23.5.2007 | 23:47
Hlutur kvenna í ráðherravali Sjálfstæðisflokksins

Staða mála í þessu ráðherravali var með þeim hætti að aðeins Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, var örugg um ráðherrastól af hálfu sjálfstæðiskvenna. Það var þröng staða utan um það. Við blasir að Geir tók þann kostinn að halda hópnum svo til óbreyttum. Staða Guðlaugs Þórs var mjög sterk, enda hefur hann lengi verið í stjórnmálastarfi og unnið lengi í innra starfinu áður en hann varð kjörinn fulltrúi í borgarstjórn og á Alþingi. Auk þess stóð Kristján Þór Júlíusson nærri ráðherrastól, en það er okkur sjálfstæðismönnum á Akureyri vægast sagt verulegt áfall að hann varð ekki ráðherra.
Þegar að velja þarf sex ráðherra í 25 manna þingflokki þar sem fjöldi öflugs og góðs fólks er til staðar vandast valið. Þegar fyrir valið voru þrjú ráðherraefni örugg; Geir H. Haarde, Þorgerður Katrín og Árni M. Mathiesen, eftir glæsilegan kosningasigur í nýju kjördæmi sínu. Þar fyrir utan var greinilega vilji þingflokks að standa vörð um stöðu Björns Bjarnasonar. Það var mikill persónulegur sigur fyrir Björn að halda sínum stól. Einar Kristinn varð ráðherra á miðju síðasta tímabili, þegar að Davíð hætti í pólitík og naut þess í valinu að hafa verið nýlega kominn inn og fær tækifæri til að halda áfram. Sturlu er skipt út eftir átta ára ráðherraferil, sem hafði stefnt í lengi.
Þetta ráðherraval er eflaust áfall fyrir sjálfstæðiskonur. Þær vildu að minnsta kosti eina konu í viðbót. Það er skiljanlegt, enda eru sjálfstæðiskonur í þingflokknum mjög glæsilegir fulltrúar flokksins og þær eru nokkrar þar sem ég vildi helst sjá í forystusess. Það er mjög sárt að ekki sé hægt að velja þær til þess hlutverks. Á síðasta tímabili höfðum við tvo kvenráðherra hluta kjörtímabils. Það var okkur verulegt áfall að missa Sigríði Önnu úr ráðherrastól þegar að Framsóknarflokkurinn gafst upp á forsætisráðuneytinu og við tókum þá ákvörðun að halda til ráðuneytaskiptingar fyrir innkomu Siggu. Það var sjónarsviptir af henni úr sínum verkum.
En þetta er staða mála. Abba verður áfram þingflokksformaður. Hún var valin þingflokksformaður fyrir tveim árum vegna mikillar þingreynslu sinnar og öflugs stuðnings hópsins. Abba hefur verið þingmaður okkar um árabil og við erum stolt af því að hún heldur sínum sess, enda átti hún það skilið. Áfall okkar var mikið yfir því að fá ekki ráðherrastól, enda erum við eina kjördæmi flokksins þar sem enginn ráðherrastóll er. Það er mjög dapurlegt að Kristján Þór hafi ekki notið tveggja áratuga sveitarstjórnarstarfa sinna og greinilegt að þau störf eru ekki metin neins sem grunnur í starfið í þingflokknum.
Staða mála er eins og hún er. Eins og fyrr segir hefði verið æskilegra að fleiri konur yrðu í forystusveit með ráðherrastörfum. Þetta er ekki góð niðurstaða enda eru margar hæfileikaríkar konur í þingflokknum sem áttu innistæðu fyrir því að taka sæti í ríkisstjórn.
23.5.2007 | 22:55
Tími Jóhönnu kemur... eftir þrettán ára bið

Jóhanna Sigurðardóttir hefur nú setið lengst allra þingmanna á Alþingi Íslendinga. Hún stýrir í næstu viku fyrsta þingfundi nýkjörins Alþingis í því ljósi. Jóhanna er mjög reynslumikill forystumaður innan þings og verið litríkur stjórnmálamaður alla tíð. Hún hefur setið samfleytt á þingi frá árinu 1978, árið eftir að ég fæddist, og verið alla tíð mjög áberandi í þingstörfum og lagt sig alla í verkefni stjórnmálanna og verið hugsjónapólitíkus. Það er alltaf þörf á þeim. Persónulega fagna ég endurkomu hennar og tel hana réttan einstakling á réttum stað í nýju velferðarráðuneyti.
Ég var svona að fara yfir það í huganum hvenær að mér fannst Jóhanna ná hápunkti sínum sem stjórnmálamaður, væntanlega fram að þessari endurkomu í ríkisstjórn. Það var sennilega þegar að henni tókst að sigra prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík í janúar 1999. Einhvernveginn tókst henni það sem allir töldu ómögulegt eftir eiginlega misheppnaða stofnun Þjóðvaka og hið skaðlega tap fyrir Jóni Baldvin í formannskjöri Alþýðuflokksins árið 1994 að byggja sig upp að nýju sem forystukonu á vinstrivængnum. Með því tókst henni að sópa vinstrinu að baki sér. Hún gekk að nýju í Alþýðuflokkinn í aðdraganda prófkjörsins og lagði hann að fótum sér með alveg stórglæsilegum hætti. Það var hennar toppur. Það er mjög einfalt mál.
Ég tel að það sé Samfylkingunni mjög heilladrjúgt að fela Jóhönnu ráðherraembætti aftur. Hún er mikil kjarnakona, reynd og öflug kona með farsælan pólitískan bakgrunn. Hún hefur aldrei verið nein hornkona á sínum ferli, heldur alltaf þorað að tala af krafti og verið fjarri því hikandi í sínum málefnum. Hún hefur alltaf verið talsmaður þeirra sem minna mega sín og verið öflug í sinni pólitík. Það verður gaman að sjá hana aftur í ríkisstjórn og miðpunkti þeirra verka sem hún eflaust metur mest.
![]() |
Jóhanna snýr aftur í félagsmálaráðuneytið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.5.2007 | 21:56
Sturla Böðvarsson missir ráðherrastólinn

Í seinni tíð hefur embætti forseta Alþingis öðlast meiri virðingarsess. Það hefur verið metið sem fullt ráðherraígildi. Forseti þingsins hefur einkabílstjóra og skrifstofu í þinghúsinu auðvitað og starfslið á sínum vegum þar með. Hann hefur semsagt öll þægindi og hlýtur sama virðingarsess og ef ráðherra væri. Þetta hefur samt alla tíð verið metið sem stöðulækkun. Það var Ólafi G. Einarssyni áfall að fá þann dóm að færast þangað árið 1995, það var líka áfall fyrir Halldór Blöndal að færast þangað, eftir sögulegan kosningasigur í Norðurlandskjördæmi eystra hinu forna, árið 1999 og líka fyrir Sólveigu Pétursdóttur fyrir fjórum árum.
Sturla má að mörgu leyti vel við una. Hann hefur fengið mörg tækifæri á stjórnmálaferli sínum og verið samgönguráðherra mjög lengi. Hann hefur líka unnið vel fyrir sitt fólk en verið mjög umdeildur utan þess svæðis. Nú verður það hlutverk hans að feta í fótspor fyrrnefndra ráðherra og yfirgefa ráðuneyti sitt og halda á vit starfsins í þinginu. Það felst í embætti þingforsetans að vera sáttasemjari. Forsetinn vinnur með þingflokksformönnum að starfi þingsins, hann þarf að vera maður sátta í erfiðum deilum og reyna að vera sameiginlegur fulltrúi allra afla eftir fremsta megni. Það verður athyglisvert að sjá Sturlu í því hlutverki.
Það hlýtur að vera áfall fyrir sjálfstæðismenn á Vesturlandi að missa ráðherra. En þeir eiga þó í kjördæminu ennþá einn ráðherra og það verður heldur betur þungavigtarráðherra, enda fær hann í sinn hlut sameinuð ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar. Einar Kristinn Guðfinnsson styrkist mjög pólitískt við að halda ráðherrastól, en hann kom inn í stjórnina þegar að Davíð Oddsson lét af ráðherraembætti haustið 2005.
Ég tel að flestir sjálfstæðismenn hafi átt von á því að Sturla yrði sá ráðherra sem myndi færast yfir í þinghúsið og taka við verkefnum þar. Hann hefur verið áberandi í sínum ráðherrastörfum við að t.d. klippa á borða og sprengja höft í gangnaframkvæmdum en fær nú annað og lágstemmdara hlutverk í steingráu húsi við að vera verkstjóri þingsins. Það er greinilega hlutverk sem hann tekur við með súrsætu brosi.
![]() |
Sturla: Ósáttur við að hverfa úr samgönguráðuneytinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.5.2007 | 18:40
Verður Valgerður varaformaður Framsóknarflokks?

Það er því ljóst að Valgerður er í raun að leiða flokkinn í gegnum þessar kosningar. Fyrir nokkrum vikum töldu flestir að framundan væri auðmýkjandi ósigur fyrir Valgerði, sem vann afgerandi sigur hér í kosningunum 2003. Lengst af töldu flestir að Framsókn fengi aðeins tvo menn kjörna. Það er mikill varnarsigur fyrir Framsókn í Norðausturkjördæmi að hafa náð að tryggja kjör Höskuldar Þórhallssonar á Alþingi.
Valgerður er mikil seiglukona, dugleg og beitt. Það er ekki undarlegt að hún hafi sterka stöðu og ég tel allar líkur á að hún hljóti varaformennskuna og sennilega án baráttu. Staða hennar er það sterk að hún á það skilið að hljóta öflugan forystusess að mínu mati.
Valgerður varð fyrsta konan á utanríkisráðherrastóli. Margir töldu að fjarvera hennar sem utanríkisráðherra myndi koma niður á henni í stóru og umfangsmiklu landsbyggðarkjördæmi. Það varð ekki. Mér fannst reyndar með ólíkindum hversu öflug Valgerður var þrátt fyrir utanríkisráðherrastólinn og mikil ferðalög um víða veröld.
Fannst hún alltaf vera hér og sama hvaða mannfögnuður eða atburður að alltaf var Valgerður þar viðstödd. Ótrúlega dugleg og öflug, enda uppskar hún eftir því hér. Hún var eini leiðtogi Framsóknar sem gat brosað í þessu sögulega afhroði sem flokkurinn varð fyrir í kosningunum þann 12. maí og mun uppskera eftir því þrátt fyrir valdamissinn.
![]() |
Stingur upp á Valgerði í embætti varaformanns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.5.2007 | 17:59
Sárindi hjá Samfylkingunni í Suðvesturkjördæmi?

Það vekur athygli í þessari moggafrétt að Gunnar getur hvorki sagt hvort hann sé ánægður eða óánægður með ráðherrakapal Samfylkingarinnar. Þessi niðurstaða hlýtur að hafa orðið verulegt áfall fyrir Gunnar sem leiðtoga í kjördæminu og eftir að hafa verið lykilmaður hjá Samfylkingunni í sterkasta vígi flokksins, Hafnarfirði, en hann hefur verið forseti bæjarstjórnar þar frá árinu 2002. Eins og kunnugt er hefur Samfylkingin sjö af ellefu bæjarfulltrúum í Hafnarfirði.
Einhver ólga er vegna ráðherrakapalsins. Auk Gunnars vakti athygli að Ágúst Ólafur Ágústsson fékk ekki ráðherrastól þrátt fyrir að vera varaformaður flokksins. Niðurlæging hans er algjör. Auk þessa vekur athygli að spútnik-stjarnan úr Kópavogi, Katrín Júlíusdóttir, varð ekki ráðherra. Með þessu er gengið gegn öflugum fulltrúum ungra jafnaðarmanna innan þingflokksins - en bæði hafa verið metin lykilstjörnur innan flokksins, en þeim er þó ekki treyst fyrir ráðherrastól.
![]() |
Gunnar sóttist eftir ráðherraembætti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.5.2007 | 16:32
SUS fagnar áherslum stjórnar í heilbrigðismálum

Ennfremur fögnum við auðvitað því að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti verði eitt og sama ráðuneytið. Það er löngu tímabært að svo fari. Þetta hefur verið áherslumál hjá SUS í fjölda ára að stokka þessi mál upp og sameina með þessum hætti landbúnaðar- og sjávarútvegsmál. Þetta er mál sem ber sérstaklega að fagna auðvitað.
Fleiri góð mál eru í þessum stjórnarsáttmála. Ennfremur er auðvitað mikið gleðiefni að Guðlaugur Þór Þórðarson verði heilbrigðisráðherra. Gulli er fyrrum formaður SUS og er ennfremur einn af forverum mínum sem formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna hér á Akureyri. Það er góður áfangi að hann taki sæti í nýrri ríkisstjórn.
![]() |
SUS ánægt með málefnasamninginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.5.2007 | 14:32
Vandaður grunnur frjálslyndrar hægristjórnar
Ný stjórn boðar að því er virðist öfluga velferðarþjónustu, kraftmikið efnahagslíf, áberandi skattalækkanir og náttúruvernd. Athygli vekur að ný ríkisstjórn lýsir því sérstaklega yfir að hún harmi stríðsreksturinn í Írak. Orðalagið um Evrópumálin er vissulega mjög loðið, en það er auðvitað alveg ljóst að það er ekkert sem mælir gegn málefnalegum skoðanaskiptum í þeim málaflokki frekar en öðrum. Mér líst vel á orðalag í landbúnaðarmálum og sérstaklega er ánægjulegt að Íbúðalánasjóður verði færður undir verksvið fjármálaráðuneytisins. Svo er gleðilegt að ekkert stóriðjustopp er þarna grúnderað.
Heilt yfir tel ég að frjálslynd hægristjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar muni vinna farsælt og gott verk. Þetta er öflug stjórn með traust og gott umboð, sterkan þingmeirihluta og stuðning tæplega 2/3 hluta kjósenda. Heilt yfir eru spennandi tímar framundan. Þessi stjórnarsáttmáli boðar nýja tíma á mjög mörgum sviðum, mjög spennandi tíma, sem ég tel að flokkarnir hafi náð góðum grunni um. Það verður heldur ekkert deilt um styrk hennar. Þetta er hin sögulega stóra samsteypa að þeirri fyrirmynd sem við sjáum til dæmis í Þýskalandi, þar sem tveir meginpólar sameinast um að halda saman til verka af krafti og án alls hiks.
Mér líst vel á þessa stöðu og tel að við munum eiga góð fjögur ár á mörgum sviðum. Þetta verða ár framfara og ferskleika, nýrra tíma. Á þeim þurfum við að halda núna.
Stefnuyfirlýsing Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar
![]() |
Íslendingar taki forustu í baráttu gegn haf- og loftmengun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2007 | 14:02
Vonbrigði Kristjáns Þórs Júlíussonar

Skilaboð formanns Sjálfstæðisflokksins eru klárlega með þeim hætti að menn verði ekki ráðherrar um leið og þeir taki sæti á Alþingi. Þessi niðurstaða vekur mikla athygli í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn vann um margt sögulegan sigur í Norðausturkjördæmi í alþingiskosningunum 12. maí sl. Flokkurinn er langstærsta aflið í kjördæminu og leiðir nú svæði sem um áratugaskeið voru lykilvígi Framsóknarflokksins. Það var sigur sem aldrei var sjálfsagður og er einstakur ef frá er skilinn mjög naumur sigur flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra árið 1999.
Í ráðherrakapal Sjálfstæðisflokksins vorið 2003 var gengið mjög freklega framhjá Norðausturkjördæmi. Í þeim kapal fólst aftaka á bæði Halldóri Blöndal og Tómasi Inga Olrich sem stjórnmálamönnum að mínu mati. Tómas Ingi var sleginn af sem menntamálaráðherra með frekar lágkúrulegum hætti er hann var sleginn af í ráðherrakapal í maí 2003 en var látinn danka í embætti hálft ár í viðbót með skugga eftirmannsins á eftir sér með áberandi hætti. Halldór Blöndal var samhliða þessu sleginn af sem þingforseti í maí 2003 en það tók ekki gildi fyrr en á miðju kjörtímabili. Þetta kom í kjölfar vondra kosningaúrslita það vor. Þann skell var svosem eðlilegt að við tækjum á okkur, en engu að síður var verklag formanns flokksins frekar brútalt.
Að þessu sinni erum við eina kjördæmið innan flokksins sem er sniðgengið í ráðherrakapal. Fyrir fjórum árum sátum við líka hjá rétt eins og Suðurkjördæmi. Ég lít ekki svo á að áframhaldandi ráðherraseta Tómasar Inga fyrir fjórum árum, með örlögin ráðin, hafi verið ákvörðun um ráðherrasetu hans. Það var mikið áfall og ekkert gleðiefni fyrir okkur hér. Að þessu sinni er staða okkar óbreytt. Við höldum að vísu Öbbu sem þingflokksformanni, en það er augljóslega bara vegna þess að hún er kona. Það kemur ekkert annað til skýringa á því að mínu mati.
Mér finnst þessi niðurstaða ekki vænleg fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi. Þetta er niðurstaða sem er verð mikillar umhugsunar á stöðu mála fyrir okkur hér í ljósi þess að við tókum kjördæmið með frekar afgerandi hætti og færðum sögulegan sigur. Það er ekki sjálfgefið að sú staða verði fyrir hendi eftir fjögur ár tel ég.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
23.5.2007 | 12:21
Guðni Ágústsson tekur við Framsóknarflokknum
Það kemur svo sannarlega ekki að óvörum að Guðni Ágústsson taki við formennsku í Framsóknarflokknum á örlagatímum í sögu hans. Hann hefur verið varaformaður flokksins í sex ár og verið ráðherra af hans hálfu í tæpan áratug - lykilforystumaður innan flokksins árum saman og hefur leikið stórt hlutverk í stjórnmálum. Við þau þáttaskil að Jón Sigurðsson missti stöðu sína í stjórnmálum voru forystuskipti óhjákvæmileg.
Allt frá því að Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og flokksformaður, tilkynnti um þá ákvörðun að víkja úr forystu stjórnmála hefur verið talað um hvort að Guðni sem varaformaður í nokkur ár og forystumaður innan flokksins myndi sækjast eftir formennskunni. Sú ákvörðun Guðna fyrir tæpu ári að leggja ekki í formannsslaginn og sækjast eftir að verja varaformennskuna fyrir ásókn Jónínu Bjartmarz voru mikil pólitísk tíðindi. Guðni hefur verið þingmaður frá 1987, leitt Suðrið í flokknum frá 1995, verið ráðherra frá 1999 og varaformaður frá 2001. Það eru því varla stórtíðindi að maður með hans bakgrunn í flokknum taki við flokknum þegar að honum vantar forystumann.
Guðni þarf að leiða Framsóknarflokkinn til uppbyggingarstarfs. Á morgun missir flokkurinn völdin og heldur í stjórnarandstöðu í þriðja skiptið á 36 ára tímabili, frá árinu 1971 er Ólafur Jóhannesson leiddi flokkinn til forystu við fall viðreisnarstjórnarinnar. Guðni er mjög reyndur stjórnmálamaður og býr að þeirri reynslu. Reyndar má spyrja hvort að stolt Halldórs Ásgrímssonar, sem sett var ofar flokkshag á síðasta ári þegar að Guðni sýndi greinilegan áhuga á formennsku en var sparkaður niður með áberandi hætti, hafi ekki verið mjög dýrkeypt. En nú fær Guðni tækifærið mikla sem hann fékk ekki á síðasta ári.
Það er alveg rétt sem Jón Sigurðsson sagði í morgun er hann sagði af sér formennskunni að formaður Framsóknarflokksins í þeim raunveruleika sem fylgir þessari stjórnarandstöðuvist verður að vera alþingismaður, hann verður að hafa hlutverki að gegna. Annað er einfaldlega ekki í spilunum. Guðni hefur lengsta þingreynslu í flokknum, ásamt Valgerði Sverrisdóttur, en bæði komu inn á þing í kosningunum 1987. Nú verður það Guðna að taka við verkum í forystusveit. Hann býr að sterkum tengslum inn í flokkskjarna á landsbyggðinni og er þekktur stjórnmálamaður sem þarf ekki að kynna sig neitt.
Framundan eru þó eflaust einhverjir spennutímar innan Framsóknarflokksins. Nýr varaformaður verður kjörinn á miðstjórnarfundi í næsta mánuði, skv. fréttum. Enn er svo ekki ljóst hvort að Guðni fær mótframboð í formennskuna á næsta flokksþingi. Framsóknarflokkurinn er staddur í mikilli óvissu við þessi þáttaskil og verður athyglisvert að sjá hvernig honum gengur í stjórnarandstöðu á næstu árum og við að byggja sig upp til verka í nýjum veruleika.
![]() |
Guðni Ágústsson: Mín viðhorf eru þekkt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2007 | 10:42
Jón Sigurðsson segir af sér formennsku

Jón Sigurðsson fórnaði sér með eftirtektarverðum hætti fyrir flokk sinn með því að fórna öruggri seðlabankastjórastöðu fyrir óöruggan ráðherrastól í mikilli krísu Framsóknarflokksins og aðeins fjarlæga möguleika á þingsæti, en staða flokksins var erfið er hann tók mjög óvænt við ráðherraembætti fyrir tæpu ári og formennskunni í kjölfarið sem maður sátta og uppbyggingar. Staða Framsóknarflokksins batnaði þó að hluta á sumum stöðum en afhroðið sem kannanir höfðu gefið til kynna mánuðum saman varð ekki umflúið. Persónulega tel ég að Jóni hafi tekist að byggja flokkinn upp innan frá en við blasir að honum mistókst það utan frá að miklu leyti. Það var einfaldlega við of ramman reip að draga.
Sögulegur kosningaósigur Framsóknarflokksins þann 12. maí sl. var að mínu mati ekki ósigur Jóns Sigurðssonar, þetta var ósigur Halldórs Ásgrímssonar að mínu mati. Þetta var áberandi áfellisdómur yfir sundrungunni sem einkenndi lokasprett valdaferils Halldórs innan ríkisstjórnar og Framsóknarflokksins. Það er einfalt mál. Hver svo sem framtíð Jóns verður er ég þess fullviss að honum séu allir vegir færir nú að loknu stjórnmálastarfi. Meginhluti ævi hans hefur verið á öðrum vettvangi og það fer gott orðspor af honum, enda maður sem hefur alltaf lagt sig allan fram og unnið vel.
Jón fórnaði sér fyrir flokkinn sinn, sem var aðdáunarvert góðverk af hans hálfu í þeirri vondu stöðu sem flokkurinn var í við afsögn Halldórs. Ég held að hans verði minnst sem heiðarlegs, trausts og vandaðs manns sem á örlagastundu spurði sig að því hvað hann gæti gert fyrir flokkinn sinn en verið fjarri því viss um hvað hann fengi í staðinn.
Slíkir menn hugsa ekki eigin hag heldur annarra og sýna af sér kraft og kjark í erfiðri stöðu. Ég held að Jóns verði fyrst og fremst minnst í stjórnmálum með þeim hætti.
![]() |
Jón Sigurðsson segir af sér formennsku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)