28.1.2009 | 14:08
Jón Baldvin hundfúll með valið á Jóhönnu
Í raun má segja að fáir pólitískir samherjar hafi rifist meira og unnið meira gegn hvoru öðru en Jón Baldvin og Jóhanna. Eflaust mætti skrifa heila bók um samskipti þeirra eða öllu heldur samskiptaleysi á vinstristjórnarárunum 1988-1991 og í Viðeyjarstjórninni meðan þau gátu unnið saman og komist fyrir í forystu eins flokks. Hámarki náði þessi ólga með heiftarlegum átökum á flokksþingi Alþýðuflokksins 1990 og 1994, þar sem Jóhanna fékk endanlega nóg og gaf kost á sér gegn Jóni Baldvini í formannskjöri en tapaði og yfirgaf flokkinn við svo búið.
Átök þeirra á milli náðu það miklum dramatískum hæðum á flokksþinginu í Hafnarfirði árið 1990 að þau rifust heiftarlega á ræðum á fundinum og hnakkrifust þegar þau stóðu saman á sviðinu í þingsal eftir að hafa verið endurkjörin formaður og varaformaður. Frægar eru myndirnar af því þegar tókust saman í hendur og fögnuðu en rifust eins og hundur og köttur og Jóhanna var rauð af reiði í framan. Eftir þetta færðust þau sífellt í sundur og endaði með því að Jóhanna sagði af sér varaformennsku árið 1993 en hélt áfram sem félagsmálaráðherra.
Þá var leitað til Rannveigar Guðmundsdóttur sem bráðabirgðavalkosts í varaformennsku en valdaátökum frestað fram að flokksþingi 1994. Þar fór Jóhanna fram en beið meiri ósigur en mörgum hafði órað fyrir. Ræða hennar á því augnabliki er söguleg pólitískt og fleyg hafa orðið lokaorðin: Minn tími mun koma. Nú fimmtán árum síðar verður hún forsætisráðherra og nær því embætti sem Jón Baldvin vildi alltaf en hafnaði þegar vinstriflokkarnir buðu honum það reyndar árið 1991 - þá valdi hann frekar að gera Davíð Oddsson að forsætisráðherra.
Pólitíska sagan mun meta Jón og Jóhönnu sem eitt eldfimasta pólitíska par íslenskrar stjórnmálasögu. Samskipti þeirra og hitinn þeirra á milli er með því dramatískara í seinni tíð og nægar sögur að segja af því. Enn eimir eftir því þegar Jón Baldvin gerir upp við Jóhönnu og horfir greinilega ekki brosmildur fram á veginn með hinn endanlega pólitíska sigur hennar.
![]() |
Jóhanna vinnusöm en þröngsýn" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.1.2009 | 10:51
Aumar eftiráskýringar í Samfylkingunni
Eftir því sem meira heyrist af vinnubrögðum Samfylkingarinnar á lokaspretti ríkisstjórnarsamstarfsins því ómerkilegri verða þau og augljóst að leitað var að öllum útgönguleiðum og tylliástæðum til að slíta því. Nú er ljóst að enginn tíu atriða listi var lagður fram og því um að ræða auma eftiráskýringu Samfylkingarinnar til að láta hlut sinn í endalokunum líta betur út en ella. Öllum er ljóst að örlög samstarfsins voru ljós nokkru áður en Ingibjörg Sólrún kom heim frá Stokkhólmi og í raun að reynt var að búa til endalokin með óraunhæfri kröfu um forsætisráðherrastólinn.
Nú er t.d. ljóst að Jóhanna Sigurðardóttir var ekki rædd sem forsætisráðherraefni fyrr en að loknum þingflokksfundi Samfylkingarinnar í hádeginu á mánudag og þá sem útspil þegar sjálfstæðismenn voru að slíta - rætt var um fjögur til sex nöfn áður en hún kom fram, þó hún væri presenteruð sem einhver bjargvættur þingræðisins til að skapa þrýsting á sjálfstæðismenn. Önnur nöfn sem voru nefnd áður voru öll utan þings; t.d. Helga Jónsdóttir, besta vinkona ISG, Þórólfur Árnason, Dagur B. Eggertsson og að sumir segja Jón Sigurðsson.
Heilindin í þessu samstarfi voru löngu farin og segja má að þau einu sem eftir voru síðustu vikur var náið persónulegt samstarf Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar. Það samstarf hélt miklu lengur en stjórnarsamstarfið sjálft.
![]() |
„Ótrúlega ómerkilegt“ af Samfylkingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.1.2009 | 01:24
Umboðsmaður Íslands afþakkar aðstoðarmannslaun
Merkilegt annars að Kjartan Ólafsson hafi umboðsmann popparanna sem aðstoðarmann sinn. Á hann aðeins að redda ímyndarmálunum hans? Grunar það, enda margir sem vita ekki hver þingmaðurinn er.
![]() |
Einar af launaskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2009 | 23:08
Kompás með skúbb í Kastljósi - skuggaverk viðskipta
Mér fannst mjög merkilegt að sjá skúbb Kompás-fréttamannsins Kristins Hrafnssonar í Kastljósi í kvöld. Þetta voru vægast sagt skuggalegar upplýsingar og væntanlega toppurinn á glæfraverkum í bönkunum. Sé það rétt að á þriðja hundrað milljarða hafi verið lánaðar til góðvina Kaupþingsmannanna, fyrrum viðskiptafélaga Jóns Ásgeirs, viðskiptaveldis í molum er það skelfilegt í alla staði. Er þetta kannski ástæðan fyrir því að lokað var á Kompás og þeir látnir fara sem ekki pössuðu inn í glansmynd Stöðvar 2 í kreppunni?
Merkilegt er að lesa boðskap Sigurðar Einarssonar, fyrrum stjórnarformanns Kaupþings. Þetta er maðurinn sem var á bakvið öll skuggaverkin í Kaupþingi ásamt fleirum mönnum, skuggaverk viðskipta sem þarf að gera upp og klára með viðeigandi hætti.
Eðlilega er spurt hve lengi vont geti versnað; subban og svínaríi viðskiptalífsins geti haldið áfram að sjokkera og ergja fólkið í landinu. Botnlaus spilling virðist vera eftirmæli þeirra sem fóru um heiminn með forsetanum og þóttust vera alvitrir.
![]() |
Atlaga felldi íslenska kerfið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2009 | 18:18
Hvað fær Framsókn fyrir oddastöðu sína?
Nú reynir á hvað Framsóknarflokkurinn fái fyrir sinn snúð. Kosningar í vor er auðvitað draumavalkostur fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins. Hann vill ná að stimpla sig inn og endurreisa Framsókn og kannanir gefa til kynna að honum hafi tekist að rífa flokkinn upp úr lægðinni. Þeir settu dagsetninguna 25. apríl fram sem kjördag í boði sínu. Þeir munu sækja það fast.
VG og Framsókn ættu að geta sameinast um 25. apríl sem kjördag og Sjálfstæðisflokkurinn getur örugglega gert það líka, þá mánuði eftir landsfund. Spurningin er um Samfylkinguna. Þar er allt í einu talað um 30. maí, miklu síðar en Sjálfstæðisflokkurinn lagði til. En augljóst er að kosið verður mjög fljótlega og sennilega fyrir 9. maí, þó ekki sé það útilokað. Sú er krafa þeirra sem vinna með Samfylkingu nú.
En Framsókn er ekki þekkt fyrir hógværð þó þeir hafi gengið í gegnum vonda og dimma daga. Þeir fá þingforsetann, fyrir annaðhvort Valgerði eða Siv, en munu örugglega sækja sér meiri völd en bara hjásetu og að vera ódýr. Þeir munu sækja sér sín völd með einum eða öðrum hætti og hafa raunhæf völd með oddastöðu sinni.
Enn og aftur eru þeir miðpunktur íslenskra stjórnmála. Hverjum hefði órað fyrir því að það gerðist svo fljótlega eftir að Halldór rann út úr íslenskri pólitík og Jóni Sigurðssyni mistókst að komast á þing og endurreisa flokkinn.
![]() |
Sigmundur Davíð kemur á fund |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2009 | 16:42
Ballið byrjað - VG vill endurskoða IMF-samninginn
Held að þetta verði spennandi ríkisstjórn fyrir pólitísku áhættufíklana, þá sem hafa gaman af núningu og spennu - sama fólkið og naut þess að sjá endalok Þingvallastjórnarinnar í hægspilun. Ef vinstri grænir gera alvöru úr öllum sínum málum mun ekki vanta fréttir og spennu í íslensk stjórnmál, þegar við bætist niðurskurðurinn á öllum sviðum sem þeir þurfa að leiða má búast við að allt geti gerst.
En uppstokkun samnings við IMF er greinilega lykilmál vinstri grænna og væntanlega mun fjármálaráðherra vinstri grænna fara með veganesti til verka um að breyta honum. En það getur gengið erfiðlega, samningaviðræður við IMF verða eflaust snúnar. Erfitt verður að fara af þessari vegferð nema fórna samningnum algjörlega.
![]() |
Munu leita eftir endurskoðun á IMF-samningi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2009 | 15:40
Ágúst Ólafur hættir í pólitík - grafið undan honum
Ég er ekki hissa á því að Ágúst Ólafur Ágústsson hafi ákveðið að hætta í stjórnmálum, enda hefur svo markvisst verið grafið undan pólitískri stöðu hans æ ofan í æ innan Samfylkingarinnar. Maður sem er varaformaður stjórnarflokks en hefur ekki stuðning til að verða ráðherra innan ríkisstjórnar og er svo lofað þingflokksformennsku sem sárabót en líka svikinn um það er augljóslega í pólitísku tómarúmi og hefur ekkert traust til verka. Hann er auðvitað núlleraður í pólitík.
Merkilegast í yfirlýsingu Ágústs Ólafs í dag, um að hætta sem varaformaður og fara af þingi, er að hann hafi ákveðið um helgina að hætta sem þingmaður og sækjast ekki eftir ráðherrastól. Miðað við þetta er augljóst, sem blasir við öllum, að viðræður Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins á heimili Geirs H. Haarde voru pólitískt sjónarspil eftir að völdin höfðu verið tekin af Ingibjörgu Sólrúnu og hún stóð frammi fyrir stjórnarslitum þegar hún kom frá Svíþjóð.
Ágústi hlýtur að vera létt. Nú verður ekki hægt að grafa meira undan honum, sennilega ómögulegt sjálfu sér.
![]() |
Ágúst Ólafur hættir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2009 | 13:16
Fyrsti samkynhneigði forsætisráðherrann
Hverjum hefði órað fyrir því þegar Jón Baldvin niðurlægði Jóhönnu á flokksþingi Alþýðuflokksins árið 1994 að hún ætti eftir að verða forsætisráðherra, þó án þess að verða flokksformaður fyrst. Hún sagði þá að sinn tími myndi koma og það gerist nú heldur. Hvernig ætli Jóni Baldvini lítist á væntanlegan forsætisráðherra Samfylkingarinnar?
Væri ekki verðugt fyrir einhvern sagnfræðinginn að skrifa bók um endalaust hatur þeirra hvort á öðru og markvissar tilraunir beggja til að grafa undan hvoru öðru í vægðarlausu valdastríði á tíunda áratugnum?
![]() |
Minn tími mun koma, sagði Jóhanna 1994 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2009 | 00:50
Gamaldags hrossakaup með baktjaldamakki
Eftir margra ára stjórnarandstöðuvist reynir nú í fyrsta skipti fyrir alvöru á bardagamanninn Steingrím Jóhann Sigfússon og vinstri græna í ríkisstjórn. Einn helsti andstæðingur lánsins frá IMF verður nú fjármálaráðherra og þarf að fara í það merkilega verkefni að skera niður og dekstra við samninginn við IMF, ekkert annað blasir við á næstunni. Enn hefur mesta höggið ekki riðið yfir í þeim efnum. Vinstri grænir þurfa nú að hætta týpísku tali sínu á móti öllu og fara í verkin. Þar reynir á hvernig flokkurinn standi sig í alvöru verkum.
Mér finnst fall ríkisstjórnarinnar og myndun nýrrar stjórnar vera týpískt fyrir gamaldags pólitík og vinnubrögð sem einhverjir vonuðust eftir að væru hluti af fortíðinni. Þetta eru týpísk gamaldags hrossakaup með baktjaldamakki og stólaskiptum. Enn kemur það í ljós að allir eru tilbúnir að gera allt fyrir stólana sína. Nema kannski Sjálfstæðisflokkurinn. Hann hefði getað haldið völdum með því að sætta sig við forsætisráðherra úr Samfylkingunni en afþakkaði það og heldur þess í stað í stjórnarandstöðu.
Ekki verður vart við neinn fögnuð með fall ríkisstjórnarinnar nema hjá mjög fámennum hóp. Engin umskipti verða í pólitíkinni. Vinstri grænir setjast bara að kjötkötlunum og fara í stólamakk til að maka eigin krók. Nema hvað. Þetta er pólitískur hráskinnaleikur eins og hann bestur, eða kannski verstur frekar, sennilega betra orðað þannig. Þetta er gamaldags pólitík eins og við þekkjum svo vel. Hugsað er um stólana fram yfir málefnin. Hvaða málefni munu nýjir stjórnarflokkar ná samstöðu? Þetta verður einhver stuttur stikkorðalisti og svo samningar um stólana, eins og við sjáum þegar glitta í.
Erfiðir tímar eru framundan. Við blasir að skera þarf niður á öllum sviðum í takt við samninginn við IMF. Vinstri grænir blótuðu þeim samningi í sand og ösku en fara nú í það merkilega verkefni að hlúa að honum. Verður eflaust gaman fyrir þá að vera blóðugir upp fyrir axlir í niðurskurði. Hlakka til að sjá Ögmund Jónasson, nýjan heilbrigðisráðherra, koma með töfralausnirnar sínar þar sem áður þurft að spara sjö milljarða bara á þessu fjárlagaári.
Og enn á ástandið eftir að versna og vondar ákvarðanir framundan. Held að enginn sé öfundsverður að þessu nema vinstri grænir sem loksins geta sýnt hvað í þeim býr. Þeir eru þegar gengnir valdinu á hönd - byrjaðir að gefa eftir og makka með.
![]() |
VG leggur línurnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.1.2009 | 19:39
Feluleikur vinstriflokkanna um stjórnarmyndun
Ég heyri að skipting ráðuneyta sé komin vel á veg og í raun ekkert eftir nema fá samþykki á ráðahagnum frá Bessastöðum. Miðað við boðskap forsetans verður það ekki erfitt. Stóra spurningin er hvort stjórnlagakreppa fylgi orðum forsetans en hann gengur mun lengra en forverar hans í hlutverki þjóðhöfðingjans og oftúlkar hlutverk sitt.
![]() |
Ný ríkisstjórn í kortunum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 18:25
Forsetinn nýtur sviðsljóssins í pólitísku tómarúmi
Merkilegasta hugtakið og pólitíska nýyrðið sem forsetinn kynnti var mikilvægi þess að koma á samfélagslegum frið. Eðlilega spurði Helgi Seljan, frændi minn, að því hvort samfélagslegur friður ríkti um störf hans sjálfs. Ólafur Ragnar hefur jú skálað í kampavíni við auðmennina og flogið í boði þeirra á heimsenda og verið sameiningartákn hinnar gjaldþrota útrásar, enda verið á öllum myndunum með útrásarvíkingunum á erlendri grundu og verið sérstakur sendiherra hennar og táknmynd öðrum fremur. Hans staða getur varla talist góð til að leika einhvern siðapostula - hann er innantómur í besta falli í því.
Ólafur Ragnar átti vissulega stjörnuleik á Bessastöðum síðdegis. Þetta er stóra tækifærið hans til að stimpla sig í pólitískar sögubækur með framgöngu sinni. Hann var allt í senn gamli háskólaprófessorinn, stjórnmálamaðurinn og fjölmiðlafulltrúinn með framgöngu sinni. Minnti mun frekar á leikara en sameiningartákn þjóðar. Samfélagslegi friðurinn um hann og verkin hans er ekki til staðar og eiginlega hlýtur að vera spurt um hvort hann ætti ekki að líta sér nær.
Hann er einn af örfáum sem græðir á tómarúmi þjóðarinnar - hann spilar það óspart sér í hag. En gallinn er bara sá að hann er ekki sameiningartákn þjóðarinnar heldur mun frekar sameiningartákn hinnar hamfaralegu útrásar sem setti þjóðina á hausinn og kom okkur á kaldan klaka í orðsins fyllstu merkingu.
![]() |
Skapa þarf samfélagslegan frið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 16:28
Geir segir af sér - Ólafur Ragnar í lykilstöðu
Allan sinn forsetaferil hefur Ólafur Ragnar eflaust beðið mjög óþreyjufullur eftir því að veita formlegt umboð til stjórnarmyndunar. Komið er að þeim tímapunkti. Allt frá því að Ólafur Ragnar tók við forsetaembættinu 1. ágúst 1996 sat ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við völd og var algjört formsatriði að halda því samstarfi áfram þar sem hún hélt þingmeirihluta í kosningunum 1999 og 2003. Stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar myndaðist án atbeina hans að mestu.
Nú kemur í fyrsta skipti til hans kasta að veita almennt stjórnarmyndunarumboð þar sem fráfarandi starfsstjórn er til staðar og hefur fallið og staðan við myndun stjórnar er galopin, þó flest bendi til að flokkar hafi talað sig saman að einhverju leyti. Við slit samstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknar árið 2007 kallaði Ólafur Ragnar formenn flokkanna ekki til sín heldur veitti Geir Haarde strax umboðið.
Fróðlegt verður að sjá hvort að þetta er upphaf ferlis þar sem Ólafur Ragnar getur leikið þann örlagavald sem hann hefur eflaust alltaf viljað vera í íslenskum stjórnmálum. Gestakoma formannanna á Bessastaði er örugglega tækifærið fyrir Ólaf Ragnar til að vera mikilvægur hlekkur á milli stjórnmálamanna við myndun ríkisstjórnar.
Forsetinn, sem er gamall pólitískur refur og margreyndur stjórnmálamaður fyrir forsetaferilinn, nýtur örugglega sviðsljóssins.
![]() |
Forsætisráðherra á fund forseta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 14:47
Jóhanna verður forsætisráðherra í nýrri stjórn
Við blasir að forsætisráðherravalkostur Samfylkingarinnar, aldursforsetinn Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, muni leiða nýja ríkisstjórn, væntanlega minnihlutastjórn Samfylkingar og vinstri grænna, varða af Framsóknarflokknum, ef Geir H. Haarde nýtir ekki þingrofsrétt sinn á Bessastöðum í dag. Get ekki séð að þjóðstjórnarkosturinn gangi við þær aðstæður sem uppi er. Vinstriflokkarnir hafa augljóslega myndað með sér blokk um helgina með Framsókn, jafnvel fyrr. Leikritið sem hefur staðið um helgina hefur greinilega verið þaulskipulagt og vissulega merkilegt á að horfa.
Mér finnst merkilegt að Jóhanna sé valkostur Samfylkingarinnar. Eflaust er þetta til að létta þrýstingi af Ingibjörgu Sólrúnu og til að tryggja henni framhaldslíf í pólitík nái hún heilsu. Með þessu stígur hún til hliðar meðan mótmælendur róast og ætlar að koma á sviðið aftur og verður væntanlega þá sú eina eftir af ráðamönnum í fremstu víglínu bankahrunsins sem enn er eftir á sviðinu. Þetta er merkilegur leikur en eflaust þaulskipulagður. Jóhanna sem starfsaldursforseti Alþingis er valkostur sem kemur fram sem fulltrúi þingræðis í krísu, svipað og Gunnar Thoroddsen árið 1980.
Fúkyrðin og ávirðingar um ómögulegt samstarf ganga á milli. Greinilegt er þó á öllu að Sjálfstæðisflokkurinn gekk að öllum kröfum Samfylkingarinnar nema því að afsala sér forsætinu, sem um var samið milli flokkanna. Slík afstaða er heiðarleg, enda afleitt að ætla að skipa málum öðruvísi í samstarfinu í hundrað daga, eða fram að kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn fer því af velli með heiðarlegum hætti og stendur við fyrirframákveðið samkomulag.
Óvissan í þjóðfélaginu er fjarri því að baki þó stjórnarfyrirkomulag breytist. Ég tel líklegast að Ólafur Ragnar feli Jóhönnu stjórnarmyndunarumboð fljótlega eftir að Geir fer til Bessastaða ef þingrofsréttur hans er ekki nýttur enda er handritið að þessu leikriti löngu skrifað og tilbúinn til túlkunar af aðalleikurunum. Utanþingsstjórn er ólíklegur valkostur. Hvað varðar Sjálfstæðisflokkinn fær hann við þær aðstæður næði og góðan tíma til að stokka sig upp og kannski ágætt eftir það sem gengið hefur á að hann fái sitt svigrúm.
Ég er innst inni ánægður með að þessu stjórnarsamstarfi er lokið. Það hafði verið ónýtt mjög lengi og heilindin löngu farin. Heiðarleg samskipti Geirs og Ingibjargar hélt ótrúlega lengi en að öðru leyti var það löngu farið veg allrar veraldar. Ég gaf því fullt tækifæri þegar þessi stefna var tekin eftir kosningarnar 2007 en treysti aldrei á það og hef fyrir löngu hætt alvöru stuðningi við hana, enda óheilindasamstarf.
Mér finnst mikilvægt að við þessar aðstæður verði kjörin alveg ný forysta Sjálfstæðisflokksins á landsfundi í mars. Ég mun ekki styðja neinn í núverandi forystu áfram og vona að samstaða náist um alveg nýtt fólk þar í forystu, sem ótengt er með öllu ákvörðunum og forystu í aðdraganda og eftirmála bankahrunsins. Tækifærið er til breytinga - það þarf að nýta.
![]() |
Jóhanna næsti forsætisráðherra? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.1.2009 | 13:16
Ríkisstjórnin fallin - vinstristjórn í pípunum?
Þá hefur Geir H. Haarde, forsætisráðherra, slitið stjórnarsamstarfi með Samfylkingunni eftir stormasama tíð. Samfylkingin hefur, eins og kjaftasögurnar sögðu í morgun, gert kröfu um forsætið í samstarfinu. Slík krafa er algjörlega óaðgengileg 100 dögum fyrir alþingiskosningar. Nú tekur væntanlega við vinstristjórn, enda er greinilega búið að leggja drög að henni.
Þjóðstjórn væri besta lausnin en væntanlega mun valdapot vinstriflokkanna verða því yfirsterkara. En nú fá þeir sennilega boltann og geta leikið sér með hann eins og þeir vilja. Nú reynir á leikni þeirra. Kjaftasagan er að pólitískur krónprins ISG, Dagur B. verði forsætisráðherra, Steingrímur J. fjármálaráðherra og Ögmundur heilbrigðisráðherra.
Fróðlegt að heyra hvað verður um IMF í því dæmi. En eflaust bognar VG í því.
![]() |
Stjórnarsamstarfi lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 11:39
Kjaftasaga um vinstristjórn spuni Samfylkingar?
Kannski ráðast örlögin eftir allt saman á fundum stjórnarflokkanna og þeir nái saman um aðgerðir. Mér finnst samt merkilegt að fylgjast með valdaleikriti Samfylkingarinnar þar sem leitað er í smiðju Halldórs Ásgrímssonar í samningum við Sjálfstæðisflokkinn eftir kosningarnar 2003 til að réttlæta að Samfylkingin fái forsætið núna á síðustu hundrað dögum ríkisstjórnarinnar fyrir kosningar - þeir leiði síðustu metrana og skipt sé um forsætisráðherra bara til að þjóna hagsmunum Samfylkingarinnar.
Mér finnst það líka mjög merkileg krafa að kona sem nýlega er komin úr miklum uppskurði eigi að taka við embætti forsætisráðherra og haldi því opnu að leiða flokk sinn í vor. Nema þá að þetta sé pólitískur svanasöngur Ingibjargar Sólrúnar og hún vilji kveðja pólitíkina sem forsætisráðherra í þrjá mánuði en fara ekki fram í vor.
En kjaftasögurnar eru margar og erfitt að gera sér grein hverjum skal trúa og hverjum ekki. Best að taka hæfilegt mark á þeim öllum og velta þeim fyrir sér. Nú er beðið þess sem gerist á þingflokksfundunum. Vonandi ráðast örlögin þar en hafa ekki ráðist fyrir löngu síðan, á sellufundum um helgina.
![]() |
Rafmögnuð stemmning |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2009 | 10:38
Vinstristjórn í burðarliðnum - ISG forsætisráðherra
Þetta er merkileg kjaftasaga og fróðlegt að heyra hana áður en þingflokksfundum stjórnarflokkanna lýkur. Ef þetta er rétt er alveg ljóst að samningaviðræður helgarinnar voru hreinn skrípaleikur og partur af valdaleikriti Samfylkingarinnar.
![]() |
Þingflokksfundir hefjast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2009 | 10:18
Spuni Samfylkingar - átök um forsæti ríkisstjórnar
Frekar aumt er það orðið þegar Samfylkingin reynir að fá stólinn með tilvísan í að Halldór Ásgrímsson hafi verið forsætisráðherra í stjórn með Sjálfstæðisflokknum fyrir nokkrum árum. Um slíkt var samið í upphafi kjörtímabils en ekki á hundrað dögum fyrir kosningar. Slíkur samanburður er hlægilegur og ekki Samfylkingunni til sóma.
Atburðarás gærdagsins var ein leikflétta til að breyta skipan mála í Stjórnarráðinu, Samfylkingu í hag. Slíkt gengur ekki upp og Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að taka þátt í því. Frekar á Sjálfstæðisflokkurinn að slíta ríkisstjórn en sætta sig við það. Slíkt ber því vitni að Samfylkingin vilji ekki halda áfram af heilindum.
Ingibjörg Sólrún er nýlega komin úr heilaskurðaðgerð og er greinilega mjög máttfarin og veikburða, eins og vel sást í fréttum í gær. Algjör fjarstæða er að hún taki við forsætinu þegar Geir H. Haarde fer til læknismeðferðar erlendis. Langheiðarlegast er þá að manna forsætisráðherrastólinn öðrum einstakling en þeim báðum.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk stólinn í þessari ríkisstjórn og mun ekki láta hann af hendi meðan stjórnin situr, nema þá að í raun sé mynduð ný ríkisstjórn. Ég er sammála Birni Bjarnasyni um að verk næstu hundrað dagana eiga að snúast um aðgerðir í efnahagsmálum en ekkert annað, enda er þetta í raun bara starfsstjórn.
![]() |
Vilja taka að sér verkstjórnina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 08:08
Skemmdarverkaáráttan og baráttuaðferðirnar
Réttur fólks til að hafa skoðanir og tjá þær af krafti er mikilvægur - hann ber að verja. Mér finnst samt frekar dapurlegt þegar skoðanatjáning endar með skemmdarverkum eða ofbeldi. Slíkt hlýtur að koma niður á þeim skoðunum sem viðkomandi tjáir og skaðar málstaðinn, hver svo sem hann er. Mér finnst ekkert óeðlilegt að einhverjir vilji fara að Seðlabankanum og tjá skoðanir sínar og gera með þeim hætti sem er viðeigandi. Verra er þegar skemmdarverk eru það sem eftir standa, þegar talað er og barið á potta út í myrkrið, fyrir utan hús sem enginn er í.
Síðustu vikuna höfum við séð söguleg mótmæli hérlendis við opinberar byggingar og misjafnlega langt gengið. Árásin á Alþingishúsið og Stjórnarráðið og aðförin að lögreglunni aðfararnótt fimmtudags var þeim til skammar sem að þeim stóðu og voru lágpunkturinn á mótmælaferlinu og áttu í raun ekkert skylt með málefnalegum mótmælum, heldur snerist upp í óeirðir og skrílslæti. Þau hafa vakið athygli fyrir innihaldsleysi sitt í skoðunum en að vera gróft ofbeldi og að sumu leyti hreinlega tilraun til manndráps á lögreglumönnum.
Skemmdarverkin eru réttlætanleg hjá sumum fyrir einhvern málstað en það hlýtur samt að vera vondur eftirmáli á baráttu hver sem hún nefnist. Árás á opinberar byggingar að næturlagi, þegar enginn er þar, er kannski táknræn og tilraun til að vekja athygli þegar ekki er annað að gerast og verður að dæmast á þann máta sem til er stofnað. Sum mótmæli eru betur skipulögð en önnur og betra að gera það heiðarlega og vel frekar en stefna fyrirfram að því að espa lögregluna upp.
Ég ætla að vona að allir læri eitthvað á síðustu viku, mótmælendur ekki síður en lögregla og embættismenn. Fyrst og fremst er mikilvægt að fólk tjái sig án þess að beita skapi sínu á lögreglumenn við skyldustörf og dauðum hlutum.
![]() |
Skemmdarverk við Seðlabankann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.1.2009 | 18:28
Mun Geir nota þingrofsvaldið í stöðunni?
Í viðtali nú á sjöunda tímanum sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, að hann myndi ekki afsala sér þingrofsvaldinu. Þetta er merkilegt útspil - enda felst í því að Geir muni slíta stjórnarsamstarfinu og rjúfa þing og boða til kosninga innan 45 daga áður en Samfylkingin tekur eitthvað slíkt skref. Hann tók það sérstaklega fram að valdið væri sitt og myndi ekki láta það af hendi. Mér finnst það gefa til kynna að það sé uppi á borðinu í samtölum innan Sjálfstæðisflokksins.
Miðað við stöðuna er þessi ríkisstjórn allt að því fallin og ekkert traust eftir. Mér finnst greinilegt að brugðið getur til beggja vona. Sjálfstæðisflokkurinn getur bundið enda á samstarfið ef allt fer á versta veg og á þá í þeirri stöðu að rjúfa strax þing.
![]() |
Útilokum ekki breytingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.1.2009 | 16:33
Hreinsun í Fjármálaeftirliti - efinn um Seðlabanka
Ég tel að það sé farsæl ákvörðun að láta yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins fara. Jónas Fr. fær samt enn rúman mánuð til verka. Farsælla hefði verið að láta hann hætta um mánaðarmót. Yfirmönnum í FME varð á mikil mistök í bankahruninu og eftirmálum þess - hafa ekki notið trausts að undanförnu. FME sem megineftirlitsaðili stóð sig ekki nógu vel. Hvort um sé að kenna ekki nógu fjármagni eða of miklum starfsmannabreytingum má deila.
Þessi meginstoð stóðst altént ekki þegar á reyndi. Svo fer sem fer. Þessar ákvarðanir hefði mátt taka fyrir nokkru, en þeim ber samt sem áður að fagna. Ég er reyndar hissa á hversu pólitísk ábyrgð dagsins fer illa í sumu. Þegar pólitísk ábyrgð er virkjuð halda sumir áfram að nöldra og láta eins og hún sé afleit. Stundum er umræðan óskiljanleg.
Efasemdin er nú um Seðlabankann. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins verða að meta næstu skref vel og taka sínar ákvarðanir. Ég tel að ákvörðun um áframhaldandi stjórnarsamstarf verði um hvort kenna eigi forystu bankans um það sem aflaga fór eða verja hana. Ekki er nokkur spurning um að fyrr en síðar mun þar fara fram uppstokkun.
![]() |
Jónas hættir 1. mars |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |