31.1.2007 | 21:20
Þvílík niðurlæging fyrir Berlusconi

Veronica fór með þetta á hærra stig heldur betur og birti opið bréf til eiginmannsins, en ekki hvar sem er, heldur hvorki meira né minna í sjálfu La Repubblica, blaði pólitískra andstæðinga Berlusconis. Hann beygði sig undir þau hörðu örlög og að maður minnist ekki á algjöra niðurlægingu og baðst opinberlega afsökunar á framkomu sinni við eiginkonuna. Mikið drama í gangi þarna heldur betur.
Hjónaband Veronicu og Silvio Berlusconi hefur alla tíð þótt sérstakt. Hún er seinni kona Berlusconis, tveim áratugum yngri en hann, á með honum þrjú börn. Hún hefur alla tíð forðast kastljós fjölmiðlanna og sárasjaldan komið fram opinberlega með forsætisráðherranum fyrrverandi á vettvangi stjórnmálanna, en hann var forsætisráðherra Ítalíu, lengst allra ítalskra stjórnmálamanna eftir seinna stríð, í heil fimm ár, á árunum 2001-2006. Hún hefur ekki viljað veita viðtöl eða verið áberandi í opinberum ferðum Berlusconis.
Þetta er kostulegt fjölmiðlastríð hjónanna, svolítið kaldhæðnislegt vissulega. En það þarf ekki að segja lengur að Veronica Berlusconi sé feimin við kastljós fjölmiðla allavega.
![]() |
Berlusconi biður konu sína auðmjúklega fyrirgefningar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.1.2007 | 20:17
Brilljant hugmyndir og líflegar pælingar
Í gærkvöldi fór ég á áhugaverðan fund stjórnar Akureyrarstofu í Ketilhúsinu, þar sem kynnt var stefna og markmið hennar. Stofnun Akureyrarstofu hefur verið í undirbúningi síðustu mánuði og er á lokaspretti. Fyrst og fremst verður Akureyrarstofa markaðs-, menningar- og ferðamálaskrifstofa Akureyrarbæjar og mun aðallega einbeita sér að Akureyri en verða vissulega jafnframt þátttakandi í samvinnuverkefnum í nágrenninu og annars staðar.
Fundurinn hófst lóðbeint eftir leik Íslendinga og Dana og var visst spennufall í hópnum sem var samankominn, en þetta var fjölmennur og fínn fundur. Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður stjórnar Akureyrarstofu, stjórnaði fundi og stýrði umræðum um Akureyrarstofu í lok fundarins. Í upphafi flutti Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri og fyrsti formaður Akureyrarstofu og fyrrum formaður menningarmálanefndar, sem lögð var niður með stofnun Akureyrarstofu, grunnhugmyndir meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um það hvernig vinna skuli að verkefninu.
Eftir erindi Sigrúnar Bjarkar bæjarstjóra kynnti Þórgnýr Dýrfjörð Akureyrarstofu svo formlega af hálfu starfsmanna hennar. Hólmkell Hreinsson, amtsbókavörður, grunnhugmyndir og pælingar um það sem almennt gengur alþjóðlega undir heitinu "Slow city" eða "Cittaslow" en sú hugmynd hefur skotið upp kollinum að Akureyri skapi sér sérstöðu með markaðssetningu undir þeim hatti. Voru hugmyndir Hólmkels líflega fluttar og margir góðir punktar og pælingar í því. Hann allavega seldi mér hugmyndina gjörsamlega.
Ég varð skotinn í þessum pælingum alveg upp fyrir haus og vil hiklaust að bæjaryfirvöld feti þessa slóð, enda fannst mér lýsingarnar á rólegheitabænum sem Slow City segir frá passa nánast algjörlega við gömlu góðu Akureyri. Gárungarnir fóru reyndar hiklaust að kalla þetta Latabæ, eftir frægu konsepti Magnúsar Scheving, á fundinum að kalla þetta Latabæ en það mun nú ekki festast við svo glatt tel ég. Það var þó allavega mikið hlegið af þessu og léttur andi var yfir ræðu Hólmkels.
Eftir kaffihlé þar sem tími gafst til líflegs og góðs spjalls um pólitík og boltann hófust svo umræður um Akureyrarstofu og þær hugmyndir sem voru í deiglunni á fundinum. Þetta var lifandi og góður fundur. Þarna komu fram margar hugmyndir og líflegar pælingar sem safnast í sarpinn. Er ánægður allavega og tel þetta vel heppnað, þó vissar efasemdir hafi verið í huga mér um Akureyrarstofu í grunnhugmyndum. En það hefur verið skerpt á hlutverki hennar og þetta verður velheppnað.
Mér hefur alltaf þótt vænt um Akureyri og viljað veg þessa sveitarfélags sem mestan. Ég er þess fullviss að Akureyrarstofa muni hlúa að þeim þáttum vel sem henni er ætlað og hún mun marka góðan grunn í menningar- og markaðsmálum hér í sveitarfélaginu. Það er allavega góð samstaða allra íbúa hér um þessar áherslur ef marka má fundinn.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.1.2007 | 15:45
Stjórnarandstaðan kvartar yfir HM-ferðum ráðherra
Vart telst undarlegt að Þorgerður Katrín fari, bæði er hún gift einum af okkar eftirminnilegustu handboltagörpum og ráðherra íþróttamála. Það er greinilegt að stjórnarandstaðan er ekki eins hress yfir HM-ferðum ráðherranna og þeir sjálfir. Í upphafi þingfundar í dag kvartaði Mörður Árnason yfir töfum á störfum þingsins og vék að því hvort það væri vegna fjarveru fjölda ráðherra til að fara á leiki landsliðsins í Þýskalandi.
Virtist hann sérstaklega kvarta yfir ferðum ráðherra Framsóknarflokksins sem fyrr eru nefndir, enda getur hann varla kvartað yfir að menntamálaráðherra fari út til að styrkja liðið á þessu stórmóti, veita þann stuðning sem mikilvægt er. Stjórnarandstaðan hefur verið mjög seinheppin á þessu þingmisseri. Málþófið um RÚV varð svona eins og algjör kjánaskapur sem hún guggnaði á. Það er merkilegt að gera þetta að umræðuefni.
En vissulega var hálf kómískt að sjá ráðherra Framsóknarflokksins þarna úti. Merkilegt að sjá - ekki virðist stjórnarandstöðunni vera skemmt í þingsalnum í steingráa húsinu við Austurvöll.
31.1.2007 | 14:44
Gríðarlegt spennufall eftir Danaleikinn

En nú taka næstu verkefni við. Vonandi er liðið til í þau átök. Það vill oft vera að spennufallið eftir svona leik sé lamandi og vindurinn sé í raun úr fólki. Vonandi á það ekki við um liðið. En það er auðvitað öllum ljóst að árangurinn er vel viðunandi á mótinu. Getum verið stolt.
En auðvitað hefði verið betra að fara lengra.... það er alltaf sárt að tapa með svo naumum mun, enda vorum við hársbreidd frá undanúrslitunum.
![]() |
HM: Íslenskt hugvit á bak við sigurmark Dana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.1.2007 | 14:23
Sidney Sheldon látinn

Persónulega hefur mér alltaf þótt kvikmyndahandrit hans að The Bachelor and the Bobby Soxer standa upp úr. Hann hlaut óskarsverðlaunin fyrir sex áratugum fyrir handritið að myndinni, sem er alveg stórfengleg og í raun grunnur myndarinnar, sem enn í dag er algjör klassamoli.
Það eru nokkrar vikur síðan að ég sá myndina síðast, en ég hef átt hana í nokkurn tíma. Það var að mig minnir fyrsta stórverk Sheldons og í raun það sem festi hann í sessi í bransanum. Þar fara Cary Grant, Shirley Temple og Myrna Loy á kostum. Witty handrit, eðalleikur og klassamynd.
Það er of langt mál að rekja feril Sheldons en hann seldi bækur í mörghundruð milljón eintökum svo að hann hefur sterkan sess á sínu sviði og hefur notið hylli um allan heim. Ég hef ekki kynnt mér öll verk hans, sennilega teljir margir sjónvarpsmyndir hans bestar, en kvikmyndahandritið hans að TBB er hreinn eðall.
Sú mynd er klassísk og þar spilar handritið inn í, sterkt handrit með öflugum talsenum og myndin er löngu klassísk.
![]() |
Sidney Sheldon látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.1.2007 | 01:59
Háspenna í Hamborg - naumt tap fyrir Dönum

Þó að við getum svosem varla verið tilfinnanlega sár með að vera í topp átta hópi á svona öflugu móti er varla annað hægt en að vera fullur svekkelsis eftir leikinn, svekkelsið nagar okkur öll inn að beini. Þetta var svo tæpt allt að sorglegt má teljast. Annars getum við verið grobbin ofan í táberg af þessu liði. Það kom okkur lengra en væntingar margra stóðu til. Okkur tókst að sigra Frakkana og eiga ótrúlegar stundir. Það að landa sæti í fjórðungsúrslitum var meira en margir töldu gerlegt.
Við getum verið stolt af liðinu, andanum í því og öllum þáttum sem prýða það. Það tókst líka að mynda svakalega flotta stemmningu hér heima, þá mestu sem hefur vafist utan um landsliðið okkar í árafjöld, sennilega þá mestu síðan að Þorbjörn Jensson var landsliðsþjálfari og tókst að byggja liðið upp til ágæts árangurs á mótinu í Egyptalandi árið 1997 eftir fallið mikla á HM hérna heima. Botntilfinning okkar hefur aldrei farið neðar en þá enda vorum við rasskelltir hér á heimavelli í Laugardalshöll. Eins sorglegt og það var getum við ekki lýst stöðunni núna öðruvísi en sem vissum sigri þó það sé helv..... vont að hafa ekki náð meiru.
En svona er þetta... sigur í gær... tap í dag. Það eru ekki alltaf jólin, eins og sagt er. En nú eigum við að reyna að gera okkar besta í því sem eftir er og reyna að landa því allra besta sem eftir er í stöðunni. Vonandi tekst það. Þetta er ekki alvont vissulega... en sorglega nærri því. En fyrst og fremst eru grunnskilaboð mótsins þau að liðið komst þó þetta og við getum verið stolt af því. Við erum með gott lið og fínan efnivið í höndunum. Nú er bara að byggja á því.
En auðvitað var þetta sorglega tæpt og vonbrigðin voru gígantísk í leikslok að ná ekki þeirri agnarögn sem vantaði upp á sigur. En svona er þetta. En ég segi bara eins og Spaugstofan í denn.... það gengur bara betur næst! :)
![]() |
Draumurinn úti í Hamborg - Danir sigruðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.1.2007 | 20:35
Pólitískur refur smjaðrar fyrir tölvumógúl
Það er alltaf jafn kostulegt að fylgjast með forseta Íslands smjaðra fyrir viðskiptajöfrum og öðru celeb-inu á erlendri grundu. Það var ógleymanlegt sérstaklega fyrir íslenska vinstrimenn sennilega þegar að forsetahjónin sátu kertaljósakvöldverð með Bush-hjónunum síðasta sumar. Nú var forsetinn að hitta tölvumógúlinn Bill Gates með Dorrit á einhverri leiðtogaráðstefnu í Edinborg.
Er hálf merkilegt að sjá þetta daður þeirra við ríka fólkið. Það þarf varla að segja eins og er að Gates er misjafnlega vel þokkaður í tölvuheimum og bissness-tilverunni. Eftir því sem segir í fréttinni hefur Gates verið boðið til Íslands. Fróðlegt verður að sjá það. Vinstrimönnum hlýtur að finnast þetta daður fyrrum flokksleiðtoga stæks vinstriflokks við auðjöfra heimsins kostulegt.
Kannski mun Gates halda fyrirlestur í Reykjavík um það hversu góð íslenska Windows 98-útgáfan var?
![]() |
Bill Gates tók vel í boð um að koma til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
30.1.2007 | 19:31
Napur endasprettur hjá Tony Blair
Það líður að lokum stjórnmálaferils Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sem hefur verið við völd í Downingstræti 10 í áratug, en hefur boðað brottför sína þaðan fyrir sumarlok. Það er greinilegt að hinn umdeildi "Cash-for-honours"-skandall mun elta hann uppi lokamisseri valdaferilsins. Í dag var Levy lávarður, náinn pólitískur samherji Tony Blair, handtekinn öðru sinni vegna málsins og alls hafa fjórir verið handteknir vegna rannsóknarinnar.
Um fátt hefur verið meira talað í breskum stjórnmálum undanfarið árið en að Verkamannaflokkurinn hafi þegið 14 milljóna punda lán frá auðmönnum fyrir þingkosningarnar árið 2005. Fullyrt var að þessir sömu auðmenn hefðu með þessu verið að kaupa sig inn í góð sæti í lávarðadeild breska þingsins og umtalsverð áhrif með því. Umræðan fór af stað á vondum tíma fyrir Verkamannaflokkinn í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga í maí í fyrra og hefur skaðað Blair og nánustu samherja hans mjög.
Í nýjustu könnun Telegraph sem birt var á sunnudag segjast aðeins 26% landsmanna bera traust til forsætisráðherrans nú á þessari stundu. Hefur hann sjaldan eða aldrei verið óvinsælli á stjórnmálaferli sínum. Hann hefur leitt Verkamannaflokkinn í 13 ár, eða síðan í júli 1994 og verið forsætisráðherra síðan 2. maí 1997, eða í áratug í vor. Er hann fyrir nokkru orðinn sá leiðtogi Verkamannaflokksins sem lengst hefur ríkt í Downingstræti 10. Í september varð hann vegna þrýstings innan flokksins að tilkynna að hann léti af völdum innan árs.
Rúm 70% landsmanna telja ríkisstjórn Tony Blair og Verkamannaflokksins nú vera jafnspillta eða misheppnaðri en ríkisstjórn John Major á tíunda áratugnum, þar sem hvert hneykslismálið reið yfir og hún missti flugið með eftirminnilegum hætti. Skv. nýjustu skoðanakönnun Telegraph hefur Íhaldsflokkurinn nú sjö prósentustiga forskot á Verkamannaflokkinn. Staða hans virðist mjög slæm við lok valdaferils Blairs. Þetta hneykslismál vofir nú yfir forsætisráðherranum eins og mara. Tilkynning hans og Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands, um héraðskosningar á N-Írlandi í mars á blaðamannafundi þeirra síðdegis í Downingstræti féll gjörsamlega í skugga fregna um handtöku Levys.
Það stefnir í napran endasprett fyrir forsætisráðherrann og nánustu samverkamenn hans nú örfáum vikum fyrir tíu ára valdaafmæli Verkamannaflokksins. Það er öllum ljóst að verði nánustu samverkamenn og pólitískir félagar forsætisráðherrans ákærðir með formlegum hætti vegna þessa máls gæti það flýtt pólitískum endalokum Blairs sem virðist ekki munu yfirgefa embættið með þeim eftirminnilega hætti sem spunameistarar hans höfðu stefnt að síðustu árin.
![]() |
Náinn vinur og ráðgjafi Blairs handtekinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2007 | 17:35
Geir telur samstarf með frjálslyndum óraunhæft

Hik virðist vera komið á flokksmenn stærri flokka stjórnarandstöðunnar í garð Frjálslynda flokksins eftir atburði síðustu dagana. Flestum má ljóst vera að erfitt verður að mynda ríkisstjórn með Frjálslynda flokknum ef þetta mál á að vera afgerandi. Segja má því að flokkurinn hafi einangrast mjög í pólitísku stöðunni síðustu dagana. Flestir virðast nú gera ráð fyrir að þó flokkurinn fái eitthvað fylgi muni menn sjá sér hag í að koma í veg fyrir aðild hans að ríkisstjórn.
Það stefnir reyndar í mikið rót í væntanlegri kosningabaráttu. Fjöldi nýrra framboða eru í deiglunni og öllum ljóst að pólitíska staðan sé með þeim opnari í áraraðir. Persónulega finnst mér staðan mun opnari nú en lengi áður og andi róts og uppstokkunar er í loftinu, ekki ósvipað og gerðist árið 1987 með framboði Borgaraflokksins. Enda er nú þessa dagana talað jafnvel um pólitíska endurkomu Jóns Baldvins Hannibalssonar og jafnvel samstarf hans með Ómari Ragnarssyni og Margréti Sverrisdóttur.
Yfirlýsing formanns Sjálfstæðisflokksins um að Frjálslyndir séu ekki ákjósanlegur samstarfskostur fyrir flokkinn að óbreyttri stöðu eru merkileg tíðindi og skerpa línur enn frekar. En það verður pólitískur hiti næstu vikur og mánuði og stefnir í sögulegar kosningar, svo vægt sé til orða tekið.
30.1.2007 | 16:01
Varaþingmaðurinn sem fór frá Frjálslyndum
Eins og ég benti á í gærkvöldi eru þrír kjördæmaleiðtogar Frjálslynda flokksins í alþingiskosningunum 2003 ekki lengur í flokknum; Margrét Sverrisdóttir, Gunnar Örn Örlygsson og Sigurður Ingi Jónsson. Auk þess hefur varaþingmaðurinn Sigurlín Margrét Sigurðardóttir farið úr flokknum og Guðmundur Örn Jónsson, sem var næstur Sigurlínu á F-listanum í Kraganum er líka farinn úr flokknum. Eflaust eru þeir fleiri en þessir. Við öllum blasir allavega að mikil uppstokkun hefur orðið innan Frjálslynda flokknum. Sérstaklega vont fyrir flokkinn er að missa borgarmálaaflið í borgarstjórn.
Steinunn Kristín Pétursdóttir skipaði þriðja sæti frjálslyndra í Norðvesturkjördæmi síðast og var mjög áberandi í kosningabaráttu flokksins, var t.d. í umræðuþáttum og skrifaði greinar og vann ötullega. Hún tók nokkrum sinnum sæti á þingi á kjörtímabilinu og var virk í störfum í nafni flokksins. Það er merkilegt að hún hafi yfirgefið flokkinn. Lesandinn benti mér á að stór ástæða þessa hafi verið að henni hafi ekki verið valinn sess á lista flokksins á Akranesi, heimabæ sínum, og ekki heldur í nefndum eftir að flokkurinn fór þar í meirihlutasamstarf með Sjálfstæðisflokknum.
Steinunn Kristín mun hafa sagt sig úr flokknum í júníbyrjun 2006 með bréfi til miðstjórnar flokksins, svo það er nokkuð um liðið. En þetta hefur lítið verið í fréttum, altént mun minna rætt en brotthvarf kjördæmaleiðtoganna fyrrnefndra og varaþingmannsins í Kraganum. En þetta er athyglisvert engu að síður.
30.1.2007 | 14:53
Hefur verið byggt of mikið á Akureyri?

Eins og sagt hefur verið frá víða í fréttum að undanförnu hefur að undanförnu verið mikið fall í sölu fasteigna á Akureyri, eiginlega sögulega lítil sé litið á síðustu tíu árin eða lengur. Er það greinileg skoðun Mugga að of mikið hafi verið byggt á meðan að fasteignasalar telja skiljanlega, miðað við stöðu sína, að ástæðan sé að hægt hafi á fjölgun bæjarbúa. Er sjónarhorn Félags byggingarmanna mjög merkilegt að mínu mati og tek ég undir þær skýringar að of mikið hafi verið byggt en eftirspurn var fyrir.
Sjálfur hef ég heyrt af fólki sem þarf að leigja fyrri fasteign til að geta komið sér inn í þá sem nýrri er. Gott dæmi um þetta er eldra fólk sem hefur keypt sér íbúð í fjölbýli en getur illa losnað við fyrri fasteign, sem almennt er einbýlishús af stærri sortinni. Það sé neyðarúrræði í raun að leigja húsið til að komast áfram. Þetta er vont neyðarbrauð fyrir t.d. gamalt fólk. Svo má í raun benda á hvort að lítið framboð af einbýlishúsalóðum hér í bænum sé hluti af stöðu mála, en t.d. hafa hús sprottið upp með miklum hraða fram í firði og í Vaðlaheiðinni.
Staða mála á fasteignamarkaði hér nú er nokkuð ný af nálinni og þar standa nú eftir spurningar sem verður að svara. Velta má fyrir sér hvort að bærinn hefði mátt bregðast betur við þessari nýju stöðu sem upp er komin. Í raun er þetta mál sem um verður rætt hér. Staða mála eins og hún er núna skilur eftir fjölda spurninga, enda erum við að vakna upp hér við nýja og umhugsunarverða þróun að mínu mati.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.1.2007 | 12:52
Draumórar Guðjóns - framtíð klofins flokks

Öllum er ljóst að borgarstjórnarflokkurinn fer úr Frjálslynda flokknum. Eftir borgarstjórnarkosningarnar 2002 var Ólafur F. Magnússon óháður borgarfulltrúi en Margrét Sverrisdóttir var að segja má eina alvöru tenging forystu framboðsins við Frjálslynda flokkinn og svo var í heil þrjú ár. Ólafur F. Magnússon gekk enda ekki í flokkinn fyrr en á landsþingi árið 2005, sem var átakaþing rétt eins og um síðustu helgi, þar sem kosið var á milli Gunnars Örlygssonar og Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um varaformennsku. Það þarf ekki mjög fróðan stjórnmálaskýranda til að sjá að Ólafur fer með Margréti.
Enn er talað mikið um að Kristinn H. Gunnarsson, fyrrum þingflokksformaður Framsóknarflokksins, feti í fótspor Valdimars Leós Friðrikssonar, kjörins þingmanns Samfylkingarinnar, og leiti á náðir forystu Frjálslynda flokksins. Það stefnir allt í að Kristinn H. leiði lista hjá Frjálslyndum rétt eins og Valdimar Leó. Öllum er ljóst eftir úrsögn Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur úr flokknum að Valdimar Leó mun leiða Suðvesturkjördæmi af hálfu flokksins og væntanlega verður Kristinn H. leiðtogi flokksins í öðru borgarkjördæmanna eða í Norðvesturkjördæmi fari formaðurinn á mölina, eins og sagt er.
Það er mjög undarlegt fyrir pólitíska áhugamenn að sjá flokksformann reyna að neita því að flokkurinn hans sé klofinn þegar að forystufólk þar og áhrifamenn í áraraðir ganga á dyr. Sérstaklega er fróðlegt að heyra í formanninum um mögulega komu kjörins þingmanns Framsóknarflokksins. Hann segir ekki óeðlilegt að fólk úr öðrum flokkum gangi til liðs við Frjálslynda flokkinn. Í þessu ljósi er rétt að benda á að fyrir tveim árum þótti sama flokksformanni mjög óeðlilegt að Gunnar Örlygsson, kjörinn alþingismaður flokksins, gengi úr honum og til liðs við annan flokk.
Nú tekur hann við tveim þingmönnum annarra flokka með umboð úr þeirri áttinni. Sá er þó munurinn á Kristni og Valdimari að sá fyrrnefndi er kjörinn þingmaður úr alþingiskosningum eins og Gunnar. Valdimar Leó kom á þing fyrir einu og hálfu ári þegar að Guðmundur Árni Stefánsson varð sendiherra. Þannig að þetta er athyglisverð stefnubreyting hjá Guðjóni Arnari sem safnar nú þingmönnum sem vilja annan séns. Það verður reyndar fróðlegt að sjá hvort að Kristinn H. skrifi upp á innflytjendastefnu Frjálslynda flokksins og ummæli formannsins um sömu mál.
Framtíð klofinna stjórnmálaflokka geta verið merkileg. Stundum floppast þeir og stundum eiga þeir sér líf þrátt fyrir mikinn klofning. Við höfum séð marga flokka klofna og getað lifað á eigin forsendum. Það verður fróðlegt hvernig að sagan mun dæma Frjálslynda flokkinn, einkum og sér í lagi fyrir þessar kosningar þar sem hann ætlar sér að sigla til hafnar á rasísku grunnþema sem gerir hann væntanlega holdsveikan til samstarfs að margra mati.
Ætla annars Samfylkingin og VG að upphefja þennan flokk og stefnu hans?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.1.2007 | 11:39
Spennandi leikur í dag - kostuleg einkunnagjöf
Hugur þjóðarinnar á þessum þriðjudegi er hjá íslenska landsliðinu í Hamborg. Í kvöld mætir liðið Dönum í leik um sæti í undanúrslitum HM í Þýskalandi. Búast má við spennandi leik og áhugaverðum. Christian Fitzek segir að við séum með lakasta liðið en það skemmtilegasta. Kostuleg einkunnagjöf - það vonandi tekst að sýna honum að við höfum möguleika til að fara lengra.
Dagsskipunin úti hjá okkar mönnum hlýtur að vera sigur og ekkert annað. Við getum alveg unnið Danina fyrst að við unnum Frakkana. Annars sýnist mér Fitzek spá Króötum heimsmeistaratitlinum í slag við Pólverjana. Má vel vera að það verði úrslitaleikurinn en ég held að við getum unnið leikinn í dag og fari það svo erum við komnir í mjög góða stöðu.
Það má segja að þetta lið sé komið mun lengra en mörgum hafði órað fyrir að það myndi gera. Það hefur ekkert annað en komið á óvart, bæði fólki hér heima og ekki síður handboltaáhugamönnum annarra þjóða. Svo að það er margt hægt í dag og vonandi tekst að sýna að þetta lið er ekki það slakasta af þeim sem enn eru í pottinum.
![]() |
Íslendingar með lakasta en skemmtilegasta liðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.1.2007 | 00:05
Þrír kjördæmaleiðtogar Frjálslyndra farnir burt
Með ákvörðun Margrétar Sverrisdóttur um að ganga úr Frjálslynda flokknum gerast þau merku tíðindi að þriðji kjördæmaleiðtogi flokksins í alþingiskosningunum 2003 er genginn á dyr og farinn í aðrar áttir. Varaþingmaður flokksins í Suðvesturkjördæmi hefur ennfremur nú gengið úr flokknum. Jafnframt má búast við að stofnandi flokksins, Sverrir Hermannsson, fyrrum bankastjóri og ráðherra, sem kom flokknum á legg eftir afsögn sína úr Landsbankanum í apríl 1998 horfi í aðrar áttir.
Það er vissulega mjög athyglisvert hversu mjög hefur kvarnast af virku trúnaðarfólki í þessum flokki á kjörtímabilinu. Snemma árs 2004 gekk Sigurður Ingi Jónsson, sem leiddi lista frjálslyndra í Reykjavík norður, úr flokknum vegna ósamkomulags við Magnús Þór Hafsteinsson. Skömmu áður hafði Magnús Þór látið t.d. falla ummæli á málefnin.com um að sprengja undirritaðan, Halldór Blöndal og Björn Bjarnason "til helvítis" svo frægt varð. Þá hvessti í flokknum og bar fyrst í raun á ósamkomulagi Magnúsar Þórs við trúnaðarmenn í flokknum.
Vorið 2005 gaf Gunnar Örn Örlygsson, sem leiddi lista frjálslyndra í Suðvesturkjördæmi, kost á sér til varaformennsku í flokknum gegn Magnúsi Þór. Hann tapaði kosningunni. Skömmu síðar gekk hann til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Frjálslyndir voru mjög ósáttir við það og vændi forysta flokksins hann um svik og að flokkurinn ætti sætið. Nú undir lok kjörtímabilsins hefur vakið mikla athygli að sami flokkur og hneykslaðist yfir vistaskiptum Gunnars hefur tekið við þingmanni sem flúði úr Samfylkingunni og gert hann nú að sínum.
Nú hefur Margrét Sverrisdóttir gengið úr flokknum. Sigurlín Margrét, varaþingmaður Gunnars Arnar, hefur fetað sömu slóð og væntanlega mun Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans, gera slíkt hið sama. Merkileg ólga innan eins flokks á ekki lengri tíma. Það að þrír kjördæmaleiðtogar flokks í kosningum fyrir innan við fjórum árum hafi gengið á dyr segir allt um forystu flokksins.
Það gleður mig að Margrét Sverrisdóttir og stuðningsmenn hennar sjá nú með afgerandi hætti hvern mann Magnús Þór Hafsteinsson hefur að geyma og hversu súrt pólitískt veganesti hans er. Þessu ber að fagna, lesendur góðir!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.1.2007 | 21:17
Skiljanleg ákvörðun Margrétar Sverrisdóttur
Ákvörðun Margrétar Sverrisdóttur um að ganga úr Frjálslynda flokknum er mjög skiljanleg. Landsþing flokksins um liðna helgi var eins og algjör sirkus og honum til skammar. Það sást strax um helgina að aldrei hefði verið mögulegt að sætta fylkingar þarna. Það hefur verið greinilegt mat Margrétar og hennar fólks að ómögulegt væri að vinna með forystu flokksins - allt traust og heilsteypt samstarf var farið þar í súginn.
Það er greinilegt að Frjálslyndi flokkurinn er ekki lengur farsæll kostur fyrir stærri stjórnarandstöðuflokkana. Í kvöld talaði Stefán Jón Hafstein í Kastljósi með þeim hætti að kaffibandalagið væri feigt og vildi ekkert af "frjálslyndum" vita. Í Íslandi í bítið í morgun talaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir með þeim hætti að illa hefði verið komið fram við Margréti og greinilegt á orðum hennar að samstarf við frjálslynda hugnaðist henni ekki vel. Það virðist því vera sem að samstaða stjórnarandstöðuflokkanna sé að bresta á innflytjendamálunum sem vissulega var fyrirsjáanlegt myndi ásýnd frjálslyndra harðna með brotthvarfi Margrétar.
Ég skil Margréti vel að vilja allt annað en vinna með forystu sem hefur niðurlægt hana og komið illa fram við hana. Enginn myndi vilja þurfa að bíta í súra eplið oftar en góðu hófi gegndi. Það var enginn annar valkostur fyrir hana en ganga þarna út. Það að Margrét horfi nú í aðrar áttir hefur talsverð áhrif á væntanlega kosningabaráttu og augljóst að stefnir í talsverð tíðindi. Enda segist hún ekki vera hætt í pólitík.
Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist innan "Frjálslynda flokksins" án Sverrisarmsins þar sem rasísk sjónarmið virðast nú allsráðandi og flokkurinn orðinn holdsveikur í stjórnarmyndunarviðræðum og bandalagsmyndunum fyrir og eftir alþingiskosningar og ekki síður hjá Margréti Sverrisdóttur sem skiljanlega hefur fengið nóg af samstarfsmönnum í gamla flokknum.
![]() |
Margrét telur sér ekki fært að starfa lengur í Frjálslynda flokknum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2007 | 20:39
Margrét gengur úr Frjálslynda flokknum
Margrét Sverrisdóttir hefur sent út fréttatilkynningu þar sem hún greinir frá ákvörðun sinni um að ganga úr Frjálslynda flokknum. Eins og ég sagði frá síðdegis í dag hafði hún tekið þessa ákvörðun fyrir fund með stuðningsmönnum síðdegis og hann breytti engu um stöðu mála. Búast má við að kjarni hennar í flokknum fylgi henni og munar þar mestu um allan borgarstjórnarflokk Frjálslynda flokksins.
Klofningur þessa smáflokks er því staðreynd. Það verður fróðlegt að sjá hvað Margrét gerir í framhaldi þessa nú þegar að hún yfirgefur þann flokk sem hún hefur unnið fyrir í áratug, sem framkvæmdastjóri þingflokksins og flokksheildarinnar allrar, ritari flokksins til fjölda ára og forystumaður í innra starfinu alla tíð. Það má allavega fullyrða að ásýnd flokksins verði harðari án hennar innanborðs.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2007 | 19:46
Spennandi leikur á morgun
Það stefnir í spennandi leik á morgun - leik um sæti í undanúrslitum á HM í handbolta í Þýskalandi. Nú eru það Danirnir. Það er ekkert útilokað í þessum leik og við eigum góða möguleika á að ná sigri, sem myndi færa okkur góða stöðu. Það yrði mjög öflugt næðum við sigri, enda bjuggust ekki allir landsmenn við svona góðum árangri hjá liðinu.
Danir vita að liðið okkar er til alls líklegt eins og staða mála sýnir okkur í gegnum mótið allt. Því er þetta mat danska handboltasérfræðingsins mjög gott og raunsætt vissulega. En leikurinn verður væntanlega mikið dúndur og greinilegt að bæði lið ætla að selja sig dýrt.
Við hér heima vonum það besta og auðvitað spáum við liðinu okkar sigri, enda er sigur eðlilegt markmið í stöðunni. Íslenska liðið hefur náð góðri stöðu á mótinu og meira hægt en komið er.
![]() |
HM: Fyrrum Framarinn Per Skaarup hrósar íslenska liðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2007 | 16:17
Margrét yfirgefur Frjálslynda flokkinn

Mikið hefur verið talað um það síðustu dagana hvort að Margrét fylki liði með Ómari Ragnarssyni og hægri grænum með Framtíðarlandinu - til sögunnar komi ný pólitísk hreyfing í umhverfismálum. Það blasir við að eitthvað slíkt er í burðarliðnum. Ennfremur hefur verið ljóst að tekin hafa verið frá sæti fyrir Margréti á listum vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Til dæmis hafa listar VG í borginni og Norðvesturkjördæmi ekki enn verið frágengnir og listar Samfylkingarinnar í Reykjavikurkjördæmunum sömuleiðis. Talið er þó ólíklegt að hún fylki liði með þeim.
Búast má við kraftmiklum fundi í herráði Margrétar Sverrisdóttur síðdegis. Hún hefur tekið ákvörðun og öllum ljóst að það er stór ákvörðun. Það verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif ákvörðun Margrétar mun hafa á kaffibandalagið, sem í raun virðist dauðadæmt endanlega eftir áhersluskerpu Frjálslyndra og formanns þeirra í innflytjendamálum á landsþingi flokksins.
Það verður ekki lognmolla í stjórnmálum á næstunni. Búast má við að pólitísk vistaskipti Margrétar Sverrisdóttur og stuðningsmanna hennar kalli á mikla umræðu og pólitískar pælingar um það sem koma skal hjá því afli, en fari Margrét mun F-listinn í borgarstjórn ekki hafa neina tengingu við Frjálslynda flokkinn. Það eru því tíðindi framundan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.1.2007 | 15:10
100.000 gestir á bloggvefnum
Fyrir stundu kom 100.000 gesturinn hingað á bloggvefinn minn. Þetta eru vissulega nokkuð ánægjuleg og góð tímamót fyrir mig og vefinn, sem verið hefur hér á Moggablogginu í rúma fjóra mánuði. Ég byrjaði að skrifa hér þann 18. september sl. og hef haft mjög gaman af þessu. Það hefur allavega verið um nóg að skrifa þessa mánuði hérna.
Ég vil þakka ykkur sem hingað lítið kærlega fyrir að líta í heimsókn á vefinn þennan tíma og þakka fyrir góð samskipti og pælingar um málin. Það eru spennandi mánuðir framundan í pólitískum pælingum og nóg sem um verður að skrifa. Það verður því engin lognmolla á næstunni.
En enn og aftur kærar þakkir fyrir að lesa vefinn!
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.1.2007 | 13:03
Valgerður snuprar Ólaf Ragnar

Mér fannst það eðlilegt að svo væri gert, en þetta er vissulega mjög merkilegt inngrip. Samskipti forseta og utanríkisráðherra hafa kerfislega verið mjög góð í gegnum tíðina og sögu lýðveldisins sem spannar yfir sex áratugi. Það vita þó vissulega allir að kuldi var í samskiptum Ólafs Ragnars og Davíðs Oddssonar, meðan að sá síðarnefndi var utanríkisráðherra í rúmt ár, frá september 2004 til september 2005. Svo var brösugt á milli Ólafs Ragnars og Halldórs Ásgrímssonar fyrst eftir forsetaskiptin 1996, en sá fyrrnefndi gerði ýmislegt þá sem var ekki í samræmi við prótókollana. Halldór kvartaði yfir því hvernig Ólafur Ragnar talaði t.d. í heimsókn hans og Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur í Hvita húsið sumarið 1997.
Valgerður allavega var ekki að hika við að óska eftir útskýringum frá Bessastöðum á þessu verklagi forsetans. Nú hefur forsetaembættið gefið út yfirlýsingu þar sem segir að seta forsetans í þróunarráði Indlands sé bundin við persónu hans sjálfs en ekki við íslenska forsetaembættið. Hvernig verður það aðskilið á meðan að þessi maður gegnir embættinu? Er nema vona að spurt sé. Mun forsetembættið væntanlega senda ráðuneytinu einhverjar skriflegar útskýringar. Varla þetta neitt mál, en þetta er fróðlegt í ljósi þess hversu jafnan hefur verið settlegt yfir samskiptum forseta og utanríkisráðherra í lýðveldissögunni.
Varla hefur þetta þó áhrif á samskipti þeirra sem gegna embættunum. Eins og sést á myndinni fór vel á með þeim við athöfn í Kárahnjúkavirkjun fyrir tæpu ári er forsetinn lagði hornstein að þessari miklu framkvæmd. Valgerður kaus forsetann í kosningunum 2004 er 20% kjósenda sem mættu á kjörstað skiluðu auðu svo ekki er átakanlega kalt á milli þeirra. En þessi tíðindi vekja þó vissulega athygli.
![]() |
Seta í indversku þróunarráði bundin við persónu Ólafs Ragnars |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)