Færsluflokkur: Dægurmál
26.12.2008 | 12:53
Skuggahliðar jólanna
Öll vonumst við eftir því að aðrir njóti hátíðarinnar líka með frið og ró í hjarta. En svo einföld er veröldin ekki að við hlustum og horfum á fréttir um hátíðirnar, sumar mjög sorglegar og aðrar mjög hversdagslegar af hörmungum eða óhugnanlegum atburðum. Ekki eru allir sem geta notið jólanna eða fundið frið í sálu sér þessa daga.
Fréttin af morðinu á Kanaríeyjum og sprengingunni í Úkraínu eru þær fréttir sem efst eru á baugi á fréttamiðlum á meðan hátíð ljóss og friðar gengur í garð og við njótum sælunnar í lífinu, alls hins góða. Ekki eru allir með frið í sínu hjarta og geta horft sælir fram á veginn.
Jólin eru eftir allt saman eins og hverjir aðrir dagar þegar hlustað er á fréttirnar. En við getum vonandi glaðst og hugsað að þetta séu dagar sem séu einstakir, þó ekki sé nema í hugarskoti okkar.
Kona barin til bana á Kanaríeyjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2008 | 01:46
Hátíðleg jólastund - Eartha og Santa Baby
Í dag kvaddi söngkonan og leikkonan Eartha Kitt. Hún hafði frábæra rödd og var einn af þeim skemmtikröftum sem gátu heillað alla fram í andlátið. Þurfti ekkert að hafa fyrir stjörnuljómanum og hafði allt sem stjarna þarf til að ná langt. Heillandi stórstjarna.
Jólalagið hennar, Santa Baby, er væntanlega hennar frægasta verk og hefur alltaf verið ómissandi í jólalagasafninu ár hvert. Viðeigandi að hlusta á þetta frábæra lag með hinni rámu rödd bandarísks skemmtanalífs.
Eartha Kitt látin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2008 | 01:59
Líður að jólum
Það líður að jólum - aðeins tæpur sólarhringur í hátíð ljóss og friðar. Þetta var notalegur dagur. Passa mig á því að vera sem allra minnst við tölvu, enda eiga þetta að vera dagar þar sem farið er um, hitt fólk og notið jólastemmningar í verslunum, þó án stressins alræmda sem æði oft verður fylgifiskur þorláksmessu rétt eins og hin illa lyktandi skata. Var aðallega að klára smáu atriðin sem eftir eru, sem oft verða fleiri en manni óraði fyrir.
Fyrst og fremst er stefnt að því að fara um og spjalla við vini í verslunarhugleiðingum. Hitti fjölda fólks á Glerártorgi. Þar er straumurinn þessi jól, sem þau hin fyrri. Rakst á marga pólitíska félaga og góða vini. Þó að jólahátíðin sé handan við hornið er ekki hægt annað en að tala örlítið um pólitíkina, enda margt um að vera. Skemmtilegt spjall við fjölda fólks, flestir hægra megin við miðju en sumir allverulega til vinstri. Ekkert nema gaman af því bara. Þó að pólitíkin ætti að vera komin í notalegt jólafrí slæðist hún með sem eðlilegt er.
Eftir röltið á Glerártorgi fékk ég mér góðan labbitúr um miðbæinn, hitti góða vini og naut þess í rólegheitum að fara um og spjalla við ýmsa sem maður þekkir þar, sérstaklega í Pennanum. Það koma ekki jól í huga mér fyrr en eftir skemmtilegt miðbæjarrölt síðustu kvöldin fyrir jólin, hitta fólk, fara á kaffihús, fá sér heitt kakó og kynna sér miðbæjarbraginn. Mér finnst hafa lifnað aðeins yfir miðbænum. Verslun Eymundsson er stórglæsileg eftir breytingarnar og það er engu líkt að fara þar inn og þefa af nýjum bókum og skoða þær.
Í kvöld fór ég í skötuveislu til Hönnu ömmu í Víðilundi og var þar með pabba og bræðrum hans og konum þeirra. Áttum notalegt og gott spjall yfir borðhaldinu. Verð seint talinn mikill áhugamaður um skötu og illa lyktandi mat, en þetta er ágætt sport einu sinni á ári svosem og gott sem slíkt. Ágætt rétt fyrir allar stórsteikurnar sem eru í aðsigi og svo maður tali nú ekki um gamla góða hangikjötið með uppstúf og laufabrauði.
Í dag hefur það því verið hið hefðbundna. Í hádeginu hittumst við nokkrir góðir félagar á Greifanum og fengum okkur góðan mat og tókum út pólitíkina og bæjarmálin. Nóg framundan þar, enda bæjarstjóraskipti framundan hér á Akureyri í júní og farið yfir það sem gerist í pólitík á landsvísu vel að merkja. Svo hefur það verið auðvitað bæjarröltið, finna stemmninguna og hlusta á jólakveðjurnar hjá RÚV. Ekta þorláksmessa!
Er ekki fjarri því að jóladiskurinn hans Stebba Hilmars hafi endanlega komið mér í jólaskapið í morgun. Mikið innilega er það notalegur og góður diskur; hugljúfur og traustur. Nafni minn klikkar ekki frekar en fyrri daginn. Svo er það auðvitað að hlusta á öll hin klassísku jólalög. Nóg er af þeim hér í vefspilaranum mínum.
Uppáhaldsjólalagið mitt er lagið um hvítu jólin eftir Irving Berlin. Enginn syngur það eins fallega og söngvarinn Bing Crosby, sem söng það fyrst í kvikmyndinni Holiday Inn árið 1942 og síðar í samnefndri mynd árið 1954 og gerði það heimsfrægt. Enn í dag er það vinsælasta lag sögunnar, mest selda lagið. Eina lagið sem hefur komist nærri því er Candle in the Wind - 1997-útgáfan til minningar um Díönu prinsessu.
Vel við hæfi að hlusta á Bing syngja eitt sitt frægasta og goðsagnakenndasta lag, þarna með snillingnum Frank Sinatra; sannarlega tveir af eftirminnilegustu söngvurum 20. aldarinnar.
Vona að þið hafið öll átt notalegan og góðan dag, með eða án jólastressins. :)
Skötuveisla á Kanarí | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.12.2008 | 15:10
Yndislegar jólamyndir
Kvikmynd Frank Capra, It's a Wonderful Life er ein þekktasta fjölskyldumynd 20. aldarinnar, gleðigjafi fyrir alla heimsbyggðina allt frá frumsýningardegi. Sextug eðalmynd sem kemur manni ávallt í sannkallað jólaskap. Hér segir frá George Bailey sem eyðir ævi sinni í að fórna lífsdraumum sínum til að vinna í haginn fyrir bæinn sinn, Bedford Falls, og að lokum sér tækifæri sín renna í súginn. Myndin gerist á aðfangadag og horfir hann yfir ævi sína, komið er að tímamótum, hann er niðurbrotinn maður og til alls líklegur þegar jólahátíðin gengur í garð.
Hann er orðinn þreyttur á því hvaða stefnu líf hans hefur tekið og gæti gripið til örþrifaráða. Til bjargar kemur verndarengill hans, Clarence, til að reyna að sýna honum fram að án hans hefði bærinn aldrei verið samur og að hann á marga að, fjölskyldu og fjölda vina. Hann sýnir honum lífið eins og það hefði verið ef hann hefði aldrei komið til og vonast til að með því verði hægt að snúa hlutunum við. James Stewart á stórleik í hlutverki George - að mínu mati er þetta ein af allra bestu leikframmistöðum hans á glæsilegum ferli. Ennfremur fara Donna Reed, Lionel Barrymore, Thomas Mitchell, Beulah Bondi, Henry Travers og Ward Bond á kostum.
Myndin var tilnefnd til fimm óskarsverðlauna, þ.á m. sem mynd ársins, fyrir leikstjórn og leik Stewart. Ómótstæðilegt meistaraverk, sem á jafnt við árið 2008 og 1946 er hún var frumsýnd. Sígildur boðskapurinn á alltaf við. Fastur partur á jólunum - ómissandi þáttur heilagra jóla að mínu mati.
Ein besta jólamynd allra tíma er hin sígilda kvikmynd George Seaton, Miracle on 34th Street. Segir frá því er gamall maður að nafni Kris Kringle, fer að vinna sem jólasveinn í stórmarkaði. Segist hann vera hinn eini sanni jólasveinn. Er hann þarmeð talinn galinn og hann verður að sanna hver hann er fyrir dómstólum. Efasemdarmenn um tilvist jólasveinsins verða að horfast í augu við að endurskoða afstöðu sína.
Hugljúf mynd sem skartar Edmund Gwenn, Natalie Wood (rullan sem gerði hana að yndi heillar kynslóðar), Maureen O'Hara og Thelmu Ritter (í hlutverki mömmunnar sem gerði hana að stórstjörnu kómíkersins) í aðalhlutverkum. Gwenn hlaut óskarinn 1947 fyrir magnaðan leik sinn í hlutverki hins hugljúfa manns.
Þessi kemur alltaf í gott jólaskap, skylduáhorf að mínu mati á jólum. Myndin var endurgerð árið 1994. Þar voru Sir Richard Attenborough, Mara Wilson, Dylan McDermott og Elizabeth Perkins í aðalhlutverkum. Tókst vel upp, en stenst hinni eldri ekki snúning. Hún er alveg einstök.
Ein af bestu jólamyndum seinni tíma er hin óviðjafnanlega breska gamanmynd Love Actually. Hún hefur verið mér mjög kær allt frá því að ég sá hana fyrst í bíói fyrir fimm árum, rétt fyrir jól. Þetta er í senn bæði ljúf og sykursæt mynd. Í aðalhlutverki eru Hugh Grant, Liam Neeson, Emma Thompson, Alan Rickman, Keira Knightley og Rowan Atkinson. Semsagt topplið breskra leikara. Þessi góða ástarsaga fjallar um átta mjög ólík pör í London rétt fyrir jól, sem glíma við ýmis vandamál í ástarlífinu.
Ástin er þemað í myndinni. Saga þessa ólíka fólks spinnst mjög skemmtilega saman í lok hennar. Mögnuð mynd sem ég mæli eindregið með. Er algjörlega fullkomin. Punkurinn yfir i-ið er flottur flutningur Billy Mack (í glæsilegri túlkun Bill Nighy) á laginu Christmas is all around (áður Love is all around með Wet, Wet, Wet). Þessi er alveg ómissandi yfir jólin seinni árin - verður svo væntanlega um ókomin ár!
Jólin verða ekki fullkomnuð fyrr en horft hefur verið á hinar ómótstæðilegu Home Alone I og II. Frábærar jólamyndir. Kevin McAllister er fyrir hin mestu mistök skilinn eftir einn heima á meðan að fjölskyldan er á leið í jólaleyfi til Parísar. Á meðan reyna tveir misheppnaðir þjófar sig að gera sig heimakomna heima hjá Kevin og stela þar öllu steini léttara. Kevin grípur til varna og reynir allt sem hann getur til að bjarga heimili sínu frá þjófunum. Sprenghlægileg og flott. Myndin sem gerði Macaulay Culkin að stjörnu. Joe Pesci og Daniel Stern eiga stórleik sem þjófarnir.
Í Home Alone 2 gerist hið sama að fjölskyldan gleymir Kevin, en í þetta skiptið verður hún viðskila við hann í flugstöðinni þar sem þau eru á leið til Flórída í jólaleyfi. Kevin tekur vitlausa vél og endar í New York, borg háhýsanna. Hann tékkar sig þar inn á Plaza, með öllum þeim mögnuðu tækifærum sem því fylgir. Á leið um borgina hittir hann þjófana sem reyndu allt sem þeir gátu til að ræna heimilið hans, en þeir eru þá sloppnir úr fangelsi. Þeir eiga harma að hefna gegn Kevin, sem ver sig með kjafti og klóm. Frábær kvikmynd. Culkin, Pesci og Stern í toppformi en senuþjófurinn er óskarsverðlaunaleikkonan Brenda Fricker í hlutverki hinnar kærleiksríku dúfnakonu. Báðar ómissandi um jólin.
Fastur hluti jólanna er svo auðvitað að sjá National Lampoon´s Christmas Vacation. Chevy Chase leikur fullkomnunarsinnann Clark Griswold enn eina ferðina. Að þessu sinni ætlar hann að gera fullkomnustu jól fjölskyldunnar fyrr og síðar að veruleika. Hann telur sig eiga von á hnausþykkum jólabónus sem kengur er í og leggur allt sitt í að skreyta húsið og gera allt sem best er nokkur möguleiki er að tryggja. Allt sem getur hinsvegar farið úrskeiðis fer á versta veg. Hápunkti nær það þegar að bróðir Clarks mætir með fjölskylduna.
Pottþétt jólamynd. Gott dæmi um að plana ekki of mikið jólin að hætti fullkomnunar, heldur njóta þess sem maður á og gera gott úr lífinu. En þessi verður aldrei léleg. Sérstaklega fannst mér hún frábær þegar að ég dró hana fram nú skömmu eftir helgina. Fór endanlega í ekta gott jólaskap. Það ættu allir að geta hlegið frá sér allt vit og forpokaða skammdegisfýlu yfir þessari mögnuðu mynd.
Fleiri myndir mætti nefna t.d. Meet me in St. Louis (þar sem Judy Garland söng allra fyrst hið ódauðlega Have Yourself a Merry Little Christmas), Elf, Die Hard I og II (sem báðar gerast á jólahátíð), Bad Santa, Scrooge, A Christmas Story, How the Grinch Stole Christmas (1966-útgáfan), A Charlie Brown Christmas, A Christmas Carol, The Santa Clause, Frosty the Snowman, Surviving Christmas, The Shop Around the Corner (vissulega ekki jólamynd en jólaandinn í lok myndarinnar er óviðjafnanlegur), The Ref, White Christmas, The Nightmare Before Christmas og Family Man.
Ef þið eigið uppáhaldsjólamynd, endilega kommenta þá hér með þær. Annars eigið þið öll vonandi góð bíójól og horfið á góðar myndir um jólin heima og í kvikmyndahúsum. Það er nóg af góðum myndum um jólin í bíó og í sjónvarpi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.12.2008 | 23:44
Hrokafulli dómarinn
Simon þessi er þekktur fyrir að úthúða keppendum, stundum frekar harkalega og óvægið, og fer engan milliveg. Stundum hittir það í mark en oftar en ekki er orðaval hans niðrandi og kuldalegt fyrir þá sem hafa lagt mikið á sig að mæta, þó þeir séu kannski laglausir eða ekki beint sú súperstjarna sem þeir hafa haldið. Þunn lína er á milli þess að gagnrýnin sé uppbyggileg eða brýtur fólk hreinlega niður.
Fróðlegt verður að sjá hversu lengi American Idol og þessir helstu þættir sem þeim fylgja munu halda áfram frægðargöngu sinni. Hér heima vorum við með Idol um skeið á Stöð 2 og svo X-factor. Nú að koma Idol aftur á skjáinn. Spurning hvort verður fyrr úrelt, dómarinn hrokafulli eða formúla þáttanna.
Engar breytingar á American Idol þrátt fyrir dauðsfall | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.12.2008 | 13:09
Fréttaflutningur með súrum bandarískum keim
Ætla að vona að svo sé ekki. Við þurfum ekkert á svona fréttaflutningi að halda hér heima á Fróni. Þetta er ekkert annað en froða, fréttaflutningur með súrum bandarískum keim.
Varir Ásdísar Ránar eru á allra vörum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.12.2008 | 19:14
Derrick kveður
Í minningunni voru þættirnir um lögregluforingjann Stephan Derrick með því besta sem hægt var að sjá í sjónvarpinu. Undirstaðan í þáttunum var eftirminnileg túlkun Horst Tappert á Derrick. Við andlát Tapperts minnast íslenskir sjónvarpsunnendur þáttanna og leikarans sem var heimilisvinur okkar svo lengi. Þættirnir fjölluðu um lögregluforingjann Stephan Derrick og aðstoðarmann hans, Harry Klein, sem leystu sakamál í München í Bæjaralandi.
Horst Tappert er mjög eftirminnilegur í hlutverki nafna míns, Stefáns Derricks. Ég er svo heppinn að eiga nokkra þætti á spólu sem ég horfi stundum á. Fjarri því eru þetta bestu þættirnir af öllum þessum 25 árum - en Derrick var alltaf góður og fáir voru betri á þessu sviði. Þættirnir voru enda þeirrar gerðar að þeir voru ekki að stæla um of bandaríska þætti svipaðrar gerðar - farið var eigin leiðir.
Ég held að enginn sakamálaþáttur hafi orðið vinsælli í íslenskri sjónvarpssögu og um leið var Tappert mjög vinsæll hérlendis, svo mjög að hann kom hingað í sérstaka heimsókn vegna þáttanna á níunda áratugnum. Aðall þáttanna að mínu mati var að þar var sálfræðin í glæpnum aðalefnið og jafnan var vitað allan þáttinn hver hinn seki var. Farið var í kringum fléttuna af tærri snilld.
Stóri kosturinn við Derrick og þættina var að ekki var verið að stæla þekktar klisjur, heldur voru þeir frumlegir og sterkir í karaktersköpun og sakamálafléttunni. Þeirra verður því minnst lengi og væri reyndar ekki svo amalegt ef einhver stöðin myndi sýna valda þætti og rifja upp forna frægð þáttanna og sterka karaktertúlkun Tapperts.
Derrick látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2008 | 16:36
Í minningu Rúnars Júlíussonar
Rokkkóngurinn Rúnar Júlíusson var jarðsunginn í Keflavík í dag. Ég fylgdist með útför hans í gegnum vísir.is - hún var umfram allt látlaus og virðuleg. Þar fékk tónlistin að tala sínu máli, enda er hún sá minnisvarði um Rúnar sem mun halda minningu hans og nafni á lofti um ókomin ár. Hann var ókrýndur konungur rokktónlistarinnar og mun hafa þann sess í huga okkar.
Hr. Rokk er kvaddur af þjóðinni með miklum söknuði. Hann hafði mikil áhrif á samfélagið allt með verkum sínum og naut mjög mikillar virðingar. Tel að það sjáist vel af því hversu margir hafa minnst hans. Persónulega minnist ég notalegrar persónu hans og þeirra mannkosta sem einkenndu fas hans og tjáningu.
Ég heiðra minningu eilífðartöffarans frá Keflavík með því að setja þau lög hans sem ég held mest upp á fremst í tónlistarspilarann minn hér á síðunni. Sá fjársjóður verður hinn trausti minnisvarði okkar allra um Rúnar. Guð blessi minningu hans.
Rúnar Júlíusson borinn til grafar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.12.2008 | 16:17
Eilífðartöffarinn frá Keflavík kvaddur
Sá þáttur við Rúnar sem mér finnst merkilegastur er hvað hann átti auðvelt með að ná til yngri fólks. Löngu eftir að Hljómar liðu undir lok varð hann rokkstjarna undir öðrum formerkjum. GCD var mjög vinsæl hljómsveit á tíunda áratugnum hjá minni kynslóð og þar náði hann nýjum aðdáendahóp, án fyrirhafnar.
Rúnar ræktaði yngra fólk í tónlistinni og var duglegur við að vinna að sínu verki, festist ekki á einum tímapunkti tónlistarsögunnar heldur var alltaf ferskur og nýr í tónlist sinni. Hlýlegur persónuleiki hans og töffaraeðlið spilaði þar líka stóran sess.
Gott dæmi um tónlistarsköpun hans undir lokin var lagið sem hann tók með Unun um miðjan tíunda áratuginn. Svo var ekki síður flott þegar hann tók lagið með Baggalúti bara fyrir nokkrum árum.
Sárt að missa Rúnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.12.2008 | 10:20
Rúnar Júlíusson látinn
Rúnar Júlíusson var eiginlega hr. Rokk í huga flestra landsmanna. Hann hefur verið samofinn íslenskri tónlistarsögu í yfir fjóra áratugi, eða frá því að Hljómar byrjuðu sinn glæsilega feril. Lög eins og Heyrðu mig góða, Fyrsti kossinn, Hamingjulagið, Tasko Tostada, Betri bílar - yngri konur, Sveitapiltsins draumur, Mýrdalssandur og ótalmörg fleiri hafa mótað feril hans. Ég keypti í fyrradag safnplötuna hans og var að hlusta á hana í gær. Þetta er sannarlega merkt ævistarf.
Rúnar hefur ekki aðeins verið tónlistarmaður, hann hefur verið útgefandi tónlistar og pródúsent og á farsælan feril að baki. Ég vil votta fjölskyldu hans innilega samúð mína. Blessuð sé minning eilífðartöffarans frá Keflavík.
Rúnar Júlíusson látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)