Rannsakað hvort að Carl Bildt hafi þegið mútur

Carl Bildt Ríkissaksóknaraembættið í Svíþjóð hefur nú hafið opinbera rannsókn á viðskiptum Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, með hlutabréf í rússneska fjárfestingarfélaginu Vostok Nafta. Bildt sat í stjórn fyrirtækisins um árabil en lét af stjórnarsetu þar í október er hann varð utanríkisráðherra í stjórn borgaraflokkanna undir forsæti Fredrik Reinfeldt. Athuganir sýna að Bildt hafi fengið 50 milljónir íslenskra króna fyrir setu sína í stjórn fyrirtækisins.

Yfirvöld telja að í þeirri upphæð sé um duldar mútur að ræða, einkum þar sem þessi upphæð er ekki í samræmi við þá vinnu sem Bildt hefði væntanlega innt af hendi með venjulegri stjórnarsetu. Þetta mál hefur vofað yfir Bildt síðustu vikurnar en þessi upphæð og bakgrunnur stjórnarsetunnar almennt hefur verið umdeilt álitaefni í sænskum stjórnmálum frá því að Bildt kom aftur á vettvang sænskra stjórnmála í haust, eftir tæplega áratug utan sviðsljóss stjórnmálanna.

Carl Bildt var forsætisráðherra Svíþjóðar árin 1991-1994 í stjórn borgaraflokkanna, en hætti í stjórnmálum eftir að mistakast að fella stjórn jafnaðarmanna árið 1998 og lét öðrum eftir flokksforystuna í Moderata. Það stefnir margt í að þetta mál verði Bildt vont og eru sænskir fréttaskýrendur farnir nú að spyrja sig þeirrar spurningar hvort hann missi ráðherraembættið.

Hneykslismál hafa þjakað stjórn borgaralegu aflanna allt frá fyrsta degi, en tveir ráðherrar neyddust til að segja af sér strax í október á fyrstu valdadögunum, viðskiptaráðherrann Maria Borelius og menningarmálaráðherrann Cecilia Stegö Chilo. Báðar höfðu þær pólitíska beinagrind í skápnum sínum.

mbl.is Saksóknari rannsakar hlutabréfaviðskipti Bildts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnús Magnússon látinn

Magnús Magnússon látinnSjónvarpsmaðurinn Magnús Magnússon er látinn úr krabbameini, 77 ára að aldri. Það leikur enginn vafi á því að Magnús varð ein skærasta stjarna bresks sjónvarps fyrir þætti sína Mastermind, sem til fjölda ára voru á dagskrá BBC og nutu mikilla vinsælda. Hann fæddist í Reykjavík, en bjó nær alla ævi sína erlendis, en hann fluttist til Skotlands tæplega ársgamall.

Magnús hélt vel í íslenskrar rætur sínar og talaði íslensku vel og hélt í málið með góðum hætti. Magnús gerði fjölda þátta um Ísland og þýddi bækur, bæði Íslendingasögurnar og nokkur skáldverk Halldórs Laxness. Sérstaklega hljóta að teljast eftirminnilegir þættir hans um fornleifafræði og sögu víkinganna, en hann var mikill áhugamaður um þá tíma og sinnti vel fornri arfleifð gamalla tíma hérlendis. Hann var sannur Íslendingur.

Magnús hlaut heiðursverðlaun íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar á Edduverðlaunahátíðinni í september 2002. Áður en hann tók við verðlaununum flutti Tómas Ingi Olrich, þáv. menntamálaráðherra, langa ræðu um verk og störf Magnúsar. Það var nokkuð merkileg ræða, enda varð mér þá fyrst ljóst hversu mjög Magnús hefði haldið í ræturnar sem hann hafði hlotið í gegnum það að vera Íslendingur og verið sannur áhugamaður um málefni fortíðar og nútíðar hér heima á Íslandi.

Þakkarræða Magnúsar sem hann flutti er hann tók við þessum heiðursverðlaunum er mér í fersku minni. Hún einkenndist af hógværð hans og frásagnargleði umfram allt. Mjög skemmtileg ræða og ég á hana einhversstaðar á spólu og þarf að grafa hana upp, væri áhugavert að sjá hana aftur, svo og ræðu Tómasar Inga við þetta tilefni. Þarna talaði Magnús íslensku og fipaðist hvergi í því. Hann hélt vel í málið og aðdáunarvert hvað hann talaði fallega íslensku eftir öll þessi ár. 

Það er raunar sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur Íslendinga hversu vel hann hélt við íslenskt mál og sýndi með því vel að hann mat uppruna sinn mikils. Við lát þessa heimsfræga sjónvarpsmanns með íslensku ræturnar er okkur sennilega það fyrst og fremst efst í huga að hann var sannur Íslendingur og sýndi það alla tíð mjög vel.


mbl.is Sjónvarpsmaðurinn Magnús Magnússon látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómerkilegar kjaftasögur um Magna

Magni Það er ekki hægt að segja annað en að spjallsíður og fjöldi vefa hafi verið logandi í umræðu í kjölfar sambandsslita Magna Ásgeirssonar og Eyrúnar Haraldsdóttur, sem urðu opinber nú fyrir nokkrum dögum. Vondur fylgifiskur þessara fregna hafa verið kjaftasögur og ómerkileg skrif víða.

Nú virðist fátt meira rætt á netinu en nafnlausar kjaftasögur á spjallvefum að Magni og Dilana, sem var með honum í RockStar Supernova hafi átt í ástarsambandi sem leitt hafi til sambandsslitanna. Þetta eru ómerkilegar kjaftasögur, mjög slæmur fylgifiskur frægarinnar, eins og ég sagði hérna á vefnum í gær.

Það er víst segin saga með Íslendinga að Gróa á Leiti býr í hugum margra. En þetta er allt mjög leiðinlegt mál. Þetta gekk reyndar svo langt að, skv. visir.is, að opinberri aðdáendasíðu Magna, www.magni-ficent.com, var lokað í gær eftir að einn notandi gekk svo langt að falsa frétt um þessar sögusagnir og notaði til þess útlit CNN-fréttastofunnar.

Svo er talað um kjaftagang á barnalandi, þar sem allt mun undirlagt í kjaftasögum og umræðu um þessi mál. Það er reyndar með ólíkindum að nafnið barnaland sé yfirheiti þeirrar kjaftasamkundu sem það spjall er.

Svandís ver ekki skrifin á Múrnum

Svandís Svavarsdóttir Það vakti athygli að Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi VG, reyndi með engu móti að verja áramótaskrifin á Múrnum um Margréti Frímannsdóttur og Thelmu Ásdísardóttur í Silfri Egils nú eftir hádegið. Það er varla furða, enda teljast þessi skrif Múrverja óverjandi og klaufsk. Það er með ólíkindum að Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG og leiðtogi flokksins í öðru borgarkjördæmanna, hafi ekki notað tækifærið í gær til að biðjast einlæglega afsökunar á skrifunum.

Þeim fer fækkandi sem leggja upp í að verja Múrinn og þessi skrif sem einkennst af kergju og gremju í garð Margrétar Frímannsdóttur, sem skrifaði pólitíska ævisögu sína fyrir jólin og skrifaði þar um samskipti sín og Steingríms J. Sigfússonar á stormasömum árum innan Alþýðubandalagsins. Heift er í garð Margrétar fyrir þau söguskrif. Það sjá allir sem lesa Múrinn og hin frægu ummæli þar um bók Margrétar og sáu vandlætingarsvipinn á Steingrími J. í Kryddsíld á gamlársdag er rætt var um þessa bók. Þar vildi hann með engum hætti ræða eða fara yfir skrif Margrétar. Athyglisvert það.

Þeir voru sennilega fáir sem höfðu hugmyndaflug í það á gamlársdag þegar að áramótaumfjöllun Múrsins var lesin að þar væri verið að grínast með Jón Baldvin Hannibalsson. Þetta er einhver lélegasta eftiráskýring eða hol afsökun sem ég hef lengi séð í stjórnmálaumræðu. Hví var nafn Thelmu Ásdísardóttur nefnt í sömu mund og Margrétar Frímannsdóttur og bókar hennar? Hefur einhver innan VG húmor fyrir svona skrifum? Eftir stendur að þetta var mjög ósmekklegt og þetta fór fyrir brjóstið á mörgum. Það er lítilmannlegt að skrifa með þessum hætti og það er ekki hlaupið að því að verja það.

Það sést sífellt betur að þessi skrif eru að verða mikið fótakefli og vandræðabarn fyrir VG. Hvernig getur femínisti sem á að taka alvarlega í stjórnmálaumræðu gert grín að lífsreynslusögu Thelmu, sem varð fyrir alvarlegu kynferðisofbeldi í æsku sinni, og ekki beðið viðkomandi afsökunar á misheppnuðum brandaranum? Það er ekki furða að Svandís leggi ekki í að verja skrifin, enda eru þau óverjandi.

Síðasta embættisverk Kristjáns Þórs

Kristján Þór Júlíusson Það fer vel á því að síðasta embættisverk Kristjáns Þórs Júlíussonar á löngum og litríkum bæjarstjóraferli hér sé að taka fyrstu skóflustunguna að fjölnota íþróttahúsi í Hrísey. Það var hátíðarstund út í ey í gær þegar að þessum merka áfanga var náð. Eitt merkasta verkið á níu ára bæjarstjóraferli Kristjáns Þórs er einmitt að mínu mati sameining Akureyrarbæjar og Hríseyjarhrepps fyrir þrem árum, en hún hefur verið mjög farsæl.

Í sameiningarkosningu samhliða forsetakjöri í júní 2004 ákváðum við íbúar í þessum tveim sveitarfélögum að taka höndum saman til framtíðar með afgerandi hætti á báðum stöðum. Yfirgnæfandi meirihluti var til staðar við sameiningu. Á þeim degi sem forseta- og sameiningarkjörið fór fram fann ég vel að áhugi fólks hér var mun frekar bundinn við sameiningarkosninguna en forsetakjörið, en megintíðindi þess var að yfir 20% fólks skilaði auðu í kjöri þar sem sitjandi forseti var í framboði.

Það sem ég met mest í bæjarmálunum hér síðustu árin er einmitt þessi samvinna Akureyringa og Hríseyinga sem hefur verið mjög farsæl. Það hefur gengið vel að vinna saman og fyrir okkur í flokksstarfinu innan Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri hefur verið notalegt að kynnast góðum félögum okkar út í eyju, en þar er starfandi flokksfélag í okkar nafni. Ég komst því miður ekki út í eyju í gær til að verða viðstaddur þessa athöfn, en það fór ekki á milli mála í kosningabaráttunni í fyrravor að þetta mál var það sem að íbúar í Hrísey lögðu mesta áherslu á og var þeirra hjartans mál. Það er svo sannarlega skiljanlegt og gleðilegt að það verði að veruleika nú.

Mörgum finnst það eflaust merkilegt að síðasta embættisverk Kristjáns Þórs á litríkum bæjarstjóraferli sé á vettvangi í Hrísey, nýjasta hverfi Akureyrarbæjar. Mér finnst það viðeigandi að þar sé síðasta stórverkið, enda var þetta íþróttahús stórt í huga okkar sjálfstæðismanna og við höfum klárað málið í samstarfi við Samfylkinguna nú.

Það er mjög gott að málið sé klárað á þeim tímapunkti sem Kristján Þór lætur af embætti bæjarstjóra og heldur til verka á öðrum vettvangi. Önnur verkefni taka nú við innan meirihlutans og verður fróðlegt að fylgjast með forystu nýs bæjarstjóra í þeim efnum.

mbl.is Skóflustunga tekin að íþróttahúsi í Hrísey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gremja vinstri grænna í garð Möggu Frímanns

Steingrímur J. Vinstri grænir hafa átt mjög erfitt með að leyna gremju sinni í garð Margrétar Frímannsdóttur fyrir að hafa skrifað pólitíska ævisögu sína og gert upp árin með Steingrími J. í forystu Alþýðubandalagsins. Steingrímur J. og lærisveinarnir hans á Múrnum hafa sérstaklega átt erfitt með að höndla tilveruna í jólabókaflóðinu með þessa bók í umræðunni, eins og dæmin hafa sannað.

Steingrími féllust hendur þegar að Egill Helgason fór að tala um bókina í Kryddsíld á gamlársdag og vildi greinilega einhver viðbrögð. Hann sagði með uppstríluðum vonskusvip að hann ætlaði nú ekki að ræða þau mál á þessum vettvangi. Í áramótaúttekt Múrsins á gamlársdag segir svo um bók Margrétar: "Bók ársins: Minnislausa stelpan frá Stokkseyri. Margrét Frímannsdóttir heimfærir endurminningar Thelmu Ásdísardóttur upp á sjálfa sig." (feitletrun er mín).

Meðal þeirra sem skrifuð eru fyrir þessum skrif er Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG og leiðtogi flokksins á öðrum framboðslistanum í Reykjavík. Það er ekki hægt annað en að finnast þessi skrif Katrínar og félaga hennar á Múrnum mjög lágkúruleg og þeim til skammar. Þessi skrif eru Múrnum lítill vegsauki, en í gegnum þau skín heift og kergja með það að Margrét hafi skrifað sig frá árunum með Steingrími J. og rakið pólitískan bakgrunn þess manns sem stjórnar VG og kallar sig femínista til hátíðabrigða.

Ég hef lengi verið viss um það að Steingrímur J. hafi aldrei getað yfirstigið það að hafa orðið undir fyrir Margréti í formannskjöri Alþýðubandalagsins fyrir tólf árum. Það var gríðarlegt pólitískt áfall fyrir hann, eftir að hafa verið varaformaður Alþýðubandalagsins í sex ár, frá því að hann felldi Svanfríði Jónasdóttur af varaformannsstóli, að fóta sig eftir það áfall. Kergja flokkseigendafélagsins og nánustu samverkamanna var skýr og afgerandi beitt og um hana má lesa í bók Margrétar, sem allt að því sætti pólitíku einelti meðal eigin þingflokks, þar til að Steingrímur J. og nánustu samverkamenn gengu á dyr og stofnuðu VG.

Steingrímur J. og Margrét áttu aldrei skap saman eftir formannskjörið sögulega árið 1995, er Margrét skellti Steingrími í póstkosningu allra flokksmanna. Vinnubrögðin á Múrnum nú sýna vl að ekkert er gleymt og ergelsið býr innst í hugarskotum lærisveina formannsins, sem enn muldrar í horni tóna ergju og reiðilesturs á bakvið tjöldin. Það að blanda nafni Thelmu Ásdísardóttur inn í umræðu um bók Margrétar er til hreinnar skammar, fyrir flokk og forystukonu sem vill kenna sig við femínisma og segir sína sögu um innrætið á bænum.

Þessi femíniski húmor þeirra á Múrnum meikar engan sens og flestir sitja eftir hristandi hausinn yfir þeim á Múrnum sem berja hausnum við sjálfan múrinn. Afsökunarbeiðni þeirra á Múrnum er í undarlegri taginu að mínu mati, sem og fleiri, þar er sagt að hér hafi verið "djókað" með Jón Baldvin og ummæli hans um heimilisofbeldið sem Margrét þurfti að þola innan Alþýðubandalagsins frá flokkseigendafélaginu. Ekki botnar maður í því.

Finnst þeim á Múrnum virkilega fyndið að bera pólitísk söguskrif Margrétar saman við skelfilega lífsreynslu Thelmu Ásdísardóttur? Þessi afsökunarbeiðni virkar frekar hol og innantóm eins og galtóm tunna. Það liggur við að maður líti á þetta sem jafn innantóma iðrun og Árni Johnsen sýndi um daginn sjálfstæðismönnum sem veittu honum annan séns. Er þetta kannski tæknileg iðrun á Múrnum?

Styttist í bæjarstjóraskipti á Akureyri

Sigrún Björk Jakobsdóttir Sigrún Björk Jakobsdóttir tekur við embætti bæjarstjóra á Akureyri á fundi bæjarstjórnar á þriðjudag af Kristjáni Þór Júlíussyni, sem gegnt hefur embættinu í níu ár. Hún verður fyrsta konan sem tekur við embættinu og tíundi bæjarstjórinn í sögu Akureyrarkaupstaðar. Með þessum breytingum verður Sigrún Björk leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akureyrar, en Kristján Þór verður forseti bæjarstjórnar, en mun ekki taka sæti í nefndum hjá bænum.

Það er óhætt að segja að bæjarstjóraskiptin marki tímamót fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri. Með nýjum leiðtoga koma eflaust nýir tímar. Sigrún Björk vann annað sætið í prófkjöri flokksins í febrúar í fyrra og hlaut ein bindandi kosningu þar, utan Kristjáns Þórs. Hún hefur setið í bæjarstjórn í fimm ár og verið áberandi í nefndastarfi fyrir bæinn, sérstaklega í menningarmálanefnd, sem varð Akureyrarstofa í uppstokkun nýs meirihluta á nefndum á síðasta ári. Elín Margrét Hallgrímsdóttir tekur nú við þeirri öflugu nefnd.

Kristján Þór hefur verið áberandi sem bæjarstjóri í þau níu ár sem hann hefur gegnt embættinu og í þeim þrem kosningum sem hann hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn í hér í bænum frá árinu 1998. Bæjarstjóraferill hans hefur verið tími framkvæmda og er þar yfir margt að fara. Í síðasta nýársávarpi sínu sem bæjarstjóri fór Kristján Þór yfir þau verk sem meirihlutar undir forystu hans á þessum tíma hefur staðið fyrir og var það löng upptalning framkvæmda og verkefna. Það eru tímamót að hann yfirgefi bæjarstjóraembættið og markar umfram allt breytingar fyrir Sjálfstæðisflokkinn hér.

Það er þegar vitað er Sigrún Björk tekur við embætti bæjarstjóra að hún hefur vissan tíma til verka, ef meirihlutinn situr þ.e.a.s. út kjörtímabilið. Samið var um það eftir bæjarstjórnarkosningarnar á síðasta ári í meirihlutasamningi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að Sjálfstæðisflokkurinn hefði embættið fram til sumarsins 2009 en Samfylkingin hefði síðasta árið fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 2010.

Nú tekur það verkefni við fyrir Sigrúnu Björk að gera embættið að sínu og sýna með því hver styrkur hennar sem stjórnmálamanns er í raun og veru. Hún hefur verið þekkt fyrir það í okkar hópi að vera vinnusöm og dugleg og nýtur þeirra kosta er hún heldur í þetta verkefni er Kristján Þór færir sig yfir í verkefnin á kjördæmavísu.

DV lofar góðu

DV Ég fór áðan í Nettó til að versla í helgarmatinn. Í biðröðinni áleiðis að kassanum sá ég nýtt DV, undir ritstjórn Sigurjóns M. Egilssonar. Leit ég á blaðið og fór aðeins yfir. Leist mjög vel á útkomuna lauslega séð. Þarna voru ágætis fréttaskýringar og umfjallanir og viðtalið við ríkisröddina yndislegu, Ragnheiði Ástu Pétursdóttur, lofar mjög góðu.

Ég hef heyrt að Sigurjón ætli sér að víkja af braut þeirrar "blaðamennsku" sem fékk náðarhöggið í uppreisn almennings gegn blaðinu fyrir nákvæmlega ári, sem var söguleg vika í huga allra þeirra sem með einum eða öðrum snerta dagblöð hérlendis, hvort sem það eru blaðamenn eða þeir sem lesa blöðin yfir heitum kaffibolla eða skál af mjólkurblautum kornflögum.

Er það gott að þetta blað verði endurreist sem DV fyrri tíma, eins og það var t.d. á tíunda áratugnum; heiðarleg en ábyrg pressa sem þorir að fara lengra, en ekki of langt. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig þessi endurreisn þeirrar týpu af DV muni ganga næstu vikur og mánuði. En mér finnst þessi týpa lofa góðu.

Að deyja einn og yfirgefinn

Kross Það hlýtur að vera ömurlegt hlutskipti að vera einn og yfirgefinn á dauðastundinni. Maður einhvern veginn fyllist dapurleika og máttleysi við að lesa fréttir af því að fólk finnist eftir að hafa verið látið í vikur jafnvel. Þetta er oftast nær fólk sem á enga að og lifir eitt sínu lifi, og deyr eitt skiljanlega. Mér finnst það einhvernveginn vera mikilvægt að fólk eigi einhverja að og geti lifað glatt við sitt og hafi notalegan félagsskap í gegnum lífið.

Það er skelfilegt að skynja það að til er fólk í samfélaginu okkar sem er eitt og yfirgefið og deyr án þess að eiga engan að. Sérstaklega finnst mér það dapurlegt að fólk sé látið í íbúð sinni nær alla jólahátíðina og enginn verði var við neitt. Er kærleikurinn og ástúðin í þessu samfélagi að gufa upp? Það er stórt spurt, en oft verður fátt um svör. Mér finnst þetta staðfesta breytingar á samfélaginu. Við erum orðin of upptekin af okkur sjálfum til að gefa okkur.

Ég upplifði það fyrir nokkru að maður sem var vinur fjölskyldunnar dó einn og yfirgefinn og hafði verið látinn í nokkra daga áður en hann fannst. Það er dapurlegra en orð fá lýst. En þegar að fólk býr eitt getur svona nokkuð virkilega gerst, það er það sorglega við það. En þegar að fólk hefur verið látið jafnvel í mánuð án þess að nokkur taki eftir því er ljóst að eitthvað er að. Það er svo sorglegt að maður á engin orð yfir það í raun.

Við verðum að hugsa um hvert samfélagið stefnir, enda er svona nokkuð varla eðlilegt í raun.

mbl.is Öldruð kona fannst látin í íbúð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverful gæfa frægðarinnar

Magni Frægðin getur verið hverful og lýjandi til lengdar. Það eru stór tíðindi að heyra af sambandsslitum Magna Ásgeirssonar og Eyrúnar Haraldsdóttur. Fyrir nokkrum mánuðum virtist gæfan og gleðin blasa við. Það er greinilegt að frægðin sem fylgdi ævintýrinu miklu hefur verið erfið fyrir samband þeirra og þau vaxið frá hvoru öðru. Þetta var mikið ævintýri sem Magni átti í fyrra en það er sorglegt ef að það leiðir til þess að líf hans breytist með þessum hætti.

Ég hef oft litið svo á að frægðin geti verið ágæt um stundarsakir, en hún verði íþyngjandi og erfið þegar að frá líður. Þungi hennar verður mikill, ekki síst á þá sem nærri standa. Það vill oft verða svo að þunginn sligar það sem stendur næst. Þetta sjáum við á hverjum degi hjá Hollywood-stjörnum og rokkgoðum sem leggja hamingju hversdagsins undir fyrir frægðina og lifa í nafni hennar en ekki fyrir sig og sína. Þetta er þungur fylgifiskur athyglinnar sem frægðinni fylgir.

Það er leitt að strax eru komnar upp einhverjar kjaftasögur um Magna og hitt og þetta tengt þessum sambandsslitum. Það er víst segin saga með Íslendinga að Gróa á Leiti býr í hugum margra. En þetta er leiðinlegt mál. DV á heiður skilinn fyrir að hafa ekki slegið þessu upp á forsíðu og gert þetta með heiðarlegum hætti gagnvart þeim sem hlut eiga að máli miðað við aðstæður. En kannski sjáum við þarna endanlega fyrrnefnda táknmynd frægðarinnar sjást vel. Það þarf sterk bein til að þola góða daga og ekki síður hina vondu.

mbl.is Magni mætir ekki í Molann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andríki og Andri Snær hljóta frelsisverðlaun SUS

Andri Snær og Andríki Andri Snær Magnason, rithöfundur, og Andríki, sem hefur í rúman áratug haldið úti vefsíðunni Vef-Þjóðviljinn, hlutu í kvöld frelsisverðlaun okkar hjá Sambandi ungra sjálfstæðismanna, sem afhent eru í nafni Kjartans Gunnarssonar, fyrrum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins. Verðlaunin voru afhent í kvöld í fyrsta skipti en til þeirra var stofnað undir lok síðasta árs af okkur í stjórn SUS.

Andríki hefur með mikilli elju og áberandi dugnaði haldið úti þessari einni öflugustu og bestu pólitísku vefsíðu landsins. Hún hefur verið öflugur málsvari frelsisins og táknmynd þess sem við hægrimenn metum mest í raun. Það er svo sannarlega viðeigandi að útgáfufélag síðunnar sé heiðrað fyrir sitt framlag í þetta fyrsta skipti sem verðlaunin eru veitt. Persónulega hef ég lesið síðuna allt frá fyrsta degi og met mjög mikils það sem þar hefur verið birt og tel hana eina af allra bestu vefsíðum hægrimanna í dag, og alla tíð frá netvæðingunni fyrir rúmum áratug.

Andri Snær Magnason, rithöfundur, hefur vakið athygli fyrir tjáningu sína í umhverfismálum, sérstaklega með bók sinni, Draumalandinu, sem varð metsölubók á síðasta ári og er nú tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Sjálfur er ég hlynntur virkjunarframkvæmdum á Austurlandi og tel að þar hafi réttar ákvarðanir verið teknar. Þrátt fyrir það vil ég kynna mér skoðanir annarra, enda er það lykilgrunnur frelsisins að allir geti tjáð skoðanir sínar og jafnvel andstöðu við mál. Andri Snær hefur gert það með sínum hætti. Hann flutti fyrirlestur á málefnaþingi SUS í október, er helgað var umhverfismálum, sem mér fannst frumlegur og góður.

Ég tel það mikið gleðiefni að við í stjórn SUS höfum stofnað þessi verðlaun og hér eftir verða þau árlegur viðburður. Það er mikilvægt að heiðra sérstaklega framlag Kjartans Gunnarssonar í nafni flokksins, en fáir hafa verið öflugri við að vinna fyrir flokkinn og vinna honum ómetanlegt gagn í áratugi, og minna á það sem vel hefur verið gert og með athyglisverðum hætti í gegnum tíðina. Þessi verðlaun eru mikilvæg í því skyni og ég fagna því hversu mikla athygli þau hafa hlotið síðustu dagana, frá opinberri tilkynningu okkar í ritstjórn og stjórn SUS um málið.

Ég hef sem ritstjóri heimasíðu SUS fengið fjölda tölvupósta um málið nú á fyrstu dögum ársins og fagna því að með verkum okkar ungliðanna sé fylgst jafnvel og raun ber vitni. Þessi verðlaun munu verða öflugur hluti starfs okkar vonandi á næstu árum og athyglisverður vettvangur þess að við minnum vel á stöðu frelsisins.

mbl.is Andríki og Andri Snær Magnason hlutu frelsisverðlaun SUS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er að molna undan Ingibjörgu Sólrúnu?

Ingibjörg Sólrún Það blæs ekki byrlega fyrir Samfylkingunni í aðdraganda þessara kosninga, þó alltaf hafi hún verið í stjórnarandstöðu. Það er varla furða að raddir heyrist nú um að skipta eigi út Ingibjörgu Sólrúnu sem formanni og horfa í aðrar áttir. Þessi orðrómur gengur núna um að fullreynt sé með Ingibjörgu Sólrúnu nái flokkurinn ekki góðri kosningu í þingkosningunum eftir fjóra mánuði. Kannanir nú sýna vondu stöðu víða og hvergi mælist Samfylkingin með yfir 30% í kjördæmunum. Í Norðvestri er hann minnstur fjórflokkanna.

Ingibjörg Sólrún varð formaður fyrir tæpum tveim árum undir merkjum þess að flokkurinn væri ekki búinn að ná hæstu hæðum - hún væri sú hin eina rétta til að snúa við stöðu mála. Eftir að Össuri var hnikað til fyrir svilkonu sína hefur hinsvegar saga flokksins orðið hrakfallabálkasaga hin mesta og ekkert gengið upp. Ingibjörg Sólrún hefur fengið á sig táknmynd hins sigraða, þvert á það sem var á níu ára borgarstjóraferli hennar í Reykjavík. Hún virðist ekki fúnkera vel við þær aðstæður með blæ lúsersins á brá.

Það er merkilegt að sjá suma holla krata innan Samfylkingarinnar vera með skoðanakannanir á bloggsíðum sínum um það hver eigi að vera næsti formaður flokksins og það fjórum mánuðum fyrir alþingiskosningar. Það sýnir bara óánægju með stöðu mála og leiðtogann - ekki er hægt að undrast þá stöðu eins og kannanir eru að þróast fyrir Samfylkinguna þessar vikurnar. Mörg nöfn virðast vera nefnd og hjá Hrafni bloggvini mínum leiðir þessa stundina kosninguna sjálfur Lúðvík Geirsson, héraðshöfðingi í Alcanbæ... nei ég meina Hafnarfirði. Það verður fróðlegt hvernig að ný umhverfisstefna Samfylkingarinnar fúnkerar þar.

Hinn sjálfskipaði femínisti Steingrímur J. Sigfússon virðist ekki hugsa mikið um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur þessa dagana, frekar en Margréti Frímannsdóttur forðum daga innan karlaveldisins í Alþýðubandalaginu. Á gamlársdag var lítill sýnilegur áhugi hjá honum á því að prómótera Ingibjörgu Sólrúnu sem andlit kaffibandalagsins í Kryddsíld. Það er kalt kaffið á stjórnarandstöðubænum og enginn vill heimsækja húsfreyjuna á veglegasta sveitabænum. Það vill enginn neitt með hana hafa. Kannski varla furða, eins og staðan er innan Samfylkingarinnar sjálfrar.

Verður Toblerone-Mona eftirmaður Perssons?

Mona Sahlin Flest virðist benda til þess að hin umdeilda Mona Sahlin verði eftirmaður Görans Perssons sem leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, en leiðtogakjör fer fram í mars. Sænskir kratar misstu völdin í október í fyrsta skipti í tólf ár. Það er ekki beint um auðugan garð að gresja þar í leiðtogamálum nú og enginn augljós eftirmaður virðist vera. Mikil andstaða er þó við að Sahlin verði leiðtogi og öflugur armur innan flokksins má ekki til þess hugsa að hún leiði allt starf flokksins á næstu árum.

Dauði Önnu Lindh fyrir tæpum fjórum árum er enn stingandi fyrir flokkinn. Eftir að hún var myrt með sorglegum hætti í september 2003 hefur enginn afgerandi eftirmaður Perssons blasað við. Enn eru kratarnir að jafna sig á dauða hennar, en þá dó krónprinsessa flokksins og augljós eftirmaður eftir valdadaga Perssons. Sænsku spekingarnir töldu lengi vel Margot Wallström, kommissar hjá ESB og fyrrum ráðherra, vænlegasta en hún hefur fyrir löngu gefið það út að hún hafi engan áhuga á að leiða kratana í stjórnarandstöðu næstu þrjú árin.

Enn og aftur heyrist nafn Monu Sahlin. Hún var talin líklegasti eftirmaður Ingvars Carlssons lengi vel, en hann var leiðtogi kratanna 1986-1996 og forsætisráðherra 1986-1991 og 1994-1996. Svo fór að vegna kreditkortahneykslis sem jafnan hefur verið kennt við Toblerone (er varð er Sahlin keypti m.a. Toblerone súkkulaði út á ráðherrakort sitt) varð Sahlin að segja af sér árið 1995 og hnossið féll fjármálaráðherranum Persson í skaut. Sahlin hefur verið umdeild og skandalarnir hafa elt hana uppi lengi. Það er varla við því að búast að hún sé vinsæl og margir hugsa með hryllingi til þess að hún verði sú sem stjórni innra starfi flokkins á uppbyggingarárum stjórnarandstöðutilveru.

Mér finnst það reyndar kostulega dramatískt að heyra nafn Sahlin sem líklegasta leiðtogaefnisins hjá sænskum krötum, en hún er orðin frekar slitin sem stjórnmálamaður eftir sína skandala. Reyndar fannst mér það alveg kostulegt þegar að Sahlin var valin í bakgrunni allra auglýsinga Perssons í baráttunni í september og eiginlega til marks um hvað yfirgangur Perssons í flokknum hefur leitt til þess að leiðtogafátækt einkennir flokkinn nú þegar að hann hrökklast frá völdum. Þar eru fáir kostir eftir vænlegir ef kratarnir þarna líta á Sahlin sem rétta aðilann sem eigi að leiða þá aftur til vegs og virðingar eftir þennan ósigur í haust.

mbl.is Mona Sahlin hugsanlegur eftirmaður Perssons
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blæs ekki byrlega fyrir Valgerði Sverrisdóttur

Valgerður Sverrisdóttir Það blæs ekki byrlega fyrir Valgerði Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, og framsóknarmönnum hér í Norðausturkjördæmi. Í nýjustu mánaðarkönnun Gallups mælist Valgerður ein inni af hálfu Framsóknarflokksins í kjördæminu. Staðan er sú að flokkurinn mælist með 15% fylgi og einn þingmann, hefur tapað 17 prósentustigum og þrem þingmönnum frá kosningum 2003. Það er því mikið fyrir borð hjá Valgerði og hennar fólki eins og staðan er núna.

Eins og staðan er núna er Framsókn orðin minnst fjórflokkana í kjördæminu, en hér varð Framsókn stærst í kosningunum 2003 og hlaut fjögur þingsæti. Þeir gullnu dagar virðast vera liðnir. Það er spurning hvort það veikir flokkinn að hafa ekki einn afgerandi Austfirðing ofarlega. Brotthvarf Dagnýjar Jónsdóttur hlýtur að veikja flokkinn hér. Hún varð aðalstjarna flokksins hér síðast og falin mikil ábyrgð. Segja má að Framsókn hafi veggfóðrað kjördæmið með kosningamyndum af henni og hún verið meira áberandi en Valgerður og Jón Kristjánsson.

Það verður fróðlegt að sjá stöðu Framsóknarflokksins hér í Norðausturkjördæmi að vori. Landsbyggðarþingmaður hefur ekki verið utanríkisráðherra frá því að Halldór Ásgrímsson sat á þeim stóli. Það munaði litlu að hann fengi skell í Austurlandskjördæmi hinu forna í kosningabaráttunni 1999 og hann fór um firðina á Cherokee-jeppanum sínum síðustu vikuna til að bjarga því sem bjargað yrði. Honum tókst það naumlega, en þá keyrði skelkaður landsfaðir um firðina austan heiða til að reyna að bjarga því sem bjarga yrði.

Nú verður fróðlegt að sjá hvort að fjarvera Valgerðar veiki Framsóknarflokkinn hér líkt og var fyrir austan í tilfelli Halldórs áður. Fer Valgerður í sama björgunarleiðanginn kortéri fyrir kosningar og Halldór fyrir austan fyrir tæpum áratug?

Nýársheit - góð eða slæm?

Nýársheit Ég hef yfirleitt ekki lagt vana minn í að strengja nýársheit, en ég gerði það núna einn með sjálfum mér þó í upphafi nýs árs. Ég hafði hugsað mér að stokka verulega upp líf mitt á árinu og breyta til, á ýmsum sviðum. Það er hollt og gott að fara í gegnum uppstokkun öðru hverju. Nýársheit eru misjöfn eflaust, stundum standast þau og stundum ekki. Mjög fjölbreytilegt.

Síðasta ár var reyndar svolítið merkilegt. Ég hætti að mjög miklu leyti flokksstarfi með verulega virkum hætti hér í bænum á árinu, en ég var formaður flokksfélags, sem var nokkuð krefjandi verkefni sem var fullt af fundum og allskonar önnum. Ég var orðinn þreyttur á því og vildi losna út úr því. Líður mjög vel á eftir. Tel að það hafi verið rétt ákvörðun og farsæl fyrir mig, enda nóg annað hægt að gera í staðinn. Til dæmis skrifa ég miklu meira nú en ég gerði áður og hef meiri tíma til þess, eðalgott það.

Ég heyri ýmislegt um nýársheit hjá fólki. Þau eru mjög ólík og spennandi. Sumir eru hátíðlegir á því en flaska svo á öllu draslinu er yfir lýkur. En hvað með ykkur? Einhverjir sem strengdu nýársheit?


Kjördæmisþing 20. janúar - listinn brátt til

KÞJ Kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, þar sem framboðslisti flokksins í kjördæminu verður staðfestur, mun verða haldið þann 20. janúar nk. Þá fer kosningabarátta flokksins hér af stað á fullu, innan við fjórum mánuðum fyrir þingkosningar. Kjörnefnd vinnur nú að endanlegri uppröðun á framboðslistann. Sex efstu sæti framboðslistans munu væntanlega verða skipuð eftir prófkjörinu þann 25. nóvember sl, en það var fjölmennt og vel heppnað.

Kristján Þór Júlíusson, nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, lætur af embætti bæjarstjóra á Akureyri á þriðjudag og mun þá halda alfarið til verka í kosningabaráttunni. Hann mun þó verða forseti bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar í stað Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur, verðandi bæjarstjóra. Mikil uppstokkun verður reyndar í bæjarmálunum á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag, en utan bæjarstjóraskipta og breytinga á forsetaembætti bæjarstjórnar verður uppstokkun í nefndum, enda hættir Sigrún Björk í bæjarráði, framkvæmdaráði og stjórn Akureyrarstofu.

Það er ekki hægt að segja annað en að listi okkar sjálfstæðismanna sé vel skipaður hvað efstu sætin viðvíkur eftir þetta prófkjör, sem fyrr er nefnt. Þrjár konur urðu í fimm efstu sætunum, þar af tvær í þrem efstu sætum. Það stefnir ekki í að aðrir flokkar hér muni skipa betur málum hvað varðar jafnréttismálin en við sjálfstæðismenn. Við Akureyringar eigum tvo fulltrúa í fjórum efstu sætum og Austfirðingar eiga tvo fulltrúa í sömu sætum, þar af tvö nokkuð örugg þingsæti, ef marka má skoðanakannanir. Eins og kannanir hafa verið að spilast að undanförnu höfum við þrjú örugg þingsæti og getum á góðum degi vel verið að hljóta fjögur sæti. Að því er að sjálfsögðu stefnt.

Nýjasta könnunin sýnir slæma stöðu Framsóknarflokksins, sem mælist aðeins inni með leiðtoga framboðslistans, Valgerði Sverrisdóttur, utanríkisráðherra. Samfylkingin og VG eru þarna bæði með þrjú þingsæti, þar af er Samfylkingin með jöfnunarsætið. Ég á ekki von á að úrslitin verði með þessum hætti, en þessi mæling er mjög athyglisverð. Sérstaklega er hrikaleg útreið framsóknarmanna, sem hér hafa nú fjögur þingsæti, athyglisverð. Hrun er væntanlega eina almennilega orðið yfir það allt. Samfylkingin virðist svosem ekki beint vera að blómstra, enda missir flokkurinn talsvert fylgi frá síðustu kosningum.

En ég held að þetta verði spennandi kosningabarátta hér næstu mánuðina. Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn muni hér koma sterkur til leiks með sinn framboðslista. Í sex efstu sætum eru aðeins þrjú sem voru á sömu slóðum síðast; Arnbjörg Sveinsdóttir, Þorvaldur Ingvarsson og Sigríður Ingvarsdóttir. Ég tel að innkoma Ólafar Nordal verði okkur heilladrjúg, en ég hef fundið vel að hún hefur góðan stuðning til verka og kemur með ferskan blæ í stjórnmálin hér. Ég vænti mikils af hennar verkum í þessari kosningabaráttu og á þingi eftir 12. maí.

Þetta verður lifandi barátta og áhugaverð, tel ég. Fari kosningar á borð við þá könnun sem fyrr er nefnd stefnir í verulega uppstokkun hér á stöðu mála og sigur Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, sem yrði sögulegt og gott. Markmið okkar hér hlýtur enda að tryggja góðan sigur og fjóra menn - og ráðherrastól í vor.

Jón Baldvin sætir opinberri rannsókn

JBH Það hafði einhvernveginn farið framhjá mér í helgi hátíðanna þau tíðindi að Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum utanríkisráðherra, sæti nú opinberri rannsókn vegna ummæla sinna um Sigurjón Sigurðsson, fyrrum lögreglustjóra í Reykjavík. Hæstiréttur hefur enda staðfest úrskurð Héraðsdóms um að sú rannsókn sé heimil. Þessi úrskurður hljóta að teljast mikil tíðindi, svo skömmu eftir að ríkissaksóknari ákvað að rannsaka ekki frekar hlerunarmálið fræga sem tengt er Jóni Baldvin og var eitt aðalumræðuefna síðustu mánuði ársins.

Mér fannst það frekar djarft hjá Jóni Baldvin í viðtali í haust að nefna Sigurjón "lögreglustjórann alræmda". Þetta var að mig minnir á sama deginum og mál hans varð fyrst í umræðunni. Börn lögreglustjórans, sem látinn er fyrir nokkrum árum, una skiljanlega ekki þessu orðalagi um föður sinn og vilja leita réttar síns fyrir hans hönd væntanlega fyrir dómi. Sú túlkun hefur verið áberandi að opinberir starfsmenn eigi að þola meira starfa sinna vegna. Það eru því nokkur þáttaskil í þessu efnum með úrskurði þessum.

Það verður athyglisvert að sjá hver niðurstaða þessa máls verði er á hólminn kemur. Jón Baldvin kom ekki vel út úr þessu hlerunarmáli sem rætt var í haust, enda stóð varla steinn yfir steini að því loknu. Vitnið fræga sem hann benti þar á og átti að skipta svo miklu máli var hætt störfum á því tímabili sem Jón Baldvin taldi sig hleraðan og hann vildi ekki bakka frásögn hans upp. Ofan á það var ekkert eftir sem staðfesti frásögnina. Þetta varð eins vandræðalegt eins og frekast mátti.

Fróðlegt verður nú að sjá þessa rimmu Jóns Baldvins við börn lögreglustjórans fyrrnefnda, sem standa vörð um heiður látins föður síns í réttarbaráttu við Jón Baldvin. Ofan á það verður svo auðvitað athyglisvert að sjá hvað kemur út úr þessari væntanlegu rannsókn.

Hví er kostnaður við skaupið trúnaðarmál?

Skaup 2006 Sitt sýnist hverjum um Skaupið á gamlársdag. Ég hef sagt mínar skoðanir hér og fengið komment frá þeim sem eru sammála og ósammála. Hið besta mál. Botna samt engan veginn í því af hverju kostnaður við þetta Áramótaskaup er talið trúnaðarmál. Þeir sem stýra Ríkisútvarpinu hafa neitað að gefa Fréttablaðinu, sem spurði um málið í gær og í dag, upp kostnaðartölurnar.

Fréttablaðið hefur nú kært þessa neitun Ríkisútvarpsins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Það er mjög undarlegt að ekki megi liggja fyrir hvað þetta skaup hafi kostað. Það sjá reyndar allir að þetta skaup var nokkuð dýr, miklu var til kostað og útkoman er ekki óumdeild, eins og allir hafa séð sem heyrt hafa álit almennings á skaupinu á netinu og í allskonar þáttum þar sem óvísindalegar mælingar hafa farið fram.

Ég hef margoft sagt hér að það sé erfitt að gera skemmtiefni sem allir séu hoppandi glaðir yfir. Þetta er ekki fyrsta skaupið sem er umdeilt. En í ljósi alls tel ég ekki óviðeigandi að kostnaður við það sé gefinn upp. Sé tal um að það hafi kostað um eða yfir 40 milljónir er það vissulega mikið umhugsunarefni hvort þeim peningum hafi verið vel varið.

Fallegt lag

Guðrún Árný Mikið innilega er það fallegt lagið Þula sem frænka mín, Guðrún Árný Karlsdóttir, og Leone Tinganelli sem hafa sungið til minningar um Svandísi Þulu Ásgeirsdóttur, sem lést í sorglegu bílslysi fyrir rúmum mánuði síðan.

Lagið er eitt af fjórum á plötu sem gefin hefur verið út til minningar um Svandísi Þulu og styrktar fjölskyldu hennar á þessum sorgartímum, en bróðir hennar liggur alvarlega slasaður á sjúkrahúsi eftir slysið.

Ég ætla mér að kaupa þessa plötu og hvet alla lesendur til að gera slíkt hið sama.

mbl.is Leggur sitt af mörkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nancy Pelosi kemst í bandarískar sögubækur

Nancy Pelosi Nancy Pelosi komst í sögubækur bandarískra stjórnmála í kvöld er hún varð fyrst kvenna forseti fulltrúadeildarinnar og verður valdamesta konan í 220 ára sögu Bandaríkjanna. Pelosi, sem er 66 ára gömul, hefur verið leiðtogi demókrata í deildinni frá því í janúar 2003 og þingmaður demókrata þar af hálfu Kaliforníu frá árinu 1987. Pelosi mun sem forseti verða önnur í valdaröðinni á eftir Cheney varaforseta. Engin kona hefur áður náð þeirri stöðu.

Fáum hefði væntanlega órað fyrir því er Pelosi var kjörin þingleiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni fyrir fjórum árum, fyrst kvenna þingleiðtogi í sögu Bandaríkjaþings, að henni tækist að verða forseti deildarinnar, sem er áhrifamikil en mun valdaminni en öldungadeildin. Pelosi hafði þurft að berjast alla tíð fyrir framgangi sínum fram til sigursins í nóvember, hún vann Steny Hoyer í kosningu um hver ætti að verða næstráðandi Dick Gephardt í deildinni árið 2001 og svo Harold Ford í leiðtogakjörinu árið 2003 og því ekki fengið neitt án baráttu.

Pelosi hefur alla tíð verið umdeild, vegna skoðana sinna og afgerandi tjáningarmáta, bæði innan Demókrataflokksins og ekki síður meðal andstæðinganna, en hún hefur ekki dulið andúð sína á George W. Bush og neo-con ráðherrunum í stjórn hans. Það varð Pelosi áfall að ná ekki að tryggja John Murtha kosningu í nóvember sem eftirmanns síns sem þingleiðtoga, næstráðanda síns sem forseta. Í staðinn varð Steny Hoyer, sem hún sigraði í kosningunni umdeildu árið 2001, valinn í hennar stað. Pelosi hefur alltaf verið harðjaxl í stjórnmálum og aldrei verið ófeimin við að tjá skoðanir sínar. Hún kemur með krafti nú inn í fremstu víglínu bandarískra stjórnmála.

Pelosi tekur við forsetaembættinu í fulltrúadeildinni af Dennis Hastert, sem var orðinn einn af þaulsetnustu forsetum í 220 ára sögu þingdeildarinnar. Hastert, sem nálgast sjötugt, var forseti fulltrúadeildarinnar í nákvæmlega átta ár, sem þykir mikið þar, enda hafa aðeins fjórir setið lengur og Hastert verið lengst allra repúblikana þar á forsetastóli. Hastert er svolítið merkilegur pólitíkus. Í ferð minni til Washington í október 2004 keypti ég ævisögu hans, Speaker: Lesson from 40 years in the coaching and politics, í Barnes and Noble í Georgetown, sem er mjög merkileg bók sem ég las af áhuga og á auðvitað enn. Í þeirri bók fór Hastert yfir verk sín og þátttöku í stjórnmálum.

Hann var lengst af kennari, íþróttaþjálfari, fyrirtækjaeigandi og þátttakandi í viðskiptalífinu. Hann var kjörinn í fulltrúadeildina árið 1987, sama ár og eftirmaður hans, Nancy Pelosi. Hastert var lengi vel mjög lítt áberandi í stjórnmálastörfum sínum. Hann var þó alltaf áhrifamikill en þar í skugga Newt Gingrich, sem varð tákngervingur sigurs repúblikana þar árið 1994. Er Gingrich hrökklaðist frá eftir fylgistap repúblikana í kosningunum 1998 varð Hastert svo eftirmaður hans á forsetastóli. Hastert hefur lengi verið kallaður þögli risinn innan flokksins, vegna stöðu sinnar og lágstemmdrar framkomu.

En það eru nýir tímar í bandarískum stjórnmálum. Pelosi er orðin forseti fulltrúadeildarinnar og tekur við miklum pólitískum völdum og lykiláhrifum. Það verður fróðlegt að fylgjast með verkum hennar á þeim vettvangi sem hún hefur nú verið kjörin til að leiða næstu tvö árin með sögulegum hætti.

mbl.is Kona í fyrsta skipti kjörin forseti Bandaríkjaþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband