22.11.2006 | 09:56
Sala Landsvirkjunar samþykkt í borgarstjórn

Það er greinilegt að þær viðræður voru bara til málamynda, enda er greinilegt að aldrei hefði náðst saman milli borgar og ríkis um söluna í valdatíð R-listans. Það sést sífellt betur af hverju Þórólfi Árnasyni og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur gekk ekki að ná samkomulagi af hálfu borgarinnar, enda greinilegt að sú von var alltaf byggð á sandi að VG samþykkti málið innan R-listans. Það var æðsta markmið Þórólfs Árnasonar að ná málinu í gegn áður en hann varð að hætta störfum sem borgarstjóri í nóvemberlok 2004 og honum tókst það ekki, eins og allir vita. Málið komst oft í sjálfheldu innan borgarstjórnar vegna oddaatkvæða vinstri grænna og það komst aldrei neitt áfram.
Fyrir tæpum tveim árum undirritaði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þáv. borgarstjóri, undir viljayfirlýsingu um söluna af hálfu Reykjavikurborgar ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni, bæjarstjóra, og ráðherrunum Geir H. Haarde og Valgerður Sverrisdóttir. Mikla athygli hefur vakið nú hversu lítið sýnileg Steinunn Valdís er í umræðunni um málið. Dagur B. Eggertsson, leiðtogi Samfylkingarinnar í borgarstjórn, hefur tæklað málið af þeirra hálfu og verið nær algjörlega í fjölmiðlum vegna þess. Það er greinilegt að undirskrift þáverandi borgarstjóra í febrúar 2005 var marklaus enda var ekki stuðningur við hana innan borgarstjórnar. Það skilst æ betur af hverju aldrei tókst að keyra málið í gegnum R-listann.
Vinstri grænir eru alltaf við sama heygarðshornið. Það er nú greinilegt að það hefur verið bjartsýni sögunnar fyrir Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn að halda að fulltrúar þess flokks myndu standa að sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun á valdatíma R-listans, þar sem þeir höfðu oddaatkvæðið. Þeir eru greinilega mjög hræddir við að mögulega verði Landsvirkjun einkavædd. Sömu gömlu dómsdagsspárnar þar á ferð og ávallt áður. Það er ekkert nýtt við þær.
![]() |
Sala á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun samþykkt í borgarstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2006 | 00:47
Aðskilnaður ríkis og kirkju
Fyrr í þessum mánuði bauð Erlingur Þór Tryggvason, formaður Hugins, félags ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ, mér að rita gestapistil á vef félagsins. Þáði ég þann heiður með þökkum. Það sést vel á góðum vef Hugins hversu mikill kraftur er í starfinu þar. Það er öflugt og gott fólk í stjórninni þar og ávöxtur þessa góða starfs sást vel í kosningunum í vor. Þar er ungliðum treyst fyrir alvöru ábyrgð og forystuverkum, sem er auðvitað ánægjuefni. Huginn hefur alla tíð verið mjög áberandi í ungliðastarfi flokksins, enda Garðabær sterkasta vígi flokksins.
Ég ákvað strax er ég settist niður til að skrifa pistil að þar yrði fjallað um aðskilnað ríkis og kirkju. Við eigum það sameiginlegt, ég og stjórnarmenn í Huginn, að við viljum aðskilnað ríkis og kirkju. Það er eitt af grunnmálum Sambands ungra sjálfstæðismanna að mínu mati, og á ávallt að vera, að mínu mati að berjast fyrir þeim aðskilnaði og það hefur sést vel í ályktunum Sambandsins. Þetta er eitt af þeim málum sem sameinar okkur og því auðvitað hið eina rétta að benda á þetta efni og vekja sérstaka athygli á því og koma með innlegg í þá umræðu.
Í þessum pistli koma vel fram skoðanir mínar á því hvernig staða mála á að vera. Skoðanakannanir hafa sýnt það og sannað að þetta er vilji meirihluta landsmanna. Ég tala því ekkert eyðimerkurtungumál í þessum pistli. Vissulega yrði aðskilnaður flókinn, en verkefnin eru og verða ávallt til að takast á við þau. Þessi skrif og þessar skoðanir koma ekki fram vegna þess að ég sé efasemdarmaður í trúmálum. Ég var alinn upp í kristinni trú og grunngildum hennar. Amma mín, Hanna Stefánsdóttir, var í áratugi öflug í starfi KFUM og í sókninni hér og hún var forystukona á Hólavatni, sumarbúðum KFUM og K í Eyjafirði, um árabil.
Ég fór ungur vikulega í sunnudagaskóla og ég fer enn hið minnsta einu sinni í mánuði til kirkju. Á stórhátíðum er fastur liður hjá mér og mínum að fara til kirkju. Ég lít svo á að trúarlegt uppeldi guðmæðra minna, Línu ömmu og Hönnu ömmu, sem báðar voru mjög trúaðar, hafi verið mikilvægt. Það færði mér mikið. Þessi skrif koma svo sannarlega ekki vegna þess að ég meti trú ekki mikils. Enda kemur það vel fram í þessum pistli á vef Hugins - þar kemur grunnur þessa alls mjög vel fram. Það eru þau grunngildi sem hafa ráðið afstöðu minni, sem ég hef haft síðan að ég var unglingur. Á það minni ég.
Fyrr á þessu ári tók ég sæti í stjórn SARK. Þar sit ég sem trúaður maður skoðana í þessum efnum. Þar situr fólk með ólíkan bakgrunn, bæði trúað fólk og efasemdarfólk í trúmálum. Það er heiðarleg og góð blanda. Ég sit þar á mínum eigin forsendum og skrifa og haga mínum verkum á eigin forsendum. Ég á mig nefnilega sjálfur.
Ég þakka stjórn Hugins því kærlega tækifærið til að skrifa um þetta á vef félagsins og óska stjórninni alls hins besta í störfum sínum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.11.2006 | 22:37
Fer Kristinn H. í framboð fyrir VG?

Kristinn H. var á sínum tíma bæði þingflokksformaður og stjórnarformaður Byggðastofnunar fyrir Framsóknarflokkinn. Þeir gullnu dagar valdaáhrifa eru löngu liðnir og koma varla aftur. Það var fyndið hvernig hægt og rólega rann undan þar. Það er mikið spjallað um það á spjallvefunum að Kristinn H. fari jafnvel í framboð fyrir Vinstrihreyfinguna - grænt framboð. Það yrði merkileg flétta ef honum yrði kippt uppí þar eins og ástatt er fyrir honum núna.
Fyrir áratug flúði hann Alþýðubandalagið áður en að Margrét Frímannsdóttir sigldi rústunum af því lemstraða fleyi í höfn Samfylkingarinnar. Meðal þeirra sem flúðu skipið á svipuðum tíma var Steingrímur J. Sigfússon. Hann gerði sér lítið fyrir og stofnaði sinn eigin flokk. Lengi vel var ekki talið líklegt að það yrði flokkur sem næði fótfestu. Kristinn H. lagði t.d. ekki í að fylgja Steingrími sinn veg og valdi frekar að banka á dyrnar hjá Halldóri Ásgrímssyni og komst þar í mjúkinn - framan af. Það rann hægt og rólega undan því uns allt komst á kaldan klakann, eins og sagt er.
Tímarnir eru breyttir og mennirnir með, eins og máltækið segir. Nú árar ágætlega hjá Steingrími J. VG hefur verið á uppleið í skoðanakönnunum á kostnað Framsóknar og Samfylkingar sem hafa verið að tapa þónokkru fylgi í skoðanakönnunum frá þingkosningunum 2003 þegar að þessir tveir flokkar voru með þingmeirihluta saman, en kusu ekki að vinna saman. Þeir dagar eru liðnir og þeir eru orðnir fáir spekingarnir sem leggja peningana sína undir það að Framsókn og Samfylking nái þingmeirihluta að vori.
Það telst ekki beinlínis líklegt nú um stundir, með báða flokka undir kjörfylginu í Gallup-könnunum og VG á uppleið. Enda sést vel að Steingrímur J. er orðinn borubrattur með sig. Það hefur verið merkilegt að fylgjast með viðbrögðum eftir prófkjör Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Sumir fagna, aðrir harma skell Sleggjunnar. Það var þungt högg sem Sleggjan fékk þar eftir fimmtán ára þingmannsferil. Leiðtogatapið var honum þungt sleggjuhögg en það að verða undir Herdísi á Króknum sínu verra.
Mér finnst vinstri grænir vera einkum þeir sem harma hlut Sleggjunnar vestra nú um stundir. Það er spurning hvort Sleggjan horfir í heimahagana til Steingríms J. og sér þar blóm í haga sinnar gömlu pólitísku trúar. Kristinn H. var eins og fyrr sagði eitt sinn þingflokksformaður Framsóknarflokksins í þessu stjórnarsamstarfi um tíma. Nú blótar hann mjög því samstarfi, sem áður færði honum völd og áhrifin. Það er oft margt skrýtið í henni veröld.
Það verður mjög athyglisvert ef þessi fyrrum þingflokksformaður Framsóknar í þessu stjórnarsamstarfi endar svo núna í þessum þingkosningum sem þingframbjóðandi VG eftir dóm grasrótarinnar í gömlu högunum heima.
21.11.2006 | 21:00
Óttalega klúðurslegt

Það er mjög vont mál að skemmdir urðu á nokkrum fjölbýlishúsum við Keflavíkurflugvöll vegna röra sem sprungu í frosthörkunni í óveðrum nýlega. Í raun er þetta óttalega klúðurslegt að öllu leyti og hreint óverjandi mál. Þetta er á könnu utanríkisráðuneytisins og er því á verksviði Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra. Baðst hún afsökunar á því að svo fór sem fór í umræðum á Alþingi í dag.
Mér fannst afsökunarbeiðni hennar vegna málsins vera í senn bæði einlæg og heiðarleg. Þar var komið hreint fram og staða mála viðurkennd. Það ber að virða. Samt sem áður er þetta þó hið versta mál og ljóst að það er ekki viðunandi að þetta gerist. Það þarf að koma fram með skýrum hætti hvert tjónið er nákvæmlega og staðan þarf að liggja fyrir með óyggjandi hætti. Það er skiljanlegt að stjórnarandstaðan taki málið upp, en þó er þessi upphrópunarstíll engum til sóma að mínu mati.
Svæðið er á verksviði sýslumannsembættisins og það var þeirra að fylgjast með mannaferðum og kanna betur stöðu mála. Það er ljóst að betur hefði þurft að standa að málum þar og öðrum tengdum málum. En þetta verður auðvitað ekki aftur tekið og svo fór sem fór. Fara þarf yfir allar hliðar og gera kostnað og tengdar hliðar vel opinberar. En í heildina er þetta óttalega klúðurslegt, eins og fyrr segir, og engum til sóma. Það er alveg á tæru.
![]() |
Baðst afsökunar á því að skemmdir hefðu orðið á byggingum á Keflavíkurflugvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2006 | 17:26
Robert Altman látinn

Það fór því miður aldrei svo að Robert Altman hlyti leikstjóraóskarinn, merkustu leikstjóraverðlaunin í kvikmyndabransanum, fyrir myndir sínar. Þar var hann í flokki með meisturunum Sir Alfred Hitchcock og Stanley Kubrick, svo aðeins nokkrir merkir snillingar séu nefndir. Fyrr á þessu ári hlaut Altman loksins verðskuldaðan heiður frá bandarísku kvikmyndaakademíunni; sjálfan heiðursóskarinn. Það var sigurstund þessa umdeilda en virta leikstjóra í Hollywood.
Við það tilefni flutti Altman flotta og snjalla þakkarræðu. Fáum hefði órað fyrir að það yrði lokakveðja leikstjórans til kvikmyndaheimsins. Nokkrum vikum síðar var kvikmyndin A Prairie Home Companion frumsýnd. Hún varð svanasöngur hans í kvikmyndabransanum.
Að baki er merkur ferill og allir unnendur meistaraverka kvikmyndasögunnar minnast Altmans með virðingu. Hann var einn meistaranna í kvikmyndabransanum.
Umfjöllun imbd.com um feril Altmans
Umfjöllun CNN um andlát Robert Altman
![]() |
Robert Altman látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2006 | 16:01
Avion verður Eimskip
Það er mikið gleðiefni að nafni Avion Group verði breytt í HF Eimskipafélag Íslands. Mun breytingin taka gildi á morgun og þá verður þetta gamalgróna og öfluga heiti aftur áberandi í íslensku viðskiptalífi. Saga íslensks viðskiptalífs á 20. öld verður aldrei rituð nema að nafn Eimskips verði þar áberandi. Eimskip var í marga áratugi eitt öflugasta og virtasta fyrirtæki landsins.
Eimskipafélag Íslands var stofnað 17. janúar 1914 í Iðnaðarmannahúsinu í Reykjavík. Það varð eitt af öflugustu fyrirtækjum landsins á 20. öld og oft nefnt óskabarn þjóðarinnar. Fyrsti stjórnarformaður þess var Sveinn Björnsson, síðar forseti Íslands og eini ríkisstjóri landsins. Margir af öflugustu viðskiptamönnum þjóðarinnar síðustu áratugina voru ráðandi stjórnendur innan veggja Eimskips og þar réðust örlög íslensks viðskiptalífs í raun í áratugi.
Lykilbreyting varð hjá Eimskip árið 2003 þegar að Björgólfur Guðmundsson varð þar öflugur stjórnandi. Síðar kom Avion Group til sögunnar. Það var mun svipminna nafn og áherslur þar voru víðtækari en bara innan Eimskips, eins og flestir vita. En það er svo sannarlega ánægjulegt að nú verði Eimskip aftur aðalnafnið á þessum markaði og öflugt á sínum vettvangi.
![]() |
Nafni Avion Group breytt í HF Eimskipafélag Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2006 | 13:57
Anna Kristín þiggur þriðja sætið í Norðvestri

Anna Kristín féll með þessu í óöruggt sæti, sæti sem ekki er möguleiki á að vinnist miðað við skoðanakannanir í kjördæminu og sé miðað við þá staðreynd að þingmönnum kjördæmisins mun fækka um einn í væntanlegum alþingiskosningum. Staða mála var því skiljanlega ekki gleðiefni fyrir Önnu Kristínu, en hún tekur þann pólinn í hæðina að taka sætið og berjast fyrir því þó ekki sé það öruggt að neinu leyti.
Anna Kristín hefur ekki verið sýnileg sem þingmaður mikið í fjölmiðlum, en verið dugleg eftir því sem ég hef heyrt víða. Það er því skiljanlegt að hún hafi verið sár með þessa stöðu og að verða allt að því varaskeifa Guðbjarts Hannessonar, nýkjörins kjördæmaleiðtoga, og sr. Karls V. Matthíassonar, sem átti magnaða endurkomu með því að verða annar.
Anna Kristín hefur sagt að það hafi skaðað hana að vera úr Skagafirði og með litlar tengingar um allt kjördæmið. Þau ummæli vekja athygli í ljósi árangurs Herdísar Sæmundardóttur, varaþingmanns úr Skagafirðinum, sem skaust upp fyrir Kristinn H. Gunnarsson í prófkjöri Framsóknarflokksins og slengdi Sleggjunni sjálfri niður í þriðja sætið.
![]() |
Anna Kristín þiggur þriðja sætið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2006 | 12:03
Morðvopnið í Palme-málinu fundið?

Þetta var eftirminnileg atburðarás og hafði áhrif á alla sem fylgdust með fréttum og upplifðu þennan tíma. Sérstaklega stóð þetta okkur nærri, enda Svíþjóð nálæg okkur og fram að því hafði það aldrei gerst að norrænn þjóðarleiðtogi hlyti slík örlög. Sænska þjóðin var enda felmtri slegin. Tveim áratugum síðar er málið enn óupplýst. Olof Palme hafði við andlát sitt verið einn af öflugustu stjórnmálamönnum Svíþjóðar í fjöldamörg ár, verið forsætisráðherra Svíþjóðar 1969-1976 og 1982-1986. Stórt skarð varð innan flokks hans og í sænskum stjórnmálum við sviplegan dauða hans. Ingvar Carlsson tók við pólitískum embættum hans, en arfleifð Palmes er enn áberandi í sænskum stjórnmálum.

Pettersson neitaði til fjölda ára að hafa banað forsætisráðherranum. Á dánarbeði árið 2004 viðurkenndi hann að hafa myrt Palme. Sekt hans hefur þó aldrei formlega verið staðfest svo öruggt sé, þó flest bendi til þess að augljósast sé að Pettersson hafi myrt Palme. Nú fyrir skömmu kom fram í nýrri heimildarmynd sem gerð var til að minnast morðsins haft eftir vini Petterssons að hann hefði séð hann skjóta Palme, en það hafi verið fyrir mistök. Ætlun hans hafi verið að ráða eiturlyfjasala af dögum en farið mannavillt.
Það eru stór tíðindi málsins að morðvopnið hafi verið fundið. Fannst byssan, Smith og Wesson 357, við köfun í vatni nærri Mockfjerd í Dölunum. Fram kemur í sænskum netmiðlum í dag að byssunni hafi verið stolið í innbroti í Haparanda árið 1983 og verið notuð við rán í Mockfjerd í Dölunum síðar það sama ár. Rannsóknir á kúlum úr byssunni þykja benda til þess að hún hafi verið notuð þegar Palme var myrtur.
Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi merki fundur varpar meira ljósi á þetta eitt athyglisverðasta morðmál síðustu áratuga á Norðurlöndum.
![]() |
Hugsanlegt morðvopn í Palme-málinu fundið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2006 | 22:51
Kristinn H. ekki í framboð fyrir Framsókn

Það má segja að góð ráð séu orðin dýr fyrir Vestfirðinginn Kristinn H. sem hefur á skrautlegum stjórnmálaferli marga hildina háð. Hann tryggði sér pólitískt framhaldslíf með því að ganga í Framsóknarflokkinn á sínum tíma. Innan við áratug eftir þær flokkahrókeringar sínar stóð hann eftir í varaþingsæti á lista flokksins í komandi kosningum, hafandi verið treyst fyrir leiðtogastól á Vestfjörðum í kosningunum 1999 og fjölda ábyrgðarfullra embætta af hálfu flokksins, t.d. þingflokksformennsku fyrir nokkrum árum. Pólitískt áfall er réttnefni fyrir útkomu Kristins H.
Flest stefnir væntanlega í sérframboð hans. Það yrði eina leiðin fyrir hann til að koma standandi frá þessari stöðu. Nema að hann skipti einfaldlega um vettvang. Þessi ákvörðun um að fara ekki fram fyrir Framsókn eru engin tíðindi eins og staðan var. Það á ekki við pólitískan baráttumann eins og Kristinn H. að daga uppi í þriðja sætinu. Varla vildi þessi pólitíski bragðarefur standa eftir í varaþingsæti á framboðslista undir pólitískri leiðsögn Magnúsar Stefánssonar og með Byggðastofnunarformanninn Herdísi á Króknum yfir sér í öðru sætinu. Þvílík pólitísk örlög fyrir einn mann með pólitískt stolt, segir maður bara. Kostirnir gátu varla verið einfaldari.
Hannibal Valdimarsson, faðir Jóns Baldvins Hannibalssonar, var annar pólitískur bragðarefur í stjórnmálasögu Vestfjarða. Í pólitískri örvæntingu eftir höfnun á pólitískum heimavelli sínum fór hann í sérframboð, stofnaði reyndar eigin flokk og hélt þingsæti sínu með ævintýralegum hætti. Hann reyndar klauf endanlega kratafylgið á Ísafirði eftir þann tíma og þau öfl hafa aldrei eftir þær sögulegu kosningar náð vopnum sínum, en það er önnur saga. Kristinn H. er eitt ólíkindatólanna í stjórnmálum. Ógæfa hans er væntanlega gleðiefni fyrir andstæðinga hans innan flokksins, sem hafa lengi beðið eftir því að hann missti fótanna innan flokksins. Það hefur nú gerst.
Það er virkilega gaman að lesa skrif pólitískra skríbenta, sem annaðhvort hafa unnið fyrir Framsóknarflokkinn, eða Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formann flokksins, með áberandi hætti, eftir þetta prófkjör. Kristinn H. var lengi óþægur ljár í þúfu Halldórs. Halldór hlýtur að gleðjast með þessi tíðindi, nú rétt áður en hann heldur til kommisarvistar í Köben. Sama má væntanlega segja um Jón Sigurðsson, nýjan formann Framsóknarflokksins, sem tók við stjórnarformennsku í Byggðastofnun af Kristni H. eftir að allt var komið í óefni þar. Gleðibylgja er víða innan Framsóknarflokksins nú. Hægriarmur flokksins er enda laus við Kristinn H.
Eftir stendur þessi stjórnarandstæðingur í stjórnarmeirihlutanum með klofinn skjöld og bogið sverð eftir töpuð átök. Það verður fróðlegt að sjá hver áhrif þessarar niðurstöðu verða í pólitíkinni í Norðvesturkjördæmi. Kristinn H. var reiður og fúll í pistli á vef sínum í dag. Hann er sár og beiskur eftir þessa útkomu. Það væru mikil tíðindi ef þetta yrði hans svanasöngur og síðasta pólitíska snerra. Sýnist allir búast við sérframboði þessa baráttumanns sem varla fer sneyptur af sviðinu. Hann mun væntanlega láta fyrrum samherja finna fyrir sér.
Menn eru auk þessa auðvitað mikið að spá í Valdimar Leó, óháða krataþingmanninn í Kraganum, sem tók hatt sinn og staf í Samfylkingunni í gær live on TV og gekk á dyr. Óánægja flokksmanna þar er greinileg og lítil eftirsjá þó sárindin með missi þingsætis sé greinileg. En hvenær ætli Valdimar Leó stígi skrefið til fulls og banki á dyr Guðjóns Arnars?
![]() |
Harma ákvörðun Valdimars um úrsögn úr Samfylkingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.11.2006 | 22:31
Litið á prófkjörsskrifstofurnar á Akureyri

Mismikið líf var á þessum kosningaskrifstofum greinilega þegar að Björn leit þar við. Lokað var á kosningaskrifstofu Þorvaldar, Kristján Þór var staddur á sinni skrifstofu og nokkrir stuðningsmenn, hjá Ólöfu voru tveir starfsmenn við verkin og hjá Arnbjörgu var nokkur hópur, aðallega að hringja greinilega. Ég verð að viðurkenna að ég hef mjög lítið farið á þessari skrifstofur, hef hreinlega ekki fundist það við hæfi þar sem ég hef verið í utankjörfundarkosningunni upp í Kaupangi og fylgist því með þessu úr smáfjarlægð, enda hvorki auðvitað í framboði né virkur í störfum fyrir frambjóðanda að þessu sinni.
En við sem höfum gaman af stjórnmálum höfum vissulega áhuga á stúdera í þessu og því var umfjöllun Björns áhugaverð. Það er fínt hjá N4 að kanna kosningaskrifstofurnar og kynna okkur þá stemmningu sem þar er. En kannski er bara rólegt yfir þessu öllu þannig séð, nema maskínuvinnu hreinlega bara bakvið tjöldin, úthringingar og þess háttar vélavinna framboðsins sem ávallt fylgir. Áhugavert að sjá allavega. Fróðlegt. En það er mjög gott mál að frambjóðendur opna kosningaskrifstofu. Það sýnir bara að kraftur er í þessum frambjóðendum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2006 | 17:21
Líður að lokum prófkjörsbaráttunnar

Mér finnst lítið bera á málefnum í þessari prófkjörsbaráttu. Enda er þetta fólk svipaðra áherslna sem takast á. Flokksmenn eru fyrst og fremst að velja forystumann, hvernig týpu þeir vilji sjá við stjórnvölinn í kjördæmastarfinu í þessum kosningum og næstu árin. Það bíður mikið verkefni nýs leiðtoga. Flokkurinn hlaut aðeins tvo þingmenn kjörna í síðustu þingkosningum og verkefni nýs leiðtoga verður að sækja að meira fylgi og efla stöðu flokksins á svæðinu. Kannanir hafa verið að gefa okkur sóknarfæri upp á mikla fylgisaukningu. Eftir sunnudaginn hefst verkefnið fyrir nýjan leiðtoga að sækja þetta fylgi - sækja fram í kosningunum.
Mér finnst eftirsjá af Halldóri Blöndal. Ég verð fúslega að viðurkenna það. Halldór hefur unnið vel fyrir flokkinn hér og fært okkur forystu sem hefur verið gagnleg og góð fyrir okkur öll. Hann hefur á þeim 23 árum sem hann hefur verið kjördæmaleiðtogi hér stýrt af krafti. Það verður ekki auðvelt fyrir nýjan leiðtoga að taka við keflinu. Við höfum notið þess að eiga traustan og öflugan forystumann. Halldór stóð sig vel um daginn er hann skammaði samgönguráðherrann vegna málefna Akureyrarflugvallar. En nú er komið að leiðarlokum. Við munum þó auðvitað njóta reynslu og þekkingar Halldórs í baráttu næstu mánaða. Hann er öflugur liðsmaður.
Það verður mikið um að vera um helgina. Við höfum kjörfund í Oddeyrarskóla á laugardaginn milli kl. 9:00 og 18:00 og á 20 öðrum stöðum í kjördæminu á sama tíma. Talning atkvæða hefst eftir hádegið á sunnudeginum, en það tekur sinn tíma í svo víðfeðmu kjördæmi að safna öllum atkvæðum saman. Fyrstu tölur ættu að liggja fyrir kl. 18:00 á sunnudag, sólarhring eftir að kjörstaðir loka á Akureyri. Það verður spennandi að sjá fyrstu tölur og stöðu mála. Heilt yfir finnst mér þessi prófkjörsslagur vera flokknum til sóma. Veðrið hefur sett sinn strik í reikninginn varðandi fundi frambjóðenda, en nú hefur batnað yfir í því og vonandi mun kosningin ganga vel.
Ég bendi hérmeð á heimasíður þeirra frambjóðenda sem hafa opnað vefgátt
Arnbjörg Sveinsdóttir
Kristinn Pétursson
Kristján Þór Júlíusson
Ólöf Nordal
Sigríður Ingvarsdóttir
Sigurjón Benediktsson
Þorvaldur Ingvarsson
20.11.2006 | 14:52
Skemmtilegur húmor í Gullkindinni

Erlendis er það einna helst Razzie-verðlaunin sem vekja athygli af þessu tagi. Væntanlega er það fyrirmyndin en þar er það versta í kvikmyndageiranum verðlaunað. Jafnan er sú verðlaunaafhending höfð kvöldið fyrir Óskarsverðlaunin og því í sviðsljósinu samhliða því. Þetta virðist vera sami húmorinn. Ekkert nema gott mál svosem. Það verður fróðlegt að sjá hverjir fá Gullkindina síðar í vikunni. Veðja á að Búbbarnir taki verðlaunin sem versti sjónvarpsþáttur ársins.
![]() |
Kosið um hverjir skuli hljóta Gullkindina fyrir slæma frammistöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2006 | 12:04
Pólitísk fýla Kristins H. Gunnarssonar

Það er mjög stór spurning hvað Kristinn H. Gunnarsson sé að gera í Framsóknarflokknum ef hann er andvígur því stjórnarsamstarfi sem setið hefur við völd síðastliðin ellefu ár, lengur en Kristinn H. hefur sjálfur verið þingmaður Framsóknarflokksins. Andstaða hans við Sjálfstæðisflokkinn er svosem engin ný tíðindi, enda var hann þingmaður Alþýðubandalagsins sáluga 1991-1998 en flúði þaðan með Steingrími J, Hjörleifi, Svavari, Ögmundi og fleiri görpum en þeir fylgdu þó ekki með í kaupbæti yfir í Framsóknarflokkinn reyndar, enda flúðu sumir þeirra yfir í Samfylkinguna áður en þeir enduðu hraktir og kaldir á vinstrivanga í vinstri grænum hjá Steingrími J.
Ég man satt best að segja ekki betur en að Kristinn H. hafi verið þingflokksformaður Framsóknarflokksins 1999-2003, en Davíð Oddsson var forsætisráðherra Íslands allan þann tíma og þá var hann í nánu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, enda leiddi hann þingflokk Framsóknar inni í þinginu. Kristinn H. var reyndar pólitískt ólíkindatól þá rétt eins og núna, en eitthvað bar þá minna á andstöðunni við stjórnarsetu með Sjálfstæðisflokknum. Það má reyndar segja um þetta samstarf að Framsóknarflokkurinn hefur fengið völd langt umfram stærðargetu og ég efast um það að Framsókn hefði þessi umfang valda eða meiri áhrif á stjórnarforystu landsins í vinstristjórn fleiri en tveggja stjórnmálaafla.
En Kristinn H. er vonsvikinn núna, það eru sárindi fyrir vestan núna hjá honum. Hver væri það annars ekki, hafandi misst öruggt þingsæti og verandi algjörlega í pólitískri óvissu. Varla fer hann á þing bara á stuðningi Vestfirðinga úr sérframboði. Erfið barátta er framundan fyrir Sleggjuna hvernig sem fer. Það er reyndar með ólíkindum að hann sé enn að barma sér eftir að grasrótin hafnaði honum og telur að fyrst hann gat ekki snúið norðvesturframsóknarmönnum til fylgilags við sig geti hann haft áhrif á þá á landsvísu. Dream on, segir maður eins og hver annar vitiborinn einstaklingur.
![]() |
Kristinn: Áfram valin hægri Framsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2006 | 07:40
Afleitt upphaf sænskra hægrimanna við völd

Skv. nýjustu skoðanakönnunum hafa borgaralegu flokkarnir ekki meirihluta á bakvið sig. Það er skiljanlegt svosem eftir allan vandræðaganginn. Kosningar eru nýlega afstaðnar og enn tæp fjögur ár til kosninga. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að þau ganga fyrir sig en ég spái því að ef ekki batni verulega yfir borgaralegu flokkunu og þau fari ekki að sýna alvöru verk og sterka forystu sem þörf er á muni illa fyrir þeim. Byrjunin er afleit en framhaldið veltur á næstu mánuðum og hvernig þá muni ganga.
Það er mjög ömurlegt að sjá hversu veikluleg byrjun borgaralegu flokkanna er við stjórnvölinn. Þessi hneykslismál hafa verið gjörsamlega óverjandi og sýna mikinn siðferðisbrest, sem er ólíðandi að sé til staðar í opinberu embætti að mínu mati. Það er óskiljanlegt hvernig ráðherrarnir sem hrökkluðust frá embættu komust í gegnum smásjá í ráðherrastólinn og þær virðast hafa verið auðveld bráð bloggara, en eins og vel hefur komið fram var það bloggari sem gekk frá ráðherradómi Borelius með einfaldri rannsóknablaðamennsku og þefaði upp vandræðagang hennar með næsta einföldum hætti, sem hefur vissulega vakið athygli.
Ekki virðast skandalarnir aðeins bundnir við hægrimennina. Nú hefur verið ljóstrað upp um að Göran Persson, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins og fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, smeygði sér fremst á tuttugu ára biðlista eftir leiguíbúð í miðborg Stokkhólms með einu símtali nýlega. Persson og eiginkona hans, Anitra Steen, muni fá leiguíbúðina afhenta í byrjun næsta árs, en þurfi ekki að bíða lengi. Dæmi eru um allt að tveggja áratuga bið eftir leiguíbúðum í miðborginni. Mjög merkilegt mál.
En ég dreg enga dul á að þetta hefur verið vond byrjun fyrir borgaralegu flokkana og stjórn þeirra, og mikið pólitískt áfall fyrir Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, sem má ekki við frekari vandræðagangi eigi ekki illa að fara fyrir honum og stjórn hans strax í upphafi.
![]() |
Sænska ríkisstjórnin orðin óvinsælli en stjórnarandstaðan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2006 | 00:49
Mörgæsir skáka James Bond
Ég verð að viðurkenna að ég fékk vænt hláturskast þegar að ég sá að mörgæsateiknimyndin Happy Feet hafi hlotið meiri aðsókn vestanhafs en Casino Royale, nýjasta James Bond myndin, um helgina. Mörgæsirnar höluðu inn tæpum tveim milljónum dala meira en hágæðanjósnarinn sjálfur. Heldur betur frétt það. Sýnist þó að Bond sé allavega að hala meira inn nú vestra en var þegar að síðasta mynd, Die Another Day, var frumsýnd fyrir fjórum árum.
Fór annars á föstudaginn og sá Casino Royale og hafði virkilega gaman af. Þetta er flott spennumynd, gamaldags Bond-mynd með öllum þeim fléttum sem nauðsynlegar eru. Finnst þetta besta Bond-myndin til fjölda ára. Fólk var orðið svolítið leitt á niðursoðna ýkta hasarnum sem var alltof feik ýktur. Nú fáum við gamaldags versíón af Bond, kærkomin útgáfa það. Finnst Daniel Craig fara vel af stað í þessu hlutverki og marka sér gott upphaf þar. Mjög gott mál. Skrifa meira um þessa mynd hér á morgun, þegar ég hef meiri tíma.
Var að horfa á Spaugstofuna á netinu. Missti af henni í gær. Þar fóru þeir heldur betur á kostum og gerðu góðlátlegt grín af Árna Johnsen og þar var allt fært í Bond-búning. Vel gert grín og ég hafði mjög gaman af þessu. Skemmtilegt hugmyndaflugið í Spaugstofumönnum eins og venjulega. Flottur þáttur. Hápunkturinn var þegar að heitum Bondmyndanna var breytt og lögin voru mjög flott með þessum breytta hætti.
![]() |
Teiknimynd um mörgæsir skákaði Bond |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 00:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.11.2006 | 22:27
Mýrin sigursæl á Eddunni - Ingvar besti leikarinn

Leikstjórinn Ragnar Bragason hlaut handritsverðlaunin fyrir kvikmyndina Börn, Óttar Guðnason hlaut verðlaun fyrir útlit myndar með kvikmyndatökunni í A Little Trip to Heaven, Anna og skapsveiflurnar var valin stuttmynd ársins, Skuggabörn var heimildarmynd ársins, hinn vandaði fréttaskýringarþáttur Stöðvar 2, Kompás, var valinn sjónvarpsþáttur ársins og Jón Ólafs, nýr skemmtiþáttur Sjónvarpsins, hlaut Edduna sem skemmtiþáttur ársins. Stelpurnar hlutu verðlaunin sem leikið sjónvarpsefni ársins annað árið í röð og vakti mikla athygli að sjónvarpsmyndin Allir litir hafsins eru kaldir, skyldi ekki hljóta þau.
Ómar Ragnarsson var hylltur er hann hlaut verðlaunin sem sjónvarpsmaður ársins. Á 40 árum Sjónvarpsins hefur Ómar verið í hlutverki íþróttafréttamanns, skemmtikrafts, íhuguls spyrils í mannlegum og heillandi viðtölum og fréttamanns sem kannað hefur landið og mannsálina í víðri merkingu þess orðs. Eftir stendur merk starfsævi sem allir virða. Ómar á sennilega heiðurinn af einni stærstu stund íslenskrar sjónvarpssögu. Það var þegar að hann kynnti okkur fyrir Vestfirðingnum Gísla á Uppsölum, alþýðumanni sem lifði er á 19. öld væri en í raun var uppi á tækniáratugum 20. aldar. Ég virði framlag Ómars mikils - hann á skilið allt hið besta fyrir sitt ævistarf.
Kvikmyndin Mýrin var sigurvegari kvöldsins. Í heildina séð er Mýrin algjört meistaraverk. Ég hreifst mjög af henni er ég sá hana fyrir mánuði. Glæsileg kvikmynd í alla staði. Það hefur sannast af viðtökum landsmanna að hún er sátt og dómar um hana hafa verið nær allir á einn veg. Það var mikið gleðiefni að Ingvar E. skyldi hljóta Edduna fyrir stórleik sinn í hlutverki Erlendar Sveinssonar. Hér eftir sjáum við Erlend í hans túlkun og sjáum engan annan fyrir okkur er bækurnar eru dregnar fram á dimmu vetrarkvöldi eða fögru heiðbjörtu sumarkvöldi. Hann túlkaði einmanalegt og innantómt líf hins hugula rannsóknarlögreglumanns af mikilli snilld. Glæsilega gert.
Þjóðin hefur með því að fjölmenna í bíó sýnt það með skýrum hætti að hún vill framhald á. Öll viljum við sjá bækurnar lifna við. Þetta eru stórfenglega skrifaðar bækur og það er greinilegt að þjóðin hefur áhuga á því að þær verði kvikmyndaðar. Þjóðin vill sjá fleiri myndir og Ingvar E. aftur í hlutverki Erlendar. Sigurför Mýrinnar segir allt sem segja þarf. Það hlýtur að verða framhald á. Það er allavega nóg af eftirminnilegum sögum eftir Arnald til að kvikmynda.
Í heildina var þetta skemmtilegt sjónvarpskvöld. Fannst þó kynnarnir missa nokkuð marks, húmorinn var ekki upp á marga fiska og betra væri að láta fagmenn sjá um þessa hlið gríns, ef á að hafa grín yfir höfuð. Þetta var vandræðalegt í besta falli. Svo er það hreinn skandall að ekki sé verðlaunað í flokkum karla og kvenna fyrir leik. En samt sem áður; skemmilegt kvöld.
![]() |
Mýrin fékk flest Edduverðlaun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.11.2006 | 19:55
Valdimar Leó horfir til Frjálslyndra
Valdimar Leó Friðriksson, alþingismaður, kvaddi Samfylkinguna formlega í Skaftahlíðinni í beinni útsendingu hjá Agli í Silfrinu laust eftir hádegið. Það var kómískt þegar að hann tók niður Samfylkingardoppuna sína í barminum og gaf Agli hana. Merkileg sögulok það. Það er greinilegt að Samfylkingarfólk vill sem minnst fjalla um þessi leiðarlok Valdimar Leós í flokknum og gerir lítið úr því. Þetta er skiljanlega ekki umræða sem Samfylkingin og fólk þar innbyrðis vill gera mikið úr.
Það er alltaf tíðindi þegar að sitjandi þingmaður segir skilið við flokkinn sinn og fer þingsæti frá flokknum. Nú hefur þingstyrkur Samfylkingarinnar minnkað og sitja 19 þingmenn nú fyrir flokkinn. Það eru tíðindi, það er nú bara þannig. Ég veit ekkert hvaða styrk þessi maður hefur. Er svosem alveg sama um það. Það er alltaf áfall fyrir flokka þegar að verður klofningur. Það var áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi í aðdraganda kosninganna 2003 er þingmaðurinn Kristján Pálsson sagði sig úr flokknum, varð óháður og fór í framboð á eigin vegum. Það framboð kostaði flokkinn þingsæti í kjördæminu og forystu þar. En Valdimar Leó er vissulega ekki kjörinn þingmaður í kosningum.
Heyrst hefur mjög hátt síðustu dagana að Valdimar Leó færi úr Samfylkingunni og gengi til liðs við Frjálslynda flokkinn. Ég skrifaði fyrst um það hér á vefnum laust fyrir hádegið á fimmtudaginn. Það yrðu svo sannarlega tíðindi ef að Frjálslyndir myndu munstra þennan mann og Jón Magnússon til framboðs á höfuðborgarsvæðinu. Gleymum því ekki að Frjálslyndir mældust með sjö menn í síðustu könnun Fréttablaðsins. Þeir gætu því náð jöfnunarsætum í þeirri stöðu. Vonandi kemur hún þó ekki upp. Gleymum annars ekki því að Frjálslyndir náðu þingsæti í Kraganum síðast út á jöfnunarsæti. Greinilegt er að Valdimar Leó hugsar til Frjálslynda flokksins þessa dagana.
Þeim vantar sárlega leiðtoga í Kragann í komandi kosningum og sjá sér væntanlega leik á borði að fá til sín Valdimar Leó, sem kemur úr Mosfellsbæ. Í þingkosningunum 2003 leiddi Gunnar Örlygsson Frjálslynda flokkinn í Suðvesturkjördæmi. Á miðju kjörtímabili gekk hann til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Þá vændu Frjálslyndir Gunnar Örn um svik og reyndu að beita sér fyrir því að Gunnar afsalaði sér þingmennsku sinni þar sem staða mála væri breytt frá kosningunum og hann ætti að hleypa varaþingmanninum Sigurlín Margréti Sigurðardóttur inn á þing. Frá flokkaskiptum hefur Gunnar ekki hleypt frjálslynda varaþingmanninum sínum inn á þing.
En leiðtogastóll Frjálslyndra í Kraganum er svo sannarlega laus. Það er spurning hvort að Frjálslyndir leiði óháðan alþingismann Samfylkingarinnar til þess sætis í kosningum að vori. Svo segir kjaftasagan. Það er greinilegt að þetta tal um að vera óháður er til málamynda en það líður að kosningum og augljóst eftir þessar tilfærslur að Valdimar stefnir að framboði og að verja þingsætið. Það gerir hann varla með sérframboði. Það sjá allir sem rýna í stöðuna.
Enda hví ætti annars maður í hans stöðu að mæta á bæjarmálafundi hjá Frjálslyndum í Mosó? Dæmið er augljóst fyrir alla með pólitískt nef.
![]() |
Þingmaður Samfylkingar segir sig úr flokknum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2006 | 18:55
Klofnar Frjálslyndi flokkurinn?
Mikil innri átök um stefnumótun Frjálslynda flokksins í innflytjendamálum virðast vera undir yfirborðinu meðal forystumanna þar. Deilt er um áherslur vegna skoðana þingmanna flokksins í kjölfar skrifa Jóns Magnússonar í Blaðinu um þessi mál. Greinilegt er að ekki eru allir sáttir við þá stefnu sem kennd er nú við flokkinn og virðist fremst í andstöðunni við það fara Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri flokksins og dóttir Sverris Hermannssonar, stofnanda flokksins.
Margrét hefur ekki tjáð sig víða um þessi mál en hún var mjög ákveðin í tjáningu í Fréttablaðinu á föstudag hvað þessi mál varðar og einkum varðandi skoðanir sínar á Jóni Magnússyni og sagðist hún ekki vilja vera í flokki sem markaðist af skoðunum Jóns og jafnaði þeim við þjóðernishyggju. Jón hefur víða farið í stjórnmálum. Hann vildi einu sinni áður ganga til liðs við forystu flokksins við litla hrifningu Sverris, eins og fram kemur í ævisögu hans. Jón stofnaði Nýtt afl með fleirum. Fer fáum frægðarsögum af því sem þar gerðist, en flokkurinn mældist varla í kosningunum 2003.
Sverrir hefur fram til þessa vart sparað Jóni stóru orðin og hefur það ekki breyst. Varla hefur Sverrir glaðst yfir því að sjá nú Jón með merki Frjálslynda flokksins í barmi talandi eins og fulltrúi flokksins væri í spjallþáttum og á víðum opinberum vettvangi. Sverrir segir orðrétt um Jón í Fréttablaðinu: "Ég held nú að þetta verði afgreitt í sátt og samlyndi. Um hvað er deilt? Það er deilt um það að Margrét heldur sig nákvæmlega við málefnaskrá flokksins. Og að halda það að einhver utanveltubesefi eins og Jón Magnússon, sem er ekki einu sinni löglegur félagi í Frjálslynda flokknum, hafi eitthvað um það að segja, kemur ekki til nokkurra greina".
Margrét hefur löngum verið talin einn öflugasti forystumaður Frjálslynda flokksins og verið framkvæmdastjóri flokkins frá stofnun árið 1998, eftir að faðir hennar hrökklaðist úr bankastjórastól í Landsbankanum. Hún skipaði þriðja sæti flokksins í Reykjavík í kosningunum 1999, er faðir hennar náði kjöri, og leiddi lista flokksins í Reykjavík suður í þingkosningunum 2003. Litlu munaði að hún næði kjöri á þing, en svo fór ekki. Hún beið lægri hlut í baráttu við Birgi Ármannsson í kjördæminu er yfir lauk og varð að sætta sig við að ná ekki að komast á þing. Hún hefur verið varaborgarfulltrúi Frjálslyndra frá árinu 2002 og býst nú til að halda aftur í þingframboð.
Mikla athygli vakti að heyra í Margréti Sverrisdóttur í Silfri Egils í dag. Hún var ekki ánægð með umræðuna, en gat mjög lítið gert til að kveða niður orðróminn um ósætti og deilur milli arma í flokknum. Þær sögur ganga fjöllum hærra þessa dagana og hafa magnast frekar en annað. Yfirlýsingar Margrétar breyta engu um að greinilega er talað í tvær áttir og ólíkar grunnskoðanir í innflytjendamálum eru þar uppi. Það er greinileg ólga undir niðri í herbúðum þarna.
Það sanna yfirlýsingar feðginanna mjög vel, enda virðast þau tala með öðrum hætti en þingmenn Frjálslynda flokksins hvað málin varðar. Við hefur enda blasað hversu samhent varaformaðurinn og Jón tala um innflytjendamál. Nú reynir á stöðu mála væntanlega. Það verður fróðlegt að sjá hvaða afstöðu Frjálslyndir taka er yfir lýkur til innflytjendamála, en þar getur aðeins ein skoðun orðið ofan á sem opinber afstaða flokksins. Deilur virðast uppi um hvert skuli stefna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2006 | 17:11
Stórtíðindi að sunnan

Það er engu líkara en að snjór hafi aldrei fallið í Reykjavík í nóvember áður. Merkilegt að heyra af þessu. Hér á Akureyri höfum við kynnst íslenskum vetri vel síðustu dagana. Snjóað hefur heil ósköp og í gær var hér um 20 stiga frost. Algjör gaddur og ekta íslenskur vetur er það sem við okkur blasir hér þessa dagana. Einfaldara getur það varla orðið.
Fyrir mig sem hef mokað stéttina mína á hverjum degi síðustu viku og hef þurft að komast um í blindbyl og kalsatíð síðustu vikuna er merkilegt að fylgjast með stórtíðindunum að sunnan. Þær verða enn meira áberandi fyrir vikið. En svona er nú einu sinni ekta íslenskur vetur. Við vitum hvar við búum og við hverju er hægt að búast. Svo einfalt er það nú bara.
![]() |
Snjóþekja á Reykjavíkursvæðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.11.2006 | 15:48
Magga Frímanns kveður með stæl

Nú hefur stelpan frá Stokkseyri ritað ævisögu sína undir því nafni, það er pólitísk ævisaga, eins og gefur að skilja. Ekkert heiti er meira viðeigandi á bókina en þetta. Hún hefur verið virk í stjórnmálum síðan að hún var ung og hún hefur verið lengi áberandi í pólitískri baráttu. Í bloggfærslu minni hér þann 19. september, skömmu eftir að ég færði mig hingað á moggabloggið skrifaði ég um þessa væntanlegu ævisögu Möggu Frímanns og lét þess getið að ég myndi lesa bókina, enda hefur hún merkilega sögu að segja lesendum. Það er enda ljóst á öllu að þarna er ekki töluð nein tæpitunga, þetta er áhugaverð bók þar sem allt er látið flakka.
Nú er bókin komin út. Hún var varla orðin volg í prentsmiðjunni er hún hafði þegar vakið athygli væntanlegra lesenda og farið var að vitna í bókarskrifin. Um er að ræða pólitískt uppgjör Margrétar Frímannsdóttur að pólitískum leiðarlokum. Stjórnmálasaga Margrétar er samofin sögu vinstriflokkanna síðustu tvo áratugina, bæði hvað varðar vonbrigði við langa stjórnarandstöðusetu og ennfremur merka sögu við að koma vinstriöflum, sundruðum sem standandi öflum, saman í eina sæng. Þarna er sameiningarsaga vinstriflokkanna á tíunda áratugnum rakin ítarlega, farið yfir formannsslaginn í Alþýðubandalaginu árið 1995 og baráttu lífsins fyrir Margréti, við illvígt mein.
Margrét og Steingrímur J. háðu eftirminnilega baráttu um formannsstólinn í Alþýðubandalaginu, þegar að Ólafur Ragnar Grímsson neyddist til að hætta eftir átta ára formennsku. Sigur Margrétar var sögulegur, ekki aðeins varð Margrét með því fyrsta konan á formannsstóli gömlu fjórflokkanna heldur þótti merkilegt að hún gæti sigrað Steingrím J. í þessari baráttu aflanna innan flokksins. Það var hennar pólitíski hápunktur. Sigurinn varð þó súrsætur fyrir hana og hún varð síðar að horfa upp á flokkinn brotna hægt og rólega og lauk væringum þeirra tveggja síðar með því að Steingrímur og armur hans í flokknum yfirgáfu hann með miklu þjósti árið 1998.
Það situr greinilega eftir í Margréti að ekki tókst að mynda vinstriblokk allra afla í aðdraganda kosninganna 1999. Greinilegt er að hún kennir Steingrími J. um að það tókst ekki og vandar honum ekki kveðjurnar í þeim efnum. Biturleikinn og vonbrigðin vegna þess sem mistókst birtist vel í lýsingum Margrétar í þessu öfluga uppgjöri við kommana í Alþýðubandalaginu sem yfirgáfu flokkinn og skildu eftir Ólafsarminn í Alþýðubandalaginu sem síðar sameinaðist öðrum vinstriöflum í Samfylkingunni. Eftir stóðu tveir flokkar og Samfylkingunni mistókst að stimpla sig inn af krafti í kosningunum 1999, tækifæri Margrétar til að landa sameinuðum flokki mistókust.
Margrét markaði sér þó spor. Án hennar framlags hefði Samfylkingin aldrei verið stofnuð. Hún var móðir Samfylkingarinnar, ekki aðeins ljósmóðir verkanna heldur sú sem tryggði tilveru þessarar fylkingar sem þó leiddi ekki saman alla vinstrimenn með afgerandi hætti. Sú sameining mistókst. En Samfylkingin varð til vegna framlags Margrétar og varð hún talsmaður kosningabandalagsins árið 1999. Það var merkileg saga sem átti sér stað í kosningunum 1999 og mér telst til að Margrét hafi verið fyrsta konan sem leiddi alvöruafl, stórt afl, í þingkosningum. Sú saga hefur ekki enn verið rituð og væntanlega segir Margrét hana með þeim þunga sem hún telur rétt nú.
Fyrst og fremst verður áhugavert að lesa um formannskjörið 1995. Það var mikill átakapunktur á vinstrivængnum. Það var líka í fyrsta skipti sem póstkosning var meðal allra flokksmanna um forystu stjórnmálaflokks hér á Íslandi. Ólafur Ragnar barðist fyrir því að arfleifð hans myndi halda sér og beitti sér mjög fyrir Margréti, sem var alla tíð einn nánasti samherji hans í stjórnmálum. Sigur Margrétar varð um leið pólitískur sigur Ólafs Ragnars og hans afla innan Alþýðubandalagsins.
Margt má reyndar segja um Margréti, en hún er fyrst og fremst kjarnakona í stjórnmálum og hefur frá mörgu að segja, sérstaklega nú þegar að hún er að hætta í stjórnmálunum. Hún á að baki langan feril, sem verður áhugavert að lesa um í frásögn hennar. Ég ætla að fá mér þessa bók og lesa eftir helgina, það er mjög einfalt mál. Þetta er merkileg saga baráttukonu.
Brot úr ævisögu Margrétar
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)