Vínberjaát í verslunum

Vínber

Alltaf gaman að hlusta á svæðisfréttirnar hérna á Akureyri. Missi aldrei af þessum héraðsfréttum og notalegt að geta alltaf gengið að þeim vísum á ruv.is þegar að ekki er hægt að hlusta á í beinni. Fannst skondið að hlusta á fréttina sem þar var sögð í dag um vínber í Hagkaup. Þar var komið með þá kostulegu tölfræðilegu staðreynd að viðskiptavinir Hagkaupa hér á Akureyri sporðrenni eitthvað um eða yfir 6 tonnum af vínberjum á ári hverju án þess að greiða fyrir þau.

Alveg kostulegt mál. Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt. Maður sér svosem oft fólk að versla í búðunum sem fá sér eitt og eitt vínber af stilkunum, en já 6 tonn er tala sem fáum órar held ég fyrir í raun þegar að þeir fara í búðina að versla.

Breytingar á nefndum bæjarins

Hermann Jón og Kristján Þór

Eins og flestir bæjarbúar vita var það eitt fyrsta verkefni nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í bæjarstjórn Akureyrar kjörtímabilið 2006-2010 að stokka upp í nefndakerfi bæjarins. Með því var nefndum fækkað og nokkrum þeirra skeytt saman. Jafnréttis- og fjölskyldunefnd og áfengis- og vímuvarnarnefnd átti að skeyta saman í fjölskylduráð og menningarmálanefnd vera lögð niður. Verksvið menningarmálanefndar átti að færa undir önnur verkefni tengd atvinnumálum og fleiru og ný nefnd að hljóta nafnið Akureyrarstofa. Þetta voru að mörgu leyti athyglisverðar breytingar sem voru kynntar í vor.

Nú á haustdögum áttu breytingarnar að taka gildi og nú hafa lokatillögur bæjarstjórnarmeirihlutans verið samþykktar. Lengra mun verða gengið en fyrst átti að gera. Ætlað er að endurvekja embætti bæjarritara og skipa hann ásamt fjármálastjóra og starfsmannastjóra í framkvæmdastjórn bæjarins í kjölfar þess að störf sviðsstjóra verða lögð niður. Bæjarritari verður í fullu starfi í framkvæmdastjórn en fjármálastjóra og starfsmannastjóra gert kleift að verja meiri tíma til framkvæmdastjórnar með því að ráða sér aðstoðarfólk. Auk nefndabreytinga er ákveðið að áætlað fjölskylduráð hljóti annað heiti og verði nefnt samfélags- og mannréttindaráð.

Ég er einn þeirra sem er svolítið efins um þessar breytingar. Ég sé ekki þörfina á að sameina þessar nefndir og þaðan af síður að leggja niður menningarmálanefnd í þeirri mynd sem hún hefur verið. Hún hefur verið að vinna mjög gott verk og mér finnst það nokkuð ankanalegt að breyta henni með þeim hætti sem blasir við. Ég tók að hluta þátt í störfum jafnréttis- og fjölskyldunefndar á liðnu kjörtímabili og komst að því að sú nefnd tók á mörgum mikilvægum þáttum og vann gott verk. Það var sérstaklega ánægjulegt að vinna með Katrínu jafnréttisfulltrúa bæjarins í jafnréttismálunum en hún hefur þar unnið gott verk.

Margir hafa spurt sig að því seinustu vikur hver sé þörfin á því að færa jafnréttismálin inn í aðra flokka og t.d. skeyta saman áfengis- og vímuvarnarmálum við það. Ég verð að viðurkenna að ég tel þetta umhugsunarverða ákvörðun. Í raun má segja að öll verkefni nýja ráðsins heyri undir ólík svið. Að mínu mati hefði verið réttast að efla þær nefndir sem fyrir væru með því að láta þær starfa áfram með sama hætti. Mest undrast ég örlög menningarmálanefndarinnar, enda tel ég að hún eigi að vera áfram undir sömu formerkjum.

En það verður fróðlegt að sjá hvernig gengur eftir að breytingarnar taka formlega gildi. Fyrst og fremst finnst mér heitið samfélags- og mannréttindaráð afleitt og fannst þó fjölskylduráð skömminni skárra.


Hvalveiðar hefjast í atvinnuskyni að nýju

Hvalur

Það eru gleðileg tíðindi að á miðnætti hefjist að nýju hvalveiðar Íslendinga í atvinnuskyni. Þetta eru viss tímamót sem Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, boðaði í dag og þeim ber að fagna. Hvalur 9 hefur nú haldið úr höfn og veiðarnar hefjast því brátt. Fyrst í stað er veitt leyfi til veiða á níu langreyðum og 30 hrefnum.

mbl.is Heimilað að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gylfi Arnbjörnsson hættir við þingframboð

Gylfi Arnbjörnsson

Það eru allnokkur tíðindi að Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, hafi ákveðið að draga til baka framboð sitt í væntanlegu prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík þann 11. nóvember nk. Gylfi sendi síðdegis út yfirlýsingu þar sem hann fór yfir ákvörðun sína og ástæður þess að hann hætti við þingframboðið.

Umræður höfðu verið um hvort það færi saman að framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands færi í framboð og greinilegt af þessu að hann telur svo ekki vera. Þetta kristallaðist best í umræðunni um lækkun matarskatts en þá skrifaði Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður, góða grein um þessi mál sem bar nafnið "Tvö andlit Gylfa".

Hvað gerir Ágúst Ólafur?

Ágúst Ólafur og Ingibjörg Sólrún

Framboðsfrestur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík rennur út um helgina. Það hefur vakið mikla athygli að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, hefur ekki enn tilkynnt um á hvaða sæti hann muni þar stefna. Mikið er rætt um fyrirætlanir hans í framboðsmálunum. Þær sögur hafa gengið nú um nokkurt skeið að lítið sem ekkert samstarf sé á milli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, og Ágústs Ólafs og þau varla tali við hvort annað. Um fátt hefur enda verið meira rætt seinustu vikurnar hvernig sambandið innan forystu Samfylkingarinnar sé.

Þær sögur hafa verið lífseigar að hún vilji losna við varaformanninn og hefur heyrst að hún vilji aðra og þekkta frambjóðendur í staðinn. Þetta hefur sést vel af framboði fjölda fólks í væntanlegu prófkjöri Samfylkingarinnar sem hefur raðað sér í neðri sætin á eftir formanninum og þingflokksformanninum Össuri Skarphéðinssyni. Allir þessir aðilar ætla sér greinilega ekki að hliðra til fyrir Ágúst Ólafi, sem varð varaformaður flokksins á landsfundinum vorið 2005. Mesta athygli vekur að ekki liggur enn fyrir á hvaða sæti hann stefnir í Reykjavík, en það eitt liggur fyrir að hann verði í framboði þar.

Það hefur reyndar margoft verið sagt, sem rétt er, að Ingibjörg Sólrún hafi ekki stutt Ágúst Ólaf til varaformennsku heldur stutt andstæðing hans í kjörinu, Lúðvík Bergvinsson, alþingismann flokksins í Suðurkjördæmi. Á landsfundi Samfylkingarinnar í maí 2005 brostu Ingibjörg Sólrún og Ágúst Ólafur sínu breiðasta og reyndu að sýna samstöðu með því að koma fram saman við lok fundarins. Ef marka má það sem heyrist nú er kalt á milli æðstu forystumanna Samfylkingarinnar og barist þar af krafti. Framundan eru þingkosningar og orðrómurinn um að formaðurinn vilji losna við varaformann sinn fer sífellt vaxandi.

Ágúst Ólafur er ungur maður, jafngamall mér reyndar, og hefur náð miklum frama innan Samfylkingarinnar á tiltölulega skömmum tíma. Það verður fróðlegt að sjá hvort að honum tekst að verjast áhlaupi formanns flokksins og stuðningsmanna hennar sem bráðlega munu reyna allt með sýnilegum hætti að henda honum út úr pólitík. Það yrði verulegt áfall ef hann næði ekki öruggu þingsæti í þessu prófkjöri allavega, og hvergi nærri tryggt að hann nái því í væntanlegum átökum.

mbl.is Framboðsfrestur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík rennur út á laugardag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ellert B. Schram í framboð

Ellert B. Schram

Ellert B. Schram, fyrrum alþingismaður og forseti ÍSÍ, hefur nú gefið kost á sér í prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík sem fram fer 11. nóvember. Ellert er nú fyrsti varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, var í sjötta framboðslistans þar, sætinu á eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Það er vissulega nokkuð merkilegt að hann fari í prófkjör. Það er orðið ansi langt síðan að Ellert fór síðast í prófkjör. Þá var hann í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í nóvember 1982. Það varð sögulegt prófkjör. Geir Hallgrímsson, þáv. formaður Sjálfstæðisflokksins, hrapaði þá niður í sjöunda sætið og varð Ellert fyrir ofan formanninn.

Ellert átti sér langa og vissulega nokkuð merka pólitíska sögu innan Sjálfstæðisflokksins. Hann varð kornungur forystumaður í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins og sat sem formaður SUS á árunum sem að hann var einn efnilegasti knattspyrnumaður landsins. Hann varð þingmaður Sjálfstæðisflokksins strax árið 1971, þá 31 árs gamall og var á þingi samfellt til ársins 1979 og svo 1983-1987. Ellert var það sem margir kalla fulltrúi ungliðanna inn á lista og í framboð árið 1971 og var þá með mikið bakland innan flokksins. Hann var ritstjóri dagblaða með þingmennsku en tók þá ákvörðun árið 1987 að sinna því alfarið en pólitíkin hefur þó alltaf blundað mikið í honum.

Nú er hann að fara í prófkjör tveim áratugum síðar, orðinn 67 ára gamall og fulltrúi eldri borgara í Samfylkingunni, enda formaður eldri flokksmanna, félagsskapar sem ber víst heitið 60+. Það voru margir hissa er Ellert tók sjötta sætið í uppstillingu eftir prófkjör fyrir kosningarnar 2003 og varð þá stjórnmálamaður á þessum væng stjórnmálanna. Mjög umdeilt var það að mér skildist í vesturbænum, en KR-hverfið er auðvitað fyrst og fremst hans heimavöllur. Ellert er auðvitað mágur Jóns Baldvins Hannibalssonar svo að taugar hefur hann í þessa átt, þó að hann hafi lengi verið vonarstjarna ungra sjálfstæðismanna og þingmaður flokksins um árabil.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig honum gangi í prófkjörsslag við sitjandi þingmenn og aðrar vonarstjörnur nýrra og gamalla tíma sem að berjast þar um sess ofarlega á framboðslistum.

mbl.is Gefur kost á sér í prófkjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Shimon Peres næsti forseti Ísraels?

Shimon Peres

Það er varla spurning um hvort heldur hvenær að Moshe Katsav, forseti Ísraels, segi af sér embætti, en flest bendir til að hann verði ákærður fyrir nauðgunartilraun og tengd mál. Mikið er um það rætt nú hvort að Shimon Peres, fyrrum forsætisráðherra Ísraels, verði forseti Ísraels í kjölfar yfirvofandi afsagnar Katsav. Peres sóttist eftir forsetaembættinu árið 2000 en varð þá undir í kosningu. Peres, sem er kominn á níræðisaldur, er einn af lykilmönnum ísraelskra stjórnmála á 20. öld og var í áratugi áhrifamaður innan ísraelska Verkamannaflokksins, en sagði skilið við flokkinn í ársbyrjun og gekk til liðs við Kadima, flokkinn sem Ariel Sharon stofnaði skömmu fyrir lífshættuleg veikindi sín.

Það hefur hinsvegar lengi háð Peres að honum hefur tókst aldrei að leiða Verkamannaflokkinn til sigurs í kosningum. Hann hefur verið forsætisráðherra Ísraels þrisvar en alltaf tapað stólnum svo í kosningum. Hann var forsætisráðherra 1976-1977, 1984-1986 og að lokum 1995-1996. Hann tók í síðasta skiptið við embættinu eftir morðið á Yitzhak Rabin í nóvember 1995. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels með Yasser Arafat og Rabin árið 1994, í kjölfar sögulegs friðarsamkomulags, sem síðar rann út í sandinn. Hann nýtur virðingar um allan heim fyrir þau verk sín.

Árið 1993 kom Shimon Peres, þá utanríkisráðherra Ísraels, í opinbera heimsókn hingað. Í mótmælaskyni við Peres og ísraelsk stjórnvöld afþökkuðu forystumenn þáverandi stjórnarandstöðuflokka, meðal þeirra voru Ólafur Ragnar Grímsson, núv. forseti Íslands, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, núv. formaður Samfylkingarinnar, að sitja kvöldverðarboð Davíðs Oddssonar, þáv. forsætisráðherra, honum til heiðurs. Mánuði eftir heimsókn Peres tókust sögulegar sættir milli Ísraela og Palestínumanna, eftir umfangsmiklar samningaviðræður í Noregi.

Það var ógleymanlegt samkomulag, innsiglað með frægu handabandi Rabin og Arafat í Washington. Það vakti athygli fyrir nokkrum vikum að sami Ólafur Ragnar og vildi ekki hitta Shimon Peres árið 1993 hitti Ehud Barak, einn eftirmanna Peres sem leiðtogi Verkamannaflokksins og forsætisráðherra Ísraels. Kaldhæðnislegt þótti það miðað við söguna. Það kannski færi svo yrði Shimon Peres kjörinn forseti Ísraels að hann kæmi hingað í opinbera heimsókn til mannsins sem ekki vildi sitja til borðs með honum í veislu fyrir rúmum áratug?

mbl.is Peres orðaður við forsetaembættið enn á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi bloggheimar - Bretar duglegir í bloggi

Fartölva

Í þessari viku eru fjögur ár síðan að ég opnaði bloggsíðu. Hef þó verið með heimasíðu lengur en það, en það er tvennt ólíkt að hafa vef og svo vera að blogga. Bloggið verður að vera lifandi og ferskt til að það standi undir væntingum og fólk hafi gaman af því. Ég er einn þeirra sem hef gaman af þessum bransa. Það er mjög skemmtilegt að geta tjáð skoðanir sínar á mönnum og málefnum með svona lifandi hætti. Ég er blessunarlega þannig að þetta er áhugamál mitt, enda alltaf gaman að fara yfir stjórnmálin og önnur þjóðmál sem eru í umræðunni, kryfja þau og fjalla um. Það er allavega gott að fólk hefur áhuga á að lesa það sem maður hefur til málanna að leggja.

Ég sé að Bretar eru rosalega duglegir að blogga. Skv. fréttum er fjórðungur allra netnotenda í Bretlandi með blogg eða vefsíðu af öðrum toga. Þetta er hátt hlutfall og eru vissulega tíðindi. Reyndar eru Íslendingar að verða ótrúlega öflugir í bloggheimum. Sífellt fleiri, á öllum aldri eiginlega, leggja eitthvað til málanna og t.d. er bloggsamfélagið hér á blog.is gríðarlega fjölbreytt og spennandi. Hér er allt frá pólitískum fréttaskýringum og analíseringum í fjölskyldublogg, þar sem fólk fer yfir líf sitt og sinna og daglega tilveru. Öll flóra bloggheimanna er hér og þetta er orðið notalegt og spennandi samfélag sem hér er, það fer sífellt stækkandi.

Í fjögur ár bloggaði ég hjá blogger.com. Það var mjög áhugaverður og spennandi tími. Nú er um mánuður síðan að ég yfirgaf það samfélag og kom hingað. Þetta er að mínu mati miklu meira lifandi vettvangur, nálægðin við lesendurna er miklu meiri og maður fær beint í æð það sem lesandanum finnst um skrifin og ég hef fengið pósta og ábendingar um skrifin, allt mjög gott mál. Það er alltaf gaman að kynnast öðru fólki og ræða málin beint við það.

Ég verð líka að viðurkenna að ég hef orðið miklu meiri áhuga á þessari tilveru og tala hreint út um menn og málefni heldur en að taka beinan þátt í stjórnmálastörfum með framboði, enda hef ég engan áhuga á því nú. En fyrst og fremst þakka ég þeim sem lesa fyrir að líta í heimsókn og þakka góð kynni við þá sem ég hef kynnst eftir að ég færði mig hingað fyrir tæpum mánuði. Þetta verður spennandi vetur hjá okkur - mikið af lifandi pælingum.

mbl.is Bretar blogga af miklum móð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandaður heimildarþáttur um leiðtogafundinn

Ronald Reagan og Mikhail Gorbachev

Það var virkilega áhugavert að sjá heimildarþátt Ingólfs Bjarna Sigfússonar í Ríkissjónvarpinu í kvöld um leiðtogafundinn í Reykjavík fyrir tveim áratugum. Mikil vinna var greinilega lögð í þáttinn og þarna var virkilega borin virðing fyrir umfjöllunarefninu og ræktað mjög að vel yrði farið yfir alla sögulega þætti málsins. Það sést mjög vel á þessum þætti þegar að allar hliðar fundarins eru skannaðar hversu gríðarlega sögulegur atburður þessi fundur var. Það voru vissulega gríðarleg vonbrigði að leiðtogarnir, Ronald Reagan og Mikhail Gorbachev, skyldu ekki ná samkomulagi á þessum fundi en hann hafði víðtæk áhrif á næstu skref.

Það er óumdeilt að leiðtogafundurinn í Höfða í október 1986 færði leiðtogana saman, þeir kynntust betur og vissu meira um grunn hvors annars, bæði persónulega og pólitískt. Þeir vissu að þeir gætu samið, sorglega litlu munaði að sagan yrði mótuð á fundinum og kalda stríðinu lyki fyrr en ella. En allt sem á eftir kom og lauk með hruni kommúnistastjórna í Evrópu og uppstokkun í kjarnorkuvopnamálum voru afleiðingar Höfða-fundarins. Það hefði óneitanlega verið einstakt fyrir okkur að leiðtogarnir myndu ná sögulegu samkomulagi í Reykjavík. Við getum allavega huggað okkur við það að þessi fundur á sess í mótun sögulegra þáttaskila.

Þó fundurinn hafi virkað sem sár vonbrigði á októberkvöldinu 1986 þegar að Reagan og Gorbachev fóru í sínhvora áttina leikur enginn vafi á því eftir að hafa séð þennan þátt hversu mikilvæg skref náðust á þessum dögum. Það er reyndar merkilegt að sjá það hversu nærri samkomulagi leiðtogarnir voru um fulla útrýmingu kjarnorkuvopna.

Það er merkilegt að sumir sérfræðingar kalda stríðsmála meti fundinn jafnmikilvægan sögulega séð og Jalta-fundurinn. Hann braut blað í samskiptum tveggja ólíkra póla í heimsmyndinni og sagan var þar rituð að hluta. Eftirmálinn er öllum ljós. Ingólfur Bjarni fór vel yfir þetta og þetta var í senn umfangsmikil og vönduð samantekt.

Eldgamlar fréttatilkynningar í fréttum

Samfylkingin

Það hefur vakið athygli mína að nú fyrir og eftir helgina eru að birtast á fréttavefum fréttatilkynningar um framboð í væntanlegu prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Það er mjög merkilegt í ljósi þess að framboðsfrestur rann út 27. september sl. og þá lágu fyrir níu framboð. Það hefur því legið fyrir alllengi hverjir gefa kost og þá auðvitað í hvaða sæti. Merkilegast fannst mér að sjá fréttatilkynningar frá þeim sem gefa kost á sér í efstu sætin, einkum alþingismannanna Kristjáns L. Möllers og Einars Más Sigurðarsonar, sem fyrirfram ættu auðvitað að vera þekktustu frambjóðendurnir.

Þeir virðast þó þurfa að kynna sig tvisvar með fréttatilkynningu eins og óþekktir menn séu. Þetta er vissulega mjög athyglisvert. Það er alveg greinilegt að þetta gerist nú vegna þess að kjörskrá er að lokast. Um er að ræða póstkosningu sem fram fer og því lokast kjörskráin nú eftir helgina. Um er því greinilega áminningu um framboð. Finnst þetta merkilegt, enda hef ég ekki í langan tíma séð leiðtogaefni í prófkjöri senda frá sér margar fréttatilkynningar um framboð sitt. Þetta vakti allavega athygli mína og eflaust fleiri, enda er prófkjörið löngu ákveðið og framboðsfrestur lokaður fyrir þónokkru, þannig að ekki breytist mikið þar.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta prófkjör muni fara. Það eru fjórir sem gefa sig fram í fyrsta sætið. Þar er spennan mest milli Kristjáns L. Möllers og Benedikts Sigurðarsonar. Bæði Stjáni og Bensi hafa eytt talsverðum pening í slaginn. Stutt er síðan að Kristján opnaði heimasíðu sína og sendi vandaðan kosningabækling á öll heimili í kjördæminu. Bensi fór af stað af krafti með flenniauglýsingum og vef en minna hefur sést til leiðtogaefnanna Ragnheiðar Jónsdóttur og Örlygs Hnefils Jónssonar. Lára Stefánsdóttir er alkunnur bloggari og með þekktan vef.

Spennan verður talsverð þegar að talið verður þann 4. nóvember nk. Búast má við spennandi prófkjöri. Eins og staðan er núna verða möguleikar Kristjáns að teljast mestar á leiðtogastólnum, en allt getur gerst. Það eru bara tveir Austfirðingar í kjöri, sem vekur athygli, og telja spekingar miklar líkur á að þingmaðurinn Einar Már falli úr öruggu þingsæti. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer.


Ríkissaksóknari rannsakar meintar hleranir

Jón Baldvin

Bogi Nilsson, ríkissaksóknari, hefur nú ákveðið að fram muni fara rannsókn á meintum hlerunum á símum Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrum utanríkisráðherra og formanns Alþýðuflokksins, og Árna Páls Árnasonar, prófkjörsframbjóðanda Samfylkingarinnar og fyrrum starfsmanns utanríkisráðuneytisins í tíð JBH á ráðherrastóli. Ekki kom annað til greina eftir ummæli og upplýsingar Jóns Baldvins og Árna Páls um meintar hleranir, sem átt höfðu að eiga sér stað fyrir rúmum áratug og hvorugur greindi frá á þeim tíma.

Það er mikilvægt að allar hliðar þessa máls liggi fyrir. Engar heimildir eru til aðrar en frá nafnleysingjum og það er óviðunandi að málið verði á sömu slóðum áfram og verið hefur. Það er mikilvægt að finna þessa nafnlausu menn og fá þá til að segja alla söguna og heyra þeirra hlið. Það er fyrir neðan allar hellur að umræðan verði áfram á því stigi að þar velli allt upp með kjaftasögum og ábendingum á menn sem enga slóð hafa. Það er ekki hægt að fá það fram nema með rannsókn og því vert að fagna því að hún fari nú fram.


Þorgerður Katrín tekur undir beiðni Kjartans

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hefur nú kveðið upp úrskurð sinn vegna stjórnsýsluákæru Kjartans Ólafssonar, fyrrum alþingismanns og ritstjóra. Felld er að fullu úr gildi ákvörðun Ólafs Ásgeirssonar, þjóðskjalavarðar, um að synja beiðni Kjartans um fullan aðgang að gögnum um símahleranir, sem hann vildi kynna sér og var mikið fjallað um í fjölmiðlum í sumar og haust.

Þetta er góð ákvörðun og sú eina rétta í stöðunni. Þessi gögn eiga að liggja fyrir og ekki vera neinn leyndarhjúpur þar yfir. Um er að ræða gögn sem tengjast viðkomandi manni og það á að vera sjálfsagt mál að hann fái aðgang að því. Þorgerður Katrín hefur leyst þetta mál snöggt og vel - með þeim eina hætti sem réttur er.


mbl.is Ákvörðun þjóðskjalavarðar um aðgang að gögnum um símahleranir felld úr gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðstýrður mjólkuriðnaður á Íslandi

Mjólkurvörur

Ekki eru þær góðar fréttirnar sem berast um að miðstýra eigi öllum mjólkuriðnaði hérlendis með þeim hætti sem við blasir stofni Mjólkursamsalan í Reykjavík, Norðurmjólk á Akureyri og Mjólkursamlag Kaupfélags Skagfirðinga með sér rekstrarfélag. Eins og flestir vita er mjólkuriðnaðurinn undanþeginn samkeppnislögum með öllu og nú síðast í gær sagði Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, það ekki koma til greina að breyta því þrátt fyrir skýrar ábendingar Samkeppniseftirlitsins um það í kjölfar máls Mjólku á hendur Osta- og smjörsölunni sem Mjólka hlaut táknrænan sigur í.

Þessar hugmyndir um miðstýrðan mjólkuriðnað á Íslandi eru afleitar, sérstaklega fyrir okkur sem erum málsvarar frjálsrar samkeppni og vettvangs í samkeppni á markaði. Ég tel þetta vonandi vekja okkur öll til umhugsunar, enda ofbýður flestum neytendum væntanlega að heyra af þessari stöðu mála. Það er mjög afleitt að Framsóknarflokkurinn og landbúnaðarráðherrann vilja ekki horfast í augu við nútímann og færa mjólkuriðnaðinn inn í samkeppnislögin, sem er hið eina og rétta. Það er ekkert annað raunhæft og eðlilegt í stöðunni.

Þetta verður allt að taka til róttækrar endurskoðunar, sérstaklega þegar að við sjáum hlutina þróast með þeim hætti og við blasir með miðstýrðum mjólkuriðnaði, sem við blasir með sameiginlegu rekstrarfélagi MS, Norðurmjólkur og KS.


Cecilia Stegö Chilo segir af sér

Cecilia Stegö Chilò

Cecilia Stegö Chilo, menningarmálaráðherra Svíþjóðar, hefur nú sagt af sér ráðherraembætti. Hún er annar sænski ráðherrann sem sagt hefur af sér, en aðeins eru 10 dagar frá valdatöku stjórnarinnar. Upp komst fljótlega eftir að hún varð ráðherra að hún hefði ekki greitt afnotagjöld hjá sænska ríkisútvarpinu í 16 ár. Það er ekki hægt að segja annað en að klaufaleg og vandræðaleg sé byrjunin hjá sænsku borgaralegu flokkunum við stjórnvölinn. Það var enginn valkostur annar í boði fyrir þær Stegö Chilo og Mariu Borelius nema að segja af sér. Ella hefði forsætisráðherrann Fredrik Reinfeldt neyðst til að taka þessi mál á sig sjálfur.

Það er mjög ömurlegt að sjá hversu veikluleg byrjun borgaralegu flokkanna er við stjórnvölinn. Þessi hneykslismál eru gjörsamlega óverjandi og sýna mikinn siðferðisbrest, sem er ólíðandi að sé til staðar í opinberu embætti að mínu mati. Það er óskiljanlegt hvernig ráðherrarnir komust í gegnum smásjá í ráðherrastólinn og þær virðast hafa verið auðveld bráð bloggara, en eins og fyrr segir var það bloggari sem gekk frá ráðherradómi Borelius með einfaldri rannsóknablaðamennsku og þefaði upp vandræðagang hennar með næsta einföldum hætti, sem hefur vissulega vakið athygli.

En þetta er vond byrjun fyrir borgaralegu flokkana og stjórn þeirra, og mikið pólitískt áfall fyrir Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, sem má ekki við frekari vandræðagangi eigi ekki illa að fara fyrir honum og stjórn hans strax í upphafi. Hið eina rétta þar er að aftengja þessi hneykslismál og það var strax ljóst að báðir þessir tveir kvenráðherrar urðu að víkja hið snarasta vegna augljóss siðferðisbrests.

mbl.is Annar ráðherra segir af sér í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsókn á hlerunarmálum

Árni Páll Árnason Jón Baldvin Hannibalsson

Um fátt er meira rætt þessa dagana en hlerunarmálin. Enn heyrast sögur af meintum hlerunum og í Silfri Egils í dag fullyrti Árni Páll Árnason, prófkjörsframbjóðandi Samfylkingarinnar í kraganum, sem var einn af aðstoðarmönnum Jóns Baldvins Hannibalssonar í utanríkisráðherratíð hans að sími sinn í ráðuneytinu hefði verið hleraður og hann fengið ábendingar um það. Eins og í því máli og öðrum kemur þar ekkert fram nema ábendingar á nafnleysingja sem enginn veit hver er og því ekki að heyra meira um málið. Þetta eru endalausar ábendingar á nafnleysingja. Slíkt er með öllu ólíðandi, það verður að fara yfir grunnpunkta málsins og helstu hliðar þess.

Þetta mál er komið í mjög góðan farveg. Þingmenn allra flokka samþykktu með flýtimeðferð á Alþingi skömmu eftir upphaf þinghalds að skipa nefnd mála á tíma kalda stríðsins undir formennsku Páls Hreinssonar, lagaprófessors, sérstaklega til að fara m.a. yfir hlerunarmálin. Þar er talað um tíma kalda stríðsins 1945-1991, enda er það sá tími sem helst hefur verið nefndur og verið mest umdeildur í umræðunni. 1991 var enda sögulegt lokaár kalda stríðsins með endalokum Sovétríkjanna. Þessari nefnd er veittur frjálsur aðgangur að öllum gögnum í vörslum stjórnvalda sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á tímum kalda stríðsins.

Aflétt er með þessu allri almennri þagnarskyldu opinberra starfsmanna, meðal annars þeirra sem væntanlega hafa upplýsingar um hleranir. Það er þörf að fara yfir öll þessi mál og það verður nú gert, hvort að umboð nefndarinnar sé nægjanlegt mun ráðast af þeim gögnum sem fyrir liggja væntanlega. En þetta er allavega gott og mikilvægt skref, enda er nauðsynlegt að fara yfir öll mál sem gerðust á tímum kalda stríðsins, enda hitatímar. Það verður að hreinsa andrúmsloftið og það sem er í umræðunni. Það sem er þó verst eru þessar ábendingar, sem oftast kallast kjaftasögur, með ábendingum á menn sem eru eins og algjörir huldumenn án nafns.

Nú er talað um að fara yfir mál handan kalda stríðsins. Eins og allir vita var öll umræða lengst af miðuð við kalda stríðið, fyrrnefnt tímabil. Það eru aðeins örfáir dagar síðan að t.d. Jón Baldvin Hannibalsson opinberaði grunsemdir sínar um hleranir. Það er með ólíkindum alveg að hann hafi ekki greint frá því fyrr, helst strax og hann komst að þessum grunsemdum sínum, sem var á þeim árum að hann var einn valdamesti maður landsins og örlagavaldur í íslenskum stjórnmálum, eftir að hafa sprengt tvær ríkisstjórnir og farið undir lok ferilsins í stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er ný umræða og kom fram eftir ákvörðun þingsins.

Það er réttast að öll mál verði rannsökuð og það verði opnað að rannsaka mál eftir 1991 að mínu mati. Ég er sammála því sem t.d. Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, sagði um þetta í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Það verður að opna þetta mál, koma því frá kjaftasöguhjalinu og fara yfir hvort meira sé til í því en kjaftasögurnar einar, sem eru vægast sagt orðnar ólíðandi og fyrir neðan allar hellur. Nú verður t.d. nafnlausa fólkið hans Jóns að koma fram í dagsljósið og fara yfir sína hlið.

Köld slóð

Köld slóð

Það eru spennandi íslenskar bíóvikur framundan. Í vikunni verður Mýrin, kvikmyndaútgáfa Baltasars Kormáks á samnefndri sögu Arnaldar Indriðasonar, frumsýnd í bíó. Búast má við áhugaverðri kvikmynd, enda sagan alveg mögnuð. Í síðustu viku sá ég trailerinn úr annarri íslenskri sakamálamynd sem verður frumsýnd fyrir árslok, Kaldri slóð. Það virðist vera mjög spennandi mynd, virkar mjög fagmannlega og vel gerð. Trailerinn var æsispennandi og greinilegt að þar er sögð mjög kröftug saga sem byggir upp spennuna stig af stigi.

Það er gleðiefni að við eigum völ á tveim svona frábærum íslenskum kvikmyndum á næstunni. Hef hlakkað mjög til þess að sjá Mýrina á hvíta tjaldinu eftir að ég vissi að hún yrði kvikmynduð, og vonandi er þetta bara sú fyrsta af fjölda kvikmynda eftir sögum Arnaldar um Erlend og samstarfsfólk hans. Trailerinn að Kaldri slóð vakti svo mikla spennu eftir henni, enda held ég að þessi gerð kvikmynda hérlendis sé að blómstra.

Fyrr á árinu var svo t.d. flott sjónvarpssakamálamynd Önnu Rögnvaldsdóttur, Allir litir hafsins eru kaldir, sýnd í Ríkissjónvarpinu. Hún var mjög fagmannlega og vel gerð í alla staði og flottur leikur var einn helsti aðall hennar. Gleymir enginn t.d. kaldrifjuðum leik Helgu E. Jónsdóttur í hlutverki morðingjans í spennufléttunni og flott að sjá þessa leikkonu blómstra í krefjandi og góðu hlutverki.

En þetta verða spennandi vikur fyrir okkur bíófíklana sem eru framundan. Þessar tvær væntanlegu spennumyndir lofa allavega mjög góðu.

Undarleg viðbrögð ráðherrans

Guðni Ágústsson

Það vekur mikla athygli en þó varla undrun almennings að Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, telji óþarft að fara að ráðleggingum Samkeppniseftirlitsins um að mjólkuriðnaðurinn eigi ekki að vera undanskilinn samkeppnislögum. Skv. fréttaumfjöllun í dag ætlar hann ekki að beita sér fyrir lagabreytingu þrátt fyrir ábendingar Samkeppniseftirlitsins. Mér fannst svar ráðherrans sem ég heyrði í fréttum í kvöld vera þess eðlis að undarlegt telst. Það vekur athygli að ráðherrann virði að vettugi svo afgerandi álit Samkeppniseftirlitsins og horfi algjörlega með öllu framhjá því.

Ég skil vel að Mjólka undrist ummæli og viðbrögð landbúnaðarráðherrans. Það var gleðilegt fyrir Mjólku að hafa sigur gegn Osta- og smjörsölunni vegna máls um verð á undanrennudufti. Þrátt fyrir afgerandi álit virðist landbúnaðarráðherrann alveg horfa framhjá meginniðurstöðum málsins og ábendingum Samkeppniseftirlitsins, þó mjög afgerandi sé. Þar kemur fram að lengra sé gengið í þessum málum hérlendis en er í Bandaríkjunum og Evrópu. Þó er ekki ætlað að breyta þessu með einfaldri lagasetningu. Það er leitt að ráðherrann horfi æ ofan í æ framhjá lykilstöðu mála.


mbl.is Mjólka undrast viðbrögð landbúnaðarráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hneyksli skekja sænsku stjórnina

Maria Borelius

Það er óhætt að segja að fáir urðu undrandi þegar að Maria Borelius, viðskiptaráðherra Svíþjóðar, sagði af sér embætti í gær. Eins og ég skrifaði um í gærmorgun var hún flækt í hneykslismál sem voru bæði vandræðaleg og óverjandi fyrir sænsku ríkisstjórnina. Það var því óumflýjanlegt að hún myndi hrökklast frá völdum. Vandræði sænsku stjórnarinnar eru þó mun umfangsmeiri. Menningarmálaráðherrann sem er yfirmaður sænska ríkisútvarpsins hefur orðið uppvís að því að hafa ekki greitt afnotagjöld í 16 ár og má telja líklegt að staða hennar sé slæm líka. Eins og ég taldi upp í gær eru önnur hneykslismál í umræðunni, sem eru eiginlega með ólíkindum alveg.

Maria Borelius var aðeins viðskiptaráðherra í átta daga, sem hlýtur að teljast skemmsta ráðherraseta í sænskum stjórnmálum og þó víðar væri leitað. Það vekur bæði hneykslan og undrun að hún gæti fengið allt að eina milljón sænskra króna (rúmar 10 milljónir íslenskra) frá sænska ríkinu í bætur. Oftast nær hefur þessi regla ekki verið umdeild, en er það auðvitað í þessu tilfelli, enda var ráðherratíð Borelius engin rósaganga og ekki beint löng. Fræðilega séð er þetta möguleiki. Um fátt er nú meira talað í Svíþjóð en hvað muni gerast í þessu tilfelli, en svo mikið er víst að stjórn borgaralegu flokkanna má ekki alveg við fleiri hneykslum eftir brösuga upphafsviku.

Það mun hafa verið vinstrisinnaður bloggari sem kom upp um Borelius, gróf upp málin sem hún hafði í pokahorninu og opinberaði þau á vef sínum. Það er alveg ljóst að af öllum vandræðunum fyrstu viku þessarar ríkisstjórnar eru hneyksli Borelius alvarlegust, enda gjörsamlega óverjandi að öllu leyti fyrir borgaraflokkana og kom á viðkvæmasta mögulega tíma. Það má ræða mikið um pólitískt siðferði. Það er mjög merkilegt hversu mikið hefur verið um afsagnir sænskra ráðherra t.d. í gegnum tíðina. Það má kannski telja að pólitískt siðferði sé þar meira og eftirlit jafnframt strangara með því sem er rétt og rangt. Endalaust má ræða um þau mál.

En máttur bloggsins er orðinn óumdeilanlega mikill. Það leikur enginn vafi á því að krafturinn í bloggskrifum er mikill og ég held að þetta sé fyrsta alvöru dæmi þess að stjórnmálamaður hrökklast frá valdamiklu embætti vegna bloggskrifa um pólitískt hneyksli. Annars vitum við öll að bloggskrif eru máttug og þau skipta máli, það er mjög einfalt.

mbl.is Viðskiptaráðherra Svíþjóðar segir af sér eftir aðeins eina viku í starfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör í Norðausturkjördæmi í nóvember

Sjálfstæðisflokkurinn

Samþykkt var á kjördæmisþingi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem haldið var um helgina að Skjólbrekku í Mývatnssveit, að halda prófkjör til að velja frambjóðendur á framboðslista flokksins í kjördæminu fyrir komandi alþingiskosningar að vori. Ákveðið er að prófkjör fari fram laugardaginn 25. nóvember og talning fari fram á Akureyri sunnudaginn 26. nóvember, enda tekur tíma að flytja öll kjörgögn til Akureyrar til talningar. Á fundinum var kjörin kjörnefnd til að halda utan um allt prófkjörsferlið, en mikil vinna er framundan í þeim efnum, og var Anna Þóra Baldursdóttir, lektor á Akureyri, kjörin formaður kjörnefndarinnar.

Á fundinum tilkynntu níu um framboð í væntanlegu prófkjöri. Frambjóðendur eru: Arnbjörg Sveinsdóttir, Björn Jónasson, Kristinn Pétursson, Kristján Þór Júlíusson, Ólöf Nordal, Sigríður Ingvarsdóttir, Sigurjón Benediktsson, Steinþór Þorsteinsson og Þorvaldur Ingvarsson. Arnbjörg, Kristján Þór og Þorvaldur gefa öll kost á sér í leiðtogasætið, en hinir stefna á neðri sæti. Samkomulag er um að binda allt að sex sæti í prófkjörinu. Búast má við að fleiri framboð gætu jafnvel borist en framboðsfrestur mun renna út þann 25. október nk, eða eftir tíu daga. Það stefnir því í spennandi prófkjör, en fólk frá öllum svæðum hefur tilkynnt um framboð.

Það eru viss tímamót fólgin í ákvörðun um prófkjör. Ekki hefur farið fram prófkjör við þingkosningar í norðurhluta Norðausturkjördæmis frá árinu 1987. Prófkjör fór fram í Austurlandskjördæmi árið 1999. Í aðdraganda kosninganna 2003 var rætt um valkostina og ákveðið þá að stilla upp, en þá voru fjórir þingmenn í kjördæmahlutunum gömlu og voru þeir í efstu sætum listans. Nú eru aðrir tímar. Halldór Blöndal, leiðtogi okkar, hefur ákveðið að hætta á þingi og við eigum bara einn þingmann sem ætlar í prófkjörið, en hún tók sæti á kjörtímabilinu, enda féll hún í kosningunum 2003. Það er eðlilegt og hið eina rétta að nú fái allir flokksmenn að velja listann. Það er gleðiefni. 

Á fundinum fór fram kjör í trúnaðarstöður. Var Guðmundur Skarphéðinsson endurkjörinn sem formaður kjördæmisráðsins. Var ég endurkjörinn til trúnaðarstarfa hjá kjördæmisráði flokksins í Norðausturkjördæmi og þakka ég það traust sem mér var sýnt með kjöri þriðja kjördæmisþingið í röð. Það eru spennandi tímar framundan og verður ánægjulegt að fylgjast með því sem gerist á næstu vikum í spennandi prófkjöri.

Ég verð ekki í kjöri í prófkjörinu svo að ég hef mjög frjálsar hendur á að skrifa um menn og málefni okkar hér á vefnum. Ég mun tjá skoðanir mínar mjög vel á því sem fram fer í þeim efnum á næstunni hér á vef mínum. Þetta verður lifandi vettvangur skrifa, eins og ávallt.

Kjördæmisþing um helgina

Sjálfstæðisflokkurinn

Um helgina verður kjördæmisþing okkar sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi haldið að Skjólbrekku í Mývatnssveit. Þar mun verða tekin ákvörðun um hvort efnt verði til prófkjörs til vals á frambjóðendum flokksins eða stillt upp á lista. Fyrir fundinum liggur tillaga stjórnar kjördæmisráðsins um að fram muni fara prófkjör laugardaginn 25. nóvember nk. Á fundinum verður tekin nánari afstaða til þessara mála og gengið frá ákvörðun um alla hluti væntanlegs prófkjörs, enda má telja fullvíst að boðað verði til prófkjörs og sú afstaða njóti stuðnings meirihluta fundarmanna.

Gestir fundarins verða Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Á fundinum verður rætt um allar hliðar væntanlegra kosninga og farið yfir stöðu mála. Þegar liggur fyrir að þrír einstaklingar; Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður, Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, og Þorvaldur Ingvarsson lækningaforstjóri, gefi kost á sér til forystu á framboðslista flokksins, en Halldór Blöndal, núv. leiðtogi flokksins í kjördæminu, gefur ekki kost á sér.

Þetta verður væntanlega góð og hressileg helgi í hópi góðra vina fyrir austan í Mývatnssveit og verður ánægjulegt að fara þangað, ræða um verkefnin framundan og fara yfir skoðanir fólks á frambjóðendum og stöðu mála á þessum kosningavetri.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband