Óskar biður um að samningi verði rift

Óskar og Björn Ingi Það kemur ekki að óvörum að Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúi, óski eftir því að verktakasamningi hans við Faxaflóahafnir verði rift. Það var nokkuð ljóst eftir umræðu síðustu daga, sérstaklega eftir hvassa rimmu Björns Inga Hrafnssonar og Dags B. Eggertssonar í Kastljósi að það taldist á gráu svæði að stjórnmálamenn sem taka sæti á framboðslista væru á sama tíma líka verkefnaráðnir til sama stjórnvalds.

Það er auðvitað á mjög gráu svæði og vekur umræðu um óeðlileg tengsl að Óskar Bergsson sé samtímis varaborgarfulltrúi og formaður í framkvæmdaráði og svo verkefnaráðinn til Faxaflóahafna. Það gat ekki verið með öðrum hætti þetta mál en að Óskar ákveddi hvoru megin við borðið setið væri. Þegar að menn komast í þessa stöðu, finnst mér enda að val verði að vera um hvort sinna eigi verkefnatengdum verkefnum fyrir sveitarfélagið eða beinni stjórnmálaþátttöku. Einfaldara getur það vart verið.

Þetta var greinilega orðið vandræðamál fyrir meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur. Það gat vart endað öðruvísi en með þessum hætti.

mbl.is Óskar biður um að samningi hans við Faxaflóahafnir verði rift
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórn Byrgisins finnst ekki - leynd aflétt af skýrslu

Byrgið Það er um fátt meira rætt núna en málefni Byrgisins. Fróðlegt var að heyra af því í kvöldfréttum Stöðvar 2 að stjórn Byrgisins finnist ekki, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir félagsmálaráðuneytisins og að leynd hefði verið aflétt af fimm ára gamalli svartri skýrslu um Byrgið. Nú hefur Guðmundur Jónsson ákveðið að fara frá tímabundið sem forstöðumaður Byrgisins. Í ljósi stöðu málsins og allra hliða þess kemur það ekki að óvörum.

Það er stóralvarlegt mál að ekkert finnist sem heitir stjórn Byrgisins. Það er með hreinum ólíkindum að mínu mati að ekki hefði verið gert neitt af viti eftir þessa kolsvörtu skýrslu um fjármál og rekstur Byrgisins sem unnin var fyrir utanríkisráðuneytið árið 2001. Til dæmis hefur verið upplýst nú að hún hefur aldrei komið formlega fyrir sjónir fjárlaganefndar Alþingis. Meðal þeirra sem komu að skýrslugerðinni þá var Birkir Jón Jónsson, þáv. aðstoðarmaður Páls Péturssonar, sem var félagsmálaráðherra 1995-2003. Birkir Jón er nú alþingismaður og formaður fjárlaganefndar.

Merkilegt viðtal var við Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, í kvöldfréttum Stöðvar 2. Það er í raun raunalegt hið mesta að ráðast að Magnúsi vegna þessa máls. Hann hefur tiltölulega skamman tíma setið sem félagsmálaráðherra. Nær væri að ganga að Páli Péturssyni sem var félagsmálaráðherra á tímum skýrslunnar og Árna Magnússyni, sem var félagsmálaráðherra í tæp þrjú ár, frá vorinu 2003 til marsmánaðar á þessu ári. Mér finnst Magnús hafa gert rétt í því að krefjast rannsóknar á stöðu mála í Byrginu.

Leynd var aflétt af skýrslunni í dag og til hennar vitnað í kvöldfréttum Stöðvar 2, auk þess sem hún var tilvitnuð í margfrægum Kompásþætti. Byrgið hefur skv. fréttum fengið samtals yfir 200 milljónir króna frá árinu 1999 og í nýlegu fjárlagafrumvarpi er að finna fjárframlag til Byrgisins. Mér finnst ekki réttlætanlegt að meira ríkisfé fari í Byrgið fyrr en þessi athugun hefur farið fram og undrast mjög sofandagang síðustu félagsmálaráðherra í þessu máli.

Meirihluti Norðlendinga vill álver við Húsavík

Húsavík Það er ánægjulegt að heyra af könnun Gallup þar sem fram kemur að rúm 58% íbúa á Norðurlandi sé hlynnt byggingu álvers á Bakka við Húsavík. Tæp 28% eru andvíg því. Það hefur lengi verið tilfinning mín að nokkur meirihluti íbúa hér styðji þetta verkefni. Vissulega er einhver andstaða en mér finnst hún lítil miðað við alla þá umræðu sem verið hefur almennt gegn stóriðju, en í þeim efnum hefur verið nokkur tískubylgja.

Hvað varðar álver í Reyðarfirði sem senn fer á fullt er 51% aðspurðra hlynnt því en 29% andvíg. Þetta eru merkilegar tölur í báðu tilfelli að mínu mati og mikilvægt að benda vel á þetta. Það kemur ekki að óvörum að stóriðjuandstæðingar hafi lítið rætt þessa könnun, enda þjónar hún ekki málstað þeirra og er í raun skýr skilaboð eftir alla umræðu sem verið hefur gegn stóriðju á landsbyggðinni, bæði á Norður- og Austurlandi, sérstaklega síðustu mánuðina.

Fróðlegt verður að sjá hvernig VG muni ganga í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum. Ætlar Steingrímur J. Sigfússon að heimsækja Þingeyinga með þeim skilaboðum sínum að hann berjist gegn álveri í heimabyggð þeirra? Hann vann leynt og ljóst gegn álveri og virkjun á Austurlandi á sínum tíma og hlaut varla mikið fylgi á þeim slóðum í kosningunum 2003. 

Það verður fróðlegt að sjá mælingu VG hér í kjördæminu útfrá afstöðu þeirra, sérstaklega hvað varðar stóriðju við Húsavík. Ekki á þessi afstaða við um Samfylkinguna, en mikill stuðningur er innan þess flokks í kjördæminu við þetta álver.

mbl.is Meirihluti íbúa á Norðurlandi hlynntur álveri á Bakka við Húsavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlileg yfirlýsing frá Götusmiðjunni

Götusmiðjan Það er mjög vel skiljanlegt að Guðmundur Týr Þórarinsson og þau hjá Götusmiðjunni hafi sent út yfirlýsingu til að benda á að Götusmiðjan og Byrgið er ekki hið sama. Það er ekki hægt að segja annað en að orðspor Byrgisins hafi beðið mikinn skaða að orðrómi um ósæmilegt athæfi Guðmundar Jónssonar, sem stofnaði Byrgið fyrir áratug sem kom fram í þættinum Kompás í gærkvöldi.

Í dag hef ég fengið nokkra tölvupósta sem eru með og á móti skrifum mínum. Ég sé ekki eftir neinu í þeim skrifum sem hér hafa komið fram. Mér finnst það algjörlega óásættanlegt að forstöðumaðurinn komi fram með þeim hætti sem augljóslega er til staðar og staðfestist í þessum þætti í ljósi þess að ríkisfé hefur farið til Byrgisins. Það er algjörlega óverjandi, að mínu mati, að segja annað um stöðu mála.

Ég endurtek að mér finnst með öllu óeðlilegt að ríkið haldi áfram að styrkja Byrgið með fjárframlögum í ljósi stöðunnar sem upp er komin.

mbl.is Segir ekki mega rugla saman Götusmiðjunni og Byrginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Robert Gates tekur við völdum í Pentagon

Robert Gates Robert Gates hefur svarið embættiseið sem varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Það gerði hann við hátíðlega athöfn í Hvíta húsinu fyrir stundu. Gates, sem verður 22. varnarmálaráðherrann í sögu Bandaríkjnna, tekur við embætti af Donald Rumsfeld, einum umdeildasta ráðherra í sögu Bandaríkjanna síðustu áratugina. Skipan Gates sem nýs yfirmanns í Pentagon var formlega staðfest af öldungadeildinni þann 6. desember sl. Rumsfeld var tíu dögum frá því að slá met Robert McNamara, sem þaulsetnasta ráðherrans í sögu landsins.

Gates vann stuðning ólíkra afla við tilnefningu sína og hlaut aðdáun landsmanna með afdráttarlausri framkomu og hiklausum svörum í fimm tíma yfirheyrslu fyrir hermálanefndinni öldungadeildarinnar. Þar sagði Gates að árás á Íran eða Sýrland kæmi ekki til greina, nema sem algjört neyðarúrræði. Þá sagðist hann ekki telja að Bandaríkin séu á sigurbraut í Írak og þar sé mikið verk óunnið eigi sigur að vinnast í bráð. Sagðist hann vera opinn fyrir nýjum hugmyndum varðandi málefni Íraks. Athygli vakti að hann tók undir staðhæfingar demókrata í nefndinni um að ástandið í Írak væri óásættanlegt og lagði áherslu á uppstokkun á stöðu mála.

Val Bush forseta á Robert Gates í stað Donalds Rumsfelds var til marks um uppstokkun mála og upphaf nýrra tíma, enda er Gates allt annarrar tegundar en Rumsfeld. Brotthvarf Rumsfelds veikir t.d. Dick Cheney í sessi innan ríkisstjórnarinnar, en Cheney, sem varnarmálaráðherra í forsetatíð Bush eldri 1989-1993, og Rumsfeld voru menn sömu áherslna og beittari en t.d. forsetinn sjálfur í raun. Gates hefur mikla reynslu að baki og annan bakgrunn en Rumsfeld. Hann vann innan CIA í þrjá áratugi undir stjórn sex forseta úr báðum flokkum (hann var forstjóri CIA í forsetatíð George H. W. Bush, föður núverandi forseta) og verður nú ráðherra í ríkisstjórn þess sjöunda.

Donald Rumsfeld Það eru svo sannarlega tímamót sem verða nú í valdakerfinu í Washington við brotthvarf Donalds Rumsfelds úr ríkisstjórn Bandaríkjanna. Hann hefur verið varnarmálaráðherra Bandaríkjanna alla forsetatíð George W. Bush og verið við völd í Pentagon því frá 20. janúar 2001. Rumsfeld er elsti maðurinn sem hefur ráðið ríkjum í Pentagon, en jafnframt sá yngsti en hann var varnarmálaráðherra í forsetatíð Gerald Ford 1975-1977. Hann er því með þaulsetnustu varnarmálaráðherrum í sögu Bandaríkjanna.

Herská stefna hans hefur verið gríðarlega umdeild og hann er án nokkurs vafa umdeildasti ráðherrann í forsetatíð Bush og í raun síðustu áratugina í stjórnmálasögu Bandaríkjanna. Hefur staða hans sífellt veikst síðustu tvö árin, í aðdraganda forsetakosninganna 2004 og eftir þær, vegna Abu-Ghraib málsins og stöðunnar í Írak. Honum var ekki sætt lengur eftir þingkosningarnar í nóvember og hefði í raun átt að fara frá eftir kosningarnar 2004.

Brotthvarf hans úr ráðherraembætti og húsbóndaskipti í Pentagon breyta hiklaust mjög svipmóti ríkisstjórnar Bush forseta og tryggir að líklegra sé að repúblikanar og demókratar getið unnið saman með heilsteyptum hætti þann tíma sem þeir verða að deila völdum hið minnsta, eða fram að forsetakosningunum eftir tæp tvö ár, þar sem eftirmaður George W. Bush verður kjörinn.

Ennio Morricone fær heiðursóskarinn

Ennio Morricone Bandaríska kvikmyndaakademían hefur ákveðið að ítalska kvikmyndatónskáldið Ennio Morricone muni fá heiðursóskarinn við afhendingu Óskarsverðlaunanna í febrúar. Það er svo sannarlega verðskuldaður heiður og löngu kominn tími til að hann fái þessi virtustu verðlaun kvikmyndabransans. Ennio Morricone er eitt virtasta tónskáld í sögu kvikmynda seinustu áratuga.

Morricone á að baki mikinn fjölda ógleymanlegra tónverka sem sett hafa svip sinn á kvikmyndasöguna. Nýlega keypti ég heildarsafn (það allra besta af glæsilegum ferli) bestu verka hans sem er á geislaplötunni: Very Best of Ennio Morricone. Hann hóf feril sinn með því að semja hina ódauðlegu tónlist í Spagettívestrum Sergio Leone.

Allir þeir sem horft hafa á The Untouchables, A Fistful of Dollars, The Good, The Bad & The Ugly, The Mission, Cinema Paradiso, Love Affair, My Names is Nobody, Unforgiven, The Bridges of Madison County, Malena, Il Postino, Bugsy, In the Line of Fire og Frantic (svo aðeins örfá dæmi eru nefnd) muna eftir ógleymanlegri tónlist þessa mikla meistara, sem setti órjúfanlegan svip sinn á þær.

Í huga mínum standa þrenn verk eftir sem það besta sem hann hefur gert: það eru Gabriel´s Oboe úr The Mission, The Death Theme úr The Untouchables, og síðast en ekki síst Love Theme úr Cinema Paradiso (sem er að mínu mati fallegasta kvikmyndastef seinustu aldar). Öll síðastnefndu stefin snerta hjartað, svo falleg eru þau.

Morricone er sannkallaður meistari kvikmyndatónlistarinnar. Hann er maður tilfinninga í tónlist kvikmyndanna. Þessi geisladiskur er fyrir þá sem elska kvikmyndirnar og stefin í þeim. Það er gleðilegt að loksins fái hann óskarinn. Hann á hann fyrir lifandis löngu skilið fyrir að setja ódauðlegt mark á kvikmyndasöguna.

Deilt á Netinu um Byrgið og forstöðumanninn

ByrgiðÞað er heldur betur lífleg umræða á Netinu um umfjöllun fréttastofu Stöðvar 2 um Byrgið og forstöðumanninn Guðmund Jónsson. Sitt sýnist hverjum. Ég hef sagt mína skoðun. Sumir deila á fréttaskýringaþáttinn Kompás á Stöð 2. Mér finnst það undarlegt, enda þótti mér nauðsynlegt að fjallað væri um þessi mál. Umfjöllunin var ekki einhliða, enda fékk sá sem deilt var um og málið snýst um tækifæri til að verja sig og svara þessum ásökunum. Mér fannst sú vörn ekki trúverðug, þó eflaust eigi hann eftir að fá betri færi á að svara fyrir sig. Það er enn mörgum spurningum ósvarað.

Það er merkilegt að sjá suma segja að okkur komi einkalíf Guðmundar ekki við og að þetta mál sé þess eðlis að um það eigi ekki að fjalla. Mér finnst það fullkomlega eðlilegt að um það sé fjallað í ljósi þess að ríkisfé hefur farið til Byrgisins. Þeim spurningum er ósvarað hvað var gert við þessa peninga. Á meðan að sú óvissa er uppi skil ég vel að landsmenn efist í þessum efnum og það verður að fjalla um það. Samlíkingar við umfjöllun DV í janúar finnast mér ekki eðlilegar. Það var einhliða umfjöllun án þess að viðkomandi gæti borið hönd fyrir höfuð sér. Það var ekki í þessu tilfelli.

Auk þess er mjög ámælisvert að sjá það sem virðist staðreynd, ef marka má öll gögn, þ.á.m. athyglisvert myndskilaboð, að viðkomandi maður nýti sér skjólstæðinga sína til kynferðislegra athafna í ljósi þess trausts sem hann hefur til þess að "lækna fólk". Allavega verður seint sagt að myndskilaboðin séu fölsuð. Í mínum huga eru þetta afgerandi og áberandi gögn um hver staða málsins sé. Það var enda mjög erfitt fyrir Guðmund að svara fyrir þessi gögn.

Til dæmis féll hann í sömu gildru og barnaperranir í umfjöllun á NFS, þegar hann sagðist þurfa að kynna sér ýmis málefni. Þá var einmitt tekið fram að um væri að ræða algengustu afsökunina sem menn nýttu sér að þeir væru í sjálfskipaðri könnun á stöðu mála. Það er allavega ljóst að þetta mál verður að kanna frá grunni. Ekki virðist málið fagurt ef marka má gögn. Reyndar má deila harkalega á félagsmálaráðherra fyrri ára að hafa ekki fyrirskipað athugun á Byrginu.

Byrgið var stofnað af Guðmundi Jónssyni og er hans hugarfóstur. Það er vandséð hvernig það geti starfað áfram séu þessar ásakanir allar réttar. Í ljósi stöðu mála finnst mér útilokað að ríkisfé renni þar áfram til starfseminnar. Það blasir við.


Alvarlegt ástand í Byrginu

Byrgið Það var sláandi að horfa á fréttaskýringaþáttinn Kompás nú fyrr í kvöld. Það er greinilegt að pottur er svo sannarlega mjög brotinn hvað varðar málefni Byrgisins. Mér fannst gögnin og allt sem þar var borið á borð stóralvarlegt mál og það verður að rannsaka Byrgið og öll mál þar tengd Guðmundi Jónssyni. Staða mála er of óviss eins og er í ljósi þessara háalvarlegu gagna til að hægt sé að horfa framhjá því.

Í ljósi þess að Byrgið á að reka sem meðferðarheimili fyrir langt leidda fikla og drykksjúklinga og rekið á kristilegum grunni er þessi orðrómur mjög slæmur og skaðandi fyrir allt starf þar. Það er ekki óeðlilegt í ljósi þessa alls að félagsmálaráðuneytið hafi fyrirskipað rannsókn á öllum hliðum mála í Byrginu, enda ekki við öðru að búast en að þetta verklag leiði til þess að ríkið hætti að greiða til starfseminnar þar, ef rétt reynist.

Mér finnst staða mála með þeim hætti að ríkið verði að öllu leyti að hætta að koma að rekstri Byrgisins og setja þar peninga í.

Hvað er í gangi í Byrginu?

Byrgið Það var sláandi að sjá umfjöllun í kvöldfréttum Stöðvar 2 um Byrgið og Guðmund Jónsson, forstöðumann meðferðarheimilisins. Þar var opinberað það sem þar gerist greinilega bakvið tjöldin og fullyrt að Guðmundur hefði ítrekað tælt skjólstæðinga sína til kynlífsathafna. Þetta mál er mjög alvarlegt og einkum og sér í lagi vegna þess að Byrgið hefur fengið hundruð milljóna króna í opinberum framlögum. Um þessi mál verður fjallað í Kompás, en vegna eðlis gagnanna sem munu sanna athæfi Guðmundar er þátturinn á dagskrá kl. 22:25.

Í ljósi þess að Byrgið á að reka sem meðferðarheimili fyrir langt leidda fikla og drykksjúklinga og rekið á kristilegum grunni er þessi orðrómur mjög slæmur og skaðandi fyrir allt starf þar. Byrgið hefur um árabil rekið meðferðarheimili fyrir langt leidda fíkla og alkóhólista en starfið er allt unnið á kristilegum grunni. Það er ekki óeðlilegt í ljósi þessa alls að félagsmálaráðuneytið hafi fyrirskipað rannsókn á öllum hliðum mála í Byrginu, enda ekki við öðru að búast en að þetta verklag leiði til þess að ríkið hætti að greiða til starfseminnar þar, ef rétt reynist.

Í frétt á vísi.is er fullyrt að umsjónarmenn fréttaskýringaþáttarins Kompás hafi undir höndum gögn sem sanni að Guðmundur hefði tekið ítrekað þátt í kynlífsathöfnum með ungum konum, skjólstæðingum sínum í meðferðarstarfinu í Byrginu. Orðrétt segir á visir.is "Í þættinum í kvöld vitna konur um hvernig hann tældi þær til kynlífsathafna sem vægast sagt verða taldar óhefðbundnar. Þar er um svokallað BDSM kynlíf þar sem valdbeiting og drottnun er grunnþema. Viðmælandi Kompáss segir Guðmund halda því fram að Guð lækni í gegnum hann. Hann geti fyrirgefið syndir fyrir hönd Guðs og að sæði hans lækni."

Athygli vekur að Guðmundur þverneitar öllum gögnum þrátt fyrir myndefni sem vægast sagt er sjokkerandi. Það verður fróðlegt að sjá Kompás í kvöld.

Um Framsókn og pólitíkusa á gráu svæði

Björn IngiEnn er mikil umræða um rimmu Björns Inga og Dags í Kastljósinu í vikunni. Ég tek undir skoðun Illuga Gunnarssonar, verðandi alþingismanns, sem kom fram í Silfri Egils í dag. Mér finnst hiklaust að það sé á mjög gráu svæði að stjórnmálamenn sem taka sæti á framboðslista, sérstaklega ofarlega á lista, séu á sama tíma líka verkefnaráðnir til sama stjórnvalds. Það á ekki að viðgangast að mínu mati, sama hver í hlut á.

Mér finnst því það vera mjög á gráu svæði að Óskar Bergsson sé samtímis varaborgarfulltrúi og formaður í framkvæmdaráði og svo verkefnaráðinn til Faxaflóahafna. Þetta er eitthvað sem lítur mjög illa út og enda eru þeir fáir sem leggja í að verja það skiljanlega. Þegar að menn komast í þessa stöðu, finnst mér val verða að vera um hvort sinna á verkefnatengdum verkefnum eða stjórnmálum. Einfalt mál.

Óskar og Björn IngiÞað getur aldrei gengið, svo eðlilegt sé, að menn séu báðum megin við borðið. Það leiðir bara til vondra aðstæðna og vandræðalegheita. Það hefur svo sannarlega gerst í þessu máli. Þetta er greinilega vandræðamál fyrir meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur. Það batnar ekki fyrr en viðkomandi einstaklingur segir sig frá öðru hvoru verkefninu.

Það er ekki hægt í svona stöðu annað en velja hvorum megin við borðið skal setið. Annað leiðir bara til orðróms um spillingu og rýrð kastast á viðkomandi einstakling, sama hversu vandaður hann annars telst. Þess vegna getur varla öðruvísi farið en skil verði á stöðu mála.

Mér finnst þetta mál kristallast mjög vel hvað sé eðlilegt og hvað fjarri því eðlilegt fyrir þá einstaklinga sem taka sæti á framboðslistum og gegna trúnaðarstörfum fyrir flokka sína innan sveitarstjórna. Þetta er viðkvæmt mál og eðlileg krafa fjölda fólks um að tekið sé á því.

Þó að Björn Ingi sé ágætismaður og hafi að mörgu leyti staðið sig vel á vettvangi stjórnmála er óverjandi að reyna að verja svona verklag og það er svo sannarlega ekki til fyrirmyndar.


Dorrit Moussaieff kona ársins

Dorrit og Ólafur Ragnar Það kom mér ekki mjög á óvart að Dorrit Moussaieff, forsetafrú, skyldi verða valin kona ársins. Hún hefur vissulega verið áberandi kona á þessu ári, rétt eins og öll þau ár sem hún hefur verið við hlið Ólafs Ragnars Grímssonar af hálfu forsetaembættisins frá árinu 1999, allt í senn sem framandi kona sem fáir þekktu, unnusta forsetans eftir frægan blaðamannafund og giftinguna á sextugsafmæli forsetans.

Ég skal fúslega viðurkenna að mér finnst það sorglegt að Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, forsetafrú, fyrri eiginkona Ólafs Ragnars, var aldrei valin kona ársins af Nýju lífi. Fannst mér það með ólíkindum að hún skyldi ekki vera valin kona ársins 1996, eftir glæsilegan sigur Ólafs Ragnars í forsetakjörinu, sem margir hafa, þ.á.m. ég, eignað henni með mjög áberandi hætti, eða árið 1997 í kjölfar erfiðrar baráttu við hvítblæði sem síðar leiddi hana til dauða. Guðrún Katrín vann sinn stærsta persónulega sigur í þeirri erfiðu baráttu.

Ég verð að viðurkenna að ég var einn þeirra landsmanna sem syrgði Guðrúnu Katrínu mjög. Hún var okkur öllum harmdauði. Það var sorglegt að henni gafst ekki lengri tími til verka af hálfu þjóðarinnar. Það er og hefur alla tíð verið mín skoðun að Guðrún Katrín hafi verið hinn stóri sigurvegari forsetakosninganna 1996. Hún heillaði þjóðina, hún kom, sá og sigraði. Ólafur Ragnar var með henni, eins og við segjum. Það er mitt mat. Með því kasta ég ekki rýrð á Ólaf Ragnar, hann hefur sjálfur margoft sagt hver hlutur Guðrúnar Katrínar var. Hinsvegar deili ég ekki um það að Ólafur Ragnar á sína kosti, t.d. er hann góður ræðumaður.

Guðrún Katrín Persónulega gleymi ég aldrei því þegar að Guðrún Katrín kom hingað norður á listviðburð skömmu eftir að hún veiktist fyrra sinni af sjúkdómnum sem felldi hana að lokum. Þá bar hún túrban á höfði til að hylja ummerki sjúkdómsins í kjölfar erfiðrar lyfjameðferðar, sem reyndi mjög á hana og fjölskyldu hennar. Síðar um þetta vor hætti hún að ganga með hann og var fyrirmynd annars fólks um að veikindi eru ekki feimnismál og ég veit sem er að hún hafði áhrif á marga sem þurfa að berjast við erfið veikindi af þessu tagi.

Framlag Guðrúnar Katrínar í þessari erfiðu baráttu skiptu því fleira máli en þá sem næst henni stóðu. Ég skal því fúslega viðurkenna að ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir þessari konu. Guðrún Katrín var alþýðuhetja, það var bara þannig. Hún heillaði þjóðina sem slík. Því hef ég aldrei skilið af hverju Nýtt líf valdi hana aldrei sem konu ársins, eflaust bjóst fólk að hún hefði sigur í glímunni við sjúkdóminn. Margir vildu ekki trúa því undir lokin að hún væri að deyja.

Guðrún Katrín var þjóðinni allri mikill harmdauði og sorg landsmanna var mikil á sínum tíma þegar að hún dó og þjóðarsorg er rétta orðið yfir það þegar að komið var með kistu hennar heim frá Seattle og við jarðarförina í október 1998. Dorrit Moussaieff er kona annarrar gerðar og úr öðrum menningarheimum. Ég ber vissulega mikla virðingu fyrir Dorrit, hún er stórglæsilegur fulltrúi þjóðarinnar. Ég skil vel af hverju hún er valin og mér finnst hún eiga þennan titil skilið og óska henni til hamingju með hann.

mbl.is Dorrit Moussaieff valin kona ársins 2006
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatískt afmælisár Framsóknarflokksins

Halldór Ásgrímsson Framsóknarflokkurinn varð níræður um helgina. Það verður seint sagt að þetta afmælisár hafi verið markað sælu fyrir þennan elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins. Halldór Ásgrímsson hætti þátttöku í stjórnmálum á árinu, eftir rúmlega þriggja áratuga stjórnmálaferil og tólf ára flokksformennsku. Hann hætti eftir slæma útkomu flokksins víða í sveitarstjórnarkosningum, en mun þó hafa kortlagt starfslokin vel áður. Halldór kvaddi forsætisráðherraembættið á eftirminnilegum blaðamannafundi á Þingvöllum annan dag hvítasunnu.

Formennsku Framsóknarflokksins og flokkskjarnann kvaddi Halldór formlega á flokksþingi í ágúst með hjartnæmri ræðu - ræðu þar sem hann fór yfir feril sinn og lykilverkefni. Það var í senn ræða tilfinninga og styrkleika, en ekki uppgjörs, merkilegt nokk. Það blasti við öllum sem upplifðu forsætisráðherraferil Halldórs að honum tókst aldrei sem skyldi að festa sig í sessi. Hver vandræðin komu fram ein af öðrum og svo fór sem fór. Að því kom að þáttaskil voru óumflýjanleg. Halldór fór greinilega sorgmæddur af velli, enda varð leki af ákvörðun hans til að leggja planað skipulag hans við framtíðarforystu flokksins í rúst. Hann lenti í þeirri stöðu að hafa ekki stjórn á endalokunum. Spinnið fór í rúst.

Halldór hafði í hyggju að tryggja samstöðu um Finn Ingólfsson, fyrrum viðskiptaráðherra og forvera Guðna Ágústssonar á varaformannsstóli, sem nýjan formann, eftirmann sinn. Vandinn í stöðunni varð fyrrnefndur Guðni. Samkomulag um Finn dagaði uppi er Guðni sneri við blaðinu og hætti við að hætta með Halldóri, eins og var um tíma talað um. Á blaðamannafundinum á Þingvöllum talaði Halldór fallega um Finn, allir skildu meiningu þeirra orða. Guðni varð æfur og strunsaði fúll í bragði frá Þingvöllum. Frægt varð þegar að fjölmiðlamenn eltu hann að bíl sínum á staðnum. Guðni leit á vinnulag Halldórs sem svik við sig og hið sama gilti um Halldórsarm flokksins sem kenndi Guðna um að samstaða um Finn væri af borðinu.

Snemma morguninn eftir blaðamannafundinn réðist Valgerður Sverrisdóttir, einn nánasti pólitíski samstarfsmaður Halldórs, af krafti að Guðna á Morgunvakt Rásar 1. Valgerður sagði að Guðni væri orðinn of gamall til að verða formaður flokksins. Valgerður vildi ekki neita því hvort hún sæktist eftir formennsku sjálf. Á ríkisstjórnarfundi síðar sama morgun sagði Guðni aðspurður vegna viðtalsins orðrétt við fjölmiðla: "Ég er árinu eldri en Valgerður". Kalt stríð var skollið á innan flokksins og hörð orð féllu í allar áttir. Síðar sama dag lýsti Finnur því formlega yfir að hann sæktist ekki eftir formennsku. Halldórsarminum vantaði skyndilega formannsefni. Í Kastljósi sama kvöld útilokaði Guðni í stjörnuframmistöðu ekki formannsframboð.

Væringar héldu áfram og deilt var um tímasetningu flokksþings, þar sem formannskjör færi fram. Samstaða var ekki heldur enn orðin ljós á þessu stigi hvenær Halldór hætti og ráðherrakapall Framsóknarflokksins virtist upp í loft án aðkomu Halldórs sem ráðherra. Sjálfstæðisflokkurinn tók að ókyrrast og vildi að Framsóknarflokkurinn tæki af skarið ef hann ætti að vera metinn samstarfshæfur stundinni lengur. Útlit var orðið jafnvel fyrir haustkosningar og upplausn stjórnarsamstarfsins. Framsókn gat ekki horfst í augu við kosningar á þessum tímapunkti. Á síðustu stundu fyrir miðstjórnarfund náðu Halldór og Guðni samkomulagi með öðrum ráðherrum um tímasetningu flokksþings og lykildeilum frestað um tíma, settlað yfir hásumarið.

Samstaða náðist daginn eftir miðstjórnarfundinn, 10. júní, um skipan ráðherraembætta. Skipan embætta varð að nýju með sama hætti og varð áður en Halldór Ásgrímsson varð forsætisráðherra. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut forsætið en missti utanríkis- og umhverfisráðuneytið í hrókeringunni. Jón Kristjánsson ákvað að hætta í ríkisstjórn með Halldóri, en sitja hinsvegar áfram á þingi fram til kosninga. Geir Haarde varð forsætisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir varð utanríkisráðherra fyrst kvenna, Magnús Stefánsson varð félagsmálaráðherra og Jónína Bjartmarz varð umhverfisráðherra í stað Sigríðar Önnu Þórðardóttur sem missti ráðherrastól og ákvað skömmu síðar að hætta í stjórnmálum.

Merkilegustu tíðindi hrókeringanna var að Jón Sigurðsson, seðlabankastjóri, varð viðskiptaráðherra í stað Valgerðar. Hann fórnaði bankastjórastól fyrir ótrygga tilveru stjórnmálanna. Innkoma Jóns kom sem þruma úr heiðskíru lofti fyrir stjórnmálaspekúlanta. Með ákvörðun um að hann yrði ráðherra þótti mörgum opinberast flétta Halldórsarmsins. Jóni væri ætlað að taka við forystu flokksins og fara í formannsframboð. Greinilegt var að innkoma hans sló Guðna út af laginu. Það var ennfremur gríðarlegt áfall fyrir Guðna sem varaformann flokksins að missa lykilráðuneyti að hálfu flokksins til Valgerðar Sverrisdóttur. Halldór og hans menn undirbjuggu greinilega vel fléttu mála og hún var listilega sniðin.

Reyndar var hún svo listilega sniðin að ljóst varð að Guðni átti við ramman reip að draga, enda Jón gamalreyndur innan flokksins og þar með marga bandamenn. Undir lok júnímánaðar lýsti Jón formlega yfir formannsframboði sínu í Morgunblaðinu. Hann varð á undan Guðna, sem byrjaði að hopa stig af stigi. Svo fór að hann ákvað að gefa áfram kost á sér til varaformennskunnar. Þá þegar hafði Jónína Bjartmarz tilkynnt um varaformannsframboð sitt. Lengi vel þótti stefna í að Jón yrði einn í kjöri til formennsku. Frægt viðtal við hann á NFS í júlí þótti klúðurslegt og Helgi Seljan sótti af krafti gegn Jóni, sem þótti orða hlutina klúðurslega. Hann missti heilagahjúp og svo fór að Siv Friðleifsdóttir ákvað formannsframboð sitt og tilkynnti það 10. ágúst.

Framan af formannsslagsins þótti Jón vera með örugga stöðu. Siv sótti að krafti og enginn vissi hvert stefndi er á hólminn kom í formannskjörinu sem fram fór á seinni flokksþingsdeginum þann 19. ágúst. Svo fór að Jón var kjörinn formaður, sá þrettándi í röðinni. Jón hlaut 412 atkvæði eða tæp 55%. Siv Friðleifsdóttir hlaut 336 atkvæði eða rúm 44%. Þótti Siv koma vel frá kosningunni og geta vel við unað. Guðni Ágústsson var endurkjörinn varaformaður og hlaut rúm 60% atkvæða og örugga kosningu. Þegar þarna kom sögu drógu Birkir Jón Jónsson og Kristinn H. Gunnarsson ritaraframboð sín til baka, enda krafa um konu í embættið. Svo fór að Sæunn Stefánsdóttir, eftirmaður Halldórs á þingi, var kjörin ritari.

Halldór sagði af sér þingmennsku formlega þann 5. september. Þrátt fyrir uppstokkun mála og miklar breytingar innan flokksins hækkaði fylgi hans ekki í skoðanakönnunum. Er líða tók að kjördæmisþingum til að ákveða aðferðir við val á framboðslistum varð örvænting áberandi þar innan veggja. Í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi var prófkjörsleið ákveðin, í Reykjavíkurkjördæmum var valin uppstilling og í Suðvestur- og Norðausturkjördæmi var ákveðið að velja á listana á tvöföldu kjördæmisþingi. Í Norðvesturkjördæmi féll Kristinn H. Gunnarsson, harður andstæðingur ráðandi afla innan flokksins úr öruggu þingsæti og flest bendir til að hann horfi í aðrar áttir. Óvissa er yfir stöðu mála í því kjördæmi nú.

Í skugga lækkandi fylgis ákvað Jón að snúa af braut Halldórs Ásgrímssonar í Íraksmálinu þann 25. nóvember á miðstjórnarfundi. Sagði hann ákvarðanir stjórnvalda um Írak árið 2003 hafa byggst á röngum upplýsingum og hafi því verið rangar eða mistök. Þótti þetta athyglisvert innlegg. Var klappað lengi fyrir Jóni er hann mælti þessi orð á fundinum og var greinilegt að þetta mál hafði lengi hvílt á flokknum. Verður fróðlegt að sjá hvort ummæli formannsins hafi áhrif í skoðanakönnunum eftir jólin. Fleiri þáttaskil en þessi voru merkileg fyrir flokkinn á árinu en í marsbyrjun hætti Árni Magnússon, ein helsta vonarstjarna flokksins, í stjórnmálum við undrun margra. Hann hélt til starfa hjá Glitni.

Á nýársdag verður Halldór Ásgrímsson framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, staðsettur í Kaupmannahöfn. Á sama tíma og Halldór verður að hefja störf í fjarlægri borg reyna samstarfsmenn hans og lykilráðgjafar að snúa vörn í sókn fyrir flokkinn sem hann leiddi í 12 ár - snúa honum á sigurbraut eftir margra ára erfiðleika, en segja má að allt kjörtímabilið hafi verið ein sorgarsaga fyrir Framsóknarflokkinn. Það verður erfitt verkefni að snúa Framsókn í sigursveit eins og staðan er. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það verkefni gengur næstu mánuðina. Lífróður er orðið sem manni dettur helst í hug yfir pólitískt verkefni Jóns Sigurðssonar á næstunni. 

Ég er maður ársins hjá TIME

TIME Ég hef verið valinn maður ársins 2006 af TIME-tímaritinu. Þetta er enginn smáheiður sem mér hlotnast með þessu. Reyndar er ég ekki einn um heiðurinn. Já, þú skilur, þú ert reyndar maður ársins líka. Það er nefnilega þannig mál með vexti að hinn nafnlausi veraldarvefsnotandi er maður ársins hjá TIME árið 2006.

TIME kemur öllum á óvart með valinu í ár. Það er bæði frumlegt og djarft. Mjög flott hjá þeim. Notendur alls þess sem gerist á veraldarvefnum eiga þennan heiður skilið. Ég hef bloggað í rúm fjögur ár samfellt, án nokkurs hlés, og skrifað ótalmargar netfærslur. Þetta hefur því verið líf manns og yndi.

Notandi veraldarvefsins er skv. skýringum blaðsins valinn fyrir þátt sinn í að almannavæða veraldarvefinn með því að halda úti bloggsíðum, setja myndefni inn á vefsvæðið YouTube og fleiri grunnvefum netsamfélagsins.

Hafi TIME kæra þökk fyrir frumlegt og gott val. Það markar tímamót.

Íbúar flytja í tvíburablokkirnar í Þórunnarstræti

TvíburablokkirnarFyrstu íbúarnir fluttu um helgina inn í tvíburablokkirnar hér neðar í Þórunnarstrætinu. Blokkirnar standa á hinum svokallaða Baldurshagareit, rétt við styttu landnámshjónanna Helga magra og Þórunnar Hyrnu á Hamarkotsklöppum og er ská á móti verslunarmiðstöðinni Glerártorgi, sem bráðlega stækkar um helming.

Bygging blokkanna var gríðarlega umdeild og var eitt mesta hitamál í bænum á síðasta kjörtímabili. Mest voru átökin á árinu 2004 og stóðu fram á árið 2005, en framkvæmdir hófust í júlí 2005. Tvíburaturnarnir hafa fengið nöfnin Baldurshagi og Myllan. Hef ég frá upphafi verið hlynntur því að byggja þessar blokkir og get því ekki annað en verið ánægður með það að byggingu þeirra sé lokið, en þær munu setja mikið mark hér á götuna hér eftir.

40 íbúðir eru í blokkunum tveim og eru þær ætlaðar eldri borgurum fyrst og fremst, eða 60+ eins og sagt er. Skv. fréttum hefur vinna við hverja íbúð tekið 14,2 daga að meðaltali. Hefur semsagt heldur betur gengið vel.


mbl.is Voru 14,2 daga með hverja íbúð!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi tímar framundan fyrir bíófíklana

Óskarinn Það eru spennandi mánuðir framundan fyrir okkur kvikmyndafíklana. Það eru margar góðar kvikmyndir væntanlegar fljótlega í bíó. Það sést vel af tilnefningum til Golden Globe verðlaunanna sem kynntar voru í vikunni að áhugaverðar og flottar myndir eru í hverju plássi og leikframmistöðurnar sem tilnefndar eru líta hver annarri betur út. Það má búast við að þessar tilnefningar setji mark sitt ennfremur á Óskarsverðlaunin, en t.d. hlutu allir sigurvegar leikaraverðlaunanna á Óskarnum í febrúar Golden Globe mánuði áður.

Þessi árstími og fyrstu mánuðir ársins eru oftast nær besti tími ársins í bíó, en þá koma Óskarsverðlaunamyndirnar og helsta gæðaefnið á hverju ári. Sérstaklega hlakkar mér til að sjá myndir á borð við Dreamgirls (kvikmynd Bill Condon) sem sögð er alveg virkilega góð og hefur hlotið mikið lof kvikmyndagagnrýnenda sérstaklega fyrir góðan leik Jennifer Hudson og Eddie Murphy, Little Children (kvikmynd Todd Field) með Kate Winslet og Jennifer Connelly, Bobby (kvikmynd leikarans Emilio Estevez) sem lýsir atburðunum á Ambassador hótelinu 5. júní 1968 - daginn sem Bobby Kennedy var myrtur, og Little Miss Sunshine með Toni Collette.

Það sem kom mér mest í opna skjöldu með Golden Globe var að Babel skyldi verða tilnefnd til fleiri verðlauna en The Departed. Ég hef heyrt mikið um það að Babel sé reyndar gríðarlega sterk og öflug kvikmynd, sem jafnvel geti komið á óvart á Óskarnum. Babel er leikstýrð af Alejandro González Iñárritu og skartar Brad Pitt og óskarsverðlaunaleikkonunni Cate Blanchett, sem hlaut Óskarinn árið 2005 fyrir The Aviator. Þessi mynd er að mér skilst alveg fullkomin og með allan pakkann. Kemur líka úr nokkuð óvæntri átt, enda áttu menn ekki von á henni svona sterkri í verðlaunapakkann eins og raun ber vitni. Sérstaklega lofa menn leik Brad Pitt í henni og hann sýni þar sitt allra besta til þessa í leik. Þetta er allavega mynd sem ég ætla mér að sjá.

Önnur mynd sem ég tel lofa góðu og verða sigursæla er The Last King of Scotland, en þar leikur Forest Whitaker sjálfan Idi Amin, fyrrum harðstjóra í Úganda, víst með svo miklum bravör að farið er að slá því föstu að hann fái bæði Golden Globe og Óskarinn. Hún er víst sögð allt í senn heillandi, óvægin, magnþrungin og blóðug. Þetta er mynd sem mun klárlega verða vinsæl í bíó er á klakann kemur. Whitaker hefði fyrir löngu átt að verðlauna fyrir sínar góðu leikframmistöður, t.d. fannst mér hann mjög góður í hlutverki Jody í The Crying Game, kvikmyndaperlu írska leikstjórans Neil Jordan. Svo ætla ég hiklaust að sjá Blood Diamond, en þar sýnir Leonardo DiCaprio víst ekki síðri snilldartakta en í The Departed.

Peter O´Toole á glæsilegt comeback skilst manni í myndinni Venus, og það er mynd sem ég verð að sjá sem mikill aðdáandi kvikmynda þessa 75 ára leikara. O´Toole er tilnefndur til Golden Globe og fær væntanlega Óskarstilnefningu. Hann hefur þegar hlotið átta slíkar á löngum og glæsilegum leikferli, en aldrei unnið. Hann hlaut heiðursóskarinn árið 2003 og þáði hann með þeim orðum að hann hefði nú helst viljað fá þann gyllta með öðrum hætti. O´Toole mun víst tjá karakterinn sinn í myndinni, Maurice, með miklum glæsibrag og spurning hvort hann fái loks aðalleikaraóskar eftir langa og stranga bið. Það er reyndar með ólíkindum að hann fékk ekki verðlaunin fyrir Lawrence of Arabia eða The Ruling Class.

Spænski leikstjórinn Pedro Almodovar er mikill snillingur. Hann hefur nokkrum sinnum hlotið óskarinn og Golden Globe, bæði fyrir myndir sínar og kvikmyndahandrit. Nú kemur frá honum enn ein eðalmyndin að manni skilst, Volver. Þar mun Penolope Cruz eiga mikinn stórleik og hún nokkuð trygg með óskarstilnefningu. Sem mikill aðdáandi kvikmynda Almodovars er bókað að ég sjái auðvitað Volver. Dame Judi Dench er enn einu sinni tilnefnd, nú fyrir leik sinn í kvikmyndinni Notes on a Scandal, þar sem hún leikur með Cate Blanchett. Enn ein myndin á listann. Maggie Gyllenhaal mun eiga stjörnuleik í kvikmynd sem ber heitið SherryBaby, hef heyrt vel talað um myndina og leik hennar. Nauðsynlegt að sjá hana.

Áður hef ég hér fjallað um kvikmyndina The Queen, en ég tel að Helen Mirren fái óskarinn fyrir að leika Elísabetu II drottningu. Hún hefur verið í bíó og kemur væntanlega fyrr en síðar á kvikmyndaleigurnar. En lengi má telja upp. Margar eðalmyndir á leiðinni og spennandi tími framundan eftir jólin í bíói hjá okkur kvikmyndafíklunum. Ef þið hafið fleiri myndir í pottinn en þessar er velkomið að bæta við og fara betur yfir þetta allt.

mbl.is Ólíklegt að Eastwood og DiCaprio fá tvöföld Óskarsverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján Þór skrifar um dramadrottningu

Kristján Þór Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri og nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, kallar Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, borgarfulltrúa, dramadrottningu í nýjum pistli á bloggvef sínum þar sem hann svarar umfjöllun Steinunnar Valdísar á sviptingasömum stjórnarfundi Landsvirkjunar, sem var síðasti stjórnarfundur þeirra beggja innan Landsvirkjunar en ríkið hefur nú keypt hluti bæði Akureyrarbæjar og Reykjavíkurborgar í fyrirtækinu. Auk þessa hættir Kristján Þór sem bæjarstjóri á Akureyri þann 9. janúar nk. og verður þá forseti bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar.

Orðrétt segir Kristján Þór á bloggvef sínum:

"Steinunni Valdísi Óskarsdóttur er eflaust margt til lista lagt en það liggur ekki sérlega vel fyrir henni að lýsa veruleikanum með raunsönnum hætti og beinir hún þeim tilmælum til fólks að það ,,geti bara bloggað úr sér pirringinn” ef eitthvað er að angra það."

"Það skal fúslega viðurkennt að við Vilhjálmur lögðum ekki undir flatt og hlýddum uppnumdir í anda jólanna á þennan margflutta boðskap. Við leyfðum okkur að vera á öndverðri skoðun. Af einhverjum ástæðum kýs Steinunn Valdís að reyna að spinna úr því mikið drama um karlrembu, horka og diss.  Pirringurinn í kolli hennar virðist hafa verið það mikill eftir stjórnarfundinn að dramadrottningin hefur tekið völdin og drifið sig á bloggið til að fá útrás."

Lífleg og góð bloggsíða hjá kjördæmaleiðtoga okkar sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi. Fagna því enn og aftur hér á þessum vettvangi að Kristján Þór heldur áfram að blogga eftir þingprófkjörið í síðasta mánuði. Það er greinilegt að þetta verður lifandi vettvangur Kristjáns Þórs áfram í pólitík, á nýjum vettvangi í kosningabaráttunni sem hefst formlega eftir jólin.


mbl.is Steinunn Valdís vildi bíða þess að ríkið yfirtæki Landsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegt

Minningarkrossinn í Kirkjugarði Akureyrar Það er sorglegt að heyra af enn einu banaslysinu í umferðinni, nú aðeins rúmri viku fyrir jólin. Árið 2006 er að verða sorglegasta árið í umferðinni hérlendis. 30 hafa nú látist í umferðarslysum hérlendis. Það er nístandi sársauki sem fylgir því að heyra fréttir af öllum þessum umferðarslysum, þau eru orðin svo mörg á þessu ári að maður veit að margar fjölskyldur verða í sárum þessi jólin, sem senn hefjast.

Í grunninn séð vekja þessi sorglegu umferðarslys okkur öll til lífsins í þessum efnum, eða ég ætla rétt að vona það. Dapurleg umferðarslys seinustu vikna og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa í skelfilegum umferðarslysum á að vera okkur vitnisburður þess að taka til okkar ráða - það þarf að hugleiða stöðu mála og reyna að bæta umferðarmenninguna. Það er lykilverkefni að mínu mati.

mbl.is Banaslys á Álftanesvegi í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

90 ára afmæli Framsóknarflokksins

Framsóknarflokkurinn Framsóknarflokkurinn fagnar 90 ára afmæli sínu í dag. Hann er elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins (stofnaður sama ár og Alþýðuflokkurinn) og hefur í áratugi verið ráðandi um stjórn landsmála og sveitarstjórna. Sex formenn Framsóknarflokksins hafa orðið forsætisráðherrar Íslands. Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sem tók við formennsku flokksins í ágúst af Halldóri Ásgrímssyni, fyrrum forsætisráðherra, skrifar langa og athyglisverða grein um sögu flokksins og markmið hans á afmælinu í Fréttablaðinu í dag.

Staða Framsóknarflokksins hefur oftast í lýðveldissögunni verið með þeim hætti að hann hefur verið í oddastöðu við stjórnarmyndanir. Hann hefur oft getað myndað stjórnir eða verið í lykilhlutverki við að byggja upp ríkisstjórn. Þetta sást mjög vel er viðreisnarstjórnin féll árið 1971 og árið 1978 er vinstriflokkarnir, sigurvegarar þeirra kosninga með 28 þingsæti af 60, gerði Ólaf Jóhannesson að forsætisráðherra, en í þeim kosningum hafði Framsókn tapað stórt, misst fimm þingsæti í erfiðri stöðu. Framsókn var svo í oddastöðu við myndun ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens og er þriggja flokka stjórn Þorsteins Pálssonar féll árið 1988.

Framsóknarflokkurinn hefur nær samfellt verið í ríkisstjórn frá árinu 1971, er viðreisnarstjórnin féll. Hann var utan stjórnar meðan minnihlutastjórn Benedikts Gröndals sat 1979-1980 og svo meðan að Viðeyjarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sat 1991-1995. Frá alþingiskosningunum 1995 hefur Framsóknarflokkurinn verið í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var forsætisráðherra samstarfsins 1995-2004, en Halldór Ásgrímsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, var forsætisráðherra 2004-2006.

Í kjölfar ákvörðunar Halldórs um að hætta í stjórnmálum í sumar varð Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra, og Framsóknarflokkurinn gaf eftir stjórnarforsætið með athyglisverðum hætti. Á afmælisárinu mælist þessi tímamótaflokkur með innan við 10% fylgi í skoðanakönnunum og hefur dalað verulega í sveitarstjórnum þar sem flokkurinn hafði gríðarleg áhrif í; t.d. varð Framsóknarflokkurinn fyrir gríðarlegu áfalli í sveitarstjórnarkosningunum 2006 bæði á Akureyri og í Kópavogi.

Á afmælisárinu stendur því þessi elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins á krossgötum og á fyrir höndum erfiða kosningabaráttu, þar sem flest stefnir í að fylgi hans minnki umtalsvert.


Formannatal Framsóknarflokksins

Ólafur Briem 1916-1920
Sveinn Ólafsson 1920-1922
Þorleifur Jónsson 1922-1928
Tryggvi Þórhallsson 1928-1932
(forsætisráðherra 1927-1932)
Ásgeir Ásgeirsson 1932-1933
(forsætisráðherra 1932-1934)
Sigurður Kristinsson 1933-1934
Jónas Jónsson 1934-1944
Hermann Jónasson 1944-1962
(forsætisráðherra 1934-1942; 1956-1958)
Eysteinn Jónsson 1962-1968
Ólafur Jóhannesson 1968-1979
(forsætisráðherra 1971-1974; 1978-1979)
Steingrímur Hermannsson 1979-1994
(forsætisráðherra 1983-1987; 1988-1991)
Halldór Ásgrímsson 1994-2006
(forsætisráðherra 2004-2006)
Jón Sigurðsson frá 2006

mbl.is Framsóknarflokkurinn 90 ára í dag; fylgið sjaldan minna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndislegir jólatónleikar í Glerárkirkju

Glerárkirkja Þeir voru alveg yndislegir jólatónleikarnir sem ég fór á í Glerárkirkju í kvöld. Maður komst endanlega í þessa eðalgóðu jólastemmningu þessa góðu kvöldstund, rúmri viku fyrir jólin. Okkur viðskiptavinum Sparisjóðs Norðlendinga var boðið til sannkallaðrar tónlistarveislu og þakka ég kærlega stjórnendum Sparisjóðsins fyrir höfðinglegt og gott boð.

Á tónleikunum fluttu Regína Ósk Óskarsdóttir, Karlakór Eyjafjarðar og stúlknakór Akureyrarkirkju gullfalleg jólalög, sem nutu sín vel í sneisafullri kirkjunni, en tveir tónleikar af þessu tagi voru haldnir í kvöld. Mikil aðsókn var á tónleikana, enda ekki á hverjum degi sem viðskiptavinum er boðið hér til slíkrar tónlistarveislu. Fór ég á fyrri jólatónleikana, kl. 20:00.

Senuþjófur tónleikanna var svo sannarlega Regína Ósk, en hún er svo sannarlega ein af bestu söngkonum landsins. Auk nokkurra jólalaga flutti hún nokkur lög af nýrri geislaplötu sinni, t.d. Eurovision-lagið Þér við hlið, sem varð í öðru sæti í undankeppninni hér heima í febrúar. Hefur mér alltaf fundist að það lag hefði átt að vinna og fara út fyrir okkar hönd, enda besta lagið í keppninni.

En þetta var semsagt notalegt og gott kvöld. Gestur Einar Jónasson fór alveg á kostum sem kynnir á tónleikunum og kom með góða og netta brandara svona inn á milli atriða sem léttu þessa kvöldstund enn frekar. Við sem vorum á tónleikunum fórum allavega glöð í hjarta heim á leið að tónleikum loknum.

Þakka enn og aftur Sparisjóði Norðlendinga fyrir gott boð og tónlistarfólkinu fyrir að koma okkur endanlega í hið eina sanna jólaskap. Nú styttist mjög í jólin og sem betur fer er ég búinn að nær öllu fyrir jólin.

Dramatík í Hádegismóum

Sigurjón M. Egilsson Það hefði verið fróðlegt að vera fluga á vegg á ritstjórnarskrifstofum Blaðsins í Hádegismóum í morgun þegar að yfirstjórnin rak Sigurjón M. Egilsson, ritstjóra, á dyr og tilkynnti honum að lögbanns yrði krafist á hann og verk hans á vettvangi fjölmiðla færi hann að starfa fyrir aðra slíka næstu sjö mánuðina. Þetta eru harkalegar aðgerðir. Brigsl ganga á báða bóga um svik á samningum og kuldalegt viðmót blasir við Sigurjóni þegar að hann yfirgefur Blaðið, sem hann var ráðinn til ritstjórastarfa fyrir í sumar.

Er búið að vera fróðlegt að taka netrúntinn í dag og skoða umfjöllun um þetta. Fjölmiðlaspekúlantarnir á netvellinum voru ekki lengi að skúbba þessu og koma með sína sýn á stöðu mála eftir dramatík morgunsins í Hádegismóum. Sigurjón sjálfur, sem er bloggari hér í samfélaginu okkar, hefur sagt sína hlið mála og kemur þar með það innlegg að leiðaraskrif hans í dag hafi getað verið ástæða uppsagnarinnar með þessum hætti. Mun líklegra er þó að þar hafi ráðið orðrómur um að Sigurjón horfði í aðrar áttir starfslega séð við fjölmiðla.

Uppsagnarbréfið er mjög kuldalegt, svo ekki sé nú meira sagt, og greinilegt að milli aðila var algjör trúnaðarbrestur orðinn. Það er varla undrunarefni að Blaðið horfi í smáa letur samnings síns við Sigurjón og vilji taka hann úr umferð meðan samningsmörkin ganga yfir. Það er alþekkt að fólk á t.d. ljósvakafjölmiðlum getur ekki labbað milli stöðva einn, tveir og þrír. Gott dæmi hafa verið Sirrý, Helgi og Svansí sem voru neydd til að bíða af sér uppsagnarfrestinn og eða voru sett í hrein skítverk á bakvið tjöldin meðan að mörk samnings kláruðust eða hreinlega neydd til að bíða utan sviðsljóssins eftir því.

Það er greinilegt að bitur og beitt deila er framundan milli Sigurjóns og Blaðsins til að reyna á lögbannið fyrrnefnda um að Sigurjón geti ekki starfað við fjölmiðla fyrr en seint sumars 2007. Fróðlegt verður að fylgjast með því og ekki síður frekari kjaftasögum af Sigurjóni og því hvað hann hyggst gera nú við þessi kuldalegu útgöngu hans í Hádegismóum á þessum föstudegi.

mbl.is Sigurjóni M. Egilssyni hótað lögbanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband