Er hjónabandssæla stjórnarflokkanna að súrna?

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar Ekki fer á milli mála að mikill losarabragur er á samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hjónabandssælan virðist vera að súrna - þingmenn hlaupa út og suður, ráðherrar eru opinberlega ósammála um mál á borði ríkisstjórnarinnar og tjá sig án þess að hika um þá andstöðu og eru ekki feimnir við að berja í borðið þegar að þeim hentar.

Eflaust mátti eiga von á þessu. Stjórnin hefur mjög ríflegan meirihluta á Alþingi. Þar geta þingmenn tekið þeysireið á eigin vegum, kveikt á sviðsljómanum með óábyrgum skrifum og pólitísku tali og hype-að sig upp án þess að þurfa að velta mikið fyrir sér hverjir eftirmálarnir verði. Það er engin svipa á lofti, þetta er eins og heimili þar sem börnin ala sig upp sjálf og enginn agi er yfir. Kannski er þetta fyndið og skemmtilegt fyrsta slagið en það gæti farið að syrta í álinn er líður á tímabilið.

Að mörgu leyti minnir þessi ríkisstjórn mig á Viðeyjarstjórnina 1991-1995. Þar var sagt og gert allt sem þingmönnum og ráðherrum datt í hug. Þá var meirihlutinn reyndar mun naumari og er að lokum tímabilsins kom var stjórnin búin að missa fjögur varadekk og var í járnum. Mér fannst reyndar Viðeyjarstjórnin skemmtilegri og skoðanaágreiningurinn þá litríkari og kostulegri í raun og veru. Mér finnst þetta frekar daufgerð stjórn. Ýmislegt veldur því. Mér finnst fúttið ekki mikið og því verður skoðanaágreiningurinn sjálfsagðari og meira hlegið að honum, frekar en tekið mark á því.

Að því mun koma um síðir að þessi sólóleikur vissra þingmanna geti vegið að lífi þessarar ríkisstjórnar. Þar ræður mestu hversu traust samstarf formanna flokkanna verði og hvort þau geti miðlað málum. Þetta er öðruvísi stjórn en samstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í tólf ár hvað það varðar að ef vandamál komu upp var tekið á þeim og flokkarnir voru merkilega samstíga um mörg mál, þrátt fyrir átök, stundum harkaleg, en þó að mestu leyti bakvið tjöldin.

Geir og Ingibjörg eru í þeirri stöðu að vera í sambúð sem er á mörkum þess að vera hamingjusöm, kannski mun frekar hagsmunasambúð þar sem ytri ástæður ráða ástríðunni. Fróðlegt verður að sjá hvort ástríðan aukist er líður á tímabilið eða þau haldi út í fjögur ár með vandræðabörnin á heimilinu að hlaupa útundan sér. Ef hagsmunirnir að baki sambúðinni bresta getur enginn pólitískur hjónabandsráðgjafi fundið ástríðublossann fyrir þau.

mbl.is Harðari tónn í garð samstarfsflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband