Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
20.9.2010 | 23:50
Jóhanna slátrar þingmannanefndinni
Forsætisráðherrann virðist vera dauðhrædd og hugsar nú um eigið skinn. Hún var auðvitað ráðherra í hrunstjórninni og sat í ráðherranefnd um efnahagsmál með þremur af þeim fjórum sem lagt er til að verða ákærðir. Hún myndi án nokkurs vafa fara mjög illa út úr vitnaleiðslum fyrir Landsdómi og óttast augljóslega um að verða dregin fyrir landsdóm vegna Icesave-afglapanna margfrægu, en hún klúðraði því máli feitt með Steingrími Jóhanni.
En þessi áfellisdómur markar hringsnúning hjá Samfylkingunni. Jóhanna virðist ekki beint vera að leiða hugann að því að réttlætið eða sannleikurinn fái að koma í dagsljósið heldur hvernig hún bjargar eigin skinni.
Umskipti hjá Samfylkingunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.9.2010 | 19:06
Hik á Jóhönnu - orðin hrædd um sjálfa sig
Auk þess er greinilegt að Samfylkingin logar vegna umræðu um ákærurnar og þar koma gamlar átakalínur í ljós. Ekki má heldur gleyma því að málið er mjög rýrt í höndum Atlanefndarinnar og stendur varla steinn yfir steini. Jóhanna hefur því skipt um stefnu til að friða hópinn og standa vörð um eigin hag.
Gagnrýnir málsmeðferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.9.2010 | 14:01
Undarleg forgangsröðun
Undarleg er sú forgangsröðun Besta flokksins og Samfylkingarinnar að hækka laun varaborgarfulltrúa á þessum erfiðu tímum þegar flest sveitarfélög eru að skera niður í yfirstjórn og stokka upp til að reyna ná endum saman. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafði skorið niður þessi laun í borgarstjóratíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Ekki er það í takt við tímann að breyta þeirri ákvörðun nú. Hver er rökstuðningurinn fyrir því?
Mjög var deilt um launakjör varaborgarfulltrúa árið 2007 eins og þessi frétt sýnir. Ég bloggaði um þetta í október 2007 og ég man að margir skrifuðu þá á móti þessum kjörum. Tók meira að segja mætingarskrá eins fundar í borgarstjórn þar sem sást að borgar- og varaborgarfulltrúar voru á fleygiferð inn og út af fundi á meðan honum stóð. Lesið þá samantekt.
Hvað er í raun og veru á bakvið þetta? Er verið að tryggja Hjálmari Sveinssyni hærri laun út af því að hann komst ekki í borgarstjórn? Er ekki miklu heiðarlegra að koma hreint fram og viðurkenna það?
Er þetta nýja pólitíkin sem Jón Gnarr stendur fyrir?
Laun varaborgarfulltrúa hækkuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.9.2010 | 10:44
Forsetinn tekur slaginn við ESB-valdið
Mér finnst það traust og flott hjá Ólafi Ragnari Grímssyni að taka slaginn við ESB-valdið. Hvað sem segja má um verk hans í útrásinni og umdeild orð til varnar þeim sem lögðu íslenskt þjóðfélag í rúst er ekki hægt að segja annað en forysta hans í Icesave-málinu síðustu mánuði hafi verið þjóðinni heilladrjúg og farsæl. Hvar stæðum við nú hefði forsetinn ekki synjað hinum afleitu Icesave-samningum sem þingið samþykkti illu heilli?
Enginn ver lengur af neinu marki þá lélegu samninga nema Svavar Gestsson, aðalsamningamaðurinn sem gerði svo afleitan díl. Hrakspár formanna stjórnarflokkanna um alvarlegar afleiðingar synjunarinnar, dómsdagsspár um að allt fari hér fjandans til, rættust ekki.
Þjóðin fékk annað tækifæri með synjun forsetans. Hann gaf þjóðinni tækifæri til að tjá skoðun sína á Icesave-samningum ríkisstjórnarinnar. Það ferli allt fékk falleinkunn frá kjósendum. Og fólk fór á kjörstað þó forsætisráðherrann reyndi að gera lítið í kosningunni.
Íslendingar hafa kynnst því vel í Icesave-málinu hvernig félagsskapur ESB er. Ekki þarf að hugleiða það lengi. Forsetinn hefur að ég tel stuðning þjóðarinnar í hugleiðingum sínum. Þjóðin vill ekki semja við ESB og binda trúss sitt við það meir en orðið er.
Hvers konar klúbbur er þetta? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.9.2010 | 18:22
Gamaldags flokkspólitískt makk í stórmáli
Atburðarás síðustu dagana sýnir því miður hversu úreltur Landsdómur er og hversu veikburða málið allt er í höndum þingsins. Varla hafði niðurstaðan verið kynnt þegar hver flokkur var farinn að gera upp málið með sínum gleraugum og baráttan hafin innbyrðis fyrir hinni réttu pólitísku niðurstöðu til heimabrúks. Stóra niðurstaðan er því miður sú að þingmenn eiga erfitt með að taka afstöðu og skiljanlega erfitt með að ákæra samstarfsfélaga til margra ára eða áratuga.
Sérstaklega var undarlegt að sjá Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, reyna að setja sig í stellingar siðapostula með hreina samvisku þegar hún gerði upp við Ingibjörgu Sólrúnu og hin meintu pólitísku afglöp hennar. Bíddu nú við, sat ekki Jóhanna með þessari konu og tveimur öðrum sem lagt er til að verði ákærðir í ráðherranefnd um efnahagsmál á þessu tímabili? Er hún þá allt í einu orðin siðapostuli og stikkfrí til að fella dóma eða koma með beint mat?
Þetta er því miður fyrirboði þess sem koma skal. Að mörgu leyti finnst mér þetta stefna í afar misheppnaðan farsa sem fær enga trausta niðurstöðu. Upphafið er ekki gáfulegt.
Röng niðurstaða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.9.2010 | 18:28
Áfellisdómur yfir þinginu og stjórnkerfinu
Ég undrast ekki að stóridómur Atla Gíslasonar hafi ákveðið að leggja til að fjórir ráðherrar verði dregnir fyrir landsdóm. Almenningur kallaði mjög skýrt eftir uppgjöri og þessi leið er ein þeirra sem slekkur hefndarþorsta almennings vegna falls fjármálakerfisins þar sem margir lykilmenn stjórnkerfisins brugðust algjörlega þegar taka þurfti á óstjórn helstu forsvarsmanna fjármálakerfisins sem engin bönd héldu í græðgi.
Að mörgu leyti er mikilvægt að afgreiða þessi mál af festu og ábyrgð og láta reyna á pólitíska ábyrgð þeirra sem brugðust á vaktinni. Það er einfalt að þessir ráðherrar brugðust þjóðinni, en umfram allt þeim sem kusu þá til valda og treystu þeim fyrir stjórn landsins. Mörg og mikil mistök voru gerð sem einhver verður að taka ábyrgð á.
Verst af öllu er að landsdómur er að mörgu leyti úreltur og hefði þurft að breyta vinnuaðferðum og umgjörðinni á bakvið hann. Fara þarf yfir alla þá þætti, þó betur hefði farið á því að landsdómur hefði verið færður til 21. aldarinnar og við hefðum átt stjórnmálamenn sem hefðu skynjað betur að þar þurfti að breyta til.
Þingið ætlar sér að afgreiða þessar ákærutillögur og ræða þær á einhverjum tveimur til þremur dögum. Það er algjör ósvinna að mínu mati. Þetta er engin einföld þingsályktunartillaga. Þarna er stórmál á ferðinni og færi vel á því að þessi mál yrðu rædd betur og tekinn góður tími til að fara yfir það.
Þarna þarf að vanda til verka og klára mál með viðunandi hætti, fyrir framtíðina sko!
Tvær tillögur um málshöfðun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.9.2010 | 11:13
Jóhanna og Össur reyna að sleppa við ábyrgð
Sú staðreynd hefur gleymst alltof oft að Jóhanna Sigurðardóttir sat ásamt Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu og Árna Mathiesen í ráðherranefnd um efnahagsmál, valin þar sem annar ráðherra Samfylkingarinnar með flokksformanninum, fram fyrir viðskiptaráðherrann Björgvin sem greinilega var haldið algjörlega utan við öll helstu mál. Auk þess var Össur starfandi formaður flokksins í raun þegar ISG veiktist og sat á öllum upplýsingum.
Samfylkingin dílar nú um hverjir verði dregnir fyrir landsdóm, sem eðlilegt er að kalla saman vegna þessa máls. Þar á greinilega að velja fallista sem taka fallið af öðrum ef marka má þessa atburðarás. Það verður að gera upp þetta stóra efnahagshrun með viðeigandi hætti og láta reyna á ábyrgð ALLRA þeirra ráðherra sem sátu við völd og brugðust gjörsamlega bæði þjóðinni og trúnaðarmönnum flokkanna sem þau unnu fyrir.
Þar eiga Jóhanna og Össur ekki að sleppa, þó þau sleppi væntanlega þar sem þau hafa ferlið í vasanum. Ef allt væri með felldu ætti að draga fyrir landsdóm alla ráðherra sem voru í lykilstöðu í ferlinu fyrir hrun. Ef við viljum almennilegt uppgjör. En það vill Samfylkingin greinilega ekki, enda horfist ekki í augu við ábyrgð forystumanna sinna í hrunferlinu í þessu mikla uppgjöri sem þarf að fara fram.
Jóhanna beitti þrýstingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.9.2010 | 16:46
Hveitibrauðsdagar Gnarrsins liðnir
Brandarinn er orðinn þreyttur og súr, meira að segja sem local-húmor. Er ekki mál að linni? Ætla Reykvíkingar að hafa skemmtikraft á fullum borgarstjóralaunum í fjögur ár við að leika trúð? Eru ekki nóg önnur og brýnni verkefni á dagskrá?
Ég er og verð óviðeigandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.9.2010 | 17:01
Alþýðubandalagið rís upp frá dauðum
Í raun hefur andlitslyftingin falið það einna helst í sér að koma til móts við órólegu deildina í VG til að tryggja starfhæfan þingmeirihluta og bjarga stjórninni frá hruni. Allt frá afsögn Ögmundar Jónassonar hefur vinstristjórnin aðeins haft burði til að berjast fyrir lífi sínu. Nú hefur Jóhanna Sigurðardóttir, sem hrakti Ögmund á dyr forðum daga, brotið odd af oflæti sínu - gefið eftir fyrir þeim hóp sem hefur líf stjórnarinnar í hendi sér.
Sigurvegararnir í þessu valdatafli eru Ögmundur Jónasson og Jón Bjarnason sem tóku slaginn við Jóhönnu og Samfylkinguna og hafa náð fullum sigri í pólitísku refskákinni. Þeir sitja nú tvíefldir saman í stjórninni að nýju. Eftir hrókeringu er hér komin á koppinn ein rammasta vinstristjórn í norrænni stjórnmálasögu. Nær allir ráðherrarnir eiga uppruna sinn í Alþýðubandalaginu og lengst til vinstri á pólitíska skalanum.
Órólega deildin í VG drottnar nú og hefur beygt Samfylkinguna undir sig, auk þess sem hægrikratarnir eru orðnir algjörlega valdalausir í þeim bræðingi sem hér situr við völd fyrst og fremst til að standa vörð um völd fárra. Með því að semja frið og kalla Ögmund og Jón sérstaklega til fundar fyrir hrókeringu er lykilstaða þeirra kórónuð. Þeir hafa völdin í sinni hendi og ráða örlögum vinstriblokkarinnar í þessum snúningi hið minnsta.
Með því að fórna utanþingsráðherrunum og tryggja Ögmundi Jónassyni hið nýja innanríkisráðuneyti og mótun þess með sameiningu dóms- og samgönguráðuneytis er hann í raun orðinn einn af leiðtogum vinstristjórnarinnar með formönnum Samfylkingar og VG. Hann fær nýjan vettvang til að vera í sviðsljósinu. Þetta gremst þeim sem hröktu hann á dyr áður.
Ráðherrar vinstristjórnarinnar höfðu varla klárað ríkisráðsfundinn á Bessastöðum og skiptast á lyklum þegar ólgan gaus upp með yfirlýsingum Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur sem sparaði ekki stóru orðin í óánægjunni með eftirgjöfina gegn órólegu deildinni. Kristján Möller, sem var sparkað til að skapa rými fyrir Ögmund, orðaði þetta reyndar pent með því að segja að heimilisköttum væri slátrað fyrir villiketti.
Gylfi Magnússon var kominn að fótum fram í pólitísku valdatafli og var ekki sætt lengur. Mikil áhersla var lögð á að hann kæmi ekki til þings aftur eftir að sannað var að hann hafði sagt þingi og þjóð ósatt. Gylfi var valinn sem ráðherra til að skapa stjórninni trúverðugleika en var að lokum dragbítur á hana. Án trúverðugleika var hann einskis virði og dró að lokum Rögnu Árnadóttur með sér í fallinu.
Og þó er það svo einfalt mat? Nei varla. Rögnu er jú vísað á dyr til að skapa rými fyrir Ögmundi. Órólega deildin í VG hafði jú sett veiðileyfi á hana áður vegna ýmissa mála. Ragna hafði þó það sem stjórninni vantaði vinsældir. Hún hafði staðið sig vel í embætti og geldur greinilega þess að hafa ekki pólitískt umboð og verður undir í rimmu við þá sem kunna hina pólitísku refskák öllum öðrum fremur.
Þegar Jón Bjarnason lék sóló í Evrópu- og landbúnaðarmálum var mörgum forystumönnum Samfylkingarinnar nóg boðið og sendi honum tóninn. Hann svaraði tvíefldur og gaf ekki þumlung eftir. Nú er hann með pálmann í höndunum, er ósnertanlegur og með sitt svigrúm. Órólega deildin heldur honum á besta stað, með útsýni yfir Evrópuferlið vandvirka og með öll spil á hendi. Ekki furða að mörgum svelgist á.
Kristján L. Möller er hinsvegar í raun tekinn pólitískt af lífi í þessari hrókeringu, kortéri áður en hann ætlaði sér að vígja Héðinsfjarðargöngin í heimabyggð sinni. Það átti að vera pólitísk sigurstund hans - þau endalok sem hann hefði sætt sig við. Fallið er honum hátt, hann var leiðtogi Samfylkingarinnar á landsbyggðinni en er algjörlega valdalaus á eftir og stórskaddaður. Þrátt fyrir óljós loforð um eitthvað hlutverk hefur hann ekkert í hendi.
Þessi hrókering er mikið áfall fyrir hægrikrata. Þeir eiga nú engan ráðherra í ráðherraliði Samfylkingarinnar. Eðalkratinn Kristján var í raun sá síðasti þeirrar gerðar. Sumir hægrikratanna fyrirgáfu jú aldrei Jóhönnu að fara úr Alþýðuflokknum sáluga eftir að hún tapaði fyrir Jóni Baldvini í formannskjöri 1994 í Reykjanesbæ og stofna Þjóðvaka. Þar kraumar undir niðri eldar.
Í Samfylkingunni hefur verið algjört leiðtogaleysi. Öflugir kandidatar hafa veikst einn af öðrum. Össur hefur fengið sénsinn og tapaði fyrir Sollu, Árni Páll lenti í erfiðum málum og hefur klúðrað nær alveg kjörstöðu sinni, Dagur fuðraði upp í borginni og er enginn krónprins lengur, Kata Júl hefur valdið vonbrigðum mörgum og Lúðvík Geirsson féll í orðsins fyllstu af stallinum í Hafnarfirði.
En erfðaprins Jóhönnu er kynntur til leiks í þessari hrókeringu. Guðbjartur Hannesson hefur skyndilega mjög sterka pólitíska stöðu til að sækja fram til forystu. Leiðin virðist nær greið ef honum tekst að höndla verkefnið mikla, stofna velferðarráðuneytið nýja og standa undir hálfum fjárlögunum með sóma og það í gríðarlegum niðurskurði. Hans bíða erfið verkefni áður en Jóhanna hin þreytta stígur af sviðinu.
Við búum í landi vinstriaflanna. Því verður ekki neitað. Skyndilega vöknum við Íslendingar upp við þá staðreynd að í ríkisstjórninni, hinni tæru vinstristjórn, sitja nú átta af tíu ráðherrum með pólitískan bakgrunn úr Alþýðubandalaginu sáluga og sá níundi, byltingarforinginn Ögmundur, sem hefur örlög stjórnarinnar í hendi sér, var óháður í þingliði Alþýðubandalagsins í upphafi síns pólitíska ferils. Jóhanna er svo ein eftir með annan bakgrunn.
Hver hefði trúað því að andlitslyfting í ráðherrahrókeringu fæli í sér nær algjör yfirráð harðasta kjarna Alþýðubandalagsins sáluga? En sú er staðreyndin. Sem fær okkur til að hugsa um hvort þetta sé andlitslyfting eða sjónarspil til að halda lífinu í feigri ríkisstjórn... bara nokkrar vikur, nokkra mánuði, jafnvel ár.
Hefur einhver trú á því að andlitslyftingin breyti þeirri staðreynd að vinstristjórnin stendur máttlaus í erfiðu verkefni? Það verða engin kaflaskil. Hin tæra allaballastjórn er aðeins haldið í sambandi valdanna vegna. Völdin kitla jafnvel hin minnstu pólitísku egó meira en orð fá lýst. Og jafnvel kjarnakonan Jóhanna og Evrópusinnarnir beygja sig undir órólegu deildina fyrir völdin.
Skondið. En svona er víst Ísland í dag, Ísland Alþýðubandalagsins, hvorki meira né minna. Þetta verður svo sannarlega líflegur pólitískur vetur rússneskur vetur hinna ísköldu vinstriafla verkleysis og úrræðaleysis.
Pistill fyrst birtur á efrettir.is fimmtudaginn 2. september 2010
2.9.2010 | 11:22
Reynt að berja í brestina - flókinn ráðherrakapall
Jóhanna Sigurðardóttir kemur sem mjög veikur leiðtogi út úr þessari ráðherrahrókeringu. Illa gekk fyrir hana að koma tillögu í gegnum þingflokkinn og augljóst að þar eru margir ósáttir. Konur eru ósáttar með sinn hlut í tillögunni og landsbyggðarmenn, einkum í Norðausturkjördæmi, eru mjög óánægðir með að Jóhanna hafi allt að því slátrað pólitískum ferli Kristjáns L. Möller, sem fékk ekki að vígja sín kæru Héðinsfjarðargöngin í heimabyggð sem átti að vera stærsta pólitíska stund hans.
Innan vinstri grænna hefur ráðherrakapallinn afhjúpað hversu veikburða og máttlaus Steingrímur J. Sigfússon er orðinn. Hann hefur enga stjórn á málum innan VG og hefur gefist upp fyrir órólegu deildinni. Jón Bjarnason er stóri sigurvegarinn. Hann heldur velli þvert á það sem margir töldu fyrir skömmu og hefur haft nokkurn sigur í erfiðri rimmu. Ögmundur kemur aftur inn og getur styrkt stöðu sína sem fyrsti innanríkisráðherrann. Þeir sem vanmátu Ögmund fengu heldur betur á baukinn.
Auk þess var undarleg sú atburðarás þegar formaður Samfylkingarinnar var farin að skipta sér af ráðherrakapli vinstri grænna og kallaði ráðherra VG á sinn fund til að lægja öldur. Síðast þegar ég vissi var ráðherrakapall hvers flokks á ábyrgð flokksformanns en ekki formanna annarra flokka. Steingrímur J. virðist eiga erfitt með að halda sínum hóp saman og horfir ráðalaus á forsætisráðherrann taka stjórnina og lútir valdi hennar í einu og öllu.
Erfiður vetur er framundan í pólitíkinni. Nú er allt lagt undir til að bjarga tæru vinstristjórninni. Henni hefur fátt tekist og afrekaskráin er ekki löng. Síðasta árið hefur nær allt púður hennar farið í að halda sér á floti, koma í veg fyrir að hún hrökklist frá völdum ósátt og sundruð eins og allar aðrar íslenskrar vinstristjórnir. Nú reynir á hvort tekist hafi að berja í brestina.
Guðbjartur verði ráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |