Aðför að þinghúsinu - upphafið á grófari mótmælum

Ég get ekki sagt að ég sé hissa á því sem er að gerast við Alþingishúsið. Við höfum séð fyrirboða þess gerast að undanförnu víða, þar sem mótmælendur hafa gengið æ lengra, t.d. á gamlársdag við Hótel Borg þar sem umræðuþáttur um stjórnmál var stöðvaður. Aðeins var beðið eftir því að syði virkilega upp úr og sú týpa mótmæla sem stunduð hefur verið til hliðar við friðsamlega fundi Harðar Torfasonar yrði enn meira áberandi.

Mér finnst það ekki gott að ætla að vega að starfinu í þinghúsinu og ráðast að þeim sem sinna sinni vinnu. En eftir fréttina í gær sérstaklega um aðferðir sýslumannsins á Selfossi skil ég reiði fólks upp að vissu marki og auðvitað er reiðin mjög almenn í samfélaginu. Held að við séum öll reið yfir því hvernig komið er fyrir þjóðinni og öll höfum við okkar sýn á hvað eigi að gera. En við verðum að passa upp á að fara ekki yfir strikið.

Ég óttast að þetta sé það koma skal á næstunni og yrði ekki hissa þó gengið yrði enn lengra. Við erum að upplifa örlagatíma hér og væntanlega mun reyna mikið á þá sem taka þátt í stjórnmálum hvort þeir geti sinnt sínum störfum eða munu gefast upp í þessu mótstreymi.

mbl.is Piparúða beitt við þinghúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Burt með sukkið og svínaríið á Nýja Íslandi

Eftir því sem kafað er neðar í sukkfenið í bönkunum kemur æ meira ógeðfellt í ljós. Sagan um glæfraverkin í Kaupþingi þar sem eigendurnir fengu botnlaus lán út á lélegt lánstraust til að rífa upp eigin stöðu og bankans, en þeir gátu auðvitað ekki tapað persónulega á, er örugglega aðeins toppurinn á þessum ósóma. Held að enginn hafi samúð með þessum fjárglæframönnum og verklagi þeirra. Flestir hafa megna skömm á þessu verklagi.

Fiffið með skúffufyrirtækið á Jómfrúareyjum og lygasagan um erlendu fjárfestingarnar, eru alveg kostulegar. Þegar svo við bætist að þessir menn koma í fjölmiðlum og reyna að bera gegn augljósum staðreyndum og því sem blasir við er aumingjalegt í besta falli, en kannski ekki við öðru að búast. Tilgangurinn sá eini að blaðra upp hlutabréfin í bönkunum. Öll almenn skynsemi og siðferði í viðskiptum víkur fyrir þessari glæpamennsku.

Þessi gervimennska er svo augljós að allir sjá í gegnum hana. Ólafur ætti eiginlega að fá tilnefningu til Grímuverðlaunanna fyrir leiktúlkun sína í gær, þó hann hafi ekki einu sinni verið í mynd. Slíkir voru meistarataktarnir í að reyna að blekkja fólk enn eina ferðina. En það dugar ekki til. Hringekjan er hætt að snúast. Laumuspilið og feluleikurinn hefur verið stöðvaður í þeirri mynd sem hann gekk lengst af.

Og svo er fólki boðið upp á vælið í UppsveifluÓlafi um að hann hafi nú ekki grætt neitt á þessu. Give me a break segi ég bara á lélegri íslensku. Var hann ekki að spila með allt og alla til að upphefja sjálfan sig. Hver græddi manna mest á þessari falsmennsku? Þetta er manípúlering eins og þær gerast bestar í villta og spillta gamla Íslandi.

Ég ætla að vona að þessir fjárglæframenn verði ekki mikið í fréttum í Nýja Íslandi. Nema þá til að segja okkur frá því að þeir hafi verið stöðvaðir af.

mbl.is Milljarðalán án áhættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær frammistaða hjá Sigmundi í Kastljósinu

Enginn vafi leikur á því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, átti stjörnuframmistöðu í Kastljósinu í kvöld. Hann var einlægur og traustvekjandi sem fulltrúi nýrra tíma og kom vel fyrir sig orði - talaði af ástríðu um verkefnin framundan og virðist hafa eitthvað fram að færa. Ég held að Framsókn muni græða stórlega á því að hafa sópað af borðinu og stokkað algjörlega upp. Kostur Sigmundar Davíðs er að vera alveg nýr á sviðinu og þurfa ekki að bera byrðar fortíðar.

Ég heyri á mörgum að hann eigi fljótlega eftir að reka sig á gömlu klíkurnar í flokknum og hafi aðeins náð hálfum sigri á flokksþinginu. Held að það sé fjarstæða. Gömlu fylkingunum var hafnað á þessu flokksþingi, þeim var einfaldlega kastað út í horn og þær gerðar upp. Forystumenn liðnu tímanna fengu klapp á bakið og vel valin orð en um leið þau skilaboð að þeirra tími væri liðinn. Nú væri þeirra ekki lengur þörf, nema í besta falli í fjarlægu aukahlutverki í endurreisn flokksins. Þetta eru þáttaskil.

Sigmundur Davíð er vissulega nýr. En sem slíkur getur hann fært fólki aðra sýn á veruleikann og um leið aðrar lausnir í stöðunni. Þetta eru hans sóknarfæri og greinilegt er að hann mun fara sínar leiðir til að byggja flokkinn upp. Gott ef Sigmundur Davíð minnti að sumu leyti ekki á Guðna eins og hann hljómaði áður en valdaátökin við Halldór sliguðu hann. Um leið fannst mér Sigmundur Davíð vilja byggja á grunngildum Framsóknarflokksins og byggja upp á þeim.

Hann segir skilið við Íraksstefnuna, spillingarstimpilinn og vinadílana og horfir annað. Sigmundur Davíð býr svo vel að vera ungur maður sem getur hugsað djarft og talað af krafti um framtíðina og sagt með sanni að fortíðin sé að baki. Nú er að sjá hvernig það fer í kjósendur. Ég held að það sé mikil eftirspurn eftir svona leiðsögn nú. Fólk vill nýja pólitíska sýn og tækifæri, ekki fortíðardrauga.

mbl.is Svipmynd: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynferðisbrotamenn reyna að tæla börn á facebook

Greinilegt er á fréttum að nettæling er að verða mikið vandamál á samskiptasíðunni Facebook, rétt eins og MSN og myspace áður. Kynferðisafbrotamenn nota þessi samskipti til að komast í tengsl við ungt fólk og blekkir það. Veit þó ekki hversu algengt það er hérlendis, en mjög ber á þessu erlendis. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hversu mörg börn undir lögaldri hafa opna facebook-síðu. Mér finnst reyndar eðlilegt að spyrja hvað börn langt undir lögaldri hafa að gera með þannig síðu.

Kannski er það í lagi ef foreldrar fylgjast með þeirri netnotkun en allir hljóta að gera sér grein fyrir að svo opin samskipti geta falið í sér hættur. Ekki eru allir saklausir á netinu eins og dæmin sanna. Ein lausnin getur verið að læsa síðunum svo að enginn komist inn á þær nema sá sem viðkomandi velur sem vini, en samt hlýtur að vera eðlilegt að foreldrar reyni að stýra netnotkun ólögráða barna sinna eða allavega fylgjast með hvað þau gera á netinu, t.d. á samskiptasíðum og netspjalli.

MSN er margfrægt í málum hérlendis og ekki langt síðan maður var dæmdur fyrir að klæmast við sautján ára strák á MSN. Lögmaður einn var líka dæmdur fyrir kynferðisafbrot og hafði m.a. verið með 335 stelpur á skrá sinni á MSN og þóttist vera vöðvastæltur unglingsstrákur með aflitað hár. Sérfræðingar hafa talað um samskiptasíður og MSN-spjall sem hættulegasta þátt í samskiptum fyrir brot.

Eins og sást í Kompásþáttum þar sem kynferðisafbrotamenn voru lokkaðir í gildru lék MSN lykilhlutverk í samskiptum og í flestum tilfellum höfðu þeir leikið tveim skjöldum í kynningu á sér, enda hægt að tjá sig öðruvísi með lifandi spjalli þar sem engin andlit eru. Sama virðist orðið með facebook. Mikilvægt er að foreldrar fylgist með börnum sínum, enda hættan til staðar.

Vandræðaleg vörn úr forarpyttinum

Mér finnst vægast sagt kostulegt að sjá tilraunir stjórnenda og eigenda í gamla Kaupþingi til að stöðva uppljóstranir um vinnuferli þeirra og ákvarðanir. Sífellt meira kemur fram sem sýnir eitthvað óheiðarlegt og ómerkilegt í pokahorninu. Þær reikningskúnstir sem við höfum heyrt um varðandi kaup sjeiksins í bankanum eru skólabókardæmi um hvernig var unnið og hvert viðskiptasiðferðið var hjá þeim sem réðu för.

Best af öllu fannst mér þegar sýnt var í fréttum Sjónvarpsins tengslin á milli fyrirtækjanna og hversu mörg fyrirtæki voru með óskiljanlegum nöfnum í einu og sama húsinu við Suðurlandsbraut. Ég held að við séum bara rétt að sjá í það sem leynist í forarpyttinum.

mbl.is Ekkert óeðlilegt við viðskiptin við Al-Thani
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt upphaf í Framsókn frá miðju og vinstri

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ætlar greinilega að færa flokkinn í takt við það sem einkenndi verk Steingríms Hermannssonar á níunda áratugnum og taka upp áherslurnar sem hann stóð fyrir. Staðan innan Framsóknarflokksins er mjög sérstök nú þegar að hafist er handa við að byggja upp brunarústirnar eftir stórbrunann mikla á undanförnum árum. Sigmundur tekur við flaki þar sem mikil uppbygging tekur við. Þar er staðan nær algjörlega í grunnmælingu - sóknarfærin eru líka ótalmörg.

Ljóst er að þrennt getur bjargað Framsóknarflokknum og fært honum sóknarfæri; horfa til þeirra grunngilda sem einkenndu flokkinn lengst af, alvöru kynslóðaskipti og gera út af við fyrri fylkingamyndun sem klufu flokkinn. Þegar eru tvö þessara atriða orðin staðreynd. Forystan hefur verið endurnýjuð svo um munar og unga fólkinu færð tækifærin og fylkingamyndun fyrri tíma er úr sögunni með því að gera út af við gömlu fylkingarnar sem klufu flokkinn og skáru í sundur með hörðum átökum.

Ljóst er að niðurstaða flokksþingsins er í raun algjör hallarbylting. Halldórsarmurinn heyrir sögunni til í sinni gömlu mynd og fékk algjöran skell. Ljóst er af tali Sigmundar Davíðs að hann ætlar að leiða flokkinn til nýrra tíma, leiða hann í aðrar áttir en Halldór Ásgrímsson og Jón Sigurðsson gerðu. Horft er mjög ákveðið til miðjunnar og sérstaklega litið til vinstri. Sigmundur Davíð er ekki táknmynd Íraksstefnunnar sem gekk frá stjórnmálaferli Halldórs, hjaðningavíganna skaðlegu og valdaþreytunnar á árunum með Sjálfstæðisflokknum. Þessi kafli hefur verið gerður upp og horft fram á veg.

Framsóknarflokkurinn er illa farinn eftir vondan kosningaósigur í síðustu sveitarstjórnar- og þingkosningum. Ljóst hefur verið um langt skeið að kynslóðaskipti og hugmyndafræðileg uppstokkun án fyrri fylkingamyndunar væru útgönguleið framsóknarmanna og eina leið til uppstokkunar. Slíkt ferli er að baki og endurnýjun orðin staðreynd. Sigmundur Davíð ætlar greinilega að horfa fram á við og talar þegar eins og Steingrímur Hermannsson gerði. Ætli hann sé ekki fyrirmyndin?

Búast má við miklum vinstriblæ á Framsókn á komandi árum. Þar verður Framsóknarflokkur Steingríms sá sem rís upp úr öskustó kosningaafhroðsins. Horft verður til nýrrar framtíðar, sagt skilið við hægrihliðar formannstíðar Halldórs og greinilegt að stríðsstimpillinn og spillingin verður sett til hliðar. Heyra má þetta mjög vel af tali Sigmundar í þessari Moggafrétt. Svo er augljóst að hann er ekkert sérstaklega hrifinn af ESB-hugleiðingum, rétt eins og Guðni.

Nú reynir á unga fólkið í Framsókn. Þeim hefur verið falin framtíðin og nú verður að koma í ljós hvort endurnýjuð Framsókn getur orðið flokkur sem höfðar til fjöldans. Ef marka má fyrstu viðbrögð er greinilegt að margir eiga erfitt með að tala um flokksþingið, því flestir töldu að gamli tíminn myndi hafa sigur en sáu ekki fyrir að hann fengi svo mikinn skell.

mbl.is Vill færa flokkinn frá hægri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Táknræn uppstokkun - nýir tímar hjá Framsókn

framsokn forysta
Óhætt er að segja að flokksmenn í Framsóknarflokknum hafi tekið til í forystusveit flokksins um helgina og sagt skilið við gömlu tímana og lagt traust sitt á nýja kynslóð og hafi hafnað þeim sem ráðið hafa för þar um árabil. Formannskjör Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, 33 ára skipulagshagfræðings, markar uppstokkun í flokki sem hefur meira og minna haft forystumenn sömu kynslóðar í hartnær tvo áratugi. Í pólitísku litrófi hér heima eru þetta tímamót, enda vægast sagt fá dæmi fyrir því að rúmlega þrítugu fólki sé treyst fyrir flokksformennsku í rótgrónum flokki.

Þegar ég heyrði af því að Páll Magnússon hefði fengið skell í formannskjörinu, verið hafnað með afgerandi hætti sem fulltrúum gömlu valdaaflanna, taldi ég víst að Siv Friðleifsdóttir myndi stórgræða á því í varaformannskjörinu og þar væri um að kenna að Siv hefði unnið svo vel bak við tjöldin og plottað gegn Páli. Það mat var heldur betur rangt, eins og svo mörg stöðluðu dæmin um valdablokkirnar í Framsókn. Siv var nefnilega hafnað ennfremur í varaformannskjöri gegn ungum manni og var flokkuð sem fulltrúi hinna liðnu tíma í Framsóknarflokknum.

Ég átti ekki von á því að ákallið um breytingar væri svo afgerandi og Siv myndi finna fyrir því ennfremur. En sem ráðherra um árabil og forystumaður á ríkisstjórnarárunum með Sjálfstæðisflokknum fékk hún skellinn og var einfaldlega hafnað. Niðurstaða flokksþingsins er því mjög einföld. Forystufólk hinna liðnu tíma, fyrir síðustu þingkosningar, er einfaldlega skóflað út og skilaboðin til þeirra eru mjög einföld. Byggja eigi nýjan flokk á grunni hins liðna og kalla eigi til þess verks yngra fólk sem ekki er bundið af óvinsældum og verkum fortíðar.

Auk þess vakti mikla athygli að Sæunni Stefánsdóttur, ritara Framsóknarflokksins og eftirmanni Halldórs Ásgrímssonar á Alþingi, skyldi hafnað svo afgerandi og í staðinn kosin landsbyggðarkonan Eygló Harðardóttir, sem tók sæti á þingi fyrir nokkrum vikum í stað Guðna Ágústssonar. Ef eitthvað er lykilniðurstaða helgarinnar er það að Halldóri og gömlu fylkingunni hans er algjörlega hafnað og leitað annað eftir forystufólki. Skellurinn er mikill fyrir þá sem hafa ráðið flokknum. Valdamiðjan þar hefur einfaldlega færst annað í þessum umskiptum.

Fjarstæða er að telja að Framsókn hafi færst mjög nær ESB á þessu flokksþingi. Eini formannsframbjóðandinn sem vildi setja ESB á oddinn fær algjöran skell og ESB-stefnan er mjög opin og hægt að teygja hana og túlka af vild af kontór hins nýja formanns. Merkilegast af öllu er að gömlu vígaferlin á milli Páls og Sivjar lýkur með að þeim báðum er hafnað og leitað annað eftir leiðsögn. Kannski er þetta kaldhæðnislegt eftir öll vígaferlin en mun frekar táknrænt.

Mjög merkileg niðurstaða - fróðlegt verður að sjá mælingarnar sem Framsókn fær. Ekki er lengur hægt að tala um að Framsókn sé stýrt af valdaörmum liðnu tímanna og sé staðnaður og úreltur flokkur. Breytingastefið á flokksþinginu hefur sópað út gömlu fylkingunum og eftir stendur flokkur sem á mörg tækifæri og getur byggt sig upp og átt nýtt upphaf. Þeirra er nú verkefnið að standa undir nafni og unga fólksins er að stýra ferlinu.

Ég held að margir flokkar geti lært af þessu og hugað að álíka uppstokkun. Ég tel að pólitíska forystan í landinu sé stórlega rúin trausti og þurfi að láta reyna á hvernig umboð hún fær. Fróðlegt verður að sjá hvernig staða forystu Sjálfstæðisflokksins verður eftir landsfund eftir hálfan mánuð.

mbl.is Birkir Jón Jónsson nýr varaformaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný framsóknarstjarna - vandræðalegt klúður

sdg
Ég vil óska Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni til hamingju með glæsilegt formannskjör í Framsóknarflokknum. Kjör hans markar kynslóðaskipti og þáttaskil fyrir Framsókn. Ekki er langt síðan hann gekk í flokkinn og hann er ekki markaður neinum fyrri átökum í flokknum og kemur inn á eigin vegum en ekki annarra. Hann ætti því að geta leitt flokkinn af braut sundrungar og óheilinda og gefið þeim sóknarfæri í átökum næstu mánaða, en æ líklegra er að kosningar verði á árinu.

En mitt í þessum sögulegu þáttaskilum Framsóknar verður eitt vandræðalegasta klúður sem ég hef séð og heyrt af í íslenskri stjórnmálasögu. Lýst er yfir formannskjöri Höskuldar Þórhallssonar og hann rétt að fara að flytja sigurræðu sína þegar ljóst er að tölum hefur verið víxlað. Þetta er eitthvað svo dæmigert fyrir fyrri klúður framsóknarmanna og lánleysi þeirra. En vonandi er fall fararheill í þessum efnum.

En niðurlæging Halldórsarmsins margfræga er staðreynd í þessum úrslitum. Valinn fulltrúi þeirra fær afhroð og valinn er á formannsstólinn ungur og frambærilegur maður sem getur virkilega sagt að hann sé fulltrúi nýrra tíma, enda nýr í pólitík og hefur margt gott fram að færa - getur í raun og sann verið nýtt leiðarljós Framsóknarflokksins og kannski bjargvættur hans ef honum gengur vel í embætti.


mbl.is Sigmundur kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvænt úrslit hjá Framsókn - afhroð hjá Páli

Greinilegt er á úrslitum fyrri umferðar í formannskjöri Framsóknarflokksins að þingfulltrúar vilja nýtt upphaf hjá flokknum og hafa afgerandi hafnað valkosti hins gamalkunna Halldórsarms. Afhroð Páls Magnússonar verður ekki túlkað nema sem skipbrot þeirrar klíku sem hefur ráðið völdum í flokknum frá því að Steingrímur Hermannsson fór í Seðlabankann árið 1994 og lét Halldóri Ásgrímssyni eftir völdin í flokknum.

Greinilegt er að fjölmargir hafa vanmetið sérstaklega styrk Höskuldar Þórhallssonar, alþingismanns. Hann græðir á því að vera sitjandi þingmaður og vera mjög öflugur fulltrúi nýrra tíma. Sama gildir um Sigmund Davíð sem hefur komið sem ferskur vindblær í þessa kosningu, táknmynd nýjunga og breytinga, sem Framsókn þarf sannarlega á að halda. Páll, sem hefði átt möguleika áður fyrr, á ekki séns í þessu árferði.

Fróðlegt að sjá hvernig fer á eftir, en úrslitin verða ekki túlkuð, á hvorn veginn sem fer, en sem sigur þeirra sem hafa gagnrýnt Halldórsarminn og verklag hans. Varla þarf að efast um eftir þessa kosningu að Siv verði varaformaður, en greinilegt er að hennar fulltrúar hafa unnið vel á bakvið tjöldin til að stöðva Pál Magnússon frá því að vinna formennskuna.


mbl.is Höskuldur og Sigmundur áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Léleg tilraun til að réttlæta Kryddsíldarmótmælin

Ekki finnst mér tilraunir þeirra sem stöðvuðu formenn flokkanna í að tjá sig um þjóðmálin í Kryddsíld á gamlársdag hafa verið árangursríkar. Ekki hefur þeim tekist að tjá sig trúverðugt um tilganginn á bakvið það að stöðva þáttinn og heiðarlega umræðu um landsmálin. Einar Már, sá mikli penni og rithöfundur, gerir heiðarlega tilraun með sínu líkingamáli en eftir sem áður vantar eitthvað trúverðugt í lýsingarnar.

Því miður gengu þeir sem réðust að Hótel Borg og vildu komast inn alltof langt og fóru yfir strikið margfræga með því að skera á kapla og ráðast að fólki sem var aðeins að sinna sinni vinnu. Ég hugleiði reyndar enn hvort það sé tilgangur út af fyrir sig að ætla að stöðva fólk sem er að sinna sinni vinnu, sem það hefur verið kjörið til, og koma í veg fyrir að það geti talað um þjóðmálin og sinnt sínum störfum.

Sjálfur hef ég oft gagnrýnt Stöð 2 og eigendur hennar. Flestir ættu að vita það. Hinsvegar fannst mér það vanhugsað að leyfa ekki forystumönnum þjóðarinnar að tala í þessum þætti og ætla beinlínis að eyðileggja einn vinsælasta sjónvarpsþátt landsins. Allir hafa jú haft skoðanir og einhvern áhuga á Kryddsíldinni ef þeir á annað borð fylgjast með stjórnmálum. Enda þarna fólk með ólíkar skoðanir.

Uppgjör á gamlársdegi hefði átt að fara fram. Við getum svo haft hvaða skoðanir sem við viljum á því og fellt okkar dóma. Skoðanamyndun er ekki bönnuð í landinu og við höfum öll okkar rétt á að tjá okkur. Við sjáum það vel á blogginu, sem dæmi, að allir hafa sínar skoðanir og eru óhræddir við að tjá sig heiðarlega undir nafni. Nafnleysingjarnir verða alltaf sér á báti, hversu ólíkir sem þeir annars eru.

Ekkert réttlætir ofbeldi og skemmdarverk. Því dæmir þetta sig sjálft, hversu mjög sem Einar Már reynir að réttlæta það.

mbl.is Kryddlegin Baugshjörtu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þreytuleg sparnaðarsöngvakeppni

Ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með undankeppni Eurovision að þessu sinni. Sum lögin eru ekkert spes og umgjörðin er frekar þreytuleg. Kannski er líka ekki stemmning fyrir þessu. Fannst samt notalegt og sætt að sjá hina sjötugu Erlu Gígju Þorvaldsdóttur úr Skagafirðinum komast áfram með lagið sitt, Vornótt. Gamaldags og gott lag, ekta lagasmíð og traust. Mjög merkilegt að sjá tvö svo gjörólík lög komast áfram, en lagið með Ingó var alveg ágætt - allavega stemmning í því rétt eins og Bahama.

Greinilegt er að sparað er eins og mögulegt má vera í söngvakeppninni að þessu sinni. Glamúrkjólar Ragnhildar Steinunnar eru komnir í geymsluna og hún látlaust klædd með Evu Maríu, aldrei þessu vant. Svo er gamla sviðsmynd þáttarins hennar Ragnhildar Steinunnar búin að fá nýtt hlutverk í söngvakeppninni. Eitthvað hljóta menn að spara með því að hætta með sérhönnuð dress og að byggja sérstakt svið fyrir fjóra til fimm þætti í sjónvarpssal.

En reyndar má tónlistin eiga það að hún sameinar fólk og flestir horfa á þetta hvort sem þeim svo líkar eður ei. Allir tala um þetta, hvort sem þeir tala showið í kaf eða lofsyngja það. En ég velti fyrir mér hvernig lögin hljómuðu sem var hafnað, miðað við það sem komið er þetta árið af lögunum sem hlutu náð fyrir augum dómnefndar.

Eitt að lokum, finnst ykkur ekki eins og mér að sumir brandarar þeirra Evu og Ragnhildar séu frekar ódýrir?

mbl.is Lögin sem komust áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkar raddir fólksins ná ekki saman að tjá sig

Innst inni er ég ánægður með að ekki tókst að eyðileggja fyrir þeim sem hafa komið saman og mótmælt á Austurvelli. Þeir sem ætluðu að vera á sama stað á sama tíma með mótmæli hljóta að geta fundið sér annan tíma og eigin tækifæri til að tjá sig, þó reyndar sé merkilegt að þessar raddir hafi ekki getað átt samleið á sama vettvangi. Ég velti fyrir hvað ráði því, annað en egó sumra manna, að allar raddir þeirra sem vilja tjá sig um stöðuna í samfélaginu geti ekki átt samleið.

Ég hef alltaf verið mjög hlynntur því að þeir sem hafa skoðun og vilja til að tala í þessu ástandi þjóðarinnar hafi sinn farveg til þess og geti mótmælt ef þeir vilja, en þó þannig að það sé gert málefnalega og fólk gefi upp nafn og númer, eins og sagt er. Þeir sem vilja og hafa virkilega eitthvað fram að færa hljóta að geta farið þá leið og talað af ábyrgð. Þó ég sé ekki sammála öllum röddunum finnst mér margt gott hafa komið úr þessu, t.d. borgarafundirnir í Háskólabíó.

Verst af öllu er að einhverjir séu gagngert í einhverjum undarlegum hernaði gegn þeim sem vilja tjá sig og hafa gert það með þessum heiðarlega hætti, eins og á Austurvelli. Þetta fólk á að geta fengið að vera í friði. En það er samt sem áður merkilegt að þessar raddir geti ekki náð samhljómi, einhvers konar átök séu þar á milli. En kannski er staðreyndin einmitt sú að þar ræður eitthvað annað en málstaðurinn.

mbl.is Fjöldi manns á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmæli gegn mótmælum - afrek í samskiptaleysi

Ég held að það sé allt að því einsdæmi að boðað sé til mótmæla til að mótmæla öðrum slíkum. Slíkt mun þó vera að fara að gerast á Austurvelli. Ætli þetta sé ekki afrek í samskiptaleysi á milli fylkinganna. Greinilegt er að þeir sem hafa verið með mótmælin og borgarafundina hafa sniðgengið Ástþór með þeim hætti að hann er kominn í herferð gegn þeim.

Veit ekki hvort að þetta ætti að koma á óvart eftir fyrri núninga á milli fylkinganna, en mér finnst það samt merkilegt að svona sé komið að mótmælahópar séu komnir í innbyrðis slag um egóið.

Snýst þetta nokkuð um annað en egó einhverra á báða bóga?

mbl.is Nýta lýðræðislegan rétt sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðhetjan Sullenberger - frændi Jóns Geralds?

Á einni nóttu varð flugstjórinn Chelsey B. Sullenberger þjóðhetja í Bandaríkjunum. Stofnaðir hafa verið aðdáendahópar um hann á facebook og talað mjög vel um afrek hans. Auðvitað er þetta mikið afrek. Sumir segja að þetta sé fádæma heppni og hafa dregið úr afrekinu. Mér er alveg sama hvað sumir segja. Mér finnst það mikið afrek að ná að lenda vélinni svo vel og tryggja að allir sem um borð voru lifðu slysið af. Þessi nauðlending er eitt afrekanna í flugsögu síðustu ára, alveg hiklaust.

Ættarnafnið er samt mjög kunnuglegt. Ætli að þetta sé frændi Jóns Geralds?

mbl.is Ólík viðbrögð í nauðlendingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættulegt fikt

Þeir mega teljast heppnir strákarnir í Grindavík að ekki fór verr. Samt er það alltaf ömurlegt að heyra fréttir af því í flugeldasölutíðinni að ungmenni fikta með flugelda og setja sig í mikla hættu, gera sér oft ekki grein fyrir henni og velta ekki fyrir sér áhættuhliðum þess að fikta. Þrátt fyrir allt kynningarstarfið við að tala um þessa hættu gerast slysin og oft eru þau mjög alvarleg og geta sett mark á þann sem verður fyrir alla tíð.

Ég veit af nokkrum dæmum þess þar sem slíkt fikt hefur leitt til sjónmissis og álíka alvarlegra áverka. Alveg ömurlegt að sjá ungt fólk leika sér að slíku og taka áhættuna og þurfa að sjá eftir því alla tíð.

mbl.is Voru að útbúa heimatilbúna sprengju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarflokkurinn fikrar sig í Evrópuátt

Mér finnst það mjög merkileg tíðindi að Framsóknarflokkurinn hafi ákveðið hreint út að lýsa yfir stuðningi við aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Með því er áralöngum deilum um málið úr sögunni innan flokksins í þeirri mynd sem þær hafa verið, sem lengi vel einkenndust af persónulegum átökum Halldórs Ásgrímssonar og Guðna Ágústssonar. Þetta markar nýtt upphaf innan flokksins og vekur spurningar um hvort flokkurinn nær einhverjum sóknarfærum á þessari stefnumótun.

Að mörgu leyti ræðst það af því hver á að stjórna stefnumótuninni í þeirri Evrópuátt sem Framsóknarflokkurinn hefur tekið. Formannskjörið á sunnudag ræður enn meiru um það vissulega en þessi kosning. Þar sem formannsefnin þrjú sem eiga raunhæfa möguleika á að taka við formennskunni eru með mismunandi sýn á Evrópu og hvaða fókus eigi að setja á málaflokkinn verður það í raun sú kosning sem ræður ferlinu sem tekur við.

Í raun er sú kosning mun frekar um framtíð flokksins en nokkurn tímann þessi stefnumótun. Hún er í raun svo opin að nýr formaður getur teygt hana og leitt í hana hvaða átt sem hann telur henta sér. Í raun verður sá talsmaður sá áttaviti sem stýrir för flokksins. Þar sem greinilega eru nýjir tímar í augsýn fyrir Framsókn ræður mestu hvaða fókus nýr formaður setur á málin og hvernig hann vill reyna að höfða til kjósenda í þeim rústum sem hann er í nú.

Er Björn Ingi að fara í stjórnmál eða viðskipti?

Ég er ekki hissa á því að Björn Ingi Hrafnsson sé hættur með Markaðinn. Mikið var deilt um verk hans í kjölfar bankahrunsins og þegar við bættist að þáttur hans var færður úr eigin plássi yfir í kvölddagskrána var eðlilega spurt um framtíð hans hjá blaðinu. Óvenju harkaleg skrif Páls Baldvins Baldvinssonar, ritstjórnarfulltrúa Fréttablaðsins, um þátt Björns Inga þóttu líka mjög merkileg, miðað við að Björn Ingi var yfirmaður viðskiptaumfjöllunar blaðsins.

Stóra spurningin er hvort Björn Ingi sé að fara aftur í pólitíkina eða einhver viðskipti. Orðalagið vekur sannarlega athygli, enda var lengi talað um að draumur Björns Inga væri að ná frama innan Framsóknarflokksins, en brotthvarf hans úr framlínusveit flokksins vakti mikla athygli fyrir nákvæmlega ári þegar búmmerang Björns Inga í borgarmálunum snerist honum í óhag.

mbl.is Björn Ingi hættur á Markaðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur og Árni semja um launalækkun forseta

Nú hafa Ólafur Ragnar og Árni Mathiesen náð saman um að lækka laun forsetans. Ég er hissa á forsetanum að hafa ekki þegar óskað beint eftir því að fjármálaráðherra tæki þetta verkefni að sér, enda vitað mál frá upphafi að Kjararáð myndi aldrei lækka launin eða taka forystuna um það. Ljóst er að laun forsetans eru stjórnarskrárvarin og því augljóst að til þyrfti að koma ákvörðun ráðherra úr ríkisstjórninni, pólitísk ákvörðun semsagt, að lækka launin þar sem kjörtímabil forsetans er nýlega hafið.

Svo verður að ráðast hvort eitthvað mál verði gert úr því að ganga gegn stjórnarskránni. Efast þó stórlega um það. Forsetinn þarf að vera táknmynd sparnaðar eins og aðrir sem leiða för nú. Forsetinn ætti þó að hafa það hugfast að hann verður að spara á öðrum sviðum til að vera trúverðugur í þeim efnum, svo þetta sé ekki eitt leikrit. Eitt dæmið er að lækka ferðakostnaðinn og sennilega að lækka símreikninginn umtalsvert, svo fátt eitt sé nefnt.


mbl.is Laun forseta verða lækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Launalækkun forsetans ekki samþykkt

Þá er það ljóst sem allir vissu áður, og einkum forseti Íslands sjálfur mátti vita, að ekki er hægt að lækka laun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Hann er eini embættismaðurinn í stjórnkerfinu sem er beinlínis verndaður í stjórnarskránni fyrir launalækkun og tryggt að ekki megi hrófla við kjörum hans á kjörtímabilinu. Ég benti á það í grein þann 22. desember sl. að það væri sýndarmennska hjá forsetanum að fara fram á launalækkun sem hann vissi fyrirfram að væri stjórnarskrárbrot. Þessi úrskurður Kjararáðs var því mjög fyrirsjáanlegur.

Í níundu grein stjórnarskrár stendur: "Forseti lýðveldisins má ekki vera alþingismaður né hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkaatvinnufyrirtækja. Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald. Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans."

Þetta er eins skýrt og það má vera. Samt sem áður fór Ólafur Ragnar sérstaklega fram á þessa lækkun vitandi mjög vel að það myndi aldrei gerast.

mbl.is Kjararáð getur ekki lækkað laun forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íkveikja á Klapparstíg - tilræði við fólk

Enn einu sinni hefur eldur nú verið kveiktur af mannavöldum í fjölbýlishúsi í Reykjavík. Dapurlegra er en orð fá lýst að kveikt sé í heimili fólks - ótrúleg mannvonska sem í því felst. Heimili fólks er þeirra helgasti staður og er ekkert nema tilræði við þá sem þar búa að reyna að kveikja eld þar um hánótt. Tilgangurinn er enginn nema skaða fólk.

Hvað er að þeim sem kveikja í hjá fólki sem sefur um nótt og gerir tilraun til að brenna það inni.

mbl.is Grunur um íkveikju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband