Árni hækkar - Ragnheiður enn í forystu

Spennan er heldur betur að aukast í talningu prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, nú þegar líður að lokum. Árni Johnsen hefur afrekað að ná upp í annað sætið en Ragnheiður Elín heldur enn forystunni. Unnur Brá komin í það þriðja og Kjartan fallinn niður í fimmta. Miklar sviptingar í gangi, svipað og í talningunni í síðasta prófkjöri árið 2006.

Fróðlegt að sjá hvernig fer að lokum. Ég ætla að vona að úrslitin verði í svipuðum dúr eins og fyrstu tölur sýndu. Það væri sterkur listi fyrir kjördæmið og myndi ná góðri kosningu. Flokknum veitir ekki af að stokka upp listann þarna og ná annarri ásýnd á forystusveitina, eftir ýmis leiðindamál síðustu árin.

mbl.is Árni kominn í annað sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ragnheiður Elín og Unnur Brá leiða í Suðrinu

Ég er mjög ánægður með fyrstu tölur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðrinu. Þar eru Ragnheiður Elín og Unnur Brá í forystu. Líst mjög vel á það. Þær eru öflugar og traustar - eiga skilið að leiða listann í kjördæminu. Margir töldu djarft hjá Ragnheiði Elínu að færa sig í Suðrið en þar tefldi hún skynsamlega og vel, leysti líka vissa leiðtogakrísu í kjördæminu. Hún bauð flokksmönnum þar nýjan og góðan valkost.

Unnur Brá, góð vinkona og félagi úr SUS-starfinu í denn, hefur verið að styrkjast í pólitíkinni á síðustu árum og verða traust forystuefni á Suðursvæðinu. Hún varð sveitarstjóri í Rangarþingi eystra eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar og náði svo fimmta sætinu á framboðslistanum í Suðrinu fyrir síðustu kosningar. Hún stimplar sig inn á þing nú. Óska minni góðu vinkonu til hamingju með árangurinn!

Vona að Íris Róbertsdóttir færist upp fyrir Árna Johnsen þegar líður á talninguna. Bind vonir við að fleiri ungliðar verði ofarlega líka. Ég held að allir viti um skoðanir mínar á Árna Johnsen. Varla þörf á að endurtaka það hér og nú.

mbl.is Ragnheiður Elín efst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni leiðir í Kraganum - Ármann fellur af þingi

Merkileg úrslit hjá sjálfstæðismönnum í Kraganum. Nokkrir punktar standa þar upp úr.

- Bjarni fær traust og gott umboð í leiðtogastólinn. Yfirburðastaða hans er augljós í væntanlegu formannskjöri. Eina spurningin er nú hversu afdráttarlausan stuðning hann muni fá.

- Þorgerður Katrín heldur velli í forystusveitinni en tapar leiðtogastólnum til Bjarna - hann fékk 3364 en hún 1361 atkvæði. Staða hennar veikist í samræmi við það og eflaust velta flestir fyrir sér stöðu hennar sem varaformannsefnis að því loknu.

- Ragnheiður Ríkharðsdóttir vinnur mikinn persónulegan sigur með því að ná þriðja sætinu. Hún barðist fyrir því síðast en tapaði og féll niður í sjötta. Sætur sigur fyrir hana.

- Jón Gunnarsson kemur mörgum á óvart með því að halda sínu sæti og verða eini Kópavogsbúinn í öruggu þingsæti með því að fara upp fyrir Ármann Kr. Er það hvalurinn sem réð úrslitum?

- Óli Björn nær traustu sæti. Er hann ekki fyrsti Seltjarnarnesbúinn í væntanlegu þingsæti fyrir flokkinn áratugum saman? Held það. Glæsilegt hjá honum. Ánægður með að fá hann á þing.

- Rósa hefði mátt lenda ofar að mínu mati. Hefur staðið sig vel og stimplað sig inn með setu í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

- Ármann Kr. fær mikinn skell og lendir út af þingi. Spilaði djarft og verður undir, svipað og Ragnheiður R. síðast.

mbl.is Bjarni sigraði í Suðvesturkjördæmi - Rósa náði 6. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný forysta - fer Illugi í varaformannsframboð?

Mikil tíðindi hafa orðið í Sjálfstæðisflokknum á þessu prófkjörskvöldi. Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson hafa stimplað sig inn sem sterkt tvíeyki í forystu flokksins. Illugi er orðinn afgerandi forystumaður í höfuðborginni, tekur þar við hlutverki Geirs H. Haarde, og Bjarni orðinn forystumaður á Kragasvæðinu, tekur leiðtogastólinn af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Nær öruggt er orðið að Bjarni verði formaður Sjálfstæðisflokksins.

Eftir niðurstöðu prófkjörsins í Reykjavík hefur staða Guðlaugs Þórs Þórðarsonar veikst gríðarlega. Ekki aðeins beið hann mikinn ósigur í leiðtogaslagnum við Illuga heldur er hann að auki fimmti í heildaratkvæðamagni í borginni, fær þar minna í heildina en Pétur, Ólöf Nordal og Siggi Kári. Guðlaugur Þór afskrifaði reyndar formannsframboð fyrr í dag, áður en tölur tóku að berast.

Mér finnst stórmerkilegt að sjá heildaratkvæðamagn í Reykjavík þegar um 80% atkvæða hafa verið talin. Illugi er með 5273 atkvæði en Guðlaugur Þór hefur 3834 atkvæði. Þetta segir sína sögu. Illugi hefur nú náð stöðu Davíðs og Geirs, eitt sinn, í borginni. Með því verður hann lykilmaður í flokksstarfinu.

Flokksmenn hljóta að velta fyrir sér, eftir þessi ótvíræðu úrslit, hvort Illugi Gunnarsson fari í varaformannsframboð. Einnig hefur Ólöf Nordal stimplað sig inn sem forystukona í flokknum á landsvísu. Hún er framtíðarstjarna í flokknum.

mbl.is Illugi öruggur á toppnum með 3600 atkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll sigrar Lúðvík í Kraganum

Mér finnst það mjög merkileg úrslit að Árni Páll Árnason hafi sigrað Lúðvík Geirsson, bæjarstjóra í Hafnarfirði, í prófkjöri Samfylkingarinnar í Kraganum. Með þessu stimplar Árni Páll sig inn sem einn af framtíðarleiðtogum Samfylkingarinnar. Þetta hlýtur að auka líkur á formannsframboð hans fari Jóhanna Sigurðardóttir ekki fram eða ella styrkja hann mjög í varaformannskjörinu.

Þetta er mjög mikill skellur fyrir Lúðvík, sem flestir töldu afgerandi leiðtoga í prófkjörinu vegna sterkrar stöðu sinnar í Hafnarfirði. Svo er augljóst að Þórunn Sveinbjarnardóttir fær nokkurn skell, ein ráðherra Samfylkingarinnar í síðustu ríkisstjórn.

Stóra spurningin er nú hvað verði um bæjarstjórastólinn í Hafnarfirði þegar Lúðvík verður óbreyttur þingmaður í Kraganum.

mbl.is Árni Páll sigraði í Kraganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afgerandi sigur Illuga Gunnarssonar

Illugi Gunnarsson hefur unnið slaginn um fyrsta sætið í Reykjavík mjög afgerandi. Vil óska honum innilega til hamingju með glæsilega kosningu. Slagurinn um annað sætið er greinilega æsispennandi milli Guðlaugs Þórs og Péturs.

Ólöf heldur fjórða sætinu. Þetta er glæsilegt fyrir hana, enda ný í framboði í Reykjavík. Hún stimplar sig heldur betur í forystusveitina hjá flokknum á landsvísu með þessum glæsilega sigri.

Stóru tíðindin í þessu prófkjöri finnst mér hversu traust Illugi er valinn til forystu. Hann er orðinn einn helsti forystumaður flokksins með þessum sigri


mbl.is Illugi heldur efsta sætinu í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterk staða Illuga - glæsilegt hjá Ólöfu

Ég er mjög ánægður með fyrstu tölur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Illugi Gunnarsson virðist hafa mjög sterka stöðu í fyrsta sætinu. Guðlaugur Þór er í öðru en litlu virðist muna á honum og Pétri Blöndal í þriðja sætinu. Er sérstaklega ánægður með glæsilega stöðu Ólafar Nordal, vinkonu minnar. Hún er efst kvennanna í Reykjavík, mjög verðskuldaður árangur. Svo eru Siggi Kári og Birgir traustir í næstu sætum, svo og Ásta. Ánægður með að ungliðarnir Þórlindur og Erla eru í topp tíu, svo og Sigga Andersen. Sakna samt sérstaklega Guðrúnar Ingu, sem verðskuldar betri árangur.

En enn á eftir að telja slatta, svo margt getur breyst. Fylgjumst spennt með að sjálfsögðu!

mbl.is Illugi efstur í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnúsi Þór hafnað - frjálslyndir að hverfa?

Magnús Þór Hafsteinsson, fyrrverandi varaformaður Frjálslynda flokksins og alþingismaður, fékk mikinn skell í formannskjöri á landsfundi frjálslyndra í Stykkishólmi í baráttunni við yfirmann sinn Guðjón Arnar. Stjórnmálaferli hans virðist lokið, altént er greinilegt að hann hefur misst öll völd í flokknum og verður varla í framboði fyrir hann í vor.

Með því að hjóla í Guðjón missir hann það sem hann hafði, talsverða bitlinga, enda var hann pólitískur aðstoðarmaður Guðjóns og sem slíkur á þingmannalaunum.

En ekki kjósa margir á þessum landsfundi. Frjálslyndir virðast eiga erfitt á öllum vígstöðvum og þeir eiga mjög erfiðar kosningar fyrir höndum.

Erfiður lífróður blasir við flokknum í kosningabaráttunni næstu 40 dagana.


mbl.is Guðjón Arnar kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerðist í Slippnum?

Mjög ánægjulegt er að ákveðið hafi verið að rannsaka aftur lát tveggja manna við Daníelsslipp fyrir hálfum þriðja áratug. Augljóst er að mikið vantar á hina opinberu sögu um lát þeirra. Fjallað var um málið í Kompási á síðasta ári og þá komst það aftur í umræðuna. Ættingjarnir sættu sig eðlilega ekki við hina opinberu skýringu yfirvalda í málinu að þeir hefðu framið sjálfsvíg og óskuðu eftir gögnum málsins, en þurftu að berjast fyrir þeim.

Mér finnst afleitt að reynt hafi verið að fela gögn málsins og ekki mátt kanna það sem þar stendur. Skil mjög vel baráttu ættingjanna, enda er mikill munur á hvort að fólk taki eigið líf eða sé myrt og ekki hægt að lifa við þá óvissu. Auk þess virðist vera sem málið hafi aldrei verið klárað og þar hefði mátt kanna mun betur og fara yfir málavöxtu.

Eftirmálar nú vegna framleiðslu þessa þáttar og yfirlýsingar sem ganga á milli aðila vekja mjög margar spurningar um þetta mál, sem aldrei hefur verið klárað með sómasamlegum hætti. Grunnkrafa er að mál séu könnuð almennilega og reynt að ganga úr skugga um að allt sé reynt til að upplýsa svo dapurleg mál.

Vonandi mun spurningum fortíðarinnar verða svarað.

mbl.is Andlátið skoðað aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gunnar Bragi á þing - Sleggjunni hafnað í NV

Niðurstaðan úr prófkjöri Framsóknar í Norðvestri er mjög skýr. Fulltrúar nýrra tíma eru valdir til forystu í kjördæminu - Gunnar Bragi Sveinsson, vinsæll sveitarstjórnarmaður úr Skagafirðinum, er valinn til að leiða listann og fara á þing og Guðmundur Steingrímsson nær öðru sætinu, fetar í fótspor afa síns og föður, Hermanns og Steingríms, sem fetuðu sín fyrstu pólitísku skref á þessum slóðum, og ætlar örugglega að tryggja sér þingsæti fyrir flokk feðranna.

Kristinn H. Gunnarsson fær mikinn skell - kemst ekki á blað. Honum er algjörlega hafnað af flokksmönnum í kjördæminu sem kaus hann tvisvar á þing eitt sinn. Engin stemmning er fyrir því að fara til fortíðar með honum í fornum átökum sem sliguðu Framsóknarflokkinn. Nýtt fólk fær tækifærið.

Vestfirska sleggjan hefur setið á þingi fyrir þrjá stjórnmálaflokka, eins og Hannibal forðum daga, og tókst að tryggja sér endurkjör á lokaspretti kosninganætur fyrir tveim árum. Er ferlinum lokið með þessum mikla ósigri?

mbl.is Gunnar Bragi sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigga hafnað þrisvar - stórskandall í Idol

Maður er eiginlega alveg orðlaus eftir að horfa á mistökin gríðarlegu í Idol. Þvílíkur skandall. Meðferð stjórnenda þáttarins og dómnefndar á Sigga, frænda mínum frá Eskifirði, er alveg rosaleg. Fyrst er honum sagt að hann komist áfram úr kosningunni. Svo er það dregið til baka og annar tekur sætið vegna mistakanna þáttastjórnenda. Svo velur dómnefndin annan mann áfram og hafnar Sigga. Svo er tilkynnt um eitt aukasæti og stigahæsti tapari kvennaliðsins valin áfram og Sigga enn hafnað.

Þetta var einum of - til skammar fyrir einn sjónvarpsþátt. Er ekki lágmark að fara fram á fagmennsku í þáttastjórn og í dómnefndinni. Hún stóð sig engan veginn í kvöld. Valdi keppanda áfram sem var mun síðri en Siggi og fékk þar að auki mjög lélega dóma. Nú allt í einu vigtaði frammistaða kvöldsins ekkert heldur eitthvað allt annað. Þetta er nú meira klúðrið.

Menn verða að standa betur að málum eigi þessi þáttur að hafa snefil af trúverðugleika!


Kópavogur með Íslandsmetið í Útsvari

Vil óska Hafsteini, Víði og Kristjáni til hamingju með að sigra í Útsvari og tryggja þar með Kópavogi Íslandsmetið í Útsvari annað árið í röð. Hef fylgst með Útsvari af miklum áhuga í vetur. Þetta er ágætis spurningaþáttur, í og með svolítið dreifaralegur og skemmtilega hallærislegur í einfaldri umgjörð sinni.

Litasamsetningin í settinu og kynningarstiklunni, auk hins einfalda en smellna stefs er hallærisleg en flottur heildarpakki utan um pottþétt form á sjónvarpsefni sem allir fylgjast með, allavega með öðru auganu þó þeir vilji ekki viðurkenni það og stundum þeim báðum.

Alltaf er gaman að horfa á spurningaþætti og stemmningin var hin besta í þessum pakka. Þóra og Sigmar hafa staðið sig vel að halda utan um þáttinn. Liðin oftast nær verið mjög góð og fókusinn er hraður og góður.

Sumir hafa ekki tekið sig alvarlega, sem er mjög gott í og með. Enda á þetta að vera mest til gamans gert og baráttuhugurinn í keppninni á að vera að standa vörð um heiður sinnar heimabyggðar.

Sumir hafa gagnrýnt að keppnin sé að verða vettvangur fornra Gettu betur kappa. Má vera. Kannski er ágæt blanda að hafa þá inn á milli. En það er gott að hafa metnað í þessari keppni með öðru.

mbl.is Kópavogur vann Útsvarið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg könnun frá stuðningsmönnum GÞÞ

Kjörfundur er hafinn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þar er fjöldi góðs fólks í kjöri og ég vona að þar takist vel til að velja sigurstranglega lista. Mér finnst merkilegt að á fyrri kjördegi birti stuðningsmenn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar skoðanakönnun sem þeir hafa gert sjálfir án atbeina óháðra aðila til að sýna fram á styrkleika síns manns. Þetta er með furðulegri könnunum sem ég hef séð mjög lengi, enda er þar hvergi hægt að sýna fram á hver gerði viðkomandi könnun eða hvort hún sé trúverðug.

Þetta er eitthvað undarlegt trix, innlegg í umræðuna, sýnist mér. Miðað við vinnubrögðin í símhringingum og fleiru sem ég hef heyrt af síðustu daga finnst mér þetta ekki vegleg viðbót fyrir þá sem harðast ganga fram í skítkasti og óhróðri. Þetta eru vinnubrögð sem eru sorgleg í prófkjörsátökum pólitískra samherja, sem eru eins og leðjuslagur. Þetta eru vinnubrögð sem mér hugnast ekki.

Ég hvet flokksmenn í Reykjavík til að kjósa Illuga Gunnarsson í fyrsta sætið!

mbl.is Stuðningsmenn Guðlaugs segja hann hafa forystu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfilega léleg auglýsing hjá Símanum

Ný auglýsing Símans hefur vakið mikla athygli, fyrst og fremst fyrir það hvað hún er léleg. Fyrirtækið hefur þó grætt mikið umtal á því, eins og öðrum auglýsingum, en nær samhljóma álit flestra sem ég hef talað við er að hún fari meira í pirrurnar á þeim en Jesú-auglýsingarnar margfrægu með Jóni Gnarr. Fjöldi fólks hefur skráð sig í facebook-hóp gegn auglýsingunni, enda sé hún algjört bruðl og ekki í takt við stöðuna.

Nú bætist við að Neytendastofa vill stöðva birtingu auglýsingarinnar, enda sé hún á gráu svæði. Blasir reyndar við, enda dansað vægast sagt á línunni.

mbl.is Vilja stöðva auglýsingar Símans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnús Þór reynir að fella Guðjón Arnar

Eftir mikinn ósigur í prófkjöri Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæmi ákveður Magnús Þór Hafsteinsson að ráðast gegn formanninum Guðjóni Arnari Kristjánssyni, húsbónda sínum og yfirmanni. Magnús Þór er jú launaður aðstoðarmaður Guðjóns, á þingmannalaunum, og hefur setið í hans skjóli eftir að hafa fallið af þingi fyrir tveimur árum. Þetta mótframboð kemur í beinu framhaldi af því að Magnús Þór var niðurlægður í eigin kjördæmi, eftir að hafa tapað fyrir Sigurjóni Þórðarsyni en ekki lagt í leiðtogaframboð gegn Guðjóni Arnari.

Framboðið virðist því örvæntingarfull tilraun hans til að halda sér í forystu Frjálslynda flokksins og bjarga því sem bjargað verður. Hefði þetta átt að vera trúverðugt hjá Magnúsi Þór hefði hann átt að fara í leiðtogaframboð í Norðvesturkjördæmi. Hann studdi andstæðing sinn og yfirmann (fyndin blanda reyndar) en snýst gegn honum síðar meir. Ég man reyndar ekki þess dæmi að sérstakur aðstoðarmaður flokksformanns á Íslandi gefi kost á sér gegn yfirmanni sínum og læriföður á meðan viðkomandi er enn á launaskrá.

En Frjálslyndi flokkurinn minnir orðið frekar á dýragarð þar sem öll dýrin reyna að bjarga sjálfu sér. Flokkurinn er að verða nær fylgislaus í könnunum og virðist búinn að vera á flestum vígvöllum nema í Norðvesturkjördæmi. Þar er sjálfur formaðurinn í framboði. Hann kom flokknum á kortið í gamla Vestfjarðakjördæmi árið 1999 og dró með sér Sverri á þing. Alla tíð síðan hefur hann dregið vagninn, síðast í kosningunum 2007.

Hefði það gerst í einhverjum alvöru stjórnmálaflokki að aðstoðarmaður flokksformanns og einstaklingur sem hefur alltaf verið á mála hjá viðkomandi, ítrekað bjargað hjá honum, myndi það vekja athygli. En það gerir það varla þegar Frjálslyndir eru annars vegar.

mbl.is Magnús Þór stefnir á formanninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttist í prófkjör - góður framboðsfundur

Notaleg og góð stemmning var á fundi frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi á Hótel KEA í kvöld . Mjög vel var mætt á fundinn, en bæta þurfti við stólum í fundarsalnum vegna fjöldans sem þar var saman kominn. Það var virkilega ánægjulegt að sjá þennan mikla og lifandi áhuga flokksmanna koma svo vel fram í þessari góðu fundarsókn, en það er varla furða að svo sé, enda er þetta prófkjör mikilvægt okkur öllum sjálfstæðismönnum hér og áríðandi að flokkurinn velji sterkan lista.

Fundurinn snerist að mestu um efnahagsmálin, mál málanna á þessari stundu fyrir landsmenn alla. Tryggvi Þór Herbertsson var að mínu mati stjarna fundarins, enda talað um hans sérsvið langmest og ég tel að staða hans hafi styrkst mjög í baráttunni síðustu dagana. Miðað við frammistöðuna á fundinum tel ég mikinn meðbyr með honum og skoðunum hans. Auk þess var gaman að hlusta á nýju frambjóðendurna; þau Jens Garðar, Kristínu Lindu, Björn, Önnu Guðnýju, Sigurlaugu, Gunnar Hnefil og Soffíu.

Miklar breytingar eru framundan í þessu prófkjöri. Aðeins tveir frambjóðendur úr síðasta prófkjöri haustið 2006 gefa kost á sér aftur, þingmennirnir Kristján Þór og Arnbjörg. Ólöf Nordal og Þorvaldur Ingvarsson hafa horfið af pólitíska sviðinu hér og haldið til annarra verkefna. Af listanum í kosningunum 2007 er aðeins einn annar frambjóðandi í prófkjörinu, bóndinn Kristín Linda. Því er mikil uppstokkun og verður fróðlegt að sjá hvernig fer.

Baráttan um annað sætið er mikill Austfjarðaslagur. Þar er fyrir Arnbjörg Sveinsdóttir en Soffía Lárusdóttir og Tryggvi Þór sækjast eftir því sæti. Tel ekki síður spennandi að sjá hver muni ná þriðja sætinu, baráttusætinu okkar í þessum kosningum. Það val mun skipta miklu máli.

Ég hvet alla flokksmenn til að mæta á kjörstað á laugardag og taka þátt - velja forystusveitina í vor og ný þingmannsefni.

Ný framboð ná engu flugi - fjórflokkur sterkur

Nýjasta skoðanakönnunin gefur til kynna að grasrótarframboðin, Borgarahreyfingin og L-listinn, ná engu flugi. Mér finnst mjög merkilegt hversu fjórflokkurinn hefur sterka stöðu eftir allt sem á undan er gengið í íslenskum stjórnmálum á síðustu mánuðum. Ákallið eftir breytingum virðist ekki ná út fyrir fjórflokkana. Spurt verður þó um það hversu miklar breytingar verða innan þessara fjögurra flokka. Ljóst er að ný forysta verður kjörin í Sjálfstæðisflokknum og bendir flest til þess að nýr formaður hans verði um fertugt.

Engar breytingar hafa orðið í prófkjörum Samfylkingarinnar. Þar hafa sitjandi ráðherrar bankahrunsins verið klappaðir upp, sumir með traustri kosningu þrátt fyrir að hafa sofið á vaktinni. VG hefur engu breytt nema að hafna Kolbrúnu Halldórsdóttur og umhverfisöfgum hennar í Reykjavík og velja Svandísi Svavarsdóttur og Lilju Mósesdóttur í örugg þingsæti. Frjálslyndir virðast heillum horfnir. Framsókn hefur endurnýjað sig nær alveg frá síðustu kosningum, ef Siv Friðleifsdóttir er ein undanskilin.

Þetta verða kosningar þar sem horft verður til breytinga og pólitískra þáttaskila. Ég vona það. Slík eiga skilaboðin að vera. Við eigum að velja nýtt fólk til forystu og stokka hressilega upp. Því vekur athygli að fjórflokkurinn dómínerar algjörlega en nýju framboðin ná ekki flugi. Væntanlega hefði lengri kosningabarátta hjálpað þeim eitthvað, en þetta er erfið barátta við tímann fyrir lítið skipulagða maskínu með litla peninga.

mbl.is Samfylkingin stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægur áfangi - slóðin rakin til Cayman

Samkomulag norrænu þjóðanna við Cayman-eyjar um upplýsingaskipti skiptir lykilmáli í því sem framundan er. Mikilvægt er að allar færslur verði raktar og farið í gegnum hvort og þá hversu mikið af óeðlilegum færslum hafi átt sér stað. Þjóðin mun ekki sætta við neitt minna en slóðin verði rakin og allar staðreyndir augljósar og aðgengilegar.

Auk rannsóknarvinnunnar er þetta þýðingarmikið verkefni, enda má ekki nokkur vafi leika á hversu mikið var flutt af peningum á milli og hversu víðtækt það var.

Alltaf heyrast sífellt meira krassandi kjaftasögur og upplýsingar um verklagið. Þetta verður að upplýsa algjörlega. Engar kjaftasögur eingöngu, takk.


mbl.is Samþykkt að veita upplýsingar um skattaskjól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldamorð í Þýskalandi - fyrirmyndin í Columbine

Enn einu sinni er framið fjöldamorð í skóla, að þessu sinni í Þýskalandi og fyrr í vikunni í Alabama í Bandaríkjunum. Málin er eins og flest hin fyrri. Dagfarsprúður nemandi á sér dökka hlið, missir stjórn á sér, hefnir sín á öllum sem hann þolir ekki og slátrar þeim. Í Alabama var fjöldamorðinginn t.d. með skrifaðan lista yfir þá sem hann ætlaði sér að drepa. Sá þýski drap eins flestar stelpur og hann gat, öllum sem hann sá.

Mér finnst þessi mál öll sýna mjög mikið hatur og innbyrgða reiði, sennilega á samfélaginu og öllu í kringum hann. Þetta minnir sérstaklega á fjöldamorðið í Columbine. Öll þekkjum við hin málin: Kauhajoki og Jokela í Finnlandi, Virginia Tech og Dunblane. Að flestu leyti voru þetta skotárásir þar sem vegið var að samfélaginu, óður byssumaður að tala gegn samfélaginu og gildum þess, auk þess að hefna sín á öðrum.

Samt er það svo ólýsanlega sorglegt að námsfólk með framtíðina fyrir sér sé tilbúið til að fórna lífinu og drepa aðra vegna slíks boðskapar. Margir hafa horft til byssueignar. Michael Moore gerði heila heimildarmynd þar sem hann tók fyrir þau mál, Bowling for Columbine, sem var inspíruð af Columbine-fjöldamorðunum sem Harris og Klebold stóðu að. Þetta eru oftast einfarar í skugga félagslífsins og lifðu sínu lífi.

Mjög margt í öllum þessum málum er rakið til áhrifa frá Columbine og Virginia Tech-málunum. Fjöldamorðingarnir Cho Seung-Hui í Virginia Tech og Auvinen í Jokela stúderuðu Harris og Klebold og töluðu báðir um þá sem píslarvætti. Columbine er orðið ógnvekjandi cult-fyrirbæri margra nemenda um víða veröld.

Þessi þýski harmleikur og hinir finnsku áður verða sífellt sterkari myndræn áminning um að klikkaður árásarmaður leynist ekki bara í bandarískum skólum. Hættan er til staðar allsstaðar.

mbl.is Byssumaðurinn: Eruð þið nú öll dáin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farsinn um formannsefnið og stuðningsmanninn

Jóhanna Sigurðardóttir
Fátt hefur orðið hlægilegra í seinni tíma stjórnmálasögu en spuninn um Jóhönnu Sigurðardóttur og formannsstólinn í Samfylkingunni. Þvílík persónudýrkun. Hámarki náði farsinn þegar efnt var til blysgöngu til að þrýsta á hana, enda varla hægt að ætlast til að hún geti tekið svona ákvörðun ein og óstudd. Einn mætti, sá sem efndi til "göngunnar" og svo voru nokkrir fjölmiðlamenn þar á stangli.

Þeir myndu eflaust mættir til að mynda og fanga augnablikið stórfenglega þegar gengið yrði heim til forsætisráðherrans og beðið eftir að hún kæmi út og veifaði í allar áttir sigri hrósandi og myndi svo koma "göngumönnum" algjörlega á "óvart" og tilkynna framboðið. Ekta spuni að hætti Samfylkingarinnar, hlægilegur og pínlega yfirskipulagður.

Aumingjahrollurinn var hinsvegar algjör. Enginn mætti. Ljósið slokknaði og stemmningin steindauð. Ljósmyndablosarnir fáir og myndavélarnar ekki lengi á lofti. Jóhanna gat þess í stað slappað bara af heima og hugleitt málin ein með sjálfri sér.

Þvílíkt mega-klúður. Svona fagmannlega standa menn að verki bara í Samfylkingunni.

mbl.is Enginn mætti í blysförina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband