Málstaður Íslands nýtur æ meiri stuðnings

Málstaður Íslands kemst æ betur til skila í erlendu pressunni eftir að forseti Íslands synjaði Icesave-lögunum staðfestingar. Ekki verður um það deilt að sú ákvörðun gjörbreytti málinu, okkur í vil. Þetta hafa æ fleiri skynjað og blasir við að ekkert verði af þjóðaratkvæðagreiðslu og í staðinn reynt að semja upp á nýtt og það almennilega í staðinn fyrir það sleifarlag sem kom fram í fyrri samningaviðræðum þegar pólitískur lærifaðir fjármálaráðherrans var sendur.

Greinaskrifin í Financial Times syna vel að Ísland er ekki eitt og yfirgefið í þessari deilu. Æ fleiri taka þá afstöðu að ekki eigi að níðast á Íslandi - málið er hugleitt á nýjum forsendum. Við eigum að nota þessi tækifæri og reyna að ljúka málinu með sóma fyrir Íslendinga alla. Allir nema blindir stjórnarþingmenn sem reyna að rífast við sérfræðinga sjá að það er allt annað mál í gangi núna.

Ég held að þeir sem reyndu að nöldra sem mest yfir ákvörðun forsetans hafi líkað skynjað nú að hann hefur gjörbreytt málinu okkur í vil. Góðs viti. Enda er Jóhanna steinhætt að tala með sömu frekju og grenjutón eins og var fyrst eftir synjun forsetans. Ætli ráðgjafar hennar séu komnir úr eldhúsinu?

mbl.is Bretar og Hollendingar hætti einelti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrannar er ekki prívat á facebook

Ein fyndnasta yfirlýsing sem ég hef heyrt langa lengi var þegar Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, skrifaði á fésbók sína að skrif hans þar væru prívat og tengdust ekki skoðunum og hugleiðingum nánasta samstarfsmanns valdamesta stjórnmálamanns þjóðarinnar.

Auðvitað er þetta bara blaður. Hrannar er sami maðurinn þegar hann skrifar á fésbók og þegar hann ráðleggur forsætisráðherra Íslands og stýrir hennar málum á skrifstofunni. Þarna eru engin mörk á milli. Hreinn barnaskapur er að bjóða fólki upp á svona skrif, þau eru svo algjörlega útúr korti.

Ætlar aðstoðarmaðurinn kannski að segja okkur að hann sé prívatpersóna þegar hann skrifar á facebook úr Stjórnarráðinu dags og morgna? Auðvitað ekki.

mbl.is Fésbókarsíðan ekki opinber
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömlu kommarnir drottna í ríkisstjórninni



Seint verður sagt að þessi vinstristjórn sé fersk eða standi sig við að taka á vanda þjóðarinnar. Hún virðist helst vera stöðnuð eða ekki með þetta, eins og við segjum.

Þessi klippa á ÍNN segir allt um þessa vinstristjórn sem er sofandi á vaktinni og virðist helst vinna gegn þjóðarhagsmunum og vanmáttu að takast á við vandann.

Ljósi punkturinn í söngvakeppninni



Seint verður sagt að söngvakeppnin hafi byrjað fersk og skemmtileg um síðustu helgi, lögin frekar léleg, utan fyrsta lagið sem var allavega yfir meðallagi tónsmíð. Kynnarnir slógu einna helst í gegn og voru ljós punktur. Skemmtileg staðreynd að þær eru báðar ófrískar og eiga von á barni í sumar. Óska þeim innilega til hamingju með það.

Ætla samt rétt að vona að það lifni yfir þessari söngvakeppni á næstunni. Þó flestir viti að erfitt verði að slá við silfri Jóhönnu Guðrúnar er vonandi að lögin verði betri en þau sem voru um síðustu helgi. Svo er líka að vona að bakraddasöngvarar sem eiga að vera í aðalhlutverki syngi lögin í stað viðvaninga.

Heyrði áðan lag Hvanndalsbræðra, sem verður um helgina, og fannst það traust og gott. Spái að því muni ganga vel, allavega eitthvað að gerast í því lagi.

mbl.is Ragnhildur Steinunn og Eva María óléttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi prófkjör

Get ekki betur séð en það stefni í líflegt og spennandi prófkjör hjá okkur sjálfstæðismönnum á Akureyri í næsta mánuði. Sigrún Björk er óumdeildur leiðtogi flokksins í væntanlegum kosningum en mestu átökin verða um annað sætið, en hið minnsta fimm frambjóðendur munu berjast um það sæti.

Mikil uppstokkun verður á framboðslistanum, en tveir bæjarfulltrúar kjörnir 2006 fara ekki aftur í framboð og af tíu efstu á framboðslistanum 2006 eru aðeins þrír í prófkjörinu. Þetta prófkjör markast því fyrst og fremst af uppstokkun á forystusveit flokksins.

Líst mjög vel á að fá Björn Ingimarsson, hagfræðing, í bæinn og tel hann sterkasta karlframbjóðandann í þessu prófkjöri, að öðrum ólöstuðum, enda hefur hann mikla reynslu og þekkingu eftir margra ára störf sem sveitarstjóri fyrir austan.

Þarna eru líka öflugar konur á borð við Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur, sem stóð sig vel í prófkjöri fyrir síðustu þingkosningar, Elínu Margréti Hallgrímsdóttur, sem hefur setið í bæjarstjórn síðustu fjögur ár, og Huld Ringsted sem kemur fersk inn.

Óska öllum frambjóðendum velfarnaðar í þeim átökum sem eru framundan. Það er mikið verkefni að vera í prófkjöri og í mörg horn að líta. En fyrst og fremst virðist þetta prófkjör um annað sætið. Örlög annarra ráðast af þeirri niðurstöðu.

mbl.is Þrettán bjóða sig fram á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir hverja er Steingrímur að vinna?

Heldur er nú raunalegt orðið að fylgjast með framgöngu Steingríms J. Sigfússonar. Hann er orðinn sorgleg fígúra, sem talar máli andstæðinga okkar í Icesave-málinu og hefur selt frá sér allar hugsjónir fyrir völd og stólapólitíkin hans minnir ósjálfrátt á Halldór Ásgrímsson. Ég hélt lengi vel að þessi maður hefði eitthvað bit og það væri meira í hann spunnið. Á mettíma er hann hinsvegar hann orðinn jafn valdagráðugur og meðal framsóknarmaður fyrri tíða.

En um Steingrím J, sem hefur svikið allar hugsjónir sínar í valdagræðginni, vonina um að fá að ráða meira á morgun en í dag og helst gefa ekkert eftir, má nota spakmælið: en það sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann. Raunalegt en eilítið kómískt að sjá hvernig þessir vinstrimenn hafa umpólast í valdagræðginni á einni nóttu.

Frammistaða Steingríms J. í Icesave-málinu er einföld og helst til þess fallin að hjálpa þeim sem ráðast að Íslandi. Vörnin hans er fyrir viðsemjendur og þá sem hafa búllíast á Íslandi út í eitt. Raunalegt í meira lagi fyrir fólkið í landinu að sitja uppi með svona stjórnvöld.

Hvað stjórnar þankagangi Steingríms? Má ekki skemma blauta ESB-drauminn fyrir Samfylkingunni eða er hann svo þrjóskur að vilja ekki viðurkenna það sem allir þó vita orðið, að Svavar klúðraði Icesave-málinu í samningaviðræðunum.

Þetta gengur ekki. Heill og hagur íslensku þjóðarinnar vegur meira og skiptir mun meira máli en stolt nokkurra stjórnmálamanna og lærifeðra þeirra sem sömdu herfilega af sér í Icesave-málinu.

mbl.is „Ekki einhliða innanríkismál“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsum um hagsmuni Íslands fyrst og fremst

Enginn deilir lengur um að synjun forsetans á Icesave markaði þáttaskil Íslandi í hag í deilunni. Yfirlýsingar Alain Lipietz, eins þeirra sem komu að gerð tilskipunar ESB um ábyrgð heimaríkis á bönkum, í Silfri Egils í dag er gott dæmi um algjöra niðurlægingu vinstristjórnarinnar sem hefur algjörlega brugðist í því verkefni að gæta hagsmuna Íslands í einu helsta máli síðustu áratuga fyrir íslensku þjóðina.

Stjórnvöld eiga nú að skammast til að viðurkenna afglöp sín og sofandagang. Ekki þýðir fyrir Jóhönnu og Steingrím að deila við mann á borð við Alan Lipietz, slíkt er frekar vandræðalegt. Ef einvher dugur er í þessu fólki getur það snúið vörn í sókn - fyrst og fremst með því að viðurkenna að samninganefndin með Svavar í broddi fylkingar samdi herfilega af sér og var ekki vandanum vaxin á nokkurn hátt.

Svo þarf stjórnarparið að viðurkenna eigin mistök og axla ábyrgð á því, annað hvort með því að víkja eða leita eftir því að skipa aðra samninganefnd til að taka á þessu máli sem fyrst. Pólitísk afglöp vinstristjórnarinnar í Icesave-málinu eru augljós og þarf að taka á þeim strax, til að vernda íslenska hagsmuni og sækja fram til að taka á mistökunum.

Nú þarf að fara að hugsa um íslenska hagsmuni, hugsa um hag fólksins í landinu, en ekki hagsmuni annarra þjóða eins og vinstristjórnin hefur gert alltof lengi með ömurlegum hætti. Það er komið nóg af vitleysunni.

mbl.is Lipietz: Veikur málstaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slöpp byrjun í Eurovision - gamall smellur

Ekki var mikil reisn yfir fyrsta undanúrslitakvöldi Eurovision. Lögin voru frekar mikið léttmeti og umgjörðin frekar teygð og þreytt. Eilítið sjúskað og óspennandi. Lögin tvö sem komust áfram báru þó af, þó engin meistaraverk séu eða tónlistarleg undraverk. Botninn var þó lokalagið þegar sextán ára söngkona söng lag sem hún réð ekki við og var dressuð upp frekar óviðeigandi, svo ekki sé fastar að orði komið.



Ljósi punkturinn var þó þegar Jóhanna Guðrún, silfurstjarnan okkar frá því í fyrra, og Ingó veðurguð tóku saman gamla góða smellinn It Ain´t Me Babe sem Bob Dylan á heiðurinn af, en er flottastur í túlkun hjónanna Johnny og June Carter Cash. Tær snilld þetta lag og algjört meistaraverk. Rifjum þennan flotta smell í túlkun Cash-hjónanna og þeirra Bob og Joan Baez.



Eitt að lokum, vonandi mun Eyjólfur hressast í þessari söngvakeppni eftir viku.

mbl.is Lögin tvö sem komust áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynlífshneyksli hinnar guðhræddu Frú Robinson



Kynlífshneyksli guðhræddu forsætisráðherrafrúarinnar á Norður-Írlandi skekur pólitíkina þar og flokkinn hennar. Gárungarnir voru hinsvegar fljótir að finna tengingu á milli forsætisráðherrafrúarinnar og tálkvendisins Frú Robinson í tjáningu Anne Bancroft í eðalmyndinni The Graduate árið 1967.

Sumir bloggarar á Írlandi hafa reyndar bent á þetta fræga kvikmyndaatriði og spurt hvort þetta sé hin guðhrædda norðurírska frú Robinson. Skondið hvernig hinir guðhræddu eru oft mannlegir þrátt fyrir helgislepjuna.

mbl.is 19 ára ástmaður 58 ára þingkonu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hattersley snuprar Íslendinga venju samkvæmt

Ekki kemur að óvörum að Roy Hattersley, lávarður og fyrrum varaleiðtogi breska Verkamannaflokksins, snupri íslensku þjóðina í greinaskrifum vegna Icesave. Hattersley vann ötullega gegn Íslendingum í þorskastríðunum fyrir nokkrum áratugum og var einn helsti lykilmaðurinn í því ferli að ganga harkalega að Íslendingum í harðri og ófyrirleitinni rimmu. Hann er samt illa marinn eftir þá rimmu og hefur ekki gleymt þrjósku Íslendinga sem betur fer.

Hafi einhver Íslendingur ekki munað eftir þorskastríðunum eða kannski gleymt þeim rifjast þau upp í þessari nýju millilandarimmu við Bretland í Icesave-málinu. Nú er ekki barist um veiðar á þorski heldur yfirráð yfir peningum. Sumir kalla þetta þorskhausastríð, til að finna einhvern fyndinn punkt á þessu, en ég tel að þetta sé spurning um hvort Íslendingar láta valta yfir sig. Komið hefur í ljós eftir synjun forseta að eftir því sem staðreyndir málsins eru kynntar betur styrkist staða okkar.

Ég hef heyrt margar sögur um þorskastríðin. Ef við hefðum lympast niður og gefið eftir hefðum við ekki náð yfirráðum yfir fiskimiðum okkar og tryggt stöðu okkar. Við börðumst, tókum slaginn við stórt ríki sem ætlaði að níðast á okkur og taka okkur á hörkunni. Þar var ekki hugsað að neinu leyti um okkar lífsafkomu. En við börðumst áfram og unnum sigur á hörkunni. Gáfum ekki þumlung eftir og við áttum öfluga menn til að leiða okkur til sigurs.

Nú er staðan þannig að forystumenn íslensku vinstristjórnarinnar hljóma jafn breskir og ófyrirleitnir og þessi breski Hattersley gerði forðum daga og gerir enn. Engu er líkara en þetta fólk sé á mála hjá Bretum - enda hafa þau haldið illa á málum, ekki talað hagsmunum Íslands nægilega vel.

mbl.is Hinir þrjósku Íslendingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breska pressan farin að átta sig á staðreyndum



Mér finnst það mikið áfall fyrir vinstristjórnina að Financial Times og Independent taki málstað Íslendinga eftir hræðsluáróður hennar eftir að forsetinn synjaði Icesave-lögum staðfestingar. Engin innistaða var fyrir því glamri sem Jóhanna og Steingrímur stóðu fyrir á blaðamannafundi á þriðjudag, afleikur þeirra verður lengi í minnum hafður.

Það kristallast vel í leiðaraskrifum í bresku pressunni í dag að æ fleiri hafa áttað sig á staðreyndum málsins og skilja afstöðu Íslendinga æ betur í þessari þröngu stöðu. Forseti Íslands vann málstað Íslendinga fylgis með góðri frammistöðu sinni í gærkvöldi og bætti mjög fyrir afleita frammistöðu íslensku ríkisstjórnarinnar.

Hræðsluáróður þeirra talaði Íslendinga aðeins niður. Þar var ekki hugsað um íslenska hagsmuni. En hvað varð um dómsdagsspár vinstristjórnarinnar á þriðjudag. Ekki sjást þær altént í bresku pressunni í dag. Sumir verða að fara að hugsa sinn gang tel ég!

mbl.is Ekki setja Ísland í skuldafangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forseti ver ákvörðun og talar við heimspressuna

ÓRG
Ólafur Ragnar Grímsson varðist fimlega í viðtalsþætti Jeremy Paxman, eins beittasta spyrils bresku pressunnar, í kvöld og talaði einbeitt og traust máli Íslands í heimspressunni. Eitthvað annað en forsætisráðherrann ósýnilegi hefur gert. Eina sem heimspressan hefur séð af þeirri konu frá synjun forsetans er myndin af fúlli og þreytulegri konu lesandi með gremjutón af blaði einhvern samsetning sem meikaði engan sens fyrir Íslendinga og því síður fyrir aðra.

Stjórnin beilaði á fyrstu viðbrögðum og fór í einhverja fýlu. Voru engin viðbrögð tilbúin? Töldu þau að forsetinn hugsaði bara um vinstrið? Mér finnst út í hött að farið sé að blaðra um þessa ákvörðun sem rimmu forseta við ríkisstjórn og sá sem tapi sé úr leik. Auðvitað á að vinna hlutina með hag Íslands að leiðarljósi, íslensk stjórnvöld verða að fara að gæta íslenskra hagsmuna og tala af festu og ábyrgð í stað þess að væla yfir forsetanum sem þau töldu sig eiga.

Við þurfum að tala við heimspressuna af ábyrgð og festu. Það gerði Ólafur Ragnar í kvöld á meðan vinstristjórn er í einhverju egósjokki og búa til fæting við forseta sem færir valdið í mikilvægu máli til fólksins í landinu. Þeim er ekki viðbjargandi sem halda að þetta sé egóbarátta Jóhönnu vs. Ólafs. Við þurfum að vinna okkur út úr krísu og tala við heimsbyggðina af festu. Þessi stjórn og hin fyrri hafa báðar flaskað á þessu verkefni og helst unnið hag annarra.

Það er aumt. En ég held að þessi forseti ætli að gera það og hann lét ekki kjafta sig í kútinn. Svo megum við ekki gleyma því að forsætisráðherrann gerði meiri skaða en gagn með orðavali sínu þegar hún talaði ofan í borðið með gremju og vælutón eins og sorgmædd kona í losti. Við þurfum leiðtoga til að tala þjóðina upp en ekki niður.

mbl.is Ólafur í kröppum dansi á BBC
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vælutónn í stjórnarliðum vegna forsetans

Ansi skondið hefur verið að fylgjast með viðbrögðum stjórnarþingmanna og fræðimanna af vinstrivængnum eftir ákvörðun Ólafs Ragnars. Nú tala þeir sem vörðu að sami forseti virkjaði 26. greinina gegn beitingu hennar og telja hana freklegt inngrip í þingræðið og pólitíska forystu landsins. Það er af sem áður var.

Ég man vel hvernig sömu menn fögnuðu og tóku gleðiköst fyrir sex árum. Nú eru viðbrögðin önnur, enda erfitt fyrir sömu aðila að sætta sig við að forsetinn, sem þau töldu sig eiga algjörlega hvert bein í, vinni gegn þeim og grafi undan vinstristjórninni. Viðbrögðin eru fálmkennd og sumir farnir af límingunum. Frekar fyndið.

En þetta er stjórnarskrárbundinn réttur forsetans. Þeir sem fögnuðu að hann væri virkjaður eru ekki trúverðugir við að tala gegn honum núna. Sérstaklega er snúningur Samfylkingarinnar einkar athyglisverður og nægir að líta til Össurar sem lét stór orð falla um lýðræðisvæðingu þegar forsetinn synjaði fjölmiðlalögunum.

En þetta er veruleikinn. Stjórnin á að hætta þessu væli, búa sig undir þjóðaratkvæðagreiðslu, verja þennan samning ef hann er þeim svona kær. Þjóðin hefur valdið. Þeir sem væla yfir því að 26. greinin sé virkjuð og studdu sama forsetann í því verki árið 2004 eiga að standa í lappirnar og vera menn til að standa sig.

Og hætta þessu fjárans væli!

mbl.is Steingrímur til Bretlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðskuldaður heiður Ólafs - forljótur bikar

Ólafur Stefánsson er vel að því kominn að vera valinn íþróttamaður ársins, enda sannur afreksmaður og fyrirmynd í íþróttastarfi. Bikarinn sem er afhentur íþróttamanni ársins er hinsvegar alveg forljótur. Finn eiginlega til með handhafa bikarsins að þurfa að taka þetta ferlíki með sér heim - speisað eintak vægast sagt.

Nýji bikarinn er svo skelfilegur að maður á varla nógu góð orð til að lýsa honum. Hann er samansettur úr efnum sem engan veginn eiga samleið og heildarmyndin verður stór og klunnalegur bikar sem virðist því miður ekki vera líklegur til að haldast önnur 50 ár milli þeirra sem fá titilinn.

Í samanburði við hinn gamla góða bikar er þetta eiginlega ótrúlegt kúltúrsjokk, svo maður finni eitthvað almennilegt orð. Semsagt, orð dagsins til samtaka íþróttafréttamanna er: skiptið um bikar og með det samme sko.


mbl.is Ólafur Stefánsson íþróttamaður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar synjar Icesave-lögunum

Ólafur Ragnar Grímsson gerir rétt í því að hlusta á þjóðina með því að synja Icesave-lögunum staðfestingar og senda málið í dóm hennar. Nú verður valdið hennar, ef vinstristjórnin leggur í þann slag að verja þennan samning - leggja pólitískt kapítal sitt undir í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ella segja af sér, fara frá áður en þjóðin fær að greiða atkvæði.

Forsetinn er kjarkaður í þessari ákvörðun sinni, en er þó umfram allt samkvæmur sjálfum sér í afstöðu sinni í fjölmiðlamálinu árið 2004. Hann synjar nú lögum frá vinstristjórn og kveður í kútinn að hann hafi aðeins verið að hygla vinum og vandamönnum fyrir sex árum. Þetta er vissulega merkileg niðurstaða og breytir stöðu hans í huga þjóðarinnar.

Svo verður að ráðast hvort forsetinn styrkir stöðu sína með þessari ákvörðun, en ég tel að svo verði. Hann hlustar á þjóðina og færir henni valdið. Þetta er beint lýðræði í sinni bestu mynd. Hann talaði margoft um þetta á nýársdag og var augljóslega full alvara með að þjóðin taki af skarið. Það er virðingarverð afstaða.

mbl.is Staðfestir ekki Icesave-lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karl Th. spáir því að forsetinn synji lögunum

Allir bíða þess að forsetinn taki af skarið með Icesave um hádegisbilið. Sá áðan að Karl Th. Birgisson, fyrrum framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, spáir því að forsetinn synji lögunum staðfestingar. Í merkilegri grein á Herðubreið hvetur hann til þess að vinstristjórnin andi með nefinu synji forsetinn lögunum og virkji þjóðaratkvæðagreiðsluformið í stað þess að segja af sér.

Þetta er sumpart spuni hvað Samfylkingin muni segja og gera fari allt á versta veg fyrir þá, enda málið verið þeirra lykilatriði eftir að þeir komu ESB í gegnum þingið í sumar. Svo verður að ráðast hvort stjórnin standi af sér synjun eða hvort eitthvað pólitískt kapítal sé eftir í átök - baráttan um Icesave verður ekki auðveld fyrir veikburða ríkisstjórn.

Ætla að láta það alveg vera að spá fyrir um, þó mér finnist sennilegra að hann synji eftir þessa löngu bið. En Ólafur Ragnar er óútreiknanlegur - það vitum við öll eftir áratuga plott hans í íslenskum þjóðmálum.

Sumir tala um að hann segi kannski af sér. Finnst það hæpið að hann taki ekki afstöðu til laganna. Finnst það ekki alveg í hans takti. Hann ætlar að nota þetta til að vekja á sér athygli og reyna að snúa vörn í sókn.

Svo verður að ráðast hvort hann hugsar um þjóðina eða stjórnmálamenn. Erfitt að spá. Held að hann hugsi fyrst og fremst um sjálfan sig. Hvar hann telur sjálfan sig passa í þá valkosti skal ósagt látið.

Forseti sem stendur frammi fyrir þessu vali getur verið hetja í dag, skúrkur í kvöld og sambland af báðu þegar frá líður. Góður kostur í dag getur verið afleitur þegar á reynir.

mbl.is Ekki lengur spurning um hvenær heldur hvort
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatík á Bessastöðum

órg
Ólafur Ragnar Grímsson heldur þjóðinni í spennu og augljóst að dramatíkin verður algjör á Bessastöðum í fyrramálið sama hvað hann gerir. Karlinn kann þetta eftir margra áratuga plott og pælingar í íslenskum stjórnmálum, en biðin hefur verið ansi löng að þessu sinni og aðdragandi tilkynningar minnir um margt á biðina eftir ákvörðun hans um fjölmiðlalögin.

Forsetinn verður úthrópaður sama hvort hann staðfestir eða synjar Icesave-lögunum. Forsetaembættið verður þó umfram úthrópað fari hann gegn þjóðinni sem hefur skorað á hann að synja þessum lögum staðfestingar. Held að Ólafur Ragnar eigi erfitt með að fara gegn eigin orðum frá árinu 2004 - hann verður algjört lame duck á forsetastóli geri hann það.

Ólafur Ragnar hefur margoft sýnt að hann er um margt óútreiknanlegur. Hann hefur ekki verið í öfundsverðri stöðu að undanförnu eftir að útrásardekrið sprakk framan í hann. Nú reynir á hvort hann þorir að fara gegn valdinu sem hann talaði svo afgerandi gegn á nýársdag og bauð byrginn árið 2004.

Þetta er sumpart spurning um hvort forsetinn þorir að fara eigin leiðir, fylgja þjóðinni eða stjórnmálamönnum.

mbl.is Blaðamannafundur í fyrramálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnað skaup - svínslega beittur húmor



Ég var mjög ánægður með áramótaskaupið að þessu sinni. Finnst þetta besta skaupið frá upphafi, einu skaupin sem komast nærri því eru þau sem Óskar Jónasson gerði 2001 og 2002. Þetta var svínslega flottur húmor, beittur og líflegur. Vinstrimenn við völd og forsetinn á Bessastöðum fengu aldeilis að finna fyrir því á vinstraárinu 2009, eins og við mátti búast, þegar fyrsta hreina vinstristjórnin komst til valda og tókst að breyta nákvæmlega engu og svíkja nær öll gefin loforð.

Forsetaembættið sem löngum var táknmynd virðugleika og sameiningartákns í hugum landsmanna fékk vænan skell, hinn mesta í lýðveldissögunni af hálfu grínista. Útrásarvitleysan og partýstand útrásarvíkinganna var staðsett á forsetasetrinu. Þar var allt í rúst og búið að smána embættið og forsetasetrið með dekri við auðmennina. Þetta var táknræn gagnrýni, en hitti vel í mark, enda vita allir að forsetaembættið hefur verið lagt í rúst á undanförnum árum.



Lokaatriði Skaupsins var mjög vel heppnað, flott endalok á beittasta skaupi seinni tíma. Það segir allt sem segja þarf. Meira af svona flottum húmor, takk fyrir!

Ásmundur, Lilja og Ögmundur skora á forsetann

Mér skilst að Ásmundur Einar Daðason, Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson hafi skrifað sig á undirskriftasöfnun Indefence og skorað á forseta Íslands að senda Icesave-lögin í þjóðaratkvæðagreiðslu. Lilja og Ögmundur greiddu atkvæði gegn frumvarpinu á meðan Ásmundur greiddi atkvæði gegn því en studdi kosningu um þjóðaratkvæðagreiðslu í þinginu. Ekki þurfti að leita lengi að þingmönnunum sem skora á forsetann, enda er þá ekki að finna í Samfylkingunni.

Eftir því sem Ólafur Ragnar Grímsson tekur sér lengri frest því meir minnka líkurnar á því að hann skrifi undir. Allt tal stjórnarparsins Jóhönnu og Steingríms um að forseti hafi oft áður tekið sér frest til að taka afstöðu til lagafrumvarpa sem fyrir hann hafa verið lögð er algjört rugl. Man ekki betur en það hafi aðeins gerst einu sinni í seinni tíð: þegar Vigdís Finnbogadóttir fékk lög frá þinginu til að stöðva flugfreyjuverkfallið 1985. Þá beið hún dagpart og ætlaði allt að fara af límingunum.

Mér fannst Jóhanna og Steingrímur óvenju þolinmóð á gamlársdag þegar forsetinn tók ekki afstöðu til laganna á ríkisráðsfundi með alla ráðherrana í kringum sig. Það var merkileg stund og á sér engin fordæmi í tíð forsetaembættisins. Enda ætluðust ráðherrarnir til að forsetinn skrifaði strax undir. Ekki hefði verið haft fyrir þessum flýti á lagasetningunni og að prenta út öll skjöl fyrir fundinn nema til að tryggja að hann myndi skrifa undir með hraði. En það gerði hann ekki.

Ergja og óánægja vinstrimanna er að verða nokkur þrátt fyrir rólegheit stjórnarparsins á gamlársdag. Björn Valur Gíslason er sendur út af örkinni til að senda skilaboðin frá Steingrími J. og flokkselítunni í vinstri grænum á meðan stjórnmálafræðiprófessor Samfylkingarinnar segir að forsetinn verði vinalaus skrifi hann ekki undir. Pólitíska pressan er skiljanleg, enda er þessi ríkisstjórn fokin út í veður og vind skrifi Ólafur Ragnar ekki undir.

Öllu púðri og pólitísku kapítali vinstristjórnarinnar hefur verið varið í þetta eina mál og það virðist eina málið sem hennar verður minnst fyrir.

mbl.is 4 stjórnarþingmenn skrifuðu undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun forsetinn færa þjóðinni beinna lýðræði?

Athöfn á Bessastöðun (mynd: Ómar Ragnarsson)
Athöfn Indefence-samtakanna á Bessastöðum í morgun var mjög vel heppnuð og vel skipulögð. Þetta var virðuleg athöfn sem hæfði tilefninu, þegar forseta Íslands voru afhentar undirskriftir fjórðungs kosningabærra Íslendinga - áskorun um beint lýðræði.

Söguleg stund vissulega, enda fékk forseti helmingi fleiri undirskriftir en í fjölmiðlamálinu. Ekki þarf að efast um vilja þjóðarinnar í þessum efnum, áskorunin ber þess merki að þjóðin vill beinna lýðræði í verki, ekki bara í orði.

Ólafur Ragnar Grímsson er eflaust hugsi, enda hefur hann sjálfur sett viðmiðin sem kallað er eftir. Hann breytti forsetaembættinu með því að virkja 26. greinina árið 2004 og hefur breytt sögulegu hlutverki embættisins.

Hann hefur sjálfur gert það kleift að horft er til forsetans á Bessastöðum sem mannsins sem getur veitt þjóðinni réttinn til að kjósa um eitt stærsta mál síðustu áratuga. Vinstrimönnum svíður það greinilega mjög nú.

En þetta er stærra mál en egó nokkurra stjórnmálamanna. Þarna talar þjóðin, ekki verður með góðu hundsaður vilji fjórðungs Íslendinga á kosningaaldri. Forseti sem hlustar ekki á þjóðina er rúinn trausti hennar.


mbl.is Afhenda forseta undirskriftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband