Færsluflokkur: Dægurmál

Prinsessa fæðist í Danmörku

Friðrik, Kristján og Mary Það er augljós þjóðargleði í Danmörku vegna fæðingar prinsessunnar, dóttur Friðriks, krónprins, og Mary, krónprinsessu. Það er svosem varla furða, enda er þetta fyrsta prinsessan sem fæðist í Danmörku í 61 ár, en Anna María Grikkjadrottning, yngsta systir Margrétar II Danadrottningar og eiginkona Konstantíns Grikkjakonungs, fæddist árið 1946.

Það er þegar farið að tala um það í Danmörku að prinsessan muni hljóta nafnið Margrét, í höfuðið á ömmu sinni drottningunni. Ekki kæmi það að óvörum. Það er reyndar alltaf viss sjarmi frá dönsku konungsfjölskyldunni í huga Íslendinga. Það eru ekki nema 63 ár síðan að danski þjóðhöfðinginn var um leið sá íslenski og því hafa tengsl Danmerkur og Íslands því auðvitað alltaf verið mjög mikil. Kristján X, afi Margrétar, var síðasti danski kóngurinn yfir Íslandi eins og flestir vita.

Það er nokkur glans yfir Friðrik krónprins og fjölskyldu hans og virðist stefna í góða tíma fyrir dönsku krúnuna þegar að hann erfir ríkið af móður sinni. Fyrir áratug hefði fáum órað fyrir því að hann yrði ráðsettur og öflugur fjölskyldufaðir, enda gengu frægar sögur af líferni hans og stöðugleiki var ekki beinlínis á honum. En það hefur allt breyst mjög eftir að hann tók saman við Mary Donaldson og það er mikill virðugleikablær yfir þessum hluta fjölskyldunnar.

Það stefnir í farsæla framtíð krúnunnar og konungsfjölskyldunnar, sem eitt sinn var jú æðsta valdafjölskylda Íslands.

mbl.is Nýfædd prinssessa fyrir augu almennings í fyrsta sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Par auglýsir eftir staðgöngumóður í Mogganum

Það vakti mikla athygli mína og eflaust fleiri annarra að sjá auglýsingu í sunnudagsblaði Moggans þar sem par óskar eftir konu sem gæti hugsað sér að ganga með barn fyrir það. Kemur sérstaklega  fram að notaður yrði fósturvísir frá parinu. Eins og flestir vita er ekki löglegt að gera slíkt hérlendis, því yrði slíkt gert erlendis. Það er mjög merkilegt að sjá slíka auglýsingu, en það leikur varla vafi á því að þetta sé í fyrsta skipti sem svona nokkuð gerist hérna heima. Ef það eru önnur tilfelli endilega bendið þá á það.

Fjallað var um þetta í kvöldfréttum Stöðvar 2 og rætt við lækni sem sagðist ekki telja rétt að taka fyrir þann möguleika að fólk geti eignast barn með þessum hætti og bendir á það sem við blasir að fyrir sum pör sé þetta eini möguleiki þeirra til að eignast börn. Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki hvaða lög gilda í þessum efnum utan Íslands, en hér heima er eflaust móðir barns skráð móðir hans með afgerandi hætti. Eflaust er þetta opnara erlendis. Þetta allavega opnar spurningar og pælingar sem hafa lítið verið í deiglunni hérna heima.

Það er altént svo að ekkert sem bannar fólki að fara út til að fara í gegnum svona ferli. Á Stöð 2 var rætt við nokkrar konur og þær spurðar um hvort þær væru tilbúnar til að ala barn annars fólks og voru þær ekki beint jákvæðar fyrir því. Það verður fróðlegt að heyra umræðuna um þetta. Það er þó hægt að fullyrða að þessi Moggaauglýsing opnar pælingar í þessum efnum og fróðlegt að heyra ýmsar skoðanir.

Þar sem ljóst er að slíkt er ekki löglegt hér heima er það úr sögunni, en mér finnst ekki rétt að loka á slíkt erlendis þar sem slíkt er löglegt. Að því leyti tek ég undir skoðanir læknisins sem rætt var við á Stöð 2.

Reykjavíkurborg kaupir brunarústirnar

Stórbruni í miðbæ Reykjavíkur Ein helsta frétt dagsins er að Reykjavíkurborg stefnir að því að kaupa húsin sem brunnu í miðbæ Reykjavíkur á síðasta vetrardag. Það kom greinilega í ljós með afgerandi hætti strax á þeirri stundu er húsin stóðu í ljósum logum að borgin vildi fylgja málum þar eftir. Þá kom enda borgarstjóri strax með þá pólitísku yfirlýsingu að götumyndin á svæðinu ætti að halda sér eftir uppbyggingu sama hvernig færi.

Það er skiljanlegt að Reykjavíkurborg vilji fylgja þessu máli eftir, enda er um að ræða elstu heillegu götumynd borgarinnar og svæði sem skiptir án nokkurs vafa talsverðu máli. Þetta er viðkvæmt svæði sem þarf að hafa umsjón með að fari ekki á einhverjar villuslóðir. Samt sem áður er það eflaust mjög umdeilt að borgin sé að kaupa þetta svæði upp og vinna málið með þeim hætti. Ég verð nú að segja það alveg eins og er að það er stórt spurningamerki í huga mér yfir því hvort það sé rétta leiðin. En ég er svosem ekki kjósandi í Reykjavík og sé þetta frá annarri hlið.

Í dag var Hrafn Gunnlaugsson, leikstjóri, gestur í hádegisviðtalinu á Stöð 2. Hrafn hefur ekki farið troðnar slóðir við að tjá skoðanir og hefur sérstaklega verið ófeiminn við að tjá sig um skipulagsmál í Reykjavík. Sumir eru ekki ánægðir með skoðanir hans, aðrir fagna þeim. Ég er einn þeirra sem sá báða þætti hans þar sem hann teiknar upp lifandi myndir af skipulagsbreytingum og leikur sér með lifandi form þeirra. Það voru áhugaverðar myndir og margar aðrar hugmyndir lifnuðu við í kjölfar þeirra. Til dæmis var þar komið með flugvallarkost á Lönguskerjum og talað um að byggja hátt og byggja meira við ströndina.

Hrafn gaf lítið fyrir þessar pælingar um að vernda götumyndina og sagði sem rétt er að menn byggja ekki fornminjar frá grunni aftur. Þegar þær eru farnar eru þær svo sannarlega farnar veg allrar veraldar. Hann kallaði þessa pólitík meirihlutans vinsældapólitík á örlagastundu. Það er kannski eitthvað til í því. Þetta var allavega viðtal sem var áhugavert að sjá. Hrafn hefur þann stóra kost að tala máli sem er auðvelt að skilja og setja fljótt í samhengi. Hann vill greinilega nota tækifærið og byggja með öðrum hætti á þessu brunarústasvæði og gaf lítið fyrir forna götumynd.

Ég veit ekki hvað er rétt í þessu. Persónulega finnst mér þó rétt að gera engar drastískar breytingar á þessari götumynd. En ég efast um að ég myndi vera talsmaður þess að Akureyrarbær keypti upp brunasvæði dýrum dómum þó á viðkvæmu svæði væri svo að ég hugsi málið frá mínum sjónarhóli í eigin sveitarfélagi. Þetta er eflaust umdeilt og sitt sýnist hverjum.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig byggt verður á þessu svæði og hvaða starfsemi verður þar. Varla ætlar borgin að eiga þau hús sem þar rísa.

mbl.is Reykjavíkurborg vill kaupa hús sem urðu eldi að bráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nöturlegur harmleikur í skugga eineltis

Cho Seung-hui Það hefur verið lærdómsríkt að fylgjast með fréttum frá Bandaríkjunum síðustu dagana í skugga harmleiksins í Virginia Tech. Ekkert hefur verið ofar á baugi, enda er þetta skelfilegasta skotárás í sögu landsins. Vettvangur hennar var friðsælt skólahverfi. Það vekur margar spurningar og skiljanlegt að reynt sé að fá svör við stórum spurningum.

Það er greinilegt að skotmaðurinn, nemandinn í Virginia Tech, var tifandi tímasprengja og með algjörum ólíkindum að ekki hafi verið búið að bregðast við honum. Öll saga hans er hrópandi áminning um að eitthvað átti að gera. Það er sannkallaður áfellisdómur yfir fjölda hlutum í bandarísku kerfi og það verður að leita svara við því hví ekkert var gert. Einnig er ljóst að hann sætti miklu einelti í skólanum, hann var greinilega að höggva gegn því.

Heiftin sem sést í skotmanninum í myndbandinu sem farið hefur um allan heim, verið þar sýnt í fréttatímum og verið í umræðunni er ógnvænlega mikil. Þetta var niðurbæld ólga gegn öllu í kringum hann. Það er fyrir það fyrsta með ólíkindum að tveir tímar liðu milli skotárásanna tveggja. Það er ófyrirgefanlega langur tími og með ólíkindum að ekkert hafi verið að gert. Það er því margt sem finna má að og það eru mörg spurningamerki til staðar í þessu máli, sem verður að svara. Það er löngu vitað að einelti getur kveikt elda ólgu í huga þeirra sem verða fyrir og það getur brotist út með krafti.

Allir sem hafa kynnt sér skotárásina í Columbine í apríl 1999 hafa séð að það var þáttur sem skipti þar máli. Skotmennirnir þar voru einfarar í skólanum, menn sem voru í skugga félagslífsins og lifðu sínu lífi, voru í eigin heimi. Það sama virðist hafa verið tilfellið í þessu máli. Að því leyti er fjöldamorðinginn í Virginia Tech skólabókardómi um einstaklinga sem fremja slíkt voðaverk. Hann fellur í sama ramma og Eric Harris og Dylan Klebold í Columbine. Ég hef lesið bækur og séð heimildarmyndir um Columbine-málið. Það er ótrúlega margt líkt með þessu tvennu.

Það virðist líka vera að Cho Seung-Hui hafi stúderað Harris og Klebold og hann talar um þá sem píslarvætti í myndbandinu. Það er því greinilegt hver fyrirmyndin sé. Þeir Harris og Klebold hafa reyndar öðlast sess í huga margra Bandaríkjamanna og er enginn vafi að Columbine er í senn bæði cult-fyrirbæri margra og fjöldi ungra Bandaríkjamanna líta á Harris og Klebold sem uppreisnarmenn sem hafi gert það eina sem þeir gátu gert. Skelfilegur hugsunarháttur það.

Það má spyrja sig að því hvort að einelti hafi verið einn aðalþáttur þess hvernig fór í Virginia Tech eða hliðarþáttur. Því fæst eflaust aldrei svarað með vissu, þó margt bendi til þess að það hafi ráðið miklu. Það er skiljanlegt að fjölskylda þessa námsmanns sé í rusli. Þetta er erfitt tilfelli fyrir fjölskyldu og eftir standa mun fleiri spurningar en nokkru sinni svör.

mbl.is Fjölskylda fjöldamorðingjans: Þetta myrkur er yfirþyrmandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einlæg iðrun og skapgerðarbrestir

Kim Basinger og Alec Baldwin Leikarinn Alec Baldwin hefur alla tíð verið þekktur fyrir það að vera skapmikill og önugur ef eitthvað gengur honum á móti. Þessar fréttir um símskilaboðin sem hann sendi til dóttur sinnar hefur verið honum til skammar og hann hefur nú beðist afsökunar. Það hefur reyndar verið mikill hiti í einkalífi Baldwins um áralangt skeið og átök hans fyrir forræði dótturinnar verið mikið í fréttum.

Einu sinni voru Alec Baldwin og Kim Basinger mjög ástfangið par í Hollywood og áberandi í slúðurumræðunni. Þau voru mjög í sviðsljósinu. Þau léku saman t.d. fyrir þrettán árum í endurgerð kvikmyndarinnar The Getaway, þar sem leikarahjónin Steve McQueen og Ali MacGraw fóru á kostum árið 1972, sem var ein besta mynd ferils þeirra. Endurgerðin þótti vera nokkuð floppuð og myndin féll mjög í skugga forverans sem hefur öðlast sögulegan sess í kvikmyndasögunni.

Þegar að Kim Basinger fékk óskarinn, mörgum að óvörum, í mars 1998 fyrir túlkun sína í L.A. Confidential var Alec við hlið hennar og gladdist mjög. Frægar voru myndirnar af þeim þetta kvöld í kvikmyndaborginni þar sem hann var ekki síður í sviðsljósinu en verðlaunaleikkonan. Sigur Basinger var reyndar umdeildur, enda töldu margir að Gloria Stuart hefði frekar átt verðlaunin skilið fyrir túlkun sína í Titanic. Basinger var hiklaust stjarna myndarinnar, en L.A. Confidential er hiklaust ein af eftirminnilegustu kvikmyndum tíunda áratugarins, rómuð svört undirheimamynd, hin besta frá Chinatown árið 1974.

Það er æði langt síðan að glamúrinn rann af Basinger og Baldwin. Bitbein þeirra allt frá harkalegum skilnaði hefur verið dóttirin Ireland, mjög athyglisvert nafn vissulega, og hagur hennar. Þessi símskilaboð láku til fjölmiðla og sýnir vel heiftina í Baldwin og skapgerðarköst hans. Ekki bæta þau fyrir honum í baráttunni fyrir forræði t.d. Iðrun hans í yfirlýsingu til fjölmiðla er jafnvel sönn en þetta mál hefur skaðað mjög fyrir honum. Spurning hvort að það fylgi honum lengi, en það er þó alveg víst að hann hefur litla stjórn á sér í þessum málarekstri.

En það er vissulega skondið að fylgjast með lífi stjarnanna og jafnvel vandræðalegustu mál geta orðið forsíðuuppsláttur.

mbl.is Baldwin biðst afsökunar á skömmunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatískur föstudagur í Houston

Umsátrið við NASA Það var dramatískt að fylgjast með fréttamyndunum frá umsátrinu við NASA í Houston í kvöld. Umsátri lögreglu þar lauk með því að vopnaður maður framdi sjálfsmorð og skaut til bana annan gísl sinn. Þessi atburður varð á þeim degi er átta ár voru liðin frá fjöldamorðinu í Columbine-skólanum í Denver. Kuldaleg áminning um þann skelfilega dag, sem skók Bandaríkin.

Bandaríska þjóðin er enn að jafna sig á fjöldamorðunum í Virginia Tech á mánudag. Það er þjóðarsorg í Bandaríkjunum. Það er ekki fjallað um annað vestanhafs en þennan blóðuga mánudag og bakgrunn alls sem fylgdi þessu skelfilega fjöldamorði. Þetta var svartur endir á vondri viku í bandarísku samfélagi. Það var ekki löng stund liðin frá því að fregnast hafði af því sem var að gerast í Houston er fréttastöðvarnar voru komnar með útsendingu þaðan og var sjónarhornið á húsið úr flugvél það fyrsta sem blasti við er ég skipti yfir á erlenda fréttastöð.

Það er ekki hægt að komast hjá því að þessir sorglegu atburðir leiði til spurninga um hvert bandarískt samfélag er að stefna. Þetta er napur vitnisburður slæmra tíðinda. Það mun taka langan tíma fyrir bandarískt samfélag að jafna sig á mánudeginum blóðuga í Virginia Tech. Minningin um þriðjudaginn 20. apríl 1999 vaknaði mjög skarpt þann dag og það var kuldalegt að heyra fyrst fréttir um það sem var að gerast í Houston á sama degi, 20. apríl.

Það er erfitt um að spá hvaða eftirmálar þessar tvær skotárásir hafa, þær eru reyndar ólíkar en samt ansi skelfilegar. Eflaust hefst einhver umræða um hvort breyta eigi hinum umdeildu bandarísku byssulögum. Fyrst og fremst vekur þetta spurningar um veikar hliðar bandarísks samfélags. Það er með ólíkindum að heyra meira af fjöldamorðingjanum í Virginia Tech, sem var klassískt tilfelli fjöldamorðingja og ótrúlegt að ekki hafði verið brugðist við honum.

Það er reyndar erfitt að taka á svona tilfellum. Þetta eru tifandi tímasprengjur. Sérstaklega verður fróðlegt að heyra meira um bakgrunn þess sem stóð fyrir umsátrinu í Houston. Það þarf varla að deila um hvert verði aðalfréttaefni bandarískra fjölmiðla næstu dagana eftir þessa blóðugu viku í rólegu bandarísku samfélagi, þar sem engin aðkallandi ógn eða vígvöllur blasir við.

mbl.is Vopnaður maður í NASA drap gísl sinn og síðan sjálfan sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyndardómar hafsins

Dead Calm Það er ekki hægt að segja annað en að þessi frétt um áströlsku draugaskútuna sé ansi draugaleg. Það er auðvitað mjög nöturlegt að heil skúta, þar sem matur er á borðum og öll merki þess að fjöldi fólks sé um borð, sé mannlaus. Þetta virðist vera mikið spurningamerki og óljóst hvað hefur orðið um fólkið. Það blasir við að eitthvað skuggalegt hafi gerst þarna, þetta er allavega eitthvað sem tekið er eftir.

Það eru að verða tveir áratugir síðan að kvikmyndin Dead Calm var gerð. Hún er ein sterkasta kvikmyndin frá Eyjaálfu í seinni tíma kvikmyndasögu, ef Piano, er undanskilin. Hún var byggð á frægri sögu Charles Williams, sem segir frá hjónum sem verða vör við mannlausa skútu á leið sinni. Ævintýri þeirra verða mikil og að því kemur að þau verða að berjast fyrir lífi sínu í grimmri baráttu. Það voru aðeins þrír leikarar að heita má í myndinni og hún var í senn bæði spennandi og dulúðug, flott blanda.

Þetta var myndin sem gerði óskarsverðlaunaleikkonuna Nicole Kidman að stjörnu og kom henni á kortið í Bandaríkjunum. Hún varð ein vinsælasta leikkona sinnar kynslóðar og hlaut óskarinn fyrir The Hours árið 2003. Sam Neill, traustur ástralskur leikari, átti þar eina af sínu bestu kvikmyndatúlkunum, og Billy Zane sló í gegn, einkum fyrir að vera óvæginn. Hann varð síðar heimsfrægur fyrir túlkun sína á Cal Hockley í stórmyndinni Titanic árið 1997.

Flott mynd, samt orðið of langt síðan að ég sá hana síðast. Set hana kannski í tækið um helgina. Það stefnir í rólega helgi, svo að það er ekki galin hugmynd. En vonandi verða leyndardómar draugaskútunnar áströlsku auðleyst.

mbl.is „Draugaskúta“ fannst við strendur Ástralíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun skuggi Silvíu Nætur skemma fyrir Eiríki?

Eiríkur Hauksson Eftir þrjár vikur mun Eiríkur Hauksson syngja lagið Valentine Lost í Helsinki. Stóra spurningin er hvort að Eiríki takist að komast upp úr undanriðlinum. Það verður fróðlegt hvort að skuggi Silvíu Nætur skemmi fyrir Eiríki í keppninni nú. Á síðasta ári söng Silvía Nótt sig út úr keppninni með bæði eftirminnilegum og magnþrungnum hætti. Hún stuðaði allt og alla í Aþenu en vakti um leið mikla athygli. Hún öðlaðist þó sögulegan sess í keppninni er púað var á hana fyrir og eftir flutning sinn.

Eiríkur Hauksson er maður sögu í Eurovision. Hann hefur keppt þrisvar og er mjög reyndur, bæði sem tónlistarmaður og áhugamaður um Eurovision. Hann býr að þeirri reynslu í þessari þriðju ferð sinni út. Lagið er vissulega mjög gott, textinn venst en er ekkert meistaraverk þó. Mörgum, þar á meðal mér, finnst íslenska útgáfan mun betri, hún rennur betur í gegn finnst mér og hljómar betur í heildina. Myndbandið við lagið vakti athygli og hann hefur fengið mikla bylgju stuðnings héðan að heiman.

Það er ekki auðvelt að bera saman Silvíu Nótt og Eirík Hauksson, þau eru ólík eins og dagur og nótt. Sem söngvarar á leið í Eurovison eru þau enn ólíkari en sem persónur. Ísland fer tvær mjög ólíkar leiðir á þessu ári og hinu síðasta. Þjóðin var ekki öll á bakvið Silvíu Nótt. Hún var mun umdeildari flytjandi í keppninni. Mörgum fannst og finnst reyndar enn að annað lag hefði átt að fara og sigur hennar varð umdeildur. Lagið sem slíkt varð miklu minna áberandi en karakterinn sjálfur. Í tilfelli Eiríks er þetta söngvari að flytja lag, en ekki lag sem er borið upp af miklum karakter sem hefur alla athygli á sér en ekki laginu. Þetta er því allt mjög ólíkt.

Silvía Nótt stuðaði mjög þá sem héldu utan um keppnina. Karakterinn varð ansi yfirdrifinn. Hef reyndar oft hugsað um það hvernig að Ágústa Eva Erlendsdóttir gat haldið dampi í gervi þessarar glamúrgellu þetta lengi. Þetta hefur eflaust tekið mikið á og verið þungur baggi að bera. Held að framkoman vikuna í Aþenu hafi skemmt mjög fyrir okkur. Þetta show varð einum of. Það sem byrjaði sem fínn local-brandari endaði sem súr og dýr brandari á erlendu sviði. Floppið varð mikið og áfallið varð gríðarlegt, bæði fyrir karakterinn og skaparann og síðast en ekki síst þá sem höfðu stutt hana hér heima, sem reyndar urðu sífellt færri eftir því sem styttist í stóru stundina.

Eiríkur er ekki alveg öfundsverður að fylgja á eftir þessu mikla show-i sem var í Aþenu í fyrra. Það verður fróðlegt að sjá hvort að þessi skuggi sem fylgir honum, skuggi Silvíu Nætur, skipti máli eður ei. Hann hefur einhver hliðaráhrif hið minnsta. Eiríkur ætti að geta með hressilegri framkomu og sínum karakter verið þar á eigin forsendum og varla munu skuggar fortíðar sliga hann. Lagið er gott og hefur allt til að bera að komast lengra. Hann fékk allavega góða dóma í norrænu deildinni um daginn, sem skiptir máli fyrir stolt okkar Íslendinga fyrst og fremst.

Það verður mikið áfall nái Eiríkur ekki að komast á úrslitakvöldið þann 12. maí. Það verður strax litlausara kosningakvöldið komist hann ekki áfram. Augu allra landsmanna verða á því sem gerist í Helsinki þann 10. maí og við vonum að andar fortíðar, hvort sem það er umdeild glamúrgella eða einhver annar, hafi ekki neikvæð áhrif á stöðu mála er á hólminn kemur.

Púslin koma saman - grimmilegt fjöldamorð

Cho Seung-hui Eftir því sem púslin á bakvið harmleikinn í Virginia Tech raðast saman og verða heildstæð mynd verður sífellt ljósara hversu grimmilega skipulagt þetta fjöldamorð var af hálfu S-Kóreumannsins Cho Seung Hui. Nú hafa komið upp á yfirborðið myndband hans og yfirlýsing um voðaverkin, sem hann sendi NBC-sjónvarpsstöðinni á milli morðanna á heimavist og skólahúsnæði, en tveir tímar liðu þar á milli.

Það er vægt til orða tekið að þetta myndband veki óhug og skelfingu. Grimmdin og geðtruflunin í persónu þessa manns er svo augljós að með ólíkindum sé að ekkert hafi verið gert til að taka á málum hans. Uppljóstranir hafa nú komið fram um að hann hafi verið á geðlyfjum, hann hafi farið í geðrannsókn og kennarar hafi margoft varað við honum, þar á meðal kennari hans í enskudeildinni sem fékk frá honum mjög truflaða ritgerð sem sýndi öll merki skapgerðareinkenna sem voru stórhættuleg fyrir svona samfélag. Samt var ekkert að gert, þetta er auðvitað skelfilegt mál í alla staði.

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa fjallað mjög ítarlega um þetta mál. Það hefur skekið bandarískt samfélag. Það er þjóðarsorg í Bandaríkjunum. Hef horft á fréttir af þessu máli á Sky News. Það er vissulega mjög athyglisverð umfjöllun. Svörin á bakvið fjöldamorðin koma fram, en spurningarnar verða þó sífellt háværari. Það er ljóst að pottur er brotinn að nokkru leyti í þessum málum. Það er með ólíkindum að enginn hafi gert neitt róttækt í málum þessa manns, sem greinilega var snarbilaður og hafði verið sem tifandi tímasprengja um mánaðarlangt skeið, gott ef ekki í nokkur ár. Þetta er nöturlegt.

Eftir standa margar spurningar um þessa persónu. Svörin koma mörg fram. Best koma þau fram í því sem hann skildi eftir sig. Þetta myndband er sorglegt og það er átakanlegt að horfa á það. Það er líka með ólíkindum að heilir tveir tímar liðu á milli skotárásanna tveggja, eins og fyrr segir. Það er óafsakanlega langur tími, og er ekki undrunarefni að þeir sem eftir lifa í Virginia Tech og fjölskyldur þeirra sem voru myrtir af Cho Seung Hui vilji svör og farið verði almennilega yfir málið. Þetta er harmleikur sem heldur sífellt áfram að verða skelfilegri.

Sem betur fer er íslenskt samfélag órafjarri svona veruleika. En sársauki fólks í Bandaríkjunum finnst þó vel alla leið hingað. Það er alveg ljóst að verulega mikið er að undir niðri í bandarísku samfélagi. Þessi veruleiki vekur upp mun fleiri spurningar en nokkru sinni fæst svarað.

mbl.is Sendi sjónvarpsstöð pakka á milli árásanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sviptingasamur lokadagur vetrar í Reykjavík

Stórbruni í miðbæ Reykjavíkur Þessi síðasti vetrardagur var sviptingasamur í Reykjavík. Stórbruninn í miðbænum eru auðvitað mikil og váleg tíðindi, sorgleg tíðindi og mjög dapurlegt að sjá það tjón sem varð í þessari viðkvæmu bæjarmynd sem hefur verið óbreytt síðan á nítjándu öld að mestu leyti, og í ofanálag flæddi svo vatn niður Laugaveginn í kvöld eftir heitavatnsæð brast og gufa lagði yfir nærliggjandi svæði.

Húsið við Austurstræti 22, þar sem skemmtistaðurinn Pravda var síðast til húsa og í denn hýsti m.a. hina sögufrægu verslun Karnabæ í íslenskri verslunarsögu, er eins og sjá mátti af fréttamyndum dagsins gjörónýtt. Það mun hafa verið byggt á árinu 1801. Það á sér mjög merka sögu og var fróðlegt að heyra þá meginpunkta hjá Magnúsi Skúlasyni. Það verður sjónarsviptir af því. Örlög Lækjargötu 2 eru óljós, húsið er auðvitað stórskemmt en þó óvíst hver framtíð þess verður. Það verður næsta verkefnið að huga að framtíð mála.

Mér hefur alltaf fundist þessi götumynd sjarmerandi. Hún átti sér merka sögu og það er sjónarsviptir af því, ekki síður og er önnur gömul hús hverfa. Ég tek heilshugar undir með Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, borgarstjóra, að það verði að standa vörð um megingötumyndina og færa hana í sem líkast horf og við höfum þekkt hana alla tíð. Það má ekki gerast að uppbyggingu þessa svæðis verði klúðrað með byggingum sem eru of ólíkar þeim sem þar stóðu fyrir þennan bruna. Þetta er viðkvmt svæði í borgarmyndinni. Finnst reyndar enn frekar skrýtið til þess að hugsa að þetta hafi skeð.

Ég var í Reykjavík um síðustu helgi. Það er órjúfanlegur hluti helgarferðar í borgina að kanna næturlífið og skemmta sér vel. Það er reyndar svo sérstakt að á bakaleiðinni frá miðbæjarlabbinu í Bæjarins besta og þar sem ég kvaddi vini mína er ég leitaði mér að leigubíl aftur á hótelið varð mér starsýnt á götumyndina og hugsaði með mér hvað myndi gerast ef kæmi þar upp bruni. Enda varð mér brugðið þegar að ég heyrði af þessum bruna í útvarpinu fyrst í dag og las svo fréttir af netinu og horfði á netútsendinguna. Þetta er eflaust það sem margir hafa óttast en fáir voru viðbúnir undir.

En það er mikilvægt að horfa til framtíðar. Þetta er orðinn hlutur og framtíðin boðar að byggja þarf svæðið upp. Það er alveg ljóst að Austurstræti 22 sem átti þessa merku sögu var orðin nokkur hryggðarmynd undir lokin. Síðast þegar að ég fór þar inn mér til skemmtunar fyrir einhverju síðan fannst mér þetta hús orðin hálfgerð hryggðarmynd. Útlit hússins var komin öll úr skorðum og það var orðið teygt og sjoppulega dapurt að innan.

Það er mikilvægt að þetta svæði miðbæjarins verði sem líkast þeirri götumynd sem er í huga fólks og hefur verið alla tíð. Fyrst að svona hörmulega fór í þessum bruna þarf að nota tækifærið og gera upp þessa fallegu götumynd á ný. Ég treysti því að borgaryfirvöld vinni vel í þeim efnum og leiði málið með þeim hætti sem sómi er að.

mbl.is Slökkvistarfi lokið að mestu og hreinsunarstörf hafin í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband