Verður Ágúst Ólafur ráðherra í Þingvallastjórn?

Ágúst Ólafur Ágústsson Það er ljóst að brátt verða ráðherrar í Þingvallastjórnina valdir. Margir velta fyrir sér stöðu Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, sem ráðherraefnis. Það vakti mikla athygli að hann var ekki viðstaddur fyrsta stjórnarmyndunarfund Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í Ráðherrabústaðnum og vakti vandræðalega umræðu fyrir Samfylkinguna.

Nú hefur Ágúst Ólafur svo verið pússaður inn í viðræðurnar á Þingvöllum, enda ekki annað í raun viðeigandi en að hann sé lykilhluti viðræðnanna sem varaformaður stjórnmálaflokks í stjórnarmyndunarviðræðum. Það vekur mikla athygli hversu hávær umræðan um ráðherradrauma hans er. Í flestum tilfellum ætti að vera sjálfgefið að varaformaður flokks sem myndar stjórn, og situr um leið á þingi, fái ráðherrastól. Það virðist vera meira hik á þessari umræðu og óvissan hefur auðvitað orðið áberandi, enda er hefð fyrir því að varaformenn leiki lykilþátt í svona umræðum.

Ég tel að möguleikar Ágústs Ólafs á ráðherrasæti hafi aukist eftir að þessi umræða kom upp fyrst. Hún styrkti stöðu hans sem aðila í þessum viðræðum. Það er auðvitað hreinn vandræðagangur að hann sat ekki fyrsta fundinn, það var áberandi vandræðagangur sem Samfylkingin kippti auðvitað í liðinn. Persónulega finnst mér að Ágúst Ólafur eigi að vera ráðherra, staða hans innan Samfylkingarinnar ætti að tryggja honum öruggan ráðherrastól með Össuri Skarphéðinssyni, fyrrum formanni Samfylkingarinnar. Persónulega tel ég að Kristján Möller verði þriðji og síðasti karlkyns ráðherra flokksins.

En svör við þessu koma fyrr en síðar auðvitað. Það verður þó gríðarlega áberandi fái varaformaður Samfylkingarinnar ekki öruggan sess í ríkisstjórn við þessar aðstæður sem uppi eru.

Styttist í nýja ríkisstjórn - vinna á lokastigi

Geir H. Haarde og Ingibjörg SólrúnÞað blasir við að stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eru á lokastigi. Vel hefur verið unnið af hálfu flokkanna um helgina á Þingvöllum og ljóst að ný ríkisstjórn tekur við völdum á næstu dögum. Væntanlega verður grunnur hennar kynntur þingflokkum á morgun, mánudag, en þingmönnum hefur verið sagt að vera á höfuðborgarsvæðinu.

Það er auðvitað mikið gleðiefni að sjá hversu vel þessi vinna gengur og að samkomulag sé í sjónmáli. Það hefur verið unnið af krafti síðustu daga og helgin nýtt vel til verkanna sem máli skipta. Það er ljóst að stutt er í ríkisstjórnarskipti og væntanlega mun Alþingi koma saman innan skamms tíma, þar sem nefndir og forysta þingsins verða kjörin og forsætisráðherra flytur stefnuræðu ríkisstjórnarinnar. Mjög fróðlegt verður að fylgjast með upphafi þinghalds, sérstaklega verður þar fylgst með nefndakapal og auðvitað því hvernig nýrri 20 manna stjórnarandstöðu gengur að stilla sig saman.

Vangaveltur þess sem við tekur er málefnagrunnur ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er kominn á hreint tengjast skipan stjórnarinnar og skiptingu ráðuneyta. Það mun eflaust skýrast fyrr en seinna. Fróðlegt verður auðvitað að sjá hvort að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verður utanríkisráðherra eða fjármálaráðherra, ennfremur hvort Samfylkingin tekur við ráðuneytum þeim sem Framsóknarflokkurinn hefur haft eða hvort uppstokkun verður. Heldur líklegra er nú að uppstokkun verði og því muni Sjálfstæðisflokkurinn ekki aðeins sitja í þeim ráðuneytum sem hann hefur nú. Fróðlegt verður ennfremur að sjá hvort ráðuneytum verði fækkað.

Skv. mínum heimildum verður það ekki gert og því fái báðir flokkar sex ráðherrastóla. Ennfremur verður auðvitað vel fylgst með því hver verði forseti Alþingis. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forsetastól þingsins í 16 ár og er auðvitað athyglisvert að sjá hvort hann fær stólinn áfram. Eflaust munu margir fylgjast með því hverjir verði ráðherrar flokkanna. Það má eflaust búast við einhverju athyglisverðu. Meiri efasemdir eru sýnist mér uppi um tillögu formanns Sjálfstæðisflokksins en formanns Samfylkingarinnar, þó báðar tillögur verði eflaust athyglisverðar.

Heilt yfir er gott að sjá hversu vel vinnan hefur gengið. Það er góður vitnisburður um verklagið hjá flokkunum og góðs viti um það sem koma skal. Allra augu færast brátt frá Þingvöllum og til þess sem tekur við nú við val á ráðherrum og í önnur embætti á fundum þingflokka Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Eflaust munu æðstu stofnanir flokkanna verða kallaðar saman til að staðfesta samstarfið á þriðjudag og flest stefnir í ríkisstjórnarskipti eigi síðar en á miðvikudag. Þetta verða spennandi tímar sem fylgja þeirri uppstokkun mála sem fylgir nýrri ríkisstjórn.

Það er ekki undrunarefni að forystumenn flokkanna hafi ákveðið að funda á Þingvöllum. Þar er mikil kyrrð og greinilegt að vel hefur tekist til yfir helgina. Forystumenn flokkanna hafa fengið góða ró yfir þessum verkum og greinilegt á löngum fundum að þar hefur tekist að ná góðu verklagi og tryggja að forystumenn nýrrar stjórnar smelli vel saman til verkanna framundan. Það skiptir mjög miklu máli, enda eru næg verkefni framundan. Það er greinilegt að þetta verður ríkisstjórn sem hikar ekki við að stokka upp stöðu mála víða og horfa fram á veginn í fjölda mála og hugsa hlutina öðruvísi en gert hefur verið á breiðum vettvangi.

Nú bíða allir stjórnmálaáhugamenn spenntir eftir niðurstöðu í málefnaáherslum nýrrar stjórnar og hvernig hópurinn í forystu Þingvallastjórnarinnar verður mannaður. Þar liggja spennumerki næstu daga í íslenskum stjórnmálum.


Ekki verður vist Páls löng hjá Landsvirkjun

Páll Magnússon Það er ekki mánuður liðinn frá því að forysta Framsóknarflokksins sparkaði Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni, fyrrum þingmann flokksins, af formannsstóli stjórnar Landsvirkjunar og setti Pál Magnússon, bæjarritara í Kópavogi, í stað hans. Þá voru aðeins 16 dagar til alþingiskosninga. Það útspil vakti mikla athygli eins og kunnugt er. Nú þegar að Framsóknarflokkurinn er að missa völd í landsstjórninni blasir við öllum að formannsvist Páls hjá Landsvirkjun verður ekki langlíf.

Ég skildi ekki þessa fléttu hjá Framsókn. Hún leit frekar undarlega út í sannleika sagt. Hvers vegna var skipt kortéri fyrir kosningar og án þess að vitað væri hver leiddi mál í landsstjórninni eftir kosningarnar? Nú er ljóst að hann verður hámark í þessum stóli í eitt ár og ekki verða áhrif hans mikil þar innanborðs. Þetta var auðvitað flétta sem kom mjög óvænt og var hlægilega vandræðaleg fyrir Framsóknarflokkinn. Ég taldi fyrirfram að Jóhannes Geir yrði áfram þetta eina ár og svo myndi nýr ráðherra með sterkt umboð eftir kosningar taka af skarið.

En þetta er mjög athyglisvert allt saman. Það verður athyglisvert að sjá hvað verður um Pál, hversu lengi úr þessu hann verður formaður, en örlög hans á þessum stóli eru auðvitað ráðin.

Árni Johnsen og Björn Bjarnason lækka um sæti

Alþingi Landskjörstjórn hefur nú gefið formlega út kjörbréf til þeirra 63 alþingismanna sem náðu kjöri í þingkosningunum 12. maí sl. Ljóst er að Árni Johnsen, alþingismaður, og Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, lækkuðu um eitt sæti í kosningunum í kjördæmum sínum vegna útstrikana. Í ljósi þessa verða Björn og Árni þriðju á listum Sjálfstæðisflokksins í kjördæmum sínum.

Þetta eru í sjálfu sér ekki ný tíðindi, enda hafa þau blasað við allt frá kosninganótt þegar að tíðindi um útstrikanir urðu ljósar. Þetta eru þó í sjálfu sér ólík tilfelli. Annar þeirra sem lækkaði vegna útstrikana varð fyrir því að auðmaður í nöp við frambjóðandann hvatti í mjög áberandi heilsíðuauglýsingum í öllum dagblöðum til yfirstrikunar á hann í massavís og hinn er umdeildur frambjóðandi sem á að baki hneykslismál og fangelsisvist sem hlaut uppreist æru með umdeildum hætti og verið umdeildur innan flokks síns allt frá því að hann náði kjöri í prófkjöri að nýju og afar óheppileg ummæli um afbrot sín.

Það eru mörg ár síðan að viðlíka atburður hefur átt sér stað. Staða þessara frambjóðenda er mjög ólík eins og fyrr er að vikið, enda bakgrunnur þeirra ólíkur og ástæður þess að þeir eru umdeildir í þessum kosningum er vægast sagt ólík ennfremur. Það er sögulegt að það gerist að frambjóðendur lækki vegna yfirstrikunar og hefur að ég held ekki gerst frá árinu 1946, en þá reyndar féll frambjóðandi algjörlega út, enda var þá kjördæmaskipan með allt öðrum hætti.

Ég hef áður skrifað hér á þessum bloggvef um stöðu Björns og Árna og ég held að skoðanir mínar í þeim efnum séu vel ljósar.

mbl.is Árni og Björn færast niður um eitt sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukinn stuðningur við álver á Bakka

HúsavíkÞað er gleðiefni að sjá nýja skoðanakönnun sem sýnir að 69,5% íbúa á Norðausturlandi eru hlynnt byggingu álvers á Bakka við Húsavík. Yfir 80% aðspurðra telja að bygging álvers myndi hafa jákvæð áhrif á búsetuskilyrði til lengri tíma á Norðurlandi. Þetta eru sterk skilaboð að mínu mati frá fólki hér, alveg afdráttarlaus.

Þetta er mjög mikilvæg framkvæmd fyrir íbúa í norðanverðum hluta þessa kjördæmis. Það var með réttu aðalkosningamálið víða hér á þessu svæði fyrir rúmri viku, einkum skipti máli fyrir Þingeyinga að þeir fái að nýta orku sína með þessum hætti. Þetta mikilvæga mál var rætt vel í kosningabaráttunni og kom vel fram að mér fannst í úrslitunum hér í Norðausturkjördæmi þann 12. maí hver hugur fólks til málsins sé.

Með réttu ætti að halda íbúakosningu í Norðurþingi um þetta mikilvæga mál. Það er talað fjálglega um íbúalýðræði og mikilvægi þess. Mér finnst oft andstæðingar stóriðju, sérstaklega vinstri grænir, vilja skakkt íbúalýðræði; þ.e.a.s. kosningar sem falla bara eftir þeirra skoðunum. Enda má ekki gleyma því að vinstri grænir í Hafnarfirði og fleiri reyndar töluðu með þeim hætti að það skipti í sjálfu sér engu máli hvað upp úr kössunum kæmi; samt yrði nei ofan á varðandi stækkun álvers Alcan.

En þetta eru góð skilaboð að mínu mati, skilaboð sem skipta miklu máli heilt yfir.


mbl.is Aukinn stuðningur við álver á Bakka á Norðausturlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er afhroð Framsóknarflokksins Halldóri að kenna?

Halldór Ásgrímsson Það er að verða ár liðið frá því að Halldór Ásgrímsson tilkynnti um pólitísk endalok sín í kastljósi fjölmiðlanna fyrir framan embættisbústað forsætisráðuneytisins á hinum sögufrægu Þingvöllum. Það er kaldhæðnislegt að nú sé grunnur lagður að nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á sama stað. Miklar sviptingar hafa verið í vikunni. Framsóknarflokkurinn varð fyrir sögulegu áfalli og er á leið í stjórnarandstöðu.

Það væri fróðlegt að vita hver skoðun Halldórs, sem nú er staddur í Kaupmannahöfn, í órafjarlægð frá stjórnmálatilverunni á Íslandi, er á hinum miklu tíðindum vikunnar; endalokum tólf ára stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem unnu saman lengst af með Halldór í forystu flokks síns. Þetta hafa verið vondir dagar fyrir Framsóknarflokkinn að undanförnu. Afhroðið sem kannanir höfðu sýnt æ ofan í æ var ekki umflúið og nú er flokkurinn staddur á krossgötum, verandi á leið í stjórnarandstöðu, eftir að hafa verið í ríkisstjórn nær samfellt frá árinu 1971, ef undan er skilið minnihlutastjórnartímabil Alþýðuflokksins 1979-1980 og Viðeyjarstjórnartímabilið 1991-1995.

Framsóknarflokkurinn var í rúst við endalok stjórnmálaferils Halldórs Ásgrímssonar og væringar sliguðu stjórnmálaferil leiðtogans er á hólminn kom. Honum var ekki sætt lengur vegna ólgu og hann gafst upp á limminu. Halldór Ásgrímsson var aðalleikari í íslenskum stjórnmálum til fjölda ára - var einn af þeim sem mestu réðu um forystu þjóðarinnar á seinustu áratugum. Hann markaði söguleg pólitísk skref. Það hvernig fjaraði undan honum, í senn miskunnarlaust og kuldalega vægðarlaust, var mjög athyglisvert. Maðurinn sem hafði pálmann í höndunum eftir þingkosningarnar 2003 og gat krafist forsætis út á oddastöðu sína gat ekki nýtt tækifærin og stöðuna.

Það varð að lokum ekki við neitt ráðið. Hann fjaraði út hratt og áberandi. Forætisráðherraferillinn varð sorgarsaga og ekki varð við neitt ráðið. Spunameistararnir klúðruðu meira að segja endalokunum er á hólminn kom. Halldór fór sneyptur af hinu pólitíska sviði. Halldór Ásgrímsson er nú á friðarstóli í Kaupmannahöfn sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Hann horfir á hnignun Framsóknarflokksins og vandræði flokksins úr fjarlægð. Það blandast engum hugur um að Framsóknarflokkurinn er í skelfilegri stöðu. Þar blasir við allsherjar uppstokkun á öllum sviðum, uppbygging frá grunni. Staðan er óneitanlega dökk.

Úrslit kosninganna voru áfellisdómur yfir Halldóri Ásgrímssyni. Flokkurinn hnignaði á lokaspretti hans valdaskeiðs og afhroðið hlýtur að vera eyrnamerkt honum, hinum misheppnaða forsætisráðherraferli sem varð flokknum dýrkeypt er á hólminn kom. Öll innri ólgan og sundrungin sem sliguðu flokkinn er brennimerkt persónu Halldórs Ásgrímssonar. Þó að hann hafi löngu yfirgefið sviðið er ósigurinn andlitsmerktur Halldóri. Þessi staða, sem best birtist með afhroðinu í Reykjavík, var auðvitað mikill banabeygur fyrir Halldórsarminn svokallaða sem nú stjórnar í gegnum Samvinnumanninn trygga Jón Sigurðsson, sem náði ekki kjöri á þing þrátt fyrir mikla baráttu.

Það blæs ekki byrlega fyrir Framsóknarflokknum. Honum hefur oft tekist að redda sér úr miklum krísum á lokaspretti kosningabaráttu. Það tókst ekki núna. Allar vondu kannanirnar urðu að veruleika - það var kuldalegur veruleiki og það er augljóst að margir framsóknarmenn eiga erfitt með að horfast í augu við þann veruleika. Þjóðin sendi Framsóknarflokknum rauða spjaldið. Það er auðvitað mjög áberandi höfnun sem felst í þessum úrslitum. Hann heldur nú hinsvegar í endurhæfingu, rétt eins og lykilmenn fortíðar í flokknum á borð við Steingrím Hermannsson og Ingvar Gíslason boðuðu með áberandi hætti í fjölmiðlum. Hann byggir sig upp í kyrrþey.

Halldór Ásgrímsson og armur hans innan Framsóknarflokksins lagði langa lykkju á leið sína til að koma í veg fyrir að Guðni Ágústsson, höfðinginn frá Brúnastöðum, tæki flokkinn yfir. Það átti að leggja Guðna með Halldóri. Sú atburðarás fór úr böndunum þegar að Guðni strunsaði argur í bragði frá Þingvöllum eftir blaðamannafundinn fræga. Jón Sigurðsson var sóttur til verka. Valgerður Sverrisdóttir var sett fram fyrir Guðna í lykilráðuneyti, hún fór í utanríkisráðuneytið og Jón varð ráðherra mest áberandi ráðuneytis flokksins á vettvangi innanlands í staðinn.

Jón er í erfiðri stöðu rétt eins og flokkurinn með lamað umboð eftir að hafa verið hafnað í Reykjavík norður með kuldalega áberandi hætti. Hann er á jafn skelfilega vondum bletti á sínum pólitíska ferli og forverinn fyrir ári. En hvað gerist nú, verður Guðni sóttur til forystu þegar að allt er komið á vonarvöl? Það verður skondið að sjá.

Spennandi pólitískar pælingar í Silfri Egils

Silfur Egils Það var áhugavert að hlusta á pólitískar pælingar um stjórnarmyndun í Silfri Egils nú eftir hádegið. Þar var rætt um stöðu mála nú þegar að við blasir að Þingvallastjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar taki við völdum eftir nokkra daga. Þetta hefur auðvitað verið mjög merkileg vika, tólf ára stjórnarsamstarfi er lokið og miklar breytingar eru framundan eftir langt stöðugleikatímabil í íslenskum stjórnmálum.

Í byrjun þáttarins var líflegt uppgjör á vikunni. Þar ræddu Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, Siv Friðleifsdóttir, fráfarandi heilbrigðisráðherra, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Árni Þór Sigurðsson, nýkjörnir alþingismenn, það sem hefur gerst í þessari líflegu viku. Það er mjög athyglisvert að sjá ástarhaturssamband Framsóknar og VG eftir dramatík síðustu daga nú þegar að þeir eru á leið í faðmlög í stjórnarandstöðu en það verður þó mjög mikið kæfingarfaðmlag fyrir báða aðila sýnist manni. Ill eru örlög Jóns og Steingríms J. segir maður bara.

Kristján Þór svaraði kostulegum aðfinnslum Sivjar mjög vel. Siv er greinilega í rosalegri fýlu yfir yfirvofandi valdamissi Framsóknarflokksins og horfir mjög napurt til vinstri grænna sem nýs partners í íslenskum stjórnmálum. Þetta eru merkileg örlög. Annars finnst mér að Siv megi vel við una. Það munaði aðeins hársbreidd á milli feigs og ófeigs hjá henni á kosninganótt. Hún náði naumlega kjöri á meðan að Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz féllu upp fyrir garðann pólitískt með athyglisverðum hætti á kosninganótt. Siv ætti ekki að vera í mikilli fýlu finnst mér, enda var hún stálheppin að haldast enn inni í leiknum. Þetta var tæpt hjá henni og það var ekki fyrr en með maísólinni að morgni sem hún rataði aftur inn á þing.

Kristján Þór kom vel fram í þessum þætti. Það er auðvitað mikilvægt að mínu mati að hann verði ráðherra nú í þessari Þingvallastjórn. Mér finnst hann eiga það skilið. Hann hefur verið í pólitík í tvo áratugi og verið þar framarlega í forystu. Kristján Þór er vissulega nýliði á Alþingi en reynsla hans er mikil á víðum pólitískum vettvangi. Hann leiddi Sjálfstæðisflokkinn til sögulegs kjördæmasigurs í Norðausturkjördæmi um síðustu helgi og á að njóta þess. Svo er mikilvægt að uppstokkun verði á landsbyggðarráðherrum Sjálfstæðisflokksins að mínu mati. Hann ætti að vera afgerandi góður valkostur til ráðherrasetu.

Í þessum þætti var gaman að sjá Steinunni Valdísi í nýju hlutverki; að tala vel um Sjálfstæðisflokkinn. Ég hef aldrei farið leynt með það að ég met Steinunni Valdísi mikils. Hún leiddi R-listann á erfiðum þáttaskilum eftir afsögn Þórólfs Árnasonar og var harðjaxl á sínum vettvangi við vondar aðstæður. Það var með ólíkindum að fólkið hennar í Samfylkingunni bakkaði hana ekki upp til forystu innan Samfylkingarinnar í kosningunum í fyrra. Hún var sem borgarstjóri í undarlegri aðstöðu vikurnar fyrir kosningar sem augljóslega borgarstjóri á útleið. Steinunn Valdís flaug merkilegt nokk á þing, eftir að margir höfðu afskrifað möguleika hennar.

Í sjálfu sér var þetta merkilegt spjall. Það er greinilegt að vinstri grænir horfast illa í augu við þann kaleik sinn að hafa klúðrað vinstristjórn. Ég get ekki annað sagt en að ég sé eilíflega þakklátur vinstri grænum fyrir það góðverk sitt, megi þeir hafa hrós fyrir.

Mun Jón Sigurðsson segja af sér formennsku?

Jón Sigurðsson Hávær orðrómur er nú uppi um að Jón Sigurðsson muni segja af sér formennsku í Framsóknarflokknum á miðstjórnarfundi í júní og hverfa úr stjórnmálum. Staða hans er orðin mjög erfið, allt að því vonlaus. Á næstu dögum missir Jón lyklavöldin að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu og með því um leið stöðu sína á stjórnmálasviðinu í ljósi þess að honum mistókst að ná kjöri á Alþingi 12. maí sl.

Framsóknarflokkurinn varð fyrir sögulegu pólitísku áfalli í þessum alþingiskosningum. Mesta áfall hans var hiklaust afhroðið í Reykjavík. Þar þurrkaðist hann út - missti þrjú þingsæti. Leiðtogarnir Jón og Jónína Bjartmarz, fráfarandi umhverfisráðherra, náðu ekki kjöri og þingmennirnir Guðjón Ólafur Jónsson og Sæunn Stefánsdóttir, ritari Framsóknarflokksins, sem tók við þingsæti Halldórs Ásgrímssonar, fyrrum forsætisráðherra og flokksformanns, í september 2006, féllu ennfremur, sem var auðvitað gríðarlegt áfall þar sem þeim var eflaust síðar ætlaður mikilvægur sess í forystu flokksins, sérstaklega Sæunni sem var þegar komin alla leið til forystu en helst inni í lykilkjarnanum enn vegna ritarastöðunnar.

Staða Jóns Sigurðssonar hefði verið allt önnur hefði hann haldið ráðherrastól og verið áfram í fronti innan ríkisstjórnarinnar. Með því hefði hann haft lykilstöðu til að vera virkur þátttakandi í stjórnmálum bæði talsmaður innan þingflokks og í þingumræðum - leiða Framsóknarflokkinn innan þings og hafa alvöru hlutverki að gegna við að byggja flokkinn upp. Með endalokum stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hurfu þær vonir Jóns Sigurðssonar. Þegar að Samfylkingin tekur stöðu Framsóknarflokksins sem samstarfsaðili Sjálfstæðisflokksins missir Jón ekki aðeins lyklavöldin að ráðuneytinu heldur og í senn bæði aðkomu að Stjórnarráðinu og Alþingi Íslendinga.

Það er auðvitað martröð fyrir flokksformann að sitja eftir sem formaður flokks með umboð af æðstu samkundu hans en án hlutverks þess fyrir utan í íslenskum stjórnmálum. Þetta er sá veruleiki sem blasir við Jóni Sigurðssyni núna á næstu dögum. Það er napur veruleiki. Jón Sigurðsson gæti vissulega sem flokksformaður snúið hlutverki sínu við, haldið af velli lykilstjórnmála og verið verkamaður í innra starfinu, leitt innra starfið upp úr öldudalnum og verið frontur þeirrar vinnu, farið um landið, byggt upp grunnvinnu endurreisnar og blásið ferskum vindum í innra starf flokksins sem virðist vera í miklum molum eins og úrslit þingkosninganna báru glögglega vitni.

Það virðist harla ólíklegt að hann vilji halda til þeirra verka, vera í raun flokksformaður en utan mesta sviðsljóss stjórnmála. Sviðsljós íslenskra stjórnmála er það sem gerist innan veggja Alþingis og í ríkisstjórn. Það er ekki öfundsvert að vera flokksformaður í þeirri stöðu að eiga þar engan aðgang, standa eftir eins og ósýnilegur maður með engin áhrif í raun, nema mögulega innan flokksstofnana. Þegar að Geir Hallgrímsson náði ekki kjöri í alþingiskosningunum 1983 sem formaður Sjálfstæðisflokksins og Ólafur Ragnar Grímsson varð formaður Alþýðubandalagsins árið 1987 höfðu þeir aðkomu að þinginu sem varamenn, gátu komist inn. Svo heppinn er Jón Sigurðsson ekki.

Staða Jóns virðist ráðin. Orðrómur um afsögn hans af formannsstóli er orðin hávær og blasir við að örlagastundin nálgist. Talað er um miðstjórnarfund í Framsóknarflokknum innan skamms tíma, væntanlega í júní. Þar er líklegt að dragi til tíðinda. Jón Sigurðsson haldi af velli og yfirgefi stjórnmálin, nákvæmlega ári eftir að hann tók við ráðherraembætti þegar að Halldór Ásgrímsson yfirgaf stjórnmálaforystu á dramatískum blaðamannafundi á Þingvöllum, þeim sama stað sem er nú vettvangur stjórnarmyndunar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Það verður kaldhæðnislegt ef svo fer að formennsku Jóns muni ljúka innan við ári eftir að hún hófst.

Að mörgu leyti er ekki hægt annað en kenna í brjósti um Jón í þessari skelfilegu stöðu sem við honum blasir örfáum dögum áður en hann missir lyklavöldin að ráðuneyti sínu. Það er skiljanlegt að hann hafi bognað í þeim þunga og misst stjórn á sér með dæmalausum pistlaskrifum á föstudag. Staða hans er erfið og fyrirfram séð glötuð. Það er skelfilegt að vera formaður flokks án þess að geta í raun haft áhrif út fyrir flokkinn, verið sýnilegur í stjórnmálum. En Jón má vera stoltur af mörgu sem hann gerði. Ég tel að hann hafi eflt flokkinn innan frá en mistekist að efla hann utan frá. Það var við ramman reip að draga.

Jón stóð frammi fyrir fyrirfram glötuðu verkefni og tröllvöxnu. Framsóknarflokkurinn var í rúst eftir misheppnaðan forsætisráðherraferil Halldórs Ásgrímssonar. Það verður fróðlegt að sjá hvað tekur við innan Framsóknarflokksins eftir afsögn Jóns Sigurðssonar. Varaformaður Framsóknarflokksins er Guðni Ágústsson, fráfarandi landbúnaðarráðherra. Í fyrra lagði armur Halldórs Ásgrímssonar langa lykkju á leið sína til að koma í veg fyrir formannskjör hans og hann lympaðist niður til áframhaldandi varaformennsku og lagði Jónínu Bjartmarz í þeim hasar. Siv Friðleifsdóttir fór fram gegn Jóni og tapaði. Fróðlegt væri að sjá landslag stjórnmálanna hefði Siv unnið það kjör.

Það blasir við að sundurlyndi er innan Framsóknarflokksins. Þar eru armar sem enn eru til staðar eftir væringar liðinna ára. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist verði Guðni Ágústsson flokksformaður við afsögn Jóns. Mun Siv leggja til við Guðna, verandi eini þingmaður flokksins á höfuðborgarsvæðinu? Halda væringarnar áfram? Það er það sem margir framsóknarmenn óttast. Sú umræða er hafin nú þegar að formaður Framsóknarflokksins hefur misst hlutverk sitt í íslenskum stjórnmálum og yfirgefur brátt sviðið. Tími átaka í Framsókn er rétt að hefjast. 

Þingvallastjórn með viðreisnarsvip í pípunum

Ingibjörg Sólrún og Geir Það er viðeigandi að ný viðreisnarstjórn sé mynduð á Þingvöllum og verði kennd við þann merka stað í íslenskri sögu. Fyrir einum og hálfum áratug var síðasta viðreisnarstjórn mynduð í Viðey af Davíð Oddssyni og Jóni Baldvin Hannibalssyni og var kennd við eyjuna. Ég man auðvitað mjög vel eftir vorinu 1991 þegar að sú stjórn var mynduð - mér fannst það mjög góð stjórn framan af og hún kom mjög fersk til verka og var öflug í upphafi, en sligaðist síðar af innanbúðarvandamálum Alþýðuflokksins.

Það er alveg ljóst að væntanleg ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur mjög sterkt umboð þegar að hún tekur til verka á næstu dögum. Hún hefur sterkt umboð til að koma öflugum verkum í framkvæmd og hefur ennfremur sterkt umboð til að tala af krafti máli sem hefur sterkt umboð frá kjósendum, ólíkt því sem endurmynduð stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á fjórða kjörtímabili hefði fengið. Hefði hún haldið áfram hefði þar farið lömuð stjórn með varla starfhæfan meirihluta og hver og einn einasti þingmaður hefði getað sagt með þjósti í krísu: "Hér er ég og þetta vil ég fá!". Það hefði verið ólíðandi ástand og ég held að hvorugur flokkurinn hefði getað verið sæll með sig yfir þeirri stöðu. Þetta var óstarfhæft dæmi. Það blasti sífellt betur við eftir því sem leið á vikuna.

Við fáum stjórn með skýrt umboð gangi það eftir sem allt stefnir í. Þarna fara jú þeir flokkar sem njóta stuðnings 2/3 hluta kjósenda. Á Þingvöllum er myndaður grunnur að stjórn þar sem hægt verður að vinna með elju og atorku að leiðarljósi. Eflaust verður horft í aðrar áttir en við sjálfstæðismenn gerðum með Framsóknarflokknum. Það er eðlilegt þegar að nýr grunnur er byggður á öðrum stað að þeir sem vinna vilji gera hlutina með öðrum brag. Síðasta viðreisnarstjórn hafði gott umboð til að horfa til nýrra tíma á öðrum grunni en missti móðinn vegna innanflokksklofnings Alþýðuflokksins sem endaði er á hólminn kom sem harmleikur fyrir alla þá sem voru í þeim flokki við stjórnarmyndun vorið 1991.

Margir framsóknarmenn með formann sinn í fararbroddi hafa í illsku sinni og gremjukasti kennt þessa nýju stjórn sem er í burðarliðnum við Baug. Það er mjög ómerkilegt finnst mér af þeirra hálfu. Þetta er eitthvað sem kom upp úr Guðna Ágústssyni að kvöldi uppstigningardags þegar að hann var hundfúll yfir sinni stöðu. Í illsku sinni kenndu framsóknarmenn sjálfstæðismönnum um að þeir væru að detta af stólum valda og áhrifa. Þeir mega ekki gleyma því að þjóðin kaus þá út. Framsóknarflokkurinn varð fyrir sögulegu áfalli í þessum kosningum - hann þurrkaðist út í Reykjavík og formaður flokksins féll mikla höfnun yfir sig í höfuðstaðnum. Hann hlaut ekki tiltrú kjósenda til að taka sæti á Alþingi. Staða hans er vond.

Ég skil ekki illsku sumra sem í gremjunni nota svona orð. Það er svosem þeirra mál. Það verður þó ekki tekið af þessum flokkum að þeir hafa sterkt umboð. Þegar að stjórnin tekur til valda hefur hún umboð sem skiptir máli að öllu leyti. Þetta er stjórn sem enginn efast um að hafi styrk og kraft til verkanna sem mestu skipta á akrinum. 

Það er mjög viðeigandi að stjórnin nýja verði kennd við Þingvelli. Það er ekki amalegt að vinna gott verk á svo sögufrægum stað og mjög viðeigandi að hún hafi þá góðu tengingu í nafngift.

Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún funda á Þingvöllum

Ingibjörg Sólrún og Geir Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hafa verið í sveitasælunni í forsætisráðherrabústaðnum á Þingvöllum í allan dag að mynda grunn að myndun nýrrar ríkisstjórnar flokkanna. Þar virðist vera unnið að krafti auk þess sem málefnanefndir hafa unnið ötullega að málefnavinnu stjórnarsáttmála sem er í burðarliðnum.

Fátt bendir til annars en að vel gangi og að stjórn flokkanna taki við völdum á næstu dögum. Það hefur þó verið mikil umræða uppi um það að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, hafi ekki setið fyrsta stjórnarmyndunarfund flokkanna og margir spurt sig hreinlega að því hvort hann verði ráðherraefni hjá flokknum, sem vekur mikla athygli. Það hefur verið slegið á þær vangaveltur í dag enda situr Ágúst Ólafur fund formanna flokkanna á Þingvöllum ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Össuri Skarphéðinssyni og Árna M. Mathiesen.

Miklar vangaveltur eru uppi um það hverjir verði ráðherrar í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Það er ekki undrunarefni að farið sé að velta því fyrir sér, enda blasir við að flokkarnir muni að öllum líkindum ganga frá öllum helstu lausu endunum í stöðunni á næstu dögum. Megináhersla nú hlýtur að vera lögð á að flokkarnir nái málefnagrunni áður en farið verður að skipta ráðuneytum og embættum í stjórnarsamstarfinu. Það hefur farið vel á með flokkunum og fátt sem bendir til annars en að vel gangi saman með flokkunum. Eflaust eru þó alltaf einhver viðkvæm mál til staðar og fróðlegt að sjá lausnir í þeim málaflokkum.

Athyglisvert er að fundað sé á Þingvöllum, þó varla séu það stórtíðindi. Það er mikilvægt að formenn flokkanna og helstu samherjar þeirra geti fundað fjarri miklu sviðsljósi fjölmiðlanna og hafi kyrrð og ró yfir fundinum, sem er auðvitað vel til staðar í þeirri yndislegu stemmningu sem alla tíð hefur einkennt Þingvelli. Fyrir tólf árum mynduðu Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson grunn að ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á Þingvöllum yfir páskahátíðina 1995. Nú yfir þessa helgina er grunnur nýs samstarfs á öðrum grunni lagður á sama stað.

Það verður fróðlegt að heyra meira um gang viðræðnanna og eflaust mun verða reynt að ná tali af formönnum væntanlegra stjórnarflokka í kvöldfréttatímum innan stundar og athyglisvert að heyra skoðanir þeirra á stöðu mála. Ef ég þekki íslenska fjölmiðlamenn rétt hafa þeir umkringt forsætisráðherrabústaðinn og bíða þess að fá viðbrögð eða meiri fréttir af stöðu stjórnarmyndunarviðræðnanna.

Hverjir verða ráðherrar Sjálfstæðisflokksins?

Þorgerður Katrín og Geir H. HaardeNú þegar að ljóst er orðið að Sjálfstæðisflokkurinn er með umboð til stjórnarmyndunar og flest stefnir í að hann myndi stjórn með Samfylkingunni á næstu dögum er spurt hverjir verði ráðherrar Sjálfstæðisflokksins. Það er eðlilegt í stöðunni að uppi séu vangaveltur í þeim efnum. Það hefur verið ljóst alla vikuna að Sjálfstæðisflokkurinn myndi halda áfram í ríkisstjórn, enda voru það skýr skilaboð frá kjósendum.

Að mínu mati þarf að líta til úrslita í alþingiskosningunum þegar kemur að því að velja ráðherra í ríkisstjórninni. Það er reyndar ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn vann sögulegan sigur í kosningunum að því marki að hann hlaut sigur í öllum kjördæmum og á fyrsta þingmann allra kjördæma landsins. Það er merkilegur sigur og ber vitni góðu starfi í þessum kosningunum og athyglisverðum árangri eftir sextán ára samfelldri stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins, lengst af í forsæti ríkisstjórnar. Það ber líka vitni þess að flokkurinn hefur endurnýjað sig, bæði forystu og almennan mannskap, mjög vel.

Þegar að litið er á úrslit kosninganna blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig fylgi sérstaklega í þrem kjördæmum; hér í Norðausturkjördæmi, Suðurkjördæmi og Suðvesturkjördæmi. Mestu fylgi bætti Sjálfstæðisflokkurinn við sig í Suðurkjördæmi, 6,8%, í Norðausturkjördæmi var fylgisaukningin 4,5% og í Kraganum bætti flokkurinn við sig 4,2%. Þetta á að mínu mati að vera ávísun á það að horft verði til þessara kjördæma og forystumönnum þessara kjördæma verði sýnt með áberandi hætti að þeirra verk sé metið. Að sama skapi bætti Sjálfstæðisflokkurinn við sig óverulega í Reykjavík. Í norðurhluta borgarinnar bætti flokkurinn aðeins við sig 0,9% og í suðurhlutanum bætti hann við sig 1,2%. Í Norðvesturkjördæmi missti flokkurinn 0,5% fylgi.

Það blasir við að Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir séu öruggir ráðherrar í væntanlegu stjórnarsamstarfi. Miðað við góðan árangur í Suðurkjördæmi er staða Árna M. Mathiesen nokkuð trygg ennfremur, enda á hann langa þingreynslu að baki og hefur verið kjördæmaleiðtogi allt frá árinu 1999, í Reykjanes- og Suðvesturkjördæmum áður en hann færði sig nú yfir í Suðurkjördæmi. Það gengur engan veginn upp að Norðvesturkjördæmi hafi áfram tvo ráðherra í þessari stöðu og þar verður að koma til uppstokkun á stöðu mála. Eðlilegt er að Reykjavík hafi allavega einn ráðherra til viðbótar.

Það er mjög mikilvægt að mínu mati að Norðausturkjördæmi fái ráðherrasæti í sinn hlut. Í síðustu kosningum missti kjördæmið ráðherrastól og forsetaembætti Alþingis; Tómas Ingi Olrich var sleginn af í maí 2003 sem menntamálaráðherra í desemberlok 2003 og tilkynnt þá líka að Halldór missti forsetastól þingsins í október 2005. Þetta var mjög eftirminnileg pólitísk aftaka á báðum okkar forystumönnum, sem eftir var tekið. Það var ljóst að árangurinn vorið 2003 hér var afleitur og við gátum sjálfum okkur um kennt. Hinsvegar kemur ekkert annað til greina nú en okkur verði umbunað fyrir að bæta vel við okkur fylgi og leiðtogi okkar verði ráðherra.

Sá átta manna hópur sem við á eftir þessa fyrrnefnda upptalningu er að mínu mati eftirtaldir:
Geir H. Haarde
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Árni M. Mathiesen
Björn Bjarnason
Kristján Þór Júlíusson
Guðlaugur Þór Þórðarson
Sturla Böðvarsson
Einar K. Guðfinnsson

Mér finnst aðrir varla koma til greina eftir það sem á undan er vikið. Nafn Bjarna Benediktssonar gæti hæglega blandast í þessa runu líka, en það gengur varla upp þó að hann verði tekinn fram fyrir kjördæmaleiðtoga og sitjandi ráðherra í taflið. Það verður þó að ráðast að mínu mati. Svo má vera að horft verði til annars en röðun á lista. Hinsvegar finnst mér einboðið að fyrstu þingmenn kjördæmanna sem hafa leitt flokkinn til glæsilegs sigurs í kringum landið gangi fyrir ráðherraembættum og eða embættum sem deilt verður út. Ekki gengur lengur að Norðvestrið fái tvo ráðherrastóla og það verður að breyta því. Mjög einfalt mál í sjálfu sér.

Það spyrja eflaust einhverjir sig um stöðu kvenna. Að mínu mati er aðeins ein kona afgerandi ráðherraefni, og það er varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Verði horft annað er verið að ganga framhjá kjördæmaleiðtogum og mönnum með langa pólitíska reynslu á ýmsum sviðum. Það gengur ekki upp að mínu mati. Staða mála er því einföld. Ég legg þennan kapal fram og ég mun væntanlega á morgun greina stöðu hvers og eins og hverja af þessum átta til níu ég telji að verði á ráðherralista formanns Sjálfstæðisflokksins í næstu viku.


Styttist í að ný ríkisstjórn taki við völdum

Ingibjörg Sólrún og Geir Það blasir við að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar taki við völdum fljótlega eftir helgina. Viðræður flokkanna halda áfram og skipaðar hafa verið málefnanefndir til að vinna grunn að málefnasáttmála. Það blasir þó við að flokkarnir leggja áherslu á lykilpunkta í málum en vinna við málefnasamning haldi jafnvel áfram næstu vikurnar.

Það hefur farnast best á undanförnum árum að hafa málefnasáttmála ríkisstjórnar stutta og með lykilpunktum frekar en langa upptalningu, sem hefur ekkert gefið sig sérstaklega vel. Blað var brotið í þessum efnum þegar að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks tók við völdum árið 1991. Þá kynntu Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson stuttan en hnitmiðaðan stjórnarsáttmála með nokkrum lykilpunktum. Slík vinna var líka ofan á við myndun ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá vorinu 1995.

Það verður fróðlegt að sjá hversu langan tíma mun taka að ná grunnsamkomulagi um málin. Ég tel að það muni ekki taka langan tíma og býst frekar við nýrri ríkisstjórn fljótlega. Eftir því sem mínar heimildir segja mun vinnan ekki taka langan tíma og búist við valdaskiptum fyrir miðja næstu viku. Það er mikilvægt að mínu mati að stjórnarskipti fari fram fljótlega og að ný ríkisstjórn geti hafist handa við þau verk sem hún nær saman um. Svo er auðvitað mikilvægt að Alþingi verði kallað saman fljótlega til að taka til starfa um mikilvæg mál og að stefnuræða ríkisstjórnarinnar verði kynnt.

Heilt yfir sýnist mér mikilvægt að þessir flokkar nái samstarfi um landsstjórnina. Ég hef styrkst sífellt meir í þeirri skoðun minni að þessar viðræður eru hið eina rétta síðustu dagana. Það var auðvitað mikið skref að segja skilið við samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. En grunnur þess var ekki lengur til staðar og mikilvægt að horfa fram á veginn en ekki aftur. Ég tel að góð og öflug ríkisstjórn með sterkt umboð verði afrakstur þessara viðræðna sem nú standa.

mbl.is Stjórnarmyndunarviðræður halda áfram um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorgleg staða á Vestfjörðum

Kambur Það leikur enginn vafi á því að það er sorglegt að heyra fréttir af sviptingum í atvinnumálum á Vestfjörðum. Það er alltaf dapurt þegar að framtíð heillar byggðar er í hættu vegna framtíðar eins fyrirtækis á brauðfótum. Það er alveg ljóst af stöðu mála á Flateyri að þar er í húfi velferð heillar byggðar vegna stöðu eins fyrirtækis.

Ég skil vel ótta fólks fyrir vestan með stöðu mála, en þetta er langt í frá fyrsta áfallið sem gerist í atvinnumálum vestra. Svona uppstokkun í einu fyrirtæki verður um leið að uppstokkun heillar byggðar. Byggð sem stendur og fellur með fiskverkun og rekstri fyrirtækis við sjóinn má ekki við áfalli á borð við þetta. Þegar að 120 manns missa atvinnu í burðarfyrirtæki í lítilli byggð er það harmleikur einnar byggðar.

Það virðist vera spilað um kvótann í þessu samhengi. Það er grundvöllur stöðunnar þar. Það er alveg ljóst að vestfirskar byggðir hafi farið illa á síðustu árum. Það leikur enginn vafi að þar skekjast undirstöður þess sem skipta máli. Það er dapurlegt á að horfa. Vonandi finnst skynsamleg lausn í málefnum Vestfjarða. Það er þó ljóst að staðan þar er brothætt. Miklu máli skiptir að halda kvótanum í byggðarlaginu. Gangi það ekki eftir verður skelfing mála þar enn meiri en ella.

Það er auðvitað dapurt að ekki gangi að reka útgerð áfram á Flateyri og það hlýtur að vera grunnmál í stöðunni að finna leiðir til að hjól fyrirtækisins stöðvist ekki. Ég skil vel að Hinrik Kristjánsson vilji horfa í aðrar áttir en það er auðvitað mjög dapurt ef ekki finnast leiðir til að fyrirtækið haldi áfram við eigendaskipti, en það er greinilega við ramman reip að draga. Ég vona að málinu ljúki vel fyrir Vestfirðinga, enda er það mjög mikilvægt að svo fari.

mbl.is „Minn tími í sjávarútvegi er liðinn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össuri ætlaður veigameiri sess en Ágústi Ólafi

Stjórnarmyndunarviðræður Það blasir við eftir fyrsta stjórnarmyndunarfund Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í dag að Össuri Skarphéðinssyni er ætlaður veigamikill sess í nýrri ríkisstjórn, mun meira áberandi sess en Ágústi Ólafi Ágústssyni, varaformanni Samfylkingarinnar. Öllum er ljóst að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verður brátt annað hvort fjármálaráðherra eða utanríkisráðherra, en greinilegt er að Össur kemur næstur henni að völdum í flokknum.

Það vakti mikla athygli í dag að Össur skyldi sitja við hlið Ingibjargar Sólrúnar sem næstráðandi í Samfylkingunni á fyrsta fundi samningaviðræðnanna með Geir og Þorgerði Katrínu. Það kannski vekur ekki athygli í ljósi þess að Össur er fyrsti formaður Samfylkingarinnar og leiddi þennan flokk fyrstu skrefin, yfir viðkvæmasta hjallann, áður en hann missti reyndar þann sess frekar harkalega. Val á Össuri sem þingflokksformanni þegar að Margrét Frímannsdóttir, fyrrum alþingismaður, sté til hliðar af hinu pólitíska sviði fyrir tæpu ári staðfesti lykilstöðu hans innan flokksins og hann var mjög vel auglýstur við hlið Ingibjargar Sólrúnar í kosningabaráttunni í vor.

Það eru vissulega nokkuð athyglisverð tíðindi að Ágúst Ólafur sem varaformaður Samfylkingarinnar virðist ekki hafa sama sess í þessum viðræðum og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir virðist hafa sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins við hlið Geirs H. Haarde, forsætisráðherra. Þetta er nýmæli í stjórnarmyndunarviðræðum. Þegar að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hófu myndun þeirrar ríkisstjórnar, sem enn situr en brátt heyrir sögunni til, vorið 1995 sátu Friðrik Sophusson og Guðmundur Bjarnason fundi með formönnum flokkanna og sama var árin 1999 og 2003 þegar að Geir H. Haarde var á þeim fundum með Finni Ingólfssyni og síðar Guðna Ágústssyni.

Þarna kristallast því ný staða. Spyrja má sig hvaða sess Össuri sé ætlaður. Margir virðast gefa sér að Össur Skarphéðinsson verði iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Það yrði vissulega merkileg flétta ef að hann tæki við þeim sess af Jóni Sigurðssyni, formanni Framsóknarflokksins. Færi svo yrði sess Össurar sem lykilmanns og forystumanns innan flokksins númer tvö endanlega staðfestur. Það hefur reyndar að mínu mati nú þegar verið gert með þessum viðræðum í dag og hvernig frontur flokkanna birtist, enda er þessi fyrsti fundur auðvitað mjög veigamikill, enda upphaf viðræðna og samstarfs flokkanna á komandi árum.

Margir velta reyndar mjög fyrir sér hvort að Ágúst Ólafur Ágústsson verði ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Alla jafna væri því ekki velt fyrir sér hvort varaformaður stjórnmálaflokks ætti sæti í ríkisstjórn flokksins síns, nema þá ef þar færi maður utan þings. En samt er þessu velt fyrir sér. Sú umræða vekur vissulega mikla athygli.

Það mun verða mjög áberandi hljóti varaformaður Samfylkingarinnar ekki sæti í ríkisstjórn þeirri sem er í spilunum og mun verða tilefni mikilla vangaveltna um stöðu hans. Fyrirfram hlýtur hann að teljast öruggur um ráðherrastól en fái hann ekki einn slíkan verður spurt hvort hann hafi virkilega einhverja stöðu innan Samfylkingarinnar.

mbl.is Össur: Unnið að samræmingu þess helsta og besta úr stefnu flokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður gangur í stjórnarmyndunarviðræðum

Ingibjörg Sólrún og GeirGóður gangur virðist vera í stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem hófust í dag í Ráðherrabústaðnum. Vel fór á með Geir H. Haarde, formanni Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, og áttu þau góðan fund með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni, en athygli vakti að hann sat fundinn en ekki Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar.

Ég hef fengið nokkuð oft síðasta sólarhringinn spurninguna um það frá vinum og ættingjum hvort að það verði ekki erfitt að styðja stjórnarsamstarf með Samfylkingunni. Það tel ég svo sannarlega að verði ekki neitt teljandi vandamál. Það er eðli íslenskra stjórnmála að við völd er samsteypustjórn tveggja eða fleiri ólíkra flokka. Að baki er tólf ára samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, en þeir voru andstæðingar áður en það stjórnarsamstarf hófst vorið 1995. Nái þessir tveir flokkar góðum samstarfsgrunni er það sjálfsagt að þeir vinni saman, enda ljóst að enginn einn flokkur getur hér ríkt einn í því landslagi sem við þekkjum.

Ég persónulega á marga góða vini, sem ég met mjög mikils, innan Samfylkingarinnar og ég veit ekki betur en t.d. hér á Akureyri vinni Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin saman. Það er reyndar einstakt samstarf milli þessara flokka fram að þessu, enda höfðu þeir aldrei átt með sér samstarf fram að því. Það tók vissulega tíma reyndar að slípa saman það samstarf sýnist mér, en þar réði miklu að stór hluti bæjarfulltrúa meirihlutans voru nýliðar í sveitarstjórnarmálum. Ég hef vissulega ekki verið beinn þátttakandi í því, enda sit ég ekki í nefndum fyrir sveitarfélagið, en hinsvegar hef ég mjög vel fylgst með því samstarfi og get ekki betur séð en að það gangi heilt yfir mjög vel.

Margir hafa litið svo á að það muni verða erfitt fyrir sjálfstæðismenn að styðja stjórnarsamstarf með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Það er mér persónulega ekkert vandamál. Auðvitað er Ingibjörg Sólrún í öðrum flokki og hún hefur verið umdeild. Hinsvegar hef ég aldrei efast um að hún er dugleg og heiðarleg í sínum verkum, hún hefur verið mjög öflug stjórnmálakona sem hefur barist af krafti fyrir sínu. Hvað mig varðar tel ég að það verði bara styrkleikamerki fyrir Sjálfstæðisflokkinn að halda til samstarfs með Ingibjörgu Sólrúnu og loka á allan orðróminn um óvild okkar í hennar garð. Ég held að það sé báðum flokkum styrkleiki að halda í þetta samstarf af krafti.

Ég lít svo á að það séu spennandi tímar framundan í íslenskum stjórnmálum með þessu stjórnarsamstarfi. Með þessu samstarfi er hægt að tryggja öflugan og heilsteyptan meirihluta til mikilvægra verkefna. Það verður hægt að taka betur af skarið með fjölda mála og halda til verka sem t.d. hafa verið umdeild en ég tel að myndast geti góður grunnur um í þessu samstarfi að óbreyttu. Þar gæti myndast sterk blokk með afgerandi umboð og það verður svo sannarlega ekki vandamál á þessum vettvangi að einn maður geti tekið heilt mál í gíslingu eins og hefði því miður orðið reyndin hefði samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verið endurnýjað.

Heilt yfir tel ég þetta nýja stjórnarsamstarf sem blasir við gott tækifæri fyrir báða flokkana til að tryggja öfluga forystu um lykilmál. Þar eiga ekki ólíkar skoðanir um persónur að vefjast fyrir heldur á mikilvægi samstöðu til verka að skipta máli. Það er enda þannig sýnist mér sem fólk heilt yfir hugsar og það er líka mikilvægt að allur orðrómur um mögulega áralanga óvild á einhverjum manneskjum deyi og hægt verði að horfa fram á veginn. Það er aldrei farsælt að horfa til baka í þeim efnum.


mbl.is Segjast komin nær stjórnarmyndun og að góður andi sé í viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ekki benda á mig!"

Siv Friðleifsdóttir Það er mjög hlægilegt að fylgjast með handabendingarleikjum væntanlegra stjórnarandstöðufulltrúa sem eru núna komnar á fullt. Í Íslandi í dag á Stöð 2 rétt í þessu voru Siv Friðleifsdóttir, fráfarandi heilbrigðisráðherra, og Kolbrún Halldórsdóttir, alþingismaður VG, að benda á hvor aðra um hvor hefði nú klúðrað möguleikum á vinstristjórn og báðar greinilega mjög sorrí yfir stöðu sinni verandi að fara að deila fleti í stjórnarandstöðu á komandi árum.

Umræðan í dag hefur verið um það að fulltrúar flokkanna sem ekki eru í stjórnarmyndunarviðræðum eru að benda á það hvor hefði nú klúðrað þessu og hver hefði flaskað á öðru. Það virðast allir nema vinstri grænir telja að þeir hafi klúðrað og varla á nokkur von á því að þeir taki þann kaleik að sér að fullum krafti. En beiskur er kaleikurinn sem gengur á milli væntanlegra stjórnarandstæðinga. Sérstaklega virðast framsóknarmenn vera sorgmæddir yfir sínu hlutskipti og væna sjálfstæðismenn um svik með lítt glæsilegum hætti.

Staða mála er auðvitað mjög spennandi hvað það varðar að það er í pípunum ný ríkisstjórn sem mun væntanlega hafa einn öflugasta þingmeirihluta á Alþingi. Að sama skapi er stjórnarandstaðan verulega veik og ekki á neinn sérstaklega von á að þeir sem manna sætin tuttugu þar verði hoppandi glaðir yfir hlutskipti sínu. En það er samt sem áður mjög kostulegt að fylgjast með þessum handabendingarleikjum sem halda endalaust áfram, enda litlar líkur á að nokkur bendi á sjálfan sig sem sökudólg.

Raunaleg sorgarskrif Jóns Sigurðssonar

Jón SigurðssonÞað er greinilegt á pistlaskrifum Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, að hann syrgir mjög sinn hlut. Það er ekki undrunarefni. Það ætti varla að koma framsóknarmönnum að óvörum að samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sé lokið. Það hefur blasað við stóran hluta vikunnar að þetta væri mjög tæpt og grunnur samstarfsins væri í raun ekki lengur til staðar. Það hefur verið staðfest stig af stigi allt þar til yfir lauk.

Ég skil vissulega vel að framsóknarmenn séu ósáttir. Átti aldrei von á þeir yrðu syngjandi sælir og glaðir yfir valdamissinum. Umfram allt ættu þeir þó að vera ósáttir við sjálfa sig. Framsóknarflokkurinn galt verulegt afhroð í alþingiskosningunum 12. maí sl. Flokkur sem tapar tæpum helmingi þingmanna sinna í einu vetfangi hlýtur að finna fyrir erfiðri stöðu sinni og vanmætti - þar hljóta að vakna efasemdir um hvort flokkur með slíkt afhroð á bakinu hafi í raun umboð til að halda áfram stjórnarsetu. Svo virðist ekki vera af skrifum fornra forystumanna Framsóknarflokksins og ýmissa trúnaðarmanna sem allt frá kjördegi töluðu með þeim hætti að komið væri að leiðarlokum og staða flokksins væri í raun ávísun á stjórnarandstöðuvist.

Mér fannst grein Ingvars Gíslasonar, fyrrum menntamálaráðherra og kjördæmaleiðtoga þeirra hér í Norðurlandi eystra hinu forna, sérstaklega áberandi skilaboð til forystu Framsóknarflokksins og flokksmanna allra í raun um stöðu mála. Mér finnst það í hæsta máta óeðlilegt að framsóknarmenn tali og skrifi eins og allt sé eins og það var fyrir 12. maí. Afhroð Framsóknarflokksins í þeim kosningum, sem var í senn sögulegt og lamandi pólitískt áfall, var áberandi og umfram allt skilaboð til forystu flokksins um að hann ætti að pása sig. Eðlilegt var þó fyrir Sjálfstæðisflokkinn að ræða við Framsóknarflokkinn eftir kosningar, en meirihluti stjórnarinnar var ekki á vetur setjandi.

Mér finnst það mjög raunalegt að sjá hvernig að sumir framsóknarmenn skrifa um stöðu mála, sérstaklega formaður Framsóknarflokksins sem fékk gríðarlegan skell fyrir tæpri viku þegar að hann fékk höfnun í Reykjavík norður, var hafnað um kjör til Alþingis. Hver voru skilaboð kjósenda til hans, hver voru skilaboð kjósenda til Framsóknarflokksins? Allir sem líta raunsætt á málin sjá hver sá dómur var. Hrunið í Reykjavík var táknrænt áfall fyrir Framsóknarflokkinn. Hann hélt nokkurnveginn velli t.d. hér í Norðausturkjördæmi, en héðan kom þó tæpur helmingur þingflokks Framsóknarflokksins eftir kosningarnar. Hann varð ekki fyrir algjöru svartnætti en næstum því.

Framsóknarflokkurinn þarf að fara í algjöra naflaskoðun og stokka sig upp. Hann fær gullið tækifæri til þess í stjórnarandstöðu. Ég tel að það hefði ekki gengið að halda þessu samstarfi áfram. Framan af vikunni var ég þeirrar skoðunar og eflaust fleiri sjálfstæðismenn að láta ætti reyna á þennan valkost þó mjög dauðadæmdur væri í raun. Mér fannst það vera gert og í raun finnst mér það gríðarlegt vanþakklæti hjá Framsóknarflokknum að virða það ekki að viðræður um þennan valkost fóru fram. Þeir voru sjálfir verulega tvístígandi og hikandi. Það komu engin afgerandi skilaboð úr grasrótinni eða afgerandi tal hjá forystu Framsóknarflokksins. Hik þeirra var þeim dýrkeypt.

Nú er þessu samstarfi lokið. Það markar þáttaskil fyrir báða flokka og fyrir íslensk stjórnmál almennt. Jón Sigurðsson stendur mjög illa í þessari stöðu verandi utan þings og væntanlega að missa ráðherrastól, sem hefði getað tryggt honum aðkomu að þingstörfum með áberandi hætti. Svo verður ekki. Það verður nú hlutskipti formanns Framsóknarflokksins að vinna að innra starfinu utan Alþingis. Það gætu tækifæri falist í því fyrir Framsóknarflokkinn, en áfallið er lamandi. Ég geri mér fulla grein fyrir því og skil sársauka flokksmanna í Framsókn.

En rætur endalokanna liggja í afhroði Framsóknarflokksins á laugardaginn. Það er mjög einfalt mál og það verður eflaust lykilverkefni trúnaðarmanna Framsóknarflokksins eftir að hann yfirgefur Stjórnarráðið að byggja sig upp til næstu verkefna á vegferð sinni.


mbl.is Jón Sigurðsson: Staðfestir trúnaðarbrest milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafnar

Ingibjörg Sólrún og Geir Viðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um myndun nýrrar ríkisstjórnar hófust í Ráðherrabústaðnum fyrir tæpum hálftíma, skömmu eftir að Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, fékk umboð Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, til stjórnarmyndunar. Það er mikilvægt að flokkarnir hefji verkið strax og fróðlegt að sjá hvernig að Geir og Ingibjörgu Sólrúnu muni ganga við verkið.

Það er ljóst skv. ummælum forseta Íslands í morgun að tímaramminn verður vika til tíu dagar í mesta lagi. Ég á ekki von á þessar viðræður muni taka langan tíma þannig séð. Auðvitað tekur alltaf einhvern tíma þó að fara yfir helstu málefnaáherslur og mynda grunn að stjórnarsáttmála, skipta ráðuneytum og manna nýja ríkisstjórn, en það mun varla taka óeðlilega langan tíma. Ég verð mjög hissa ef þetta tekur meira en viku í sjálfu sér. Það er þó ljóst að yfir viss lykilmál verður að fara og mynda sameiginlegan málefnagrunn sem máli skiptir. Mjög verður með því fylgst hvort að áherslur um einkarekstur og uppstokkun lykilmála, t.d. landbúnaðarkerfinu, nái í gegn.

Ég var að sjá á fréttasíðum rétt í þessu að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerir lítið úr tilboðum Steingríms J. og Jóns Sigurðssonar um forsæti í samstarfi við þá. Ekki er ég hissa. Það er auðvitað fyrst og fremst vandræðalegt yfirboð hjá einkum vinstri grænum sem greinilega vildu tveggja flokka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn en misstu atburðarásina út úr höndunum á sér og eru nú að reyna að hugga Framsóknarflokkinn með frekar hlægilegum hætti eftir að hafa niðurlægt þá með "kostaboði" um ekkert. Steingrímur J. lítur út eins og maðurinn sem vaknar eftir partýið og sér bara tóm glös og tómar skálar og öskrar hvað hefði eiginlega orðið um geimið.

Framsóknarflokkurinn er í sjálfu sér auðvitað illa rúinn og stendur verulega illa með formanninn pólitískt landlausan utan þings og væntanlega ennfremur ríkisstjórnar bráðlega og örvæntingin þar yfir að missa völdin er greinilega orðin mjög mikil, enda sýnist manni á skrifum fornra valdamanna þar að grasrót flokksins hafi ekki fylgt forystumönnum Framsóknar í því að fara til stjórnarsamstarfs. Þetta varð greinilegt af skrifum Ingvars Gíslasonar og tali Steingríms Hermannssonar hversu ótraustur flokkurinn er í raun orðinn og hann var í raun enginn kostur orðinn lengur fyrir Sjálfstæðisflokkinn umfram allt.

Heilt yfir er vandræðagangur flokkanna sem eru á leið í stjórnarandstöðu þónokkur og ekki er það óskiljanlegt lítandi á þá veigamiklu staðreynd að aðeins 20 einstaklingar munu manna stjórnarandstöðubekkina á næstu fjórum árum að öllu óbreyttu. En það er eins og það er og það er vissulega ánægjulegt að það sé komin þíða í erfið samskipti VG og Framsóknarflokks. Þess þá betur mun þeim lynda saman við að byggja sig upp í stjórnarandstöðu.

En nú er horft fram á veg og mikilvægt að viðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gangi hratt og vel fyrir sig og niðurstöður í þeim efnum komist fljótlega á hreint. Mér sýnist að góður grunnur hafi myndast persónulega á milli Geirs og Ingibjargar Sólrúnar og bind vonir við að þau nái fljótt og vel saman um þau mál sem mestu skipta á næstu árum.

mbl.is Fyrsti formlegi stjórnarmyndunarfundurinn að hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar felur Geir stjórnarmyndunarumboð

Geir og Ólafur Ragnar Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur falið Geir H. Haarde, formanni Sjálfstæðisflokksins, umboð til stjórnarmyndunar. Geir baðst lausnar fyrir fráfarandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fyrir stundu og hefur forseti Íslands fallist á þá lausnarbeiðni og starfar fráfarandi stjórn nú aðeins sem starfsstjórn.

Það er mjög skynsamlegt af forseta Íslands að veita Geir H. Haarde nú þegar umboð til myndunar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og ræða ekki við aðra flokksformenn áður en sú ákvörðun er tekin, enda liggur fyrir samkomulag þessara flokka um viðræður og öllum ljóst að enginn annar meirihluti til myndunar ríkisstjórnar er í myndinni. Það hefði ekkert komið út úr þeim viðræðum nema hið augljósa að nýr og afgerandi meirihluti blasi við og það er eini stjórnarkosturinn í stöðunni sem uppi er.

Það ætti að taka skamma stund að mynda stjórn þessara flokka ef allt er eðlilegt. Það er mjög mikilvægt að forseti hafi falið flokkunum, sem afgerandi þingmeirihluta hafa og ákveðið hafa að ræða saman formlegt umboð til að mynda stjórn. Það ætti að taka einhverja daga að mynda slíka stjórn og eflaust munu Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir taka sér helgina í að fara yfir málin og mynda þann grunn sem mikilvægur er í nýrri ríkisstjórn flokkanna. Bæði hafa þau afgerandi umboð flokka sinna til stjórnarmyndunar.

Það er raunalegt að sjá yfirlýsingu frá Jóni Sigurðssyni, formanni Framsóknarflokksins, rétt í þessu þar sem hann talar um svik og býður Samfylkingunni mögulega forsætið. Ég held að það væri rétt fyrir Framsóknarflokkinn að jafna sig utan stjórnar og reyna að horfast í augu við það mikla afhroð sem hann varð fyrir um síðustu helgi. Hann er algjörlega umboðslaus eins og reyndir forystumenn innan hans hafa manna best bent á síðustu dagana.

mbl.is Geir falið að mynda nýja ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar veitir umboð til stjórnarmyndunar

Ólafur Ragnar Grímsson Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á von á gesti fyrir hádegið. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, mun ganga á fund hans innan stundar og biðjast lausnar fyrir ráðuneyti sitt. Í kjölfar þess mun Ólafur Ragnar í fyrsta skipti á sínum forsetaferli veita formlegt umboð til stjórnarmyndunar. væntanlega til Geirs til myndunar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.

Ólafur Ragnar hefur verið húsbóndi á Bessastöðum í ellefu ár. Allan þann tíma hefur hann eflaust beðið mjög óþreyjufullur eftir því að veita formlegt umboð til stjórnarmyndunar. Það er komið að þeim tímapunkti. Allt frá því að Ólafur Ragnar tók við forsetaembættinu þann 1. ágúst 1996 hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks setið við völd og verið algjört formsatriði að halda því samstarfi áfram þar sem hún hélt þingmeirihluta í kosningunum 1999 og 2003. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson unnu hratt og vel eftir báðar kosningarnar til að tryggja nýja stjórn mjög fljótt.

Nú kemur í fyrsta skipti til hans kasta að veita almennt stjórnarmyndunarumboð þar sem fráfarandi starfsstjórn er til staðar og staðan við myndun stjórnar er nokkuð opin. Það verður fróðlegt að sjá hvort að þetta er upphaf ferlis þar sem Ólafur Ragnar getur loksins leikið þann örlagavald sem hann hefur eflaust alltaf viljað vera í íslenskum stjórnmálum. Ekki bendir þó til þess ef marka má stöðu mála og viðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sem flestir virðast gefa sér að lykti fljótt og vel með nýrri ríkisstjórn flokkanna.

Það er ekki mikill vafi á því að Ólafur Ragnar Grímsson hefur beðið allan forsetaferil sinn eftir svona tækifæri til að vera pólitískur örlagavaldur. Það ferli verður þó eflaust með öðrum formerkjum en hann átti von á, og hefði orðið hefði fráfarandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fallið í kosningunum fyrir sex dögum. Í stað þess sat hún áfram en nú reynir á hlutverk hans fyrst að stjórnarflokkarnir ákváðu að halda ekki samstarfinu áfram og opna pólitísku stöðuna hérlendis, í fyrsta skiptið í tólf ár.

En samt sem áður verður gestakoman á Bessastaði innan stundar tækifærið fyrir Ólaf Ragnar til að vera mikilvægur hlekkur á milli stjórnmálamanna við myndun ríkisstjórnar. Það verður fróðlegt að sjá hvort að forsetinn á sjötugsaldri á Bessastöðum, sem sjálfur var pólitískur refur og margreyndur stjórnmálamaður fyrir forsetaferilinn, fær hlutverkið sem hann hefur viljað svo lengi eða verður einfaldlega milliliður við myndun stjórnar, rétt eins og Vigdís Finnbogadóttir var jafnan.

Það eru spennandi dagar framundan í íslenskum stjórnmálum og áhugaverðir tímar sem hefjast með gestakomunni á Bessastaði fyrir hádegið.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband