Katrín og Svandís í forystu - Kolbrún fær skell

Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir styrkjast í sessi sem framtíðarleiðtogar VG með sigrinum í prófkjöri flokksins í Reykjavík í dag. Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, fær mikinn skell í prófkjörinu og fellur niður í sjötta sæti, sem er ekki þingsæti miðað við stöðuna í dag. Hefur ekki gerst lengi að sitjandi ráðherra fái annan eins skell. Kemur svosem varla að óvörum, enda hefur hún verið að veikjast í sessi og mældist nýlega óvinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar.

Þetta kemur í kjölfarið á varnarstöðu hennar gegn álverum og tali gegn atvinnusköpun tengdri stóriðju síðustu dagana þar sem hún reyndi að beita sér gegn stjórnarfrumvarpi. Langt síðan ráðherra hefur beitt sér jafn mikið gegn augljósum meirihlutavilja í þinginu. Þar talaði hún gegn uppbyggingu á Austurlandi og því að horfa til vilja íbúanna í Húsavík og nærsveitum.

Auk þess fær Álfheiður Ingadóttir sinn skell, en hún fellur úr þingsæti miðað við stöðuna í dag. Í staðinn koma Svandís og Lilja Mósesdóttir, sem í raun hlýtur að teljast sigurvegari prófkjörsins, enda ný í pólitísku starfi en hún hefur verið mikið í fréttum eftir efnahagshrunið.

Með þessari niðurstöðu stimplar Svandís sig inn í landsmálin og heldur til verka þar og lætur forystusætið í borgarstjórn eftir á næstu vikum. Væntanlega mun hún ætla sér að ná formannssætinu rétt eins og Katrín, þegar Steingrímur fer af velli.

mbl.is Katrín og Svandís efstar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siv heldur velli í SV - sögulegur kvennasigur

Ég vil óska Siv Friðleifsdóttur innilega til hamingju með glæsilegan sigur í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi. Sótt var að henni í þessum slag af sitjandi þingmanni úr Suðurkjördæmi en hún hafði sigur, heldur velli og verður áfram ein af forystumönnum Framsóknarflokksins. Hún er eini kjördæmaleiðtogi flokksins úr kosningunum 2007 sem verður í kjöri í þessum alþingiskosningum og hefur lifað af pólitískt hina miklu uppstokkun innan flokksins frá afhroðinu mikla þegar Halldórsarmurinn missti tökin á flokknum. Mikið afrek hjá Siv.

Þetta er reyndar sögulegt prófkjör kynjalega séð, enda í fyrsta skipti svo ég viti til á Íslandi sem konur eru í fimm efstu sætum í slíkri kosningu. Slíkt er eflaust mjög sjaldgæft þó víðar væri leitað. Þarna verða konur fyrir hinum margfræga kynjakvóta og verða tvær þeirra færðar niður fyrir karlmenn. Ég hef aldrei skilið þessa kynjakvóta, enda geta þeir verið tvíeggjað sverð. Mér finnst það eiginlega sorglegt þegar setja þarf slíkar girðingar til að tryggja stöðu kvenna og það á árinu 2009.

mbl.is Siv efst í SV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgvin G. fær endurnýjað umboð í Suðrinu

Samfylkingin heldur áfram að klappa upp ráðherra síðustu ríkisstjórnar og hefur nú endurnýjað umboð Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherrans sem svaf á verðinum í aðdraganda bankahrunsins og skrifaði lofgreinar um útrásarvíkingana á heimasíðu sína alveg þangað til í ágúst 2008. Greinilegt er á öllu að Samfylkingin ætlar að hampa öllum sínum ráðherrum í gömlu stjórninni á meðan þeir eru flestir að víkja af hinu pólitíska sviði í Sjálfstæðisflokknum.

Allir ráðherrar Samfylkingarinnar í 20 mánaða stjórninni sækjast eftir endurkjöri og munu greinilega hljóta endurnýjað umboð. Sigur Björgvins G. í þessu prófkjöri vekur vissulega mikla athygli, enda sagði hann ekki af sér sem viðskiptaráðherra fyrr en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var feig og ekki hugað líf og tekin hafði verið ákvörðun um að slíta samstarfinu og horfa til vinstri. Stjórnin féll innan við sólarhring eftir þá afsögn.

Sumir töluðu um að hann hafi axlað ábyrgð, en æ fleiri sjá að hann sagði aðeins af sér til að reyna að heilla kjósendur flokksins og bjarga því sem bjargað varð hjá sér.

mbl.is Afsögnin skipti miklu máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Möllerinn heldur velli - Sigmundur Ernir á þing

Ég er ekki undrandi á því að Kristján L. Möller, samgönguráðherra, hafi haldið velli í netprófkjöri Samfylkingarinnar. Fáir eru duglegri eða ósvífnari í atkvæðasmölun en hann, enda frægur fyrir að skrá megnið af Siglfirðingum inn í Samfylkinguna í prófkjörum til þessa. Stóru tíðindin í prófkjörinu eru þó að Sigmundur Ernir vinnur annað sætið og er á leiðinni á þing og Einar Már Sigurðarson, alþingismaður, fékk mikinn skell og náði ekki einu sinni í topp átta!

Einar Már hefur verið mjög ósýnilegur í kjördæminu en verið virkur í nefndastarfi þingsins og fyrirsjáanlegt að hann myndi falla við samkeppni að austan um sætið, en þetta er meira fall en mörgum óraði fyrir. Augljóst var að Kristján Möller tók Einar Má með sér í lest í síðasta prófkjöri Samfylkingarinnar og unnu gegn Láru Stefánsdóttur sem þá sóttist eftir öðru sætinu en tapaði þeim slag.

Miklar kjaftasögur voru um að Kristján hafi tekið Sigmund Erni með sér í lest að þessu sinni og valdi systurdóttur sína, Helenu Þuríði Karlsdóttur, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar hér á Akureyri, í það þriðja. Logi Már Einarsson, arkitekt, var með metnaðarfullt framboð og ætlaði sér stóra hluti - fór gegn þessari lest og náði í þriðja sætið en fellur í það fjórða vegna kynjakvóta.

Jónína Rós Guðmundsdóttir, framhaldsskólakennari og bæjarfulltrúi á Egilsstöðum, sigraði Helenu í baráttunni um hvor þeirra yrði efsta konan á listanum en Helena náði bara í fimmta sætið og verður því ekki einu sinni varaþingmaður miðað við óbreytta stöðu. Jónína Rós fór í forystuframboð og gerði þar með væntanlega út af við Einar Má, sem var veikur í sessi.

Ég sé að mikið var talað um það í netmiðlum virkra Samfylkingarmanna að jafnvel myndi kona komast upp í annað forystusætanna, þingsæti miðað við óbreytta stöðu. Slíkt hafðist ekki frekar en 2003 og 2007. Fróðlegt verður að sjá hvernig Sigmundi Erni gangi í nýju hlutverki, en hann er auðvitað óskrifað blað í pólitískri baráttu.

mbl.is Kristján Möller efstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk áhætta Sigmundar - sterk staða Alfreðs

Mér finnst það bera merki um djörfung hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, að taka slaginn í Reykjavík heldur en sækjast eftir öruggu þingsæti í landsbyggðarkjördæmi í kosningunum í næsta mánuði. Framsókn missti þrjú þingsæti í Reykjavík í kosningunum fyrir tveimur árum og hefur ekkert öruggt haldreipi í sjálfu sér. Þeir ætla sér þó greinilega stóra hluti framsóknarmenn í Reykjavík miðað við að sjálfur formaðurinn leiðir þar lista, rétt eins og Ólafur Jóhannesson og Halldór Ásgrímsson áður.

Merkilegast við valið á listunum í Reykjavík er þó hversu sterkur Alfreð Þorsteinsson, fyrrum borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og R-listans, er enn. Hann lagðist gegn valinu á Magnúsi Árna Skúlasyni í annað sætið á eftir Sigmundi í Reykjavík norður. Alfreð fór í ræðustól og talaði eindregið gegn þeim valkosti og náði að snúa það niður með þeim orðum að "ekki þyrfti að sækja spillingu í aðra flokka". Alfreð er greinilega enn sterki maðurinn í Reykjavík þó þrjú ár séu liðin frá því hann vék af leiðtogastóli í borgarmálunum.

Auk þess vekur athygli að Vigdís Hauksdóttir, mágkona Guðna Ágústssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins, hafi unnið slaginn um fyrsta sætið í Reykjavík suður við Einar Skúlason, skrifstofustjóra þingflokksins, og Hall Magnússon, moggabloggara. Báðir eru mjög traustir og voru sigurstranglegir valkostir. Einar tekur annað sætið á eftir Vigdísi. Hann var eitt sinn kosningastjóri R-listans (í síðustu borgarstjórnarkosningum ISG 2002) og augljóst að Samfylkingin vildi fá hann í sínar raðir.

En Sigmundur Davíð tekur pólitíska áhættu með því að fara fram í Reykjavík. Ekkert er tryggt þar og því verður þetta mikil pólitísk áskorun fyrir hinn unga formann. Nái hann kjöri og að endurreisa Framsókn á mölinni á hann sér góða pólitíska framtíð. Nái hann hinsvegar ekki kjöri verður staða hans mjög erfið og veik í kjölfarið.

mbl.is Sigmundur í Reykjavík norður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helmingur kjósenda hafnar formennsefnum SF

Ég er ekki undrandi á því að helmingur landsmanna vilji hvorki Jón Baldvin Hannibalsson eða Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í forystusæti í íslenskum stjórnmálum. Tel að tími þeirra beggja sé liðinn, reyndar sést það best með Ingibjörgu Sólrúnu sem ætlar að fara í gegnum næstu kosningar í pilsfaldi annarrar konu, reyna að komast inn á þing aftur á vinsældum hennar þrátt fyrir eigin óvinsældir.

Kjósendur vilja nýtt fólk í forystu stjórnmálananna, helst nýja kynslóð með nýjar hugmyndir og nýja sýn á málefnin. Ingibjörg Sólrún hefur enn enga ábyrgð axlað á því að hafa brugðist á vaktinni, í aðdraganda bankahrunsins og er stórlega sködduð pólitískt á eftir.

Mér finnst það merkilegt að grasrótin í flokknum ætli að sætta sig við fyrirskipanir hennar á blaðamannafundi og það að tekin séu frá þrjú efstu sætin í prófkjöri flokksins. Foringjaræðið virðist þar vera algjört.

Svo er sérstaklega athyglisvert að unga fólkið í Samfylkingunni tekur ekki fram fyrir hendurnar á eldra liðinu og kemur með eigin kandidat til forystu, þegar kallað er eftir nýju fólki og alvöru breytingum.

mbl.is Tæp 46% vilja hvorugan frambjóðandann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Kaupþing verða hið íslenska Enron?

Bókhaldsbrellurnar í Kaupþingi, sem eru nú að verða opinberar, eru skelfilegar. Manni finnst hið íslenska Enron-mál vera hreinlega í uppsiglingu. Þetta er helsjúkur veruleiki sem afhjúpast með skrifum Morgunblaðsins í dag um Kaupþing. Við erum að sjá inn í innstu kviku geðveikislegrar hringekju spillingar og fjármálalegs sukks. Manni blöskrar vinnubrögðin og er hreinlega flökurt. Veruleikinn er dekkri og tragískari en manni óraði fyrir.

Lánabókin hjá Kaupþingi sýnir okkur vinnubrögðin í hnotskurn. 170 milljarða lán fór til Lýðs og Ágústs Guðmundssona, eigenda Exista, stærsta hluthafans í Kaupþingi. Ólafur Ólafsson í Samskipum og bissnessfélagar hans fengu 79 milljarða lánaða. Róbert Tschenguiz fékk svo fyrirgreiðslu til lánveitinga upp á rúmlega 200 milljarða. Hvernig veruleiki er það sem gúdderar svona sukk og svínarí?

Þetta er með mestu svikamyllum Íslandssögunnar. Manni dettur já Enron í hug. Ætlar RÚV ekki að endursýna þá frábæru mynd? Hana ætti reyndar að sýna reglulega til að við getum meðtekið allt sukkið sem var leyft að gerast hér á Íslandi!


mbl.is 500 milljarðar til eigenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The best way to rob a bank is to own one!

Æ betur hefur komið í ljós á síðustu mánuðum hversu botnlaust siðleysi hefur verið í íslenska bankakerfinu. Hámark siðleysisins er nú að koma í ljós í Kaupþingi. Lánveitingar eigenda bankans fyrir þá sjálfa til að halda hringekju græðginnar áfram með því að dæla peningum til Hollands og Tortola er skelfilegur verknaður. Þetta mál verður að klára með sóma og fara yfir allar hliðar þess. Ég átti svosem ekki von á góðu þegar farið var að kafa í fen þessara manna en ósóminn er meiri en manni óraði fyrir.

En við hverju mátti svosem búast. Íslenska hrunið og eftirmáli þess hefur opnað fyrir okkur sorglegustu hliðarnar í íslensku þjóðarsálinni, hliðar siðleysis og græðgi sem loksins varð okkur öllum að falli. Verst af öllu er að við hlustuðum ekki nógu vel á þá sem voru að vara við og þjóðin svaf að mestu á verðinum. Jónína Benediktsdóttir hafði t.d. varað við þessu í Kaupþingi og Baugi árum saman.

Til að lýsa þessum ósóma í Kaupþingi er best að líta til William Kurt Black. Árið 2005 ritaði hann bókina The best way to rob a bank is to own one. Þetta spakmæli virðist vera yfirskrift þess sem gekk á í Kaupþingi og væntanlega öllum bönkunum hérlendis.

mbl.is Lánuðu sjálfum sér milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólga hjá VG í NA - frambjóðendum mismunað?

Greinilegt er að mikil ólga er innan VG með úrslit forvalsins hér í Norðausturkjördæmi, þar sem engin endurnýjun varð og ungu fólki var sérstaklega hafnað og þeim sem þorðu að fara fram gegn Steingrími J. Sú kjaftasaga hefur verið mjög hávær í umræðunni hér á Akureyri að frambjóðendum hafi verið mismunað í forvalinu hjá VG í kjördæminu. Þeim hafi ekki verið heimilaður aðgangur að kjörskrá, félagatali flokksins, og helstu gögnum sem teljast sjálfsögð frá flokksskrifstofu til frambjóðenda, og bannað að auglýsa.

Augljóst er að Steingrímur J. Sigfússon var mjög ósáttur við að Hlynur Hallsson skyldi nefna framboð í fyrsta sætið, gegn sér, og nefndi þrjú fyrstu sætin, enda augljóst samkvæmt flokksreglum að yrði Steingrímur efstur yrði kona í öðru sætinu óháð atkvæðafjölda. Mikið hefur verið talað um að Steingrímur J. hafi myndað blokk, valið fólk í lest og látið kjósa hann inn og ekki viljað neina nýliðun í efstu sætin.

Sú niðurstaða er augljós þegar litið er á úrslitin og hversu neðarlega Hlynur varð. Þessi niðurstaða vekur athygli hér á Akureyri, enda hefur Hlynur verið mjög áberandi við að tala máli VG en ekki gengið alltaf í takt með formanninum og lagði sérstaklega í metnaðarfullt framboð, ekkert síður gegn Steingrími en Þuríði Backman og Birni Val Gíslasyni. Þessi niðurstaða hefur líka vakið mikla athygli.

Ég heyri þær kjaftasögur, og þær eru staðfestar á netmiðlum í dag, að sama hafi gerst í Norðvesturkjördæmi þar sem Grímur Atlason skoraði Jón Bjarnason á hólm. Bannað að auglýsa og ekki aðgangur að flokksskrá. Varla er við því að búast að hægt sé að vinna prófkjör þegar svo ójafn aðgangur er að lykilgögnum. Myndaður er varnarveggur um Steingrím og Jón.

Þetta er lýðræðið í sinni merkilegustu mynd hjá vinstrimönnum, sem svo hátt tala um að lýðræðið eigi að vera virkt hjá öllum nema þeim sjálfum.


Grátlegt að tapa á lokamínútunum

Alveg er það nú grátlegt fyrir stelpurnar okkar að tapa leiknum við þær bandarísku á lokamínútunum. En hvað með það, við getum verið stolt af þeim. Þær hafa verið að standa sig frábærlega og stimplað sig heldur betur inn - loksins hefur kvennaboltinn hér á Íslandi öðlast verðskuldaðan sess.

Ekki fer á milli mála að þetta landslið hefur verið að blómstra - þjálfari og leikmenn samstíga í góðum verkum. Þarna er gott starf til fjölda ára að skila sér svo sannarlega. Nýjir tímar þar.

Tapið er ömurlegt en það gengur betur næst!

mbl.is Bandarískt mark í blálokin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tryggja þarf endurnýjun í Suðurkjördæmi

Mér finnst fréttaskýringar Moggans um kjördæmamál í aðdraganda kosninga svolítið sérstakar, svo ekki sé meira sagt. Orðalagið er undarlegt oft á tíðum og athygli vekur hvernig sumum er hampað og öðrum ekki. Í greininni um Suðurkjördæmi er talað um endurnýjun í fyrirsögn. Þegar kemur að skrifum um Sjálfstæðisflokkinn þar sem leiðtoginn Árni Mathiesen gefur ekki kost á sér til endurkjörs eru sitjandi þingmenn mærðir mjög og sagt að staða þeirra sé sterk.

Ég held að staða þeirra sé hinsvegar mjög veik og undrast framsetninguna, enda tel ég að flokkurinn þurfi sérstaklega á endurnýjun að halda. Ekki er mikið talað um nýja öfluga frambjóðendur í forystusætum í þessari upptalningu og frekar reynt að draga úr möguleikum þeirra. Undrast þessa framsetningu og velti fyrir mér hvað vaki eiginlega fyrir þeim sem skrifar þessa fréttaskýringu. Þetta er umhugsunarefni allavega.

Mér finnst mikilvægt að sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi tryggi endurnýjun á framboðslista sínum þegar þeir fá tækifæri nú við brotthvarf Árna Mathiesen úr stjórnmálaforystu. Ég ætla að vona að Ragnheiður Elín Árnadóttir fái góða kosningu í leiðtogastólinn og Unnur Brá Konráðsdóttir nái öðru sætinu. Þær eru öflugar og traustar og eiga að vera í forystusveitinni í kjördæminu.

Hvet flokksmenn til að kjósa þær í prófkjörinu og tryggja endurnýjun í forystusveitinni.

mbl.is Fréttaskýring: Endurnýjun í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningabragur á atvinnutillögum vinstrimanna

Eftir 40 daga valdasetu vinstriflokkanna í skjóli Framsóknarflokksins sjást loksins einhverjar tillögur í atvinnumálum. Talað er um störf í byggingariðnaði, framkvæmdir við snjóflóðavarnir, gróðursetningu, grisjun og stígagerð, orkuviðhald og orkusparnað, minni útflutning óunnins fiskjar, hækkun endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar, þróunarverkefni í ferðaþjónustu, frumkvöðlasetur í Reykjavík, sérfræðinga af atvinnuleysisskrá til nýsköpunarfyrirtækja, bætta samkeppnisstöðu nýsköpunarfyrirtækja og fjölgun þeirra sem njóta listamannalauna.

Mikla athygli mína vakti að sérstaklega er talað um að þeim eigi að fjölga sem hljóti listamannalaun og ekki er það undrunarefni að þetta er talið upp síðast í þessari upptalningu. Eins og við er að búast er talað gegn því að skapa störf í orkufrekum iðnaði beint með álveri í Helguvík og á Bakka en gælt við það á öðrum sviðum. Enda er greinilegt að vinstri grænir leggjast gegn beinni slíkri atvinnusköpun en hafa það fram að færa að fjölga beri fólki á listamannalaunum og gróðursetningu. Þetta er svolítið vinstri græn áhersla.

En hvað með það. Held að það sé visst ánægjuefni að Eyjólfur, eða ætti maður kannski frekar að segja Steingrímur, hressist og ætli að gera eitthvað fyrir kosningar annað en telja ráðherralyklana sína og lækka röddina í takt við valdasessinn. En það er mikil kosningalykt af þessu, vægast sagt. En hvernig er það, er ekki óábyrgt að hækka listamannalaunin?

mbl.is Ætla að skapa 4000 ársverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Unglingaátökin í Reykjavík

Átök unglinganna, með hníf og barefli á götum Reykjavíkur í kvöld, er svolítið merkileg viðbót við þá umræðu að ofbeldi sé að aukast meðal unglinga í skólum landsins. Fræg eru málin frá Selfossi og Sandgerði sem hafa vakið mikla athygli og opnað umræðuna bæði um ofbeldisþróun og einelti þar sem hópar ráðast saman á einn eða tvo og jafnvel eldri einstaklingur ræðst á yngri. Þetta er mjög vond þróun sem við sjáum afhjúpast með þessu.

Þegar unglingar eru farnir að slást með hnífum er oft mjög stutt í skelfilegan harmleik. Öll munum við eftir sorglegum málum í London þar sem ungmenni hafa dáið eftir hnífaárásir í slagsmálum þar sem hópast er á einn stundum eða einhver saklaus áhorfandi verður fyrir stungu. Þetta er þróun sem við höfum heyrt af í fjölmiðlum en viljum ekki að verði íslenskur veruleiki.

Eðlilegt er að hugleiða hvert stefnir í slíkum ofbeldismálum, hvort þetta sé einangrað tilfelli eða almennur vandi sem er að koma í ljós.

mbl.is Átök milli ungmenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var frjálshyggja í boði Samfylkingarinnar?

Mér finnst frekar fyndið að sjá postula innan Samfylkingarinnar tala um að frjálshyggja hafi verið í íslenskum stjórnmálum og rekja hana til Sjálfstæðisflokksins. Get ekki séð þessa hörðu frjálshyggju í reynd í forystu íslenskra stjórnmála, sérstaklega þegar litið er til útþenslu ríkisins á síðustu árum. En hvernig er það ætla þessir postular Samfylkingarinnar ekki að tala um dekur síns flokks fyrir útrásarvíkingana og auðmenn í þessu landi, í flestum tilfellum þá sem komu þjóðinni á kaldan klaka?

Fáir hafa slegið meiri skjaldborg um þessa menn í gegnum árin en einmitt Samfylkingin. Hver ber ábyrgð á því?

mbl.is Hrunin frjálshyggjutilraun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn styrkir stöðu sína

Ég er ekki hissa á því að Sjálfstæðisflokkurinn sé að styrkja stöðu sína og Samfylkingin sé að veikjast í sessi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur stokkað sig mjög upp að undanförnu og mun mæta til leiks í kosningunum með nýja forystu. Flestir þeir sem leiddu flokkinn í aðdraganda og eftirmála bankahrunsins hafa ákveðið að víkja af hinu pólitíska sviði - grasrót flokksins kallar líka eftir umtalsverðum breytingum og er að gera upp við forystusveitina með mjög kraftmiklum hætti í umræðunni og mun gera það ennfremur í prófkjörum og landsfundi í þessum mánuði.

Engum dylst að krafan úr grasrót Sjálfstæðisflokksins er einföld - þeir sem beri ábyrgð axli hana, sérstaklega með því að víkja úr forystusveitinni, láti sig hverfa, annaðhvort með góðu eða illu. Þetta fer ekki framhjá nokkrum manni. Grasrótin í flokknum er mjög eindregin í afstöðu sinni. Sjálfur hef ég tjáð þær skoðanir mánuðum saman að flokkurinn stokki sig upp og þeir víki af sviðinu sem brugðust. Þetta er sjálfsögð og eðlileg krafa - nægir að líta á skýrslu endurreisnarnefndarinnar sem öflug skilaboð, en þar er gert upp við forystuna, forystu sem brást á örlagatímum.

Þeir sem voru á vaktinni í aðdraganda bankahrunsins og þegar allt hrundi og fyrstu mánuðina eftir það verða að víkja. Þetta er einföld krafa og innan Sjálfstæðisflokksins er búið að verða við henni að mestu. Nýr formaður Sjálfstæðisflokksins verður kjörinn á landsfundi eftir þrjár vikur og útlit er fyrir umtalsverðar breytingar í prófkjörum, sérstaklega í Reykjavík. Flokksmenn sætta sig einfaldlega ekki við að þeir sem hafa brugðist leiði áfram flokkinn. Leitað er til nýs fólks. Þetta er stóra ástæða þess að Sjálfstæðisflokkurinn er að ná vopnum sínum. Hlustað var á grasrótina.

Í Samfylkingunni er staðan allt önnur. Þar ætlar pólitískt skaddaður formaður, sem brást á vaktinni í aðdraganda bankahrunsins, að sækjast eftir endurkjöri sem flokksformaður og fara í þingframboð í vor eins og ekkert hafi í skorist. Hún ætlar að komast aftur á þing og halda sínum völdum með persónulegum vinsældum Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún ætlar sér að reyna að hanga í pilsfaldi gömlu konunnar sem er nógu góð til að leiða vagninn en fær ekki að taka við Samfylkingunni sem flokksformaður og alvöru leiðtogi.

Þar hefur þrem efstu sætum í Reykjavík verið úthlutað af þessum skaddaða flokksformanni sem brást á vaktinni á kostulegum blaðamannafundi. Þessir þrír kandidatar fara ekki einu sinni á framboðsfund með meðframbjóðendum sínum í Reykjavík. Eru of upptekin fyrir því að berjast um sæti sem þau virðast sjálfkjörin í. Þetta er allt lýðræðið. Svo virðist sem að velja eigi nýjan formann og þingmann bakvið tjöldin, Dag B. Eggertsson, án kjörs á landsfundi og í prófkjöri.

Ætlar grasrótin í Samfylkingunni að sætta sig við þetta? Á meðan grasrótin í Sjálfstæðisflokknum er að taka til, stendur fyrir alvöru hreinsunareldum og pólitískum þáttaskilum með mannabreytingum á vaktinni sefur Samfylkingin á verðinum með skaddaðan formann sem er úr tengslum við þjóðina. Hún er skemmd söluvara, enda talar hún ekki lengur fyrir Samfylkinguna.

Stóru tíðindin í þessari könnun að öðru leyti eru tvenn. Fjórflokkurinn er afgerandi í sessi og Framsókn virðist stopp í tólf prósentum. Ný framboð ná engum hljómgrunni og frjálslyndir eru um það bil að þurrkast út af þingi. Þetta verða kosningar fjórflokkanna sýnist mér.

mbl.is Sjálfstæðisflokkur með mest fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heitar tilfinningar í árásarmálinu í Sandgerði

Ég er ekki hissa á því þó árásarmálið í skólanum í Sandgerði hafi vakið heitar tilfinningar í bloggheimum og samfélaginu öllu. Sum ummælin voru þó yfir strikið og er sjálfsagt að hugleiða hvort einhverjir hafi gengið of langt. Ég er samt sannfærður um að nauðsynlegt er að ræða ofbeldismál hreint út og vekja á þeim athygli. Ekki er eðlilegt að þagga þau niður og sveipa þau verndarhjúp, slíkt getur ekki gengið og eru röng skilaboð. Óþarfi er þó að níða niður fólk vegna þess og fara yfir strikið.

mbl.is Óvægin ummæli á bloggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirlaunalögin felld úr gildi - góð málalok

Ég held að það sé jákvætt og gott skref að hin umdeildu eftirlaunalög hafi verið felld úr gildi. Þau voru mjög gölluð frá fyrstu stundu og voru ótæk og óverjandi að flestu leyti. Á þeim voru augljósir annmarkar sem hefði átt að taka af skarið með mun fyrr -  sá hinn stærsti að fyrrum ráðherrar gætu þegið eftirlaun á sama tíma og þeir væru á fullum starfslaunum hjá hinu opinbera. Slíkt gengur ekki upp og varð að taka á. Slíkt hefði átt að gera fyrir margt löngu.

Eftirlaunalögin voru samþykkt í pólitískum hita rétt fyrir jólin 2003. Fyrst stóðu þingmenn allra stjórnmálaflokka landsins að málinu sem flutningsmenn frumvarpsins í þinginu. Á örfáum dögum skipti stjórnarandstaðan meira og minna um kúrs og snerist við. Sérstaklega eru dramatískar og eftirminnilegar frásagnir af viðsnúningi innan Samfylkingarinnar.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi varaformaður flokksins, tók forystu gegn lögunum og vann þeim málstað fylgis á kvöldfundum í þinghúsinu og tók forystu málsins af Össuri Skarphéðinssyni. Er yfir lauk studdi aðeins Guðmundur Árni Stefánsson, einn af varaforsetum Alþingis, málið af hálfu stjórnarandstöðunnar og fylgdi eftir hlutverki sínu við að leggja frumvarpið fram.

Deilt hefur verið um málið alla tíð síðan. Tvöfaldar launagreiðslur til ráðherra, sem fyrr eru nefndar, eru ekki hið eina sem er umdeilt við eftirlaunalögin. Allt frá því frumvarpið var rætt hefur mér fundist óeðlilegt að þingmenn njóti sérréttinda í lífeyrismálum og óviðunandi með hvaða hætti það var ákveðið.

Starfskjör þingmanna eru að mínu mati orðin það góð að þeir ættu að geta náð vænum lífeyrisauka fyrir eftirlaunaárin sín með frjálsum lífeyrissparnaði. Engin sérréttindi eiga að vera þar.

mbl.is Eftirlaunafrumvarp samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu virkur er nornagaldurinn?

Mér finnst það kaldhæðnislegt að konan sem hefur verið að magna upp nornagaldur gegn þjóðþekktu fólki og talað gegn því sé að loka galdrabúðinni sinni. Kannski fer það stundum svo að galdurinn beinist gegn fólkinu sjálfu og komi þeim sjálfum sem verst. Hver og einn á að tala um aðra eins og þeir vilja að talað sé um það sjálft. Illur andi og almenn lágkúra hittir fólk fyrir síðar meir.

mbl.is Nornabúðin lokar dyrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fljótaskrift á stjórnarskrá kortéri fyrir kosningar

Ég hef alltaf verið mikill talsmaður þess að stokka stjórnarskrána upp. Efast þó um hvort það kunni góðri lukku að stýra að ætla að koma með breytingar á stjórnarskrá undir hita og þunga kosningabaráttu þegar að kortér lifir af kjörtímabilinu. Afleitt verklag er að leggja stjórnarskrána undir eins og peningaseðil í Vegas. Þetta var hreinræktað fíaskó fyrir þingkosningarnar 2007 - ég var þá mjög á móti breytingum á þeim tímapunkti, enda var það hvorugum stjórnarflokknum til sóma þá.

Seint verður sagt að sá málatilbúnaður hafi aukið tiltrú á þingi og stjórnmálaflokkum landsins. Ég sem kjósandi þessa lands horfði á þetta mál þá og botnaði vart í því. Ég gladdist mjög þegar að það dagaði uppi. Það voru fyrirsjáanleg endalok að mínu mati. Nú á að leika sama leikinn, þó með öðrum aðalleikurum. Að mínu mati þarf að vanda mjög til verka við uppstokkun stjórnarskrár. Leita þarf samstöðu allra flokka og tryggja að vel sé unnið á öllum stigum, ekki sé farið í einhverja fljótaskrift í ferlinu.

Mér finnst það ábyrgðarhluti að ætla að keyra svona tillögu í gegnum þingið á örfáum dögum, síðustu dögum fyrir alþingiskosningar. Þetta var farsi 2007 og mér grunar að þetta verði svipað nú, sérstaklega ef vinnuferlið á að líkjast fíaskó vinstriflokkanna í Seðlabankafarsanum. Stjórnarskrárin er mikilvægt plagg og vanda þarf til verka, en ekki vinna í kappi við tímann. Mörg önnur mál eru brýnni.

Stjórnarskrárbreyting í kappi við tímann fyrir tveimur árum, í aðdraganda kosninga, fékk sín eftirmæli sem málið sem strandaði í fjörunni. Gerist hið sama núna?


mbl.is Frumvarp um stjórnarskrárbreytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin breyting hjá VG í NA - veikur listi

Mér finnst niðurstaða forvals VG í Norðausturkjördæmi vera góð tíðindi fyrir andstæðinga flokksins hér á svæðinu. Engin breyting verður í efstu sætum og listinn hlýtur að teljast mjög veikur í því ljósi. Mér finnst það mjög lélegt að vinstri grænir hafni algjörlega Hlyni Hallssyni og taki þá afstöðu að velja aðra fulltrúa í forystusveitina. Með þessu verður yfirbragð listans frekar einsleitt og veiklulegt.

Fyrir andstæðinga VG er þetta óskaniðurstaða og eykur líkurnar á því að VG verði á svipuðum slóðum og í síðustu kosningabaráttu. Þá byrjaði VG vel en tapaði fylgi eftir því sem nær kosningum dró. Veikleikar listans komu þá vel í ljós á öllum sviðum. Listi án Hlyns er mjög veikur sérstaklega hér á Eyjafjarðarsvæðinu, rétt eins og síðast. Þetta er því góð útkoma fyrir þá sem eru í öðrum flokkum.

Baráttan við VG um fylgi hér á Akureyri verður mjög skemmtileg í ljósi þess.


mbl.is Steingrímur J. efstur í NA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband