Styrmir hættur - þáttaskil á Morgunblaðinu

Styrmir Gunnarsson Starfslok Styrmis Gunnarssonar á Morgunblaðinu marka viss þáttaskil í fjölmiðlasögu landsins, rétt eins og þau marka auðvitað þáttaskil fyrir Árvakur og Morgunblaðið. Í dag er 43 ár síðan að Styrmir hóf þar störf og hann hefur í 36 ár af þeim verið ritstjóri blaðsins. Hann hefur ekki mikið verið í sviðsljósinu en verið mjög áhrifamikill á bakvið tjöldin og skrif hans verið umdeild og áhrifarík.

Sennilega má segja um Styrmi að hann sé síðasti maðurinn í forystu íslensks fjölmiðils sem hafði víðtæk pólitísk áhrif með störfum sínum og sótti sér viss völd með skrifum sínum. Þó að eftirmaður hans, Ólafur Þ. Stephensen, hafi vissulega verið formaður Heimdallar og tekið þátt í pólitík fyrir Sjálfstæðisflokkinn eins og Styrmir eru tímarnir aðrir - fjölmiðlar eru ekki lengur þær sterku pólitísku stofnanir og varnarrit fyrir stjórnmálastefnu eins og áður var þegar að flokkarnir áttu blöðin og þau voru í miðjum ólgusjó stjórnmálabaráttunnar.

Morgunblaðið hefur breyst mjög á síðustu árum. Ekki er blaðið lengur eins tengt Sjálfstæðisflokknum og áður var. Sennilega rofnuðu þessi bönd að miklu leyti í formannstíð Davíðs Oddssonar, þó vissulega muni Morgunblaðið alla tíð verða tengt við Sjálfstæðisflokkinn með einum eða öðrum hætti. Á Mogganum hafa forystumenn Sjálfstæðisflokksins getað átt visst skjól og trúnaðarsamband ritstjóra Morgunblaðsins við formenn og forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa verið mjög mikil í áranna rás. Þetta er vissulega mjög merk saga, sem síðar verður rituð af krafti. En fjarri var að Mogginn einn væri pólitískt blað. Í þessa tíð voru blöðin einfaldlega pólitísk. Voru aðrir tímar en nú.

Einn formanna Sjálfstæðisflokksins, dr. Bjarni Benediktsson, var svo auðvitað ritstjóri blaðsins þau ár sem hann var ekki ráðherra. Nægir bara að lesa vandaðar og vel ritaðar dagbækur Matthíasar Johannessen, ritstjóra Morgunblaðsins í fjóra áratugi, til að sjá hversu sterk tengingin var, en þar er trúnaðarsambandi ritstjóranna við formennina Bjarna Ben og Geir Hallgrímsson vel lýst. Fyrsta verk Styrmis Gunnarssonar sem blaðamanns Morgunblaðsins á þessum degi fyrir 43 árum var reyndar að taka viðtal við Bjarna Ben. Ekki má svo heldur gleyma að um árabil sátu blaðamenn Moggans þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins.

Hef heyrt margar og skemmtilegar sögur Halldórs Blöndals, fyrrum ráðherra og forseta Alþingis, af því, en hann hóf að sitja þingflokksfundi árið 1961 sem þingfréttamaður og sat fundi þingflokksins meira og minna samfellt allt þangað til að hann hætti þingmennsku fyrir rúmu ári. Sat hann þingflokksfundi með öllum formönnum Sjálfstæðisflokksins nema Jóni Þorlákssyni. Fyrir margt löngu las ég gömul blöð af Mogganum frá fyrri tíð og þótti sérstaklega áhugavert að lesa blöð frá kjördegi, en þar var oft beinn kosningaáróður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Forsíðan frá kjördegi 1982 er eftirminnileg, en sennilega varð hún sú síðasta.

Styrmir hefur merka sögu að baki, bæði sem áhrifamaður í íslensku samfélagi og sem blaðamaður. Hann mun hafa frá mörgu að segja og verið lykilmaður í ólgusjó stjórnmála og fjölmiðla um árabil. Öruggt er að ævisaga hans mun verða merkilegt rit og væri reyndar mjög mikilvægt að hann ritaði sína sögu eða myndi fara yfir árin sín hjá Morgunblaðinu. Hversu umdeildur hann má teljast verður ekki deilt um sterkan sess hans. Með brotthvarfi hans breytist bæði Morgunblaðið og fjölmiðlalitrófið.

En með nýjum manni koma nýjir siðir og vinnubrögð. Eflaust er það öllum aðilum hollt, enda breytingar oft af hinu góða. Óska Ólafi Þ. Stephensen innilega til hamingju og færi Styrmi bestu kveðjur og þakkir fyrir allt hið góða sem hann hefur ritað um stjórnmál. Það hef ég lesið með miklum áhuga allt frá því að ég byrjaði að lesa Moggann. Nú eru breyttir tímar - vonandi munu þáttaskilin verða hinum aldargamla Mogga, sem við elskum öll hver á okkar hátt, heillarík.

mbl.is Ritstjóraskipti á Morgunblaðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband