Er eitthvað fyndið við dánartilkynningu?

Ég get ekki séð hvaða húmor eða gamansemi er í því að búa til dánartilkynningu um vini sína eða félaga, hvað þá einhverja sem maður þekkir ekki. Frekar er það dökkur húmor allavega. Myndi fólk almennt búa til svona og senda í blöðin nema fyrir því sé þá einhver tilgangur? Ég hallast að því. Þetta á auðvitað ekki að flokka sem grín, nema þá sem mjög sjúkt og ógeðslegt.

Kannski finnst einhverjum eðlilegt að grínast með dánartilkynningar og geta hugsað sér að setja upp í sorgarramma mynd og nafn einhvers en fara með það í blöðin er siðlaust. Hreint út sagt.

mbl.is Grín sem gekk of langt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjárlagafrumvarp í móðu - erfiðar ákvarðanir

Mikið er það nú gott að fjárlagafrumvarpið í skugga hinnar erfiðu stöðu þjóðarinnar sé loksins komið fram, þó vissulega sé það enn í mikilli móðu þess á eftir að gerast næstu mánuði. Frumvarpið sem lagt var fram fyrir tveim mánuðum er orðið að fornleifum og var blásið út af borðinu í raun örskotsstundu eftir að það var lagt fram. Sem hægrimanni er frekar óþægilegt að horfast í augu við útsvars- og tekjuskattshækkun. Skilaboðin eru einföld: við berum byrðarnar.

Kjaftasagan segir þó að þetta sé aðeins fyrsta skrefið á langri leið og búast megi við uppstokkun á frumvarpinu þegar líður á næsta ár. Sjaldan hefur fjárlagafrumvarpið verið heilagt og í vinnslu í raun allt árið. Plaggið sem samþykkt er í árslok ár hvert breytist jafnan talsvert og öruggt má teljast að sú verði raunin með þetta.

mbl.is Tekjuskattur og útsvar hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni Ben helgar stjórnmálum krafta sína

Bjarni Benediktsson
Ég fagna þeirri ákvörðun Bjarna Benediktssonar að fara úr stjórnum N1 og BNT til að stefna að meiri frama í pólitískri baráttu. Ég hef verið þeirrar skoðunar um nokkuð skeið að Bjarni sé einn af framtíðarforingjum Sjálfstæðisflokksins og ég mun styðja hann heilshugar til að taka það hlutverk að sér þegar að því kemur. Mikilvægt er að hann sendi þessi skilaboð út á þessum tímum, skilið verði á milli pólitískra verkefna og því sem gert er úti í bæ, utan stjórnmálabaráttu.

Auk þess er hann af þeim kalíber að fengur er að því fyrir flokkinn að ljóst sé að pólitísk barátta er í framtíðaráætlunum hans. Nú þegar full þörf er á endurnýjun víða, einkum í pólitíkinni, er þetta vissulega góð ákvörðun.

 


mbl.is Bjarni úr stjórnum N1 og BNT
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veik staða Lúðvíks - óánægja Samfylkingarfólks

Ég heyri mikla óánægju Samfylkingarfólks með frammistöðu Björgvins G. Sigurðssonar og Lúðvíks Bergvinssonar í fjölmiðlum í gær - efasemdir vakna meðal þeirra hvort Samfylkingin sé lengur traustsins verð. Auðvitað er það rétt að Lúðvík framdi allt að því pólitískt sjálfsmorð í Kastljósi í gærkvöldi. Verri frammistöðu man maður varla eftir hjá pólitískt kjörnum fulltrúa í umræðuþætti. Hann var hreinlega skelfilega dapur og allt að því steinsofandi fyrir staðreyndum, hvort sem hann vildi ekki sjá það eða forðaðist grunnforsendur málsins.

Sumir sem ég hef heyrt í og eða lesið skrif eftir eru æfir vegna þess hvernig Samfylkingin virðist vera hemill á rannsókn bankahrunsins og ekki náð að tækla þessi mál. Eftir tvo mánuði er enn deilt um rannsóknargögn og viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar virðist annað hvort sofandi á verðinum eða í besta falli horfir á atburðarásina án þess að segja eða gera neitt. Traustið á honum fer þverrandi og forysta Samfylkingarinnar dregst í svaðið með.

Hversu langt er þar til óánægjan verður almenn. Þegar traust Samfylkingarfólk er farið að formæla flokknum sínum á netinu og bæði Lúðvíki og Björgvini er langt gengið. Svo er rifjað upp að Lúðvík hafi verið eini stjórnmálamaðurinn sem var gestur á hinni frægu snekkju Thee Viking. Jón Gerald Sullenberger hefur gefið það sterklega í skyn altént.

Sú snekkjuferð og næturfundur viðskiptaráðherrans með BaugsJóni verður allavega merkilegra í minningunni hafandi allt sem hefur gerst síðan í huga.


mbl.is Fjármálaeftirlitið í Lúxemborg vill veita upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skandall í Chicago - Obama vill afsögn Blago

Blago og Obama
Ég er ekki hissa á því að Barack Obama hafi farið fram á afsögn Rod Blagojevich. Skandallinn kringum hann skaðar stórlega Obama og Demókrataflokkinn almennt á meðan hann situr í embætti og hefur valdið til að skipa eftirmann Obama í öldungadeildinni. Auðvitað er ótrúlegt til þess að hugsa að hann hefði getað skipað öldungadeildarþingmann úr fangelsinu í gær og hefði haft til þess full völd og pólitíska stöðu. Hver dagur sem Blago situr í embætti í viðbót með sín miklu pólitísku völd dregur hann Obama með sér í svaðið - demókratar verða að losa sig við hann úr embætti.

Í gær ætlaði Obama að slá sér upp með blaðamannafundi þar sem Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna og sá sem fékk flest atkvæði í forsetakosningunum 2000 án þess þó að verða forseti nokkru sinni, var gestur hans ásamt Joe Biden, verðandi varaforseta. Umræðuefnið var loftslagsmál og mikið talað um hvort Gore yrði hluti af ríkisstjórninni. Svo varð ekki. Ekkert var talað um loftslagsmálin en í staðinn varð Obama að svara spurningaflaumi um Blago og pólitíska spillingu hans. Gore sat til hliðar eins og illa gerður hlutur, var sannarlega á röngum stað á röngum tíma sýndist manni.

Allt frá kjördegi 4. nóvember hefur Obama verið í pólitískri sæluvímu, haft sterka stöðu og raðað upp ráðherrum sínum og undirbúið valdaskiptin eftir tæpar sex vikur. Hann hefur sótt sér mun meiri áhrif en aðrir kjörnir forsetar í biðinni eftir forsetastólnum frá kjördegi til embættisskiptanna. Í raun hefur atburðarásin í Chicago minnt meira á það sem ætti að gerast í Washington. Hlutverk Obama er mjög mikið og áhrifamáttur hans óumdeildur þó formlega sé hann ekki orðinn forseti Bandaríkjanna.

Spilling Blago varpar skugga á það verk og skaðar forsetann verðandi. Hann verður að fjarlægja sig honum fljótt og fumlaust eigi hann ekki að skaðast á þessum skandal sjálfur og það meira að segja áður en hann verður forseti. Því verða demókratar í Illinois að höfða mál til embættismissis gegn Blago og svipta hann völdum til að skipa í þingsætið.

mbl.is Reynt að tengja Obama við ríkisstjórahneykslið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðlaus og ósmekkleg dánartilkynning


Ég held að það sé ekki hægt að vera ósmekklegri en standa fyrir þeim verknaði að senda inn dánartilkynningu í Morgunblaðið með mynd og nafni af lifandi manni og ætla að reyna að fá peninga út úr því. Sumir fara greinilega ótroðnar slóðir til að reyna að ná sér í pening. Þetta er líka skellur fyrir Morgunblaðið sem birtir þessar tilkynningar án þess að kynna sér auðvitað hvort viðkomandi einstaklingur sé látinn. Þó ætti það reyndar varla að þurfa, þar sem auglýsingin kostar rúmlega 10.000 krónur.

En þetta er lágkúra af verstu sort. Ekki hægt að segja annað.

mbl.is Auglýsti andlát samfanga síns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigum við að trúa hverju sem er?

Ætli ég sé nokkuð einn um að finnast óeðlilegt að fylgjast með því hvernig hjónin í Next aðlöguðu reglurnar að sjálfum sér og eignuðust verslanirnar aftur þrátt fyrir að hafa farið í þrot. Kannski er þetta skólabókardæmi að sama hvernig fari í rekstri sé hægt að halda leiknum áfram, fara í hring eftir hring og leika sér að reglunum og aðstæðum á markaði. Þetta er auðvitað óttalegur hráskinnaleikur en hann hefur sjaldan ef aldrei verið táknrænni en nú í bankahruninu.

Ekki er undarlegt að stór hluti landsmanna sé óttasleginn yfir því að þeir sem sigldu þessari þjóð í strand muni rísa upp öflugri sem aldrei fyrr, eins og karlar í tölvuleik. Nóg sé að ýta á start-takkann á lyklaborðinu og þá byrji leikurinn aftur frá byrjun, kannski enn kuldalegri og meira ógnvekjandi en áður. Kuldaleg tilhugsun.

mbl.is Next vildi þau eða ekkert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógnvekjandi há tala horfinna í Ríó

Mannshvörf eru vissulega alltaf dularfull. Mér finnst samt í meira lagi sorglegt og nöturlegt við þá staðreynd að 9.000 manns, sem er eitthvað svipað og býr í Garðabæ, hafi horfið í Ríó de Janeiro á innan við tveimur árum. Er ekki hissa á því að vakin sé athygli á þeirri staðreynd með svo myndrænum og traustum hætti og gert var á Copacabana-ströndinni.

Kannski finnst einhverjum þetta dropi í hafið í fjölmennu landi, en þessi gjörningur hlýtur að vekja fólk til umhugsunar. Oft getur myndrænn gjörningur sagt meira en mörg orð og það á sannarlega við í þessu tilfelli.

mbl.is 9000 horfnir á tveimur árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Björgvin trúverðugur sem viðskiptaráðherra?

Björgvin G. Sigurðsson
Ég á mjög erfitt með að trúa því að Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hafi ekki vitað um að KPMG hafi verið fengið til verkefna fyrir skilanefndina í Glitni. Eigum við að trúa hverju sem er? Annað hvort er maðurinn ekki starfi sínu vaxinn eða er vísvitandi að fara með rangt mál. Er ekki lágmarkskrafa til ráðherra sem fer með bankamál að hann sé upplýstur um lykilmál sín eða hafi allavega vit á að fylgja þeim eftir. Þetta er ekki trúverðugt og alveg lágmark að fram komi hvers vegna þessi ráðherra virðist hafa verið steinsofandi svo mánuðum skiptir eða segist vera það.

Þegar hefur komið fram að Björgvin var ekki upplýstur um gang mála af Ingibjörgu Sólrúnu og Össuri Skarphéðinssyni, sem var æðstráðandi ráðherra Samfylkingarinnar meðan Ingibjörg Sólrún var fjarverandi vegna veikinda sinna, í mjög mikilvægum málum. Ofan á allt annað upplýsti hann svo um daginn að engin samskipti hafi verið milli hans og Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra. Með því gróf hann stórlega undan trúverðugleika sínum, enda var ekkert síður upp á hann komið með að halda samskiptum við Seðlabankann. Ekki getur það allt skrifast á bankastjórana.

Björgvin virkar ekki lengur trúverðugur, fjarri því. Því miður. Þau eru orðin of mörg málin þar sem hann er ekki með á hlutina eða veit ekki hvernig skal tækla þá. Þetta nýjasta mál með KPMG er svo stórt í sniðum að spurningar vakna um hvort hann sé í raun starfi sínu vaxinn. Að ráðherra bankamála hafi ekki vit á því sem gerist eftir tveggja mánaða vinnu er stórlega ámælisvert.

mbl.is Björgvin vissi ekki um KPMG fyrr en í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fara Bjarni og Guðlaugur fram gegn Þorgerði?

Þorgerður Katrín og Geir
Kjaftasögurnar segja að staða Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, sé ótrygg um þessar mundir enda talað um að bæði Bjarni Benediktsson og Guðlaugur Þór Þórðarson hugleiði varaformannsframboð gegn henni á landsfundi eftir fimmtíu daga. Fari þeir báðir fram verður mikil barátta á landsfundinum, ekki síður um forystuna en Evrópumálin, en stefnt hefur í það um skeið að þar verði mikil átök milli fylkinga um stefnu flokksins í málaflokknum.

Staða Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, sem formanns Sjálfstæðisflokksins, þykir mjög trygg þrátt fyrir allt sem á undan hefur gengið, þó búist sé við að hann fái veikari kosningu nú en á landsfundi í aðdraganda kosninganna 2007. Mótframboð gegn honum er mjög ólíklegt. Annað er talið gilda um Þorgerði sem er mjög umdeild í flokknum, sérstaklega vegna yfirlýsinga um Evrópumálin.

Talið er ósennilegt að aðrir en þingmennirnir tveir geti ógnað stöðu hennar. Mun líklegra sé að átök verði um varaformennskuna nú en á landsfundi í aðdraganda næstu kosninga, hvenær svo sem þær verða, þó telja megi öruggt að þær verði mun fyrr en áður var áætlað.

Spillingin í Illinois - Blago fellur á eigin bragði

Blago og Obama
Þó pólitísk spilling hafi löngum loðað við í Illinois, heimaríki Obama, verðandi Bandaríkjaforseta, vonuðust flestir eftir því að forsetakjörið myndi marka nýtt upphaf. Spilltu demókratarefirnir í Illinois halda þó uppteknum hætti og valda þeim vonbrigðum sem töldu nýja tíma framundan í bandarískum stjórnmálum með flutningi Obama í Hvíta húsið og reyna nú að selja þingsætið hans fyrir pólitísk áhrif og bitlinga fyrir sjálfa sig.

Þetta vekur auðvitað spurningar um hversu tengdur Barack Obama hefur verið þessu litrófi og hverjir hagnast í raun og veru mest á forsetakjöri hans. Flagð er undir fögru skinni. Kannski er þó ekki rétt að líkja Obama við hinn spillta ríkisstjóra Illinois, Rod Blagojevich, sem mælist varla með neinn pólitískan stuðning nú vegna vinnubragða sinna og spilltra stjórnunarhátta. En hann er ekki einn um það.

Blago fellur á sínu bragði og mun vonandi ekki geta valið eftirmann Obama í öldungadeildina og er rakleitt á leið í fangelsi. Blago er ekki hótinu skárri en Ted Stevens, hinn dæmdi repúblikanaþingmaður sem missti sætið sitt. Vonandi er að Blago fái sömu útreið og komið verði upp um spilltu pólitíkina sem hefur viðgengist í heimaríki hins verðandi forseta.

mbl.is Reyndi að selja þingsæti Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öll gögn upp á borðið sem allra fyrst

Ekki kemur annað til greina en öll gögn sem tengjast bankahruninu verði lögð fram og farið yfir allt málið í samhengi. Auðvitað á það ekki að vera valkostur að einhver gögn verði undanskilin og ekki tekin með í rannsókninni. Almenningur mun ekki taka rannsóknina gilda eða viðurkenna niðurstöðuna nema kafað verði ofan í allt í þessu máli. Ef skilanefndirnar geta ekki virt að skattrannsóknarstjóri fái aðgang að þeim eiga þær skilyrðislaust að víkja.

Nóg er komið af leyndarhjúp í þessu máli og forgangskrafa að allt verði gert upp og enginn vottur af leynd sé til staðar. Fólk hefur fengið nóg af þessu laumuspili.

mbl.is Fær ekki gögn um dótturfélög bankanna í Lúxemborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringekjan heldur áfram að snúast áreynslulaust

Ég finn mjög vel að landsmenn óttast það mest af öllu að hringekja fáránleikans haldi áfram að snúast í íslensku viðskiptalífi áreynslulaust - þeir sem áttu rekstur og fóru á hausinn fái hann upp í hendurnar átakalaust. Þeir sem óttast það fá allavega góðan málstað í hendurnar með fréttirnar af Noa Noa og Next, þar sem eigendurnir kaupa reksturinn úr þrotabúinu.

Mikið er talað um að þetta geti ekki gerst og allt verði gert til að koma í veg fyrir það. Vel má vera. Veit ekki hvort allt það sem sagt er telst heiðarlegt. En svona fréttir auka ekki tiltrú almennings á þeim sem eiga að halda á málum. Þvert á móti. Traustið aðeins minnkar.

Nýtt Ísland verður ekki reist með trúverðugum hætti ef þetta verður ásýnd þess - að við vöknum upp í sama samfélaginu eftir tæpt ár þar sem stóreignamenn sem fóru á hausinn verða komnir með sömu hlutverk og sömu stælana og hafa ekki lært neitt.

mbl.is Next og Noa Noa aftur í eigu sömu hjóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öryggi ráðamanna - engin friðsöm mótmæli

Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að mótmæli stjórnleysingja undanfarna daga hafi eyðilagt friðsöm mótmæli þeirra sem hafa mætt á Austurvöll og hér á Akureyri undanfarna laugardaga kl. 15:00 og tjáð skoðanir sínar fordómalaust. Ef þeir sem mótmæla við þinghúsið og ráðherrabústaðinn telja þetta réttu leiðina eru þeir á mjög miklum villigötum. En kannski var ekki við öðru að búast. Þegar þeir hafa eyðilagt friðsömu mótmælin kemur innra eðli þeirra sem geta ekki mótmælt friðsamlega í ljós. Eftir standa einhverjir leifar af Kárahnjúkamótmælum.

Eina sem næst fram með þessum mótmælum er að öryggi ráðamanna verður hert og aðgangur að alþingishúsinu verður skertur og öryggisgæslan aukin til mikilla muna. Sennilega eru þeir tímar bráðum liðnir að hægt sé að fara á þingpalla án þess að fylgst sé með komu þeirra sérstaklega. Ég veit að ekki vildi ég vera alþingismaður eftir lætin í gær án þess að tekið væri á málum þar. Varnarleysi þeirra sem fara með völd og sitja fundi í þingsal hér er allt í einu orðið mál sem þarf að taka á. Þetta má nefnilega ekki gerast.

Ég sá að fjöldi þingmanna var skelkaður yfir látunum í gær. Held að margir þeir sem starfa þar séu hugsi. Öryggi þeirra hefur eiginlega varla verið tryggt að neinu leyti hingað til og sama gildir um þá sem gegna valdamiklum embættum. Fyrst á þessu hausti og framan af vetri eru ráðamenn með einhverja öryggisverði á eftir sér og passað upp á öryggi þeirra. Þetta er sennilega það sem koma skal núna.

mbl.is Átök við Ráðherrabústaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er verkalýðshreyfingin rúin trausti almennings?

Greinilegt er að mesta pressan færðist frá ráðherrum yfir á verkalýðsforingjana á borgarafundi í kvöld, sem var nokkuð fámennari en fundurinn sem var í beinni sjónvarpsútsendingu fyrir hálfum mánuði og var mjög eftirminnilegur að öllu leyti. Nú var fundinum hvorki útvarpað né sjónvarpað og er sennilega til marks um að fjölmiðlar telja mótmælin vera að lognast út af og skipta minna máli, enda fókusinn orðinn annar. Ég skynja ólgu meðal almennings í garð þeirra sem eiga að gæta réttinda almennings.

Sennilega er ekki óvarlegt að tala um að hún sé rúin trausti miðað við fjölda ummæla um hana. Mér fannst reyndar stórmerkilegt að þingfulltrúar á þingi ASÍ valdi frekar að kjósa hagfræðing á kontórnum sem forseta sinn og verkalýðsleiðtoga heldur en margreynda konu úr bransanum í áraraðir, sem hafði verið varaforseti og þekkti verkalýðsbaráttuna af eigin raun úr starfi sínu og félagsþátttöku. Kjaftasagan segir að vinstrimenn hafi ekki treyst henni því hún var til hægri og horfðu framhjár reynslunni.

Sama fólkið, eða altént félagsmenn í verkalýðshreyfingunni, virðast nú vera komnir í allt að því stríð og baráttu gegn forseta sínum. Kannski er þetta fylgifiskur þess að velja ekki reynslujaxla úr verkalýðsbaráttunni til forystu en taka þess í stað kontórista í djobbið. En kannski eru tímarnir aðrir. Þeir tímar eru sennilega liðnir þegar menn eins og Gvendur jaki var í fylkingarbrjósti. Ætli að það hafi ekki orðið þáttaskil þegar hann hvarf af sviðinu. Síðan hefur líka mjög róast yfir þeim sem leiða starfið.

Kannski svíður almenningi meira að verkalýðshreyfingin sé bitlaus frekar en stjórnmálamennirnir. Sé fyrrnefndi hópurinn ekki að standa sig er barátta fjöldans bitlaus. Kannski hefur hún verið það um áraraðir en fólkið sé fyrst að vakna upp við það núna.

mbl.is Hiti í fólki í Háskólabíói
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármálaeftirlitið skrifar upp á viðskipti Birnu

Einhvern veginn kom mér það ekki að óvörum að Fjármálaeftirlitið myndi skrifa upp á viðskipti Birnu Einarsdóttur í Glitni. Mér hefur fundist um nokkuð skeið að Fjármálaeftirlitið sé gjörsamlega steinsofandi stofnun sem er varla trúandi fyrir neinum hlut og hefur á sér merki sofandagangs og seinheppni í eftirlitshlutverki sínu. Nýjasta verkið sem felst í því að fela KPMG að fara yfir bankana og það sem gerðist þar er svo fyrir neðan allt að ekki er hægt að una við það.

Á sama hátt og saksóknararnir tveir voru ekki færir um að fara yfir þau mál er varla hægt að horfa til KPMG sem skrifaði upp á reikninga sumra útrásarfyrirtækjanna og verk þeirra og vegna tengsla forstjóra KPMG við forstjóra Stoða, svo fátt eitt sé nefnt. Mér finnst það ábyrgðarhluti að svona sé unnið og það er ekki hægt að una við það.

Ég veit ekki hvað skal halda um Birnu og viðskipti hennar. En þetta mál er á svo gráu svæði að það vekur fleiri spurningar en þetta hvítvottorð svarar í sjálfu sér. En Fjármálaeftirlitið er hætt að koma á óvart fyrir löngu. Þjóðin hefur algjörlega misst trúna á að það geti verið sá eftirlitsaðili sem fellir óháða dóma og tekur virkilega til.

mbl.is FME aðhefst ekki vegna viðskipta Birnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrílslæti í Alþingishúsinu

Ég get ekki sagt að mér finnist mikill sómi að því að vera með skrílslæti í þinghúsinu. Slíkt verður aðeins túlkað sem vanvirðing við þinghúsið og starfið sem þar fer fram. Allir sem eiga sæti á þingi hafa hlotið umboð þjóðarinnar og verið kjörnir til starfa og hafa fullan seturétt þar. Mótmæli gegn þeim sem þjóðin hefur kosið verður aldrei túlkað nema sem vanhugsuð framkvæmd. Allt í lagi er að tjá skoðanir sínar og hafa mótmæli með siðsamlegum mörkum en þetta fer yfir þau mörk og gott betur en það.

Mér finnst svolítið skrítið að sjá svona týpu af mótmælum þegar krónan styrkist dag frá degi og bensínverðið lækkar frá degi til dags. Hverju er þetta fólk eiginlega að mótmæla? Er þetta að snúast upp í Kárahnjúkamótmæli í Reykjavík? Mér sýnist það og líka satt best að segja ekki við þá þróun. Er þetta kannski mótmælin sem Hörður Torfason var að gefa í skyn eða er þetta algjörlega á ábyrgð nokkurra einstaklinga sem aðhyllast stjórnleysi og telja sæmilegt að mótmæla án ábyrgðar?

Mér er svosem sama. Svo er fólkið hissa á að lögreglan beiti valdi. Hver haldið þið að viðbrögðin hafi verið ef þetta gerðist í þinghúsinu í Washington eða London? Ég man þegar ég fór í þinghúsið í Washington fyrir nokkrum árum að fjögur til fimm öryggishlið voru á leiðinni frá Cannon-byggingunni yfir í þinghúsið og engum hleypt þar inn nema með passa. Við megum þakka fyrir að geta þó farið í þinghúsið okkar og fylgst þar með.

Ég held að það sé allt að því einsdæmi að fólk geti gengið beint inn í þinghúsið sitt og fylgst með umræðum og verið í sjónlínu við þingmennina sína í þingsal.


mbl.is Þingfundur hafinn á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama fórnar símanum, sígarettum og netfanginu

obama1
Ljóst er nú orðið að fórnarkostnaðurinn fyrir Barack Obama, verðandi forseta Bandaríkjanna, við flutninginn í Hvíta húsinu verður að láta af hendi Blackberry-símann sinn, hætta að reykja og senda tölvupóst. Obama sást varla án Blackberry-símans síns í kosningabaráttunni, notaði hann meira að segja þegar dætur hans voru að keppa í íþróttum og á löngum flugferðum vítt og breitt um Bandaríkin, auk þess að vera með hann á sér á kosningafundum og stuðningsmannasamkomum. Ekki er hefð fyrir því að forsetar hafi farsíma og mun Obama ætla að beygja sig undir ægivald leyniþjónustunnar í þeim efnum.

Nokkrir forsetaframbjóðendur töluðu mikið um það að þeir sendu ekki tölvupóst. George W. Bush sagði í kosningabaráttunni 2000 að hann væri ekki með netfang og hann hefur alveg örugglega ekki komið sér upp einu slíku í Hvíta húsinu. Að sögn gárunga sagði Al Gore eitt sinn að hann hefði fundið upp internetið svo hann hefur örugglega verið með netfang á árum sínum í Hvíta húsinu. Bill Clinton notaði ekki tölvupóst á árum sínum í Hvíta húsinu. John Kerry spurði eitt sinn á fundi fyrir reyndar þónokkuð löngu hvað þetta at-merki þýddi eiginlega.

Barack Obama var með mjög tæknivædda kosningabaráttu og ætlaði sér að nota netfang í Hvíta húsinu, en hefur sætt sig við boð leyniþjónustunnar um að gefa það eftir við flutninginn í Hvíta húsið. Hann hefur því engan einkapóst eftir 20. janúar en í staðinn munu skrifstofufólk hans fara yfir allt sem kemur til hans í gegnum póstinn á vefsíðu Hvíta hússins, rétt eins og var á dögum Clintons og Bush yngri. Eitt er þó ljóst: Obama mun væntanlega flytja vikulegt forsetaávarp sitt á netinu og hefur þegar byrjað á því eftir kosningasigurinn.

Og svo eru það reykingarnar. Obama ætlar að hætta að reykja endanlega við flutninginn en hefur átt erfitt með að gefa þann ósið upp á bátinn. Kjaftasögurnar segja að hann hafi lofað dætrunum og eiginkonunni að hætta að reykja ef hann yrði forseti, auk þess að gefa dætrunum hund. Hvort hann muni standast freistinguna að reykja ekki utan hins reyklausa Hvíta húss verður svo að koma í ljós.

En hver segir svo að það sé tekið út með sældinni að flytjast í 1600 Pennsylvaníu-stræti? Meira að segja valdamesti maður heims verður að gefa eftir það sem öðrum þykir sjálfsagt og sætta sig við að leyniþjónustan hefur sín boð og bönn fyrir yfirmann sinn.

mbl.is Obama lofar að reykja ekki í Hvíta húsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sunny Von Bulow deyr eftir 28 ára dásvefn

Von Bulow-hjónin í túlkun Glenn Close og Jeremy Irons
Jæja, þá er Sunny Von Bulow látin eftir 28 ára dásvefn. Forðum var sú tíð að hún var miðpunkturinn í einu umdeildasta sakamáli síðustu áratuga í Bandaríkjunum. Lögmanninum Alan Dershowitz tókst þá að fá eiginmann hennar, greifann Claus Von Bulow, sýknaðan rétt eins og OJ Simpson nokkru síðar. Von Bulow var sakaður um að hafa reynt að drepa eiginkonuna, það hafi mistekist en hún hafi verið kálfóður á eftir.

Sagan af þessu umdeilda sakamáli var rakin í hinni eftirminnilegu kvikmynd Reversal of Fortune, en Jeremy Irons hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á greifanum Claus. Það er rosalega sterk og öflug mynd, sem fer yfir málið með heilsteyptum hætti. Fyrst og fremst fjallar myndin auðvitað um eftirmála þess að Sunny féll í dá en um leið aðrar hliðar málsins þar sem skyggnst er inn í það frá ólíkum hliðum.

Deilt var um hvort að Sunny hefði reynt sjálfsvíg eða verið reynt að drepa hana. Hún var sprautuð með of stórum skammti af insúlini, en hún var sykursjúk. Enn er stóru spurningunni ósvarað hvers eðlis þetta allt var. Myndin varð mjög rómuð, sérstaklega fyrir flashback-atriðin þar sem sett eru bæði tilfellin á svið, hvort um morðtilraun eða sjálfsvígstilraun var að ræða.

Virkilega vandað allt og myndin býður lesandanum fjölbreytt sjónarhorn á málið. Það sem er einna merkilegast við myndina er hiklaust að Sunny, í gríðarlega góðri túlkun Glenn Close er sjálf sett sem sögumaður við upphaf og endi myndarinnar. Þar eru engir dómar felldir yfir því hvort sé rétt heldur málið allt sýnt og áhorfandinn dæmir sjálfur.

Ég man þegar að ég sá myndina fyrst í bíó fyrir sextan árum, mikil upplifun. Keypti mér hana svo fyrir nokkrum árum og upplifði hana aftur. Sterk mynd í frásögn og túlkun aðalleikaranna. Jeremy Irons átti stórleik ferilsins í hlutverki hefðarmannsins Claus sem bæði er sýndur sem snobbaður aðalsmaður og kuldalegur eiginmaður, en það er vægt til orða tekið að sambúð þeirra var við frostmark þegar að Sunny féll í dáið.

Mæli með þessari mynd. Leikurinn er hreinasta afbragð og myndin eldist vel - þar getur áhorfandinn sjálfur metið málið án þess að niðurstaðan sé gefin í skyn eða tjáð einhliða.

mbl.is Martha von Bülow látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bruðlað á Bessastöðum - eyðsla úr hófi fram

org2008
Mér finnst tilraun forsetaembættisins til að slá á umræðuna um bruðlið á Bessastöðum, sem fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2, í besta falli vera mjög vandræðaleg. Ekki verður því neitað að mikið bruðl er hjá forsetaembættinu, sé mið tekið af yfirbyggingu þess og hversu margir koma nálægt því. Mér finnst það stórtíðindi að forsetaembættið sem heild eyði tæpum sex milljónum á ári í símakostnað, þar af 19.000 krónum á hverjum einasta degi.

Þó það sé ekki einvörðungu símanotkun Ólafs Ragnars Grímssonar (sem var reyndar aldrei fullyrt í fréttinni, enda talað um embættið sem slíkt) er það auðvitað mjög há símanotkun, enda mið tekið af því að yfirbygging embættisins er ekki mikil. Þar eru tiltölulega fáir starfsmenn og á Bessastöðum hafa aðeins forsetahjónin búsetu.

Við bætast ýmsar aðrar tölur sem eru mjög athyglisverðar. Finnst það gott hjá Stöð 2 að fjalla um þetta og benda á kostnaðinn. Þetta er eitthvað sem full þörf er á að ræða, enda bruðlið þarna greinilega meira en hægt er að verja með góðu móti.

Mikið var talað um bruðl í forsetatíð Vigdísar Finnbogadóttur. Ég get ekki betur séð en að eyðslan þar hafi verið frekar lítil miðað við það sem gerist á Bessastöðum nú.


mbl.is Forsetaembættið mótmælir frétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband