Mótmælin á Austurvelli að fjara út

Ekki verður betur séð af myndum og frásögnum af mótmælunum á Austurvelli en þau séu að fjara út. Þar mæta mun færri en verið hefur síðustu laugardaga. Þess mátti sjá reyndar merki um síðustu viku að mótmælin hefðu náð hámarki sínu. Eflaust hafði kuldinn áhrif á einhverja en það er ekki skýring í dag. Eflaust eru margir samverkandi þættir sem valda því að áhuginn hefur minnkað. Einn þeirra er eflaust það að rúmur hálfur mánuður er til jóla.

Svo er ekki undrunarefni að styrking krónunnar hafi haft áhrif á einhverja, en auðvitað hefur verið mjög ánægjulegt að sjá krónuna styrkjast síðustu dagana og gefur sannarlega fyrirheit um að verja megi íslenska lífsafkomu og undirstöður samfélagsins. Svo er einfaldlega mun rólegra í þessari viku en þeim fyrri síðan í október vegna þess að það hefur aðeins birt til og staðan er orðin skýrari að sumu leyti í stað þess að gengið sé í algjöru myrkri.

Mótmælin náðu að vekja marga af svefninum, enda hafði þjóðin verið sofandi í margar vikur áður en hrunið kom, hvort sem kenna megi fjölmiðlum eða stjórnmálamönnum um það, nema hvort tveggja sé.

mbl.is „Ábyrgðin er ekki okkar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir fikrar sig í Evrópusambandsátt

Geir H. Haarde
Enginn vafi er á því að forysta Sjálfstæðisflokksins sýnir afgerandi merki þess nú að lagt verði upp með Evrópusambandsaðild á landsfundinum eftir fimmtíu daga og það verði í raun niðurstaða Evrópunefndarinnar. Ummæli Geirs H. Haarde í morgun eru mjög afgerandi stefnubreyting frá því sem verið hefur undanfarin ár og kom t.d. fram á fundi í Valhöll síðast í haust þar sem hann beinlínis lokaði umræðunni með þeim orðum að þetta kæmi ekki til greina. Nú hefur hann sjálfur opnað dyrnar og er augljóslega að feta sama stíg og Friðrik Sophusson talaði um í Moggaviðtali um daginn.

Mér finnst þetta vera mjög hönnuð atburðarás, svo ekki sé nú meira sagt. Geir hefði vissulega getað komið fram á blaðamannafundinum með Þorgerði Katrínu um daginn og sagt hreint út hvert hann vildi að væri veganesti nefndarinnar og um leið sína eigin skoðun nú. Í staðinn kemur það fram í einhverjum skömmtum og fikrað sig í áttina. Um leið verður æ augljósara að niðurstaða nefndarinnar verður í samræmi við það sem Geir og Þorgerður hafa lagt upp með.

Ég á von á mjög líflegum viðræðum um Evrópusambandið á landsfundinum. Þar verður hin endanlega niðurstaða tekin og væntanlega munu ekki allir verða sáttir við hana, ef marka má hin afgerandi skilaboð formannsins. Hitt er aftur á móti alveg ljóst að mikilvægt er að niðurstaða fundarins verði skýr en ekkert hálfkák, hvort svo sem öllum líkar það.

mbl.is Aðildarviðræður koma til greina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjir tímar eða endalokin framundan í Framsókn?

Formannsslagurinn á milli Páls Magnússonar og Höskuldar Þórhallssonar í Framsóknarflokknum er á yfirborðinu augljóst merki kynslóðaskiptanna sem krafist var á flokksstjórnarfundinum fyrir nokkrum vikum, sem leiddi til að bæði Guðni Ágústsson og Valgerður Sverrisdóttir hafa afsalað sér forystusess sínum og leiðtogahlutverki í aðdraganda næstu þingkosninga. Ljóst hefur verið síðan að Halldór Ásgrímsson yfirgaf pólitíska baráttu og Jóni Sigurðssyni mistókst að leiða flokkinn til farsældar í kjölfarið að þar þyrfti kynslóðaskipti til að flokkurinn ætti raunhæfa möguleika á að endurreisa sig.

Skoðanakannanir frá þingkosningunum 2007 hafa staðfest svo ekki verður um villst að gamla valdakynslóðin í Framsóknarflokknum sem var á ráðherrastóli í stjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hefur ekki tekist að byggja flokkinn upp úr þeim brunarústunum í kjölfar þess að Halldór fór af sviðinu. Honum virðist ómögulegt að komast yfir tíu prósent þröskuldinn og þarf sannarlega á nýjum tímum að halda. Þeir sem enn eru eftir í Framsóknarflokknum eru skiljanlega orðnir þreyttir á erfiðri baráttu undir forystu þeirra sem njóta ekki lengur trausts þjóðarinnar.

Formannsframboð Páls og Höskuldar er ein af leiðum Framsóknar til að ná fótfestu að nýju. Þeir eru báðir lausir við byrðar fortíðarinnar og geta fært Framsókn nýtt upphaf. Ef ekki tekst að byggja flokkinn upp undir forystu nýrrar kynslóðar er augljóst að hann er dauðadæmdur og á sér í raun enga framtíð. Höskuldur býr vissulega vel að því að vera þingmaður og með algjörlega hreinan skjöld á meðan Páll er utan þings og er rækilega tengdur S-hópnum, hvort sem svo það er óverðskuldað eður ei að rifja það upp.

Sumir tala um að þessir þingmenn séu báðir tiltölulega óreyndir og skorti þungavigt. Halldór Ásgrímsson var rétt rúmlega þrítugur þegar hann var orðinn varaformaður Framsóknarflokksins og tók að byggja sína stöðu til forystu innan flokksins. Hann varð ráðherra 36 ára gamall og enn tiltölulega nýr sem varaformaður og þá í raun krónprins. Miðað við það er ekkert óeðlilegt að ungir menn vilji forystusess. Þeir verða þá að byggja upp vigt sína og vinna sig upp í hlutverkið.

Þessi landsfundur og formannskosningin er í raun örlagapunktur í langri sögu Framsóknarflokksins. Annað hvort verður þar horft til framtíðar og sagt skilið við forna valdatíð eða hann heldur áfram að hníga og á sér enga framtíð. Þetta er því spurning um endalok eða nýju tímana. Því er ekki óeðlilegt að þeir sem gefið hafa kost á sér séu allir ungir og lausir við byrðar fortíðar. Skilaboðin þar eru sennilega skýr, þau að klippt sé á Halldórstímann fyrir fullt og allt.


mbl.is Jón Vigfús býður sig fram til formanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eilífðartöffarinn frá Keflavík kvaddur

Fjöldi fólks hefur minnst Rúnars Júlíussonar í dag. Hann átti sess í huga allra landsmanna, enda svo sterkur fulltrúi íslensku tónlistarsögunnar, rokksins vel að merkja, enda var hann töffarinn í bransanum - sannkallaður hr. rokk. Hann var líka alltaf til staðar og náði að spila allt til leiðarlokanna.

Sá þáttur við Rúnar sem mér finnst merkilegastur er hvað hann átti auðvelt með að ná til yngri fólks. Löngu eftir að Hljómar liðu undir lok varð hann rokkstjarna undir öðrum formerkjum. GCD var mjög vinsæl hljómsveit á tíunda áratugnum hjá minni kynslóð og þar náði hann nýjum aðdáendahóp, án fyrirhafnar.

Rúnar ræktaði yngra fólk í tónlistinni og var duglegur við að vinna að sínu verki, festist ekki á einum tímapunkti tónlistarsögunnar heldur var alltaf ferskur og nýr í tónlist sinni. Hlýlegur persónuleiki hans og töffaraeðlið spilaði þar líka stóran sess.  



Gott dæmi um tónlistarsköpun hans undir lokin var lagið sem hann tók með Unun um miðjan tíunda áratuginn. Svo var ekki síður flott þegar hann tók lagið með Baggalúti bara fyrir nokkrum árum.



mbl.is Sárt að missa Rúnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rúnar Júlíusson látinn

Mér varð illa brugðið snemma í morgun þegar ég heyrði þær fregnir að eilífðartöffarinn frá Keflavík, Rúnar Júlíusson, væri látinn - hefði lokið keppni á sviðinu við að kynna safnplötuna sína og jólaútgáfu Geimsteins. Rúnar hafði stóran sess í íslenskri tónlistarsögu og var eiginlega táknmynd sjöunda áratugarins í íslenskri tónlistarmenningu í huga okkar allra. Hann var foringinn í íslensku bítlahljómsveitinni og fylgdi okkur allt á leiðarenda með einlægri tónlistarsköpun sinni og fékk heiðursverðlaunin á tónlistarverðlaununum fyrir tæpu ári fyrir það merka ævistarf.

Rúnar Júlíusson var eiginlega hr. Rokk í huga flestra landsmanna. Hann hefur verið samofinn íslenskri tónlistarsögu í yfir fjóra áratugi, eða frá því að Hljómar byrjuðu sinn glæsilega feril. Lög eins og Heyrðu mig góða, Fyrsti kossinn, Hamingjulagið, Tasko Tostada, Betri bílar - yngri konur, Sveitapiltsins draumur, Mýrdalssandur og ótalmörg fleiri hafa mótað feril hans. Ég keypti í fyrradag safnplötuna hans og var að hlusta á hana í gær. Þetta er sannarlega merkt ævistarf.

Rúnar hefur ekki aðeins verið tónlistarmaður, hann hefur verið útgefandi tónlistar og pródúsent og á farsælan feril að baki. Ég vil votta fjölskyldu hans innilega samúð mína. Blessuð sé minning eilífðartöffarans frá Keflavík.

mbl.is Rúnar Júlíusson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju var Björgvin G. svo illa upplýstur?

Merkilegast af öllu sem fullyrt er um aðdraganda bankahrunsins er hve Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, var illa upplýstur um mörg mál á leynifundum leiðtoga stjórnarflokksins með eða án seðlabankastjórum. Æ betur kemur í ljós að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir talaði ekki við hann um öll mál. Mér finnst koma mjög vel fram í málflutningi Davíðs Oddssonar í viðskiptanefnd í morgun að Björgvin hafi verið utan við stóran hluta málsins og í raun hafi utanríkisráðherrann haldið utan um bankamálin af hálfu Samfylkingarinnar, eða í það minnsta verið verkstjóri ákvarðana þar innanborðs.

Ummæli Davíðs vekja vissulega mikla athygli, bæði í dag og áður á fundi Viðskiptaráðs. Þar talar hann um samtöl við forystumenn stjórnarflokkanna án Björgvins G. Sigurðssonar sem virðist hafa verið utangarðs í mikilvægum samtölum. Skiptir þá litlu hversu mikið var vitað um bankahrunið eða hversu miklu líkar væru á því að það gæti gerst. Þetta er meira en lítill farsi. Mér finnst merkilegt sem er að koma í ljós hversu lítið Ingibjörg og Björgvin ræddu þessi mál ef rétt er.


mbl.is Ingibjörg: Aldrei talað um 0% líkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsöm ákvörðun Valgerðar Sverrisdóttur

Ég tel að það sé skynsamlegt hjá Valgerði Sverrisdóttur að gefa ekki kost á sér til formennsku í Framsóknarflokknum. Með þessu opnar hún fyrir kynslóðaskipti í forystusveit flokksins og tryggir að hann geti stokkað sig upp án aðkomu þeirra sem hafa tilheyrt forystunni í formannstíð Halldórs Ásgrímssonar. Ekki er ósennilegt að næsti formaður Framsóknarflokksins verði einhver af þeim þingmönnum sem hefur setið mjög skamman tíma á þingi eða jafnvel maður utan þings sem býr flokkinn undir kosningar á nýjum forsendum.

Eina manneskjan í forystusveit Halldórstímans sem eftir er á sviðinu sem hefur stöðu í formennskuna er væntanlega Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður. Mér finnst samt af umræðunni að dæma að líklegt sé að Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi, sækist eftir formennskunni og auk þess Höskuldur Þórhallsson, alþingismaður héðan frá Akureyri. Yfirlýsing Höskuldar í dag um að hann velti fyrir sér framboði er reyndar svo afgerandi að hún hljómar helst sem leiðtogaframboð í Norðausturkjördæmi fyrir næstu kosningar.

mbl.is Formaður fram að flokksþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð sniðgengur íslensku fjölmiðlana

Mér finnst Davíð Oddsson senda mikil og öflug skilaboð til íslensku fjölmiðlanna, bæði í viðtalinu við danska blaðið og með því að veita kínverskum fjölmiðli einkaviðtal við sig í dag, eftir fundinn í viðskiptanefnd. Þeir fengu lítinn sem engan aðgang að honum í morgun. Þetta getur ekki orðið flóknara en orðið er. Hann sendir þvílíku skammtana til fjölmiðlanna og segir reyndar í danska viðtalinu að hefðu fjölmiðlarnir í landinu virkað en ekki verið málpípa auðmannanna sem þá áttu hefðu þeir getað staðið sig í stykkinu.

mbl.is Miserfitt að hætta í pólitík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð minnir á sig og tekur sér stöðu á sviðinu

Ég túlka ummæli Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, sem svo að hann viti eitthvað sem er svo nýtt og alvarlegt í samhengi aðdraganda þess að Bretar beittu hryðjuverkalögum á Íslendinga að það myndi valda miklum stormi hér á Íslandi. Eflaust mun það koma fram þó síðar verði og setja mark sitt á umræðuna.

Hann heldur því fyrir sig, þó mér gruni að vitneskja hans sé almennari en mörgum óri fyrir. Þar séu upplýsingar sem snerti ráðamenn landsins og einhver samskipti á milli þeirra innbyrðis eða við bresk stjórnvöld nema þá hvort tveggja sé.

Davíð minnir klárlega á sig í dag. Hann leysir ekki algjörlega frá skjóðunni en segir samt svo margt. Með viðtalinu við danska blaðið um framtíð sína hefur hann þó sagt að ábyrgðina á hruninu taki hann ekki á sig.

Mér finnst felast í tjáningu og framkomu Davíðs að hann muni berjast til loka, ef ekki aðeins við forna pólitíska andstæðinga heldur og mun frekar þá innan Sjálfstæðisflokksins sem hafa opnað á að hann hætti.

Þetta heitir á góðri íslensku að vígbúast.

mbl.is Davíð ber fyrir sig bankaleynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk endurkoma Davíðs í kortunum

Davíð Oddsson og Geir H. Haarde
Yfirlýsing Davíðs Oddssonar um pólitíska endurkomu er mjög afgerandi. Verði hann neyddur til að axla ábyrgð á vanda sem er í raun á ábyrgð ríkisstjórnarinnar mun hann snúa á ný í stjórnmál. Ég undrast það ekki, enda myndi hann þá taka slaginn og ljúka ferlinum með því að byggja nýja stöðu á öðrum vettvangi. Þetta gerði dr. Gunnar Thoroddsen eftir að hann hafði tapað forsetakosningum árið 1968 og orðið hæstaréttardómari en ákvað að snúa aftur þegar dr. Bjarni Benediktsson lést árið 1970. Hann varð áhrifamaður fram á áttræðisaldur og náði forsætisráðherraembættinu sjötugur að aldri. Ein merkilegasta pólitíska endurkoman í íslenskri sögu.

Davíð segir tvennt með þessari yfirlýsingu; ef hann verður neyddur af ríkisstjórninni til að taka á sig skellinn muni það þýða ósjálfrátt að hann taki slaginn við þetta fólk og freista þess að taka frumkvæðið í baráttunni. Auk þess er hann auðvitað að gefa í skyn að sú barátta verði mjög hörð og hann spari sig hvergi í uppljóstrunum og lykilupplýsingum. Í þessu getur falist fyrirboði um endurkomu í forystu Sjálfstæðisflokksins eða stofnun nýs flokks fari svo að Sjálfstæðisflokkurinn taki upp afgerandi Evrópustefnu á landsfundi í næsta mánuði. Þetta eru því auðvitað mikil tíðindi, en þurfa ekki að koma að óvörum eftir orð sumra síðustu dagana.

Sumir segja að Davíð Oddsson hafi aldrei hætt í pólitísku starfi og verið á sviðinu allan tímann. Hann hefur auðvitað mikla nærveru, er sigursælasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar að mjög mörgu leyti, enginn hefur lengur verið forsætisráðherra en Davíð og hann hefur verið í forystusveit í íslensku samfélagi í raun síðan hann varð oddviti borgarstjórnarflokksins árið 1980. Hann hefur alltaf talað í fyrirsögnum og átt auðvelt með að ná sviðsljósinu. En samt fannst mér hann láta eftirmönnum sínum í forystunni fá mjög gott svigrúm til að vinna málin áfram og þvældist lítið fyrir þeim innan flokksins í beinu starfi hans. En Davíð er Davíð. 

Þessi yfirlýsing er fyrirboði um að hann ætli sér ekki að fara þegjandi af sviðinu ef í harðbakkann slær, ætli að berjast alla leið. Svo verður að velta fyrir sér hvað gerist í Sjálfstæðisflokknum á næstu mánuðum. Öllum er ljóst að skilaboð Davíðs eru einföld. Hann muni ekki sætta sig við að taka skellinn fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins í efnahagshruninu.

mbl.is Davíð: „Þá mun ég snúa aftur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástþór borinn út af skipulagsfundi borgarafundar

Mér finnst það svolítið merkilegt sem fram kemur á bloggvef Ástþórs Magnússonar í kvöld að hann hafi verið borinn út með valdi af þremur mönnum af skipulagsfundi fyrir borgarafundinn í Háskólabíói næsta mánudagskvöld. Veit ekki hvort það kemur að óvörum að nærveru hans sé ekki óskað en mér finnst þetta svolítið sérstök vinnubrögð hjá þeim sem ætla að hafa borgarafund fyrir fólkið og fá fólk með ólíkar skoðanir þar að borðinu, ef frásögnin er rétt hjá Ástþóri.

Kannski er það virðingarvert að þessi hópur komi í veg fyrir afskipti annarra af samkomunni en mér finnst undarlegt að þeir sem vilja áheyrnarfulltrúa á fundum stjórnvalda komi í veg fyrir að aðrir sitji fundi þeirra sjálfra. Ég heyrði um daginn að komið hefði verið í veg fyrir að sumir hefðu borið fram spurningar á borgarafundinum. Heyrði nafn vörubílstjóra nefnt. Ætli það hafi verið sá frægi Sturla sem segist ætla að bjóða sig fram næst, þó ekki fyrir frjálslynda.

Annars fannst mér borgarafundurinn vel heppnaður. Vel af sér vikið hjá ráðherrunum, einkum leiðtogum stjórnarflokkanna, að mæta og tala við fólk. Þessi fundur var upplýsandi og ágætur að mörgu leyti.

mbl.is Forseti ASÍ á borgarafundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu traust verður samstarf Obama og Cameron?

Obama og Cameron
Ef marka má stöðuna á hinu pólitíska sviði í dag munu Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, og David Cameron, leiðtogi breska Íhaldsflokksins, þurfa að vinna vel saman á næstu árum, sérstaklega ef Cameron verður húsbóndi í Downingstræti 10 eftir næstu þingkosningar í Bretlandi. Sögusagnir af samskiptum þeirra og stirðum samtölum í London í Evrópuför Obama í júlí vekur samt spurningar um hversu vel þeir muni ná saman.

Báðir eru þeir fæddir á sjöunda áratugnum og hefur tekist að leiða flokka sína úr eyðimerkurgöngu í pólitískri baráttu; Obama eftir tvo ósigra demókrata í forsetakjöri og Cameron eftir þrjá ósigra breskra íhaldsmanna. Mér finnst kjaftasögurnar um að Obama hafi fundist Cameron léttvigtarmaður í ósamræmi við samskipti þeirra í sumar og sérstaklega þegar hluti einkasamtals þeirra varð opinber vegna þess að þeir voru nálægt hljóðnemum fjölmiðla.

Þó að Obama og Cameron séu úr flokkum sem taldir eru til hægri og vinstri er þar með fjarri því sagt að kuldi verði í samskiptum þeirra síðar meir. Þegar George W. Bush var kjörinn forseti Bandaríkjanna í stað Bill Clinton fyrir átta árum áttu flestir von á því að samskipti hans og Tony Blair yrðu mjög stirð og erfið, einkum í ljósi þess hversu vel Blair og Clinton náðu saman auk þess sem eiginkonur þeirra voru í miklum samskiptum.

Engu að síður varð Tony Blair einn nánasti bandamaður Bush á forsetaferli hans og fylgdi honum alla leið í Íraksstríðinu. Allt þar til Blair hvarf af hinu pólitíska sviði voru samskipti þeirra mjög mikil og var þeim líkt við fóstbræður þegar Blair flutti úr Downingstræti 10. Samskipti Gordon Brown og Bush hafa verið lágstemmdari en samt talsverð.

Þegar kemur að því að vinna saman skipta flokkstengsl ekki öllu máli eða ólíkar grundvallarskoðanir í pólitík. Þetta sannast allavega á Bush og Blair sem voru eins og ein heild að margra mati í huga þeirra sem áður áttu von á því að þeir gætu ekki unnið saman.

mbl.is Ekki hrifinn af Cameron
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þörf áminning - mikilvæg skilaboð

Mér finnst það þarft og gott hjá Femínistafélaginu að vekja athygli á kynferðislegu ofbeldi. Slíkt er aldrei of oft gert og mikilvægt að tjá sig hreint út um þau. Ég sé að þar er skilaboðunum að þessu sinni sérstaklega beint að dómurum við Hæstarétt Íslands. Finnst það hið besta mál. Mikið hefur verið talað um að dómar í kynferðisafbrotamálum hér séu alltof vægir og ágætt að beina sjónum að því.

Því miður er það orðin alkunn staðreynd að dómar fyrir kynferðisafbrotamál hér heima eru til skammar, bæði eru þeir alltof vægir og með þeim er ekki staðfest hversu alvarlegur glæpur felst í verknaðinum. Kynferðisafbrot eru auðvita stóralvarlegur glæpur. Sálrænt áfall þeirra sem fyrir því verður gróa aldrei að fullu, sérstaklega þegar í hlut eiga börn.

Þetta eru því góð skilaboð og fínt innlegg í þá umræðu.

mbl.is „Ég vona að þér verði aldrei nauðgað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dönsk reiði verður vinarhug yfirsterkari

Mér finnst eiginlega alveg ömurlegt að finna þá reiði og illhug gegn Íslendingum sem kemur fram í greinaskrifunum í Ekstra Bladet. Hugsa Danir almennt svona til Íslendinga, eða er þetta bara aumt hljóð úr horni? Ég trúi því innst inni að norræna samstaðan sé enn til staðar og við hugsum um Skandinavíu sem heild en ekki fimm ólíkar þjóðir sem berjast allar á eigin vegum. Sorgir og sigrar einnar þjóðar verði sameiginleg og þær hjálpist að þegar á reynir. Kannski er barnalegt að telja að allir Danir hugsi hlýlega til Íslendinga, en við verðum að vona það samt innst inni.

Mikið er talað um það núna hversu varanlegur skaði Íslands á alþjóðavettvangi sé. Ég ætla að vona að það taki okkur ekki röskan áratug að ná okkur á strik af þessu bankahruni og niðurlægingunni sem henni hefur fylgt fyrir Íslendinga um víða veröld. Þegar ég tala við erlenda vini á facebook eða msn berst talið alltaf að Íslandi og hvernig staðan sé. Sumir hafa minni skilning en aðrir og tala helst um Ísland sem gjaldþrota sker þar sem allir séu í raun á köldum klaka í allri merkingu þess orðs. Þetta er svolítið sérstakt að upplifa vissulega.

En ég segi það hreint út að ef Norðurlöndin og frændur okkar að fornu og nýju vilja ekki tala vel um okkur eða allavega hugsa vel til okkar í hljóði þá er illa komið. En ég er viss um að þetta lagast, öll él birtir upp um síðir. Vonum það á aðventunni allavega, þó skammdegið sé yfir okkur í svo mörgum skilningi orðsins.


mbl.is Frekja og hroki aðgangsorð íslenska helvítisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Séra Gunnar sýknaður - á hann afturkvæmt?

Enginn vafi leikur á því að sýknudómurinn yfir séra Gunnari Björnssyni er mikill áfangasigur fyrir hann og í raun ótrúlega sterk niðurstaða fyrir hann í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið um hann og þessi málaferli síðustu mánuðina. Séra Gunnar fékk þungan dóm í umræðunni í samfélaginu löngu áður en það fór fyrir rétt - í raun verið grafið algjörlega undan mannorði hans.

Þessi dómur er algjör fullnaðarsigur hjá Gunnari og eiginlega ótrúlega eindreginn í hans átt miðað við umræðuna í samfélaginu og lýsingum á aðstæðum frá þeim sem þekktu til málsins. Ég veit ekki hvort séra Gunnar getur snúið aftur til starfa sinna, þó hann myndi vinna málið í Hæstarétti. Þetta er erfitt mál og mjög skaðlegt, bæði fyrir hann og þjóðkirkjuna.

Ég skynja að sumir voru virkilega undrandi á dómnum. Sjálfur átti ég alls ekki von á svo afgerandi sigri Gunnars í héraði, þar sem meira að segja bótakröfum var með öllu vísað frá. Þetta hefur verið áberandi mál í umræðunni og því lýkur ekki með þessum dómi.

mbl.is Sýknaður af ákæru fyrir kynferðisbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki óþarfi að auglýsa kreppuna í Leifsstöð?

Spjaldið á Keflavíkurflugvelli
Mér brá örlítið þegar ég sá spjaldið margfræga í Leifsstöð um hálfprísalandið Ísland á einni bloggsíðunni í gær. Hélt fyrst að þetta væri grín en svo reyndist ekki vera. Þetta er táknrænt spjald og eflaust ágætt fyrir einhverja að auglýsa sig svona fyrir viðskipti. En er nokkuð hægt að sökkva sér neðar en auglýsa það fyrir ferðamönnum við komuna hingað beint og okkur sjálfum þegar við fljúgum úr landi að við séum í svaðinu. Er ekki nóg sem nóg er?

Kannski verður myndin af hálfprísalandsspjaldinu ein af myndum ársins. Vel má vera. Við erum svosem ekki í neinni stöðu til að neita staðreyndum um að við stöndum illa. En er ekki nóg að allir viti að við séum í svaðinu og þurfum aðstoð þaðan. Er ekki óþarfi að gera út á viðskipti á þeim niðurlægingartóni? Ég held það og fagna því að þetta spjald sé farið og aðeins geymt í minningunni. Á meðan reynum við að horfa fram á veginn, ekki afturábak.

mbl.is Auglýsingaspjöld tekin niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV tæknilega gjaldþrota - flókin Pálssaga

Ég skil vel gremju starfsmanna í Ríkisútvarpinu. Auðvitað hefði Páll Magnússon átt að afsala sér jeppanum og lækka laun mun meira en gert var á föstudag til þess að ganga í takt með sínu fólki. Þetta voru gríðarleg mistök hjá honum og hafa gert vonda stöðu enn verri fyrir Ríkisútvarpið í heild sinni. Enda sýnist mér hann vera rúinn trausti innanhúss og standa mjög illa.

Þessi flókna Pálssaga er fjarri því búin, enda erfitt að sjá hvernig hann geti verið trúverðugur forystumaður innan húss eftir að fréttamenn hafa afþakkað fréttalestur hans á kjörtíma í sjónvarpi. Hann hefði ekki getað fengið meiri skell en það kjaftshögg að starfsmenn fréttastofunnar vilji ekki sjá hann sem andlit fréttastofunnar. Hann verður varla trúverðugur í því hlutverki lengur.

En hver er staða Ríkisútvarpsins. Er það ekki tæknilega gjaldþrota? Hvað er til ráða. Hvernig á að bregðast við. Er réttasta lausnin á þeim vanda að ganga frá svæðisútvörpunum víða um land og því mikilvæga starfi sem þar er unnið. Þarf ekki að taka til á kontórnum í Efstaleitinu áður en kemur að þeim verknaði?

mbl.is Óréttlætanleg ofurlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðarljós Vigdísar - sameiningartáknið sanna

Vigdís forseti
Mér þykir mjög vænt um að heyra í Vigdísi Finnbogadóttur tjá sig um mál málanna - rödd Vigdísar og boðskapur hennar er mikilvægt leiðarljós í þeim efnahagsþrengingum sem dynja á íslensku þjóðinni í skammdeginu. Mér hefur alltaf þótt vænt um Vigdísi og finnst mikils virði að hún tali til fólksins í landinu. Hún hefur mjög mikið fram að færa og hefur þann trausta styrkleika að njóta trausts og stuðnings allra - er hafin yfir dægurþrasið. Þó tólf ár séu nú liðin frá því að hún flutti frá Bessastöðum er Vigdís og verður alla tíð forseti í huga okkar allra.

Vigdís var sameiningartákn þjóðarinnar um langt skeið og er það í raun enn. Á þeim tímum þegar forseti Íslands, sem ætti að öllu eðlilegu að vera sameiningartákn þjóðarinnar, er ekki lengur traustsins verður og hefur farið svo illa úti í efnahagshruninu verður rödd Vigdísar enn meira virði. Við getum treyst því að hún talar af visku og sannleika um stöðuna og hefur þann sess að vera hafin yfir þessar átakalínur - ein af fáum landsmönnum sem allir geta treyst til að tala einlægt og án þess að hefja sjálfa sig upp.

Slíkt er og mikils virði. Eftir að Sigurbjörn biskup dó eru mjög fáir sem eru svo einstakir í þessu samfélagi að vera hafin yfir átök og hversdagslegt blaður. Vigdís er ein af þeim og verður enn mikilvægari fyrir vikið í huga landsmanna.

mbl.is „ Særandi að vera sakaður um glannalegar athafnir “
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar tillögur hjá ríkisstjórninni

Mér finnst tillögur ríkisstjórnarinnar til bjargar fyrirtækjunum vera traustar og góðar. Þær skipta allavega miklu máli á þessum tímapunkti. Mér finnst ríkisstjórnin vera að ná vopnum sínum eftir erfiða tíð að undanförnu. Hún hefur sjaldan verið samhentari í orði og verki en eftir að stjórnarandstöðunni mistókst að koma með trúverðuga vantrauststillögu og náði ekki að fylkja alveg saman liði. Yfirlýsingar Steingríms J. Sigfússonar að undanförnu vekja líka efasemdir um hæfi hans til að vinna undir álagi. Engar eru heldur lausnirnar eða tillögurnar frá stjórnarandstöðunni.

Á síðustu dögum hafa leiðtogar stjórnarflokkanna verið saman sem mjög sterkt forystupar, sem tekur erfiðar og óvinsælar ákvarðanir í hita leiksins en getur fært okkur nýtt upphaf. Þeim á að gefa tækifæri til að stýra málum áfram en síðar verður kosið um forystu þeirra í efnahagslægðinni og hvernig tókst til í þeim efnum. Stjórnarandstaðan hefur ekki sýnt að hún sé ábyrgt afl við þessar aðstæður.


mbl.is Bjarga á fyrirtækjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott kvöld með Ragnhildi Steinunni slegið af

Ég er einn þeirra sem hef gaman af góðu sjónvarpsefni og met mikils að sjónvarpsstöðvarnar geri vandað og gott íslenskt efni. Eitt af flaggskipum vetrarins hjá RÚV, Gott kvöld, hefur nú verið sleginn af í miðju kafi, bæði vegna minnkandi áhorfs og kostnaðar. Eitt og annað hefur gott verið gert í þættinum, en eftir stendur þó sú staðreynd að of í lagt er að eyða klukkutíma í einn gest án þess að hafa undirstöðuna ekki traustari og betri en raun ber vitni.

Ræður þar miklu að stjórnandinn, þó af öllum vilja sé gerð til að standa sig vel, stendur ekki undir verkefninu. Mér finnst hún ekki góð í viðtalstækninni og því verður öll umgjörðin utan um þáttinn vandræðalega veik. Húshljómsveitin hefur þó gert góða hluti og stöku sinnum verið fínir gestir, þó þátturinn með Eivöru Pálsdóttur beri algjörlega af. Hinir þættirnir hafa verið mjög misjafnir og sumir frekar slappir.

Mér finnst eðlilegt að Sjónvarpið hafi metnað til að gera viðtalsþætti með innihaldi og traustri umgjörð. Gísla Marteini og Hemma Gunn tókst að fá um eða yfir 70% landsmanna að sjónvarpstækjunum á meðan þeir voru á skjánum með kvöldskemmtiþátt árum saman og fleiri eru þeir svosem sem hafa verið með ágætis þætti. En erfitt er að leggja af stað í verkefni sem vantar undirstöðu í.

Slík verða örugglega eftirmæli Góðs kvölds - of í lagt að vera með einn gest og stjórnandinn náði ekki að halda utan um verkefnið. Því náði þátturinn aldrei flugi og sökk. En vonandi tekst að fylla pláss þáttarins með góðu efni. Getur ekki Sjónvarpið endursýnt það besta með Hemma og Gísla? Hvað með öll leikritin og skemmtiefnið sem Sjónvarpið tryggði sér sýningarrétt á? Hvenær sjáum við það?

mbl.is Ört minnkandi áhorf á Gott kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband