Þora Evrópusinnar eða eru þeir bara að hóta?

Grasrótin í Sjálfstæðisflokknum tók af skarið á landsfundi um síðustu helgi - sendi skýr skilaboð um ekkert hálfkák í Evrópusambandsmálum. Forysta flokksins varð undir í tilraunum sínum til að koma með einhvern hrærigrautartexta, hálfvelgju um stuðning við aðildarumsókn Samfylkingarinnar að ESB, sem engan stuðning hefur í flokkskjarnanum.

Nú reynir á hvað félagsskapurinn Sjálfstæðir Evrópumenn muni gera. Miðað við dramatíkina sem einkennir fundahöld þeirra á ég ekki von á að þeir muni lúta vilja afgerandi meirihluta flokksmanna og fundarmanna á landsfundi. Þeir verða að eiga það við sig hvað þeir gera.

Ég hef fengið leið á þessum prímadonnustælum tiltekinna aðila. Þeir eiga að sýna okkur á spil sín sem fyrst. Þora þeir að fara úr flokknum og stofna félagsskap klappstýra fyrir aðildarumsókn Samfylkingarinnar að Evrópusambandinu? Hafa þeir pólitískt kapítal í það?

Svar óskast.

mbl.is Harma samþykkt landsfundar um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn hafnar ESB afdráttarlaust

Ég var mjög stoltur af því að vera sjálfstæðismaður í dag þegar landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafnaði afdráttarlaust öllu daðri við Evrópusambandið og feigðarflani vinstristjórnarinnar lánlausu með aðildarviðræðum sem ekkert pólitískt kapítal er á bakvið. Þetta var ábyrg og traust afstaða, afstaða sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur margoft haft á landsfundi sínum.

Þetta ætti ekki að koma neinum að óvörum. Enda hver vill styðja ESB-blaður Samfylkingarinnar nema kannski undirlægjurnar í ráðherrahópi vinstri grænna sem hafa fyrir löngu kyngt öllum hugsjónum og ársgömlum kosningaloforðum fyrir völdin ein.

Enginn vilji var fyrir almennt orðaðri málamiðlunartillögu á þessum landsfundi - afgerandi meirihluti fundarmanna fékk sína breytingatillögu í gegn. Enda eðlilegt að talað sé hreint út í stað þess að koma með útvatnaða tillögu sem nýtur ekki stuðnings.

Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að hjálpa lánlausu vinstristjórninni í misheppnuðu Evrópudaðri sínu, sem virðist aðeins draumsýn Samfylkingarinnar, sem VG er nauðbeygt að styðja til þess eins að halda völdunum, sem þeim eru svo kær.

mbl.is Óþarfi að sundra flokksmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólöf kjörin varaformaður Sjálfstæðisflokksins

Ég vil óska pólitískum samherja mínum, Ólöfu Nordal, innilega til hamingju með varaformannskjörið í Sjálfstæðisflokknum. Hún er vel að því komin, dugleg og drífandi forystukona sem á framtíðina fyrir sér og á eftir að standa sig vel sem ráðherra þegar Sjálfstæðisflokkurinn kemst aftur í ríkisstjórn fljótlega. Sjálfstæðisflokkurinn styrkist mjög með Ólöfu sem varaformann sinn, er ekki í vafa um það.

Ég þekkti Ólöfu lítið sem ekkert sem stjórnmálamann en þess þá meira verk hennar og afburðaþekkingu á mörgum málum, sem hafa komið sér vel fyrir hana í þingstarfinu, þegar hún hringdi í mig í aðdraganda alþingiskosninganna 2007, fyrir prófkjör okkar í Norðaustri síðla árs 2006, þar sem hún tók slaginn og stefndi hátt, og bað mig um stuðning við framboð sitt. Síðan hef ég stutt hana ötullega í pólitískri baráttu.

Er stoltur af því að hafa lagt henni lið allt frá prófkjörinu 2006 þegar við tryggðum hana í baráttusæti framboðslistans í Norðausturkjördæmi og tryggðum svo setu hennar á þingi árið 2007. Það var skemmtilegur slagur og gaman að vinna að því að tryggja Ólöfu fast sæti við Austurvöllinn. Var viss um það þá að hún væri framtíðarmanneskja í flokksstarfinu og myndi leika lykilhlutverk.

Auðvitað var það áfall fyrir okkur hér þegar Ólöf flutti sig suður en hún hefur sífellt styrkt stöðu síðan þá og sérstaklega verið traust og öflug í stjórnarandstöðunni eftir að hlutskipti Sjálfstæðisflokksins gjörbreyttist í kjölfar hrunsins. Hún á eftir að vera flott í því verkefni að byggja upp innra starf flokksins á landsvísu og hlakka til að vinna með henni að því.

Innilega til hamingju, kæra vinkona!


mbl.is Ólöf Nordal fékk 70% atkvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni sigrar Pétur í formannskjöri

Bjarni Benediktsson fékk traust og gott endurkjör í formennsku Sjálfstæðisflokksins. Eftir árásir og aðför að Bjarna á undanförnum vikum kemur hann sterkur út úr þessum landsfundi, með endurnýjað umboð til verka. Bjarni fékk verðugt mótframboð frá Pétri Blöndal, einum reyndasta þingmanni Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið mjög áberandi í sínum verkum á fimmtán ára þingmannsferli. Ekki kemur að óvörum að margir treysti Pétri.

Sjálfstæðisflokkurinn og Bjarni Benediktsson sem formaður hans er sterkari, tel ég, eftir þessa kosningu. Hávær orðrómur hafði verið um að Bjarni yrði sjálfkjörinn formaður og yrði klappaður upp eftir gömlu rússnesku fyrirmyndinni. Þetta var snörp en drengileg barátta, báðum formennsefnunum til sóma.

Fjarri því á að vera sjálfgefið að flokksleiðtogar séu einróma endurkjörnir á þessum umbrotatímum í íslenskum stjórnmálum og mjög jákvætt að tekist sé drengilega á um formennsku í flokkunum. Slíkt er lýðræðislegt og styrkir aðeins Sjálfstæðisflokkinn. Umboð formannsins er betra eftir slíka rimmu.

mbl.is Bjarni kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pétur Blöndal fer fram á móti Bjarna Ben

Mér finnst það jákvæð og góð tíðindi að Pétur H. Blöndal hafi gefið kost á sér til formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Pétur sýnir kraft og kjark með framboðinu, eins og honum einum er lagið. Líst vel á að Pétur taki slaginn. Við höfum gott af því, við sjálfstæðismenn, að hafa líflega kosningu um formennskuna.

Hið besta mál er fyrir Bjarna Benediktsson að láta reyna á stöðu sína í kosningaslag við annan þingmann flokksins. Þetta ætti aðeins að styrkja flokkinn til verkanna framundan og veita formanninum öflugra umboð í þeirri uppbyggingu sem framundan er.

Mér finnst samt að Bjarni Benediktsson eigi að vera áfram formaður Sjálfstæðisflokksins og styð hann til þess. Tel að hann eigi að fá að leiða flokkinn í næstu þingkosningar, sem verða eflaust fljótlega þar sem vinstristjórnin lánlausa er komin að fótum fram.

mbl.is Pétur vill formanninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einræðislegir tilburðir í Efstaleitinu

Mér finnst það einræðislegt og klaufalegt hjá Páli Magnússyni að ráða Sigrúnu Stefánsdóttur sem dagskrárstjóra Sjónvarpsins án auglýsingar tveimur mánuðum eftir að hann gat valið úr tugum umsókna um sömu stöðu.

Brotthvarf Ernu Óskar Kettler úr stöðu sem hún hafði nýlega fengið átti að sjálfsögðu að leiða til þess að farið væri aftur í umsóknabunkann og velja þann hæfasta sem sótti um.

Svona vinnubrögð eru varla boðleg og hljóta að hafa einhver eftirmál. Ekki er boðlegt að ganga framhjá fjölda frambærilegra umsækjenda og handpikka í svo feita stöðu.

mbl.is Staðan ekki auglýst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytir Jón Gnarr kerfinu eða breytir það honum?



Óneitanlega er það skemmtilega súrrealískt að sjá Jón Gnarr viðhalda öllum gömlu hefðunum sem borgarstjórar fyrri tíðar hafa tekið upp, t.d. að veiða í Elliðaánum. Ætli þetta sé einn gjörningurinn enn eða hreinlega bara nettur brandari? Erfitt að sjá. Jón hefur farið af stað á kómíkinni og skrifar skemmtilega netdagbók á facebook sem er skemmtilega samhengislaus og flottur djókur.

Einhvern tímann kemur að því að nýji borgarstjórinn verður að taka erfiðar ákvarðanir þar sem gamansemin er lítil sem engin. Þá reynir fyrst á hann. Jón nýtur á meðan hveitibrauðsdaganna. Grínistar fá kannski fleiri en hundrað slíka. Aldrei að vita.

mbl.is Borgarstjóri veiddi lax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamingjuóskir til Helenu



Ég fagna því jafnan mjög þegar hvunndagshetjur og venjulegt fólk fær fálkaorðuna - mun frekar en embættismenn sem fá hana fyrir að mæta í vinnuna hjá hinu opinbera. Vil óska Helenu Eyjólfsdóttur sérstaklega til hamingju með að fá orðuna í dag. Hún hefur fyrir löngu sungið sig inn í hug og hjörtu landsmanna.

Það er ekki hægt annað en rifja upp þetta fallega lag, Ástarljóðið mitt, með þeim heiðurshjónum, Helenu og Finni Eydal, í upptöku frá árinu 1990.

mbl.is Tólf fengu Fálkaorðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

L-listinn tekur við völdum á Akureyri

Listi fólksins hefur nú tekið við völdum í bæjarstjórn Akureyrar - fyrst stjórnmálaafla til að ná hreinum meirihluta hér á Akureyri frá því að kosningakerfið í núverandi mynd var tekið upp árið 1930. Mikil ábyrgð fylgir því að sitja í hreinum meirihluta og ráða algjörlega för. Sumar gjafir geta nefnilega orðið hefndargjafir. Ég vil samt óska Oddi Helga og hans fólki hjá Lista fólksins til hamingju með árangurinn í kosningum og þessar miklu breytingar sem verða í bæjarmálunum.

Fáum hefði órað fyrir því þegar Oddur klauf Framsóknarflokkinn fyrir tólf árum og batt í raun enda á lykilstöðu hans í bæjarmálunum að hann ætti eftir að vinna svo glæsilegan sigur og verða aðalmaðurinn í bæjarmálunum. Sá sigur er til kominn bæði vegna þess að L-listinn hafði engar tengingar við landsmálin og hafði breiðari skírskotun auk þess að hinir hefðbundnu fjórflokkar áttu allir í miklum innri erfiðleikum.

Þeir eru nú algjört blæðandi sár. Mikið uppbyggingarstarf blasir við okkur í Sjálfstæðisflokknum á Akureyri. Aldrei fyrr hefur oddviti D-listans setið einn í bæjarstjórn án þess að hafa fólk þar með sér af listanum. Eftir tólf ára lykilstöðu Sjálfstæðisflokksins á Akureyri er hann nú valdalaus og þarf að fara í mikla grasrótarvinnu á næstu árum. Það er mikil ögrun - mikið verkefni.

Á meðan Listi fólksins fer eitt með völdin er mikilvægt að Bæjarlistinn og hinn lamaði fjórflokkur standi í lappirnar og veiti aðhald, séu öflugir og samhentir í stjórnarandstöðu. Það er verkefnið framundan fyrir þá, auk þess sem allir eiga þeir erfiða vinnu framundan að byggja sig upp.

mbl.is Geir forseti bæjarstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tár, bros og brúnka á Alþingi

Súrrealískt hefur verið að fylgjast með þingstörfum. Oftar en ekki minnir þjóðþingið á sandkassa þar sem tækifærismennskan er algjör. Óbreyttir þingmenn gráta yfir óbreyttu verklagi, einkum þingmenn vinstri grænna sem hafa verið beittir kúgun og yfirgangi í takt við það sem áður þekktist þar sem yfirgangur stjórnarparsins er algjör. Stjórnarparið brosir yfir því að fá loksins að ráða og eru eins og sól í heiði, þó ríkisstjórnin þeirra sé þó algjörlega máttlaus og ráði ekkert við vandann.

Sumir eru svo í limbói - ráða talsverðu sem ráðherrar en eru í gíslingu. Gott dæmi er Jón Bjarnason, sem hefur algjörlega verið lokaður í búri og niðurlægður. Enda er hann ekki kallaður stjórnarandstæðingurinn í ráðherrabílnum fyrir ekki neitt. Forsætisráðherrann hefur ekki stýrt málum vel og hefur niðurlægt samstarfsmenn sína með háðsglósum á borð við kattasmölun í samstarfsflokknum, sem var mjög smábarnalegt og klaufalegt klúður.

Svo er rifist um brúnku eins ráðherrans.... er ekki hægt að lyfta þessu upp á hærra plan. Þjóðin mun ekki hafa þolinmæði fyrir smábarnastælunum á þingi miklu lengur.


mbl.is Rætt um brúnku Árna Páls á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hanna Birna á að hafna boði Besta Sam

Mér finnst að Hanna Birna Kristjánsdóttir eigi að hafna boði Besta Sam um forsetastól borgarstjórnar ef í því felst bara stóll en engin áhrif umfram það. Eðlilegast hefði verið að mynduð hefði verið þjóðstjórn í Reykjavík og skipt niður í samræmi við kjörfylgi í nefndir og ráð - unnið saman heilsteypt og traust.

Þá hefðu vinnubrögð í stjórnmálum verið stokkuð upp. Jón Gnarr klúðraði fyrsta prófinu eftir kosningar. Hann fór beint í hefðbundið flokkamakk, var alveg eins og allir hinir. Ekki verður séð að mikið hafi breyst með meirihlutamakki Besta Sam.

Boðið um stóla og völd hefur lítið að segja fylgi því engin áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku. Hanna Birna á ekki að vera nein skrautfjöður fyrir meirihluta sem myndaður var á sandi.

mbl.is Hanna Birna hefur ekki tekið ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hanna Birna fer ekki í landsmálin

Mér finnst ákvörðun Hönnu Birnu Kristjánsdóttur um að fara í hvorki formanns- né varaformannsframboð viss vonbrigði, því ég vil að hún fari í landsmálin fyrr en síðar. Tel hana einn besta forystumann Sjálfstæðisflokksins um þessar mundir og hiklaust lykilmanneskju í uppbyggingunni í flokkskjarnanum á næstu árum. Held að það verði krafa flokksmanna fyrr en síðar að hún fái þar stórt hlutverk. Hún nýtur mikillar virðingar og stuðnings í flokknum.

En ég skil þessa ákvörðun. Hanna Birna ætlar að sinna borgarmálunum og fara í verkin þar. Heilsteypt og traust vissulega. Þó Sjálfstæðisflokknum hafi mistekist að verða stærsti flokkurinn í borgarmálunum á þessu kjörtímabili vann Hanna Birna nokkurn varnarsigur með því að vera aðeins 600 atkvæðum á eftir Besta flokknum og takast að lyfta flokknum talsvert upp í borginni eftir hrunið. Hún ætlar eflaust að sinna því verkefni vel.

Stóra spurningin nú er hvort Hanna Birna verði forseti borgarstjórnar þegar Besti Sam tekur við borginni. Mér finnst boðið til hennar koma frekar seint. Hefði Jóni Gnarr verið alvara með þverpólitísku samstarfi og þjóðstjórn allra flokka hefði hann stokkað pólitíkina upp og efnt til samstarfs við alla í stað þess að fara í makk með Samfylkingunni. Þar klúðraði hann stóra tækifærinu. Hann fór beint í sama makkið.

Ég ætla að styðja Ólöfu Nordal sem varaformann Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum. Þekki hana úr flokksstarfinu hér í Norðausturkjördæmi, en hún byrjaði stjórnmálaferil sinn hér fyrir tæpum fjórum árum og stimplaði sig til leiks. Verið mjög vaxandi í pólitískum verkum í þeim ólgusjó sem fylgdi hruninu og því að fara í stjórnarandstöðu. Hún er góður valkostur.

mbl.is Hanna Birna býður sig ekki fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegleg gjöf til Sjúkrahússins á Akureyri

Þegar nóg er af leiðinlegum og drungalegum fréttum verða þær jákvæðu alltaf svo mikils virði og hlýja um hjartarætur. 45 milljóna gjöfin til Sjúkrahússins á Akureyri er ein af þessum litlu en fallegu fréttum sem sýna mannkærleik. Mikið er það nú gott að finna að enn er til fólk sem getur gefið svo vel af sér án þess að auglýsa sjálft sig með gervibrosum á litljósmyndum og í sjálfhverfum viðtölum.

Það er í sjálfu sér mjög mikils virði og ber að virða mikils það framtak.

mbl.is Gaf sjúkrahúsinu 45 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna flækt í eigin spuna

Raunalegt var að fylgjast með Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, fara með þann spuna að gert væri pólitískt áhlaup þessa dagana til að ganga frá lífvana stjórnmálaferli sínum. Jóhanna hefur sjálf farið langleiðina með að slátra sínum ferli með því að segja ósatt og fara rangt með.

Hún tekur enga ábyrgð á afleitu verklagi sem unnið var á fulla ábyrgð hennar og af nánustu samstarfsmönnum hennar í ráðuneyti og bankaráði Seðlabankans. Hún er að fjara út og það skynja allir sem fylgjast með pólitíkinni.

Jóhanna getur ekki flúið ábyrgð í þessu máli. Hún er flækt í eigin spuna.

mbl.is „Pólitískt áhlaup á mig"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pínleg afneitun Jóhönnu

Sama hversu Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, reynir að neita ábyrgð á launakjörum Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, verður því ekki afneitað að reynt var kerfisbundið að fara framhjá lögum um kjararáð til að ákveða launin og vílað var um það í ráðuneytinu á hennar ábyrgð. Fáir trúa því, úr því sem komið er, að hún hafi enga aðkomu haft að því.

Atburðarásin sem opinberast gefur til kynna að löngu hafi verið ákveðið hver ætti að fá stöðuna og svo hafi verið reynt að fara marga hringi til að tryggja honum sem mestu launakjör miðað við þann ramma sem tryggður hafði verið. Unnið var í því á fullu af hálfu forsætisráðuneytisins og koma nánir samstarfsmenn forsætisráðherrans beint að því.

Fáir trúa því að forsætisráðherrann sjálfur hafi enga aðkomu haft að því eða lagt á ráðin um það. Þetta er vandræðalegt mál og hlýtur að vekja spurningar um af hverju forsætisráðherra komi ekki hreint fram og viðukenni hið augljósa.

mbl.is „Ræddi ekki launamálin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna laug að þingi og þjóð

Nú er endanlega staðfest að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, laug að þingi og þjóð um launakjör Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra. Því verður ekki neitað lengur að hún lofaði honum sömu launakjörum og fyrri bankastjórar höfðu og þar með 400.000 króna launahækkun, sem enginn vildi síðar kannast við. Þá féll Lára V. Júlíusdóttir, formaður bankaráðs Seðlabankans, á sverðið fyrir Jóhönnu vinkonu sína þó öllum mætti ljóst vera að hækkunin væri loforð úr forsætisráðuneytinu.

Jóhanna hefur sloppið ótrúlega billega frá þessu máli. Ekki er eðlilegt að forsætisráðherra ljúgi að þingi og þjóð um mál af þessu tagi. Furðulegt er að aldursforseti þingsins, sjálfur forsætisráðherrann, hafi lagst svona lágt til að þagga málið niður en það kemur nú allhressilega í bakið á henni.

Jóhanna Sigurðardóttir var sem stjórnarandstöðuþingmaður mikill og sjálfskipaður siðferðispostuli sem þóttist öllum öðrum fremur geta dæmt menn og málefni. Nú ætti hún að taka það til fyrirmyndar og ákveða næstu skref sín, hvort svo sem hún segir af sér eða reynir að snúa staðreyndum á hvolf.

Sé hún sjálfri sér samkvæm hlýtur hún að segja af sér embætti. Hún er reyndar þegar orðin ansi völt í sessi eftir sveitarstjórnarkosningarnar þar sem Samfylkingin galt afhroð á landsvísu en lafir samt enn á völdunum.

Hún ætti kannski að taka annan lame duck á forsætisráðherrastóli, Halldór Ásgrímsson, sér til fyrirmyndar, en í dag eru fjögur ár síðan hann sagði af sér forsætisráðherraembættinu, mæddur og sár.


mbl.is Már og Jóhanna ræddu launin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stólapólitíkin lifir góðu lífi í Reykjavík

Pólitíkin er skrítin tík. Fjórflokkurinn fékk útreið í kosningum í Reykjavík og grasrótarframboð komst í oddastöðu - nýtti sér það ekki til að stokka pólitíkina upp og stofna til þjóðstjórnar á sínum forsendum heldur fór beint í faðm þess sem tapaði kosningunum. Skellur Samfylkingarinnar í Reykjavík var mikill og í raun með ólíkindum að Dagur B. Eggertsson hafi ekki þegar sagt af sér, enda rúinn trausti og fjarri því sá sem borgarbúar vildu að stýrðu málum í Reykjavík.

Jón Gnarr komst til valda og áhrifa á þeim forsendum að fólk vildi eitthvað nýtt. Síðasta atkvæðið hafði varla verið talið þegar þeir voru komnir í eltingaleik við Samfylkinguna og samdi um stólana. Málefnin hafa varla komist á blað. Blaðamannafundur Jóns og Dags í gær fjallaði aðeins um völdin og stólaskiptin, málefnin voru ekki til umræðu og þeir hafa ekki sýnt á spilin sín hvað málefnin varðar.

Þetta er í takt við myndun hundrað daga meirihlutans árið 2007 þegar enginn málefnasamningur var gerður og þau sett síðast á dagskrá. Samið var um stólana og valdahlutföll en málefnin sett til hliðar. Þetta var afar leitt. Nú á þessum tímum hefði ekki veitt af uppstokkun. Láta átti stólapólitíkina lönd og leið - henni var jú hafnað í kosningunum um síðustu helgi, ekki satt?

Mynda átti þjóðstjórn allra framboða og ráða faglegan borgarstjóra. Lengi vel hélt ég að Besti flokkurinn væri algjört grín. Fyrst farið var með brandarann alla leið átti Jón Gnarr að sjá sóma sinn í því að standa fyrir því að ráða faglegan borgarstjóra og kalla eftir samstarfi allra sem sitja í borgarstjórn. Með því hefði verið lagður grunnur að nýjum tímum og samvinnu allra aðila.

Ekki var byrjunin góð. Dagur og Jón litu út eins og tveir vonlausir trúðar í Kastljósi gærkvöldsins. Þeim gekk illa að útskýra framtíðarsýn nýs meirihluta. Stólar og völd voru eina umræðuefnið sem þeir gátu svarað. Nýjabrumið af þessum meirihluta er lítið og brandarinn er orðinn frekar súr. Nú verða menn að fara að sýna á spil sín og taka erfiðar ákvarðanir. Þetta er enn eftir.

Ég hef svo séð mikla umræðu um Danabrandarann hans Jóns Gnarr. Hann hefur augljóslega farið um allt í Norðurlöndunum. Þrír danskir vinir mínir á facebook og nokkrir í Svíþjóð og Noregi höfðu séð fréttina hjá Extrabladet og vildu vita meira um þennan furðulega borgarstjóra sem við hefðum eignast.

Tók smátíma að fara yfir það með þeim. Rétt eins og Silvía Nótt er þessi brandari Besta flokksins og Jóns Gnarr mjög lókal og ekki skiljanlegur á öðrum tungumálum. Versta virðist vera að hann ætlar að verða aulabrandari fyrir borgarbúa að óbreyttu. Stjórnmálin breytast lítið sýnist mér.

Stólapólitíkin sem leiddi af sér ítalska ástandið á síðasta kjörtímabili heldur áfram og vandséð hvort nokkur pólitískur stöðugleiki verði í þessum fimmaurabrandara.


mbl.is Danir rifja upp myndband með Jóni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú hefst fjörið fyrir alvöru hjá Jóni Gnarr

Ég vil óska Jóni Gnarr innilega til hamingju með borgarstjórastólinn. Hann er einn allra besti leikari landsins og hefur margoft sannað snilld sína á þeim vettvangi - öll virðum við mikils túlkun hans í Vaktarseríunum og Bjarnfreðarsyni þar sem hann skapaði einn margflóknasta karakter í dramatík og gríni í sögu íslensks leikins efnis.

Sem stjórnmálamaður er hann hinsvegar óskrifað blað... fyrir utan nokkra brandara hefur fátt markvert komið frá honum á þeim vettvangi og öll viljum við fara að sjá meira, tel ég. Nú fær hann að láta ljós sitt skína og hefur Dag B. Eggertsson, hundrað daga borgarstjórann, með sér sem varaskeifu, hvorki meira né minna.

En nú hefst fjörið fyrir alvöru hjá Jóni. Nú verður hann að fara að tala eins og stjórnmálamaður og taka erfiðar ákvarðanir. Það er ekkert grín oftast nær.

Er eitthvað á bakvið brandarann? Það verður fróðlegt að sjá borgarstjóravakt Jóns, þar sem hann hefur lúserana í Samfylkingunni sem varaskeifur.

mbl.is Jón Gnarr verður borgarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söngstjarnan Whitney fuðrar upp

Ekki fer á milli mála að frægðarferli Whitney Houston er lokið, hún heldur ekki lagi á tónlistarför sinni, sem átti að marka mikla endurkomu einnar bestu söngkonu bandarískrar tónlistarsögu síðustu áratugi. Þetta er frekar sorglegt, enda var breiddin í rödd Whitney rómuð og hún hlaut heimsfrægð fyrir. En þegar söngkonan getur ekki skammlaust komist í gegnum auðveldustu lögin sín og náð að hækka röddina í gömlu meistaraverkunum er betra heima setið en af stað farið.

Whitney brann upp upp fyrir í baráttunni við dópdjöfulinn sjálfan. Baráttan við fíknina hefur kostað hana söngröddina og tækifærin í bransanum og hjónabandið við Bobby Brown hefur orðið henni dýrkeypt og eyðilagt ferilinn. Persónulegir erfiðleikar Whitney hafa verið alþjóðlegt fjölmiðlaefni nú árum saman og eiginlega sorglegt að sjá hvernig fór fyrir henni. Sjálf tók hún rangar ákvarðanir og hafði ekki það sem þurfti til að byggja sig upp aftur. 

Það vakti t.d. mikla athygli þegar að Whitney slaufaði sig út úr kvikmyndasöngatriði Burt Bacharach á óskarsverðlaunahátíðinni á aldamótaárinu, þar sem margar vinsælustu söngstjörnur seinni ára komu saman og tóku lagið. Whitney átti upphaflega að verða eitt af stærstu númerum atriðsins og Burt hafði valið henni nokkur lög til að syngja, þar á meðal óskarsverðlaunalagið úr A Star is Born. Hún mætti illa og stundum alls ekki á æfingar.

Burt rak hana úr atriðinu með eftirminnilegum hætti og skarð hennar var fyllt af Queen Latifah og frænku hennar, Dionne Warwick, sem kom fram eftir áralanga fjarveru og söng lagið úr Alfie. Þetta var fyrsta merkið um endalokin og síðan orðið æ fleiri. Tónleikaferðin hefur verið frekar sorglegur endapunktur og eiginlega stórundarlegt að ferðinni skyldi ekki slaufað eftir floppin í Bretlandi, þar sem augljóst var að Whitney var laglaus.

Þetta hlýtur að teljast eitt mesta stjörnuhrap bandarískrar tónlistarsögu - sjálfskaparvíti hið mesta hjá einni mestu söngstjörnu síðustu áratuga. Ekki dugar til að vera goðsögn í bransanum til að fóta sig aftur. Fallið getur orðið harkalegt.

mbl.is Whitney Houston gekk fram af Dönum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hermann gerir mikil mistök með því að sitja áfram

Er frekar undrandi á því að Hermann Jón Tómasson ætli að gera Samfylkingunni á Akureyri þann mikla óleik að sitja áfram eftir að hafa verið hafnað afdráttarlaust af bæjarbúum. Kosningaúrslitin á Akureyri um síðustu helgi voru afgerandi skilaboð til Hermanns og Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur - þeim var hafnað, forystu þeirra í meirihlutanum var hafnað og pólitískri forystu þeirra í Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu var hafnað.

Sigrún Björk tók þá ábyrgu og traustu afstöðu að víkja af velli - ekkert annað var hægt í stöðunni fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri og fyrir hana sjálfa var það rétt skref. Með því veitti hún grasrót flokksins sóknarfæri í þröngri stöðu - hefja endurreisnarferlið og fara í þá vinnu sem fylgir miklu áfalli, afhroði í kosningum. Þeir sem klúðra málum svo afgerandi og fá svo þungan áfellisdóm eiga ekki að sitja lengur á stólum sínum.

Fjórflokkurinn á Akureyri er eitt blæðandi sár eftir kosningaúrslitin. Áfall nýju leiðtoganna: Guðmundar Baldvins og Andreu Hjálmsdóttur, er mikið enda sátu flokkar þeirra í minnihluta en þeir töpuðu miklu fylgi og fengu alveg gríðarlega útreið - græddu ekkert á andstöðunni við fallna meirihlutann. En kosningaúrslitin voru pólitísk endalok fyrir Sigrúnu og Hermann - bæjarbúar einfaldlega ráku þau.

Samfylkingin á Akureyri þarf augljóslega á nýrri pólitískri forystu að halda, rétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn. Meirihluti flokkanna var verulega floppaður og gerði mikil og alvarleg mistök. Bæjarbúar hentu honum í ruslatunnuna um síðustu helgi og spörkuðu leiðtogunum. Afhroðið er það mikið og afgerandi að því verður ekki neitað.

Ég vorkenni Samfylkingarfélögum að þurfa að sitja upp með þennan forystumann og fara ekki strax í gegnum þá endurnýjun sem þarf. Sigrún Björk veitti okkur sjálfstæðismönnum þetta mikilvæga tækifæri en Hermann skynjar ekki stöðuna rétt. Með því gerir hann félögum sínum mikinn óleik - get ekki ímyndað mér annað en eldar logi þar.


mbl.is Hermann situr áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband