Aðför Jóhönnu að Ingimundi og Eiríki

Aðför Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, að seðlabankastjórunum Eiríki Guðnasyni og Ingimundi Friðrikssyni sem hluta af augljósri pólitískri hefndarför að Davíð Oddsssyni er nauðaómerkileg. Litið er algjörlega framhjá því að Eiríkur og Ingimundur eru vel menntaðir hagfræðingar, grandvarir og heiðarlegir menn, og hafa starfað í Seðlabankanum áratugum saman; Eiríkur frá árinu 1969 og Ingimundur frá árinu 1972. Aldrei hefur komið fram af hverju þeir eiga að víkja og rökstuðningurinn er vægast sagt þunnur þrettándi og ekki tækur í raun.

Jóhanna sagði sjálf í vikunni að þeir hefðu staðið sig vel í embætti og ekki væri verið að finna að störfum þeirra. Hverju er þá verið að finna að? Hvers vegna eru hagfræðingar í fremstu röð sem hafa lengi unnið í bankanum hraktir út án þess að fyrir því séu einhver rök og haldbær málatilbúnaður. Vinnubrögð og verklag Jóhönnu er til skammar, enda er lágmark að fyrir ákvörðunum séu ástæður sem eru haldbærar en ekki blaður út i bláinn.

Því miður eru þetta hreinsanir og þær fara fram vegna haturs og hefnigirni í garð eins manns. Ekkert annað býr að baki.

mbl.is Vill að Eiríkur hætti strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn fer langt yfir strikið - embættið í rúst

Ólafur Ragnar Grímsson fór langt yfir strikið með því að tala um málefni Kaupþings í viðtali við þýsku útgáfu Financial Times, burtséð frá því hvað hann sagði. Blaðið stendur reyndar við umfjöllun sína og tekur ekkert mark á yfirlýsingum forsetans um að rangt hafi verið eftir honum haft. Eflaust væri réttast að blaðamaðurinn birti upptökur af viðtalinu svo við fáum að heyra. Mér finnst það eðlilegt næsta skref að allt liggi fyrir og þetta mál sé klárað hreint út en ekki með misvísandi yfirlýsingum forseta og blaðamanns.

Enginn vafi leikur á því að forsetinn er að leggja forsetaembættið í rúst með vanhugsuðum yfirlýsingum sínum og dómgreindarleysi. Þeir tímar eru löngu liðnir að forsetaembættið njóti virðingar og sé sameiningartákn íslensku þjóðarinnar. Á örfáum árum hefur Ólafur Ragnar lagt í rúst gott orðspor þess, einkum frá forsetatíð Kristjáns Eldjárns og Vigdísar Finnbogadóttur, forseta sem risu yfir dægurþrasið og sameinuðu þjóðina jafnt á örlagatímum sem og í hversdagslegum aðstæðum.

Ólafur Ragnar ætti alvarlega að íhuga að segja af sér embætti til að lágmarka skaðann sem hann hefur valdið þjóðinni á alþjóðavettvangi með vanhugsuðu tali sínu.

mbl.is Skapstóri forsetinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hávær en fámenn mótmæli við Seðlabankann

Mér sýnist mótmælin við Seðlabankann vera mjög fámenn en hávær ef marka má myndir af vettvangi. Ég er reyndar alveg hissa hvað Sturla Jónsson hefur komist upp með það lengi að vera með hávaða úr loftlúðri sem yfirgnæfir allt í kringum hann. Þetta getur varla verið gott fyrir heyrnina hjá þeim sem eru að mótmæla, enda sýnist mér hundurinn sem neyddur er til vistar í þessum mótmælum flýja inn í bankann eftir skjóli frá hávaðanum.

En fámennur hópur getur vissulega framkallað mikinn hávaða og þetta er örugglega eitt besta dæmið um það í seinni tíð.

mbl.is Sturlu bannað að þeyta lúðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barátta Þorgerðar og Bjarna um forystuna í SV

Augljóst er að það stefnir í spennandi prófkjör í Kraganum hjá Sjálfstæðisflokknum. Þar munu Bjarni Benediktsson, formannsframbjóðandi, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, berjast um leiðtogasætið og augljóst að hart verður barist, enda mikið undir. Mér finnst eðlilegt að Bjarni sem formannsframbjóðandi vilji fá leiðtogastólinn í sínu kjördæmi og eðlilegt baráttumál hjá honum við þessar aðstæður. Ég vona að honum muni ganga vel í þeirri baráttu og hafa sigur í þeim efnum.

Framundan eru spennandi tímar hjá Sjálfstæðisflokknum um allt land. Búið er að tímasetja prófkjör hjá flokknum á landsvísu á sama degi, laugardaginn 14. mars, en Reykjavíkurprófkjörið mun hefjast deginum áður. Þetta er mikilvægt, enda eiga flokksmenn við þær aðstæður sem uppi eru að velja framboðslistana og fella dóm yfir þingmönnum og forystumönnum flokksins og nýju fólki gefið tækifæri til að sækjast eftir þingmennsku.

Ég vonast eftir sem mestri uppstokkun víða um land, enda veitir flokknum ekki af því að endurnýja sig.

mbl.is Prófkjör Sjálfstæðisflokks í SV 14. mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorgerður Katrín vill vera áfram varaformaður

Þorgerður Katrín
Ég er ekki undrandi á því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sækist ekki eftir formennsku í Sjálfstæðisflokknum og vilji frekar halda varaformennskunni. Þetta hefur orðið æ augljósara á síðustu dögum. Staðan er einfaldlega þannig að mikilvægt er að næsti formaður Sjálfstæðisflokksins verði utan ráðherrahóps flokksins í síðustu ríkisstjórn. Eflaust mun krafan vera sú að forystunni verði alveg skipt út en Þorgerður Katrín ætlar greinilega að reyna að leiða innra starfið í flokknum af meiri krafti en á síðustu fjórum árum.

Persónulega hef ég ekki tekið afstöðu til hver ég vilji að verði næsti varaformaður. Þorgerður Katrín þarf að endurvinna visst traust að nýju, tel ég, meðal flokksmanna og því alls óljóst að hún verði áfram á þeim stóli. En hún ætlar greinilega að taka þann slag og það ber að virða við hana. Hún hefur verið einn öflugasti forystumaður flokksins á undanförnum árum og virðist njóta mikils stuðnings þrátt fyrir allt, miðað við nýlega könnun. Þar kom sterk staða Bjarna Benediktssonar mjög í ljós.

Ég ætla að styðja Bjarna Benediktsson til formennsku. Ég vil að næsti formaður komi úr hópi óbreyttra þingmanna flokksins á undanförnum árum og sé fulltrúi nýrrar kynslóðar, enda hafa þrír síðustu formenn verið af 68 kynslóðinni. Mikilvægt er að líta til framtíðar. Ég fagna því að ákvörðun Þorgerðar Katrínar liggi fyrir og hún hafi sagt að hún vilji áfram vera í forystu. Nú er það flokksmanna að meta hvort hún eigi að vera þar áfram.

mbl.is Þorgerður Katrín ekki í formannskjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilja engir nema Íslendingar Ólaf Ragnar?

Hvernig getur Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, enn sagt að erlendir fjölmiðlamenn skilji ekki enskuna hans og það sem hann segir? Þetta er orðið neyðarlegt í meira lagi. Hefur það ekki gerst þrisvar eða fjórum sinnum á örfáum vikum að fjölmiðlamenn skilji ekki forsetann og þeir misskilji hann svo rosalega að þeir vitni vitlaust í hann. Er þetta tilviljun eða er forsetinn búinn að spila yfir í tali sínu um stöðuna? Varla er endalaust hægt að leika þennan leik. 

Ólafur Ragnar hefur talað við erlenda ráðamenn árum saman og fulltrúa pressunnar en aldrei misst sig fyrr en þotulífinu og kampavínsboðunum lauk. Orðar hann kreppuna og stöðuna svo vitlaust að enginn skilur hann nema Íslendingar? Á hvaða leið er þessi farsi Bessastaðabóndans?

Hvernig er það, þarf forsetinn ekki að fara að fá sér túlk til að taka með sér í viðtöl?

mbl.is Viðtalið tekið úr samhengi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn eitt klúðrið hjá Ólafi Ragnari

Enn einu sinni á mjög skömmum tíma hefur Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, spilað sig út í samskiptum við erlenda fjölmiðlamenn. Hvernig er það, talar forsetinn svona lélega ensku að fjölmiðlamenn skilja hann ekki? Af hverju er maðurinn að tala við erlendu pressuna ef hann getur ekki talað skiljanlega við þá? Hversu mikinn skaða hafa forsetahjónin bæði unnið orðspori þjóðarinnar með blaðri sínu að undanförnu?

Ólafur Ragnar hefur gengið of langt í orðavali sínu að undanförnu. Þetta hefur gerst of oft til að teljast tilviljun. Hann á að láta stjórnmálin í friði og sinna sínum störfum ella segja af sér embætti. Hann er búinn að spila sig út í hlutverki sínu á Bessastöðum.


mbl.is Þjóðverjar fái engar bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

IMF tekur völdin - seðlabankafrumvarp í frost

Mér sýnist stjórnarflokkarnir búnir að missa stjórnina á nýju frumvarpi um Seðlabanka Íslands. Ekki aðeins hefur Framsóknarflokkurinn tekið af þeim völdin með því að senda það í viðskiptanefnd heldur er Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn farinn að minna á nærveru sína. Fulltrúi þeirra mun vera á leiðinni til Íslands og leiti sér að húsnæði til að dvelja í. Gárungarnir segja að þetta sé landsstjórinn nýji, með tilvísan til margfrægs titils á fulltrúa Danakonungs á Íslandi fyrr á öldum. Sá maður mun eflaust sækja sér áhrif í ákvarðanatöku á við Sigmund Davíð, leikstjóra vinstrifarsans.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, var reyndar niðurlægð á þingi í dag þegar hún vissi ekki af tilvist bréfs, væntanlega tölvupósts, frá IMF í umræðum um Seðlabankann við Birgi Ármannsson, alþingismann Sjálfstæðisflokksins. Jóhanna var ekki minna vandræðaleg þegar hún beygði sig undir vilja Framsóknarflokksins og hætti við að senda frumvarpið í efnahags- og skattanefnd. Í viðskiptanefnd hafa stjórnarflokkarnir jú aðeins þrjá nefndarmenn, jafnmarga og Sjálfstæðisflokkurinn, en höfðu meirihluta í hinni. Málið er því í nefndastjórn Framsóknar.

Hvað ætli IMF segi annars um brottvikningu Bolla Þórs Bollasonar úr ráðuneytisstjórastöðunni í Stjórnarráðinu? Hagfræðingurinn Bolli, sem var helsti tengiliður stjórnvalda við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, var látinn fara af pólitískum ástæðum, settur í einhver sérverkefni sem sennilega þýðir frekar verkefnaleysi hans fram á vorið, og lögfræðingur settur í staðinn yfir efnahagsráðuneytið. Mjög klókt, eða hitt þó heldur. Mistökin í Stjórnarráðinu eru talin í kippum þessa dagana.

En hvað með það. Þetta var ekki góður dagur fyrir stjórnarflokkana. Auk þessa eru þeir í vandræðum með hvalveiðimálið. Sjávarútvegsráðherrann talar gegn hvalveiðum og virðist digurbarkalegur án innistæðu, enda enginn þingmeirihluti með skoðunum hans. Ef hann hugleiðir það ekki hlýtur einhver að leggja fram vantraust á hann og verklag hans. Tónninn var þannig að augljóst er að tryggur þingmeirihluti er með hvalveiðum.


mbl.is Tæknilegar ábendingar í trúnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetahjónin rífast - skilnaður á Bessastöðum?

Forsetahjónin, Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff, rífast eins og hundur og köttur í viðtali við tímaritið Condé Nast Portfolio um efnahagsmál og stjórnmál. Miðað við samskiptin mætti ætla að skilnaður sé í uppsiglingu á Bessastöðum. Eitthvað virðist hjónabandssælan þar vera farin að súrna og togstreita á milli hjónanna í kreppunni.

Sligelsið í samskiptum þeirra hlýtur að vera eitt mesta pr-klúður hins fjölmiðlavæna forseta útrásarvíkinganna og lítur út eins og skipbrot hjónabandsins. Ræður Ólafur Ragnar ekkert við hjónabandið lengur? Fyndnast af öllu er reyndar þegar Dorrit segist líða eins og eiginkonu araba í vistinni hjá Ólafi Ragnari á Bessastöðum.

Fjörið virðist búið í paradís Bessastaðahjónanna, nú þegar tími kampavínsboðanna og þotulífsins er liðinn.

mbl.is Dorrit segist lengi hafa varað við fjármálahruni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Deilan á milli Óla Klemm og mótmælenda

Eina sem virðist standa eftir að loknum fámennum mótmælum við Seðlabankann í dag er hvort hagfræðingurinn Óli Klemm hafi keyrt á mótmælanda eða mótmælandinn hafi skemmt bíl hagfræðingsins. Sé ekki annað fréttnæmt við atburði morgunsins. Hvor hefur rétt fyrir sér spyrja flestir. Er ekki líklegast að málið fari fyrir dóm. Mér skilst að Óli Klemm ætli að kæra og þá er það annarra að dæma um það.

Mér finnst reyndar þetta orðið að hreinum skrípaleik. Óli Klemm getur varið sig sjálfur. Mótmælendur fóru hinsvegar of langt þegar þeir sendu uppsagnarbréf á vinnustað hans í nafni hans og voru að erindrekast í hans málum. Hvort sem menn eru sammála viðkomandi manni eður ei voru það óviðeigandi aðgerðir.

Mér finnst reyndar öll atburðarás dagsins minna á skrípaleik. Örlög þjóðarinnar ráðast ekki í Seðlabankanum og þar er ekki upphaf og endir vandræða okkar.

mbl.is Ólafur segir mótmælenda hafa skemmt bifreið sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarleg mistök og embættisafglöp Jóhönnu

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, þarf ekki að vera hissa á bréfi Davíðs Oddssonar. Hún gerði alvarleg mistök með bréfasendingunni til hans fyrir nokkrum dögum - framganga hennar á sér engin fordæmi í siðmenntuðum veruleika. Þetta er ekkert annað en embættisafglöp, gengið er fram til að róa órólegu vinstrimennina sem tóku Samfylkinguna yfir á fundinum í Þjóðleikhúskjallaranum. En vinnubrögð hennar eru ekki til sóma af forsætisráðherra þjóðarinnar. Augljóst er að hún vann málið illa og frumvarp hennar um Seðlabankann er handónýtt og lélegt.

Ég leit á bréfið til Davíðs og innihald þess sem hefnd, síðbúna hefnd af hálfu vinstrimanna í garð pólitísks andstæðings. Það var ekki málefnalegt og var aðför að persónu Davíðs Oddssonar. Hún gerði alvarleg mistök að senda slíkt bréf áður en breytingar höfðu verið samþykktar á lögum um Seðlabankann af þinginu. Seðlabanki Íslands á að vera sjálfstæð stofnun og henni er ekki hægt að stjórna með hótunum stjórnmálamanna og valdboði, heift og hefnigirni.

Vinnubrögð Jóhönnu eru henni til skammar. Þetta er klaufaleg og ómerkileg embættisfærsla af hennar hálfu. Hún þarf ekki að vera hissa, þó menn með umboð til að stýra sjálfstæðum Seðlabanka til fyrirfram ákveðins tíma og eru bundnir tímamörkum þar um svari með þessum hætti. Yfirgengilega léleg forysta þeirra kallar á svona svör. Málið var unnið illa af þeirra hálfu og það er talað í kaf. Ekki þarf Davíð Oddsson til þess, en hann skaut málatilbúnað þeirra í kaf.

Kjaftasagan er um að Már Guðmundsson, fyrrum aðalhagfræðingur Seðlabankans, sé seðlabankastjóraefni vinstrimanna á þessum tímum pólitískra hreinsana. Er þetta ekki sá maður sem ber mesta ábyrgð á núverandi stefnu bankans?


mbl.is Lýsir miklum vonbrigðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð ákveður að halda áfram í Seðlabankanum

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, hefur ákveðið að halda áfram sínum störfum og svarar Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í hvassyrtu en málefnalegu bréfi nú síðdegis. Þar bendir hann á að forsætisráðherrann hafi sjálf verið vöruð við af Seðlabankanum, ásamt öðrum ráðherrum í fyrri ríkisstjórn, um hvert stefndi en á það hafi ekki verið hlustað.

Bendir hann ennfremur á að hagfræðingi og fyrrum forstöðumanni Þjóðhagsstofnunar hefur verið bolað úr ráðuneytisstjórastöðu í forsætisráðuneytinu og þar settur í staðinn lögfræðingur á meðan formanni bankastjórnar er helst fundið til foráttu að vera lögfræðingu.

Seðlabanki Íslands á að vera sjálfstæð stofnun. Ómerkileg vinnubrögð Jóhönnu Sigurðardóttur og pólitískar hreinsanir án rökstuðnings og efnislegra ástæðna er þess eðlis að mikilvægt er að reyna á það sjálfstæði, hvort það sé ekta eða orðin tóm.

mbl.is Davíð segir ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin slær skjaldborg um Jón Ásgeir

Eftir vikulangt innihaldslaust hjal ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur um skjaldborg utan um heimili landsins er ljóst að þess í stað var slegin skjaldborg utan um auðjöfurinn Jón Ásgeir Jóhannesson. Hvað eru þeir að hugsa sem semja við Jón Ásgeir um að fá að sitja í stjórnum valinna fyrirtækja, og fái að sitja áfram í einkaþyrlu og fyrirtækisbíl á heimshornaflakki sínu? Allt er þetta gert í boði vinstriflokkanna með hlutleysi Framsóknar auðvitað. Þvílík vinnubrögð. Geta allir gjaldþrota menn fengið svona gæðadíl?

Hvað varð um kjaftæðið um heiðarleika vinstrimanna og ný vinnubrögð í pólitísku starfi þegar menn sem hafa spilað öllu út úr höndunum á sér og spilað með þjóðina í gjaldþrot á alþjóðavísu fá svona útgönguleið út úr vandanum. Er þetta virkilega vinnubrögð sem Jóhanna Sigurðardóttir ætlar að standa við og telur sér sómi af í svanasöng sínum? Reyndar er hann orðinn falskur fyrir nokkru en er þetta ekki feilnóta sem bindur hreinlega enda á sönginn sjálfan?

Er meiri sómi af því að reka skilanefnd sem gerir svona samning við gjaldþrota mann eða seðlabankastjóra sem enginn getur sagt hvað gerði af sér. Er svona ríkisstjórn trúverðug? Er hún ekki bara fölsk og ómerkileg? Ég held það. Burt með svona pakk og svona vinnubrögð!

Hvaða hönk á Jón Ásgeir upp í bakið á Samfylkingunni? Á hann kannski þennan flokk? Eru einhverjir heiðarlegir fjölmiðlar sem geta farið í saumana á þessu eða eru þeir allir liðónýtir?


mbl.is Jón Ásgeir og Gunnar áfram í stjórnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöð 2 leggur niður Kompás en vill halda nafninu

Ein vitlausasta ákvörðun Stöðvar 2 á undanförnum árum var að hætta með fréttaskýringaþáttinn Kompás, sem hafði verið einn besti þáttur í íslensku sjónvarpi, vel unninn og öflugur. Metnaðurinn þar er þó ekki meiri en svo að haldið er frekar í þátt Sveppa og Audda og Idolið en fréttaskýringaþáttinn. Furðuleg forgangsröðun. Ein pælingin er svo að stjórnendur þáttarins hafi verið komnir of nálægt eigendum Stöðvarinnar í efnistökum og umfjöllun og þátturinn því látinn gossa.

Furðulegast af öllu er svo að Stöð 2 ætli að ríghalda í nafn fréttaskýringaþáttar sem þeir hafa slegið af og sett upp í hillu. Hver er tilgangurinn. Hafa yfirmennirnir ekki tekið nafnið út með því að slá af þáttinn og í raun gert út af við hann með því að taka hann af dagskrá. Ég held það og finnst þetta mjög undarlegt í alla staði.

Ástæðan fyrir því að leggja niður þáttinn er reyndar mjög hæpin og undarleg og þegar Kastljósið skúbbaði um daginn efni frá stjórnendum þáttarins mátti reikna saman tvo og tvo

mbl.is Fá ekki að nota Kompásnafnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kusk á hvítflibba Lúðvíks - dómsmálaraunir SF

Þá er ljóst, það sem margir vissu reyndar, að kuski á hvítflibba Lúðvíks Bergvinssonar kom í veg fyrir að hann yrði dómsmálaráðherra af hálfu Samfylkingarinnar í 80 daga stjórninni, sem sumir kalla 125 ára stjórnina. Gárungarnir segja reyndar að enginn heiðarlegur eða hæfur hafi fundist innan Samfylkingarinnar til að taka við embættinu af Birni Bjarnasyni. Hvort sá brandari er sannur eður ei er eflaust hægt að tala um lengi.

Þegar stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks féll var talað um það sem öruggt mál að Lúðvík yrði dómsmálaráðherra en sá orðrómur gufaði upp ansi fljótt. Síðar var talað um Árna Pál Árnason og svo kom röðin að Bryndísi Hlöðversdóttur áður en nafn Bjargar Thorarensen kom upp. Bryndís kom ekki til greina sem utanþingsráðherra vegna tengsla við Samfylkinguna og Björg hafði sennilega ekki áhuga á sætinu.

Að lokum var ráðuneytisstjóri og skrifstofustjóri í dómsmálaráðherratíð Björns Bjarnasonar valinn til starfans. Ekki var undarlegt að flestir litu á þessar dómsmálaraunir nýrrar ríkisstjórnar sem vandræðalegar, ekki hefði neinn fundist innan Samfylkingarinnar sem myndi valda verkefninu. Í staðinn varð Kristján L. Möller yngsti ráðherra Samfylkingarinnar, aðeins 56 ára að aldri.

Fróðlegt verður að sjá hvort þessar uppljóstranir um Lúðvík verða honum fjötur um fót í baráttunni í Suðurkjördæmi, en ljóst er að hann tekur væntanlega slaginn við Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, um fyrsta sætið. Björgvin sagði jú af sér til að halda tandurhreinn í þá baráttu, eins og flestir vita.

mbl.is Fjármál Lúðvíks komu í veg fyrir ráðherrastól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sturla og Herdís hætta á þingi - uppstokkun í NV

Með ákvörðun Sturlu Böðvarssonar og Herdísar Þórðardóttur um að hætta þingmennsku gefst gott tækifæri fyrir sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi að stokka vel upp framboðslista sinn og bjóða upp á nýtt fólk í þingframboði fyrir kjördæmið og yngja upp forystusveitina. Mjög líklegt er að Einar Kristinn Guðfinnsson taki við leiðtogasætinu. Fyrir síðustu kosningar var stillt upp lista sjálfstæðismanna í Norðvestri, eina kjördæminu í þeim kosningum, enda sátt um Sturlu, Einar Kristinn og Einar Odd.

Einar Oddur Kristjánsson lést tveimur mánuðum eftir að hann náði endurkjöri í þingkosningunum í maí 2007 og var mikill sjónarsviptir af honum úr pólitísku starfi. Herdís Þórðardóttir tók við þingsæti hans - hún hefur nú greinilega tekið þá ákvörðun að hún vilji frekar sinna öðrum verkefnum en setu á Alþingi. Hún hefur verið lítið í umræðunni og ekki verið í sviðsljósi fjölmiðlanna, né heldur tekið mikið til máls á þingi.

Sturla Böðvarsson hefur verið einn öflugasti forystumaður Sjálfstæðisflokksins í gamla Vesturlandskjördæmi og síðar Norðvesturkjördæmi síðustu áratugi. Hann varð ungur sveitarstjóri í Stykkishólmi og síðar bæjarstjóri þar í fjöldamörg ár áður en hann tók við leiðtogasæti Friðjóns Þórðarsonar árið 1991.

Sigur hans í eftirminnilegu prófkjöri í hinu nýja Norðvesturkjördæmi árið 2002 var umdeildur og leiddi til þess að skipulagsreglum flokksins var breytt varðandi prófkjör, eins og kunnugt er, en mjög fá atkvæði réðu úrslitum um hvort hann eða Vilhjálmur Egilsson vann prófkjörið og hvor færi þá ella niður í fimmta sætið.

Sturla hefur verið umdeildur í pólitík mjög lengi, en staðið sig vel alla tíð, alveg síðan hann var samgönguráðherra. Sem forseti Alþingis hefur hann verið mjög vinnusamur og komið hlutum í verk. Honum tókst eftir margra ára deilur um breytingar á þingsköpum að koma þeim í gegn og hefur breytt starfi þingsins mjög.

Þetta var honum launað með því að verða bolað af stóli þingforseta með löglegri en ómerkilegri aðferð á þingfundi fyrr í vikunni, ákvörðun sem greinilega hefur verið endanleg ástæða þess að hann víkur af vettvangi stjórnmálanna. Þingmenn sem áður mærðu Sturlu og lofuðu í bak og fyrir sviku hann í kjörinu.

Sturla kveður pólitíkina með tæpitungulausri og mjög öflugri ræðu um aðkomu forseta Íslands að stjórnarskiptum og skilyrðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Ég tek undir kjarnyrtar lýsingar hans á því. Forsetinn fór langt út fyrir sitt verksvið með sínu verklagi, sem var honum til skammar.

mbl.is Sturla og Herdís hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðaustri 14. mars

Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi kom saman í Skjólbrekku í Mývatnssveit í dag og samþykkti þar tillögu um prófkjör laugardaginn 14. mars nk. Mikill meirihluti fundarmanna studdi tillöguna og nokkuð afgerandi krafa á fundinum um mikilvægi prófkjörs á þessum tímapunkti. Fundurinn var mjög góður og mjög gaman, eins og ávallt, að hitta flokksfélaga og ræða stöðuna í stjórnmálunum. Ekki vantar pælingarnar núna, eins og staðan er í pólitíkinni.

Ljóst er að allir þingmenn flokksins í kjördæminu; Kristján Þór Júlíusson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Ólöf Nordal, sækjast eftir endurkjöri. Ég tel blasa við að margir muni bætast í hópinn og flest sem bendir til að fleiri taki þátt núna en í prófkjörinu í nóvember 2006. Þá urðu miklar breytingar í forystusveit framboðslistans og kjörinn nýr leiðtogi í stað Halldórs Blöndals.

Borin var fram tillaga á fundinum, eftir að prófkjörstillaga stjórnar kjördæmisráðs var lögð fram, um að stillt yrði upp á listann. Kannski hefði sú tillaga verið ákjósanleg við aðrar aðstæður en nú er uppi. Ekki var nokkur hljómgrunnur fyrir uppstillingu enda er það fráleit aðferð í því pólitíska litrófi sem blasir við.

Þingmenn verða að berjast fyrir endurnýjuðu umboði og flokksmenn verða að ráða örlögum frambjóðenda, þingmanna jafnt sem annarra, að þessu sinni. Valdið er nú í höndum hins almenna flokksmanns og þeirra að taka ákvörðun um hverjir verði í forystusveit í vor.

Ég vona að prófkjörið verði vel heppnað og við fáum út úr því sterka liðsheild í kosningunum 25. apríl og góðan framboðslista.

mbl.is Prófkjör Sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er kvennabyltingin á Íslandi ekta eða fals?

Mikið er talað um íslensku kvennabyltinguna. Ekki óeðlilegt, þegar við eigum kvenkyns forsætisráðherra í fyrsta skipti og helmingur ráðherranna eru konur. Af þessu geta allar konur hér á Íslandi verið stoltar vissulega. Minna ber þó á því að íslenskar konur hreykji sér af því að fyrstu konurnar hafa náð völdum í bönkunum. Valdaseta þeirra hefur þó verið mjög misheppnuð og minnast fáir þeirra fyrir sögulega setu sína í bönkunum, heldur að þær voru táknmynd gamla tímans í gömlu bönkunum.

Kvennabyltingin skiptir eflaust máli, en ég tel mikilvægt að hætta að líta kynjagleraugum á stöðuna. Allir einstaklingar eiga að vera jafnir og við eigum að dæma þá eftir getu og hæfileikum, ekki kynjum. Annars með fullri virðingu fyrir framlagi kvenna og hæfileikum þeirra. Þær eiga það skilið að vera metnar út frá öllu sínu góða.

mbl.is Öld testósterónsins lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gúrkutíð eða þreytuleg slepja?

Mér finnst það svolítið fyndið að eftir tólf ár sé enn hægt að finna fyrirsagnir í sambandi Fjölnis og Mel B. Veit samt ekki hvort enn sé eftirspurn eftir svona séð og heyrt-fréttum. Kannski er það svo. Þessi séðogheyrt - blaðamennska er samt orðin ansi þreytt, svo ekki sé nú meira sagt. Þessi rósrauða pressa er samt sem betur fer ekki á ríka fólkinu lengur.

Enda getum við svosem verið sæl með þetta þangað til að ástarsögur ríka og fræga fólksins hérna heima fara að dúkka upp. Og þó ég gleymdi því við eigum ekkert ríkt fólk lengur sem vill láta sjá sig hérna heima nema þá örfáa lánlausa menn í felum, en dveljast að mestu leyti erlendis.

Mér fannst tilraunir sumra hérna heima til að gera Ásdísi Rán að einhverri táknmynd ríka og fræga fólksins í fréttaumfjöllun mistakast frekar hrapallega. En ég afþakka samt svona blaðamennsku, hún á helst heima annarsstaðar. Þetta er ekki sagt til að tala einhvern niður.

mbl.is Fjölnir segir Mel B líklega bara með alzheimer
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ingimundur farinn - Eiríkur og Davíð sitja áfram

Afsögn Ingimundar Friðrikssonar úr Seðlabankanum vekur vissulega athygli, en enn merkilegra er að bankastjórarnir munu greinilega ekki vinna úr stöðunni saman og feta misjafnar leiðir. Eiríkur Guðnason og Davíð Oddsson vita greinilega að þeir fá meira út úr því að segja ekki af sér og halda aðra leið í sinni stöðu. Mér grunar að viðbrögð þeirra veki athygli, en þeir hafa setið lengur í bankanum en Ingimundur - Eiríkur var eftirmaður Jóns Sigurðssonar, fyrrum viðskiptaráðherra Alþýðuflokksins, í bankanum um miðjan tíunda áratuginn og hefur bestu stöðuna af þeim.

Greinilegt var á bréfasendingunum og þögninni um þau í allt kvöld að það væri ekki slétt og fellt yfir þeim. Bankastjórarnir munu ekki vinna saman í takt við ríkisstjórnina og greinilegt að hinir leita leiða til að taka slaginn um næstu skref. Væntanlega verður augljósara á morgun hver næstu skref þeirra verða en mér finnst atburðarásin sýna að hinir tveir muni reyna að sitja lengur og taka slaginn frekar en fara út að óbreyttu.

Svo verður að ráðast hver sá næsti leikur verður. Þeir sem virða forsætisráðherrann að vettugi, hafna beiðni hennar beint eða neita að svara henni, eru greinilega búnir að ákveða að taka slaginn.


mbl.is Ingimundur baðst lausnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband