Árið hennar heilögu Jóhönnu

Jóhanna Sigurðardóttir
Eini ráðherrann sem hefur komist algjörlega ósködduð út úr efnahagskreppunni og hefur eflst umtalsvert pólitískt í henni er Jóhanna Sigurðardóttir, hin heilaga Jóhanna. Enginn vafi leikur á því að hún er að upplifa sína bestu pólitísku daga, sennilega á ferlinum. Hennar tími er kominn og gott betur en það. Hún er eini ráðherrann sem nýtur mikilla vinsælda og hefur að ég tel þverpólitískan stuðning og kraft til verka.

Þegar Jóhanna tók sæti í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var almennt búist við að henni yrði skipt út úr ríkisstjórn á miðju kjörtímabili og myndi enda ferilinn sem forseti Alþingis. Samið var um að skipta embættinu á milli flokkanna á tímabilinu og það orðað við Jóhönnu frá haustinu 2009. Hún fékk aftur gamla ráðuneytið sitt, ráðuneyti félagsmála, og var komin á fornar slóðir.

Nú er svo komið að Jóhanna er orðin ómissandi fyrir Samfylkinguna í ríkisstjórn. Þeir munu ekki fórna sínum vinsælasta ráðherra. Þeir sem komu nýjir inn í ríkisstjórn og voru nefndir vonarpeningar Samfylkingarinnar þurfa að víkja til hliðar, sumir mjög skaddaðir eftir bankahrunið. Merkileg pólitísk örlög það.

Ég held að fyrst og fremst græði Jóhanna á því að vera alþýðukempa. Fólkið treystir henni og veit að hún gerir sitt besta og hafi hag almennings að leiðarljósi. Hún vinnur þannig og kemur þannig fram. Hún trónir á toppnum í erfiðleikunum - er sú sem fólkið treystir.

Já, ætli hið forna heiti Heilög Jóhanna eigi ekki vel við Jóhönnu Sigurðardóttur

mbl.is Flýta hækkun atvinnuleysisbóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líður að jólum

JólabjöllurÞað líður að jólum - aðeins tæpur sólarhringur í hátíð ljóss og friðar. Þetta var notalegur dagur. Passa mig á því að vera sem allra minnst við tölvu, enda eiga þetta að vera dagar þar sem farið er um, hitt fólk og notið jólastemmningar í verslunum, þó án stressins alræmda sem æði oft verður fylgifiskur þorláksmessu rétt eins og hin illa lyktandi skata. Var aðallega að klára smáu atriðin sem eftir eru, sem oft verða fleiri en manni óraði fyrir.

Fyrst og fremst er stefnt að því að fara um og spjalla við vini í verslunarhugleiðingum. Hitti fjölda fólks á Glerártorgi. Þar er straumurinn þessi jól, sem þau hin fyrri. Rakst á marga pólitíska félaga og góða vini. Þó að jólahátíðin sé handan við hornið er ekki hægt annað en að tala örlítið um pólitíkina, enda margt um að vera. Skemmtilegt spjall við fjölda fólks, flestir hægra megin við miðju en sumir allverulega til vinstri. Ekkert nema gaman af því bara. Þó að pólitíkin ætti að vera komin í notalegt jólafrí slæðist hún með sem eðlilegt er.

Eftir röltið á Glerártorgi fékk ég mér góðan labbitúr um miðbæinn, hitti góða vini og naut þess í rólegheitum að fara um og spjalla við ýmsa sem maður þekkir þar, sérstaklega í Pennanum. Það koma ekki jól í huga mér fyrr en eftir skemmtilegt miðbæjarrölt síðustu kvöldin fyrir jólin, hitta fólk, fara á kaffihús, fá sér heitt kakó og kynna sér miðbæjarbraginn. Mér finnst hafa lifnað aðeins yfir miðbænum. Verslun Eymundsson er stórglæsileg eftir breytingarnar og það er engu líkt að fara þar inn og þefa af nýjum bókum og skoða þær.

Í kvöld fór ég í skötuveislu til Hönnu ömmu í Víðilundi og var þar með pabba og bræðrum hans og konum þeirra. Áttum notalegt og gott spjall yfir borðhaldinu. Verð seint talinn mikill áhugamaður um skötu og illa lyktandi mat, en þetta er ágætt sport einu sinni á ári svosem og gott sem slíkt. Ágætt rétt fyrir allar stórsteikurnar sem eru í aðsigi og svo maður tali nú ekki um gamla góða hangikjötið með uppstúf og laufabrauði.

Í dag hefur það því verið hið hefðbundna. Í hádeginu hittumst við nokkrir góðir félagar á Greifanum og fengum okkur góðan mat og tókum út pólitíkina og bæjarmálin. Nóg framundan þar, enda bæjarstjóraskipti framundan hér á Akureyri í júní og farið yfir það sem gerist í pólitík á landsvísu vel að merkja. Svo hefur það verið auðvitað bæjarröltið, finna stemmninguna og hlusta á jólakveðjurnar hjá RÚV. Ekta þorláksmessa!

Er ekki fjarri því að jóladiskurinn hans Stebba Hilmars hafi endanlega komið mér í jólaskapið í morgun. Mikið innilega er það notalegur og góður diskur; hugljúfur og traustur. Nafni minn klikkar ekki frekar en fyrri daginn. Svo er það auðvitað að hlusta á öll hin klassísku jólalög. Nóg er af þeim hér í vefspilaranum mínum.



Uppáhaldsjólalagið mitt er lagið um hvítu jólin eftir Irving Berlin. Enginn syngur það eins fallega og söngvarinn Bing Crosby, sem söng það fyrst í kvikmyndinni Holiday Inn árið 1942 og síðar í samnefndri mynd árið 1954 og gerði það heimsfrægt. Enn í dag er það vinsælasta lag sögunnar, mest selda lagið. Eina lagið sem hefur komist nærri því er Candle in the Wind - 1997-útgáfan til minningar um Díönu prinsessu.

Vel við hæfi að hlusta á Bing syngja eitt sitt frægasta og goðsagnakenndasta lag, þarna með snillingnum Frank Sinatra; sannarlega tveir af eftirminnilegustu söngvurum 20. aldarinnar.

Vona að þið hafið öll átt notalegan og góðan dag, með eða án jólastressins. :)



mbl.is Skötuveisla á Kanarí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndislegar jólamyndir

Um jólin er svo sannarlega viðeigandi að horfa á góðar úrvalsmyndir og sérstaklega við hæfi að horfa á góðar myndir sem fjalla um boðskap jólanna og eða bara létta og kæta hugarþelið. Nokkrar þeirra standa upp úr í mínum huga og hafa alla tíð gert. Fjalla ég um þær nú.



It´s a Wonderful Life Kvikmynd Frank Capra, It's a Wonderful Life er ein þekktasta fjölskyldumynd 20. aldarinnar, gleðigjafi fyrir alla heimsbyggðina allt frá frumsýningardegi. Sextug eðalmynd sem kemur manni ávallt í sannkallað jólaskap. Hér segir frá George Bailey sem eyðir ævi sinni í að fórna lífsdraumum sínum til að vinna í haginn fyrir bæinn sinn, Bedford Falls, og að lokum sér tækifæri sín renna í súginn. Myndin gerist á aðfangadag og horfir hann yfir ævi sína, komið er að tímamótum, hann er niðurbrotinn maður og til alls líklegur þegar jólahátíðin gengur í garð.

Hann er orðinn þreyttur á því hvaða stefnu líf hans hefur tekið og gæti gripið til örþrifaráða. Til bjargar kemur verndarengill hans, Clarence, til að reyna að sýna honum fram að án hans hefði bærinn aldrei verið samur og að hann á marga að, fjölskyldu og fjölda vina. Hann sýnir honum lífið eins og það hefði verið ef hann hefði aldrei komið til og vonast til að með því verði hægt að snúa hlutunum við. James Stewart á stórleik í hlutverki George - að mínu mati er þetta ein af allra bestu leikframmistöðum hans á glæsilegum ferli. Ennfremur fara Donna Reed, Lionel Barrymore, Thomas Mitchell, Beulah Bondi, Henry Travers og Ward Bond á kostum.

Myndin var tilnefnd til fimm óskarsverðlauna, þ.á m. sem mynd ársins, fyrir leikstjórn og leik Stewart. Ómótstæðilegt meistaraverk, sem á jafnt við árið 2008 og 1946 er hún var frumsýnd. Sígildur boðskapurinn á alltaf við. Fastur partur á jólunum - ómissandi þáttur heilagra jóla að mínu mati.




Miracle on 34th Street Ein besta jólamynd allra tíma er hin sígilda kvikmynd George Seaton, Miracle on 34th Street. Segir frá því er gamall maður að nafni Kris Kringle, fer að vinna sem jólasveinn í stórmarkaði. Segist hann vera hinn eini sanni jólasveinn. Er hann þarmeð talinn galinn og hann verður að sanna hver hann er fyrir dómstólum. Efasemdarmenn um tilvist jólasveinsins verða að horfast í augu við að endurskoða afstöðu sína.

Hugljúf mynd sem skartar Edmund Gwenn, Natalie Wood (rullan sem gerði hana að yndi heillar kynslóðar), Maureen O'Hara og Thelmu Ritter (í hlutverki mömmunnar sem gerði hana að stórstjörnu kómíkersins) í aðalhlutverkum. Gwenn hlaut óskarinn 1947 fyrir magnaðan leik sinn í hlutverki hins hugljúfa manns.

Þessi kemur alltaf í gott jólaskap, skylduáhorf að mínu mati á jólum. Myndin var endurgerð árið 1994. Þar voru Sir Richard Attenborough, Mara Wilson, Dylan McDermott og Elizabeth Perkins í aðalhlutverkum. Tókst vel upp, en stenst hinni eldri ekki snúning. Hún er alveg einstök.





Love Actually Ein af bestu jólamyndum seinni tíma er hin óviðjafnanlega breska gamanmynd Love Actually. Hún hefur verið mér mjög kær allt frá því að ég sá hana fyrst í bíói fyrir fimm árum, rétt fyrir jól. Þetta er í senn bæði ljúf og sykursæt mynd. Í aðalhlutverki eru Hugh Grant, Liam Neeson, Emma Thompson, Alan Rickman, Keira Knightley og Rowan Atkinson. Semsagt topplið breskra leikara. Þessi góða ástarsaga fjallar um átta mjög ólík pör í London rétt fyrir jól, sem glíma við ýmis vandamál í ástarlífinu.

Ástin er þemað í myndinni. Saga þessa ólíka fólks spinnst mjög skemmtilega saman í lok hennar. Mögnuð mynd sem ég mæli eindregið með. Er algjörlega fullkomin. Punkurinn yfir i-ið er flottur flutningur Billy Mack (í glæsilegri túlkun Bill Nighy) á laginu Christmas is all around (áður Love is all around með Wet, Wet, Wet). Þessi er alveg ómissandi yfir jólin seinni árin - verður svo væntanlega um ókomin ár!






Home Alone Jólin verða ekki fullkomnuð fyrr en horft hefur verið á hinar ómótstæðilegu Home Alone I og II. Frábærar jólamyndir. Kevin McAllister er fyrir hin mestu mistök skilinn eftir einn heima á meðan að fjölskyldan er á leið í jólaleyfi til Parísar. Á meðan reyna tveir misheppnaðir þjófar sig að gera sig heimakomna heima hjá Kevin og stela þar öllu steini léttara. Kevin grípur til varna og reynir allt sem hann getur til að bjarga heimili sínu frá þjófunum. Sprenghlægileg og flott. Myndin sem gerði Macaulay Culkin að stjörnu. Joe Pesci og Daniel Stern eiga stórleik sem þjófarnir.



Í Home Alone 2 gerist hið sama að fjölskyldan gleymir Kevin, en í þetta skiptið verður hún viðskila við hann í flugstöðinni þar sem þau eru á leið til Flórída í jólaleyfi. Kevin tekur vitlausa vél og endar í New York, borg háhýsanna. Hann tékkar sig þar inn á Plaza, með öllum þeim mögnuðu tækifærum sem því fylgir. Á leið um borgina hittir hann þjófana sem reyndu allt sem þeir gátu til að ræna heimilið hans, en þeir eru þá sloppnir úr fangelsi. Þeir eiga harma að hefna gegn Kevin, sem ver sig með kjafti og klóm. Frábær kvikmynd. Culkin, Pesci og Stern í toppformi en senuþjófurinn er óskarsverðlaunaleikkonan Brenda Fricker í hlutverki hinnar kærleiksríku dúfnakonu. Báðar ómissandi um jólin.




National Lampoon´s Christmas Vacation Fastur hluti jólanna er svo auðvitað að sjá National Lampoon´s Christmas Vacation. Chevy Chase leikur fullkomnunarsinnann Clark Griswold enn eina ferðina. Að þessu sinni ætlar hann að gera fullkomnustu jól fjölskyldunnar fyrr og síðar að veruleika. Hann telur sig eiga von á hnausþykkum jólabónus sem kengur er í og leggur allt sitt í að skreyta húsið og gera allt sem best er nokkur möguleiki er að tryggja. Allt sem getur hinsvegar farið úrskeiðis fer á versta veg. Hápunkti nær það þegar að bróðir Clarks mætir með fjölskylduna.

Pottþétt jólamynd. Gott dæmi um að plana ekki of mikið jólin að hætti fullkomnunar, heldur njóta þess sem maður á og gera gott úr lífinu. En þessi verður aldrei léleg. Sérstaklega fannst mér hún frábær þegar að ég dró hana fram nú skömmu eftir helgina. Fór endanlega í ekta gott jólaskap. Það ættu allir að geta hlegið frá sér allt vit og forpokaða skammdegisfýlu yfir þessari mögnuðu mynd.




Fleiri myndir mætti nefna t.d. Meet me in St. Louis (þar sem Judy Garland söng allra fyrst hið ódauðlega Have Yourself a Merry Little Christmas), Elf, Die Hard I og II (sem báðar gerast á jólahátíð), Bad Santa, Scrooge, A Christmas Story, How the Grinch Stole Christmas (1966-útgáfan), A Charlie Brown Christmas, A Christmas Carol, The Santa Clause, Frosty the Snowman, Surviving Christmas, The Shop Around the Corner (vissulega ekki jólamynd en jólaandinn í lok myndarinnar er óviðjafnanlegur), The Ref, White Christmas, The Nightmare Before Christmas og Family Man.

Ef þið eigið uppáhaldsjólamynd, endilega kommenta þá hér með þær. Annars eigið þið öll vonandi góð bíójól og horfið á góðar myndir um jólin heima og í kvikmyndahúsum. Það er nóg af góðum myndum um jólin í bíó og í sjónvarpi.

Í minningu Halldóru Eldjárn

Halldóra og Kristján Eldjárn
Við andlát Halldóru Eldjárn minnist þjóðin hinnar hæglátu en glæsilegu konu á forsetavakt hins ópólitíska forseta á pólitískum umbrotatímum í sögu þjóðarinnar. Halldóra og Kristján Eldjárn voru táknmynd alþýðleika og virðingar þau tólf ár sem þau bjuggu á Bessastöðum. Að mínu mati var Kristján besti forsetinn í lýðveldissögunni. Þau hjónin áunnu sér velvild og virðingu landsmanna með framgöngu sinni og framkomu.

Þau voru forsetahjón fólksins, honum auðnaðist alla tíð að tryggja samstöðu landsmanna um verk sín og naut virðingar allra landsmanna, þrátt fyrir að vera forseti á umbrotatímum í þjóðmálum og á vettvangi stjórnmála, þegar hin pólitíska forysta landsins var í raun í lamasessi og hann þurfti stundum að taka erfiðar ákvarðanir. Honum tókst að skapa trúverðugleika um verk sín og halda styrk embættisins á þeim árum.

Halldóra lék lykilhlutverk í forsetatíð Kristjáns; ekki aðeins sem konan við hlið forsetans heldur og mun frekar sem hin glæsilega húsfreyja á Bessastöðum. Þau voru táknmynd alþýðleika. Deilt var um það í kosningabaráttunni 1968 að Kristján væri litlaus og kona hans hefði sést í fatnaði frá Hagkaupsverslunum, svokölluðum Hagkaupssloppi. Lægra þótti háttsettum ekki hægt að komast en að sjást í slíkum alþýðufatnaði.

En Kristjáni og Halldóru auðnaðist að tryggja samstöðu um embættið og eru metin með þeim hætti í sögubókunum, nú löngu eftir að hann lét af embætti.

mbl.is Alþingi minntist Halldóru Eldjárn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn býður mótmælendum upp á kaffi

Ég held að það hafi verið sniðugt hjá Ólafi Ragnari Grímssyni að bjóða þeim tíu sem fóru á Bessastaði til að mótmæla upp á kaffi og spjall. Veit ekki hvað mótmælendurnir græddu samt á kaffispjallinu við forsetann nema þá að hann sé kominn í jólaskap. Ég verð að viðurkenna að ég átti samt von á fjölmennari mótmælum miðað við málefnið, en sennilega eru allir uppteknir upp fyrir haus í jólaverslun.

Í dag var samþykkt að veita forsetaembættinu fjárveitingu í lokalið fjárlagaumræðunnar til að setja upp öryggisbúnað og öryggishlið á Bessastöðum. Væntanlega þýðir þetta að öryggi forseta Íslands verði hert og erfiðara en áður að komast að forsetabústaðnum. Er svosem ekki hissa á því, enda fá dæmi um það að þjóðhöfðingi sé algjörlega óvarinn á heimili sínu.

mbl.is Ólafur og Dorrit buðu mótmælendum upp á kaffi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífleg jólaverslun

Ekki verður maður var við kreppuna þegar farið er í verslunarmiðstöðvar. Jólaverslunin er með líflegasta móti og er meiri en í fyrra ef eitthvað er. Ég sé allavega engan teljandi mun til hins verra, þvert á móti. Kannski verður ekki teljandi munur á lífsmunstri þjóðarinnar fyrr en eftir jólin. Gárungarnir segja að íslenski neytandinn falli með vísakortað í hendinni í stað þeirra sem falla með sverð í hendi.

Ég get ekki séð að kortanotkun sé mikið minni. Þar sem ég hef farið um borga flestir með korti sýnist mér. Þetta eru samt athyglisverðar tölur og um leið er ekki úr vegi að velta því fyrir sér hvort þetta verði síðustu jólin í bili þar sem landsmenn geta leyft sér mikinn munað og peningaaustur. Kannski er ekkert að því að hægist aðeins yfir og við hugleiðum að það er hægt að halda jól án þess að spreða mikið.

Jólin eiga að snúast um svo margt annað en peningaaustur, þó við höfum svolítið gleymt þeim boðskap að undanförnu. En jólaverslunin að þessu sinni er ekki mjög frábrugðin því sem var í fyrra. Stressið er allavega ekki minna í fólksfjöldanum í verslunarmiðstöðvunum.

mbl.is Jólin greidd út í hönd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýndarmennska á Bessastöðum

org2008
Mér finnst það eiginlega algjör sýndarmennska hjá Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, að biðja nú um launalækkun. Hann hafði orðað þetta fyrir einhverjum vikum í hálfkæringi en talar fyrst um þetta aftur nú þegar fólk talar um að hann eigi að hafna fjárlagafrumvarpinu. Ég held að það væri miklu betra hjá Ólafi Ragnari að spara hjá forsetaembættinu sem slíku og setja landsmönnum gott fordæmi þannig frekar en fara fram á launalækkun sem er ekkert nema pr-trix hjá manni sem á mjög erfitt við fall útrásarinnar, enda verið sameiningartákn útrásarvíkinganna.

Eins og fram hefur komið er kostnaður við síma forsetaembættisins 5,7 milljónir (19.000 krónur á dag!), myndatökur 1,6 milljón, leigubílaferðir 1,4 milljón, ferðakostnaður 9,6 milljónir, hótelkostnaður 5 milljónir, eldsneytiskostnaður 1 milljón, veisluhöld á Bessastöðum 9 milljónir og hraðflutningur á vörum tæp hálf milljón auk annarra kostnaðarliða. Árslaun forsetans eru að mig minnir svo tæpar 22 milljónir króna ofan á þetta auðvitað. Held að það blasi við öllum að sparnaður hjá embættinu væri mun betri ráðstöfun. Það eitt að tala minna í símann væri hollráð.

Ólafur Ragnar verður að ég tel fyrst og fremst minnst fyrir að vera holdgervingur hinnar eitruðu útrásar, sameiningartákn hennar og sendiherra þeirra sem settu landið á hausinn. Vond örlög það. Ekki má heldur gleyma að hann drekkti forsetaembættinu í græðgi og dómgreindarleysi. Ég yrði ekki hissa á þó margir teldu það hluta af uppstokkun komandi mánaða þar sem fortíðin verður gerð upp að þetta andlit útrásarinnar verði að víkja af Bessastöðum.

Kannski ætti einhver að benda Ólafi Ragnari Grímssyni á níundu grein stjórnarskrár. Þar stendur: "Forseti lýðveldisins má ekki vera alþingismaður né hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkaatvinnufyrirtækja. Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald. Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans."


mbl.is Ólafur Ragnar fer fram á launalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúverðugleiki í bankakerfinu

Ég fagna því að yfirmaður alþjóðasviðs Landsbankans, sá sem stjórnaði Icesave í Englandi og Hollandi, hafi sagt sig frá innri endurskoðun bankans. Slíkt hefði verið algjört öfugmæli og óviðunandi með öllu. Hvað svo sem ágætt má segja um Brynjólf Helgason er ekki rétt að sami maður og ber ábyrgð á Icesave-málinu leiði málið í endurskoðun. Slíkt mun aldrei verða trúverðugt, síst af öllu við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Til að almenningur öðlist tiltrú á bönkunum og að þar verði eitthvað nýtt upphaf verður að vera ljóst að þeir sem halda utan um mál séu eins ótengdir liðinni tíð spillingar og sukks og mögulegt má vera. Nýjir tímar verða ekki með framlengingu af hinu sama og áður var. Auðvitað má það ekki gerast að þeir sem voru á bólakafi í umdeildum ákvörðunum séu settir í það að endurskoða og rannsaka sjálfa sig.


mbl.is Innri endurskoðandi óskast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birna og krabbameinið

Veikindi Birnu Einarsdóttur skipta að mínu mati engu máli þegar talað er um hvort hún sé hæf viðskiptalega séð til að stjórna einum af stærstu bönkum landsins. Auðvitað er vonandi að hún nái sér alveg af veikindunum en ekki er spurt um þau þegar kemur að getu hennar til forystu í Glitni, verðandi Íslandsbanka, hvort heldur sem er nú eða í framtíðinni.

Reyndar sýnist mér mjög ólíklegt að hún verði áfram bankastjóri þar. Bæði hún og Elín Sigfúsdóttir eru of umdeildar og tengdar liðnu tímunum í forystu bankanna í útrásartíðinni til að þær geti leitt bankana án þess að landsmenn hneykslist á því. Þar þarf nýja forystu, alvöru nýja tíma, ekki næsta bæ við spillinguna sem mótmælt er.

mbl.is Stríddi við krabbamein frá sumri að aðalfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhannes hótar verðhækkunum í Bónus

Ég get ómögulega skilið Jóhannes í Bónus öðruvísi en sem svo að hann hóti viðskiptavinum Bónus verðhækkunum nú eftir að þeir fengu skellinn mikla - voru sektaðir fyrir alvarleg brot á samkeppnislögum. Reyna á að kaupa fólk til fylgilags með hótunum og í leiðinni fá viðskiptavinina til að vorkenna feðgunum þar sem ráðist sé á þá. Ég held að þessi fórnarlambaleikur hafi staðið einum of lengi hjá Bónus til að fólk láti blekkjast aftur. Betra væri að Jóhannes í Bónus viðurkenndi brot sín og talaði um þau af auðmýkt og stillingu. En það getur hann ekki gert.

Ég held að flestir átti sig orðið á því að Bónus hefur gengið fram með mjög óeðlilegum hætti í samkeppni á undanförnum árum og reynt að keyra hana niður með lúalegum brögðum, líkt og kemur fram í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins. Lýsingarnar á verklaginu og úrskurðurinn eru afgerandi dómur yfir því hvernig var unnið.

Og nú á að reyna að hóta fólki með kúgunum og skipunum til að halda blekkingarleiknum áfram og halda áfram að láta alla trúa að Bónus eitt geti mögulega haldið uppi lágu vöruverði. Hér á Akureyri birtist verðkönnun um daginn sem sýndi að Nettó sækir mjög að Bónus. Fjarri því er að Bónus sé lengur langódýrasta verslunin.

Bolabrögð eru þetta vissulega sem felst í yfirlýsingum Jóhannesar í Bónus. Er fólk ekki að verða ansi þreytt á þessum stórmennskustælum? Hver væri staða þessara manna ef þeir hefðu ekki getað keypt upp nær alla frjálsu fjölmiðlana á sínum tíma? Við höfum séð dæmi þess hvernig hefur verið spilað með fjölmiðlana.

Ég held að fólk sé farið að átta sig á heildarmyndinni, mun betur en hitasumarið 2004 þegar forseti Íslands tryggði þessum auðmönnum skjól með því að hafna fjölmiðlalögunum.


mbl.is „Dapurleg jólagjöf“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill áfellisdómur - sumir vakna af værum blundi

Enginn vafi leikur á því að úrskurður Samkeppniseftirlitsins er mikill áfellisdómur yfir verslunarrisanum Högum í Baugsveldinu og ekki síður stjórnmálamönnum sem hafa enn ekki mannað sig í að setja lög sem eiga að vinna gegn fákeppni og taka á hringamyndun og einokun á markaði. Ég heyrði í hátalarakerfi verslunar þar sem ég verslaði áðan í jólaösinni að fréttamaður á Stöð 2 sagði að Bónus hefði verið sektað fyrir lágt verð. Hverslags öfugmæli eru nú þetta?

Er ekki verið að refsa samsteypu með gríðarlegt afl á markaði, vel yfir 60% að mig minnir, fyrir að beita afli sínu gegn samkeppnisaðilum á óheiðarlegan og siðlausan máta. Svo heyrði ég Jóhannes í Bónus enn byrja sama sönginn að allir séu nú á móti þeim feðgum sem séu nú svo strangheiðarlegir og megi varla vamm sitt vita. Það sem maður er orðinn þreyttur á þessu blaðri þeirra feðganna.

Þetta er skelfilegt mál, en ég held að allir hafi vitað af þessari markaðsráðandi stöðu, sem er ósiðleg og býður upp á það sem úrskurðað er um í dag, að aðstaðan sé misnotuð í ystu æsar. Auðvitað þarf að taka á þessu rugli og óskandi væri að við ættum stjórnmálamenn sem myndu taka á þessu. Nú er tækifærið svo sannarlega.

En sofið hefur verið lengi, of lengi. Ég heyri á sífellt fleirum sem ég tala við og voru á móti fjölmiðlalögunum þar sem taka átti á hringamyndun að þeir sjá eftir afstöðu sinni og segja að stjórnmálamenn í fremstu röð þess tíma hafi haft rangt fyrir sér. Öll vitum við hver kom í veg fyrir þá þörfu lagasetningu.

Jú, forseti Baugsveldisins og táknmynd þeirra í öllum kokteilboðunum.

mbl.is Kemur ekki á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Deep Throat kveður - maðurinn sem felldi Nixon

Mark Felt (Deep Throat)
Í þrjá áratugi var deilt um það hver var heimildarmaður The Washington Post í Watergate-málinu í byrjun áttunda áratugarins. Alla tíð var þó vitað að sá sem lak upplýsingunum til blaðsins var áhrifamaður í fremstu röð og með allar upplýsingar tiltækar. Upplýsingarnar sem heimildarmaðurinn veitti urðu sönnunargögnin sem leiddu til þess að Richard M. Nixon, forseti Bandaríkjanna, varð að segja af sér embætti, fyrstur manna, sumarið 1974. Heimildarmaðurinn var jafnan nefndur Deep Throat og aðeins þrír menn vissu hver hann var: blaðamennirnir Carl Bernstein og Bob Woodward og Ben Bradlee ritstjóri The Washington Post.

Í kvikmyndinni All the President´s Men, sem segir sögu alls málsins, var Deep Throat skiljanlega ekki sýndur nema í skugga, við sjáum hann aðeins í samtali við Woodward í bílakjallara. Til fjölda ára hafði því verið bæði deilt um hver heimildarmaðurinn var og ekki síður reynt að upplýsa það af öðrum fjölmiðlum. Hafði getum verið leitt að því að heimildarmaðurinn væri George H. W. Bush, fyrrum forseti og þáv. forstjóri CIA, og Alexander Haig, starfsmannastjóri Hvíta hússins og fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Vorið 2005 var hulunni svipt af þessu mikla leyndarmáli seinni tíma stjórnmálasögu; heimildarmaðurinn sögufrægi væri Mark Felt, fyrrum aðstoðarforstjóri FBI. Hélt hann blaðamannafund við heimili sitt, þá tæplega 92 ára gamall. Afhjúpunin þótti stórmerkileg, enda hafði Felt margoft neitað því að hann væri Deep Throat. Þá voru aðeins þrjú ár síðan Felt skýrði fjölskyldu sinni frá því að hann væri heimildarmaðurinn.

Hann var í aðstöðu bæði til að vita alla meginpunkta málsins, gat svipt hulunni af leyndarmálum þess og var einnig illur Nixon því hann hafði ekki skipað hann forstjóra FBI árið 1972. Honum var því ekki sárt um örlög forsetans. Felt hafði ekki tilkynnt Woodward og Bernstein um þá ákvörðun að afhjúpa sig en þeir höfðu í áranna rás reynt allt til að passa upp á að ekki yrði hægt að rekja slóðina.

Watergate-málið var gríðarlega umfangsmikið. Í það blönduðust forseti Bandaríkjanna og nánustu samstarfsmenn hans í ólöglegt athæfi og urðu að víkja vegna þess. Upplýsingarnar sem heimildarmaðurinn veitti urðu sönnunargögnin sem leiddu til þess að Nixon varð að segja að lokum af sér forsetaembættinu og valdakerfi hans hrundi til grunna lið fyrir lið.

Ljóst er að án heimildanna sem Deep Throat (Mark Felt) veitti hefði málið aldrei orðið þetta risamál bandarískrar stjórnmálasögu og Nixon forseti hefði getað setið á valdastóli út kjörtímabil sitt. Mark Felt á því heiður og hrós skilið fyrir sína framgöngu, ekki aðeins að koma upp um málið og líka að ljóstra upp um leyndarmálið mikla áður en hann dó.

Þeim sem vilja kynna sér málið hvet ég eindregið til að horfa á kvikmyndina All the President´s Men frá árinu 1976. Hún er ein af bestu myndunum sem blandar saman pólitík og sagnfræði. Allir þeir sem hafa gaman af skemmtilegum spennumyndum með sagnfræðilegu ívafi ættu að drífa í því að sjá þessa, hafi þeir ekki séð hana áður.

mbl.is „Deep Throat" látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrokafulli dómarinn

Allt frá því að ég sá fyrst American Idol, fyrir einhverjum fimm til sex árum síðan, hef ég átt mjög erfitt með að þola Simon Cowell. Skapköst hans hafa verið umtöluð og annaðhvort dýrkar fólk karakterinn eða gjörsamlega hatar hann út af lífinu, held ég. Hef oft spáð í hvernig meðdómurum hans, Paulu Abdul og Randy Jackson, hreinlega gangi að umbera hann. Simon er talin ein helsta stjarna þáttanna og fær fúlgur fjár fyrir dómarastörfin þar og í öðrum útgáfum ýmissa söngkeppna.

Simon þessi er þekktur fyrir að úthúða keppendum, stundum frekar harkalega og óvægið, og fer engan milliveg. Stundum hittir það í mark en oftar en ekki er orðaval hans niðrandi og kuldalegt fyrir þá sem hafa lagt mikið á sig að mæta, þó þeir séu kannski laglausir eða ekki beint sú súperstjarna sem þeir hafa haldið. Þunn lína er á milli þess að gagnrýnin sé uppbyggileg eða brýtur fólk hreinlega niður.

Fróðlegt verður að sjá hversu lengi American Idol og þessir helstu þættir sem þeim fylgja munu halda áfram frægðargöngu sinni. Hér heima vorum við með Idol um skeið á Stöð 2 og svo X-factor. Nú að koma Idol aftur á skjáinn. Spurning hvort verður fyrr úrelt, dómarinn hrokafulli eða formúla þáttanna.

mbl.is Engar breytingar á American Idol þrátt fyrir dauðsfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttaflutningur með súrum bandarískum keim

Mér finnst allt talið um Ásdísi Rán orðið svolítið hjáróma. Ég verð eiginlega að velta því fyrir mér hvaða erindi varir hennar eiga við landsmenn alla í fjölmiðlum. Mér finnst fréttaflutningurinn svolítið bera keim af nú-segjum-við-fréttir-um-fræga-fólkið umfjöllun. Er verið að breyta Ásdísi Rán í celeb-týpu á borð við Paris Hilton og Britney Spears?

Ætla að vona að svo sé ekki. Við þurfum ekkert á svona fréttaflutningi að halda hér heima á Fróni. Þetta er ekkert annað en froða, fréttaflutningur með súrum bandarískum keim.

mbl.is Varir Ásdísar Ránar eru á allra vörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamleg ákvörðun - Tryggva ekki vært í LÍ

Ég fagna þeirri ákvörðun Tryggva Jónssonar að hætta störfum í Landsbankanum. Honum var ekki vært þar og varð að taka af skarið og labba út áður en honum yrði hreinlega vikið frá störfum vegna óánægju landsmanna. Ómögulegt er fyrir bankann að sitja undir því að maður svo nátengdur umdeildum útrásarvíkingum sé á þessum stað og mun aðeins vekja óánægju og kynda undir kjaftasögur um að spillingin kraumaði þar undir og Tryggvi væri að búa í haginn fyrir vini sína með vistinni í bankanum.

Í gærkvöldi kom fram svo ekki verður um villst að sögusagnir um náin tengsl Tryggva við Baugsmenn á við rök að styðjast og er engin kjaftasaga. Mér hefði fundist meiri sómi að því fyrir Tryggva að koma hreint fram og segja frá nánum tengslum sínum við þessa menn frekar en reyna að breiða yfir það með aumu orðagjálfri. Eftir þá frétt var honum varla sætt í þessari stöðu og eðlilegast að hann sjái það sjálfur frekar en aðrir taki þá ákvörðun fyrir hann.


mbl.is Tryggvi hættur í Landsbankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleður það einhverja að ráðist sé á útrásarvíkinga?

Mikill hiti er í samfélaginu og hefur verið að stigmagnast undanfarna mánuði. Aðallega hefur verið ráðist að stjórnmálamönnum en nú virðist sem reiðin beinist að útrásarvíkingunum. Árás mótmælendanna á Jón Ásgeir Jóhannesson er gott dæmi um þetta og væntanlega má búast við að einhverjir vera ófeimnir að sýna skap sitt ef þeir sjá þessa menn. Einn helsti mótmælandinn sem veittist að Jóni segist hafa fengið mikla frelsistilfinningu við að kasta snjóbolta í hausinn á honum. Væntanlega getur svo farið að ofbeldi verði lausnin fyrir þá sem eru reiðir og sárir núna.

Ég held að það sé full þörf á því að velta fyrir sér hversu mikil lausn ofbeldi er í þessari stöðu. Gleður það okkur að ráðist sé á auðmennina, útrásarvíkingana sjálfa, sem við vorum alltof mörg með glýjuna í augunum fyrir áður fyrr? Er ofbeldi gegn þeim besta lausnin? Ljótt er ef satt er. En kannski þarf maður ekki að vera hissa á því að einhverjir hugsi sem svo að ofbeldi sé rétta lausnin eða refsing fyrir þá sem settu landsmenn á hausinn.

Ég er á þeirri skoðun að reiði landsmanna hafi fyrst beinst á vitlausan stað. Auðvitað er eðlilegt að landsmenn séu reiðir út í þessa fjárplógsmenn sem tóku áhættuna og spiluðu með okkur öll. Slíkt er eðlilegt. En það á að refsa þeim eðlilega, taka á málum þeirra. Kannski er stóra ástæðan fyrir grimmdinni og reiðinni, sem sást við 101 Hótel í dag þar sem ráðist var að Jóni og með mótmælunum í Landsbankanum, að fólk telur hina seku vera að sleppa.

Fólk kallar fyrst og fremst eftir réttlæti og gerð verði reikningsskil þess sem gert var. Slík krafa er eðlileg og er mikilvægt að hún verði að veruleika.


mbl.is Veist að Jóni Ásgeiri í miðbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðsúgur gerður að Jóni Ásgeiri við 101 Hótel

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, varð fyrir aðsúg við 101 Hótel í miðbæ Reykjavíkur í dag og munaði litlu að kæmi til átaka milli hans og mótmælenda sem sóttu að honum. Öskrað var á Jón Ásgeir og reynt að slá til hans. Komst undan með naumindum í bifreið sinni, eftir því sem ég heyrði áðan, en ég fékk tölvupóst frá manni sem heyrði af þessu og sá til.

Ólgan í samfélaginu er greinilega farin að beinast að auðmönnunum og bönkunum, mun frekar en stjórnmálamönnum, enda mun frekar hægt að benda á tengsl þeirra við hrunið í gegnum útrásina. Óánægja almennings er vissulega mjög skiljanleg og ekki undarlegt að sú gremja beinist að útrásarvíkingunum, þó ekki sé gott ef þau verða mjög ofbeldisfull.

Þessi óánægja er þó til marks um þá deiglu sem á sér stað í umræðunni, þar sem sífellt fleiri beina gremjunni að auðmönnum sem hafa skuldsett þjóðina.


Þjónað hagsmunum eigendanna á Baugsblöðum

Mér finnst óhugnanlegt að sjá inn í kviku þess sem hefur gerst á dagblöðum í eigu Baugsmanna. Þar hefur verið setið á mikilvægum gögnum og upplýsingum, allt til að þjóna hagsmunum eigendanna. Engu er líkara en eigendurnir hafi haft ritstjóra og yfirmanna blaðanna í vasanum og fylgst með eða gefið skipanir um það sem gert var á ritstjórnarskrifstofum í mikilvægri og heiðarlegri fréttaumfjöllun. Þar hafi verið unnið eftir rörsýn eigendanna.

Þetta er grafalvarlegt mál og þarf að fara yfir svo þessir fjölmiðlar hafi einhvern trúverðugleika og hlutverk fyrir lesendur úr að spila en verði ekki endanlega stimplaðir sem áróðursmaskína eigenda sinna. Síðustu árin hefur það verið mjög hávær orðrómur en það virðist staðfest með uppljóstrunum blaðamanna sem fengu nóg af ofríkinu og ritskoðuninni á ritstjórnarkontór. Vonandi munu fleiri láta samviskuna ráða og segja frá vinnubrögðunum.

mbl.is Fyrrum blaðamaður DV segist hafa sætt ritskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beinast mótmælin nú að réttum aðilum?

Ég er ekki hissa á því að fólk mótmæli í bönkunum. Er eiginlega mest hissa á að það hafi ekki gerst fyrr en rúmum tveimur mánuðum eftir bankahrunið. Mikilvægt er að mótmæla því að þar sitji stjórnendur frá liðnum tímum og umdeildir menn sem hafa verið dæmdir fyrir alvarleg brot, nátengdir mönnum sem hafa verið umdeildir og eru lykilmenn í falli þjóðarinnar.

Ég held að atburðir síðustu daga hafi opnað augu margra fyrir því bankakerfið er rotið og fjölmiðlarnir líka, sem hafa bara þjónað duttlungum auðmanna úti í bæ, eigenda sinna og vina þeirra.

Þessu er mikilvægt að mótmæla og bankarnir eru góður staður til að tjá skoðanir sínar, meðan spillingin og blekkingin heldur áfram að grassera.

mbl.is Jón Gerald mótmælir í Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu eigendur DV bera blak af Reyni áfram?

Mér finnst það táknrænt að maðurinn með hattinn sem hefur í leiðaraskrifum sínum kallað eftir ábyrgð þeirra sem fara illa með vald sitt ætli að sitja sjálfur sem fastast eftir að hafa logið upp á blaðamann undir sinni stjórn og látið stjórnast af duttlungum auðmanna úti í bæ. Enn svarar Reynir engu um það hver stjórnaði honum í Sigurjónsmálinu, fékk hann til að ljúga framan í þjóðina í gær. Aumar afsakanir hafa ekkert að segja. Tala þarf hreint út og fara yfir það lið fyrir lið hver stjórnaði ritstjóranum með valdboðum og skipunum og hvort og þá hversu oft það hafi gerst áður.

Eigendur DV virðast bera blak af ritstjóranum og halda fast í hann. Svo virðist allavega vera. Traust starfsmannanna er allavega ekkert, engin er stuðningsyfirlýsingin, en heldur ekki vantraustið þó virðist vera að það bresti á með því að menn gangi út. Þegar er einn farinn, lét ekki bjóða sér vinnubrögðin. Er ekki hissa á því. Sómakært fólk lætur örugglega ekki fara illa með sig þegar þeir sjá að yfirmaður þeirra reyndi að gera út af við æru samstarfsmanns.

En hversu lengi mun það standa? Fjölmiðill er bara orð á blaði en ekki sterkt afl í raun ef trúverðugleikinn er enginn.

mbl.is Reynir biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband