22.1.2009 | 02:43
Hafa mótmælin verið yfirtekin af skríl?
En kannski er þetta fólk einmitt að óska eftir óeirðum og því að gengið verði lengra gegn þeim. Mér finnst ekkert annað blasa við, sé mið tekið af því að hjóla beint í lögregluna. Hreint skemmdarverk og ofbeldi er mótmælendum ekki til sóma.
![]() |
Mótmælendur við Stjórnarráðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.1.2009 | 01:15
Táragas á Austurvelli - óeirðir að skella á?
Ég verð að segja að ég er ekki hissa á því að táragasi sé beitt á Austurvelli sé það rétt að gangstéttarhellu hafi verið kastað í lögregluþjón og reynt að ráðast beint að þeim. Slíkar aðgerðir verða aðeins til þess að lögreglan svarar á móti með ofbeldi. Mér sýnist því miður þetta stefna í óeirðastíl á Austurvelli og tel að það sé verulegt áhyggjuefni að mótmælendur ráðist beint að lögreglunni við skyldustörf sín. Slíkt getur ekki endað nema illa.
Óeirðirnar á Austurvelli 30. mars 1949 eru ógleymanlegur hluti af Íslandssögunni og svipmyndir þess dags vel varðveittar í frásögn af inngöngunni í Nató, sem þrátt fyrir mikla ólgu á þeim tíma, reyndist mikið gæfuspor og enginn lagði í að stöðva síðar meir. Nú virðast þessir sögulegu atburðir að endurtaka sig á Austurvelli að einhverju leyti og það að beitt sé táragasi markar viss þáttaskil í þessari ólgu.
![]() |
Táragasi beitt á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.1.2009 | 00:12
Mótmælendur ráðast að lögreglunni - átakanótt?
Mér fannst mjög dapurlegt í dag að kastað væri flugeldum eða blysum að lögreglunni og gengið þar með of langt, enda er hægt að valda miklum meiðslum á mönnum sem sinna aðeins sínum verkum. Ég veit ekki hvort gott sé að spá um hvernig nóttin muni verða. Held að allt bendi til þess að átök séu að skella á milli aðila. Slíkt endar bara með óeirðum.
Ef ofbeldið ætlar að verða þannig að ráðist er að mönnum sem sinna sinni vinnu og hafa ekkert af sér gert, að tilefnislausu, er gengið of langt og skaðar aðeins mótmæli þeirra sem halda enn áfram. Kannski er tilgangurinn einn að kveikja ófriðarbál.
![]() |
Lögregla beitti kylfum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2009 | 22:06
Stjórnin að falla - frumkvæðið að endalokunum
Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með ummæli Geirs í kvöld og finnst það vera eins og veruleikafirring að tala og láta líta út fyrir sem að allt sé í himnalagi og hægt verði að halda áfram eins og ekkert hafi gerst. Ríkisstjórnin hefur oft verið tæp, í raun aldrei heilsteypt, en nú eru endalokin greinilega í augsýn. Áframhaldandi mótmæli af þessu tagi og skiljanleg krafa almennings að einhver framtíðarsýn sé mótuð og talað til fólks af viti, mun ekki enda öðruvísi en með því að kjósendur fái umboðið í sínar hendur.
Sjálfur hef ég margoft verið óánægður með þessa ríkisstjórn og verið ósáttur - eiginlega langt síðan ég hætti að styðja hana af hugsjón og áhuga. Margir þættir hafa orðið til þess og þeir sem lesa bloggið vita örugglega af skoðun minni á ríkisstjórninni. Eftirmæli hennar verða því miður að hafa sofið á verðinum og látið sem ekkert væri að gerast þegar þörf var á öflugri forystu og traustum vinnubrögðum. Fálmkennd vinnubrögðin verður það sem flestir minnast þegar hugsað verður til þessa tíma, því miður.
Eitt veigamikið vandamál nú, þegar allt riðar til falls og kjósendur sækja að kjörnum fulltrúum og embættismönnum með orðum og aktívisma, er að límið í ríkisstjórn landsins er ekki lengur til staðar. Formaður annars stjórnarflokksins er greinilega mikið veik og ekki fær um að gegna störfum sínum áfram og hinn formaðurinn virðist vera orðinn lokaður af og átta sig ekki á raunveruleikanum sem er að gerast. Þetta eru ill örlög einnar ríkisstjórnar.
Kosningabaráttan er greinilega að hefjast. Þar verður horft til uppstokkunar í stjórnmálum og reynt að byggja upp aftur á því sem aflaga fór áður. Þar hlýtur hagur þeirra sem eru nýjir og hafa lausnir að vera vænlegur en um leið hljóta þeir að fara af sporinu sem hafa engar lausnir og upphrópanir sem eru verðlausar út af fyrir sig.
![]() |
Samþykktu ályktun um stjórnarslit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.1.2009 | 18:29
Ríkisstjórn í andaslitrunum - uppgjör framundan
Framtíðin er óljós. Mikið er talað um myndun rauðgrænnar stjórnar. Ef vinstriflokkarnir telja sig ráða við ástandið betur og gætu tekið af skarið verður það að ráðast. Ég hef aldrei verið mjög hrifinn af vinstristjórnum, enda sagan ekki beint þeim hliðholl. Þær hafa sjaldan staðið undir sér nema um skamman tíma og oftast endað í upplausn og fylkingamyndunum. Mér finnst eðlilegast gefist þessi stjórn upp að kosningum verði flýtt eins og mögulegt má vera og það verður ekki umflúið.
Ég tel að menn hefðu betur farið að ráðum Davíðs Oddssonar í vetur og myndað þjóðstjórn þegar eftir bankahrunið eða allavega tryggt samstöðu stjórnmálanna um verkin. Slíkt var ekki gerist og dæmist sem mikil pólitísk mistök. Davíð mat stöðuna þá rétt. Mér hugnast betur að fá utanþingsstjórn ef þessi gefst upp. Ef stærstu flokkar landsins geta ekki leitt þjóðina á að fá utanaðkomandi menn að verkinu.
Hvað varðar Sjálfstæðisflokkinn er ég kominn á þá skoðun að þar verði að taka duglega til í forystunni og sýna nýja ásýnd á landsfundi í næstu viku. Slíka stefnu þarf að móta í aðdraganda kosninga og gefa fólki tækifæri til að velja nýja ásýnd flokksins í kosningunum sem verða fyrr en síðar.
![]() |
Ekki á kosningabuxunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2009 | 15:03
Allt á suðupunkti - mun fólk beita ofbeldi?
Hitt er svo annað mál að pólitísk upplausn er í landinu. Ríkisstjórnin stendur mjög veikt. Ég skynja mikla óánægju með veika forystu hennar á þeim tímum þegar við verðum að hafa styrka forystu og taka alvöru ákvarðanir. Hún stendur ekki í lappirnar og er að bugast, einkum af innanmeinum sem hafa verið til staðar mjög lengi en verið haldið niðri með samstöðu formanna flokkanna. Formaður annars flokksins er veik og fjarri sviðinu. Allt getur því gerst.
![]() |
Mótmælendur umkringdu Geir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2009 | 06:59
Stjórnleysisástand á Austurvelli
Nú verður fróðlegt að sjá hvað lögreglan mun ganga langt ef allt verður á suðupunkti síðar í dag.
![]() |
Mótmæli fram á nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2009 | 00:49
Eru mótmælin ekki farin að ganga of langt?
Mér sýnist þessi mótmæli vera orðin stjórnlaus og þokist áfram frekar spontant frekar en vera skipulögð og ákveðin. Reiðin ber fólk ofurliði og það fer alla leið á þeirri gremju sem býr í því. Miðað við viðtölin í tíufréttum og stemmninguna sem var hjá því er varla við því að búast að skynsemin sé við völd í baráttunni. Þetta er að stefna í eitthvað meira en mótmæli, þetta er að verða að hreinni árás á allt stjórnkerfið og virðist valdi þar beitt af öllu afli.
Morgundagurinn verður örugglega átakadagur eins og sá sem nú er liðinn. Mér sýnist engin mörk á því hvað geti gerst og væntanlega verður ofbeldið meira en í dag ef fram heldur sem horfir. Nú reynir á hvað lögreglan og stjórnvöld eru tilbúin til að gera til að verja þinghúsið. Mér sýnist þetta vera að þokast mjög á verri veg.
![]() |
Jólatréð brennt á bálinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2009 | 22:24
Söguleg átök við þinghúsið minna á ástandið 1949
Reiðin og beiskjan í fólki er skiljanleg. Ríkisstjórnin hefur allt frá því hún tók við fyrir tveim árum verið mjög veik þrátt fyrir mikinn þingmeirihluta og ekki getað verið öflug í verkum. Eftir bankahrunið hefur hún haft mörg tækifæri til að taka stöðuna traustum tökum en mistekist það æ oftar. Ég er því ekki hissa á að kallað sé eftir traustri forystu og einhverri framtíðarsýn. Vinnubrögðin hafa verið fálmkennd og fjarlæg. Pólitíska forystan í landinu hefur ekki náð að róa almenning eða ná trausti þess. Því er skiljanlegt að reiðin brjótist upp á yfirborðið.
Ég hef aldrei verið talsmaður ofbeldis og grimmdarverka, hvort sem það er gegn mótmælendum eða þeim sem ráða för. Hitt er þó orðið ljóst að það líður að þingkosningum. Þær hafa verið í augsýn mjög lengi og öllum ljóst að þær verða í síðasta lagi þegar rannsóknarferlið er frá. Ég tel að ekkert geti róað almenning úr þessu nema að kosningar fari fram og þær verði tímasettar.
Svo verður að meta hvort stjórnvöld gefa eftir og hugleiða kosningar. Mér sýnist pólitísk samstaða um að sitja við völd óháð ástandinu vera að bresta. Við erum að stefna í pólitíska hitatíma í takt við það sem var í gamla daga. Kannski er ofmælt að líkja því við baráttuna árið 1949 en hitinn er engu minni. Almenningur er að tjá skoðanir sínar með mismunandi beittum hætti.
Pólitíkin hefur verið hreint dútl í ótalmörg ár. Það er að breytast með dramatískum hætti á þessum janúardögum.
![]() |
Mannfjöldi á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2009 | 18:22
Óeirðir og óeining - umbrotatímar í stjórnmálunum
Persónulega hef ég viljað að farið verði yfir allt ferlið og dómar felldir í kjölfar þess. Hinsvegar er vandséð hvernig verði komið í veg fyrir þingkosningar á árinu. Ákallið er sterkt og mjög skiljanlegt.
![]() |
Þjóðin var í Alþingisgarðinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2009 | 18:18
Barack Obama tekur við forsetaembættinu

Barack Hussein Obama hefur nú svarið embættiseið sem 44. forseti Bandaríkjanna. Nú reynir á ákall hans um breytingar og söguleg þáttaskil í bandarískum stjórnmálum - leiðarstefið sem hann byggði kosningabaráttu sína á, eina öflugustu og tæknivæddustu kosningabaráttu sögunnar. Breytingarnar eru nú í sjónmáli og verður áhugavert að sjá hvernig honum gangi í verkum sínum. Embættistakan var mjög merkileg stund í pólitískri sögu, ekki aðeins Bandaríkjanna heldur í alþjóðastjórnmálum, enda allt við sigurgöngu Obama sögulegt.
Engin stórtíðindi voru í innsetningarræðu Obama forseta. Hann átti mjög erfitt með að setja markið hærra en í fyrri sögulegum ræðum sínum, sigurræðunni í Iowa í janúar 2008, þegar hann tók við útnefningu demókrata í Denver í ágúst 2008 og þegar hann fagnaði sigri í Chicago í nóvember 2008. Hann hefur fyrir löngu sett markið hátt í ræðusnilld og flutt margar af eftirminnilegustu ræðum nútímastjórnmála og erfitt að gera innsetningarræðuna betri en þær. Þar var þó talað á mannlegu nótunum og greinilegt að forsetinn mun gera sitt besta í embætti.
Vandræðaleg mistök í embættiseiðnum vöktu athygli þegar Obama forseti og Roberts forseti Hæstaréttar fóru af sporinu en þeir náðu fljótlega áttum. Svo var alveg yndislegt að hlusta á Arethu Franklin flytja fallegt ættjarðarlag. Fannst Rick Warren stinga mjög í stúf við að flytja predikun, en hatur hans á samkynhneigðum er vel þekkt og mjög umdeilt þegar Obama forseti valdi hann til að tala.
Stóra stundin var þó fyrir nokkrum mínútum þegar George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, og Laura Bush, fyrrverandi forsetafrú, yfirgáfu Washington í þyrlu á leið heim til Texas. Þau hafa átt átta söguleg ár í forsetaembættinu. Bush fer af velli sem einn óvinsælasti forsetinn í sögu Bandaríkjanna en um leið með sterkan sögulegan sess sem þjóðarleiðtogi á miklum umbrotatímum.
Bush virtist glaður við brottförina en Dick Cheney, fyrrverandi varaforseti, var greinilega mjög fjarlægur og hugsi þar sem hann sat í hjólastólnum vegna bakmeiðsla. Táknræn endalok að öllu leyti á átta árum Bush-stjórnarinnar á þessum merkilega degi. En nú er Bush-stjórnin komin í sögubækurnar - umdeildi tími hinna erfiðu ákvarðana tengdum honum er nú að baki.
Framtíðin blasir nú við Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, og stjórn hans. Allra augu verða á verkum hans og forystu næstu árin, þó fyrst og fremst fyrstu 100 dagana, þegar ný framtíðarsýn er mótuð.
![]() |
Obama: Við erum reiðubúin að leiða á ný |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2009 | 16:21
Pólitísk þáttaskil í Bandaríkjunum

Söguleg þáttaskil verða í Bandaríkjunum innan klukkustundar þegar Barack Hussein Obama sver embættiseið sem 44. forseti Bandaríkjanna. Þetta er mikill hátíðardagur í Bandaríkjunum og mjög skemmtilegt að fylgjast með hátíðarhöldunum í vefsjónvarpi CNN, en mjög er vandað til útsendingarinnar enda embættistakan með þeim sögulegustu í stjórnmálasögu Bandaríkjanna og markar virkileg kaflaskipti og nýtt upphaf, enda fyrsti þeldökki forsetinn að taka við embætti.
Mjög merkilegt að sjá George W. Bush, fráfarandi forseta Bandaríkjanna, yfirgefa Hvíta húsið í síðasta skipti sem forseti fyrir stundu. Forsetaferill Bush hefur verið mjög sögulegur, hann var forseti þegar Bandaríkin urðu fyrir hryðjuverkaárás, hann stýrði Bandaríkjunum í stríð í Afganistan og Írak og hefur verið einn umdeildasti þjóðhöfðingi Bandaríkjanna á sínum átta árum í Hvíta húsinu. Nú fer þetta umbrotatímabil í sögubækurnar og fróðlegt að sjá hvernig það verði metið.
Ég skrifaði fréttaskýringu um Barack Hussein Obama, 44. forseta Bandaríkjanna, á AMX í dag og fór þar yfir stjórnmálaferil og ævi hans - sigurganga hans er stórmerkileg og sýnir vel að bandaríski draumurinn er vel til staðar.
![]() |
Bush skrifaði miða til Obama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2009 | 15:22
Aðför að þinghúsinu - upphafið á grófari mótmælum
Mér finnst það ekki gott að ætla að vega að starfinu í þinghúsinu og ráðast að þeim sem sinna sinni vinnu. En eftir fréttina í gær sérstaklega um aðferðir sýslumannsins á Selfossi skil ég reiði fólks upp að vissu marki og auðvitað er reiðin mjög almenn í samfélaginu. Held að við séum öll reið yfir því hvernig komið er fyrir þjóðinni og öll höfum við okkar sýn á hvað eigi að gera. En við verðum að passa upp á að fara ekki yfir strikið.
Ég óttast að þetta sé það koma skal á næstunni og yrði ekki hissa þó gengið yrði enn lengra. Við erum að upplifa örlagatíma hér og væntanlega mun reyna mikið á þá sem taka þátt í stjórnmálum hvort þeir geti sinnt sínum störfum eða munu gefast upp í þessu mótstreymi.
![]() |
Piparúða beitt við þinghúsið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2009 | 10:16
Burt með sukkið og svínaríið á Nýja Íslandi
Fiffið með skúffufyrirtækið á Jómfrúareyjum og lygasagan um erlendu fjárfestingarnar, eru alveg kostulegar. Þegar svo við bætist að þessir menn koma í fjölmiðlum og reyna að bera gegn augljósum staðreyndum og því sem blasir við er aumingjalegt í besta falli, en kannski ekki við öðru að búast. Tilgangurinn sá eini að blaðra upp hlutabréfin í bönkunum. Öll almenn skynsemi og siðferði í viðskiptum víkur fyrir þessari glæpamennsku.
Þessi gervimennska er svo augljós að allir sjá í gegnum hana. Ólafur ætti eiginlega að fá tilnefningu til Grímuverðlaunanna fyrir leiktúlkun sína í gær, þó hann hafi ekki einu sinni verið í mynd. Slíkir voru meistarataktarnir í að reyna að blekkja fólk enn eina ferðina. En það dugar ekki til. Hringekjan er hætt að snúast. Laumuspilið og feluleikurinn hefur verið stöðvaður í þeirri mynd sem hann gekk lengst af.
Og svo er fólki boðið upp á vælið í UppsveifluÓlafi um að hann hafi nú ekki grætt neitt á þessu. Give me a break segi ég bara á lélegri íslensku. Var hann ekki að spila með allt og alla til að upphefja sjálfan sig. Hver græddi manna mest á þessari falsmennsku? Þetta er manípúlering eins og þær gerast bestar í villta og spillta gamla Íslandi.
Ég ætla að vona að þessir fjárglæframenn verði ekki mikið í fréttum í Nýja Íslandi. Nema þá til að segja okkur frá því að þeir hafi verið stöðvaðir af.
![]() |
Milljarðalán án áhættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.1.2009 | 22:06
Frábær frammistaða hjá Sigmundi í Kastljósinu
Ég heyri á mörgum að hann eigi fljótlega eftir að reka sig á gömlu klíkurnar í flokknum og hafi aðeins náð hálfum sigri á flokksþinginu. Held að það sé fjarstæða. Gömlu fylkingunum var hafnað á þessu flokksþingi, þeim var einfaldlega kastað út í horn og þær gerðar upp. Forystumenn liðnu tímanna fengu klapp á bakið og vel valin orð en um leið þau skilaboð að þeirra tími væri liðinn. Nú væri þeirra ekki lengur þörf, nema í besta falli í fjarlægu aukahlutverki í endurreisn flokksins. Þetta eru þáttaskil.
Sigmundur Davíð er vissulega nýr. En sem slíkur getur hann fært fólki aðra sýn á veruleikann og um leið aðrar lausnir í stöðunni. Þetta eru hans sóknarfæri og greinilegt er að hann mun fara sínar leiðir til að byggja flokkinn upp. Gott ef Sigmundur Davíð minnti að sumu leyti ekki á Guðna eins og hann hljómaði áður en valdaátökin við Halldór sliguðu hann. Um leið fannst mér Sigmundur Davíð vilja byggja á grunngildum Framsóknarflokksins og byggja upp á þeim.
Hann segir skilið við Íraksstefnuna, spillingarstimpilinn og vinadílana og horfir annað. Sigmundur Davíð býr svo vel að vera ungur maður sem getur hugsað djarft og talað af krafti um framtíðina og sagt með sanni að fortíðin sé að baki. Nú er að sjá hvernig það fer í kjósendur. Ég held að það sé mikil eftirspurn eftir svona leiðsögn nú. Fólk vill nýja pólitíska sýn og tækifæri, ekki fortíðardrauga.
![]() |
Svipmynd: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.1.2009 | 20:06
Kynferðisbrotamenn reyna að tæla börn á facebook
Kannski er það í lagi ef foreldrar fylgjast með þeirri netnotkun en allir hljóta að gera sér grein fyrir að svo opin samskipti geta falið í sér hættur. Ekki eru allir saklausir á netinu eins og dæmin sanna. Ein lausnin getur verið að læsa síðunum svo að enginn komist inn á þær nema sá sem viðkomandi velur sem vini, en samt hlýtur að vera eðlilegt að foreldrar reyni að stýra netnotkun ólögráða barna sinna eða allavega fylgjast með hvað þau gera á netinu, t.d. á samskiptasíðum og netspjalli.
MSN er margfrægt í málum hérlendis og ekki langt síðan maður var dæmdur fyrir að klæmast við sautján ára strák á MSN. Lögmaður einn var líka dæmdur fyrir kynferðisafbrot og hafði m.a. verið með 335 stelpur á skrá sinni á MSN og þóttist vera vöðvastæltur unglingsstrákur með aflitað hár. Sérfræðingar hafa talað um samskiptasíður og MSN-spjall sem hættulegasta þátt í samskiptum fyrir brot.
Eins og sást í Kompásþáttum þar sem kynferðisafbrotamenn voru lokkaðir í gildru lék MSN lykilhlutverk í samskiptum og í flestum tilfellum höfðu þeir leikið tveim skjöldum í kynningu á sér, enda hægt að tjá sig öðruvísi með lifandi spjalli þar sem engin andlit eru. Sama virðist orðið með facebook. Mikilvægt er að foreldrar fylgist með börnum sínum, enda hættan til staðar.
19.1.2009 | 16:57
Vandræðaleg vörn úr forarpyttinum
Best af öllu fannst mér þegar sýnt var í fréttum Sjónvarpsins tengslin á milli fyrirtækjanna og hversu mörg fyrirtæki voru með óskiljanlegum nöfnum í einu og sama húsinu við Suðurlandsbraut. Ég held að við séum bara rétt að sjá í það sem leynist í forarpyttinum.
![]() |
Ekkert óeðlilegt við viðskiptin við Al-Thani |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2009 | 14:43
Nýtt upphaf í Framsókn frá miðju og vinstri
Ljóst er að þrennt getur bjargað Framsóknarflokknum og fært honum sóknarfæri; horfa til þeirra grunngilda sem einkenndu flokkinn lengst af, alvöru kynslóðaskipti og gera út af við fyrri fylkingamyndun sem klufu flokkinn. Þegar eru tvö þessara atriða orðin staðreynd. Forystan hefur verið endurnýjuð svo um munar og unga fólkinu færð tækifærin og fylkingamyndun fyrri tíma er úr sögunni með því að gera út af við gömlu fylkingarnar sem klufu flokkinn og skáru í sundur með hörðum átökum.
Ljóst er að niðurstaða flokksþingsins er í raun algjör hallarbylting. Halldórsarmurinn heyrir sögunni til í sinni gömlu mynd og fékk algjöran skell. Ljóst er af tali Sigmundar Davíðs að hann ætlar að leiða flokkinn til nýrra tíma, leiða hann í aðrar áttir en Halldór Ásgrímsson og Jón Sigurðsson gerðu. Horft er mjög ákveðið til miðjunnar og sérstaklega litið til vinstri. Sigmundur Davíð er ekki táknmynd Íraksstefnunnar sem gekk frá stjórnmálaferli Halldórs, hjaðningavíganna skaðlegu og valdaþreytunnar á árunum með Sjálfstæðisflokknum. Þessi kafli hefur verið gerður upp og horft fram á veg.
Framsóknarflokkurinn er illa farinn eftir vondan kosningaósigur í síðustu sveitarstjórnar- og þingkosningum. Ljóst hefur verið um langt skeið að kynslóðaskipti og hugmyndafræðileg uppstokkun án fyrri fylkingamyndunar væru útgönguleið framsóknarmanna og eina leið til uppstokkunar. Slíkt ferli er að baki og endurnýjun orðin staðreynd. Sigmundur Davíð ætlar greinilega að horfa fram á við og talar þegar eins og Steingrímur Hermannsson gerði. Ætli hann sé ekki fyrirmyndin?
Búast má við miklum vinstriblæ á Framsókn á komandi árum. Þar verður Framsóknarflokkur Steingríms sá sem rís upp úr öskustó kosningaafhroðsins. Horft verður til nýrrar framtíðar, sagt skilið við hægrihliðar formannstíðar Halldórs og greinilegt að stríðsstimpillinn og spillingin verður sett til hliðar. Heyra má þetta mjög vel af tali Sigmundar í þessari Moggafrétt. Svo er augljóst að hann er ekkert sérstaklega hrifinn af ESB-hugleiðingum, rétt eins og Guðni.
Nú reynir á unga fólkið í Framsókn. Þeim hefur verið falin framtíðin og nú verður að koma í ljós hvort endurnýjuð Framsókn getur orðið flokkur sem höfðar til fjöldans. Ef marka má fyrstu viðbrögð er greinilegt að margir eiga erfitt með að tala um flokksþingið, því flestir töldu að gamli tíminn myndi hafa sigur en sáu ekki fyrir að hann fengi svo mikinn skell.
![]() |
Vill færa flokkinn frá hægri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2009 | 02:20
Táknræn uppstokkun - nýir tímar hjá Framsókn

Óhætt er að segja að flokksmenn í Framsóknarflokknum hafi tekið til í forystusveit flokksins um helgina og sagt skilið við gömlu tímana og lagt traust sitt á nýja kynslóð og hafi hafnað þeim sem ráðið hafa för þar um árabil. Formannskjör Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, 33 ára skipulagshagfræðings, markar uppstokkun í flokki sem hefur meira og minna haft forystumenn sömu kynslóðar í hartnær tvo áratugi. Í pólitísku litrófi hér heima eru þetta tímamót, enda vægast sagt fá dæmi fyrir því að rúmlega þrítugu fólki sé treyst fyrir flokksformennsku í rótgrónum flokki.
Þegar ég heyrði af því að Páll Magnússon hefði fengið skell í formannskjörinu, verið hafnað með afgerandi hætti sem fulltrúum gömlu valdaaflanna, taldi ég víst að Siv Friðleifsdóttir myndi stórgræða á því í varaformannskjörinu og þar væri um að kenna að Siv hefði unnið svo vel bak við tjöldin og plottað gegn Páli. Það mat var heldur betur rangt, eins og svo mörg stöðluðu dæmin um valdablokkirnar í Framsókn. Siv var nefnilega hafnað ennfremur í varaformannskjöri gegn ungum manni og var flokkuð sem fulltrúi hinna liðnu tíma í Framsóknarflokknum.
Ég átti ekki von á því að ákallið um breytingar væri svo afgerandi og Siv myndi finna fyrir því ennfremur. En sem ráðherra um árabil og forystumaður á ríkisstjórnarárunum með Sjálfstæðisflokknum fékk hún skellinn og var einfaldlega hafnað. Niðurstaða flokksþingsins er því mjög einföld. Forystufólk hinna liðnu tíma, fyrir síðustu þingkosningar, er einfaldlega skóflað út og skilaboðin til þeirra eru mjög einföld. Byggja eigi nýjan flokk á grunni hins liðna og kalla eigi til þess verks yngra fólk sem ekki er bundið af óvinsældum og verkum fortíðar.
Auk þess vakti mikla athygli að Sæunni Stefánsdóttur, ritara Framsóknarflokksins og eftirmanni Halldórs Ásgrímssonar á Alþingi, skyldi hafnað svo afgerandi og í staðinn kosin landsbyggðarkonan Eygló Harðardóttir, sem tók sæti á þingi fyrir nokkrum vikum í stað Guðna Ágústssonar. Ef eitthvað er lykilniðurstaða helgarinnar er það að Halldóri og gömlu fylkingunni hans er algjörlega hafnað og leitað annað eftir forystufólki. Skellurinn er mikill fyrir þá sem hafa ráðið flokknum. Valdamiðjan þar hefur einfaldlega færst annað í þessum umskiptum.
Fjarstæða er að telja að Framsókn hafi færst mjög nær ESB á þessu flokksþingi. Eini formannsframbjóðandinn sem vildi setja ESB á oddinn fær algjöran skell og ESB-stefnan er mjög opin og hægt að teygja hana og túlka af vild af kontór hins nýja formanns. Merkilegast af öllu er að gömlu vígaferlin á milli Páls og Sivjar lýkur með að þeim báðum er hafnað og leitað annað eftir leiðsögn. Kannski er þetta kaldhæðnislegt eftir öll vígaferlin en mun frekar táknrænt.
Mjög merkileg niðurstaða - fróðlegt verður að sjá mælingarnar sem Framsókn fær. Ekki er lengur hægt að tala um að Framsókn sé stýrt af valdaörmum liðnu tímanna og sé staðnaður og úreltur flokkur. Breytingastefið á flokksþinginu hefur sópað út gömlu fylkingunum og eftir stendur flokkur sem á mörg tækifæri og getur byggt sig upp og átt nýtt upphaf. Þeirra er nú verkefnið að standa undir nafni og unga fólksins er að stýra ferlinu.
Ég held að margir flokkar geti lært af þessu og hugað að álíka uppstokkun. Ég tel að pólitíska forystan í landinu sé stórlega rúin trausti og þurfi að láta reyna á hvernig umboð hún fær. Fróðlegt verður að sjá hvernig staða forystu Sjálfstæðisflokksins verður eftir landsfund eftir hálfan mánuð.
![]() |
Birkir Jón Jónsson nýr varaformaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.1.2009 | 16:36
Ný framsóknarstjarna - vandræðalegt klúður
Ég vil óska Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni til hamingju með glæsilegt formannskjör í Framsóknarflokknum. Kjör hans markar kynslóðaskipti og þáttaskil fyrir Framsókn. Ekki er langt síðan hann gekk í flokkinn og hann er ekki markaður neinum fyrri átökum í flokknum og kemur inn á eigin vegum en ekki annarra. Hann ætti því að geta leitt flokkinn af braut sundrungar og óheilinda og gefið þeim sóknarfæri í átökum næstu mánaða, en æ líklegra er að kosningar verði á árinu.
En mitt í þessum sögulegu þáttaskilum Framsóknar verður eitt vandræðalegasta klúður sem ég hef séð og heyrt af í íslenskri stjórnmálasögu. Lýst er yfir formannskjöri Höskuldar Þórhallssonar og hann rétt að fara að flytja sigurræðu sína þegar ljóst er að tölum hefur verið víxlað. Þetta er eitthvað svo dæmigert fyrir fyrri klúður framsóknarmanna og lánleysi þeirra. En vonandi er fall fararheill í þessum efnum.
En niðurlæging Halldórsarmsins margfræga er staðreynd í þessum úrslitum. Valinn fulltrúi þeirra fær afhroð og valinn er á formannsstólinn ungur og frambærilegur maður sem getur virkilega sagt að hann sé fulltrúi nýrra tíma, enda nýr í pólitík og hefur margt gott fram að færa - getur í raun og sann verið nýtt leiðarljós Framsóknarflokksins og kannski bjargvættur hans ef honum gengur vel í embætti.
![]() |
Sigmundur kjörinn formaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |