Steingrímur J. skensar "höfðingjana" í Samfó

Steingrímur J. Sigfússon sendi hörð skot til Samfylkingarinnar eftir hádegið í dag þegar hann skensaði Árna Pál Árnason og Björgvin G. Sigurðsson fyrir áherslur sínar í Evrópumálunum. Orðalagið vekur athygli, en hann segist senda "þessum höfðingjum" kveðju og segir mjög óskynsamlegt hjá þeim að loka sig af með yfirlýsingum. Eftir augljósar sprungur á vinstristjórnarvalkosti vegna skoðunaágreinings um Evrópumálin á pólitískum fundum í sjónvarpi í gærkvöldi verður yfirlýsing Steingríms enn áhugaverðari.

Augljóst er að VG ætlar að taka þessa umræðu á eigin hraða en ekki sætta sig við að Samfylkingin drottni yfir hana og stjórni þeim til verka. Steingrímur J. minnir í þessum efnum á oddastöðu sína eftir kosningar og að hann muni ráða för en ekki aðrir. Skilaboðin eru afgerandi og þeir hljóta að skjálfa í Samfylkingunni sem hafa lokað sig af með þessu máli og sent út yfirlýsingar um að þeir setji afstöðu sína sem kröfu og muni ekki semja um annað.

Steingrímur J. mun verða mjög erfiður í samningum eftir kosningar nái vinstriflokkarnir meirihluta og í raun má segja að hann gefi út vísbendingar í þá átt að hann muni ekki láta Samfylkinguna valta yfir sig. Óbeint bendir hann þeim líka vinsamlega á að þeir séu innilokaðir með VG í samstarfi, enda muni Sjálfstæðisflokkurinn ekki vinna með þeim aftur. Þetta er skarplega metið hjá Steingrími. Hann er kænn og einbeittur.


mbl.is Til Evrópu með VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þáttaskil í íslenskum stjórnmálum um helgina?

Enginn vafi leikur á því að það yrði pólitískur jarðskjálfti á Íslandi ef úrslit þingkosninganna verða í líkingu við það sem Gallup mælir í dag. Sterk staða vinstriflokkanna gerir að verkum að vinstristjórn verður fyrsti valkostur að loknum kosningum. Nú ræðst hvort kjósendur vilja færa flokkunum tveimur það afgerandi umboð og um leið refsa Sjálfstæðisflokknum, veita honum mesta skell í sögu sinni. Velgengni Borgarahreyfingarinnar, fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu, hefur komið þeim á kortið og þeir virðast líklegir til að taka stöðu Frjálslynda flokksins sem fimmta aflið til hliðar við fjórflokkinn margfræga.

Mér fannst stórpólitísk tíðindi, í raun þáttaskil í kosningabaráttunni, eiga sér stað í gærkvöldi þegar Katrín Jakobsdóttir og Atli Gíslason sögðu afdráttarlaust að ESB-aðildarviðræður yrðu ekki á dagskrá í sumar ef VG fengi að ráða á meðan Árni Páll Árnason og Björgvin G. Sigurðsson fóru í þveröfuga átt og sögðu ESB verða aðalmál þeirra í stjórnarmyndunarviðræðum, bæði fyrsta mál og forgangsmál til að hefja viðræður. Þetta tvennt fer ekki saman og þegar við bætist að Steingrímur J. vill verða forsætisráðherra getur allt gerst.

Ég velti fyrir mér hvort niðurstaðan verði kannski að Samfylkingin gefi eftir forsætisráðuneytið fyrir einhverja útvatnaða Evrópukeyrslu undir leiðsögn vinstri grænna. Mun Samfylkingin fórna Jóhönnu fyrir samstarf með Steingrími? Ef það gerist ekki er ekki ósennilegt að Steingrímur J. heimti utanríkisráðuneytið og taki þá yfir leiðsögn einhverra viðræðna við ESB eða keyri á þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja skuli um aðild, líkt og Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa samþykkt sem stefnumörkun.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur illa, eins og ég hef oft farið yfir í skrifum undanfarnar vikur, bæði hér á bloggvefnum og síðast í grein á amx á föstudagskvöldið. Ég tel að þeir eigi í höggi við svipaðan djöful og breski Íhaldsflokkurinn árið 1997 og bandaríski repúblikanaflokkurinn árið 2008 að margir kjósendur vilja kjósa hann frá og refsa honum þrátt fyrir marga góða frambjóðendur. Enn er líka spurt um hvaða áhrif á flokkinn styrkjamálið hafði.

Þetta verða spennandi dagar fram að kosningum. Gærdagurinn var tíðindamikill og opnaði í raun nýja kosningabaráttu, enda kom þar í ljós að í ríkisstjórninni eru töluð tvö gjörólík tungumál um Evrópumálin.


mbl.is O-listi fengi fjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skólabókardæmi um Brusselvaldið alræmda

Björn Bjarnason, alþingismaður og fyrrum dómsmálaráðherra, hittir naglann á höfuðið þegar hann segir að sendiherra ESB sé að ganga hagsmuna Brusselvaldsins alræmda með viðbrögðum við evruútspili Sjálfstæðisflokksins. Þessi vinnubrögð skriffinnskumanns með óljóst umboð nema til að þjóna valdinu á heimaslóðum koma engum að óvörum og eiginlega undarlegt að þetta sé frétt að mati sumra hérna heima. Átti einhver von á öðrum yfirlýsingum úr þessari átt?

Ég hef aldrei átt von á því að við fáum einhverja sérsamninga eða alvöru undanþágur frá valdboði ESB og skipunum þaðan og þetta dæmi segir svosem sína sögu. Gárungarnir segja reyndar að ESB-viðræður okkar væru eins og viðræður Akureyrarbæjar og Grímseyjarhrepps um sameiningu. Fáir trúa því að Grímsey muni stjórna Akureyri ef af sameiningu verður.

mbl.is Dólgsleg árás, segir Björn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin ESB-samstaða í vinstristjórninni

Mjög mikilvægt að það sé orðið opinbert og kristaltært að engin samstaða verður um Evrópusambandsaðild og viðræður við ESB í vinstristjórn nema að vinstri grænir leggist flatir undir Samfylkinguna og gefi áherslur sínar eftir. Reyndar hefur verið talað svo skýrt á framboðsfundinum á Selfossi að augljóst að himinn og haf er á milli vinstriflokkanna í þessum efnum. Reyndar átti að fela ágreininginn eða reyna að fela að annar flokkurinn mundi beygja sig undir hinn bara fyrir völdin.

Ég hef reyndar velt því fyrir mér í nokkrar vikur um hvað vinstristjórn ætti að verða mynduð nema þá fyrir sameiginlega þrá vinstrimanna um að sitja saman að völdum og njóta þeirra á meðan allt brennur í kringum þá, samfélagið fuðri upp. Augljóst er að vandinn hefur aðeins aukist síðustu mánuði og reyndar verið aðeins lengt í snörunni, en ekki tekið á vandanum af neinni alvöru. Aðeins smáskammtalækningar hafa komið frá vinstristjórninni.

Og nú er blekkingarleikurinn um Evrópusambandsaðild hjá vinstristjórn endanlega úr sögunni. Ekki náðist saman um það í þessari skammlífu stjórn og nú er ljóst að samstaðan er engin eftir kosningar. Um hvað verður vinstristjórn mynduð þegar ljóst er að VG ætlar ekki að beygja sig fyrir Samfylkinguna og aðaldekurmál þeirra í krísutíðinni?

mbl.is Evrópustefnan verði á hreinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fangar á leið í land

Ekki gerist það á hverjum degi, sem betur fer, að varðskip séu á ferð með fanga um borð. Engir eru þar fangaklefar og hlýtur því að vera svolítið sérstakt andrúmsloft um borð við þessar aðstæður. Ég man varla eftir svona máli, en eflaust hefur þetta komið upp áður.

Við hæfi er að hrósa lögreglunni og aðilum þeim tengdum fyrir hversu vel staðið var að verki fyrir austan í dópmálinu. Þar small allt saman og allir unnu vel sem samhent heild að því að leysa málið.

Björn Bjarnason vann vel sem dómsmálaráðherra að því að efla og samhæfa verklag lögreglu og tollgæslu. Þessi samvinna kom vel fram í Pólstjörnumálinu og enn betur nú.

mbl.is Skútan á leið í land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Írísi á þing - þrír turnar í Suðurkjördæmi

Ég er ánægður með að Sjálfstæðisflokkurinn leiðir í könnuninni í Suðurkjördæmi. Mikil endurnýjun hefur orðið á listanum þar og þrjár konur í fjórum efstu sætunum, allar nýjar í þingframboði á svæðinu, þar af leiðtoginn Ragnheiður Elín Árnadóttir og svo er Unnur Brá í öruggu þingsæti. Flokkurinn virðist mjög tryggur með þrjá menn og vantar herslumuninn á að tryggja Írísi Róbertsdóttur, kennara í Vestmannaeyjum, inn á þing. Hún yrði glæsilegur fulltrúi fyrir Eyjamenn inn á þing.

Stóru tíðindin í þessari könnun eru reyndar tvenn að mínu mati; hversu traust staða vinstri grænna er orðin í Suðrinu og hve veik staða Framsóknarflokksins er orðin í þessu forna lykilvígi sínu, þar sem Guðni Ágústsson var sem kóngur í ríki sínu mjög lengi. Framsókn veiktist reyndar nokkuð í Suðrinu síðast, en þær kosningar voru flokknum mjög erfiðar um nær allt land. Framsóknarmenn hljóta að vera orðnir örvæntingarfullir yfir stöðunni.

Mér finnst merkilegt hvað Samfylkingin er sterk í Suðrinu með viðskiptaráðherra bankahrunsins, sem gjörsamlega brást á vaktinni, í forystusætinu. Mikið er reyndar talað um hvað hann sé lítið sýnilegur í baráttunni, sem kemur varla að óvörum. Oddný Harðardóttir og Róbert Marshall eru mun meira auglýst. Þeir fóstbræður Össur, Kristján Möller og Björgvin, karlráðherrar Þingvallastjórnarinnar, sjást reyndar varla í baráttunni.

Eitt vekur líka athygli. Borgarahreyfingin mælist illa á landsbyggðinni og kemur það vel fram þarna. Þeirra styrkleiki virðist helst vera á 101 og nágrannasvæðum.

mbl.is D og S listi stærstir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágkúruleg vinnubrögð í kosningabaráttu

Mér finnst það afar miður að ráðist sé með skipulögðum hætti á starfsemi stjórnmálaflokka í kosningabaráttu, eins og gerðist í dag á kosningskrifstofu Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í Ármúla og Hafnarfirði. Þetta eru mjög lágkúruleg vinnubrögð. Þeir geta varla barist fyrir merkilegum málstað sem svona koma fram, svona vinnubrögð dæma sig algjörlega sjálf.

Aðferðirnar minna mjög á Saving Iceland-hópinn svokallaða, eins og ég minntist á í morgun. Grímur og skyrslettur. Þetta segir meira en mörg orð um hver standi að baki þessu.


mbl.is Skyri og málningu slett á kosningaskrifstofu við Ármúla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Saving Iceland farið að ráðast á Samfó?

Ekki hægt annað en vorkenna Samfylkingunni örlítið fyrir að verða fyrir árás á kosningaskrifstofuna sína. Er Saving Iceland-liðið farið að berja á Samfylkingunni á viðkvæmasta tímapunkti fyrir kosningar? Vinnubrögðin minna allavega ansi mikið á mótmæli og gjörninga þess hóps á síðustu árum.

Mikil harka er komin í þessa kosningabaráttu. Man ekki eftir beittara áróðursstríði í fjöldamörg ár og hörðum átökum, einkum bakvið tjöldin og í netheimum. Lífleg barátta allavega. En þessi árás á Samfylkinguna er samt svolítið sérstök, einkum vegna þess á aðferðirnar sem eru þó kunnuglegar.

mbl.is Slettu skyri í kosningaskrifstofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æsilegur eltingaleikur

Jæja, þá er hinum æsilega eltingarleik á eftir dópskútunni lokið. Langt síðan fylgst hefur verið með öðrum eins eltingarleik lögreglu við þá sem hafa brotið af sér og það yfir atlantshafið. Þetta mál minnir ískyggilega mikið á Pólstjörnumálið margfræga á árinu 2007, en mikið hefur verið talað um það í fjölmiðlum og skrifuð bók um það ennfremur af Ragnhildi Sverrisdóttur, blaðamanni.

Lögreglan sýndi mátt sinn og úrræðagóð vinnubrögð í því máli og endurtekur leikinn núna með því að upplýsa þetta mál og koma upp um það.

mbl.is Skútan fundin - 3 handteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn eitt fíkniefnamálið fyrir austan

Mjög vel gert hjá lögreglunni að koma upp um fíkniefnasmyglið fyrir austan. Lögregluyfirvöld eru orðin vön að taka á stórum málum af þessu tagi. Nokkur slík hafa komið upp á Seyðisfirði, stórt fíkniefnamál þar sem smyglað var dópi í skútu kom upp haustið 2007 á Fáskrúðsfirði og öll munum við eftir fíkniefnamálinu 2004 á Neskaupstað, líkfundarmálið svokallaða.

Þetta er gott dæmi um hversu mikill fíkniefnavandinn er orðinn í íslensku samfélagi. Mjög gott er að löggan standi sig og komi upp um slík mál og er þeim til mikils sóma að standa vaktina vel.


mbl.is Yfir 100 kg af fíkniefnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján og Jóhanna í Dótakassanum

dotakassi samfo
Ég gat ekki annað en hlegið þegar ég sá að myndir af Kristjáni Möller og Jóhönnu Sigurðardóttur voru komnar utan á Dótakassann, verslun sem var rekin í miðbænum hér á Akureyri.

Þessi flotta mynd Sverris Páls Erlendssonar, kennara, segir meira en mörg orð. Kristján og Jóhanna í Dótakassanum.

Hitt er svo annað mál að ömurlegt er að sjá verslun á besta stað í bænum hverfa. Það leiðir hugann að stöðunni.

Hugleiðingar um Draumalandið

Ég fór í Borgarbíó í dag og horfði á Draumalandið, mynd Andra Snæs og Þorfinns Guðnasonar, í boði Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna, félagi sem ég var formaður í forðum daga. Mér fannst það flott hjá Varðarfólki að bjóða fólki á þessa mynd og um leið fá Tryggva Þór til að tala um myndina frá sinni hlið, fá alvöru umræður. Þetta var mjög vel heppnað, þó það hafi greinilega stuðað vinstri græna hér á Akureyri en þeir ætluðu að fara af límingunum vegna þess að ungum sjálfstæðismönnum datt þetta í hug á undan þeim. Vel gert hjá mínum félögum í mínu gamla og góða félagi.

Mér fannst Draumalandið að mörgu leyti flott mynd - það er hugsjónaneisti í henni. Hún er vel klippt og byggð upp með traustum baráttupunktum þar sem einlæg tjáning fær notið sín. Alltaf gott að hugsjónafólk tjái skoðanir sínar og berjist fyrir einhvern málstað, ekki hægt að kvarta yfir því. Þeir sem eru ósammála eiga þá bara að feta sömu slóð og vekja athygli á sínum skoðunum. Við eigum aldrei að nöldrast yfir því að fólk hafi skoðanir, heldur þá tækla umræðuna ef við höfum eitthvað fram að færa.

Eitt fór mjög í taugarnar á mér þegar ég horfði á Draumalandið og mér fannst alveg ömurlegt að horfa á. Það var hvernig var talað niður til fólks á landsbyggðinni sem vildi uppbyggingu í sínu héraði, lagði gott til málanna og var annt um velferð síns svæðis. Barátta þeirra er vel skiljanleg, þetta er lífsbarátta sem skiptir heimamenn miklu máli. Hrein lágkúra er að gera grín eða berja á þeim sem af einlægni hafa unnið að hagsmunum landsbyggðarinnar á jákvæðum forsendum.

Mér fannst eiginlega verst af öllu að sjá viðtal við frænda minn, Sigtrygg Hreggviðsson á Eskifirði, fært upp í einhvern lélegan gamanleik og reynt að láta hann líta illa út. Diddi er mikill sómamaður með miklar skoðanir en hann hefur aldrei viljað neitt nema gott fyrir sína byggð og hann hefur verið einlægur í að tjá sínar skoðanir með málefnalegum hætti og er ekki þekktur fyrir neitt nema að vera vandaður og heiðarlegur maður.

Mér fannst vel gert að rekja sögu þessara verkefna í tímaröð og fara yfir sögu umdeildra mála. Sumt er ansi skondið og jákvætt, annað kemur út eins og kvikindisskapur. Eitt af því síðarnefnda var hvernig gert var lítið úr Guðmundi Bjarnasyni, fyrrverandi bæjarstjóra í Fjarðabyggð. Ég hef ekki verið sammála Guðmundi í hans pólitík, en hann hefur unnið sín verk af heiðarleika og staðið sig vel fyrir íbúa á þessu svæði.

En ég hvet alla til að sjá Draumalandið. Þar eru fallegar myndir af íslenskri náttúru. Þessi mynd fær alla til að hugsa málin frá byrjun, bæði með jákvæðum og neikvæðum hætti. Það er allt í lagi. En það er eins með þessa mynd og þær sem Michael Moore hefur gert - þær eru ágætt sjónarhorn en fjarri því hlutlausar. Þetta er hugsjónamynd með ákveðinn fókus og fjarri því hlutlaus.


Ástþór reynir að vekja á sér athygli

Mér finnst nú aðferðir Ástþórs Magnússonar til að reyna að vekja athygli Ríkisútvarpsins á sér komnar út í tóma vitleysu. Eitt er að tjá óánægju með einhvern fjölmiðil en annað er að missa gjörsamlega stjórn á sér og fara yfir strikið. Mér finnst þessar aðferðir Ástþórs ekki beint gáfulegar og finnst þær vera frekar örvæntingarfullt neyðaróp á athygli frekar en málefnaleg kosningabarátta. Ástþór verður að vekja athygli á sínum málstað með öðrum hætti en öskra fyrir utan útvarpshúsið og væri sennilega nær að kynna betur framboðslista sína og stefnu þeirra á öðrum vettvangi.

Ég er viss um að ef Ástþór væri málefnalegur í baráttu sinni og iðkaði eðlileg vinnubrögð án þessara upphrópana myndi honum ganga betur. Þeir sem geta ekki komið málstað sínum á framfæri nema að öskra framan í fólk eða vera eins og rauð neon-skilti í eyðimörkinni eiga sjaldan auðvelt með að vekja athygli á sér með málefnalegum vinnubrögðum. Taktíkin segir allt um þá sem geta ekki notað önnur vinnubrögð.


mbl.is Kallaði lögreglu að Útvarpshúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Steingrímur J. næsti forsætisráðherra?

Í kvöld las Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, upp forsetabréf um frestun á fundum Alþingis Íslendinga, átta sólarhringum áður en fyrstu tölur taka að berast í alþingiskosningum. Með því lýkur þingstörfum á þessu kjörtímabili. Fjöldi þingmanna sat í kvöld sinn síðasta þingfund, en vel á annan tug núverandi alþingismanna sækjast ekki eftir endurkjöri eða munu ekki eiga þangað afturkvæmt eftir kosningarnar annan laugardag. Í kosningunum 2007 varð mesta uppstokkun í þingmannaliðinu frá árinu 1934 og hún verður jafnvel enn meiri núna. Örfáir þingmenn eru eftir af þingmannahópi kjörnum fyrir áratug, vorið 1999.

Í raun má segja að kosningabaráttan hefjist nú fyrir alvöru. Þetta er stutt rimma, þó vissulega hafi þingmenn tekist á í þingsal um mikilvæg málefni hefur lítill sem enginn tími farið í lykilmálin sem þarf að ræða. Þetta verður stysta kosningabarátta íslenskrar stjórnmálasögu og vandséð hvernig það verði nokkru sinni toppað að kosningabaráttan sé aðeins átta sólarhringar frá starfslokum þingsins til fyrstu talna í kosningunum. Átakalínur eru skýrar en flest bendir til þess að söguleg umskipti séu framundan.

Ég yrði ekki hissa á því þó VG yrði stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar í kosningunum um næstu helgi. Mér finnst vindar blási þannig að kjósendur ætli að veita honum og Steingrími J. öndvegissess í íslenskum stjórnmálum. Rétt eins og Geir Haarde var öflugi maðurinn í síðustu kosningabaráttu hefur Steingrímur J. nú hlotið þennan sess. Raunhæfar líkur eru á að hann verði með pálmann í höndunum eftir kosningar og leiði íslensk stjórnmál og krefjist forsætis í næstu ríkisstjórn og hljóti það.

Sjálfstæðisflokkurinn heldur í þessar kosningar í vægast sagt skelfilegri stöðu. Á innan við tveimur árum, sennilega á innan við hálfu ári betur sagt, hefur hann misst lykilstöðu í nær glatað tafl og má teljast heppinn að haldast yfir kjörfylginu 1987 þegar Albert Guðmundsson nagaði þennan gamla valdaflokk og formanninn Þorstein Pálsson inn að beini með sérframboði sínu. Forysta flokksins á síðustu árum reyndist flokknum illa þegar á reyndi og hélt illa á málum - fær þau sögulegu eftirmæli að klúðra stórt.

Framsókn hefur misst kjörstöðu í upphafi ársins í nær klúðraða. Þeir misstu kapalinn við fall Þingvallastjórnarinnar bæði vegna reynsluleysis og veikleika nýju ungu forystunnar. Flokkurinn fór ekki í stjórn heldur sat hjá og missti trompin eitt af öðru og var beinlínis hlægileg undir lokin. Formaðurinn vildi kosningar snemma til að byggja sig upp, fékk þær en missti spilin á leiðinni. Hann er nú í mikilli baráttu fyrir þingkjöri, valdi ekki öruggt þingsæti í traustu flokkshéraði, og stendur illa.

Samfylkingin græðir á Jóhönnu vissulega. Án hennar væri flokkurinn, sem klúðraði málum í síðustu ríkisstjórn og svaf á verðinum ekkert síður en Sjálfstæðisflokkurinn, í síðum skít og ætti sér varla viðreisnar von. Það er fjarri því gefið að Jóhönnu takist að færa Samfylkingunni oddastöðu eftir kosningar og leiðandi hlutverk í ríkisstjórn. Missi þeir VG fram úr sér missa þeir foryustuna á vinstrivængnum líka og hætt þá við því að Jóhanna verði mjög stutt í viðbót á þingi.

Ég hef beðið eftir því síðustu dagana að einhver umskipti verði í þessari kosningabaráttu. Allt getur gerst. Þau sem ég sé nú fram á og tel að séu í sjónmáli er að VG taki forystuna og nái oddastöðu, leiði næstu ríkisstjórn og taki völdin. Steingrímur J. er klárlega öflugasti flokksleiðtoginn í þessari baráttu, virðist græða á reynslunni.

Bjarni Benediktsson er að byggja upp til framtíðar. Hann tekur við erfiðu búi eftir Geir H. Haarde og það mun taka einhvern tíma að byggja liðsheildina til verka að nýju, svo henti honum. Fylgistap er óumflýjanlegt. Enginn er svo fullkominn að geta lagað allt sem hefur klúðrast á Geirstímanum.

En það verður líka örugglega ekki langt í næstu þingkosningar haldi vinstristjórnin áfram, spái ég. Við þekkjum öll sagnfræði þeirra. Teikn eru á lofti um að stöðugleikinn verði lítill í íslenskum stjórnmálum á næstunni og næsta kjörtímabil verði stutt og brösótt.

En einhver verða umskiptin á þessum átta dögum sem alvöru kosningabarátta stendur. Við bíðum spennt.

mbl.is Takk fyrir, búið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vænt skot frá Bigga Ármanns til Steingríms

Birgir Ármannsson, alþingismaður, kemur með vænt skot til Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, þegar hann bendir á þá einföldu staðreynd að hann hefur í rúmlega 60 mánaðarmót, frá árinu 2003, þegið 50% álag ofan á þingfararkaup vegna ákvæða í eftirlaunalögunum. Vel má vera að Steingrímur J. hafi ætlað að koma ódýru höggi á Kristján Þór Júlíusson, leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, á borgarafundinum í MA í kvöld en þá er betra að kasta ekki grjóti úr glerhúsi.

Þetta ákvæði úr eftirlaunalögunum átti við þá alþingismenn, sem eru formenn stjórnmálaflokka, sem hlotið hafa þrjá þingmenn eða fleiri kjörna og eru ekki jafnframt ráðherrar. Eftir þá launalækkun sem ákveðin var um síðustu áramót er þingfararkaup 520.000 krónur á mánuði. Sá sem fær 50% álag á þingfararkaup í 60 mánuði fær þannig 15.600.000 krónur í sinn hlut.

Þess má reyndar að lokum geta að eina ákvæðið sem ekki var fellt út við afnám eftirlaunalaganna er 23. greinin, sem er um 50% álag á þingfararkaupið sem fyrr er nefnt. Hentugt!

En þetta er flott hjá Bigga Ármanns. Gott að menn séu vel á verði.

mbl.is Segir Steingrím búa í glerhúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG færist nær SF - vond staða Sjálfstæðisflokks

Könnun Gallups ber merki þess að vera gerð í hita og þunga styrkjamálsins í Sjálfstæðisflokknum. Stóru tíðindin að mínu mati eru að VG er hársbreidd frá því að verða stærsti flokkur landsins og gæti hæglega stækkað um meira en helming haldi þessi bylgja fram að kjördegi eftir níu daga. Eðlilegt er að spyrja sig hvort Steingrímur J. Sigfússon verði ekki forsætisráðherra í vinstristjórn fari kosningar í þessa átt. Þeir hljóta að gera tilkall til að fá forsætið hluta af næsta kjörtímabili í það minnsta verði þetta úrslit kosninga.

Þessi staða er vægast sagt mikið áhyggjuefni fyrir sjálfstæðismenn um allt land. Forysta flokksins tók mikla áhættu með því hvernig styrkjamálið var klárað án þess að ganga hreint til verks og virðist ætla að taka þeim dómi hvernig sem hann fer. Þessi staða gefur til kynna að flokkurinn sé í frjálsu falli og nái ekki vopnum sínum undir nýrri forystu. Hún tekur erfið mál í arf frá þeim sem stjórnuðu flokknum á síðustu árum. Gamla forystan fær líka þau eftirmæli að hafa klúðrað málum, vægast sagt.

Greinilegt er að mikið flökt er á fylgi flokkanna. Fjarri því ljóst enn hvernig fer. Margir taka ekki afstöðu og sumir munu bíða alveg þar til í kjörklefanum með að taka afstöðu. Eitt er þó að verða augljóst; mestu umbreytingar í íslenskum stjórnmálum í lýðveldissögunni virðast í sjónmáli. Sjálfstæðisflokkurinn fer stórlega skaddaður til kosninga og talsverðar líkur á að hann missi sögufræga stöðu sína sem forystuafl.

mbl.is VG í sókn - Samfylking stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgið á fleygiferð í NA - margir óákveðnir

Stærstu tíðindin í könnun Gallups hér í Norðausturkjördæmi er hversu margir taka ekki afstöðu, tæp 40%. Kosningabaráttan hefst ekki fyrir alvöru hér fyrr en með borgarafundinum í kvöld, hefðin er sú að mesti hitinn í baráttunni hér eru tíu dagar. Framsókn tókst að vinna kosningarnar í Norðaustri á innan við tíu dögum árið 2003 og bætti við sig á lokasprettinum síðast á kostnað vinstri grænna og náði þriðja manni inn, þvert á allar spár. Fylgið hefur jafnan verið á fleygiferð síðustu dagana og ég tel núna að margir muni hreinlega ekki ákveða sig fyrr en á kjördegi.

Staða Sjálfstæðisflokksins styrkist frá síðustu kjördæmakönnunum, þar sem fylgið var nánast í frjálsu falli og staðan grafalvarleg. Staða Tryggva Þórs virðist orðin mjög trygg, ef marka má þetta. Stærsta áhyggjuefni Sjálfstæðisflokksins er þó án nokkurs vafa hversu lágt fylgið er hér á Akureyri. Staðan hér er ekki gæfuleg þegar litið er til næstu sveitarstjórnarkosninga sé þetta áreiðanleg mæling. Kosningabaráttan næstu dagana verður mælikvarði á styrk Kristjáns Þórs. Útkoman ræður miklu um pólitíska framtíð hans og styrk á þingi næstu árin.

Ég átti von á að Samfylkingin væri með meira, sérstaklega miðað við stöðuna á landsvísu. Ég yrði ekki hissa þó Kristján Möller væri dragbítur á þá að þessu sinni. Síðast tapaði Samfylkingin nokkru fylgi hérna og varð minni en Framsóknarflokkurinn. Slíkt virðist ætla að gerast aftur núna þrátt fyrir nokkra endurnýjun, en Sigmundur Ernir kemur nýr inn og Jónína Rós hefur færst upp í þriðja sætið. Samfylkingunni hefur tvisvar mistekist að gera það að þingsæti, þegar Lára komst ekki í kjördæmasæti 2003 og jöfnunarsæti 2007, missti það í báðum tilfellum til Framsóknar.

Mér finnst merkilegt hvað Framsókn er að styrkjast og ansi margt sem bendir til að þeir fái mest fylgi hérna í vor, rétt eins og 2003. Framsókn hefur oftast verið vanmetin í könnunum hér, þetta sást í síðustu tveimur kosningum. Ég held að þeir hafi misst mikið með brotthvarfi Völlu Sverris. Hún er pólitísk kjarnakona, enginn fetar í fótspor hennar. Þó bæði Birkir og Höskuldur séu traustir ungir menn eiga þeir enn nokkuð í land að ná pólitískum styrkleika Völlu. Ekki hefur mikið borið á nýju konunni í vonarsæti, Huld, en mér sýnist samt stefna í að hún komist inn.

VG hefur áður mælst með mikið fylgi í aðdraganda kosninga en tekist að glutra því niður. Stóra spurningin næstu dagana er hvort Steingrími haldist á þessu mikla fylgi. Síðast varð VG minnstur fjórflokkanna þrátt fyrir að leiða í mörgum kjördæmakönnunum, missti dampinn á mikilvægum tímapunkti. Ekki er lengur eins öruggt að þeir nái inn þremur kjördæmakjörnum mönnum og þá getur margt farið að gerast með jöfnunarsætið.

En ómögulegt er að spá í hvernig fer. Þetta er ágætis vísbending um styrkleika Framsóknar, möguleika VG, veikleika Samfylkingar og brothætta stöðu Sjálfstæðisflokksins, sérstaklega á Akureyri, sem þó hefur styrkt sig frá síðustu könnun. Litlu framboðin virðast lítinn styrk hafa.

Baráttan hér hefst nú fyrir alvöru. Fjölmargir hafa ekki tekið afstöðu og nú ræðst hvernig framboðunum muni ganga að höfða til þeirra sem hafa ekki ákveðið sig.

mbl.is VG stærst í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Absúrd-skriffinnska hjá Umhverfisstofnun

Sagan af hreindýrskálfinum Líf er að mínu mati stórmerkileg. Auðvitað er ótrúlegt að þessi umhyggja fyrir særðu dýri mæti engum skilningi í absúrd skriffinnsku hjá Umhverfisstofnun. Mér finnst það hrein lágkúra að hóta þeim sem hafa annast dýrið og fóstrað það að aflífa það.

Dagbjört hefur staðið sig vel í fjölmiðlum að vekja athygli á málinu og ég vona að kærleik sé einhversstaðar að finna í þessari stofnun. Ég vona að hún hafi sitt fram, enda er ekkert sem mælir með svo groddalegri framkomu Umhverfisstofnunar.


mbl.is Hóta að aflífa hreindýrskálf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samsæriskenningar í veruleikafirringu Ástþórs

Ástþór Magnússon, þingframbjóðandi og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, átti stórleik í samsæriskenningasmíðum í viðtali á Rás 2 í dag. Þetta hlýtur að teljast eitt kostulegasta viðtal á þeirri stöð í áraraðir. Vorkenni Frey Eyjólfs að sitja yfir þessu rugli. Eins og venjulega tekst Ástþóri alltaf að koma fólki á óvart í þessari kosningabaráttu, þó hann hafi verið í sviðsljósinu hér heima á Fróni fyrir sama leikaraskapinn í þrettán ár sem frambjóðandi og baráttumaður fyrir sínum málstað, sem fáir virðast styðja. Veit ekki hvort hann sé misskilinn eða stórundarlegur, kannski undarleg blanda af báðu.

Oftast nær minnir Ástþór mig á samsæriskenningasmiðinn í Spaugstofunni sem sér eitt stórt samsæri í hverju horni og virðist einn í sínu trúboði og sannfæringu. Mér finnst það samt einum of að ætlast til þess að fólk trúi því að fjölmiðlar séu að eyðileggja fyrir honum markvisst, þegar hann fær fulla aðkomu að kosningaþáttum og hefur fullt tækifæri til að vekja athygli á sér. Auk þess að auðmenn séu að eyðileggja fyrir honum þingframboðið sitt. Þetta er algjört rugl.

Ástþór verður auðvitað að átta sig á því að það eru kosningalög í landinu. Þegar einhver skilar inn nafnalistum í stafrófsröð, ekki niðurskipt á kjördæmi og hefur ekki tilskilinn fjölda meðmælenda og vantar undirskriftir sjálfra frambjóðendanna þarf að laga það ella að ógilda listana. Geti Ástþór ekki sinnt skilmálum fyrir öll framboð á landsvísu er það hans eigin hausverkur, ekki annarra.

En endilega hlustið á viðtalið. Þetta er merkilegt show, svo ekki sé nú meira sagt.


Dramatík og undarleg réttindabarátta

Ég verð að segja eins og er að ég skil ekki dramatíkina varðandi lætin við Vatnsstíg í dag. Allt tal um að neysluréttur sé ofan eignarétti stenst enga skoðun, allavega ekki lagalega túlkun. Mér finnst þetta svolítið yfirdrifið að tala um réttindabaráttu þeirra sem dvelja í húsi sem annar aðili á og vilja nota það gegn vilja eigandans. Slíkt getur aldrei verið í lagi, nema þá að einhverjar tilfinningar ráði för.

En leitt að þurfti að beita hörku. Slíkt er aldrei jákvætt. En með lögum skal land byggja, var forðum sagt.

mbl.is Í vegi fyrir glæsihúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband