17.11.2008 | 21:35
Eygló kemst á þing í sætinu sem hún var ósátt við
Eygló varð í fjórða sætinu í prófkjöri framsóknarmanna í janúar 2007 á eftir Hjálmari Árnasyni, sem tapaði leiðtogaslag gegn Guðna Ágústssyni, en fékk ekki þriðja sætið þegar Hjálmar afþakkaði það og hætti þátttöku í stjórnmálum. Mikil átök voru um þriðja sætið, en Reykjanesmenn gerðu kröfu um að fá sætið eftir að Hjálmar afþakkaði það og svo fór að Helga Sigrún Harðardóttir fékk það þó hún hefði ekki tekið þátt í prófkjörinu.
Eygló fór mikinn þá og skrifaði eftirminnilega grein gegn spunaskrifum Björns Inga Hrafnssonar og Steingríms Ólafssonar um að hún ætti ekki að fá sæti Hjálmars. Greinin hét Karlaplott og þúfupólitík. Skemmtilegt að lesa hana nú í því ljósi að Eygló náði þingsætinu úr fjórða sætinu sem hún var svo ósátt við - nú þegar þeir fóstbræður Guðni og Bjarni hafa kvatt Alþingi.
En mikið er það nú annars skemmtileg tilviljun að þrír þingmanna Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi á þessu kjörtímabili eru Harðarbörn og annar varaþingmaðurinn núna heitir Lilja Hrund Harðardóttir. Er þetta nokkuð sami Hörður sem á þarna hlut að máli? :)
![]() |
Eygló tekur sæti á þingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.11.2008 | 19:14
Guðni fer af sviðinu og skellir hurðinni á eftir sér
Ég er eiginlega enn að átta mig á því að Guðni Ágústsson hafi hætt í pólitík í dag... og það án þess að kynna það sjálfur. Hann einfaldlega fór og skellti hurðinni hraustlega á eftir sér. Fer svo af landi brott í sólarlandaferð og leyfir okkur að fylla upp í eyðurnar í heildarmyndinni án þess að greina stöðuna sjálfur. Verð að segja alveg eins og er, eftir harkalega aðför að Guðna innan Framsóknarflokksins, að þetta er helvíti flott hjá honum - grand útganga.
Hann var einfaldlega búinn að fá nóg og lætur flokksfélögum sínum eftir að finna upphafið á því sem gerist á eftir endinum hjá sér sjálfum. Stóra afstaðan sem hann hefur tekið eftir miðstjórnarfundinn er mjög einföld. Hann leggur ekki í það verkefni að stöðva Evrópuför flokksins, sem var fyrirsjáanleg eftir samþykkt tillögunnar um aðildarstuðning á flokksþingi, en tekur ekki að sér að leiða hana heldur. Hann segir einfaldlega farvel flokkur.
Þeir sem ég þekki í Framsókn og þekkja líka Guðna Ágústsson sögðu mér að Guðni hefði verið reiður og vonsvikinn í senn eftir miðstjórnarfundinn. Hann var sleginn yfir gagnrýni að sér og forystunni og sleginn yfir Evrópustuðningnum, hann var meiri en hann vænti. Í sömu andrá hefði hann líka verið foxillur því menn sem hann stólaði á og taldi nána samstarfsmenn sína höfðu yfirgefið hann og pólitísku gildin sem hann hefur barist fyrir.
Niðurstaðan er því pólitísk leiðarlok, giska óvænt. Með afsögn setur hann pressu á Valgerði Sverrisdóttur. Sem starfandi formaður Framsóknarflokksins er sviðsljósið á henni, viðskiptaráðherra útrásartímanna. Hún þarf að gera upp við sig mun fyrr en hún stefndi að hvort formannsframboð sé í spilunum, enda er hún orðin formaður. Pressa fjölmiðla á henni mun líka örugglega aukast þar sem hún er minnisvarði um liðna tíð; Halldór og útrás.
Ég sé eftir Guðna. En þetta er rétt ákvörðun hjá honum og vel metið. Hann hafði fengið nóg, skellir hurðinni á eftir sér og skilur flokkinn eftir á krossgötum - krossgötum sem hann ætlar ekki að velta fyrir sér. Þá gátu skilur hann eftir hjá þeim sem hann taldi svíkja sig og stinga sig í bakið. Snilldarflétta úr mjög þröngri og erfiðri stöðu. Hann segir einfaldlega bless. Alþingi er litlausara á eftir, það er alveg klárt.
![]() |
Eygló næst á lista |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.11.2008 | 16:31
Munu Siv og Valgerður berjast um formennskuna?
Óvænt afsögn Guðna Ágústssonar af þingi og úr formennsku Framsóknarflokksins tryggir miklar breytingar í forystusveit Framsóknarflokksins. Óhætt er að fullyrða að Valgerður Sverrisdóttir, nýr formaður, muni ekki verða sjálfkjörin á næsta flokksþingi og búast má við harðvítugum deilum um forystuna. Mun forysta ríkisstjórnaráranna með Sjálfstæðisflokknum raða sér í forystusætin eða mun unga fólkið sækja fram og krefjast forystusæta. Ég yrði ekki hissa á því. Mér finnst líka Guðni kveðja með þeim orðum að nú sé framtíðin unga fólksins. Hann hvetur yngri fólkið semsagt til að sækja fram.
Næsta flokksþing Framsóknarflokksins verður örugglega þing sviptinganna. Ég yrði ekki hissa þó Siv Friðleifsdóttir, sem tapaði varaformannsslag fyrir Finni Ingólfssyni árið 1998 og formannsslag fyrir Jóni Sigurðssyni árið 2006 (fékk þá meiri stuðning en flestum óraði fyrir í baráttu við Halldórsarminn), færi fram gegn Valgerði. Vandi hennar er þó sá að hún var hluti af gömlu valdatíðinni en hefur mun minni þingreynslu en Valgerður. Hún gæti sótt fram sem frambjóðandi breytinga og minnt á að Halldórsarmurinn sparkaði henni úr stjórninni árið 2004 og hún hafi ekki verið í þeim hópi.
Sumir tala um að Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi og fyrrum varaþingmaður Sivjar, fari fram. En mun hann leggja til atlögu við Valgerði Sverrisdóttur, konuna sem hann var aðstoðarmaður hjá í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu? Hann fylgdi henni að málum allan útrásartímann. Hvað með Höskuld og Birki Jón? Munu þeir ekki minna á að þeir séu ungir og sprækir? Yrði ekki hissa á því. Er hægt að útiloka nokkurn af þingflokknum sem kandidat nema mögulega konurnar í Suðurkjördæmi sem hafa á innan við viku orðið þingmenn í stað varaþingmanna?
Sumir tala um nýja tíma. Verða nýjir tímar í Framsókn með viðskiptaráðherra útrásartímanna? Framsóknarmenn hljóta að spyrja sig að því hvort svarið í uppstokkuninni samhliða brotthvarfi Guðna sé að fela konu sem er framlengingarsnúra af formannstíð Halldórs Ásgrímssonar formennskuna og tækifærið til að leiða Framsókn í næstu kosningum.
Guðni sendir dulin skilaboð í afsögninni um að nú sé það unga fólksins að taka við. Hann talar þar beinlínis gegn Valgerði og hvetur menn til að sækja fram gegn henni.
![]() |
Afsögn Guðna kom á óvart |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.11.2008 | 15:25
Guðni Ágústsson segir af sér þingmennsku

Ég varð eiginlega alveg orðlaus þegar ég heyrði fyrir nokkrum mínútum að Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hefði sagt af sér þingmennsku. Sá líka á viðbrögðum í þingsal að þar voru þingmenn eiginlega orðlausir líka, enda eru þetta mikil tíðindi sem fylgja í kjölfar Evrópusviptinga innan Framsóknarflokksins og vendinga sem fylgdu afsögn Bjarna Harðarsonar fyrir tæpri viku. Mér finnst það eiginlega ótrúlegt til þess að hugsa að báðir þingmenn Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi hafi sagt af sér á innan við viku.
Erfitt að spá í stöðuna fyrr en Guðni hefur tjáð sig hreint út. En þetta eru merkileg tímamót fyrir framsóknarmenn, enda hefur Guðni verið á þingi í 21 ár og verið nær allan þann tíma mikið í sviðsljósinu og fulltrúi landbúnaðararmanna innan flokksins. Afsögn hans hlýtur að tákna þau þáttaskil sem eru í augsýn innan flokksins í Evrópumálunum.
Eitt er þó ljóst: Guðni hefur talið miðstjórnarfundinn um síðustu helgi fullt vantraust á sig og sína pólitík og gengur af velli. Þetta er söguleg afsögn en hún ber vitni þess að Guðni telur sér ekki lengur fært að vinna í pólitísku starfi í nafni Framsóknarflokksins. Miklar sviptingar svo sannarlega.
![]() |
Guðni segir af sér þingmennsku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.11.2008 | 09:21
Lekinn í stjórnkerfinu - ekki talað við þjóðina
Mér finnst það ábyrgðarhlutur að pólitísk forysta landsins talar ekki hreint út við þjóðina og segir henni staðreyndir mála. Mér finnst það verst við allt hið afleita sem gerst hefur að talað er enn við almenning eins og hann sé svo fávís að mega ekki heyra meira og fá á borðið staðreyndir mála. Þetta er algjörlega ólíðandi í þeirri stöðu sem blasir við þjóðinni og leiðir aðeins til þess að meira vantraust verður á pólitíska forystu landsins, forystu beggja stjórnarflokkanna sem standa að þessari yfirlýsingu.
Lekinn í stjórnkerfinu er orðinn áberandi og eflaust spyrja flestir sig að því hvaðan hann komi. Mér finnst nú mjög augljóst að lekinn komi frá Samfylkingunni, þar sem greinilega er stjórnarandstaða innan flokksins sem hefur verið augljós frá fyrsta degi og náð hefur hámarki í þessari alvarlegu stöðu. Mér finnst eiginlega ótrúlegt að hlusta á suma þingmenn Samfylkingarinnar tala eins og þeir beri enga ábyrgð í þessari alvarlegu stöðu. Sá flokkur eykur ekki tiltrú sína með þessu verklagi.
En kannski er það staðan að ríkisstjórnin sé eins og gatasigti og sé ekki treystandi sem samhentu afli fyrir stjórn landsins. Hvað sem því líður er ljóst að flest stefnir í þingkosningar með vorinu. Flesti undirbúa sig fyrir þær og kannski eru þær nauðsynleg skref til að gera mál upp almennilega. Mér finnst samt verst að þeir sem ráða för tala ekki hreint út við almenning með ábyrgri forystu. Lekinn og yfirbreiðslan yfir staðreyndir eru traust merki þess.
![]() |
DV birtir yfirlýsingu stjórnvalda til IMF |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |