12.12.2006 | 12:03
Sterk staða hjá James Bond og Mýrinni

Kvikmyndin Mýrin, í leikstjórn Baltasar Kormáks og eftir sögu Arnaldar Indriðasonar, er enn á topplistanum, þrem mánuðum eftir frumsýningu. Nú hafa 80.000 manns séð myndina og hún er orðin ein af vinsælustu íslensku kvikmyndunum. Það er greinilegt að landsmenn eru hrifnir af því að sögur Arnaldar verði kvikmyndaðar. Skýr skilaboð eru allavega í aðsókninni á Mýrina, enda er hún vinsælasta kvikmynd ársins í íslenskum kvikmyndahúsum.
![]() |
James Bond fer hvergi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.12.2006 | 01:25
Áhugaverður umræðuþáttur með Milton Friedman

Milton Friedman lést þann 16. nóvember sl. og er þátturinn endursýndur til minningar um hann. Er það svo sannarlega vel til fundið hjá Sjónvarpinu að sýna þáttinn aftur, enda á hann vissulega vel við enn og sérstaklega áhugavert að fylgjast með umræðunum milli Ólafs Ragnars og Friedmans, sem auðvitað áttu afar fátt sameiginlegt í hagfræðilegum eða þá mun frekar pólitískum pælingum. Sérstaklega fannst mér skemmtilegt að sjá rimmuna milli þeirra um pólitíska og hagfræðilega ástandið í Chile í kjölfar byltingarinnar 1973 þar sem Augusto Pinochet komst til valda og um "ókeypis" fyrirlestra.
Friedman hlaut nóbelsverðlaunin í hagfræði eins og fyrr segir fyrir þrem áratugum og hann er almennt viðurkenndur sem leiðtogi Chicago skólans í hagfræði. Friedman hafði mikil áhrif á efnahagsstefnu Bandaríkjanna og Bretlands í valdatíð Ronald Reagan og Margaret Thatcher. Um hann hefur mikið verið ritað og áhrif hans ná víða yfir. Í ferð minni til Washington í október 2004 heimsótti ég Cato-stofnunina í borginni. Það var eftirminnileg ferð og gagnleg. Þar fengum við að gjöf merk rit og kynnisefni um þennan mikla hagfræðimeistara, sem markaði skref í heimssöguna með verkum sínum og hugmyndafræði.
Friedman vakti athygli fyrir eftirminnileg ummæli sín og snjallyrði. Hann sagði eitt sinn að hádegisverðurinn væri aldrei ókeypis, með eftirminnilegum hætti, og í Íslandsförinni fyrir rúmum tveim áratugum sagði hann að frelsið væri lausnarorðið fyrir Íslendinga, aðspurður af Boga Ágústssyni, fréttamanni, í þessu ógleymanlega viðtali. Ég vil þakka Sjónvarpinu kærlega fyrir að endursýna þennan merka og fróðlega umræðuþátt.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.12.2006 | 22:34
Fær Helen Mirren óskarinn?

Mér fannst kvikmyndin Queen vera alveg gríðarlega góð. Áhrifarík og sterk mynd, gríðarlega vel leikin fyrst og fremst. Hún væri ekkert án leikframmistöðu Helen Mirren sem er þungamiðja myndarinnar. Það er svo sannarlega kominn tími til að Helen Mirren fái óskarinn. Hún er ein besta leikkona Breta og hefur verið það til fjölda ára. Frammistaða hennar í hlutverki Jane Tennison í sjónvarpsmyndunum Prime Suspect voru sennilega það fyrsta sem ég sá með henni. Þeir þættir voru hreinræktuð snilld og ég horfi á þá reglulega, með því allra besta úr bresku sjónvarpi (ef Morse og Taggart (McManus) er meðtalin).
Það var nokkur skaði að Helen Mirren skyldi ekki vinna óskarinn fyrir túlkun sína í hlutverki Charlotte drottningar árið 1994 í hinni stórfenglegu The Madness of King George. Ég horfði einmitt aftur um helgina á þessa eðalmynd. Sir Nigel Hawthorne (sem sló í gegn sem ráðuneytisstjórinn útsjónarsami í Yes Minister og Yes Prime Minister) átti þar leik ferilsins sem hinn örlítið klikkaði kóngur. Samleikur þeirra var hreinasta unun og þessi mynd hefur fyrir löngu öðlast góðan sess í kvikmyndahillunni minni. Ekki var Mirren síðri í Gosford Park, Robert Altmans, árið 2001. Þá átti hún auðvitað að fá óskarinn fyrir hina eftirminnilegu túlkun á ráðskonunni "fullkomnu" Frú Wilson. Þessar myndir klikka aldrei.
En nú er vonandi komið að sigurstund Helen Mirren í Los Angeles. Það hefur unnið gegn henni hingað til að vera bresk og með aðrar rætur í Hollywood en bandarískar leikkonur sem þar hafa hirt verðlaunin í bæði skiptin sem hún var tilnefnd áður. Það má mikið vera að ef Helen Mirren fer ekki létt með að fá óskarinn fyrir túlkun sína á Elísabetu drottningu, sem allir kvikmyndagagnrýndur hafa lofsungið síðustu mánuðina. Þar var ekki feilnóta slegin á neinu stigi.
11.12.2006 | 21:16
Kofi Annan kveður sviðsljós fjölmiðlanna

Annan hefur gegnt embættinu í tíu ár nú um áramótin, en það er hámarkstími sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna getur setið í forsæti hjá SÞ. Afríka hefur átt seturétt í embættinu nú samtals í 15 ár, en forveri Annans, Egyptinn Boutros-Boutros Ghali, ríkti á framkvæmdastjórastóli árin 1992-1997 en hlaut ekki stuðning til að sitja lengur í embætti, en Bandaríkjastjórn (Clinton-stjórnin) beitti neitunarvaldi til að stöðva tilnefningu hans til endurkjörs haustið 1996, svo að hann gat ekki náð endurkjöri og hann féll í forkönnun svokallaðri. Það var í fyrsta skipti fram að því sem sitjandi yfirmaður fékk ekki endurkjör.
Það blasir við öllum að mikil breyting verður er Ban Ki-Moon tekur við embætti framkvæmdastjórans. Kofi Annan hefur verið einn af mest áberandi framkvæmdastjórum Sameinuðu þjóðanna, lykilfriðarpostuli og holdgervingur fjölmiðlaathygli og fréttaumfjöllunar fyrir framkvæmdastjóraferilinn og auðvitað mun frekar á meðan honum stóð. Valið á Ban Ki-Moon í embættið í haust markaði þau þáttaskil að nú er valinn yfirmaður með öðru ívafi í Sameinuðu þjóðirnar, yfirmaður sem ekki er fjölmiðlastjarna og er diplómat sem lítið mun bera á miðað við hinn vinsæla Kofi Annan, sem hefur verið öflugur friðarpostuli og alheimsmálsvari friðar, en hann hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir fimm árum, árið 2001.
Annan var framan af farsæll í embætti sínu, en mjög hallaði á seinna tímabili hans. Árin 2004 og 2005 voru sérstaklega erfið fyrir hann, enda lá hann þá undir ámæli vegna málefna sonar síns, Kojo Annan. Var sérstaklega um það deilt hvort Annan hafi haft vitneskju um það að svissneskt fyrirtæki sem sonur hans starfaði hjá, hafði gert samninga í tengslum við áætlun Sameinuðu þjóðanna um olíusölu frá Írak meðan á viðskiptabanninu við landið stóð. Í formlegri úttekt á málinu kom fram að ekki væru nægar vísbendingar fyrir hendi um að Annan hefði vitað um málið en hann var þó gagnrýndur þar harkalega.
Í úttektinni í mars 2005 mátti finna mikinn áfellisdóm yfir Annan vegna þessa máls. Hafði verið talið fyrirfram að úttektin myndi hreinsa Annan af öllum grun, og því enginn vafi á að þetta var mesta áfall ferils hans, enda var hann ekki hreinsaður af málinu, enda þar m.a. sagt að hann hafi fyrirskipað eyðingu gagna eftir að rannsóknin hófst. Enginn vafi leikur á að orðspor Annans skaðaðist af öllu málinu. Fram að því hafði hann verið nær óumdeildur og talinn mr. clean innan Sameinuðu þjóðanna, en þetta mál skaðaði hann mjög og bar hann merki þessa hneykslismáls eftir það.
Það verður fróðlegt að fylgjast með nýjum framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna við yfirmannsskiptin um áramótin. Jafnframt verður mikið fylgst með því hvert hlutskipti Kofi Annans verður er hann hættir störfum; hvort að hann verði áfram sama fjölmiðlastjarnan og var á tíu ára framkvæmdastjóraferli eða muni draga sig mjög í hlé úr sviðsljósinu.
![]() |
Annan mun ávíta Bandaríkin í lokaræðu sinni sem framkvæmdastjóri SÞ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2006 | 16:42
Magga Frímanns kveður með stæl

Saga stelpunnar frá Stokkseyri, skrásett af Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur, er ekki þurr upptalning á pólitískum grobbsögum eða leiðinlegum innihaldslausum afrekum, eins og sumar ævisögur. Margrét færir okkur kjarnann í sinni pólitík til lesandans af krafti, við skynjum öll að þar fer hugsjónakona sem barðist af krafti fyrir kjósendur sína og þorði að vera kjaftfor og beitt. Það verður seint sagt um Margréti að hún hafi liðast áfram ljúft og liðugt, hún þorði og gerði. Það birtist vel í bókinni. Þar er líka skrifað að fullkominni hreinskilni og af krafti um það sem mætti Margréti á löngum stjórnmálaferli. Lýsingar hennar eru lifandi og einbeittar, þar er ekki töluð nein tæpitunga.
Stjórnmálasaga Margrétar er samofin sögu vinstriflokkanna síðustu tvo áratugina, bæði hvað varðar vonbrigði við langa stjórnarandstöðusetu og ennfremur merka sögu við að koma vinstriöflum, sundruðum sem standandi öflum, saman í eina sæng. Þarna er sameiningarsaga vinstriflokkanna á tíunda áratugnum rakin ítarlega, farið yfir formannsslaginn í Alþýðubandalaginu árið 1995 og baráttu lífsins fyrir Margréti, við illvígt mein. Það var hennar pólitíski hápunktur að sigra Steingrím. Sigurinn varð þó súrsætur fyrir hana og hún varð síðar að horfa upp á flokkinn brotna hægt og rólega og lauk væringum þeirra tveggja síðar með því að Steingrímur og armur hans í flokknum yfirgáfu hann með miklu þjósti árið 1998.
Það situr greinilega eftir í Margréti að ekki tókst að mynda vinstriblokk allra afla í aðdraganda kosninganna 1999. Greinilegt er að hún kennir Steingrími J. um að það tókst ekki og vandar honum ekki kveðjurnar í þeim efnum. Biturleikinn og vonbrigðin vegna þess sem mistókst birtist vel í lýsingum Margrétar í þessu öfluga uppgjöri við kommana í Alþýðubandalaginu sem yfirgáfu flokkinn og skildu eftir Ólafsarminn í Alþýðubandalaginu sem síðar sameinaðist öðrum vinstriöflum í Samfylkingunni. Í bókinni lýsir hún Steingrími með kuldalegum og einbeittum hætti. Eftir stóðu tveir flokkar og Samfylkingunni mistókst að stimpla sig inn af krafti í kosningunum 1999, tækifæri Margrétar til að landa sameinuðum flokki mistókust.
Margrét markaði sér þó spor. Án hennar framlags hefði Samfylkingin aldrei verið stofnuð. Hún var móðir Samfylkingarinnar, ekki aðeins ljósmóðir verkanna heldur sú sem tryggði tilveru þessarar fylkingar sem þó leiddi ekki saman alla vinstrimenn með afgerandi hætti. Sú sameining mistókst. En Samfylkingin varð til vegna framlags Margrétar og varð hún talsmaður kosningabandalagsins árið 1999. Það var merkileg saga sem átti sér stað í kosningunum 1999 og mér telst til að Margrét hafi verið fyrsta konan sem leiddi alvöruafl, stórt afl, í þingkosningum. Sú saga hefur ekki enn verið rituð og Margrét segir hana með þeim þunga sem hún telur rétt nú.
Ég hafði gaman af lestri þessarar bókar. Þeir sem meta stjórnmál mikils hafa gaman af að lesa hlið Margrétar á mörgum lykilátakamálum vinstriblokkarinnar síðustu árin. Sérstaklega stendur uppúr hversu mikið pólitískt einelti Margrét mátti þola innan Alþýðubandalagsins. Lýsingar hennar á því hvernig flokkurinn smátt og smátt molaðist niður er eftirminnileg og enginn stjórnmálaáhugamaður má sleppa því að lesa þessa sögu. Margrét var lykilpersóna í valdaátökum innan Alþýðubandalagsins og segir listilega frá hennar hlið á þeim valdaerjum sem gegnumsýrðu Alþýðubandalagið hægt og rólega, uns yfir lauk.
Margt má reyndar segja um Margréti, en hún er fyrst og fremst kjarnakona í stjórnmálum og hefur frá mörgu að segja, sérstaklega nú þegar að hún er að hætta í stjórnmálunum. Hún á að baki langan feril, sem mér fannst áhugavert að lesa um í frásögn hennar. Ég held að það sé ekki ofmælt að brotthvarf Margrétar veiki Samfylkinguna. Það sjá allir sem lesa. Athyglisverðast við bókina er hversu lítið er þar vikið að samstarfi hennar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Varla er það furða.
Hvernig er það annars, átti Ingibjörg Sólrún við Margréti Frímannsdóttur þegar að hún veittist að þingflokki sínum nýlega með eftirminnilegum hætti í Keflavík? Ef svo er, telst það óverðskuldað í huga þeirra sem lesa sögu kjarnakonunnar frá Stokkseyri.
Í gær ritaði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, góðan pistil um bók Margrétar Frímannsdóttur og bendi ég á þau skrif hér með.
Bækur | Breytt s.d. kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.12.2006 | 14:36
Sorglegt ár í umferðinni á Íslandi

Það sem mér fannst sorglegast að lesa um varðandi þetta slys í gær er að fólk sýnir ekki biðlund er hlúð er að slösuðu fólki. Það er ömurlegt að lesa að fólk sem er á vettvangi slyss af þessu tagi sýnir ekki fólkinu þá virðingu að bíða meðan að hlúð er slösuðum. Þetta nísti mig inn að beini, satt best að segja og maður fer að hugsa um úr hverju fólk er eiginlega gert. Þetta er skelfilegt um að lesa og til skammar fyrir fólk að geta ekki beðið einhverja stund meðan að lögregla og sjúkrabíll geta athafnað sig á svæðinu. Það er enda svo í tilfelli af þessu tagi að þeir sem koma að svona slysi verða að geta unnið sín verk án þess að verða fyrir því að bílar reyni að fara fram úr, eins og sagt er. Sorglegt alveg.
Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með fréttum seinustu vikna af alvarlegum slysum í umferðinni og dapurlegum örlögum fjölda fólks sem látið hefur lífið í þessum slysum. Það blasir við að þetta ár er að verða eitt það sorglegasta í umferðinni hérlendis. Árið 2000 létust 33 í umferðarslysum hér á Íslandi, og er það hið versta síðustu áratugina. Það stefnir því í að þetta ár standi næst því hvað sorgleg slys viðvíkur. Það er nöpur staðreynd. Oft heyrum við sorglegar tölur um lát fólks í bílslysum og ýmsa tölfræði á bakvið það. Á bakvið þessar nöpru tölur eru fjölskyldur í sárum - einstaklingar í sorg vegna sorglegs fráfalls náinna ættingja.
Í grunninn séð vekja þessi sorglegu umferðarslys okkur öll til lífsins í þessum efnum, eða ég ætla rétt að vona það. Dapurleg umferðarslys seinustu vikna og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa í skelfilegum umferðarslysum á að vera okkur vitnisburður þess að taka til okkar ráða - það þarf að hugleiða stöðu mála og reyna að bæta umferðarmenninguna. Það er lykilverkefni að mínu mati.
![]() |
Einn maður lést í hörðum árekstri á Vesturlandsvegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2006 | 23:20
Spaugstofan hittir naglann á höfuðið

Ekki var síðra að sjá senuna um Frjálslynda flokkinn. Þar var sögusviðið yfirfært á Gullna hliðið eftir Davíð Stefánsson. Átti vel við í ljósi stöðunnar innan flokksins. Pálmi Gestsson og Edda Björg voru þar alveg frábær. Skemmtileg yfirfærsla yfir á stöðuna hjá Frjálslyndum og kómíkin alveg mögnuð. Þetta var einn besti þáttur vetrarins hjá þeim félögum fannst mér.
10.12.2006 | 21:26
Tímamót í Chile - eðalmyndin Missing

Eins og fyrr sagði hér í kvöld kom aldrei til þess að Pinochet myndi svara til saka fyrir verk sín á valdastóli, grimmdarlega stjórn sína á landinu og aftökur á pólitískum andstæðingum. Það var oft reynt, en mistókst alltaf. Það var vissulega dapurt að ekki tókst að rétta yfir honum í kjölfar atburðanna 1998, en svo fór sem fór. Mér sýnist fólk um allan heim gráta það mest á þessum degi. Dauði Pinochets kemur auðvitað engum á óvart og léttir einkennir skrif fólks og pælingar á stöðunni. Nú ætti að vera hægt að horfa fram á veg án skugga valdaferils Pinochets.
Margt gott efni lýsir vel stöðunni sem var í Chile eftir valdaránið 1973 þegar að Salvador Allende var drepinn og herstjórn Pinochets tók völdin. Það var upphaf valdaferils sem enn setur mark á stjórnmálin í S-Ameríku. Fyrst nú geta vonandi íbúar Chile horft fram á veginn. Það féllu margir í valinn í þeim hildarleik. Um þetta hafa verið samdar bækur og gerðar kvikmyndir sem áhugavert er að kynna sér.

Eins og Terry Gunnel hefur bent á nýtir Costa-Gavras hæfileika Lemmons sem gamanleikara með því að setja hann í harmrænt hlutverk. Samúð okkar með Horman vex jafnt og þétt og verður að djúpri vorkunnsemi sem við fylgjumst með honum tapa sakleysi sínu og ganga á hönd örvæntingarinnar.
Svipmikil og vönduð mynd - ein af allra bestu kvikmyndatúlkunum Jack Lemmon, sem þarna sýndi ekta dramatískan leik af mikilli snilld. Ég ætla mér að horfa á hana nú á eftir og hvet sem flesta til að líta á hana sem það geta.
![]() |
Íbúar í Santiago dansa á götum úti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.12.2006 | 18:07
Augusto Pinochet látinn

Á þeim tveim áratugum sem hann var leiðtogi herstjórnarinnar og hersins í Chile létu stjórnvöld drepa um 3.000 pólitíska andstæðinga sína, samkvæmt opinberum tölum frá Chile. Sérstaklega var hin svokallaða Kondór-áætlun illræmd en henni var framfylgt í Chile og í fleiri löndum í Suður-Ameríku. Fyrrnefnd Kondór-áætlun var leynilegt samkomulag milli herstjórnanna í Argentínu, Bólivíu, Brasilíu, Chile, Paragvæ og Úrúgvæ. Í samkomulaginu fólst að ríkin hefðu með sér samvinnu í að leita/elta uppi andstæðinga og losa sig við lík þeirra í öðrum löndum.
Pinochet var margoft formlega stefnt vegna mannrána og morða á að minnsta kosti 9 manns sem voru myrtir í valdatíð hans, en lík þeirra hafa aldrei fundist. Pinochet tókst alla tíð að komast hjá réttarhöldum vegna málanna, með því að segjast heilsuveill og hrumur hin síðari ár. Næst því komst hann þó þegar hann var hnepptur í stofufangelsi af breskum yfirvöldum er hann var staddur í Bretlandi haustið 1998. Munaði þá aðeins hársbreidd að hann þyrfti að svara til saka. Með því að þykjast vera (sagður vera það af læknum) langt leiddur af sjúkdómi var honum sleppt seint á árinu 1999.
Frægt varð er Pinochet var keyrður í hjólastól í flugvélina á flugvelli í London. Er hann sneri aftur til Santiago, höfuðborgar Chile, labbaði hann hinsvegar niður landganginn og gekk óstuddur að bíl sem þar beið hans, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þetta var allt ótrúlega kómískt á að horfa á sínum tíma og leitt að hann var ekki leiddur fyrir rétt þá. Undir lok ævi hans þótti flest stefna í stundina sem flestir biðu eftir en tækifærið rann að lokum út í sandinn í Chile.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.12.2006 | 17:13
Enn um andstöðu við neyslustýringu
Ég átti von á viðbrögðum þegar að ég ákvað að skrifa um neyslustýringu ríkisins en satt best að segja ekki eins miklum og reyndin varð. En það er gleðiefni. Mér fannst mikilvægt að skrifa um þetta og benda á skoðanir mínar. Mér fannst sum kommentin vissulega athyglisverðari en önnur. Þar fannst mér koma vel fram skoðanamunur til hægri og vinstri, þeirra sem vilja að ríkið hugsi fyrir sig og sína og þeirra sem gera það ekki. Einnig sá ég að Ingimundur Kjarval skrifaði athyglisvert innlegg um greinina á málefnin.com.
Ingimundur leggur þetta út með þeim hætti að ég sé að hvetja foreldra til að hella kók í börnin sín og eða að berjast á móti almennu heilbrigði. Það er alveg fjarri lagi að ég sé að hvetja fólk til að gefa skít í heilsu sína og hugsa ekki um hvað það lætur ofan í sig. Ég var aðeins að segja ofur einfaldlega að það er ekki verkefni ríkisins að stjórna því hvað við látum ofan í okkur. Ég vona að fólk sé ekki svo einfalt að telja að ég hafi með skrifum mínum að hvetja til þess að fólk horfði ekki gagnrýnið á eigin forsendum á það hvað það lætur ofan í sig. Ég er aðeins að segja að valið á að vera okkar, ekki ríkisins. Mjög einfalt mál það.
Finnst merkilegt að tala sérstaklega um börnin. Yfir skrifum Ingimundar og annarra hafði ég á tilfinningunni að þau teldu að ríkið ætti að ala upp börnin. Sé það vandamál að börn drekki of mikið af gosdrykkjum og hámar í sig skyndibitafæði og óhollustu er það vandamál foreldranna. Þeir bera ábyrgð á börnunum sínum og hvað þau borða. Sé heilsufarslegt vandamál að aukast í tilfelli barna er það heimatilbúinn vandi, sem ríkið getur minnt á vissulega en ekki lagað. Foreldrar og forráðamenn verða að horfa í spegil og viðurkenna þá að eitthvað sé bogið við stöðuna á heimavelli. Það verður enginn vandi til fyrir einskæra tilviljun. En þarna komum við að meginpunktinum. Ríkið getur ekki hugsað fyrir okkur.Mér finnst neyslustýring fáranleg og stend við þau orð. Er á hólminn kemur er það mitt mál hvað ég borða og ég get engum kennt um það nema sjálfum mér. Ég skal alveg taka undir að það er í lagi að benda á skaðsemi óhollra matvæla eða minna á að mikil sykurneysla getur verið hættuleg og skaðleg til lengri tíma litið. En þar eiga mörkin að liggja.
Það getur enginn lagt börnum lífsreglurnar nema foreldrarnir. Sé uppeldi ábótavant eða krakkinn kominn á kaf í kókþamb eða pizzuát er það engum um að kenna nema ástandinu á heimavelli. Það má vel vera að menn líti á Siv Friðleifsdóttur sem móðurímynd allra landsmanna, en mér finnst það of mikið verkefni fyrir hana að taka á sig uppeldi allra barna landsins. Það er líka hlægilegt verkefni finnst mér. En eru foreldrarnir þarna að kasta frá sér uppeldishlutverkinu?
Við eigum því að benda á meginþætti með áberandi hætti en þar liggja mörkin. Við eigum að treysta fullorðnu fólki til að taka eigin ákvarðanir og börnin verða að vera undir eftirliti foreldra sinna, enginn annar getur tekið við uppeldishlutverkinu. Miðstýring ríkisins er engin lausn. Ég hugsa ekki allavega um það úti í búð hvort ein vara sé skattlögð meira en aðrar, vilji ég kaupa eitthvað og finn innri freistingu myndast fyrir því að kaupa mér vöruna stöðvar varla nokkuð þá ákvörðun.
En þarna mætumst við augliti til augliti þeir sem vilja frelsi einstaklingsins og þeir sem vilja miðstýringu ríkisins í líf fólks. Þetta er skýrt dæmi þess að mínu mati. En mín skoðun er alveg ljós. Við verðum að hafa vit fyrir okkur sjálf, ekki ríkið og krumla "stóra bróður".
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.12.2006 | 16:06
Umdeild pólitísk endurkoma Árna Johnsen

Það hefur komið vel fram í fréttum að andstaðan innan Sjálfstæðisflokksins við Árna hefur verið til staðar. Ályktanir LS og SUS segja sína sögu og skrif almennra flokksmanna. Tek ég undir það sem stjórnmálafræðiprófessor segir að þetta sé óþægindamál sem verði að komast botn í sem fyrst. Framhjá því verður ekki litið að Árni fékk umboð í prófkjöri, stuðning fólks til verka. Það virðist ekki bera á minna fylgi í Suðurkjördæmi, en í öllum öðrum kjördæmum. Það segir sína sögu að mínu mati. Ég tel einmitt að Sjálfstæðisflokkurinn muni eiga erfitt vegna þessa máls um allt land nema einmitt þar. Nöpur staða það.
Það leikur enginn vafi á því að Sjálfstæðisflokkurinn mun lenda í verulegum vandræðum í öllum kjördæmum nema Suðurkjördæmi vegna Árna. Það er því miður bara þannig. Það verður erfitt fyrir flokksmenn um allt land að bera þetta mál inn í kosningabaráttuna. Mín skrif hér hafa fyrst og fremst verið til að staðfesta að ég muni ekki gera það. Það hefur of mikið gerst og staðan orðin of heit til að ég og eflaust einhverjir fleiri geti talað máli Árna í þeirri kosningabaráttu. Ég finn það á viðbrögðum þeirra sem hafa haft samband við mig að ég er ekki einn um þessa skoðun.
Ég tek undir það sem einn benti mér á að Sjálfstæðisflokkurinn í Suðurkjördæmi velur sinn framboðslista. Sá listi er ekki enn kominn fram. Kjördæmisþing er þar eftir. Það er enginn framboðslisti kominn í Suðurkjördæmi fyrr en kjördæmisþing hefur staðfest listann og alla þætti þess. Það er þó ekki endastöð. Miðstjórn verður að staðfesta alla framboðslista. Muni miðstjórn staðfesta listann með efstu sætum í þeirri röð sem liggur fyrir nú er miðstjórn að leggja blessun sína á framboð Árna. Hún verður þá að bera þann kross sem því fylgir að mínu mati, fari illa.
Mín skrif hafa fyrst og fremst verið til að sýna það með afgerandi hætti að ég get ekki stutt pólitíska endurkomu Árna, eins og staða mála er. Þó að ég sé sjálfstæðismaður get ég ekki kvittað undir allt sem í flokknum er og hefur gerst. Það er mjög einfalt mál. Þetta er of heit kartafla til að ég leggi í að bjóða fram krafta mína til varnar stöðunni. Það er bara þannig og heiðarlegt að það liggi bara fyrir.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessu máli muni ljúka. Mér er ekki akkur svosem að neinu en að því ljúki svo sómi sé að fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Forysta flokksins verður að sætta ólík sjónarmið og reyna að stýra þessu vel og sómasamlega fyrir alla aðila. Það er alveg ljóst að tekist er á um þetta mál og verður væntanlega þar til að ljóst er hvernig listinn í Suðurkjördæmi verður endanlega.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:32 | Slóð | Facebook
10.12.2006 | 15:06
Lengja þarf starfstíma Alþingis

Starfstími Alþingis hefur lengi verið mjög umdeildur. Hann hefur í áratugi verið eins. Þingið kemur fyrst saman þann 1. október, eða næsta virka dag og fundað er til um 10. desember. Svo hefjast fundir aftur um eða eftir 20. janúar og fundað fram í maíbyrjun. Það verður auðvitað ekki nú, enda lýkur þingstörfum í mars, þar sem kosningabaráttan til Alþingis hefst bráðlega af vaxandi þunga og skiljanlega þarf hún sinn tíma.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að lengja verði starfstíma Alþingis og fundir í þingsalnum eigi að verða lengur en bara þessa nokkra mánuði ársins. Það hefur alltaf verið skoðun mín að þingið eigi að koma saman í lok ágúst eða fyrstu viku september, funda til svona um 20. desember, hefja störf á nýju ári í kringum 5. janúar, funda fram að páskum og svo út maímánuð hið minnsta. Starfstími þingsins okkar einkennist af liðnu ráðslagi og úreltum tímum. Það á að sitja lengur við störf í þingsalnum. Með því má koma í veg fyrir örvæntingafullt verklag þar sem mál renna eins og á færibandi í niðursuðuverksmiðju gegnum þingið.
Sum mál þurfa lengri tíma en önnur. Athyglisvert er að sjá lög um fjármál stjórnmálaflokkanna renna í gegn með skelfilegum hraða. Ég er algjörlega á móti svona vinnubrögðum og tel mikilvægt að krefjast betri vinnuferlis og mál fái lengri og betri tíma til vinnslu, í umræðum og yfirferð. Þetta með fjármál flokkanna er sérstaklega ömurlegt vinnuferli og þinginu að mínu mati til skammar. En það var rétt hjá okkur í SUS að koma með mótmæli og fara yfir frumvarpið. Það hvernig það rann í gegn með kóuðum hætti með óvönduðum hætti er ekki þinginu til sóma.
Þetta verður að bæta og lengja þarf starfstíma þingsins. Mér finnst þetta grunnkrafa frá þeim sem vilja að þingið fari betur yfir mál og leggi lengri tíma til verka.
![]() |
Þingfundum á Alþingi frestað til 15. janúar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.12.2006 | 17:26
Burt með alla neyslustýringu
Ef það er eitthvað sem ég gjörsamlega þoli ekki er það forræðishyggja af öllu tagi. Tal um neyslustýringu landans fer alltaf jafn mikið í pirrurnar á mér. Enn einu sinni hefur nú Lýðheilsustöð minnt á sig og úrelt hlutverk sitt við að reyna að hafa vit fyrir fólki. Nú er hún að gagnrýna að í frumvarpi um lækkun virðisaukaskatts á matvælum verði virðisaukaskattur á gosdrykkjum og sykruðum svaladrykkjum lækkaður úr 24,5% í 7% og einnig falli vörugjald á þeim niður. Athyglisvert innlegg.
Með öðrum orðum: Lýðheilsustöð kvartar yfir að þessar vörur muni lækka hlutfallslega mest allra matvara þegar lögin taka gildi. Mér finnst mat Samtaka verslunar og þjónustu miklu raunsærra. Þau lýsa yfir vonbrigðum með að enn verði lögð vörugjöld á ákveðnar fæðutegundir, þ.e. sykur og sætindi. Það er eðlilegt að menn láti svosem í sér heyra. En hvert er hlutverk Lýðheilsustöðvar? Er það hlutverk hennar að miðstýra því að allir hugsi um sig og heilsu sína? Er það hægt? Getur bákn af því toga stýrt hugsunum og gjörðum annarra?
Ég er sammála Pétri Blöndal um það sem hann sagði á þingi í dag að það á að henda út í hafsauga öllum neyslustýringum. Hvað á ríkið annars með að skipta sér af því hvað ég og aðrir borða. Okkur á að vera treyst fyrir því að vega og meta sjálf hvað við látum ofan í okkur. Það getur enginn miðstýrt því hvað ég og þú borðar til fulls. Hversvegna er það þá reynt, spyr maður kæruleysislega? Muna menn annars eftir því þegar að Samfylkingin kom inn á þing með tillögu þess efnis að banna auglýsingar á óhollum matvörum í fjölmiðlum á vissum tíma dags. Þetta var dómadagsvitleysa af áður óþekktum kalíber. Hversvegna á ríkið að rétta upp hendina til að hafa áhrif á þessi mál?Fólk verður að standa sjálft vörð um heilsu sína, það er út í hött að ríkið geri það með lagarömmum. Hvað er annars að frétta af nefndinni sem Halldór Ásgrímsson, þáv. forsætisráðherra, skipaði í október 2005 til að vinna að neylustýringu. Muna menn annars ekki eftir henni? Um var að ræða nefnd sem (svo orðrétt sé vitnað í orðagjálfurstexta Stjórnarráðsins) "greina átti vanda sem tengist óhollu mataræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi og koma með tillögur að samræmdum aðgerðum til að taka á vandamálum sem tengjast þessu." Jahá, það var ekkert annað.
Hvernig átti nefnd einhverra besservissera fyrir sunnan að taka á þessu máli? Er þetta ekki bara enn ein nefndin sem sett er á fyrir fólk sem ekkert að gera nema sitja á nefndarfundum? Kannski drekka nefndarmenn kaffi og svolgra í sig sætabrauðsfóðri á þessum fundum til að meta heilsustaðal þjóðarinnar. Ég er eins og vel hefur áður komið fram algjörlega á móti því að ríkið eigi að setjast niður á básum sínum til að móta hvað sé öðru fólki hollt eður ei.
Það verður hver og einn landsmaður að vega það og meta hvað þau setja ofan í sig eða drekka, sama hvort það er hard liqueur, kaffisull eða gosdrykkir. Það er móðgun við allt hugsandi fólk að setja á stofn silkihúfunefnd til að ráða hvað ég og nágranni minn megum éta eða drekka. Burt með neyslustýringu eða aðra forræðishyggju af þessu tagi!
![]() |
Lýðheilsustöð gagnrýnir væntanlega verðlækkun á gosdrykkjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
9.12.2006 | 15:13
SUS mótmælir frumvarpi um fjármál flokkanna

Framkvæmdastjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur nú tekið saman greinargerð, sem lögð hefur verið fyrir allsherjarnefnd Alþingis, vegna frumvarps sem nú liggur fyrir þinginu um fjármál stjórnmálaflokka. Það er skýr afstaða SUS að frumvarpið sé meingallað og varað er við þeim grundvallarsjónarmiðum sem ráðið hafa för við gerð þess.
Að mati SUS er vítavert ef Alþingi hleypir þessu vanhugsaða máli í gegn í flýtimeðferð eins og nú stendur til. Málið varðar grunnþætti í framkvæmd lýðræðisins. Að mati ungra sjálfstæðismanna á lýðræðið skilið meiri virðingu en svo að reglum um það sé gjörbylt í offorsi og án málefnalegrar umræðu þar sem aðrir en atvinnustjórnmálamenn taka þátt.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir stórauknum framlögum ríkisins til þeirra stjórnmálaflokka sem þegar eiga sæti á Alþingi, þ.e. núverandi valdhafa. Einnig sé reist hindrun við því að nýjar hugmyndir og nýtt fólk hljóti hljómgrunn með með því að takmarka framlög einstaklinga og fyrirtækja til stjórnmálaflokka.
Þetta er nauðsynlegt innlegg í umræðuna, sem verður að koma fram og þetta er góð leið til að koma henni á framfæri. Ég fjallaði nýlega um þetta frumvarp í pistli og bendi hérmeð á hann.
![]() |
SUS segir segir lagafrumvarp um fjármál stjórnmálaflokka meingallað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.12.2006 | 03:39
Verður gula slúðurblaðamennskan endurvakin?
Í lok ársins sem slúðurblaðamennskan á DV beið algjört skipbrot og var hafnað af íslensku þjóðinni með eftirminnilegum hætti stefnir margt í að byggt verði ofan á rústir þess dagblaðs sem heitir DV, en kemur nú út aðeins í mýflugumynd þess sem áður var. Talað er um að Sigurjón M. Egilsson og fleiri nátengdir honum muni byggja aftur upp DV með einum eða öðrum hætti, nú er Sigurjón hefur sagt skilið við Blaðið. Ekki er vitað um hvert formið er eða hvað gerist. Aðeins er um að ræða sögusagnir á Netinu, en þó sögusagnir sem fylgst er með, enda innanbúðarmenn víða sem þar skrifa um stöðu mála. Tekið er auðvitað mark á þeim skrifum. Með þeim skrifum er svo sannarlega vel fylgst.
Í janúar hné sól DV til viðar í þeirri mynd sem hún hefur lengst af verið þekkt. Þá neyddust báðir ritstjórar DV, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, til að segja af sér. Með því lauk miklum umhleypingatímum í samfélaginu - byltingu fólksins gegn DV og vinnubrögðum blaðsins seinustu árin. Óhætt er að segja að samfélagið hafi skekist vegna "fréttamennsku" DV viku eina í janúar. Hafði blaðið reyndar virkað sem ein tímasprengja allt frá því að gerðar voru breytingar á blaðinu og ritstjórnarstefnu þess um leið og nýir eigendur tóku við eftir gjaldþrot gamla DV árið 2003. Slúðurblaðamennskan með breskri fyrirmynd fékk svo hægt andlát í apríl, er DV var slegið af virka daga, en umskiptin urðu ekki þá að mínu mati, enda voru atburðir í janúar þáttaskilin.
Í kjölfar sorglegrar umfjöllunar DV í janúar var ákveðið að efna til undirskriftasöfnunar gegn ritstjórnarstefnu DV. Var hún samstarfsverkefni Deiglunnar, Sambands ungra sjálfstæðismanna, ungra jafnaðarmanna, stúdentaráðs HÍ, Sambands ungra framsóknarmanna, Tíkarinnar, Múrsins, ungra frjálslyndra, ungra vinstrigrænna, Heimdallar, Vöku, Röskvu og H-listans. Söfnun undirskrifta stóð í nákvæmlega tvo sólarhringa. Alls skráðu 32.044 einstaklingar nafn sitt við áskorun þessara aðila um endurskoðun ritstjórnarstefnunnar. Þar kom fram mjög breið samstaða landsmanna. Sú samstaða var afgerandi. Samfélagið logaði og blaðið féll í hitanum sem þeim tímum fylgdu. Þessir tímar gleymast ekki.
Hvað á að gerast nú? Verður slúðurblaðamennskan nú endurvakin. Getur Sigurjón M. Egilsson strax orðið ritstjóri á öðrum vettvangi eftir að hafa sagt skilið við Blaðið? Allir vita hvernig farið hefur fyrir sjónvarpsfólki sem skiptir um skútu. Það er allt að því falið mánuðum saman meðan að samningsmörk líða undir lok. Hvað gerist í tilfelli Sigurjóns? Sé rétt að DV verði endurvakið hvernig blað verður nýtt síðdegisblað? Á að fylgja eftir slóð gamla DV? Mun það heita DV? Varla, enda er DV gjörsamlega ónýtur stimpill eftir þau þáttaskil sem fyrr er lýst. Er Gunnar Smári að koma frá Köben? Margar spurningar í stöðunni.
Eru rústir gamals slúðurblaðs að vakna við? Stórt er spurt svosem. Fróðlegt verður að sjá framvindu mála.
![]() |
Fyrrum ritstjórar DV dæmdir í sekt og Jónína fær miskabætur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 03:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.12.2006 | 23:27
Eðalræma eins og þær gerast bestar

Cary Grant fer þar á kostum í hlutverki Roger Thornhill sem er hundeltur um gjörvöll Bandaríkin án þess að vita gjörla hvaðan á sig stendur veðrið. Thornhill er enn einn Hitchcock-sakleysinginn er lendir í kringumstæðum sem hann hefur engin tök á sjálfur en leggur á einhvern skemmtilegasta flótta kvikmyndasögunnar með mörgum frægum senum eins og þeirri þegar flugvélin ræðst á Grant úti á sléttunni og hápunktinum í blálokin innan um forsetahausana á Rushmore-fjalli.
Cary Grant var að mínu mati aldrei betri og öflugri en í þessari mynd (hápunktur glæsilegs leikaraferils) og þetta er um leið ein af allra bestu myndum Hitch, sem sló fáar feilnótur á sínum ferli. Psycho er þó sú mynd Hitch sem mest áhrif hefur haft á mig. Þar er með snilldarbrag hrært í áhorfendanum, án blóðs og hryllings en með því að fara í undirmeðvitundina. Þar er hryllingurinn fenginn fram með klippingum og áhrifstónlist. Snilldin ein.
Það er sennilega til að æra óstöðugan að ætla að lýsa myndinni í smáatriðum. Það er aðeins hægt að sjá hana til að meta hana sem það meistaraverk er hún er. Ég er miklu meiri kvikmyndafíkill en nokkru sinni áhugamaður um stjórnmál. Hef skrifað mikið um kvikmyndir og stúderað formið mikið.
Ég held að enginn kvikmyndagerðarmaður hafi sennilega haft meiri áhrif á mig en Hitchcock. Gríðarlega vel gerðar myndir sem hann skildi eftir sig og þær tala sínu máli enn í dag - eru órjúfanlegur hluti kvikmyndasögunnar. Hver er uppáhalds Hitchcock-myndin þín?
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2006 | 16:40
Breskur dómur yfir Hannesi Hólmsteini ógiltur

Þetta eru óneitanlega mikil tíðindi. Stutt er síðan að Hannes var sýknaður af öllum kröfum Auðar Sveinsdóttur Laxness, ekkju Nóbelsskáldsins Halldórs Kiljans Laxness, en hún og dætur hennar höfðu margoft talið að Halldór hefði brotið gegn höfundarrétti við ritun fyrsta bindis af þrem, sem kom út árið 2003, í röð ævisagna Hannesar um Laxness.
Ég er einmitt að dunda mér þessi kvöldin við að rifja upp annað bindi Hannesar um Laxness, bókina Kiljan, um mótunarár skáldsins. Mér fannst bækur Hannesar um Laxness virkilega vel ritaðar og vandaðar. Það er sérstaklega gaman af Kiljan, en það er besta bókin af þessum þrem að mínu mati.
![]() |
Yfirréttur ógilti dóm sem kveðinn hafði verið upp yfir Hannesi Hólmsteini |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.12.2006 | 16:52
Mikil viðbrögð við skrifum um Árna Johnsen

Ég taldi ekki annað hægt en að skrifa hér hreint út, það hafa verið tæpitungulaus skrif. Það er ekki neitt annað hægt í þessari stöðu. Málið er ekki í höndum minna eða fleiri sem mér hafa skrifað, en við getum og eigum að láta skoðun okkar í ljósi. Skoðanakannanir hafa sýnt stöðuna mjög vel og við gerum hið rétta með öflugum og góðum skrifum um þessi mál. En það er gott að fá þessar kveðjur. Ég hreinlega vissi ekki á hverju ég ætti von við skrifunum, en varla þessum mikla fjölda tölvupósta. Mjög ánægjulegt og sannkallað gleðiefni að finna fyrir þessum straumum. Þakka fyrir alla þessa pósta.
Nú er valdið í höndum flokksmanna í Suðurkjördæmi. Kjördæmisþing mun þar taka afstöðu. Að því loknu fer framboðslistinn fyrir miðstjórn flokksins. Vona ég að viðeigandi breytingar verði á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi á þessum stöðum muni Árni Johnsen ekki draga framboð sitt til baka. Það er ekki fýsilegt í mínum augum að standa í því á þessum kosningavetri að verja þingframboð Árna Johnsen og það mun ég ekki gera. Ég hef tekið afstöðu í þá átt og mun standa við það.
7.12.2006 | 15:12
Frambjóðandi vill sjá úrslit úr prófkjöri

Nú hefur Sigurjón Benediktsson, einn frambjóðanda í prófkjörinu, skrifað um þessa merkilegu staðreynd á bloggvef sinn. Hann telur eðlilegt að þessar heildartölur verði birtar opinberlega. Tek ég heilshugar undir þau skrif, enda skil ég ekki að formaður kjörnefndar opinberi ekki að fullu þessar tölur. Sjálfur veit ég að frambjóðendur fengu þessar tölur og einhverjir fleiri og við sem þekkjum til mála vitum stöðuna mjög vel. En þessi tafla hefur enn ekki verið birt opinberlega frá kjörnefnd og þar stendur eitthvað í veginum ef marka má Sigurjón.
Það hlýtur að vera að formaður kjörnefndar láti birta þessar tölur á Íslendingi, vef flokksins í bænum. Annað væri með öllu óeðlilegt að mínu mati, enda er hefð fyrir því að atkvæðatölur í öll sæti sem kosið er um séu birtar opinberlega, allavega á vef Sjálfstæðisflokksins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2006 | 13:03
Vont vinnulag í málefnum Ríkisútvarpsins

Nú er talað um að geyma frumvarpið fram í janúar. Maður hefur heyrt þennan ansi oft áður og leggur varla peningana sína undir að það fari í gegn innan skamms. Páll Magnússon, útvarpsstjóri, átti erfitt með að leyna gremju sinn í viðtali á Stöð 2 í hádeginu og skiljanlegt að hann sé að verða frekar pirraður yfir stöðunni. Þetta er enda að verða frekar tuskuleg staða fyrir stjórnarflokkana að mínu mati. Það verður fróðlegt að sjá þriðju umræðu eftir jólin. Má fullyrða að hún verði lífleg, enda eru mjög deildar meiningar um þessa formbreytingu Ríkisútvarpsins.
Ein tíðindi dagsins er blaðamannafundur formanns Samfylkingarinnar með þingflokksformanni og fulltrúa flokksins í menntamálanefnd í morgun. Erindið var þar að tilkynna að Samfylkingin væri andvíg því að almannaútvarp yrði hlutafélagavætt og vildi að það yrði gert að sjálfseignarstofnun. Það eru merkileg tíðindi, svo ekki sé meira sagt. Fetar Samfylkingin þar í fótspor Framsóknarflokksins með athyglisverðum hætti. Það var enda upphaflega hugmynd Halldórs Ásgrímssonar, fyrrum forsætisráðherra, að það yrði gert.
![]() |
Ráðherra segist sátt við niðurstöðuna um RÚV ohf. |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)