Össuri ætlaður veigameiri sess en Ágústi Ólafi

Stjórnarmyndunarviðræður Það blasir við eftir fyrsta stjórnarmyndunarfund Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í dag að Össuri Skarphéðinssyni er ætlaður veigamikill sess í nýrri ríkisstjórn, mun meira áberandi sess en Ágústi Ólafi Ágústssyni, varaformanni Samfylkingarinnar. Öllum er ljóst að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verður brátt annað hvort fjármálaráðherra eða utanríkisráðherra, en greinilegt er að Össur kemur næstur henni að völdum í flokknum.

Það vakti mikla athygli í dag að Össur skyldi sitja við hlið Ingibjargar Sólrúnar sem næstráðandi í Samfylkingunni á fyrsta fundi samningaviðræðnanna með Geir og Þorgerði Katrínu. Það kannski vekur ekki athygli í ljósi þess að Össur er fyrsti formaður Samfylkingarinnar og leiddi þennan flokk fyrstu skrefin, yfir viðkvæmasta hjallann, áður en hann missti reyndar þann sess frekar harkalega. Val á Össuri sem þingflokksformanni þegar að Margrét Frímannsdóttir, fyrrum alþingismaður, sté til hliðar af hinu pólitíska sviði fyrir tæpu ári staðfesti lykilstöðu hans innan flokksins og hann var mjög vel auglýstur við hlið Ingibjargar Sólrúnar í kosningabaráttunni í vor.

Það eru vissulega nokkuð athyglisverð tíðindi að Ágúst Ólafur sem varaformaður Samfylkingarinnar virðist ekki hafa sama sess í þessum viðræðum og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir virðist hafa sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins við hlið Geirs H. Haarde, forsætisráðherra. Þetta er nýmæli í stjórnarmyndunarviðræðum. Þegar að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hófu myndun þeirrar ríkisstjórnar, sem enn situr en brátt heyrir sögunni til, vorið 1995 sátu Friðrik Sophusson og Guðmundur Bjarnason fundi með formönnum flokkanna og sama var árin 1999 og 2003 þegar að Geir H. Haarde var á þeim fundum með Finni Ingólfssyni og síðar Guðna Ágústssyni.

Þarna kristallast því ný staða. Spyrja má sig hvaða sess Össuri sé ætlaður. Margir virðast gefa sér að Össur Skarphéðinsson verði iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Það yrði vissulega merkileg flétta ef að hann tæki við þeim sess af Jóni Sigurðssyni, formanni Framsóknarflokksins. Færi svo yrði sess Össurar sem lykilmanns og forystumanns innan flokksins númer tvö endanlega staðfestur. Það hefur reyndar að mínu mati nú þegar verið gert með þessum viðræðum í dag og hvernig frontur flokkanna birtist, enda er þessi fyrsti fundur auðvitað mjög veigamikill, enda upphaf viðræðna og samstarfs flokkanna á komandi árum.

Margir velta reyndar mjög fyrir sér hvort að Ágúst Ólafur Ágústsson verði ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Alla jafna væri því ekki velt fyrir sér hvort varaformaður stjórnmálaflokks ætti sæti í ríkisstjórn flokksins síns, nema þá ef þar færi maður utan þings. En samt er þessu velt fyrir sér. Sú umræða vekur vissulega mikla athygli.

Það mun verða mjög áberandi hljóti varaformaður Samfylkingarinnar ekki sæti í ríkisstjórn þeirri sem er í spilunum og mun verða tilefni mikilla vangaveltna um stöðu hans. Fyrirfram hlýtur hann að teljast öruggur um ráðherrastól en fái hann ekki einn slíkan verður spurt hvort hann hafi virkilega einhverja stöðu innan Samfylkingarinnar.

mbl.is Össur: Unnið að samræmingu þess helsta og besta úr stefnu flokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður gangur í stjórnarmyndunarviðræðum

Ingibjörg Sólrún og GeirGóður gangur virðist vera í stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem hófust í dag í Ráðherrabústaðnum. Vel fór á með Geir H. Haarde, formanni Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, og áttu þau góðan fund með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni, en athygli vakti að hann sat fundinn en ekki Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar.

Ég hef fengið nokkuð oft síðasta sólarhringinn spurninguna um það frá vinum og ættingjum hvort að það verði ekki erfitt að styðja stjórnarsamstarf með Samfylkingunni. Það tel ég svo sannarlega að verði ekki neitt teljandi vandamál. Það er eðli íslenskra stjórnmála að við völd er samsteypustjórn tveggja eða fleiri ólíkra flokka. Að baki er tólf ára samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, en þeir voru andstæðingar áður en það stjórnarsamstarf hófst vorið 1995. Nái þessir tveir flokkar góðum samstarfsgrunni er það sjálfsagt að þeir vinni saman, enda ljóst að enginn einn flokkur getur hér ríkt einn í því landslagi sem við þekkjum.

Ég persónulega á marga góða vini, sem ég met mjög mikils, innan Samfylkingarinnar og ég veit ekki betur en t.d. hér á Akureyri vinni Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin saman. Það er reyndar einstakt samstarf milli þessara flokka fram að þessu, enda höfðu þeir aldrei átt með sér samstarf fram að því. Það tók vissulega tíma reyndar að slípa saman það samstarf sýnist mér, en þar réði miklu að stór hluti bæjarfulltrúa meirihlutans voru nýliðar í sveitarstjórnarmálum. Ég hef vissulega ekki verið beinn þátttakandi í því, enda sit ég ekki í nefndum fyrir sveitarfélagið, en hinsvegar hef ég mjög vel fylgst með því samstarfi og get ekki betur séð en að það gangi heilt yfir mjög vel.

Margir hafa litið svo á að það muni verða erfitt fyrir sjálfstæðismenn að styðja stjórnarsamstarf með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Það er mér persónulega ekkert vandamál. Auðvitað er Ingibjörg Sólrún í öðrum flokki og hún hefur verið umdeild. Hinsvegar hef ég aldrei efast um að hún er dugleg og heiðarleg í sínum verkum, hún hefur verið mjög öflug stjórnmálakona sem hefur barist af krafti fyrir sínu. Hvað mig varðar tel ég að það verði bara styrkleikamerki fyrir Sjálfstæðisflokkinn að halda til samstarfs með Ingibjörgu Sólrúnu og loka á allan orðróminn um óvild okkar í hennar garð. Ég held að það sé báðum flokkum styrkleiki að halda í þetta samstarf af krafti.

Ég lít svo á að það séu spennandi tímar framundan í íslenskum stjórnmálum með þessu stjórnarsamstarfi. Með þessu samstarfi er hægt að tryggja öflugan og heilsteyptan meirihluta til mikilvægra verkefna. Það verður hægt að taka betur af skarið með fjölda mála og halda til verka sem t.d. hafa verið umdeild en ég tel að myndast geti góður grunnur um í þessu samstarfi að óbreyttu. Þar gæti myndast sterk blokk með afgerandi umboð og það verður svo sannarlega ekki vandamál á þessum vettvangi að einn maður geti tekið heilt mál í gíslingu eins og hefði því miður orðið reyndin hefði samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verið endurnýjað.

Heilt yfir tel ég þetta nýja stjórnarsamstarf sem blasir við gott tækifæri fyrir báða flokkana til að tryggja öfluga forystu um lykilmál. Þar eiga ekki ólíkar skoðanir um persónur að vefjast fyrir heldur á mikilvægi samstöðu til verka að skipta máli. Það er enda þannig sýnist mér sem fólk heilt yfir hugsar og það er líka mikilvægt að allur orðrómur um mögulega áralanga óvild á einhverjum manneskjum deyi og hægt verði að horfa fram á veginn. Það er aldrei farsælt að horfa til baka í þeim efnum.


mbl.is Segjast komin nær stjórnarmyndun og að góður andi sé í viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ekki benda á mig!"

Siv Friðleifsdóttir Það er mjög hlægilegt að fylgjast með handabendingarleikjum væntanlegra stjórnarandstöðufulltrúa sem eru núna komnar á fullt. Í Íslandi í dag á Stöð 2 rétt í þessu voru Siv Friðleifsdóttir, fráfarandi heilbrigðisráðherra, og Kolbrún Halldórsdóttir, alþingismaður VG, að benda á hvor aðra um hvor hefði nú klúðrað möguleikum á vinstristjórn og báðar greinilega mjög sorrí yfir stöðu sinni verandi að fara að deila fleti í stjórnarandstöðu á komandi árum.

Umræðan í dag hefur verið um það að fulltrúar flokkanna sem ekki eru í stjórnarmyndunarviðræðum eru að benda á það hvor hefði nú klúðrað þessu og hver hefði flaskað á öðru. Það virðast allir nema vinstri grænir telja að þeir hafi klúðrað og varla á nokkur von á því að þeir taki þann kaleik að sér að fullum krafti. En beiskur er kaleikurinn sem gengur á milli væntanlegra stjórnarandstæðinga. Sérstaklega virðast framsóknarmenn vera sorgmæddir yfir sínu hlutskipti og væna sjálfstæðismenn um svik með lítt glæsilegum hætti.

Staða mála er auðvitað mjög spennandi hvað það varðar að það er í pípunum ný ríkisstjórn sem mun væntanlega hafa einn öflugasta þingmeirihluta á Alþingi. Að sama skapi er stjórnarandstaðan verulega veik og ekki á neinn sérstaklega von á að þeir sem manna sætin tuttugu þar verði hoppandi glaðir yfir hlutskipti sínu. En það er samt sem áður mjög kostulegt að fylgjast með þessum handabendingarleikjum sem halda endalaust áfram, enda litlar líkur á að nokkur bendi á sjálfan sig sem sökudólg.

Raunaleg sorgarskrif Jóns Sigurðssonar

Jón SigurðssonÞað er greinilegt á pistlaskrifum Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, að hann syrgir mjög sinn hlut. Það er ekki undrunarefni. Það ætti varla að koma framsóknarmönnum að óvörum að samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sé lokið. Það hefur blasað við stóran hluta vikunnar að þetta væri mjög tæpt og grunnur samstarfsins væri í raun ekki lengur til staðar. Það hefur verið staðfest stig af stigi allt þar til yfir lauk.

Ég skil vissulega vel að framsóknarmenn séu ósáttir. Átti aldrei von á þeir yrðu syngjandi sælir og glaðir yfir valdamissinum. Umfram allt ættu þeir þó að vera ósáttir við sjálfa sig. Framsóknarflokkurinn galt verulegt afhroð í alþingiskosningunum 12. maí sl. Flokkur sem tapar tæpum helmingi þingmanna sinna í einu vetfangi hlýtur að finna fyrir erfiðri stöðu sinni og vanmætti - þar hljóta að vakna efasemdir um hvort flokkur með slíkt afhroð á bakinu hafi í raun umboð til að halda áfram stjórnarsetu. Svo virðist ekki vera af skrifum fornra forystumanna Framsóknarflokksins og ýmissa trúnaðarmanna sem allt frá kjördegi töluðu með þeim hætti að komið væri að leiðarlokum og staða flokksins væri í raun ávísun á stjórnarandstöðuvist.

Mér fannst grein Ingvars Gíslasonar, fyrrum menntamálaráðherra og kjördæmaleiðtoga þeirra hér í Norðurlandi eystra hinu forna, sérstaklega áberandi skilaboð til forystu Framsóknarflokksins og flokksmanna allra í raun um stöðu mála. Mér finnst það í hæsta máta óeðlilegt að framsóknarmenn tali og skrifi eins og allt sé eins og það var fyrir 12. maí. Afhroð Framsóknarflokksins í þeim kosningum, sem var í senn sögulegt og lamandi pólitískt áfall, var áberandi og umfram allt skilaboð til forystu flokksins um að hann ætti að pása sig. Eðlilegt var þó fyrir Sjálfstæðisflokkinn að ræða við Framsóknarflokkinn eftir kosningar, en meirihluti stjórnarinnar var ekki á vetur setjandi.

Mér finnst það mjög raunalegt að sjá hvernig að sumir framsóknarmenn skrifa um stöðu mála, sérstaklega formaður Framsóknarflokksins sem fékk gríðarlegan skell fyrir tæpri viku þegar að hann fékk höfnun í Reykjavík norður, var hafnað um kjör til Alþingis. Hver voru skilaboð kjósenda til hans, hver voru skilaboð kjósenda til Framsóknarflokksins? Allir sem líta raunsætt á málin sjá hver sá dómur var. Hrunið í Reykjavík var táknrænt áfall fyrir Framsóknarflokkinn. Hann hélt nokkurnveginn velli t.d. hér í Norðausturkjördæmi, en héðan kom þó tæpur helmingur þingflokks Framsóknarflokksins eftir kosningarnar. Hann varð ekki fyrir algjöru svartnætti en næstum því.

Framsóknarflokkurinn þarf að fara í algjöra naflaskoðun og stokka sig upp. Hann fær gullið tækifæri til þess í stjórnarandstöðu. Ég tel að það hefði ekki gengið að halda þessu samstarfi áfram. Framan af vikunni var ég þeirrar skoðunar og eflaust fleiri sjálfstæðismenn að láta ætti reyna á þennan valkost þó mjög dauðadæmdur væri í raun. Mér fannst það vera gert og í raun finnst mér það gríðarlegt vanþakklæti hjá Framsóknarflokknum að virða það ekki að viðræður um þennan valkost fóru fram. Þeir voru sjálfir verulega tvístígandi og hikandi. Það komu engin afgerandi skilaboð úr grasrótinni eða afgerandi tal hjá forystu Framsóknarflokksins. Hik þeirra var þeim dýrkeypt.

Nú er þessu samstarfi lokið. Það markar þáttaskil fyrir báða flokka og fyrir íslensk stjórnmál almennt. Jón Sigurðsson stendur mjög illa í þessari stöðu verandi utan þings og væntanlega að missa ráðherrastól, sem hefði getað tryggt honum aðkomu að þingstörfum með áberandi hætti. Svo verður ekki. Það verður nú hlutskipti formanns Framsóknarflokksins að vinna að innra starfinu utan Alþingis. Það gætu tækifæri falist í því fyrir Framsóknarflokkinn, en áfallið er lamandi. Ég geri mér fulla grein fyrir því og skil sársauka flokksmanna í Framsókn.

En rætur endalokanna liggja í afhroði Framsóknarflokksins á laugardaginn. Það er mjög einfalt mál og það verður eflaust lykilverkefni trúnaðarmanna Framsóknarflokksins eftir að hann yfirgefur Stjórnarráðið að byggja sig upp til næstu verkefna á vegferð sinni.


mbl.is Jón Sigurðsson: Staðfestir trúnaðarbrest milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafnar

Ingibjörg Sólrún og Geir Viðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um myndun nýrrar ríkisstjórnar hófust í Ráðherrabústaðnum fyrir tæpum hálftíma, skömmu eftir að Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, fékk umboð Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, til stjórnarmyndunar. Það er mikilvægt að flokkarnir hefji verkið strax og fróðlegt að sjá hvernig að Geir og Ingibjörgu Sólrúnu muni ganga við verkið.

Það er ljóst skv. ummælum forseta Íslands í morgun að tímaramminn verður vika til tíu dagar í mesta lagi. Ég á ekki von á þessar viðræður muni taka langan tíma þannig séð. Auðvitað tekur alltaf einhvern tíma þó að fara yfir helstu málefnaáherslur og mynda grunn að stjórnarsáttmála, skipta ráðuneytum og manna nýja ríkisstjórn, en það mun varla taka óeðlilega langan tíma. Ég verð mjög hissa ef þetta tekur meira en viku í sjálfu sér. Það er þó ljóst að yfir viss lykilmál verður að fara og mynda sameiginlegan málefnagrunn sem máli skiptir. Mjög verður með því fylgst hvort að áherslur um einkarekstur og uppstokkun lykilmála, t.d. landbúnaðarkerfinu, nái í gegn.

Ég var að sjá á fréttasíðum rétt í þessu að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerir lítið úr tilboðum Steingríms J. og Jóns Sigurðssonar um forsæti í samstarfi við þá. Ekki er ég hissa. Það er auðvitað fyrst og fremst vandræðalegt yfirboð hjá einkum vinstri grænum sem greinilega vildu tveggja flokka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn en misstu atburðarásina út úr höndunum á sér og eru nú að reyna að hugga Framsóknarflokkinn með frekar hlægilegum hætti eftir að hafa niðurlægt þá með "kostaboði" um ekkert. Steingrímur J. lítur út eins og maðurinn sem vaknar eftir partýið og sér bara tóm glös og tómar skálar og öskrar hvað hefði eiginlega orðið um geimið.

Framsóknarflokkurinn er í sjálfu sér auðvitað illa rúinn og stendur verulega illa með formanninn pólitískt landlausan utan þings og væntanlega ennfremur ríkisstjórnar bráðlega og örvæntingin þar yfir að missa völdin er greinilega orðin mjög mikil, enda sýnist manni á skrifum fornra valdamanna þar að grasrót flokksins hafi ekki fylgt forystumönnum Framsóknar í því að fara til stjórnarsamstarfs. Þetta varð greinilegt af skrifum Ingvars Gíslasonar og tali Steingríms Hermannssonar hversu ótraustur flokkurinn er í raun orðinn og hann var í raun enginn kostur orðinn lengur fyrir Sjálfstæðisflokkinn umfram allt.

Heilt yfir er vandræðagangur flokkanna sem eru á leið í stjórnarandstöðu þónokkur og ekki er það óskiljanlegt lítandi á þá veigamiklu staðreynd að aðeins 20 einstaklingar munu manna stjórnarandstöðubekkina á næstu fjórum árum að öllu óbreyttu. En það er eins og það er og það er vissulega ánægjulegt að það sé komin þíða í erfið samskipti VG og Framsóknarflokks. Þess þá betur mun þeim lynda saman við að byggja sig upp í stjórnarandstöðu.

En nú er horft fram á veg og mikilvægt að viðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gangi hratt og vel fyrir sig og niðurstöður í þeim efnum komist fljótlega á hreint. Mér sýnist að góður grunnur hafi myndast persónulega á milli Geirs og Ingibjargar Sólrúnar og bind vonir við að þau nái fljótt og vel saman um þau mál sem mestu skipta á næstu árum.

mbl.is Fyrsti formlegi stjórnarmyndunarfundurinn að hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar felur Geir stjórnarmyndunarumboð

Geir og Ólafur Ragnar Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur falið Geir H. Haarde, formanni Sjálfstæðisflokksins, umboð til stjórnarmyndunar. Geir baðst lausnar fyrir fráfarandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fyrir stundu og hefur forseti Íslands fallist á þá lausnarbeiðni og starfar fráfarandi stjórn nú aðeins sem starfsstjórn.

Það er mjög skynsamlegt af forseta Íslands að veita Geir H. Haarde nú þegar umboð til myndunar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og ræða ekki við aðra flokksformenn áður en sú ákvörðun er tekin, enda liggur fyrir samkomulag þessara flokka um viðræður og öllum ljóst að enginn annar meirihluti til myndunar ríkisstjórnar er í myndinni. Það hefði ekkert komið út úr þeim viðræðum nema hið augljósa að nýr og afgerandi meirihluti blasi við og það er eini stjórnarkosturinn í stöðunni sem uppi er.

Það ætti að taka skamma stund að mynda stjórn þessara flokka ef allt er eðlilegt. Það er mjög mikilvægt að forseti hafi falið flokkunum, sem afgerandi þingmeirihluta hafa og ákveðið hafa að ræða saman formlegt umboð til að mynda stjórn. Það ætti að taka einhverja daga að mynda slíka stjórn og eflaust munu Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir taka sér helgina í að fara yfir málin og mynda þann grunn sem mikilvægur er í nýrri ríkisstjórn flokkanna. Bæði hafa þau afgerandi umboð flokka sinna til stjórnarmyndunar.

Það er raunalegt að sjá yfirlýsingu frá Jóni Sigurðssyni, formanni Framsóknarflokksins, rétt í þessu þar sem hann talar um svik og býður Samfylkingunni mögulega forsætið. Ég held að það væri rétt fyrir Framsóknarflokkinn að jafna sig utan stjórnar og reyna að horfast í augu við það mikla afhroð sem hann varð fyrir um síðustu helgi. Hann er algjörlega umboðslaus eins og reyndir forystumenn innan hans hafa manna best bent á síðustu dagana.

mbl.is Geir falið að mynda nýja ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar veitir umboð til stjórnarmyndunar

Ólafur Ragnar Grímsson Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á von á gesti fyrir hádegið. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, mun ganga á fund hans innan stundar og biðjast lausnar fyrir ráðuneyti sitt. Í kjölfar þess mun Ólafur Ragnar í fyrsta skipti á sínum forsetaferli veita formlegt umboð til stjórnarmyndunar. væntanlega til Geirs til myndunar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.

Ólafur Ragnar hefur verið húsbóndi á Bessastöðum í ellefu ár. Allan þann tíma hefur hann eflaust beðið mjög óþreyjufullur eftir því að veita formlegt umboð til stjórnarmyndunar. Það er komið að þeim tímapunkti. Allt frá því að Ólafur Ragnar tók við forsetaembættinu þann 1. ágúst 1996 hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks setið við völd og verið algjört formsatriði að halda því samstarfi áfram þar sem hún hélt þingmeirihluta í kosningunum 1999 og 2003. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson unnu hratt og vel eftir báðar kosningarnar til að tryggja nýja stjórn mjög fljótt.

Nú kemur í fyrsta skipti til hans kasta að veita almennt stjórnarmyndunarumboð þar sem fráfarandi starfsstjórn er til staðar og staðan við myndun stjórnar er nokkuð opin. Það verður fróðlegt að sjá hvort að þetta er upphaf ferlis þar sem Ólafur Ragnar getur loksins leikið þann örlagavald sem hann hefur eflaust alltaf viljað vera í íslenskum stjórnmálum. Ekki bendir þó til þess ef marka má stöðu mála og viðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sem flestir virðast gefa sér að lykti fljótt og vel með nýrri ríkisstjórn flokkanna.

Það er ekki mikill vafi á því að Ólafur Ragnar Grímsson hefur beðið allan forsetaferil sinn eftir svona tækifæri til að vera pólitískur örlagavaldur. Það ferli verður þó eflaust með öðrum formerkjum en hann átti von á, og hefði orðið hefði fráfarandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fallið í kosningunum fyrir sex dögum. Í stað þess sat hún áfram en nú reynir á hlutverk hans fyrst að stjórnarflokkarnir ákváðu að halda ekki samstarfinu áfram og opna pólitísku stöðuna hérlendis, í fyrsta skiptið í tólf ár.

En samt sem áður verður gestakoman á Bessastaði innan stundar tækifærið fyrir Ólaf Ragnar til að vera mikilvægur hlekkur á milli stjórnmálamanna við myndun ríkisstjórnar. Það verður fróðlegt að sjá hvort að forsetinn á sjötugsaldri á Bessastöðum, sem sjálfur var pólitískur refur og margreyndur stjórnmálamaður fyrir forsetaferilinn, fær hlutverkið sem hann hefur viljað svo lengi eða verður einfaldlega milliliður við myndun stjórnar, rétt eins og Vigdís Finnbogadóttir var jafnan.

Það eru spennandi dagar framundan í íslenskum stjórnmálum og áhugaverðir tímar sem hefjast með gestakomunni á Bessastaði fyrir hádegið.

Pólitísk þáttaskil á uppstigningardegi

Ingibjörg Sólrún og Geir Mikil pólitísk þáttaskil hafa átt sér stað á þessum uppstigningardegi. Tólf ára farsælu stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er lokið og eftir hádegið á morgun munu stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefjast eftir að Geir H. Haarde hefur beðist lausnar á Bessastöðum og fengið þar formlega umboð forseta Íslands til stjórnarmyndunar.

Ég fór yfir tólf ára samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í ítarlegum pistli hér á vefnum þann 23. apríl sl. en þann dag voru tólf ár liðin frá því að ríkisstjórn flokkanna tók fyrst við völdum undir forsæti Davíðs Oddssonar. Svo virðist vera sem að sagan frá vorinu 1995 er þetta samstarf kom til sögunnar hafi endurtekið sig með kaldhæðnislega líkum hætti í dag. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ákveðið að segja skilið við þetta samstarf og horfir til nýs samstarfsflokks. Hann horfðist í augu við sama veikburða þingmeirihlutann þá og nú blasir við, í meira að segja sömu hlutföllum samstarfsflokka og vorið 1995, og allar aðstæður eru vissulega ótrúlega líkar.

Samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lýkur með brigslyrðum Guðna Ágústssonar, varaformanns Framsóknarflokksins, í garð Sjálfstæðisflokksins, en hann talaði mjög hvasst í kvöldfréttum sjónvarpsstöðvanna og sérstaklega í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í kvöld. Það var merkilegt að heyra þau orð. Þetta er auðvitað hans stíll, en ég skil vel að hann sé ósáttur við að missa væntanlega ráðherrastól eftir átta ára setu. Það hefur blasað við alla vikuna að hraðinn var rólegur í viðræðum flokkanna og öllum ljóst að meirihlutinn var orðinn mjög tæpur og varla starfhæfur.

Það var sjálfsagt að láta reyna á þetta samstarf en ég tel að það sé heilt yfir mat flestra sjálfstæðismanna að þessu samstarfi væri lokið og ekki neinn sá grunnur eftir í því sem treystandi væri á í raun. Ég var kominn á þá skoðun í gær að þessu samstarfi væri lokið og grunnurinn brostinn. Það er samt ekki þannig að þetta samstarf hafi verið afleitur valkostur en meirihlutinn var ekki starfhæfur. Það verður allt að vera í lagi til að halda upp í vegferð til fjögurra ára og sá grunnur var brostinn. Það er vissulega erfið ákvörðun að segja skilið við þetta samstarf en þetta var rétt ákvörðun.

Það er greinilegt að VG og Framsóknarflokkur eru verulega ósátt við stöðu mála. Það kom vel fram í kuldalegum viðbrögðum Guðna Ágústssonar og Steingríms J. Sigfússonar í Kastljósi í kvöld. Ég er ekki hissa á því. Þetta verður veik stjórnarandstaða sem þeir munu fara fyrir, aðeins 20 manna hópur. Það tekur reyndar við að Steingrímur J. Sigfússon muni nú leiða stjórnarandstöðu og þar með verða Framsóknarflokkur og Frjálslyndi flokkurinn. Staða Framsóknarflokksins í yfirvofandi stjórnarandstöðuvist er óviss, enda er formaður flokksins utan þings og því mikil óvissa yfir forystu hópsins þar.

Það eru spennandi tímar framundan. Helgin mun fara í að byggja nýtt stjórnarsamstarf. Ég vona að það muni ganga fljótt og vel saman með flokkunum og stjórnarskipti geti gengið tiltölulega hratt fyrir sig. Það er mikilvægt. En það er auðvitað eftirsjá eftir löngu og farsælu samstarfi. Í heild sinni er staða mála of veik til að þar verði haldið áfram og það verður að horfa fram á veginn í slíkri stöðu en ekki í baksýnisspegilinn. Það verður að láta reyna á nýja kosti þegar að við blasir að þetta samstarf er ekki lengur starfhæft og í raun orðið lamað, sem við blasir með stöðu mála í þessu ljósi með eins sætis meirihluta.

Í heildina tel ég farsæla tíma framundan með nýrri ríkisstjórn. Ég vona að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar vinni farsælt og gott verk og þar náist fyrst og fremst góður málefnagrunnur. Það er lykilverkefni núna og það verður áhugavert að sjá hversu hratt það verk gengur. Ég tel að það sé mikilvægt að árangur náist í þeim efnum helst vel innan næstu fimm til sjö daga. Nú ganga Geir og Ingibjörg Sólrún til þessa verks og ég tel að heilt yfir sé sátt innan beggja flokka um framtíð mála.

En þetta er dagur sviptinga og atburðirnir hafa gerst mjög hratt á síðustu tólf klukkustundum. En í þessum sviptingum felast tækifæri sem báðir flokkar munu vonandi nýta vel til nýrrar forystu í landsmálum.

mbl.is Ingibjörg Sólrún: VG vildi ekki mynda stjórn með Framsóknarflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband