

Að flestra mati var stærsta spurningin fyrir Framsóknarflokkinn í vor sú hvort að Jón Sigurðsson yrði sterkur leiðtogi að kosningum loknum. Hann fór fram sem einhver sáttaframbjóðandi úr Halldórsarminum til formennsku og þótti fyrirfram séð blasa við að þessar kosningar gætu orðið honum erfiðar. Þetta sögulega áfall flokksins er mjög áberandi og hrunið í Reykjavík er auðvitað æpandi áfall fyrir Framsóknarflokkinn. Tveir ráðherrar eru fyrir borð og það er auðvitað mjög áberandi staða sem varla verður sniðgengin.

Það hlýtur að vera svo að Framsóknarflokkurinn horfi inn á við eftir þessar kosningar og íhugi vel stöðu sína. Þessar kosningar voru skellur fyrir Framsóknarflokkinn sem hefur verið flokkur valda og áhrifa um áratugaskeið. Það að formaðurinn sé pólitískt landlaus með þessum hætti er Framsóknarflokknum áfall og umboð hans sem formanns hefur laskast gríðarlega með þessu fylgishruni í Reykjavík sem blasir við.

Staða Jóns Sigurðssonar er varla viðunandi. Framsóknarflokkurinn og stuðningsmenn hans vakna til nýrrar tilveru í dag. Kannski má líta víða á stöðu flokksins sem varnarsigur. Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, vann mikinn varnarsigur í Norðausturkjördæmi með því að ná inn þriðja manni og verða 2. þingmaður Norðausturkjördæmis og staða flokksins í Norðvesturkjördæmi hlýtur að teljast ótrúlega góð miðað við allt svosem.

Á höfuðborgarsvæðinu er hrunið algjört og þar er flokkurinn algjörlega lamaður. Í Reykjavík er þessi forni flokkur valdanna gufaður upp af þingi. Vond staða að vakna við fyrir formann flokks í ríkisstjórn. Jón er ekki á þingi. Staða hans hlýtur að teljast pólitík skelfing og spurningar um framtíð hans eru óhjákvæmilegar eftir svona mikla martröð. Það er ekki undrunarefni að spurt sé hvort honum sé sætt eftir þetta afhroð.

mbl.is Björn Ingi Hrafnsson: Yngri kynslóðin mun fylkja sér bak við Jón Sigurðsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin heldur velli - sviptingar í kosningum

Úrslit kosninganna 2007 Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem setið hefur við völd í tólf ár, hélt velli í alþingiskosningunum 2007, en naumlega þó. Stjórnin hefur minnsta mögulega þingmeirihluta, 32 þingsæti, en það blasir við öllum að Framsóknarflokkurinn varð fyrir gríðarlegu áfalli í kosningunum við að tapa fimm þingmönnum og missti tvo ráðherra fyrir róða.

Framsókn missti þrjá þingmenn í Reykjavík og fékk engan þar kjörinn í fyrsta skipti í áratugi; missti Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra af þingi og Jón Sigurðsson, formaður flokksins, náði ekki kjöri. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, var eini þingmaður Framsóknarflokksins á höfuðborgarsvæðinu, en lengst af nætur var hún þó fallin af þingi. Þingmenn Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, Birkir Jón Jónsson og Höskuldur Þórhallsson (sem komst inn eftir hörkuspennandi átök við Láru Stefánsdóttur), eru einu þingmenn flokksins undir fertugu.

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 36,6% atkvæða, sem er 2,9 prósentustigum meira en í síðustu kosningum. Þetta fylgi tryggði flokknum þremur fleiri þingmenn en í kosningunum 2003. Samfylkingin hlaut 26,8% fylgi sem er 4,2 prósentum minna en í síðustu kosningum. Fékk flokkurinn þar af leiðandi tveimur mönnum færra en árið 2003. Vinstri grænir fengu 14,3% fylgi og níu þingmenn. Síðast fékk flokkurinn 8,8% og fimm þingmenn. Framsóknarflokkurinn fékk 11,7% atkvæða, sem er tap upp á sex prósent. Flokkurinn missir fimm menn. Frjálslyndir fengu fjóra menn eins og síðast og 7,2%, nær það sama og síðast. Íslandshreyfingin fékk aðeins 3,3%.

Miklar sviptingar voru í gegnum talninguna. Lokatölur komu fyrst á níunda tímanum og í Norðvesturkjördæmi, en vegna ýmissa vandræða tókst ekki að ljúka talningunni fyrr. Fyrstu tölur bentu til þess að stjórnarnandstaðan myndi ná þriggja þingmanna meirihluta en það forskot minnkaði niður í einn þingmann þegar líða tók á kvöldið og staðan varð gríðarlega tæp og þrisvar í gegnum nóttina snerist staðan stjórn eða stjórnarandstöðu í vil. En það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn bætti fylgi sitt mjög og telst sigurvegari kosninganna með VG. Framsókn er sá sem tapaði kosningunum klárlega.

En nú er spennunni lokið og ljóst hverjir ná inn. Reyndir stjórnmálamenn eins og Jón Magnússon og Ellert B. Schram, fyrrum formenn SUS, komust inn á þing fyrir nýja flokka sína. Sleggjunni að vestan, Kristni H. Gunnarssyni, tókst að ná endurkjöri þvert á allar skoðanakannanir, en hann kom hinsvegar inn á kostnað frjálslyndra í Kraganum og Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, féll í Reykjavík norður. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, náði á þing ásamt t.d. Ólöfu Nordal og Björk Guðjónsdóttur. Ég birti fulla nafnalista þingmanna hér á eftir.

Árni Johnsen hlaut mikið af útstrikunum í Suðurkjördæmi. Það var yfir fjórðungur atkvæðaseðla Sjálfstæðisflokksins í Suðrinu þar sem strikað hafði verið yfir nafn hans. Nær öruggt má telja að útstrikanir hafi verið svo margar að áhrif hafi á röðun framboðslistans, en það ræðst þó innan skamms. Jóhannes Jónsson í Bónus skoraði í auglýsingu á föstudag á kjósendur í Reykjavík suður að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra. Það blasir við að fimmtungur kjósenda flokksins þar hafi strikað yfir nafn Björns, en það hefur ekki áhrif á röðun listans þar þó.

Nú tekur við að mynda nýja ríkisstjórn. Heldur ólíklegt verður að teljast að sama stjórn sitji áfram, eftir tólf ára sögufræga setu í áralengd. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, þarf ekki að segja af sér eins og lengi stefndi í, en boltinn um hvað gerist hlýtur að vera hjá stjórnarflokkunum. Eflaust mun staðan ráðast fyrr en síðar með í hvað stefni, en óvissan er nokkur um framhaldið.

Kosninganóttin 2007 mun klárlega fara í sögubækur sem ein mest spennandi kosninganótt sögunnar. Mikil spenna og sviptingar gegnum nóttina og engin ládeyða í raun. Nú tekur við að tryggja landinu ríkisstjórn og hætt við að sviptingar verði ennfremur í stjórnarmyndun þar sem blasir við að ný ríkisstjórn muni koma til sögunnar eftir langt stöðugleikatímabil.

mbl.is Ríkisstjórnin hélt velli með minnsta mun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin heldur velli - spennan minnkar

Staðan í kosningunum kl. 06:00 Það er orðið nokkuð ljóst að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur haldið velli í alþingiskosningunum í gær. Talningu er þó ekki enn lokið og úrslit því ekki orðin ljós. Ég var að koma heim í Þórunnarstrætið nú á sjötta tímanum eftir mjög skemmtilega nótt. Á Hótel KEA var skálað, sungið, klappað og faðmast yfir sigri í Norðausturkjördæmi. Það var glæsilegt að sigra kjördæmið af Framsókn og ánægjulegt að Stjáni er nýr fyrsti þingmaður kjördæmisins og Ólöf okkar Nordal er orðin alþingismaður. Óvissan er um jöfnunarsætið þó að Höski Þórhalls virðist hafa náð kjöri.

Þetta hefur verið alveg rosalega spennandi nótt. Ég hef upplifað kosninganótt frá 1987, að vaka til morguns yfir óljósri stöðu. Þetta minnir mig á þá kosninganótt með að ekkert er víst. Þá féll stjórn en svo virðist vera að stjórnin hafi haldið í gegnum nóttina eftir að hafa fallið nokkrum sinnum og ekki verið hugað líf. Staða Framsóknarflokksins hefur vakið mesta athygli en sögulegt afhroð flokksins er orðin staðreynd. Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra, tókst þó að ná kjöri á síðustu metrum en Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, og Jónína Bjartmarz virðast ekki munu ná kjöri á þing.

Samfylkingin hélt velli í kosningunum og það er greinilegt að þar er fjöldi nýrra þingmanna á leið inn. Láru Stefánsdóttur mistökst greinilega að ná kjöri í Norðaustrinu en Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrum borgarstjóri, virðist á leið á þing. Hjá Sjálfstæðisflokknum virðist Sigga Andersen vera komin á þing og sama gildir um Ragnheiði Elínu. Finnst það vond ef Ragga Ríkharðs nær ekki inn. Hjá frjálslyndum virðist Magnús Þór vera fallinn og það er mér persónulega mikið gleðiefni. Sigurjón Þórðarson er líka algjörlega búinn að vera og Sleggjan mikla fauk upp fyrir í Norðvestri. Jón Magnússon og Grétar Mar virðast vera á leið á þing. Hjá VG er t.d. Guðfríður Lilja ekki á leið á þing en hinsvegar Atli Gíslason, sem var lengi ljóst að yrði.

Það er ekki enn búið að telja og ekki fyrr en öll kjördæmi eru búin er hægt að lýsa því yfir formlega hverjir verði þingmenn árin 2007-2011. Það stefnir þó í breytingar. Stjórnin virðist halda. Það er þó hinsvegar afgerandi skoðun mín að þetta samstarf sé í raun úr sögunni og réttast væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn að líta til samstarfs með Samfylkingunni. Það virðist vera val kjósenda ef marka má tölurnar. En enn er spurt að leikslokum með heildarstöðuna.

mbl.is Fréttaskýring: Bjargar Íslandshreyfingin stjórnarmeirihlutanum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Bloggfærslur 13. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband