Sjálfstæðisflokkurinn með fjóra menn í Norðaustri

Þorvaldur Ingvarsson Sjálfstæðisflokkurinn mælist með fjóra þingmenn í Norðausturkjördæmi í nýjustu mánaðarkönnun Gallups. Skv. þessu er því Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri og formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar, inni á þingi. Þetta eru góð tíðindi fyrir sjálfstæðismenn hér og uppörvandi þegar að 70 dagar eru til kosninga. Þetta er mun betri staða en var í aðdraganda kosninganna 2003 og greinilegt að stefnir í góðar kosningar verði haldið vel og rétt á spilum.

Skv. könnuninni eru Framsóknarflokkurinn, VG og Samfylkingin öll með tvö þingsæti. Frjálslyndi flokkurinn mælist ekki með þingmann, ekki frekar en í síðustu könnun. Breytingin milli mánaða er því að við tökum mann af vinstri grænum, væntanlega er það jöfnunarþingsætið sem færist á milli. Þorvaldur fer þá inn á kostnað Björns Vals Gíslasonar á Ólafsfirði.

Inni fyrir Sjálfstæðisflokkinn eru því: Kristján Þór Júlíusson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Ólöf Nordal og Þorvaldur Ingvarsson. Aðrir inni eru sem fyrr: Steingrímur J. Sigfússon og Þuríður Backman (fyrir VG), Valgerður Sverrisdóttir og Birkir Jón Jónsson (fyrir Framsókn) og að lokum Kristján L. Möller og Einar Már Sigurðarson (fyrir Samfylkingu).

Gott þetta!

Jón í sviðsljósinu - örlagatímar fyrir Framsókn

Jón SigurðssonJón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, var í sviðsljósinu fyrir stundu er hann flutti yfirlitsræðu sína við upphaf 29. flokksþings framsóknarmanna. Ný skoðanakönnun Gallups sýnir Jón enn og aftur utan þings. Það stefnir í erfiða kosningabaráttu fyrir flokk og formann. Það er varla hughreystandi staða fyrir neinn flokk að horfa á könnun eftir könnun með formanninn utan þings og flokkinn að missa verulegt fylgi.

Sérstaklega hlýtur þessi staða að vera áberandi við upphaf fundar af þessu tagi. Jón hefur ekki verið lengi í stjórnmálum; hann varð ráðherra við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar úr ríkisstjórn fyrir níu mánuðum, í júní 2006, og tók svo við formennskunni af Halldóri á flokksþingi í ágúst. Hann sigraði Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra, í formannskjörinu, greinilega studdur af armi Halldórs innan flokksins í gegnum öll innanflokksátökin sem voru svo áberandi undir lok stjórnmálaferils hans. Enn eina könnunina í röð mælast bæði Jón og Siv utan þings. Þetta er athyglisverð staða fyrir bæði formannsefnin þegar að 70 dagar eru til kosninga.

Mörgum fannst valið á Jóni sem formanni mjög djarft. Hann hafði við formannskjör sitt aðeins verið virkur þátttakandi í stjórnmálum í tvo mánuði og var utanþingsráðherra, einn fárra í íslenskri stjórnmálasögu. Það var vitað strax í fyrrasumar að erfitt verkefni væri framundan fyrir Jón. Hálfu ári síðar virkar það enn stærra en áður. Flokkurinn mælist í skelfilegri stöðu, hefur misst þingmenn skv. mælingum i flestum kjördæmum og mikið fylgistap blasir við. Framsóknarflokkurinn hefur í 90 ára sögu sinni aldrei staðið verr að vígi og fyrri krísur flokksins blikna í samanburði við það sem nú blasir við.

Það mætti kalla baráttu næstu vikna sannkallaðan lífróður. Það mun allt standa og falla fyrir Framsókn á því hvernig Jóni gengur. Hann sem leiðtogi í kosningabaráttu verður andlit flokksins. Það boðar vond tíðindi fyrir Framsóknarflokkinn að hvorki sé Jón vinsæll í hugum landsmanna né óvinsæll. Með öðrum orðum; hann mælist ekki og er ekki eftirminnilegur í hugum kjósenda. Af mörgum alvarlegum tíðindum fyrir Framsóknarflokkinn eru þetta þau alvarlegustu. Flokkar verða aldrei stórir eða valdamiklir njóti leiðtogi þeirra ekki stuðnings landsmanna eða trausts. Í þessum efnum virðist Jón eiga enn verulega langt í land.

Það er ljóst að Jón Sigurðsson hefur mjög takmarkaðan tíma úr þessu til að snúa vörn í sókn; fyrir bæði sig og Framsóknarflokkinn. Næstu 70 dagar munu ráða úrslitum fyrir flokk eða formann. Allar kannanir núna sýna eyðimerkurgöngu fyrir flokkinn. Hann fer ekki í ríkisstjórn með 10% fylgi eða þaðan af minna. Í raun er þetta mikil barátta sem blasir við og ljóst að Jón leikur lykilhlutverk í því hver mæling flokksins verður. Hann var álitinn bjargvættur Framsóknarflokksins til að taka við er Halldór hætti. Hann hlaut mikinn stuðning til verka er Halldór hætti og nýtur hans því miður ekki neitt út fyrir flokkinn.

Jón og SivÞað má spyrja sig að því hvort það hafi verið röng ákvörðun fyrir Framsóknarflokkinn að kjósa ekki Siv Friðleifsdóttur til formennsku fyrir hálfu ári. Ímynd flokksins hefði verið allt önnur með konu á fimmtugsaldri á formannsstóli og í ofanálag konu með langan pólitískan feril að baki. Hún hafði verið þingmaður í rúman áratug og ráðherra í fjölda ára. Hún hafði bakgrunn stjórnmálamannsins.

Jón fékk tækifærið. Nú ræðst fljótt hvernig fer fyrir honum og flokknum - hvort hann verði sá sterki leiðtogi sem honum var ætlað að vera. Landsmenn fella þann dóm yfir honum og flokknum þann 12. maí. Nú er komið að örlagastundu fyrir Jón - baráttan framundan verður örlagarík fyrir þennan elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins og ekki síður Jón sjálfan.

Það er enda vandséð að hann verði áfram formaður flokksins fái flokkurinn skell af þeim skala sem hann mælist með. Það er enda ólíklegt að hann treysti sér til að halda í eyðimerkurgönguna sem leiðtogi flokks í algjörri uppstokkun. Enda mun algjör innri uppstokkun blasa við flokknum fari kosningarnar illa.

Þetta verður lífróður fyrir gamalgróinn flokk og flokksformann með blæ nýliða í stjórnmálum - með þessum lífróðri fylgjast allir stjórnmálaáhugamenn.

Hver er Jón Sigurðsson?
pistill SFS - 20. ágúst 2006


mbl.is Jón Sigurðsson: eigum að taka ákvarðanir varðandi ESB aðild á eigin forsendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í minningu séra Péturs

Sr. Pétur Þórarinsson Höfðinginn séra Pétur í Laufási er allur. Við sem höfum eitthvað komið nærri trúarstarfinu hér á svæðinu söknum leiðtogans sem Pétur var alla tíð í okkar huga. Hann var okkur öllum hér fyrirmynd. Styrkur hans var aðdáunarverður í þungu veikindastríði, sem reyndist höfðingjanum að lokum um megn að berjast við. Því miður, enda er fráfall hans mjög dapurleg endalok á löngu og erfiðu ferli sem var erfið þraut fyrir fjölskyldu hans og vini. Sú þraut sýndi okkur þó best úr hverju Pétur var gerður.

Í tilefni þess að Pétur hefur nú yfirgefið hið jarðneska líf, hefur kvatt okkur, þótti mér viðeigandi að sækja í bókahilluna í gærkvöldi baráttusögu hjónanna í Laufási, bók sem heitir einfaldlega Lífskraftur. Mér fannst ég verða að rifja bókina upp, en það er samt ekkert svo rosalega langt síðan að ég las hana síðast. Bókin Lífskraftur er baráttusaga hjónanna í Laufási. Það er sterk saga, saga sem lætur engan ósnortinn. Öll þekkjum við sjúkdómssögu séra Péturs. Ungur greindist hann með sykursýki. Hann barðist nær alla ævi við þann sjúkdóm. Þyngst voru örlögin síðar meir fyrir séra Pétur að missa báða fæturna. Samhugur íbúa hér með honum í því erfiða ferli var alla tíð mikill.

Mitt í veikindum Péturs veiktist Inga ennfremur af lífshættulegum sjúkdómi sem setti mark á alla baráttu þeirra og þyngdi róðurinn. Það birti þó yfir hjá Ingu en Pétur barðist áfram við sín örlög. Það var erfitt að berjast við þann þunga skugga og að því kom að það var óyfirstíganlegur vegatálmi á æviferð. Styrkur séra Péturs var ótrúlega mikill. Ég dáðist alla tíð af þessum styrk. Hann gaf þeim sem næst honum stóðu mjög mikið. Ekki síður var hann mikils virði fyrir alla þá fjölmörgu sem kynntist honum á langri vegferð. Þeir sem áttu við sjúkdóm að stríða hér litu upp til erfiðrar reynslu séra Péturs. Hann miðlaði reynslu sinni vel til fólks sem átti í þungri baráttu líka.

Barátta hans var opinber, hann fór aldrei leynt með ástand sitt og vildi deila því með fólki. Við tókum líka að ég tel öll þátt í þessari baráttu við sem hér erum. Síðar voru haldnir styrktartónleikar í Glerárkirkju, gömlu sóknarkirkju Péturs. Íbúar hér fjölmenntu á marga tónleika til að styðja fjölskylduna, sýna hlýju og kærleik á raunastundu. Samhugur íbúanna hér kom þá mjög vel fram og ég held að það eitt og sér að finna stuðning allra og þennan mikla hlýhug hafi gefið Pétri kraftinn til að berjast svo sterkt gegn sjúkdómnum. Hann var valinn maður ársins af íbúum á svæðinu árið sem hann missti fæturna. Það var mikilvæg viðurkenning til Péturs - hlýleg kveðja.
 
Í haust var viðtal við séra Pétur í Kompás á Stöð 2. Þar sást greinilega að þungi baráttunnar var greinilega að sliga höfðingjann. Þetta var orðinn þungur róður. Þar talaði hann um hversu þung baráttan væri orðin. Ég verð að viðurkenna að ég komst við að sjá þetta viðtal og ég skynjaði þá hversu mjög sligaður hann var orðinn af þunganum. Þetta var síðasta viðtalið við Pétur sem ég sá og heyrði. Þetta viðtal lét engan ósnortinn.

Erfiðu sjúkdómsstríði er lokið. Við hér á þessu svæði minnumst öll trúarlegs höfðingja með hlýju. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég til Ingu og fjölskyldunnar við fráfall séra Péturs. Blessuð sé minning hans.

mbl.is Andlát: Pétur Þórarinsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðhákurinn Steingrímur J. koðnar niður í þinginu

Steingrímur J. Það var frekar kostulegt að sjá Steingrím J. Sigfússon koðna niður í þinginu og vilja ekki svara einfaldri spurningu á sama degi og hann trompar bæði Samfylkinguna og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í tveim skoðanakönnunum. Í dag mældist enda VG stærri en Samfylkingin í fyrsta skipti hjá Gallup í heil fimm ár og hann hefur meira fylgi meðal landsmanna til að verða forsætisráðherra en Ingibjörg Sólrún. Er Steingrímur J. kannski að verða forsætisráðherraefni vinstriaflanna? Ekki hægt annað en að spyrja pent.

Þingmenn Framsóknarflokksins gerðu Steingrími J. greinilega nokkurn grikk á þingi í dag með því að minna hann á að innan við tvö ár eru síðan að fram kom af hans hálfu í þingumræðu að Neðri-Þjórsá væri mjög eðlilegur virkjunarkostur. Sagði hann þá ennfremur að vinstri grænir hefðu í sveitarstjórnum stutt stóriðju á Grundartanga og Húsavík og virkjanir á Hellisheiði vegna stækkunar í Straumsvík. Athygli vakti að Steingrímur vék sér undan því að svara. Hann koðnaði niður undan spurningum og athugasemdum alþingismannanna Guðjóns Ólafs Jónssonar og Hjálmars Árnasonar. Enda er þetta frekar pínlegt fyrir mann sem sveipar sig fagurgrænum heilagleikaljóma í umhverfismálum á tyllidögum.

Ég hef lengi fylgst með stjórnmálum hér á þessu svæði og verið stjórnmálaáhugamaður í mjög mörg ár, eiginlega síðan að ég komst til vits og ára. Heimahéröð mín hér fyrir norðan hafa verið pólitískur vettvangur Steingríms J. og segja má að þessi hluti Norðausturkjördæmis sem ég bý í hafi verið vagga VG í upphafi. Ég verð því fúslega að viðurkenna eftir öll þessi ár sem pólitískur áhorfandi hér að ég hef aldrei séð Steingrím J. svona vandræðalegan eins og í þinginu í dag. Það var mjög tómlegur svipur í andlitinu yfir þessum svörum. Orðin komu aldrei í umræðunni... engin svör. Það var bara horft út í bláinn. Merkilegt móment, svona ekta Kodak moment, eins og bloggvinur Árni blaðaljósmyndari myndi kalla það.

Ég var á fundi með Steingrími J. á þriðjudagskvöldið. Það var gott spjall um ýmis málefni og við sátum heillengi og fórum yfir stöðu mála. Hann drakk kaffi á meðan að ég drakk mjög hollan og góðan epladrykk, mjög hollur og góður drykkur eflaust ef marka má pakkalýsingarnar með prósentum. En hvað með það. Þar var fyrir framan mig og aðra fundarmenn staddur maður, mjög sjóaður pólitískur sjóari sem hefur siglt um allar pólitísku öldur heimsins, sem svaraði öllum spurningum sem að honum var beint. Ekkert hik og svör á reiðum höndum. Þannig man ég alla tíð eftir Steingrími J.

Þannig var hann ekki í þinginu í kvöld. Þar var tómlegt augnaráð og þögnin ansi áberandi. Mjög merkilegt. Það er betra sennilega að þegja en moka dýpri holu en þá sem þegar var ljós í þessu máli.

Fylgst vel með verðlagi eftir skattabreytingar

Matvöruverslun Ég get nú ekki sagt að ég hafi upplifað risastóra hamingjustund yfir lækkandi verði þegar að ég stóð við kassann í Nettó á sjötta tímanum og borgaði fyrir það sem var í körfunni minni... en lækkun er það samt auðvitað. Þessu ber að fagna, þó mörg fleiri skref megi stíga auðvitað. Sumt lækkar meira en annað og heilt yfir var gaman að líta yfir verðmiðann og fara aðeins betur yfir er heim var komið.

Það er greinilegt að ekki eru allir viljugir að fara eftir þessu. Það er skandall verði neytendum öllum ekki færð þessi lækkun og það verður að fylgjast með því að staðið verði við þetta. Einfalt mál það. Það ber því að fagna því að Neytendastofa, Neytendasamtökin og tengdir aðilar hafi vakt á þessu - fylgst verði vel með. Það mun vonandi bera góðan árangur. Það er allavega ljóst að augu hins almenna neytenda eru vel opin. Það er gott mál.... er nauðsynlegt.

Þeir á Egilsstöðum virðast hafa flaskað á því allstórlega eins og sést í þessari frétt. Svona er vel fylgst með. Það er um að gera að vera vel vakandi. Ekki er þetta nú gott PR allavega fyrir söluskáli framsóknarkaupfélagsins fyrir austan allavega.

mbl.is Söluskáli KHB lækkaði ekki verð í morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur sigur hjá Bubba í Hæstarétti

Bubbi Morthens

Það er óhætt að segja að Bubbi Morthens vinni góðan sigur í frægu máli sínu gegn DV og Hér og nú og fái sitt fram. Hæstiréttur staðfestir dóm Héraðsdóms í mars 2006. Eins og flestir vita birti tímaritið forsíðumynd í blaði sínu í júní 2005 með flennifyrirsögninni Bubbi fallinn! Á myndinni sást Bubbi með sígarettu í munnvikinu sitjandi í bíl sínum talandi í farsíma. Bubbi krafðist þess að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk og að honum yrðu dæmdar miskabætur.

Ummælin eru dæmd dauð og ómerk og er ritstjóri blaðsins á þeim tíma dæmdur til að greiða Bubba 700.000 krónur í miskabætur. Ennfremur er tekið sérstaklega fram í dómnum að myndataka af manni í bifreið sinni sé með öllu óheimil á sama hátt og um væri að ræða myndatöku að heimili hans. Ráðist sé að friðhelgi einkalífs hans með slíku.

Tek ég undir þetta mat. Man ég vel þegar að ég sá þetta tiltekna blað fyrst. Fyrsta hugsun mín og flestra voru án vafa að nú væri Bubbi aftur kominn í dópið. Allavega er ljóst að fyrirsögnin bauð heim misskilningi og dómurinn er svo sannarlega skiljanlegur. Svona umfjöllun er enda fyrir neðan allar hellur.

Það er gott að það liggi fyrir dómur sem tekur í vonandi eitt skipti fyrir öll á "blaðamennsku" af þessu tagi sem var á ótrúlegu plani á þeim tímapunkti sem þessari forsíðu var slengt fram. Bubba Morthens vil ég óska til hamingju með sigur sinn í málinu. Sá sigur er í senn bæði afgerandi og nokkuð sögulegur.


mbl.is Bubba Morthens dæmdar bætur fyrir meiðyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG stærri en Samfylkingin - ríkisstjórnin fallin

Könnun (mars 2007) VG mælist stærri en Samfylkingin, og því annar stærsti flokkur landsins, í nýjustu skoðanakönnun Gallups sem kynnt var rétt í þessu í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Þetta er í fyrsta skipti í fimm ár sem það gerist í könnunum frá Gallup. Ríkisstjórnin mælist fallin í könnuninni rétt eins og var í síðustu mánaðarkönnun. Framsóknarflokkurinn bætir við sig milli mánaða og er nú kominn yfir 10% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn missa fylgi milli mánaða.

Fylgisaukning VG er staðfest í þessari könnun. Síðast munaði litlu á flokkunum en nú eru semsagt vinstri grænir komnir fram úr Samfylkingunni. Það eru nokkur tíðindi svo sannarlega. Skv. þessu er Sjálfstæðisflokkurinn með örlitlu meira en kjörfylgið 2003 og er nú aðeins 12% stærri en VG. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 24 þingsæti, VG hefur 15 þingsæti, Samfylkingin hefur 14, Framsókn hefur 6 þingsæti en Frjálslyndir hafa 4 þingsæti. Skv. þessu hefur Sjálfstæðisflokkur bætt við sig tveim frá kosningunum 2003, VG bætt við sig tíu þingsætum, Samfylkingin misst sex, Framsókn líka misst sex og Frjálslyndir hafa jafnmarga og síðast.

Þetta er merkileg staða sem sést þarna, vægast sagt. Fróðlegt verður að sjá skiptingu þingmanna í kjördæmunum í samræmi við þetta. Stóru tíðindin eru þó að VG mælist næststærsti flokkur landsins og með einu þingsæti meira en Samfylkingin. Á sama tímapunkti fyrir fjórum árum var himinn og haf milli flokkanna, Samfylkingu í vil. Þessi könnun birtist sama dag og könnun Fréttablaðsins sýndi að fleiri vildu Steingrím J. Sigfússon sem forsætisráðherra en Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Þessi könnun er mjög stór - vel yfir 4000 manna úrtak og hún er gerð yfir heilan mánuð. Þetta er því öflug könnun sem segir ansi margt um stöðuna eins og hún er núna. Hún dekkar mánuðinn og því erfitt að sjá nýjustu sveiflur. Nú stefnir hinsvegar í vikulegar kannanir hjá Gallup fyrir RÚV og Morgunblaðið og daglegar undir lok baráttunnar svo að þetta verða spennandi tímar framundan. Það eru aðeins 72 dagar til kosninga.

Það hlýtur að fara um Samfylkingarmenn í þessari stöðu. Þetta er ansi frjálst fall frá kosningunum 2003 og það sem meira er að Steingrímur J. er farinn að líta niður á Ingibjörgu Sólrúnu í orðsins fyllstu merkingu.

mbl.is VG með meira fylgi en Samfylking
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsi til að drekka bjór í 18 ár

Bjór Í dag, 1. mars, eru 18 ár liðin frá því að sala á sterkum bjór, var leyfð á Íslandi. Innflutningur og sala á bjór var bönnuð með lögum árið 1915, bannið var því í gildi í 74 ár. Frumvarp um afnám bjórbannsins var samþykkt á Alþingi að kvöldi 9. maí 1988. Oft hafði fram að því verið lagðar fram tillögur á þingi um afnám bannsins en alltaf tókst andstæðingum þess, að sala á áfengu öli yrði heimiluð að nýju, að stöðva framgang breytinganna.

Loks tókst að ná þingmeirihluta um málið í kjölfar þingkosninganna 1987 og frumvarpið varð að lögum eins og fyrr segir vorið 1988. Ólíkt því sem nú er voru deildir þingsins þá tvær, efri og neðri deild, og tafði það afgreiðslu málsins að ekki var víst um stuðning í annarri deildinni. Atkvæðagreiðsla um bjórinn varð þó ekki eins tvísýn og búist hafði verið við í upphafi.

Ég fer nánar yfir þetta í pistli á vef SUS í dag, sem ber heitið: Frelsi til að drekka bjór í 18 ár

Bendi ennfremur á þennan tengil:
Ýmis ummæli andstæðinga frelsis í umræðum um afnám banns við neyslu og sölu bjórs

Harður árekstur heima í Þórunnarstræti

Árekstur Harður árekstur var heima í Þórunnarstræti í dag. Það er enginn vafi á því að gatnamót Þórunnarstrætis og Glerárgötu eru mjög hættuleg í hálku, enda er brekkan niður Þórunnarstræti að gatnamótunum mjög brött og erfið. Það hefur verið gríðarleg hálka hérna á Akureyri síðustu dagana, en vetrarríki hefur verið alveg frá því um helgi.

Ég hef búið neðarlega í Þórunnarstræti síðustu fimm árin, rétt fyrir ofan lögreglustöðina, og þekki því vel þessi gatnamót enda fer ég um þau á hverjum degi niðrí bæ og svo auðvitað aftur heim. Hún er mjög erfið í svona veðri eins og verið hefur og oft hafa orðið þarna harðir árekstrar á gatnamótunum. Stutt er t.d. síðan að þunglestaður flutningabíll rann svo til stjórnlaust niður vegna lélegs útbúnaðar og mildi þá að varð ekki stórslys.

Ég fer ekki ofan af því að þetta er með svæsnari gatnamótum í bænum við þær aðstæður sem nú eru. Slys af þessu tagi eru allavega umhugsunarverð fyrir okkur sem búum hér og förum um gatnamótin á hverjum einasta degi.

mbl.is Harður árekstur á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Ísland!

Matvöruverslun Við, neytendur, ættum öll að geta glaðst vel í dag. Frá og með deginum í dag lækkar virðisaukaskattur mjög á fjölda vörutegunda. Vörugjald af innlendri matvöru hefur verið afnumið - virðisaukaskattur af matvælum, sem nú er 14%, verður 7% og sömuleiðis verður það 7% af þeim matvörum sem nú er í 24%. Ennfremur lækkar virðisaukaskattur af veitingaþjónustu sem nú er 24,5% niður í 7%. Almennir innflutningstollar af kjötvöru munu lækka um allt að 40% samhliða þessu.

Þessar tillögur stjórnarflokkanna sem nú verða að veruleika voru fyrst kynntar þann 9. október sl. Þær tillögur komu í kjölfar skýrslu Hallgríms Snorrasonar, hagstofustjóra, sem stýrði nefnd sem skipuð var af forsætisráðherra í janúar 2006, er var afgerandi þess efnis að matvælaverð hérlendis væri alltof hátt og aðgerða væri þörf, sem flestir vissu svosem vel fyrir. Tillögurnar voru staðfestar af Alþingi fyrir árslok.

Það er fátt um þetta að segja nema hið allra besta. Þetta er sannkallaður gleðidagur. Öflugt skref í rétta átt svo sannarlega.

mbl.is Virðisaukaskatturinn lækkaður; neytendur segjast vera vakandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sr. Pétur Þórarinsson látinn

Sr. Pétur Þórarinsson, sóknarprestur og prófastur í Laufási, lést í nótt, 55 ára að aldri. Pétur hafði barist hetjulega við erfið veikindi svo árum skipti, veikindi sem sýndu karakterstyrk hans betur en flest annað. Sr. Pétur hefur verið sóknarprestur hér á svæðinu í tæpa þrjá áratugi. Hann var prestur á Hálsi í Fnjóskadal 1976-1982, tók við sem sóknarprestur á Möðruvöllum árið 1982 er sr. Þórhallur Höskuldsson varð prestur í Akureyrarkirkju og varð sóknarprestur í Glerárkirkju hér á Akureyri er frændi minn, sr. Pálmi Matthíasson, varð sóknarprestur í Bústaðakirkju við biskupskjör Hr. Ólafs Skúlasonar.

Sr. Pétur hefur verið sóknarprestur á Laufási frá árinu 1991, frá biskupskjöri sr. Bolla Gústafssonar á Hólum. Hann hefur síðasta áratuginn verið prófastur á sínu svæði, en varð að hætta sem prófastur fyrir nokkrum mánuðum vegna veikinda. Nær allan prestsferil sinn að Laufási hefur Pétur barist við erfið veikindi. Hann missti báða fætur sína vegna sykursýki um miðjan síðasta áratug og barðist við að halda störfum sínum áfram með aðdáunarverðum hætti við mjög erfiðar aðstæður.

Án aðstoðar Ingu, eiginkonu Péturs, hefði honum verið erfitt að halda áfram, en hún var allt til hinstu stundar honum mikil stoð í verkum sínum. Samhugur íbúa hér með Pétri og fjölskyldu hans í veikindastríðinu hefur alla tíð verið mikill. Eftir þann þunga dóm að missa báða fæturna voru haldnir styrktartónleikar fyrir fjölskylduna, fleiri en einir tónleikar, í Glerárkirkju. Voru það ógleymanlegir tónleikar okkur sem þangað fóru.

Ég vil votta Ingu og fjölskyldunni mínar innilegustu samúðarkveðjur við fráfall Péturs.

Fallegasta ljóð Péturs og það sem mun halda nafni hans hæst á lofti er Í bljúgri bæn;


Í bljúgri bæn og þökk til þín,
sem þekkir mig og verkin mín.
Ég leita þín, Guð leiddu mig
og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,
sú rétta virðist aldrei greið.
Ég geri margt, sem miður fer,
og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,
ég betur kunni þjóna þér,
því veit mér feta veginn þinn,
að verðir þú æ Drottinn minn.

Pétur Þórarinsson
1951-2007


Fjallað er nánar um æviferil Péturs í ítarlegum skrifum á vef Þjóðkirkjunnar í dag.

Pétur veitti síðasta fjölmiðlaviðtal sitt í haust er hann ræddi við Björn Þorláksson - þar sagði hann veikindasöguna í Kompásþætti. Bendi fólki á að horfa á viðtalið við Pétur. Það lætur engan ósnortinn.

Blessuð sé minning höfðingjans Péturs í Laufási.


Sterk staða Geirs - fleiri vilja Steingrím en ISG

Geir H. HaardeTæpur helmingur landsmanna vill að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, verði áfram forsætisráðherra að loknum þingkosningunum í vor skv. könnun Fréttablaðsins. Athygli vekur að mun fleiri vilja að Steingrímur J. Sigfússon verði forsætisráðherra en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og hefur hann um 10% meira fylgi. Stóru tíðindin hvað varðar minnkandi mælingu Ingibjargar Sólrúnar er þó án nokkurs vafa það að aðeins 20,5% kvenna vilja að hún verði forsætisráðherra, en hinsvegar örlitlu færri karlar, eða 16,7%.

Geir hefur meira fylgi nú en í sambærilegri könnun í nóvember. Nú vilja tæp 49% að hann verði áfram forsætisráðherra; 51,4% karla en 45,6% kvenna. Sterk staða Geirs á meðal kvenna vekur sérstaka athygli og hlýtur að boða gott fyrir sjálfstæðismenn að svo miklu fleiri konur í úrtakinu vilji Geir frekar en Ingibjörgu Sólrúnu. Þessi staða hlýtur að teljast góð tíðindi fyrir Geir á þessum tímapunkti, þegar að rétt rúmir 70 dagar eru til þingkosninga, en Geir hefur nú verið forsætisráðherra í tæpa níu mánuði, eða allt frá 15. júní sl. er Halldór Ásgrímsson hætti í stjórnmálum.

Steingrímur J. Sigfússon hefur tæplega tíu prósentum meira í könnuninni en Ingibjörg Sólrún. Rúmur fjórðungur, eða 25,8 prósent, segist vilja að Steingrímur J. verði næsti forsætisráðherra. Lítill munur er á afstöðu eftir kyni, en 26,8% íbúa á höfuðborgarsvæðinu nefna Steingrím og 24,3% íbúa á landsbyggðinni. Í könnun blaðsins í nóvember sögðust 16,6% vilja að Steingrímur verði næsti forsætisráðherra en 22% vildu þá Ingibjörgu Sólrúnu. Staða hennar virðist því halda sífellt áfram að veikjast.

Áhyggjuefni hlýtur að vera fyrir Framsóknarflokkinn að Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður flokksins, mælist ekki í þessari könnun. Það er greinilegt að honum hefur ekki tekist að stimpla sig inn þrátt fyrir að hafa verið formaður Framsóknarflokksins í rúmlega hálft ár og ráðherra í um níu mánuði. Þessi staða hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir Framsókn því að Halldór Ásgrímsson mældist jú alltaf þó hann hafi orðið óvinsæll undir lok stjórnmálaferilsins.


Obama velgir Hillary - Giuliani eykur forystuna

Barack Obama og Hillary Rodham Clinton Barack Obama hefur saxað mjög síðustu tvær vikurnar á forskot Hillary Rodham Clinton í baráttunni um það hver verði útnefndur frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum í nóvember 2008. Það er greinilegt að æ fleiri líta á hann sem raunverulegan valkost. Ljóst er nú að blökkumenn eru í æ ríkari mæli að horfa til hans og segja skilið við Hillary og þeir hópar sem voru síður að gefa sig upp áður horfa nú frekar til blökkumannsins frá Illinois sem vonarstjörnu en Hillary.

Þetta eru vissulega mikil tíðindi - þessi mæling sýnir vel að Hillary er fjarri því örugg um útnefningu flokksins og framundan er hörð barátta. Obama virðist hafa veðjað á rétt. Hann hefur engu að tapa með framboðinu og mun aðeins styrkja sig hvernig sem fer, ólíkt Hillary sem hefur miklu að tapa nái hún ekki útnefningunni, sem flestir hafa talið hennar eftir ósigur John Kerry í forsetakosningunum 2004. Obama er ekki í ólíkri stöðu nú og John Edwards við síðustu forsetakosningar, sem maður er tekur áhættuna vitandi að hann tapar engu hvernig sem fer. Hann mun aðeins eflast og það verulega - stimplar sig inn.

Það hlýtur að fara um Clinton-hjónin í þessari stöðu. Það er alveg ljóst að tapi Hillary mun ekki aðeins hún veikjast verulega á þessari áhættu sem fylgdi framboðinu heldur líka eiginmaður Hillary, Bill Clinton, 42. forseti Bandaríkjanna. Þau munu leggja allt sitt í framboðið og sækja bæði alla peninga sem þau geta safnað og leita í allar áttir stuðningsmanna sem þau telja mögulega geta styrkt framboðið. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Hillary að stjörnurnar í Hollywood og peningamenn í Kaliforníu eru í æ ríkari mæli að horfa til Obama. Til dæmis hefur áhrifamaður í Hollywood á borð við Steven Spielberg, sem ávallt hefur fylgt þeim hjónum til þessa, veðjað á Obama.

Bill og Hillary Rodham Clinton lögðu grunn að þessu framboði með forsetatíðinni 1993-2001 og eiga víða vini og kunningja. Þau stóla nú á að það muni tryggja forsetafrúnni á þeim tíma vist í Hvíta húsinu nú. Þau munu sækja inni alla greiða sem þau mögulega geta tryggt og leita víðar en það. Það sem eitt sinn var talið sigurganga Hillary gæti nú orðið þyrnum stráð og verulega erfið. Þetta gæti orðið þrautaganga og öllum er ljóst að Hillary skaðast verulega sem sterkur stjórnmálamaður og stjörnuljómi innan flokksins með tapi. Clinton forseti veit líka hvað er í húfi. Tap fyrir nýja vonarneistanum gæti orðið þungt til lengri tíma litið. Þetta verður því verulega harður slagur - óvæginn og hvass.

Giuliani Á meðan að þessu stendur er Rudolph Giuliani, fyrrum borgarstjóri í New York, að stinga af öldungadeildarþingmanninn John McCain á meðal repúblikana. Hann er kominn með gríðarlegt forskot og virðist á góðri leið með að tryggja sér farmiða í aðalslaginn ef fram heldur sem horfir. Það skyldi þó ekki fara svo að Giuliani feti örugga sigurbraut að farmiða flokksins í baráttuna um Hvíta húsið. Það yrði mjög athyglisvert myndi fara svo.

En þetta verða bæði sögulegar og áhugaverðar forsetakosningar. Persónulega taldi ég alltaf að Hillary myndi vinna hjá demókrötum og við myndum fá að ári eftir forkosningar að sjá loksins sögulega öldungadeildarslaginn í New York sem stefndi lengi vel í að yrði aðalslagurinn í kosningunum 2000 en varð svo aldrei af; semsagt keppni milli Hillary Rodham Clinton og Rudolph Giuliani. En maður er farinn að efast nú.

Mun Obama stela sviðsljómanum af sjálfri Hillary, taka af henni tækifæri ferilsins? Jahérna, það yrði rosaleg frétt færi svo. Það er allavega ljóst að fáir spá nú afgerandi sigri Hillary og þetta gæti orðið mjög jafnt, jafnvel svo að forsetafrúin fyrrverandi sæti eftir með sárt ennið.

mbl.is Barack Obama saxar á forskot Hillary Clintons
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afleikur Ingibjargar Sólrúnar - krísa hægrikratanna

ISG Það er ekki hægt að segja annað en að það sé ótrúlegur afleikur hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að beita sér fyrir því að reyndur stjórnmálamaður á borð við Jón Baldvin Hannibalsson skipi ekki heiðurssæti á framboðslista. Jón Baldvin er enginn venjulegur flokksmaður Samfylkingarinnar; hann var formaður Alþýðuflokksins í tólf ár, fjármálaráðherra í eitt ár og utanríkisráðherra í sjö ár. Hann var í áratugi virkur stjórnmálamaður og leiðtogi á vinstrivængnum á örlagatímum í íslenskum stjórnmálum; leiddi Alþýðuflokkinn til vegs og virðingar í ríkisstjórn árið 1987 og var um langt skeið einn áhrifamesti stjórnmálamaður landsins, sprengdi t.d. ríkisstjórnir.

Það ber ekki vott um klókindi hafi Ingibjörg Sólrún í önugu skapkasti beitt sér gegn því að Jón Baldvin yrði um borð á listum flokksins. Það er enda ekki undarlegt að leitað sé eftir því; hann er kominn heim til Íslands eftir alllanga útlegð sem sendiherra og verið mjög virkur í þjóðmálaumræðunni. Fjarvera hans frá framboðslistunum er stingandi og gott betur um það. Ummæli hans í kvöldfréttum Stöðvar 2 bera því vitni að hann líti á þessa framkomu sem niðurlægingu fyrir sig. Gleymum því ekki að Jón Baldvin yfirgaf stjórnmálin til að greiða fyrir samfylkingu vinstriaaflanna og hélt út til að leggja drög að samstöðu um nýja tíma. Nú er hann kemur heim er ekki óskað eftir liðsinni hans á lista.

Ég get rétt ímyndað mér að armur Jóns Baldvins innan Samfylkingarinnar sé argur vegna stöðu mála. Í ljósi alls þessa ber að skilja mun betur ákvörðun Jakobs Frímanns Magnússonar um að yfirgefa Samfylkinguna. Þeir eru mun fleiri hægrikratarnir sem þar hafa dæmt skipið ómögulegt og haldið á önnur mið sem henta þeim betur. Það að Jón Baldvin sé ekki metinn sem öflugur til veru í heiðurssæti eru enda stórtíðindi. Ummælin í kvöld ber allavega að skilja að hann hafi viljað vera í hópnum, þó vissulega aftarlega hafi verið. Það að sá liðsauki reynds stjórnmálahöfðingja sé afþakkaður er athyglisvert í sjálfu sér.

Það er löng hefð fyrir því að leiðtogar sem yfirgefið hafa stjórnmálasviðið eða fari ekki fram aftur sé í heiðursskyni boðið sess sem hæfir því að þeim sé búinn vegsauki við hlið þeirra sem leiða vagninn. Hér hjá okkur í Norðausturkjördæmi er leiðtogi okkar sjálfstæðismanna í áratugi, Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og forseti Alþingis, í heiðurssætinu og eins og Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, bendir á í góðum skrifum á bloggvef sínum í kvöld eru fyrrum forsætisráðherrar og flokksformenn Framsóknarflokksins, þeir Steingrímur Hermannsson og Halldór Ásgrímsson, í heiðurssess hjá flokknum í Reykjavík og Kraganum.

Þessi afleikur Ingibjargar Sólrúnar vekur mikla athygli í ljósi þess hve Jón Baldvin Hannibalsson hefur verið handgenginn henni. Hann talaði mjög máli þess að hún færi í landsmálin fyrir kosningarnar 2003 og studdi hana í formannsslagnum 2005 þar sem sitjandi formanni var skipt út fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Hún virðist hafa reiðst mjög Jóni Baldvin vegna ummælanna í Silfri Egils og það hafa einhver hnútuköst orðið milli þessara fornu samherja. Merkilegt vissulega í ljósi þess sem þeirra hefur farið fyrr á milli.

Krísa hægrikratanna í Samfylkingunni verður sífellt meira skiljanleg í ljósi þess að Nestori þessa hóps er hafnað um heiðurssæti og enginn vilji sýndur um að hann eigi að vera í hópnum fyrir kosningarnar þó hann hafi greinilega viljað það sjálfur. Horfir hann nú í aðrar áttir? Það að hann tali svo hreint út við Stöð 2 ber því allavega vel vitni að hann sé ekki beint sáttur við stöðu mála, ekki frekar en margir samherjar hans sem hafa nú þegar reyndar yfirgefið flokkinn.

Ingibjörg Sólrún vildi ekki Jón Baldvin í heiðurssæti

JBH Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, beitti sér fyrir því að boð um heiðurssæti fyrir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum utanríkisráðherra og formann Alþýðuflokksins, á lista flokksins í Reykjavík var afturkallað. Þetta var fullyrt í kvöldfréttum Stöðvar 2 rétt í þessu og vitnað þar í samtal við Jón Baldvin, sem vildi ekki koma í viðtal vegna málsins, en sagði að rætt hefði verið um að hann myndi taka heiðurssæti en boð um slíkt afturkallað eftir frægt viðtal Egils Helgasonar við JBH í Silfri Egils fyrir mánuði. Þar talaði JBH enga tæpitungu um stöðu flokks og formanns.

Þetta eru svo sannarlega stórtíðindi, enda hefur Jón Baldvin verið einn af Nestorum Samfylkingarinnar og verið í hávegum hafður þar. Hann var ötull stuðningsmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í formannskjörinu í Samfylkingunni fyrir tveim árum er hún felldi svila sinn, Össur Skarphéðinsson, fyrsta formann flokksins, af formannsstólnum. Jón Baldvin hefur frá lokum stjórnmálaferils síns, er hann hætti til að rýma í raun fyrir fyrri tímum gömlu A-flokkanna og stuðla að stofnun Samfylkingarinnar, verið mjög áberandi á bakvið tjöldin og talað máli flokksins og lagt honum lið, t.d. í utanríkismálum að undanförnu. Þeir tímar virðast vera að líða undir lok.

Að undanförnu hefur sú kjaftasaga orðið meira útbreidd að Jón Baldvin verði jafnvel þátttakandi í nýju framboði Margrétar Sverrisdóttur og tengdra afla. Ekki mun sú kjaftasaga deyja við þessi tíðindi, svo mikið er nú alveg víst.

Helen Mirren glæsilegust allra á Óskarnum

Helen Mirren Það er nú enginn vafi að Dame Helen Mirren var glæsilegust allra á Óskarnum aðfararnótt mánudags. Það geislaði af henni í kjól sem var eins og sniðinn algjörlega fyrir hana er hún tók við Óskarnum fyrir að túlka Elísabetu II Englandsdrottningu í kvikmyndinni The Queen. Glæsileg sigurstund fyrir hana á löngum ferli. Fannst reyndar afleitt þegar að hún tapaði í bæði fyrri skiptin; fyrir The Madness of King George og Gosford Park. Hún var t.d. alveg brill sem þjónustukonan ofurfullkomna, sem reyndist síðar ekki alveg svo fullkomin, í Gosford Park.

En þessi frétt er mjög fyndin í ofanálag. Það verður ekki af Dame Helen skafið að hún þorir að tala hreint út. Þess vegna var kannski viðeigandi að hún skyldi leika kjarnakonuna Elísabetu í þessari mynd. Þær eru nefnilega innst inni nokkuð líkar týpur held ég. Ákveðnar kjarnakonur. Nú heyrist reyndar að Mirren vilji leika Camillu Parker-Bowles, eiginkonu Karls Bretaprins, sem nú er orðin hefðarkona með titilinn hertogaynja. Það yrði nú heldur dúndurstöff, pent sagt.

Les. hér: Helen Mirren wants to play Camilla

mbl.is Nærhaldið fjarri á Óskarnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagrir kvikmyndatónar

Hef sett inn fagra en ólíka kvikmyndatóna í spilarann minn hérna. Ennio Morricone hlaut heiðarsóskarinn aðfararnótt mánudags fyrir sinn glæsilega feril. Tvö falleg stef ferils hans eru í spilaranum; Death Theme úr The Untouchables og The Good, the Bad and the Ugly, eðallinn sjálfur úr spagettí-vestrunum. Setti líka inn guðdómlegt saxófónstef Bernard Herrmann úr Taxi Driver, kvikmynd meistara Martin Scorsese, sem hlaut loksins leikstjóraóskarinn í vikunni. Það var kominn tími til að akademían heiðraði þessa miklu meistara. Saxófónstefið varð síðasta kvikmyndatónverk hins mikla snillings Herrmann og tekið upp aðeins nokkrum klukkustundum áður en hann varð bráðkvaddur.

Svo er þarna inni Tangóstefið ódauðlega með Carlos Gardel, en það gleymist engum sem sáu Scent of a Woman, myndinni sem færði Al Pacino löngu verðskulduð óskarsverðlaun. Tangóinn hans og Gabrielle Anwar í myndinni með stefið ómandi undir gleymist svo sannarlega ekki. Kvikmyndagaldrar. Svo er líka óskarsverðlaunalag Bob Dylan, Things have Changed, úr Wonder Boys. Besta lag Dylans frá gullaldarárunum. Svo má ekki gleyma I Don´t Want to Miss a Thing, óskarsverðlaunalagi Aerosmith sem prýddi myndina Armageddon árið 1998.

Svo er þarna Son of a Preacher´s Man með Dusty Springfield, en allir þeir sem sjá nokkru sinni Pulp Fiction gleyma því lagi ekki svo glatt. Svo er þarna að lokum síðast en ekki síst Streets of Philadelphia með Bruce Springsteen. Hann fékk óskarinn fyrir lagið, en það prýddi myndina Philadelphia árið 1993, myndinni sem færði Tom Hanks sinn fyrri óskar.


Eilífðartöffarinn frá Keflavík giftir sig loksins

Rúnar Júlíusson Ég verð að viðurkenna að ég kipptist eilítið við þegar að ég sá frétt á netinu um að eilífðartöffarinn frá Keflavík, rokkmeistarinn Rúnar Júlíusson, væri að fara að gifta sig í dag. Ég hef nefnilega haldið til fjölda ára að hann og María Baldursdóttir væru gift. Svo er þó nefnilega ekki, þau hafa aðeins verið kærustupar í öll þessi ár. Mun þetta eiga að vera stóri dagurinn í lífi þeirra. Mjög merkilegt.

Rúnar er Hr. Rokk í huga ansi margra landsmanna. Hann hefur verið samofinn íslenskri tónlistarsögu í yfir fjóra áratugi, eða frá því að Hljómar byrjuðu sinn glæsilega feril. Lög eins og Heyrðu mig góða, Fyrsti kossinn, Sveitapiltsins draumur og mörg fleiri hafa mótað feril hans og hann er enn á fullu. Það var t.d. mjög gaman að sjá Rúnar og Bubba taka lagið á afmælistónleikum Bubba í júní í fyrra. Mikið fjör og sá gamli hefur engu gleymt. GCD var dúndurviðbót reyndar á ferli Rúnars.

Rúnar var einn efnilegasti knattspyrnumaður landsins og einn af bestu mönnum Keflavíkurliðsins þegar að hann byrjaði í Hljómum og gaf þann feril upp á bátinn fyrir tónlistina. Hann hefur í fjóra áratugi búið með Maríu, en hún var valin fegurðardrottning Íslands í upphafi sambúðar þeirra, árið 1969 að mig minnir. Þau hafa verið sem eitt í huga landsmanna alla tíð síðan. Rúnar hefur ekki aðeins verið tónlistarmaður, hann hefur verið útgefandi tónlistar og pródúsent og á farsælan feril að baki.

Það er ekki hægt annað en að senda góðar kveðjur til gullna parsins, Rúnars og Maríu, suður til Keflavíkur á þessum merka degi í lífi þeirra.

Er undirbúningsleysi í Samfylkingunni?

SamfylkinginÞau skilaboð frá Samfylkingunni um að Egilshöll hafi aðeins verið laus sömu helgi og landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn hafa vakið athygli. Þetta bendir til þess að undirbúningur hafi hafist frekar seint hjá Samfylkingunni við fundinn. Þetta er allavega merkileg tilviljun svo sannarlega. Eins og ég benti á í gær eru mjög fá, ef þá eru nokkur, fordæmi fyrir því að tveir flokkar haldi æðstu fundi sína sömu helgina.

Þetta hefur vakið mikla athygli stjórnmálaáhugamanna síðustu dagana. Sjálfur tel ég þetta vera enn meira áberandi í ljósi þess að kosningar eru framundan. Hefði þetta verið millilandsfundur á miðju kjörtímabili hefði þetta væntanlega verið mun minna í umræðunni. En það er stutt í kosningar, rétt rúmir 70 dagar, og því er þetta meira áberandi þannig séð. Ég man reyndar að fyrir síðustu kosningar héldum við sjálfstæðismenn landsfund um mánaðarmótin mars-apríl 2003 en Samfylkingin var með svokallað vorþing viku seinna, sem reyndar var ekki landsfundur.

Það er greinilegt að sú hefð er nú úr sögunni að flokkar virði landsfundi hvors annars og reyni að hliðra til. Landsfundir eru stórmál, sérstaklega í aðdraganda kosninganna. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur verið áætlaður þessa helgi í tæpt ár og því vaknar spurning um það hversu lengi undirbúningur Samfylkingarinnar hefur staðið. En við erum vissulega að sjá nýja tíma með þessu og væntanlega verður það síður virt úr þessu hvort einn flokkur heldur landsfund tiltekna helgi eður ei er aðrir flokkar skipuleggja sig.

Sjálfum finnst mér þetta ekki gott fyrir hvorugan flokkinn, enda skiptir máli að flokkur hafi athygli á sér og stefnuáherslum sínum. En það verður að lifa við þetta og ekki hræðumst við sjálfstæðismenn samanburð milli fundanna. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur alla tíð verið stórviðburður í pólitískri umræðu og öflugasti fundur stjórnmálaflokks á Íslandi. Þetta er jú langfjölmennasti flokkur landsins og býr yfir mjög öflugri hefð og vönduðu skipulagi við undirbúning þessarar stærstu samkomu sinnar.

Fundur okkar sjálfstæðismanna stendur hefð skv. í fjóra daga en fundur Samfylkingarinnar stendur yfir í tvo daga svo að þetta kemur varla að sök fyrir hvorugan flokkinn. Það er svosem gott ef báðir flokkar fá góða athygli, en ég efast ekki um að landsfundur Sjálfstæðisflokksins verði mikið í umræðunni nú. Stefnumótun flokksins fyrir kosningarnar verður spennandi með að fylgjast og ég á von á líflegu málefnastarfi. Sérstaklega tel ég að umhverfismálin verði stórt mál á fundinum.


mbl.is „Var eina helgin sem var laus"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misnotkun á greiðslukortum

greiðslukort Það er rosalegt að heyra fréttir af þessu tagi um misnotkun á greiðslukortum. Þetta er því miður ekkert einsdæmi, enda hafa meira að segja heyrst sögur af því að óprúttnir aðilar hafi sett upp kortalesara í hraðbönkum, sem lesa rönd kortsins með öllum mikilvægustu upplýsingunum. Það mun vonandi takast að vinna á því með nýju kortunum með leyniröndinni svokallaðri.

Þetta er því miður sífellt að verða óprúttnara, en þetta dæmi telst nú með þeim svæsnustu. En hann er svo sannarlega dýr strætóinn á höfuðborgarsvæðinu. Ekki þurfum við þó að óttast svona dýran strætó hér. Eins og flestir vita eru nefnilega gjaldfrjálsar samgöngur hér á Akureyri og það kostar því ekkert í strætó. Og mun fleiri nota sér þennan samgöngukost eftir en var áður, sem hlýtur að teljast gleðiefni.

mbl.is Eyddi 300 þúsund kr. á þrem vikum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband