Frábær frammistaða hjá Geir í Kastljósi

Geir H. Haarde Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, stóð sig mjög vel í leiðtogayfirheyrslu í Kastljósi í kvöld. Þetta var frábær frammistaða. Mér finnst Geir vera að brillera í þessari kosningabaráttu, hann er mjög sterkur flokksleiðtogi og hefur á sér blæ trausts og mikils styrkleika. Geir hefur langan stjórnmálaferil að baki og mun verða starfsaldursforseti þingflokks Sjálfstæðisflokksins eftir þingkosningar.

Mér fannst sterk staða Geirs kristallast mjög vel á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir nokkrum vikum. Þar kom hann fram sem sterkur leiðtogi og að mínu mati hefur hann aldrei verið öflugri á löngum stjórnmálaferli sínum en einmitt þá. Stór styrkleiki Geirs er einmitt að hann er gjörólíkur Davíð Oddssyni, forvera sínum á formannsstóli. Hann er ekki að reyna að leika hann, heldur kemur fram á eigin forsendum.

Geir svaraði spurningum fumlaust í kvöld og talaði mjög hreint út um mörg lykilmál. Í þættinum var m.a. spurt um stöðu Árna Johnsen, fyrrum alþingismanns, innan flokksins hvað varðar skiptingu embætta eftir kosningar verði Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn. Árni hefur verið umdeildur mjög í stjórnmálum í vetur og mjög skiptar skoðanir eru innan Sjálfstæðisflokksins um stöðu hans, en hann verður alþingismaður að nýju eftir tólf daga. Svör Geirs í þessum efnum voru afgerandi í kvöld og eru ánægjuleg að mínu mati.

En þetta var semsagt góður þáttur. Geir er að standa sig vel í kosningabaráttunni og stendur mjög vel að vígi. Margir hafa sagt að stóra spurning kosningabaráttunnar verði hversu sterk staða Geirs H. Haarde verði að morgni 13. maí. Er ekki fjarri því að svo sé. Hann virðist vera með pálmann í höndunum, hann hefur stuðning landsmanna og nýtur trausts. Það er gott veganesti á lokaspretti kosningabaráttunnar. Og ekki er ég hissa á þeirri sterku stöðu miðað við frammistöðu hans í kvöld.

Nýr forstjóri hjá Glitni - hvað mun Bjarni gera?

Lárus Welding Þetta hefur verið dagur hinna stóru tíðinda hjá Glitni. Á hluthafafundi í dag voru kynntir til sögunnar nýr forstjóri og stjórnarformaður sem marka þar nýtt upphaf. Bjarni Ármannsson er að hætta störfum eftir farsælt starf fyrir Íslandsbanka og Glitni í áratug, en hann hefur einn af mest áberandi viðskiptamönnum landsins og telst án vafa stór þáttur í velgengni þess sem þar hefur verið gert.

Val eftirmannsins kom mörgum að óvörum, enda er Lárus Welding, nýr forstjóri Glitnis, nýr í sviðsljósinu, en hefur þó verið í bransanum um nokkuð skeið. Hann var yfirmaður Landsbankans í London og hefur því umtalsverða reynslu nú er hann er settur yfir bankaveldið í SÍS-musterinu forna á Kirkjusandi.

Það hafði verið mikil umræða um uppstokkunina hjá Glitni á netinu. Talað var síðustu vikurnar um lokaspil valdaátaka þar og þeirra hrókeringa sem fylgdu því er nýjir eigendur komu til sögunnar sem boðaði nýja tíma þar innanborðs. Það er ekki óeðlilegt að Bjarni Ármannsson líti í aðrar áttir við þau kaflaskil og telji rétt að taka hatt sinn og staf - velji sér annan vettvang í bransanum.

Bjarni Ármannsson hefur eins og fyrr segir hér í dag verið mjög farsæll í bransanum allt frá því að hann var yfirmaður Kaupþings fyrir rúmum áratug. Það verður vel fylgst með því hvað hann ákveður að taka sér fyrir hendur eftir að hann hefur sett eftirmann sinn inn í verkin á Kirkjusandi.

mbl.is Lárus tekur við af Bjarna sem forstjóri Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blair segir af sér í næstu viku - krýning Browns

Tony BlairÁ morgun er áratugur liðinn frá sögulegum kosningasigri Verkamannaflokksins í Bretlandi og upphafi litríks valdaferils Tony Blair í breskum stjórnmálum, sem tók við hylltur sem sigurhetja við komuna í Downingstræti 2. maí 1997. Það er komið að leiðarlokum hjá Blair á þessari afmælisstund valdanna. Hann mun segja af sér sem leiðtogi Verkamannaflokksins í næstu viku og mun hætta sem forsætisráðherra Bretlands eftir sjö vikna leiðtogaslag þeirra sem vilja taka við völdunum í júlí.

Það er mikið á flökti í breskum fjölmiðlum hvort Blair muni tilkynna afsögnina 9. eða 10. maí nk. Það hefur verið fullyrt síðan í mars, fyrst með véfréttastíl en síðar með fullri vissu, að annar dagurinn verði sá stóri. Þessi endalok boða þáttaskil í breskum stjórnmálum eins og ég hef svo oft bent á. Endalok stjórnmálaferils Blairs boða þáttaskil fyrst og fremst fyrir Verkamannaflokkinn. Hann hefur verið dómínerandi leiðtogi og hann kom til valda á mjög afgerandi bylgju stuðnings, ákallið um breytingar var afgerandi og Íhaldsflokkinn var sleginn harkalega niður og er fyrst nú að ná sér upp.

Það er öllum ljóst að Blair fer ekki frá með landslýðinn sorgmæddan yfir endalokunum. Hann er fyrir löngu orðinn það sem John Major var nær allan valdaferil sinn og það sem Blair reyndi með yfirgengilegri spunamennsku að forðast. Blair varð lame duck leiðtogi, maður sem hefur misst alla yfirsýn, hefur flokkinn fylkingamyndaðan, ósáttan og órólegan, er leiðtogi sem hefur ekki lengur stjórn fyrst og fremst á örlögum sínum. Það hljóta að teljast grimmileg örlög fyrir alla sigursæla leiðtoga að enda þannig. Gott dæmi um stjórnmálamann sem vildi ekki hætta og vildi halda endalaust áfram var Margaret Thatcher. Flokksfélagar hennar ákváðu það fyrir hana með kuldalegum hætti.

Tony Blair var mjög vinsæll lengi en síðustu fjögur ár hafa minnt mun frekar á grískan harmleik frekar en sviðsvettvang gleði og styrkleika. Hann hefur verið að deyja sem leiðtogi síðan sumarið 2003 og hefur tekist með ótrúlegum hætti að ná að tíu ára valdaafmæli sínu og flokksins. En lengra verður ekki komist. Í þingkosningunum 2005 var hann orðinn byrði fyrir Verkamannaflokkinn. Þá dró Gordon Brown vagninn í mark með Blair í forgrunni. Brown var þá sá sem var vinsæll og yfirgnæfandi. Tragísk örlög það fyrir Blair sem vann eftirminnilegasta kosningasigur seinni tíma breskrar stjórnmálasögu á verkalýðsdaginn fyrir áratug.

Gordon Brown hefur beðið eftir völdunum mjög lengi. Hann hefur verið órólegur um langt skeið líka. Þegar að John Smith varð bráðkvaddur vorið 1994 bundust Blair og Brown samkomulagi um að skipta völdum. Blair yrði nýr leiðtogi, færi fram í leiðtogakjörið með stuðning beggja arma sinna og leiddi Verkamannaflokkinn til nýrra tíma í breskum stjórnmálum. New Labour, hugmyndafræðilegt fóstur Blair-istanna varð ofan á - það varð sögulega sterkt afl. Brown fékk verðugan sess. Hann varð fjármálaráðherra og hefur einn annarra ráðherra haldið sínum sess allan tímann, utan John Prescott, varaforsætisráðherra og varaleiðtoga flokksins.

Þetta vor 1994 sömdu Blair og Brown um að Blair myndi er langt yrði liðið á annað kjörtímabilið hleypa Brown að. Hann fengi tækifærið í þingkosningunum 2005. Blair sveik það loforð er hann sá að hann gæti leitt Verkamannaflokkinn til sigurs þá. Með því varð hann líka sögulega eftirminnilegur. Hann varð sigursælasti leiðtoginn í rúmlega aldarlangri sögu Verkamannaflokksins; vann þrennar kosningar. Aðeins Margaret Thatcher, járnfrúnni svipmiklu, tókst slíkt áður. Brown varð æfur í aðdraganda þeirra kosninga vegna svikanna. Þeir leystu sín mál þó í bróðerni samstöðunnar vegna. Er á hólminn kom varð þó Brown sá sem leiddi vagninn.

Það er ljóst að Gordon Brown hefur unnið vel sína heimavinnu í gegnum þennan áratug. Hann hefur drottnandi stöðu innan Verkamannaflokksins. Það leggur enginn í að skora hann á hólm af nokkurri alvöru nú loksins er Tony Blair yfirgefur hið pólitíska svið og ástar-haturs-sambandi þeirra nær allan áratuginn lýkur loksins. Brown hefur barið allar hugsanir vonarneista Blair-armsins niður. Blair gerði þau afdrifaríku mistök, þrátt fyrir að vera hundfúll yfir að Brown væri að skara eld að sinni köku með sig enn við völd, að byggja ekki undir leiðtogaefni. Hann gerði t.d. David Miliband ekki að utanríkisráðherra í hrókeringunum fyrir ári. Það voru mikil mistök fyrir Blair-arminn.

Brown stendur á rauðum dregli til valda í Downingstræti 10. Hann hefur alla þræði örlaganna í hendi sér - hefur barið alla andstöðu innan Verkamannaflokksins gegn sér niður. Þeir Blair-istar sem ekki þoldu hann í gegnum tíu árin hans Blairs leggjast nú á hnén fyrir framan í von um að halda sínum áhrifum. Blair-armurinn leggur niður skottið. Það sést vel af yfirlýsingum lykilfólks á þeim væng sem þegar er farið að gera það sem fyrir einhverju síðan hefði þótt óhugsandi; mæra Brown og styðja hann í gegnum lokahjallann til fullra valda.

Það fyrirsjáanlegasta sem blasað hefur við í breskum stjórnmálum frá maídeginum 1997 er Tony Blair kom í Downingstræti 10 sigri hrósandi er að verða að veruleika. Gordon Brown verður krýndur leiðtogi Verkamannaflokksins, hann verður næsti forsætisráðherra Bretlands. Hans bíða ný tækifæri þegar að Blair lætur honum sviðið eftir - hans bíður verkefnið mikla; að reyna að leiða kratana til fjórða sigursins. Það verður erfitt verkefni. Kannanir eru honum ekki hliðhollar.

Það verður kaldhæðnislegt ef Brown fær þau eftirmæli að hafa unnið kosningar fyrir annan mann en tapað þeim sjálfur, verandi gömul pólitísk lumma.


Áfellisdómur yfir Ehud Olmert - afsögn mikilvæg

Ehud OlmertRúmu ári eftir að pólitíski skriðdrekinn Ariel Sharon hvarf af sjónarsviði stjórnmálanna í Mið-Austurlöndum vegna veikinda hefur eftirmanni hans, Ehud Olmert, tekist að grafa algjörlega undan trúverðugleika sínum og Kadima, flokksins sem Sharon stofnaði skömmu fyrir leiðarlokin og Olmert leiddi til kosningasigurs í mars 2006 - fyrst og fremst vegna minningarinnar um stjórnmálamanninn Ariel Sharon. Hann hélt völdum á bylgju samúðar og styrkleika Sharons fyrst og fremst.

Þessi skýrsla opinberrar rannsóknarnefndar á stríði Ísraels í Líbanon á síðasta ári er gríðarlegur áfellisdómur yfir bæði Ehud Olmert og eiginlega mun frekar reyndar Amir Peretz, varnarmálaráðherra. Það er afgerandi niðurstaða skýrslunnar að ráðherrarnir hafi leitt landið út í stríð án plans og hugmynda um hvert bæri að stefna. Enda varð þetta stríð mikil háðung fyrir ísraelsku stjórnina og hafði mikil og vond áhrif fyrir stjórnarflokkana; bæði Kadima og Verkamannaflokkinn í raun. Það blasir við öllum að staða beggja leiðtoganna er orðin mjög vond.

Ári eftir að Ariel Sharon fékk heilablóðfallið sem sló hann út af hinu pólitíska sviði spurðu ísraelskir fréttaskýrendur hvað Sharon myndi eiginlega segja ef hann vaknaði við það stjórnmálaástand sem væri í Ísrael í janúar 2007 miðað við eftir styrka stjórn hans allt þangað til í janúar 2006. Þetta var fyrst og fremst grín vissulega en um leið fúlasta alvara. Það var allt gjörbreytt. Olmert hafði mistekist að taka völdin föstum tökum og gert afdrifarík mistök æ ofan í æ. Það syrtir sífellt meir í álinn hjá honum.

Það er ekki undrunarefni að menn tali um að Ehud Olmert eigi að segja af sér. Ég tel að hann eigi að gera það, fyrst og fremst til að tryggja það að þau þáttaskil sem Ariel Sharon vildi tryggja með tilkomu Kadima klúðrist ekki algjörlega. Likud styrkist sífellt og að öllu óbreyttu mun Likud verða endurbyggt sem lykilafl að nýju. Kadima er rúin trausti. Það eina sem Olmert getur gert er að segja af sér meðan stætt er fyrir hann.

Það væri viðeigandi að Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, og næst valdamesti stjórnmálamaður Ísraels tæki við. Hún er fimmtug, sterk stjórnmálakona sem boðar nýja tíma í ísraelskum stjórnmálum og hefði í raun frekar átt að taka við Kadima en Olmert, sem þrátt fyrir langan stjórnmálaferil hefur ekki staðið undir væntingum. Hann verður að segja af sér.


mbl.is Olmert leiddi Ísraelsmenn í stríð án undirbúnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni Ármannsson að hætta hjá Glitni

Bjarni ÁrmannssonÞað er nú ljóst að kjaftasögur um starfslok Bjarna Ármannssonar, forstjóra Glitnis, eru réttar og starfslokin verða kynnt í dag í kjölfar hluthafafundar. Það eru auðvitað stórtíðindi í íslensku viðskiptalífi að forstjóraskipti verði hjá Glitni. Þau koma þó svo sannarlega ekki að óvörum.

Gríðarlegar breytingar hafa orðið þar innanborðs á skömmum tíma. Lykileigendur hafa yfirgefið eigendahópinn og gríðarlega miklar breytingar verða á stjórn Glitnis í dag. Þá hættir Einar Sveinsson, fyrrum forstjóri Sjóvá, sem stjórnarformaður og Þorsteinn Jónsson í Kók tekur við.

Bjarni hefur verið spútnikk-maður í íslensku viðskiptalífi í áratug. Það vakti mikla athygli er hann varð forstjóri Kaupþings mjög ungur og hann varð forstjóri Fjárfestingabanka atvinnulífsins árið 1997.

Þegar að FBA og Íslandsbanki runnu saman með eftirminnilegum hætti árið 1999 varð Bjarni forstjóri Íslandsbanka með Vali Valssyni. Þeir voru saman forstjórar þar í nokkur ár en enginn var svo ráðinn forstjóri í stað Vals er hann lét af störfum.

Íslandsbanki varð svo Glitnir eins og flestir muna í mars 2006. Blái liturinn sem var svo afgerandi tákn Íslandsbanka hvarf af merkjum fyrirtækisins og af höfuðstöðvunum í gamla SÍS-musterinu við Kirkjusand og rauði liturinn varð allsráðandi.

Það verður fróðlegt að sjá hvað Bjarni Ármannsson tekur sér fyrir hendur við starfslok hjá Glitni. Visir.is hefur reyndar nú í þessum skrifuðum orðum þegar flashað því að nýr forstjóri verði Lárus Welding, framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum í Lundúnum í Bretlandi.


Pólitískar pælingar um stöðu Jónínu Bjartmarz

Jónína BjartmarzÞað er víst alveg óhætt að fullyrða að skiptar skoðanir séu enn á máli tengdu veitingu ríkisborgaréttar til tengdadóttur Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra. Sú umræða stoppaði ekki eftir umdeildan Kastljósþátt á föstudagskvöldið. Í dag sagði Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hreint út að hann teldi að stúlkan hefði notið sérmeðferðar við veitingu ríkisborgararéttarins.

Það hafa fáir stjórnmálamenn, að ég tel reyndar enginn, sagt það fyrr með svo afgerandi hætti. Þetta segir hann þrátt fyrir ummæli fulltrúa Samfylkingar í allsherjarnefnd, Guðrúnar Ögmundsdóttur, fráfarandi alþingismanns. Það vekur vissulega mikla athygli. En þetta mál hefur verið mikið rætt. Stór hluti umræðunnar hefur verið á vettvangi netsins. Allir virðast hafa skoðun á því. Það hlýtur að vera erfitt fyrir stjórnmálamann að sjá slíka umræðu um sig, en hún er óumflýjanleg þegar að hitinn er með þessum hætti.

Ég hef séð suma skrifa með þeim hætti að Jónína eigi að segja af sér. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Það eru þingkosningar eftir þrettán daga og þar ráðast örlögin. Jónína sækist eftir umboði áfram. Hún leitar til kjósenda í kjördæmi sínu. Það er þeirra að ákveða eftir þetta mál og annað sem gerst hefur á kjörtímabilinu hvort hún njóti stuðnings. Þar ráðast örlögin. En þetta mál er eflaust ekki búið. Það verður athyglisvert að sjá hvað gerist eftir helgina.


Fylgið á fleygiferð á milli flokka í Norðaustri

Könnun í Norðausturkjördæmi Skv. kjördæmakönnun Gallups hér í Norðausturkjördæmi mælist Sjálfstæðisflokkurinn með þrjá kjördæmakjörna þingmenn og tæplega 5% meira fylgi en í kosningunum 2003. Fylgið er á fleygiferð skv. þessa könnun miðað við kjördæmakönnun á Rás 2. VG bætir miklu við sig og Framsóknarflokkurinn réttir úr kútnum frá síðustu könnunum og styrkist mjög, þó auðvitað tapi þeir nokkru kjörfylgi.

Samfylkingin er að tapa nokkru fylgi frá kosningunum 2003 og missir fylgi ennfremur frá kjördæmakönnun í vikunni. Frjálslyndir missa brot úr prósenti og litlu framboðin eru ekki að ná flugi. Stór tíðindi könnunarinnar, sennilega þau stærstu, er að mínu mati hækkun Framsóknarflokksins sem virðist á góðri leið með að halda þriðja manni inni á lokaspretti kosningabaráttunnar. Ennfremur vekur athygli hversu mjög VG er að styrkjast á kostnað Samfylkingarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn: 28% (23,5%)
VG: 23,9% (14,1%)
Framsóknarflokkurinn: 21,9% (32,8%)
Samfylkingin: 19,7% (23,4%)
Frjálslyndir: 5,5% (5,6%)
Íslandshreyfingin: 0,9%
Baráttusamtökin: 0%

Þingmenn skv. könnun

Kristján Þór Júlíusson (Sjálfstæðisflokki)
Arnbjörg Sveinsdóttir
Ólöf Nordal

Steingrímur J. Sigfússon (VG)
Þuríður Backman

Valgerður Sverrisdóttir (Framsóknarflokki)
Birkir Jón Jónsson

Kristján L. Möller (Samfylkingu)
Einar Már Sigurðarson

Fallinn af þingi
Sigurjón Þórðarson

Þetta er merkileg mæling vissulega. Þessi könnun er ekki sérstaklega góð fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem tapar nokkrum prósentustigum frá kjördæmakönnun í síðustu viku. Þar var fylgið rúm 31% en fellur nú niður í slétt 28%. Vissulega er það nokkur fylgisaukning frá kosningunum 2003. Á móti kemur að það voru afspyrnuslakar kosningar fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem féll undir 25% og hlaut aðeins tvo menn kjörna; Halldór Blöndal og Tómas Inga Olrich. Þau úrslit mörkuðu það að við misstum ráðherrastól og forsetastól þingsins. Þetta verður ekki mjög viðunandi útkoma fyrir Sjálfstæðisflokkinn vilji hann öruggan ráðherrastól í vor.

Framsóknarflokkurinn er að styrkjast á lokasprettinum greinilega. Fyrir nokkrum vikum töldu margir það draumóra að Framsókn næði inn þriðja manni. Ég hef alltaf varað menn við því og sagt sem e að Framsókn hefur tekið kosningar á 10-20 dögum, stundum örfáum dögum. Framsókn tók kosningarnar 2003 í Norðausturkjördæmi á viku til tíu dögum. Það var ótrúleg sveifla sem ég gleymi aldrei, enda var ég þá að vinna á fullu í baráttunni. Merkileg staða. Það verður ótrúlegur varnarsigur fyrir Framsókn nái þeir bylgju af þeim skala nú. Þar er klárlega keyrt á Höskuldi og markmið þeirra er að ná honum inn. Það verða mikil tíðindi ná þau honum inn.

VG er greinilega að bæta við sig. Ef marka má sundurliðun er VG að styrkja sig á kostnað Samfylkingarinnar sérstaklega hér á Akureyri. Það er öllum ljóst að flokkurinn hlaut góða kosningu síðast. Það verður þó mikið pólitískt áfall fyrir Samfylkinguna fari hún undir 20% og verður afspyrnuslök mæling fyrir Kristján L. Möller. Það er reyndar athyglisvert að sjá að Samfylkingin er hvergi að halda kjörfylginu og er í bullandi vörn um allt land, berjast fyrir því að ná því. Það er engin sókn og staða þeirra hlýtur að vera þeim áhyggjuefni miðað við langa forystu í stjórnarandstöðu og þorstann í völd. Ný forysta skilar þeim engu. Þetta er vond staða.

Steingrímur J. Sigfússon virðist vera kominn í sína bestu kosningabaráttu á ferlinum. Hann hefur þó langan pólitískan feril að baki. Eftir þingkosningar mun aðeins Jóhanna Sigurðardóttir hafa lengri þingsetu að baki. Hann var landbúnaðar- og samgönguráðherra fyrir óralöngu, árin 1988-1991. Það er reyndar eina tímabilið á 24 ára þingferli Steingríms J. þar sem hann hefur verið stjórnarsinni. Þannig að hann getur talað ansi vítt og greinilega verið borubrattur. VG sækir mjög í sig veðrið í Norðaustrinu. Þeir mælast með tvo kjördæmakjörna, fengu síðast kjördæmamann og jöfnunarmann. Þeir horfa nú til þriðja manns. Hann er í sjónmáli í þessari mælingu.

Frjálslyndir eru að dóla á þessu bili, 5-6%, og hafa verið að gera meginhluta kosningabaráttunnar. Finnst Sigurjón og hans fólk vera að reyna að stóla helst á að hljóta styrk til jöfnunarsætis. Annars fengu frjálslyndir verri kosningu hér vorið 2003 en í meginhluta kosningabaráttunnar. Þá var Brynjar Sigurðarson í þessu leiðtogasæti og hann var hluta baráttunnar nærri þingsæti en komst ekki inn og fékk minna en kannanir sýndu um skeið. Staða Sigurjóns er allavega ótrygg og fátt sem bendir til að hann verði kjördæmakjörinn. Íslandshreyfingin er greinilega í tómu tjóni og ekki líkleg til afreka. Baráttusamtökin sjást varla og ekki vænleg til árangurs.

Kjördæmaþátturinn í Ríkissjónvarpinu áðan var mjög áhugaverður. Þar var Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri FSA og formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar, í forsvari fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það er gott mál, enda er mikilvægt að við kynnum Valda vel. Hann er í baráttusætinu okkar, er sterkur frambjóðandi fyrir Akureyri sem er mikilvægt að komist á Alþingi. Valgerður er sterk í debatt, bítur mjög frá sér og er að ná sama krafti aftur. Hún var í mikilli vörn framan af en styrkist sífellt í takt við það sem gerðist vorið 2003. Steingrímur J. fer langt á mikilli reynslu. Möllerinn er duglegur að ná orðinu og Sigurjón er eins og hann á að sér að vera.

Könnunin færir okkur merkilega mynd af stöðu mála. Það er greinilegt að Framsóknarflokkurinn er að bæta stöðu sína á Akureyri á kostnað okkar í Sjálfstæðisflokknum. Þar munar um Akureyringinn Höskuld Þórhallsson sem kynntur er mjög sem framtíðarmaður í stjórnmálum, maður sem er fæddur og uppalinn hér. Faðir Höskuldar, sr. Þórhallur Höskuldsson, var vinsæll og virtur prestur hér á svæðinu, sérstaklega hér í Akureyrarsókn þar sem hann starfaði til dánardags. Þessar tengingar skipta máli og ég tel að stóra fylgisaukning Framsóknar sé einmitt milli kannana hér á Akureyri. Það segja kannanir mjög vel, þessi mæling segir söguna vel.

VG er að taka af Samfylkingunni sérstaklega hér á Akureyri. Mér sýnist á greiningu könnunarinnar að stóru örlagaskilin séu að verða hér á Akureyri. Það eru mjög vond tíðindi að Sjálfstæðisflokkurinn sé að missa fylgi til Framsóknarflokksins hér á Akureyri. Það er umhugsunarefni fyrir okkur sjálfstæðismenn að mínu mati. Það er alveg deginum ljósara að 28% fylgi er í raun ekki viðunandi útkoma. Ég hef enda alltaf talið að við getum farið hærra og tel að við munum aldrei geta sótt þau áhrif innan flokksins, með ráðherrasetu og öðrum áhrifum, með minna fylgi en 30%. Þessi könnun er að því leyti gula spjaldið um að vinna betur!

En þetta er vissulega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna hér. Margir eru þó enn óákveðnir og þar ráðast örlög frambjóðendanna hér í baráttusætum. Það leikur lítill vafi á því að spennandi 13 dagar eru sannarlega framundan í kosningabaráttunni hér. Þar verður barist um hvert atkvæði. En fylgið er á mikilli ferð og áhugaverðir tímar svo sannarlega framundan.

mbl.is Sjálfstæðismenn og VG bæta við sig mönnum í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiptar skoðanir á viðtalinu við Jónínu Bjartmarz

Jónína Bjartmarz í Kastljósi Það er víst alveg óhætt að fullyrða að skiptar skoðanir hafi verið á viðtali við Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, í Kastljósi á föstudagskvöldið. Þar hreinlega rifust ráðherrann og frændi minn, Helgi Seljan, þáttastjórnandi, eins og frægt er orðið. Það var líflegt móment. Það er greinilegt að sumum fannst Jónína fara yfir strikið. Aðrir tala um að Helgi hafi gert það.

Ef marka má lífleg kommentaskrif á vefnum hjá mér um málið eru heitar skoðanir í báðar áttir. Ég hafði satt best að segja mjög gaman af þeim skoðanaskiptum. Þau voru í svo tvær gjörsamlega ólíkar áttir að athyglisvert var að sjá. Það er þó að mínu mati alveg fyrir neðan allar hellur að kenna Helga um umfang umfjöllunar málsins. Hann er ekki ritstjóri Kastljóss og tók engar ákvarðanir um umfang umfjöllunar. Þórhallur Gunnarsson, yfirmaður Sjónvarpsins, tók þær ákvarðanir.

Vissulega er umdeilt að birta slíkar upplýsingar svo skömmu fyrir kosningar. Get ekki betur séð en að þetta sé frétt. Það stendur eftir að þetta er umdeilt mál, mál sem vekur mikla athygli. Þetta er auðvitað vandræðalegt mál fyrir ráðherrann í umræðunni sem verður auðvitað harkaleg þegar á lokasprett kosningabaráttunnar. Bloggarar hafa verið iðnir að ráða í gáturnar í heildarmyndinni. Talað er um ástæður þess að tengdadóttir Jónínu fékk undanþáguna umdeildu og jafnvel rætt um hver hafi lekið þessu til fjölmiðla. Það eru margar spekúlasjónir í gangi.

Fyrst og fremst verður fylgst með hvort og þá hvaða áhrif málið hafi á stjórnmálaumræðuna næstu dagana. Skiljanlega fara framsóknarmenn, spunameistarar þeirra og frambjóðendur, til varnar fyrir ráðherrann. Hún er að berjast tvísýnni baráttu fyrir endurkjör og flokkurinn slær skjaldborg um hana í vondri stöðu. Það verður athyglisvert að sjá kannanir og dóm kjósenda í Reykjavík er á hólminn kemur eftir hálfan mánuð. Þá ræðst pólitísk framtíð Jónínu. Hún sækir sér umboð í kosningunum til borgarbúa og þar ráðast örlögin fyrst og fremst.

Það gerir það svosem ekki í rifrildi ráðherra í vanda og þáttastjórnanda sem er að vinna sína vinnu.

540 dagar.... og baráttan er hafin í USA

Barack Obama og Hillary Rodham Clinton Eftir 540 daga verður 44. forseti Bandaríkjanna, eftirmaður George W. Bush, kjörinn. 540 dagar eru jafnan heil eilífð í pólitískri baráttu. En baráttan um Hvíta húsið er þegar hafin af krafti. George W. Bush er mjög greinilega að mestu leyti búinn að vera sem öflugur stjórnmálamaður. Hann mælist svipað óvinsæll og Richard M. Nixon á Watergate-tímanum. Örlög hans seinasta sprett valdaferilsins urðu ljós með tapi þingdeildanna beggja í nóvember.

Þessar óvinsældir kristallast mjög afgerandi í upphafi kosningabaráttunnar svo snemma. Það hefur ekki gerst fyrr að í apríl ári fyrir forsetakosningar séu flestir komnir á fullt og meira að segja kappræður flokkanna hafnar. Fyrstu forkosningarnar verða ekki fyrr en í janúar 2008. Í vikunni mættust átta forsetaframbjóðendur demókrata í kappræðum. Þar er hörð barátta um útnefningu flokksins. Eftir tvo ósigra í forsetakosningum munu demókratar berjast af krafti fyrir því að öðlast völd í Hvíta húsinu samhliða völdum í báðum þingdeildum. Þar er leitað að sigurvegara og kröfur flokksmanna eðlilega mjög miklar.

Þessir átta kandidatar eru misjafnlega sterkir. Fyrirfram blasir þó við að þrír beri höfuð og herðar yfir hópinn. Það eru Hillary Rodham Clinton, forsetafrú Bandaríkjanna í átta ár við hlið mannsins með pólitísku lífin níu og öldungadeildarþingmaður New York frá 2001, Barack Obama, öldungadeildarþingmaður frá 2004 - glæný pólitísk stjarna en mesta efni blökkumanna frá dögum Martins Luthers Kings, og John Edwards, öldungadeildarþingmaður N-Karólínu í fjögur ár og varaforsetaefni Kerrys í floppkenndri kosningabaráttu 2004. Hinir eru líka missterkir en sennilega er Joe Biden, diplómatinn í hópnum, næstur þeim í kalíber.

Einu sinni var sagt að Hillary væri með þetta í vasanum. Menn efast um það og Obama hefur verið að slá í gegn. Milli þeirra ríkir brosandi kuldi, sem sást best á stingandi auglýsingum fyrir nokkrum vikum. Margir hafa nefnt þau hina ósigrandi framboðsblöndu demókrata, ef það þeirra sem tapar fari fram sem varaforsetaefni hins. Þó vænleg sé er það ólíkleg blanda. Obama hefur reyndar þegar lokað á þann möguleika í viðtali hjá David Letterman fyrir nokkrum vikum að verða varaforsetaefni Hillary. Það er því barist um frontinn á framboði hjá þeim báðum eflaust. Sennilega má segja nær öruggt að raunveruleg barátta sé á milli þeirra.

Barátta repúblikana um útnefningu flokksins er galopin, enda getur George W. Bush ekki gefið kost á sér til endurkjörs og varaforsetinn Dick Cheney hefur aldrei haft áhuga á forsetaembættinu. Þar er stefnt að kappræðum fljótlega. Mikil barátta er hafin þar milli frambjóðenda, mjög harðskeytt og sú kuldalegasta frá kapphlaupinu milli George W. Bush og John McCain árið 2000. Frá sigri Ronalds Reagans árið 1980 hefur þetta verið frekar rólegt hjá repúblikunum fyrir utan fyrrnefndan slag árið 2000 þar sem baráttutækni Karl Rove skein í gegnum áberandi þegar að Bush sló út McCain með grimmilega beittum auglýsingum sem seint gleymast.

Þar takast helst á þrír öflugir menn; Rudolph Giuliani - umdeildur borgarstjóri í New York sem varð þjóðarhetja á örlagadeginum 11. september 2001 er hryðjuverkamenn grönduðu tvíburaturnunum, Mitt Romney - ríkisstjóri Massachusetts um skeið, repúblikaninn sem varð ríkisstjóri í demókratavígi Kennedy-anna og Kerrys, og fyrrnefndur John McCain, öldungadeildarþingmaður í tvo áratugi og gömul stríðskempa frá Víetnam - sem tapaði fyrir Bush eins og fyrr segir árið 2000 eftir að hafa veitt honum óvænta keppni um hnossið í New Hampshire. McCain verður 72 á næsta ári - hann yrði elsti forseti Bandaríkjanna næði hann semsagt kjöri í Hvíta húsið.

Forsetaefnin eru komin á fullt. Þó enn séu um níu mánuðir í fyrstu forkosningar og 540 dagar í kosningarnar sjálfar er hasarinn jafnmikill og kosið væri í næsta mánuði í forkosningum flokkanna. Það verður fróðlegt hverjir ná að halda dampi í gegnum þetta gríðarlega langa skeið - til þess þarf hafsjó af dollaraseðlum og væna sjóði atorku í bland við auðæfin. Þegar er búið að ráða allt kosningastarfsfólk og maskínan er á full swing. Bush á enn eftir tæp tvö ár í Hvíta húsinu en bæði flokksfélagar hans og andstæðingarnir hafa startað - stórt merki þess hversu áhrif forsetans fara sífellt þverrandi, sérstaklega innan eigin flokks.

Forsetaefnin nota öll tæknina. Vefsíður eru löngu komnar í gagnið. MySpace er það heitasta í dag. Þeir hafa allir opnað vefsetur á þeim magnaða stað afþreyingar og samskipta. Ég opnaði eigin síðu á MySpace fyrir ári. Gaman af samfélaginu þar. Ákvað að bæta frambjóðendunum við, flestum af þeim allavega. Þeir samþykktu mig allir, þó ég væri ættaður frá landi í fjarska kosningamaskínunnar vestanhafs og því frekar vonlaust atkvæði í því mannhafi sem þau þurfa að heilla til að ná á leiðarenda. En gaman af þessu samt.

Þetta verða líflegir 540 dagar. Það verður áhugavert að sjá hverjir hafa mesta þrekið og komast alla leið inn í lokasprett forkosninganna og fá farmiða flokka sinna inn í tvísýnasta og harðvítugasta forsetaslag í sögu Bandaríkjanna. Þetta verður massífur pakki!

Baráttusamtökunum hafnað af yfirkjörstjórnum

Framboð Baráttusamtakanna kynntBaráttusamtökunum var í dag hafnað af yfirkjörstjórnum um framboð í Reykjavík (suður/norður) og Suðurkjördæmi. Þar var listum skilað eftir lok framboðsfrests í gær. Eina framboð þeirra sem var staðfest er hér í Norðausturkjördæmi. Eina von þeirra nú um að komast á atkvæðaseðil í kosningunum eftir 14 daga í þessum þrem kjördæmum er að kæra úrskurð yfirkjörstjórna til landskjörstjórnar.

Mjög ólíklegt er að það beri nokkurn árangur. Þetta framboð er því í raun úr sögunni fari þetta á þennan veg, enda blasir við að local-framboð aldraðra og öryrkja bara i Norðaustri er algjörlega dæmt til að mistakast. Framboð á einum bletti getur fyrirfram miðað við kosningalögin ekki náð fótfestu. Ekki gefa kannanir þeim heldur fyrirheit um fylgi upp á meira en hálft prósent ef marka má kjördæmakönnun á miðvikudag.

Það var vissulega frekar sorglegt að fylgjast með Arndísi Björnsdóttur í fréttatíma Stöðvar 2 í gær að reyna að fara eftir lok framboðsfrests með listana, fyrst til dómsmálaráðuneytisins og síðar í yfirkjörstjórnir. Hún var alltof sein og augljóslega hefur þetta gengið allt mjög brösuglega fyrst undirbúningi var ekki lokið fyrr. Það er auðvitað dapurt fyrir flokk að falla á tíma. Það er mjög erfitt að fara að veita undanþágu frá framboðslögum. Þegar að framboðsfrestur er liðinn hafa orðið skil og ljóst að fólk hefur einfaldlega fallið á tíma.

Baráttusamtökin hafa ekki haft hljómgrunn í könnunum. Það er ekki sterkt ákall í landinu fyrir sérstakt framboð aldraðra og öryrkja. Hefði svo verið er öllum ljóst að framboð hefði verið vel undirbúið og haft mikinn kraft í sér. Þann neista vantaði og því fór sem fór. Það er mjög einfalt mál.


mbl.is Framboðslistum Baráttusamtakanna hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterk staða Sjálfstæðisflokks - Guðjón Arnar úti

Könnun í NorðvesturkjördæmiSkv. kjördæmakönnun Gallups í Norðvesturkjördæmi mælist Sjálfstæðisflokkurinn með þrjá kjördæmakjörna þingmenn og rúmlega 33% fylgi. Frjálslyndi flokkurinn nær ekki þingmanni, mælist aðeins með 8% og því eru bæði Guðjón Arnar Kristjánsson og Kristinn H. Gunnarsson utan þings. VG minnkar mjög frá síðustu kjördæmakönnun en mælast 8% yfir kjörfylginu hinsvegar en eru við það að missa annan manninn.

Bæði Framsókn og Samfylking bæta við sig frá síðustu kjördæmamælingu og nálgast kjörfylgið. Mikla athygli vekur að aðeins ein kona mælist inni; Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir frá Tálknafirði, hjá VG. Mjög stutt er þó í að Herdís Sæmundardóttir frá Sauðárkróki nái inn fyrir Framsóknarflokkinn á kostnað Ingibjargar Ingu. Aðeins munar 0,1% á flokkunum.

Sjálfstæðisflokkur: 33,2% (29,6%)
Samfylkingin 20,5% (23,2%)
VG: 18,4% (10,6%)
Framsóknarflokkur: 18,3% (21,7 %)
Frjálslyndi flokkurinn: 8% (14,2%)
Íslandshreyfingin: 1,1%

Þingmenn skv. könnun

Sturla Böðvarsson (Sjálfstæðisflokki)
Einar Kristinn Guðfinnsson
Einar Oddur Kristjánsson

Guðbjartur Hannesson (Samfylkingu)
Karl V. Matthíasson

Jón Bjarnason (VG)
Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir

Magnús Stefánsson (Framsóknarflokki)

Fallin skv. könnun

Guðjón Arnar Kristjánsson
Kristinn H. Gunnarsson
Anna Kristín Gunnarsdóttir

Þetta er merkileg mæling vissulega. Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin tapa eins og fyrr segir enn fylgi í Norðvesturkjördæmi, þó tap flokkanna sé að verða óverulegt. Mjög stutt er eins og fyrr segir í að Framsókn haldi sínum tveim mönnum og fari í kjörfylgið. Samfylkingin fékk eins og Framsókn mjög vonda mælingu á kjördæmadegi Rásar 2 fyrir nokkrum vikum en er að sækja í sig veðrið. VG byrjaði mjög vel í Norðvesturkjördæmi og mældist lengst af með tvo örugga inni en virðist vera að missa það góða flug hægt og bítandi.

Þessi könnun er mikið áfall fyrir Frjálslynda flokkinn. Það eru mikil tíðindi að Guðjón Arnar mælist utan þings aðeins hálfum mánuði fyrir þingkosningar. Mjög mjótt er þó á mununum með stöðu hans, en hinsvegar er greinilegt að Kristinn H. Gunnarsson er kolfallinn af þingi ef miðað er við þetta. Frjálslyndir eru að missa umtalsvert fylgi, fimm prósentustig, frá síðustu kjördæmakönnun. Það er óhætt að segja að þeim vestfirsku félögum Guðjóni og Kristni sé að ganga mun verr en að var stefnt miðað við þetta, en fylgið virðast ekki streyma til þeirra.

Þessi mæling er mjög góð fyrir Sjálfstæðisflokkinn og er mjög góð tíðindi fyrir forystumenn flokksins. Einar Oddur er mjög sterkur í sessi sem kjördæmakjörinn þingmaður miðað við þetta. Það yrðu mjög gleðileg tíðindi fengi hann afgerandi kosningu inn og flokkurinn jafnvel yfir 30% mælingu. Það yrði stórsigur eftir allt talið sem gengið hefur um að staða þeirra hafi mögulega veikst. Það er alveg ljóst að þetta eru traustir forystumenn. Sérstaklega hefur Einar Kristinn verið að standa sig vel sem ráðherra og það er greinilegt að fólk í kjördæminu vill tryggja kjör Einars Odds með glæsilegum hætti. Þessi könnun er að því leyti afgerandi hvað það varðar.

Íslandshreyfingin virðist ekki vera að fá neitt alvöru start og virðist vandræði flokksins vera að sjást vel í fylgisleysi. Það voru líka nokkur vandræði sem urðu í því að fyrirfram ákveðinn leiðtogi datt úr skaftinu með athyglisverðum hætti. Kynnt var til sögunnar leiðtogaefni í kjördæmaþætti Stöðvar 2 í Hólminum en hún er þar hvergi á listanum sem kynntur var. Hinsvegar er Pálína Vagnsdóttir traust og öflug kona sem er úr Bolungarvík og ætti að hafa sterkar tengingar. Það verður fróðlegt að sjá hvort að henni tekst að snúa vörn í sókn fyrir flokkinn. Hinsvegar er öllum ljóst að mælingarnar eru hver á eftir annarri áfall fyrir þennan nýja flokk.

Var að horfa áðan á kjördæmaþáttinn. Það er greinilegt að atvinnu- og samgöngumál gnæfa þar yfir, rétt eins og hér. Sturla kemur fram af öryggi, varla við öðru að búast í svona góðri stöðu. Guðbjartur er að vinna á, sama má segja um Magnús sem verður sífellt traustari sem leiðtogi. Jón er ekki mjög sterkur, er honum mjög erfitt að tala um áherslur og lausnir VG í stórum málaflokkum. Guðjón Arnar er reyndur en hann er ekki að upplifa sína bestu kosningabaráttu greinilega, væntanlega er þetta hans síðasta í framlínupólitík. Pálína er kjarnakona sem sker sig úr sem eina konan í forystu framboðslista - sannkölluð kjarnakona þar á ferð.

En þetta er vissulega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna. Margir eru þó óákveðnir og spennandi hálfur mánuður sannarlega framundan í kosningabaráttunni þar. Staðan virðist mjög opin og þarna gætu orðið stórtíðindi, sé litið á þessa könnun sem fyrirboða um stöðu mála.


Jónína Bjartmarz rífst við Helga í Kastljósinu

Jónína Bjartmarz Það var athyglisvert að horfa á rifrildi Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, og Helga Seljans, frænda míns, í Kastljósinu rétt í þessu. Umræðuefnið var að sjálfsögðu veiting ríkisborgararéttar með mjög umdeildum hætti til tengdadóttur Jónínu. Þetta hefur verið mál málanna frá því að það varð aðalfréttauppsláttur í gærkvöldi hjá Ríkissjónvarpinu.

Jónína er greinilega mjög ósátt við umfjöllun Sjónvarpsins en á í erfiðleikum með að svara ýmsum spurningum málsins. Þetta er vissulega mjög vandræðalegt mál, sérstaklega fyrir ráðherra flokks sem heyr varnarbaráttu í tvísýnni kosningabaráttu hálfum mánuði fyrir alþingiskosningar. Stórar spurningar eru áberandi í málinu og það er alveg ljóst að þetta mál vekur athygli fyrir umdeilt verklag og tengsl umsækjandans við ráðherra í ríkisstjórn eru mjög vandræðaleg, þó ekki sé fyrir neitt annað liggur við.

Það verður fróðlegt að sjá hvort að þetta mál hefur einhver áhrif fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík á þessum tvísýna lokaspretti. Jónína er í erfiðri baráttu fyrir endurkjöri á þing og pólitískt staða hennar er mjög ótrygg. Þetta viðtal svaraði fáum spurningum. Rifrildi milli Jónínu og Helga er það sem helst stendur eftir. En þetta er vont mál fyrir ráðherrann, það blasir við öllum. Flestir hafa áhuga á að sjá þó hvaða áhrif málið hafi á stöðu ráðherrans og hvort að hún nær endurkjöri yfir höfuð á þing eftir 15 daga.

Framsókn hækkar - vinstriflokkarnir jafnstórir

Könnun (27. apríl 2007) Skv. nýjustu könnun Gallups hækkar fylgi Framsóknarflokksins um rúm tvö prósentustig og vinstriflokkarnir mælast jafnstórir, með 14 þingsæti og 21,2% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 39,1% fylgi. Frjálslyndir hækka og mælast með 5,7% en Íslandshreyfingin lækkar sífellt, missir eitt prósentustig og mælist aðeins með 2,3%.

Skv. þessu er Sjálfstæðisflokkurinn með 26 þingsæti, bætir við sig fjórum frá kosningunum 2003, Samfylkingin og VG hafa eins og fyrr segir 14 þingsæti. Samfylkingin myndi skv. því tapa sex þingsætum en VG bæta við sig níu þingsætum. Framsókn mælist sem fyrr með 6 þingmenn en kemst í fyrsta skipti í 10% í könnunum Gallups frá í febrúar. Frjálslyndir hafa 3 þingsæti, missa eitt frá síðustu kosningum.

Það eru 15 dagar til kosninga. Þessi könnun er vissulega mjög athyglisverð. Sjálfstæðisflokkurinn gnæfir yfir alla flokka, eins og hann hefur gert í öllum skoðanakönnunum það sem af er kosningabaráttunnar. Samfylkingin missir fylgi eftir að hafa hækkað í síðustu vikukönnun í kjölfar landsfundar síns fyrir hálfum mánuði. VG bætir við sig fylgi, en hæst komst flokkurinn í tæp 28% en hefur verið að dala undanfarnar vikur og fór fyrir viku t.d. undir 20% markið í fyrsta skiptið um þónokkuð skeið. Framsókn virðist eins og fyrr segir vera að bæta við sig, en er þó enn verulega undir kjörfylginu 2003. Frjálslyndir hækka nokkuð milli vikna en Íslandshreyfingunni er ekki að takast að ná hljómgrunni.

Það er athyglisvert að sjá mælinguna hvað varðar stöðu Samfylkingarinnar, sem þarna mælist 10% undir kjörfylginu 2003. Samfylkingin er því með öðrum orðum að missa mest kjörfylgi frá kosningunum 2003 samkvæmt mælingunni. Trendið er því enn til staðar um að Framsókn og Samfylking tapi á meðan að Sjálfstæðisflokkur og VG bæti við sig. Það blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn er að bæta þónokkru fylgi við sig frá kosningunum 2003. Ríkisstjórnin héldi velli í könnuninni, en með minnsta mögulega meirihluta, 32 þingsætum.

Það stefnir í spennandi lokasprett í kosningabaráttunni. Kannanir sýna mikið flökt á fylgi og erfitt að spá um hvað gerist. Staða ríkisstjórnarinnar er mjög ótrygg skv. könnunum og mismiklar fylgissviptingar í gangi hjá flokkunum. Þessi staða gefur allavega fyrirheit um spennandi lokapunkt baráttunnar. Það eru margir margir óákveðnir líka - þar liggja örlögin í vor.

mbl.is Fylgi Samfylkingar og VG jafnmikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tony Blair segir af sér 9. maí - Brown krýndur?

Tony BlairBreskir fjölmiðlar eru farnir að fullyrða að Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, muni segja af sér sem leiðtogi Verkamannaflokksins miðvikudaginn 9. maí og muni yfirgefa Downingstræti 10 eigi síðar en um miðjan júní eftir leiðtogakjör, þ.e.a.s. fari einhver fram af alvöru gegn Gordon Brown, fjármálaráðherra, sem verður æ ólíklegra. Það er viku eftir tíu ára valdaafmæli Verkamannaflokksins og nokkrum dögum eftir héraðskosningar sem flest bendir til að verði flokknum erfiðar. 

Áratugur er liðinn frá sögulegum kosningasigri Verkamannaflokksins á verkalýðsdaginn, 1. maí 1997. Sólarhring síðar kom Tony Blair sigri hrósandi í Downingstræti hafandi fengið umboð Elísabetar II til stjórnarmyndunar og sem leiðtogi nýrra tím, vonarneisti annarra tíma, annars flokks með aðrar og ferskari hugmyndir. Þar var hann hylltur sem sigurhetja og var maður fólksins. Hann naut fyrstu mánuðina og eiginlega fyrsta valdaárið sitt sögulega mikils stuðnings sem forsætisráðherra. Fyrsta kjörtímabilið var sem draumur fyrir hann og kratana. Síðan hefur syrt heldur betur í álinn.

Það verða pólitísk þáttaskil með brotthvarfi Tony Blair af hinu pólitíska sjónarsviði. Það leikur enginn vafi á því. Hann hefur verið þungavigtarmaður á þessum vettvangi og markað merkileg skref. Hann hefur verið umdeildur og hann hefur bæði verið vinsæll og óvinsæll. Ég mun aldrei gleyma þeirri bylgju stuðnings og krafts sem hann fetaði á til valda vorið 1997. Sigur hans var fyrirsjáanlegur. Blair tókst að leggja Íhaldsflokkinn þetta vor með ótrúlega afgerandi hætti.... og hann var þá vinsælasti forsætisráðherrann í breskri stjórnmálasögu.

Það er ekki óvarlegt að fullyrða að Blair sé nú aðeins svipur hjá sjón þess stjórnmálaleiðtoga sem klappað var fyrir er hann kom sem forsætisráðherra fyrsta sinni þann 2. maí 1997 í Downingstræti 10.  Það var ótrúleg sigurstund. Verkamannaflokkurinn hafði verið í eyðimörk í tvo áratugi. Flokkurinn átti að baki ótrúlega ólánssögu og brostnar vonir flokksmanna eftir fjóra skaðlega ósigra fóru ekki framhjá neinum. Ég var um daginn að horfa á nokkrar ræður Blairs sem ég átti á spólu. Það voru ræðurnar sem hann flutti 1. maí 1997, vígreifur eftir kosningasigurinn mikla, og 31. ágúst 1997, sem forsætisráðherra fólksins við dauða Díönu, ræða sem hafði mikil áhrif.

Það hefði fáum órað fyrir þessa daga á miðhluta ársins 1997 að hann ætti eftir að enda sem óvinsæll og einangraður flokksleiðtogi, maður sem væri að fjara út. En það fór svo. Það eru engin tíðindi lengur að hann sé að fara. Innri ólga gerði það að verkum innan Verkamannaflokksins í september að hann gat ekki beðið með yfirlýsinguna miklu og hann var allt að því neyddur til að leggja niður skottið. Hann varð að gefa upp árstímaramma fyrir leiðarlokin. Það var gríðarlegt pólitískt áfall fyrir hann að missa stjórn á þeirri atburðarás. Hann hefur veslast upp sífellt alla tíð síðan. En hann varð að gera þetta til að afstýra því að enda eins og Thatcher.

Mesti veikleiki öflugs leiðtoga er oft á tíðum að missa yfirsjón á því hvenær hann er orðin byrði. Thatcher klúðraði sínum pólitísku endalokum með eftirminnilegum hætti. Það hvernig valdaferli hennar lauk var áminning þess að hætta ber leik þá er hann hæst stendur. Blair festist í sama vandræðagangi að mínu mati. Sá var þó munurinn að hann gaf alltof snemma út þá yfirlýsingu að hann færi ekki í fjórðu kosningarnar. Það hvernig hann sveik margfrægt samkomulag við Gordon Brown um skiptingu valda eftir dauða John Smith hafði líka áhrif. Hann hefur veslast upp og fer skaddaður af stóli.

Tony Blair fór líka illa á Íraksmálinu. Það eyðilagði hann sem sterkan leiðtoga jafnaðarmanna í Evrópu. Hann var umdeildur og hann bognaði, varð ekki lengur afgerandi leiðarljós þeirra. Samt segist Blair ekki sjá eftir neinu. Ég sá um daginn viðtal með honum á Sky, þetta var svona eitt þeirra viðtala þar sem hann fetar skref fyrir skref út af sviðinu. Þessi spinnmennska hans er orðin yfirborðskennd og klén. Kannski fór spinnmennskan mikla með hann. Festist þessi sterki jafnaðarmannaleiðtogi ekki bara í eigin vef? Það er freistandi að telja svo vera.

En leiðarlokin eru framundan á næstu vikum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig eftirmaður hans verður valinn. Svo virðist vera að Skotinn Gordon Brown sé með þetta algjörlega í hendi sér. Hann hefur ekki enn fengið afgerandi keppinaut. Það voru stórtíðindi um síðustu helgi er umhverfisráðherrann David Miliband, vonarstjarna Blair-armsins, lýsti yfir stuðningi við Brown, eftir að hafa hlotið áskoranir víða að um að fara fram. Segja má að hann hafi verið sá eini sem átti möguleika í Brown. Það er talið mjög ólíklegt að hann fái alvöru keppni úr þessu.

Það sem mest vekur þó athygli núna eru héraðskosningarnar á Englandi á fimmtudag í næstu viku, sólarhring eftir áratugs valdaafmæli Blair og Verkamannaflokksins. Það stefnir allt í mikinn ósigur Verkamannaflokksins í Skotlandi. Það verður gríðarlega mikið áfall fyrir Blair að fara frá með það á bakinu og Brown yrði sneyptur tæki hann við eftir þau ósköp.


Sverrir í heiðurssæti í Norðausturkjördæmi

Sverrir Hermannsson Íslandshreyfingin skilaði á elleftu stundu öllum framboðslistum sínum, en framboðsfrestur rann út í morgun. Það er athyglisvert að sjá listann í Norðausturkjördæmi. Athygli vekur að Sverrir Hermannsson, fyrrum bankastjóri og ráðherra, skipar heiðurssæti framboðslista Íslandshreyfingarinnar hér í kjördæminu. Það eru tveir áratugir á þessu ári síðan að Sverrir Hermannsson fór síðast fram í Austurlandskjördæmi. Hann var þingmaður kjördæmisins í 17 ár.

Sverrir á því svo sannarlega merka pólitíska sögu í þessu kjördæmi. Hann sat um árabil á þingi með Helga Seljan, móðurbróður mínum, og margir fleiri kappar eru eftirminnilegir í stjórnmálasögu Austfjarða á 20. öld. Ég hafði alltaf gaman af að lesa skrif Regínu Thorarensen, frænku minnar og kjarnakonunnar sönnu og austfirsku, um Sverri. Hún var sjálfstæðiskona par excellance. Hún fór þó eigin leið og var ekki blind í sínum flokki. Hún var einstök. Það var gaman að rifja upp skrif hennar um Sverri í ævisögunni um hana, sem ég las aftur nýlega.

Sverrir sagði af sér þingmennsku á árinu 1988 og varð þá bankastjóri Landsbanka Íslands, sem umdeilt varð. Hann tók við af Jónasi Haralz. Bloggvinur minn, Kristinn Pétursson, tók sæti hans á þingi. Ég hef reyndar lengi vel á eftir hugsað um hvernig frambjóðandi og þingmaður fyrir Austfirði hann Sverrir var. Merkilegt var reyndar að einmitt þar skyldi hann ávallt vera í framboði meðan að hann vann fyrir Sjálfstæðisflokkinn og þar hafi hans pólitíska vígi verið. Hann átti reyndar eftir að taka aftur sæti á Alþingi en hann leiddi Frjálslynda flokkinn í kosningunum 1999 og komst inn sem jöfnunarmaður í Reykjavík.

Það eru merkileg tíðindi að sjá þá gömlu flokksfélaga og vinnufélaga á Alþingi um árabil, Sverri og Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og þingforseta, skipa heiðurssæti á listum sínum í kjördæminu. Þeir eiga mjög mikla pólitíska sögu saman, þó svo sannarlega ekki á seinni árum. Báðir eru eftirminnilegir karakterar svo sannarlega. Þetta er reyndar athyglisverður listi. Frændi minn, Hákon Seljan, er t.d. þarna á lista og nokkrir sem ég kannast við. Ég þekki þó ekki leiðtogann og dreg stórlega í efa að hann eigi möguleika á þingsæti.

En það er gaman að sjá Sverri í framboði, þó í heiðurssæti sé aðeins auðvitað, á fornum pólitískum slóðum.

mbl.is Sverrir Hermannsson í heiðurssæti Íslandshreyfingarinnar í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttusamtökin aðeins fram í Norðausturkjördæmi

Það hefur verið háleitt tal um framboð aldraðra og öryrkja fyrir þessar kosningar. Um tíma stefndi jafnvel í fleiri en eitt slíkt framboð. Talað var um landsframboð og það væri einhver kraftur á bakvið það. Svo er augljóslega alls ekki. Baráttusamtökin náðu aðeins að skila inn framboðslista hér í Norðausturkjördæmi. Þetta verður því ekki landsframboð heldur local-framboð hér í þessu kjördæmi. Það þarf varla að taka það fram að þeim spái ég ekki velgengni hér.

Þetta hefur verið mjög klaufalegt allt saman. Það hvernig að aldraðir og öryrkjar bundust andstæðingum flugvallar í Vatnsmýrinni var hálf kjánalegt og þeim ekki til mikils vegsauka. Enda greinilegt að það var bara framboð til að sameina krafta þó að þeir ættu nákvæmlega enga samleið. En svo fór sem fór. Engin eftirspurn var í raun semsagt eftir framboði aldraðra og öryrkja og þetta fær vænan floppstimpil við leiðarlok.

Það hefði verið meiri reisn yfir því hjá þeim hreinlega að bakka frá þessu. Það trúir enginn á local-framboð aldraðra og öryrkja á einum stað hafandi mistekist að ná að fara fram á landsvísu.

mbl.is Baráttusamtökin aðeins fram í einu kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vondur dagur fyrir Framsóknarflokkinn

Jón Sigurðsson og Siv FriðleifsdóttirÞetta var svo sannarlega mjög vondur dagur fyrir Framsóknarflokkinn. Hálfum mánuði fyrir alþingiskosningar virðist hvert klúðrið reka annað á viðkvæmum tímapunkti. Dramatísk ólga ríkir greinilega innan flokksins vegna klaufalegs verklags við formannsskipti í Landsvirkjun og umræðan um ríkisborgararétt kærustu sonar Jónínu Bjartmarz er flokknum vond á lokaspretti kosningabaráttu.

Það er nú ekki mikil áberandi reisn yfir þessum stjórnarformannsskiptum hjá Landsvirkjun. Það sjá allir að Jóhannes Geir fer algjörlega hundfúll af velli. Hann hefur talað frekar opinskátt miðað við aðstæður; sagt og gefið til kynna með afgerandi það sem allir sjá, að sparkað hafi verið í hann og það ansi fast á viðkvæman stað - margir spyrja sig af hverju það var gert. Skýringar Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, þess efnis að Jóhannes Geir hefði einfaldlega búinn að vera of lengi eru hjákátlegar í besta falli og eru einhver platástæða. Það sést langar leiðir.

Það er freistandi að halda að Jóhannesi Geir hafi verið sparkað vegna þess að hann hafi mögulega verið talsmaður þess að breyta rekstrarfyrirkomulagi Landsvirkjunar og stokka stöðu mála upp. Það að honum hafi ekki verið leyft að taka eitt ár enn og fylgja Kárahnjúkavirkjun, einu allra stærsta verkefni formannsferils síns, allt til enda vekur altént mjög mikla athygli. En svo fór sem fór. Mér fannst allavega orðalag formanns Framsóknarflokksins í dag mjög undarlegt og skil satt best að segja ekki hver ástæðan er. Þetta með að Jóhannes Geir hafi verið búinn að vera of lengi hljómar mjög kostulega sem ástæða.

Svo sést langar leiðir að Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, er hundfúl með þessa breytingu og stöðuhækkun Páls Magnússonar, varaþingmanns hennar. Kergjan milli manna í Suðvesturkjördæmi á kjörtímabilinu er öllum í fersku minni og allir muna hvernig staðan var í Kópavogi. Það er eitthvað sem gleymist reyndar seint, t.d. þegar að annað framsóknarkvenfélag var stofnað í sveitarfélaginu og allt fór þar upp í hund og kött eftir að höfðinginn þeirra mikli, Sigurður Geirdal, féll snögglega frá. Í kvöld sást á Stöð 2 þar sem Siv strunsaði frá myndavél augljóslega fjarri því alsæl með tíðindin í Landsvirkjun.

Málið tengt Jónínu Bjartmarz er ekki mjög gott. Allar lýsingar eru frekar ófagrar, hvernig svo sem mögulega að var staðið. Þetta er mjög gruggugt mál. Ekki bætir það fyrir flokknum í Reykjavík altént. Þetta er ekki vænlegt mál fyrir neinn flokk á lokaspretti kosningabaráttu. Þarna berjast bæði Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz fyrir því að hljóta þingsæti. Kannanir hafa sýnt þau bæði utan þings um þónokkuð skeið. Það hefur ekki birst könnun sem sýnir þingmenn flokksins í Reykjavík, Guðjón Ólaf og Sæunni, inni. Það verður fróðlegt hvernig fer að lokum.

Framsóknarflokkurinn hefur verið þekktur fyrir að taka kosningar á 10-20 dögum, jafnvel færri en 10 dögum, lokaspretturinn hefur verið þeim drjúgur. Á lokasprettinum í kosningabaráttunni 2003 sneri Framsóknarflokkurinn tapaðri skák við með undraverðum hætti, mjög eftirminnilegum. Fylgst verður vel með hvernig lokaspretturinn verður nú. Það verður mikill varnarsigur fari flokkurinn yfir 13% fylgi og fengi fleiri en átta þingmenn eins og komið er málum. Þá var Halldór Ásgrímsson í brúnni, reyndur og traustur leiðtogi. Jón Sigurðsson hefur ekki sömu vigt.

15 dagar eru ekki langur tími - en geta orðið heil eilífð í kosningabaráttu, sérstaklega fyrir flokk í mikilli varnarbaráttu. Það verður svo sannarlega áhugavert að greina þessa daga og örlög Framsóknarflokksins eftir það tímabil þegar að úrslit eru ljós. Þessi klúðurslegu mál eru vandræðaleg og þungbært veganesti inn á viðkvæman lokasprett.

Það má fullyrða með vissu að vel verði fylgst með pólitísku heilsufari Framsóknarflokksins næstu 15 dagana og því hver dómur þjóðarinnar verður á örlagadeginum 12. maí.


Vandræðalegt mál fyrir Jónínu Bjartmarz

Jónína Bjartmarz Ég verð að viðurkenna að ég varð alveg gapandi hissa í kvöld þegar að ég heyrði fréttir af tengslum Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, og suður-amerískrar konu sem veittur var íslenskur ríkisborgararéttur þrátt fyrir að hún hefði aðeins dvalið á landinu í 15 mánuði á dvalarleyfi námsmanna.

Fram kom í umfjöllun Ríkissjónvarpsins og Kastljóss í kvöld að aðstæður konunnar hefðu verið allt aðrar en þeirra sem fengu íslenskt ríkisfang á sama tíma. Það er alveg ljóst að þetta er mjög vandræðalegt mál fyrir Jónínu, það lítur ekki vel út að mínu mati.

Viðkomandi kona mun vera með lögheimili á heimili Jónínu og vera unnusta sonar hennar. Þetta er mál sem er ekki gott að mínu mati. Tengsl ráðherrans við svona viðkvæmt mál vekur ansi margar spurningar. Það verður að fá svör við þeim með almennilegum hætti tel ég.

mbl.is Nefndarmenn hafi tekið fram að þeim hafi verið ókunnugt um tengsl Jónínu og umsækjandans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Páll hjá Landsvirkjun í aðeins eitt ár?

Páll Magnússon Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi, er orðinn stjórnarformaður Landsvirkjunar. Fái Framsóknarflokkurinn skellinn mikla eftir 16 daga sem kannanir hafa sýnt lengi og hann missi völdin verður strax farið að spyrja sig að því hver verði eftirmaður Páls í þessum mjúka stól valda og áhrifa. Þá kæmi til sögunnar nýr iðnaðarráðherra með aðrar áherslur og úr öðrum flokki og ráðherrar úr öðrum áttum. Sá ráðherra myndi líta í aðrar áttir eftir formanni hjá Landsvirkjun í aðdraganda nýs aðalfundar. Það blasir við öllum.

Ég skil ekki þessa fléttu hjá Framsókn. Hún lítur frekar undarlega út í sannleika sagt. Hverju mun Páll áorka hjá Landsvirkjun færi það svo að hann yrði bara í ár í þessum stól? Hvernig verður jafnvel fyrir hann að vinna með ráðherra úr öðrum flokki, enda engin trygging fyrir því að Framsókn verði áfram í ríkisstjórn. Þetta er flétta sem kemur óvænt. Ég taldi að Jóhannes Geir yrði áfram þetta eina ár og svo myndi nýr ráðherra með sterkt umboð eftir kosningar taka af skarið.

En þetta er mjög athyglisvert allt saman. Það verður athyglisvert að sjá hvað verður um Pál, hvort hann verði bara í ár í þessum stól. En, Páll er greinilega mikils metinn hjá formanni Framsóknarflokksins og gamla Halldórsarminum. Þessi flétta þarf varla að koma að óvörum þrátt fyrir allt sé litið í innsta kjarna Framsóknar. En eftir stendur hinsvegar spurningin; verður Páll hjá Landsvirkjun í aðeins eitt ár? Svar fæst von bráðar svosem.

mbl.is Páll Magnússon stjórnarformaður Landsvirkjunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhannes Geir settur af - átök innan Framsóknar?

Jóhannes Geir Sigurgeirsson Jóhannes Geir Sigurgeirsson, fyrrum alþingismaður Framsóknarflokksins, verður settur af sem stjórnarformaður Landsvirkjunar á aðalfundi í dag. Tíðindin af því að forysta Framsóknarflokksins hefði ákveðið að slá hann af vöktu mikla athygli í gærkvöldi. Sögusagnir ganga nú um átök innan flokksins, einkum milli ráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi, vegna málsins. Það vekur óneitanlega ýmsar spurningar að skipt sé um formann 16 dögum fyrir alþingiskosningar.

Mun Jóhannes Geir hafa lýst yfir vilja sínum til að sitja eitt ár enn, en hann hefur verið stjórnarformaður í tíu ár. Mun Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hafa viljað skipta um og velur til verksins Pál Magnússon, bæjarritara í Kópavogi og aðstoðarmann Valgerðar Sverrisdóttur í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu 1999-2006. Páll er eins og flestir vita bróðir Árna Magnússonar, fyrrum félagsmálaráðherra, sem eitt sinn var talinn krónprins Framsóknarflokksins rétt eins og Finnur Ingólfsson, sem fyrst skipaði reyndar Jóhannes Geir til formennsku hjá Landsvirkjun.

Umfjöllun Moggans í morgun vekur athygli. Þar er vísað til þess að Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, sem hefur ekki verið þekkt fyrir kærleika í garð Páls Magnússonar sé ekki ánægð með upphefð hans með þessum hætti. Hún reynir að eyða þessu tali með skammarhjali í garð Moggans á vef sínum í morgun. Ekki eru það sannfærandi orð satt best að segja er hugsað er til valdaátakanna innan Framsóknarflokksins þar sem litlir kærleikar voru með Páli og Siv.

En Jóhannes Geir er greinilega hættur að skipta máli í augum forystu Framsóknarflokksins. Það að hann sé settur af með valdi af forystu flokksins sem hann var þingmaður fyrir um skeið og hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir um árabil vekur talsverða athygli. Það er merkilegt að sjá svona atburðarás svo skömmu fyrir kosningar.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband