Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
1.11.2009 | 15:43
Hugrökk yfirlýsing hjá Lilju Mósesdóttur
Lilja gerir þetta með miklum sóma. Þeir sem hafa verið andvígir því að taka Icesave á sig hljóta að líta á Lilju sem hetju fyrir að þora að tala hreint út. Þessi yfirlýsing var afdráttarlaus, einkum hvað varðaði að hún ætlar ekki að láta valta yfir sig. Svo verður að ráðast hvort meirihluti er til staðar, reyndar hefur hann aldrei verið algjör í þessu lykilmáli og stjórnin því völt í sessi.
Yfirlýsing Lilju veikir enn frekar þessa vinstristjórn, sem hefur aldrei sérstaklega traust verið. Ekki kemur að óvörum að stór hluti þjóðarinnar efist í könnun um að hún lifi kjörtímabilið af. Vinstristjórnir hafa ekki beinlínis verið vænlegar til árangurs í Íslandssögunni.
Lilja sló reyndar tvær flugur í einu höggi í dag, bæði Icesave og Jóhönnu, en það mátti skynja mikla undirliggjandi reiði hennar í garð Jóhönnu Sigurðardóttur og mátti skilja sem svo að þar sé margt geymt en ekki gleymt eftir átök síðustu vikna.
Getur ekki samþykkt Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.11.2009 | 02:48
Sjálfstæðisflokkurinn nær lykilstöðu á ný
Óánægja þeirra sem kusu vinstriflokkanna í vor leiðir til þess að þeir vilja treysta Sjálfstæðisflokknum til verka. Horft er til Sjálfstæðisflokksins sem forystuafls að nýju. Þeir hafa orðið fyrir vonbrigðum sem vildu taka áhættuna á vinstrisveiflu.
Í sjálfu sér eru þetta engin stórtíðindi. Ávallt þegar vinstristjórn hefur tekið við völdum hefur liðið skammur tími þar til hún missir allt úr höndum eða fólkið í landinu áttar sig á því að það á völ á betri valkosti.
Hálfu ári eftir alþingiskosningar er Sjálfstæðisflokkurinn að ná lykilstöðu sinni að nýju, bæði í umræðunni og í pólitískum átökum. Vinstristjórnin veikist dag frá degi.
Svona er staðan. Óánægjan með vinstrið leiðir til þess að kjósendur vilja annan valkost. Allir sjá hver hann er.
Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.10.2009 | 18:25
Dramatíska hliðin á Guð blessi Ísland
Ég hef aldrei skilið dramatíkina vegna þess að Geir H. Haarde bað Guð að blessa Ísland þegar hrunið var að skella á af fullum þunga. Alþekkt er að þjóðarleiðtogar biðji Guð að blessa þjóð sína í ræðum og þarf stundum ekki hamfarir, efnahagslegar eða náttúrulegar, til þess.
Forsetar í Bandaríkjunum, bæði demókratar og repúblikanar, hafa margoft gert þetta. Bæði Clinton og Reagan voru sérstaklega frægir fyrir að halda varla ræður án þess að biðja Guð að blessa bæði þjóðina og alla sem hlustuðu á þá. Obama hefur gert þetta líka.
Hér heima vissu sumir ekki hvernig þeir ættu að höndla það að íslenskur forsætisráðherra gerði þetta á örlagastundu í þjóðarsögunni. Svolítið spes, en kannski dæmi um hvernig sumir fóru af límingunum af minnsta tilefni á þessum mánuðum.
Þessi lokaorð í ávarpi Geirs munu eflaust fylgja honum. Ekki aðeins voru þetta örlagarík orð þessa daga sem allt hrundi, heldur hefur heimildarmynd verið gerð með þessum titli og oft er vitnað í það.
Hvað mig persónulega varðaði fannst mér ræða Geirs á þessum tíma frekar eftirminnileg fyrir að tala dramatískt hvað væri að fara að gerast en aldrei segja það beint.
Þorgerður Katrín kom með eftirminnilega eftiráskýringu á ávarpi Geirs þegar því lauk og væntanlega voru fáir þá að spá beint í þessum fleygu lokaorðum.
Sumir vilja ekki ákalla Guð, sumum fannst óviðeigandi að blanda Guð í efnahagshrun. En ég er viss um að þetta var vel viðeigandi, þó umdeilt sé.
En dramatíkin lifir enn og ummælin orðin fleyg.
Átti að vera vinaleg kveðja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.10.2009 | 18:00
Súrrealíski brandarinn um Icesave
Icesave fer eflaust í sögubækurnar sem botnlaust klúður eða samfélagslegt vandamál næstu kynslóða - fær þungan áfellisdóm. Eitt sinn var það metin tær snilld og fékk meira að segja verðlaun hér heima fyrir að vera algjört meistaraverk þeirra sem stóðu að því. Súrrealískt. Þessi auglýsing fyrir Icesave er hálfgerður brandari - kostulegt að horfa á hana nú.
30.10.2009 | 16:09
Góð tíðindi fyrir Suðurnes - áfall fyrir Svandísi
Endurnýjuð ákvörðun Skipulagsstofnunar um að Suðvesturlínur verði ekki metnar með öðrum framkvæmdum er mikið pólitískt áfall fyrir Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, sem ætlaði að bregða fæti fyrir álverið í Helguvík - stöðva framkvæmdina til að skemma fyrir á Suðurnesjum.
Þessi hugsunarháttur er stórundarlegur á þessum tímum þegar reynt er að byggja upp. Niðurrifsstarfsemi vinstri grænna er ekki alveg í takt við tilraunir þeirra sem reyna að byggja upp einhverja framtíð.
Vonandi mun ákvörðun Skipulagsstofnunar verða til þess að Svandís fari að stunda vinnuna sína í stað þess að rífa niður.
Ekki sameiginlegt mat | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.10.2009 | 00:29
Veikburða ríkisstjórn í pólitísku stórmáli
Ágætt er að norska pressan fjalli um hversu veikburða ríkisstjórnin hefur verið í Icesave-málinu frá upphafi til enda. Þessi stjórn gerði afleitan samning við Breta og Hollendinga í júní undir verkstjórn Svavars Gestssonar án þess að hafa þingmeirihluta. Sumarið fór svo í að endurvinna samninginn til að geta komið honum gegnum þingið.
Óánægjuarmurinn í VG og þingmenn Sjálfstæðisflokksins leiddu þá vinnu nær algjörlega og léku lykilhlutverk í að breyta samningnum til að hann endurspeglaði þingvilja, samningi sem hafði ekki stuðning meirihluta Alþingis. Samningurinn var þó er á reyndi aðeins á ábyrgð ríkisstjórnarinnar - ekki náðist stuðningur út fyrir S + VG.
Enn hefur verið samið, nú með því að útvatna fyrirvara Alþingis. Enn er óljóst um hvort málið fari í gegn, þó flest bendi reyndar til að snuddu hafi verið stungið upp í Ögmund og Liljurnar. Altént er spuni Ögmundar stórmerkilegur fyrir breyttri afstöðu þegar ljóst er að fyrirvararnir hafa verið veiktir. Björn Bjarnason rekur það í góðri bloggfærslu í dag.
Mér finnst reyndar merkilegt hvað erlenda pressan hefur verið sofandi fyrir þeirri staðreynd að vinstristjórnin hefur verið að semja við sjálfa sig mánuðum saman hvað varðar Icesave. Hefur ekki haft meirihluta til að gera neitt. Fyrst var samið við Breta og Hollendinga, svo samið við Ögmundararminn og svo unnið á því - fyrirvararnir veiktir og sett snudda upp í Ögmundarliðið. Frekar fyndið en samt absúrd.
En svona er víst pólitíski veruleikinn í sundurleitri vinstriveröldinni hér heima - þar sem pólitíski stöðugleikinn er enginn.
Hneyksli á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.10.2009 | 17:52
Davíð best treyst fyrir uppbyggingarstarfinu
Ég sé að sumir undrast þessa útkomu og efast um hana. Varla þarf að efast um að niðurstaðan er traust, miðað við hversu mjög sumir hafa reynt að magna upp ófriðarbál haturs og illinda gegn Davíð Oddssyni og kennt honum einum um hvernig fór á síðasta ári. Ég tel að sagan meti að stjórnmálamennirnir á vaktinni við hrunið hafi borið miklu meiri ábyrgð. Þeir flutu sofandi að feigðarósi, hvorki þorðu að taka ákvarðanir né leiða þjóðina áfram.
En sagan hefur líka sýnt okkur að þeim farnast best sem þora að leiða, taka ákvarðanir og keyra hlutina áfram í staðinn fyrir að tala endalaust.... það er eftirspurn eftir þannig fólki nú í uppbyggingarstarfið.
28.10.2009 | 16:29
Er hægt að treysta stjórnarparinu?
Góðs viti ef satt er að stjórnarparið Jóhanna og Steingrímur ætli að endurskoða áform um orkuskattinn. Vonandi er hægt að treysta þeim fyrir því að halda lífinu í stöðugleikasáttmálanum og standa við gefin orð. Það er til marks um sáttahug að aðilar vinnumarkaðarins hafi tekið orð þeirra trúanleg öðru sinni og reynt að byggja upp á rústum samningsins, sem stjórnvöld hafa ekki unnið heilshugar að.
En nú verða verkin að tala - ekki dugar að blaðra endalaust en sýna ekki fram á nein verk eða trausta forystu þegar hana vantar sárlega. Eins og allir muna ætlaði ríkisstjórnin í sáttmálanum að lækka vexti og styðja við bakið á atvinnulífinu. Ekki hefur það gerst að neinu marki. Þrátt fyrir marga mánuði hefur ekkert gerst - stjórnin hefur ekki staðið við sinn hluta dílsins.
En nú reynir á hvort eitthvað var að marka þessi orð og heitstrengingar nú, þegar samningurinn hékk á bláþræði. Fyrr en verkin tala er ekki hægt að taka mark á stjórnarparinu.
Áform um orkuskatt endurskoðuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.10.2009 | 17:58
Flott hjá Bjarna Ben að rífa kjaft í Stokkhólmi
Algjör óþarfi er að Ísland láti þegjandi og hljóðalaust yfir sig ganga endalaust og eigi svo að mæta brosandi og þegjandi á fund með þessum sömu stjórnvöldum á Norðurlöndum og hafa ekkert fyrir okkur gert og verið með haltu kjafti mola uppí sér mánuðum saman.
Þetta er flott hjá Bjarna - mikið var að einhver þorfði að rífa kjaft á þessari heilögu samkundu sem er ekkert nema húmbúkk.
Ísland stóð eitt í hvirfilbylnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.10.2009 | 02:31
Sundruð ríkisstjórn rústar stöðugleikasáttmála
Flest bendir til þess að stöðugleikasáttmálinn heyri sögunni til vegna samstöðuleysis ríkisstjórnarflokkanna - á þessum örlagatímum er það skelfilegt að við völd sé ríkisstjórn sem getur hvorki tekið ákvarðanir né stýrt málum af festu.
Þegar þörf er á þjóðarsátt af sama tagi og gerð var fyrir tveimur áratugum til að rífa samfélagið upp úr doða og drunga virðist ekkert gerast. Stjórnarparinu virðist algjörlega ómögulegt að skapa von og framtíðarsýn. Sá er vandinn.
Við búum við algjöra pólitíska upplausn - ríkisstjórnin ræður ekki við verkefnið, getur ekki þokað málum áfram og sætt aðila vinnumarkaðarins í uppbyggingarstarfinu. Henni er ekki gefið að skapa nýja Þjóðarsátt til framtíðar.
Í þessu landi vantar samhenta og sterka ríkisstjórn sem þorir að skapa framtíðarsýn, byggja upp á rústunum og reyna að skapa stöðugleika. Hún er föst í gömlum og úreltum hjólförum, er bæði ósamhent og fjarlæg.
Trúverðugleikann vantar algjörlega. Auðvitað er sorglegt að við skulum ekki hafa neinn stöðugleiuka í stjórnmálum landsins, ríkisstjórnin er ekki samhent en virðist lafa saman við óttann að þurfa að viðurkenna að hafa mistekist.
Raunalegt og ömurlegt.
Hafa ekkert nálgast niðurstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |