28.11.2006 | 23:56
NFS líður undir lok í íslenskri fjölmiðlasögu

18. nóvember 2005 hóf NFS útsendingar. Allt frá fyrsta degi var áhugaverð dagskrárgerð á NFS og í raun ekkert til sparað, mikið var af beinum útsendingum og tekið á öllum helstu álitaefnum þjóðmálaumræðunnar í umfjöllun. Vandi stöðvarinnar var þó allt frá upphafi einn - og hann nokkuð stór, að flestra mati. Áhorf og auglýsingatekjur brugðust, það sem átti að vera eldsneyti stöðvarinnar inn í framtíðina gaf sig fljótt og hefur skuldahali stöðvarinnar jókst sífellt eftir því sem leið á þetta fyrsta og eina útsendingarár NFS. Hægt og rólega fjaraði stöðin út uns kom að leiðarlokunum eftir tíu mánaða starf.
Mörgum þótti hugmyndin djörf er hún var kynnt fyrst sumarið 2005 og ekki voru allir á eitt sáttir. Einn þeirra sem ekki var sáttur við hugmyndina var Páll Magnússon, þáv. fréttastjóri Stöðvar 2. Hann tók ákvörðun um að yfirgefa frekar skútu 365 en halda í verkefnið og munu átök hafa orðið á æðstu stöðum þegar að Páll sagði við yfirmenn 365 að þessi hugmynd myndi aldrei ganga og yrði myllusteinn um háls fyrirtækisins. Við svo búið sagði Páll upp og sótti um lausa útvarpsstjórastöðu hjá Ríkisútvarpinu í kjölfarið.
Í viðtali í sumar við tímaritið Mannlíf sagði Páll að þessi hugmynd um NFS hefði verið glapræði og ástæða þess að hann ákvað að vera ekki áfram hjá 365. Það er greinilegt að varnaðarorð Páls Magnússonar, útvarpsstjóra, sumarið 2005 vegna stofnunar fréttastöðvar 365 í sjónvarpi gengu að öllu leyti eftir. NFS varð dýr tilraun fyrir 365-fjölmiðlaveldið og það sligaðist vegna þess. Að því kom að skrúfað var en NFS-lógóið lifði lengur og varð eiginlega aðhlátursefni. Það var öllum ljóst seinustu vikur að aðeins tímaspursmál væri hvenær stokkað yrði upp.
Í kvöld var öllu skúffað niður eftir árstilraun og eftir stendur staða mála eins og var fyrir 18. nóvember 2005. Þetta var misheppnuð tilraun. Má þó til með að hrósa hinni nýendurvöktu fréttastofu Stöðvar 2 fyrir flottar breytingar, góð lógó og líflega útgáfu á fréttastefi Gunnars Þórðarsonar sem hefur fylgt Stöð 2 frá 1987. Það verður fróðlegt að fylgjast með stöðu mála eftir að NFS hefur nú endanlega verið sett í skúffuna í Skaftahlíð.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.11.2006 | 17:38
Casino Royale

Í þessari mynd er leitað aftur til upphafsins og grunnhliðanna sem skópu höfuðþætti frægðar myndanna um James Bond. Á síðustu árum hafði grunnur Bond-þemans veikst verulega að mínu mati. Vélkenndi hasarinn og verksmiðjutaktarnir voru orðnir verulega þreytulegir. Söguþráðurinn varð óraunverulegur og eiginlega óspennandi, allt að því fjarstæðukenndur. Þetta sást einna best í síðustu mynd, Die Another Day, árið 2002, sem fór eiginlega skrefið langt inn í óraunveruleika og fjarstæðukenndan grunn. Ekki bjartasta stund James Bond það.
Daniel Craig er nú orðinn James Bond í stað Pierce Brosnan. Valið á Craig var gríðarlega umdeilt og aðdáendun myndanna um allan heim var skapi næst að sniðganga hann í hlutverkinu. Efasemdarraddirnar dempuðust þegar að trailerinn kom fyrir sjónir almennings og þessi mynd slekkur allar efasemdir að fullu. Mér finnst þetta besta Bond-myndin í tæpa fjóra áratugi, það er mjög einfalt mál. Aðeins allra fyrstu myndirnar standast þessari snúning. Það mun ekkert breyta þeirri afstöðu minni að grunnur Bond sé byggður á persónu Sir Sean Connery í hlutverkinu. Þar liggur grunnur alls þess sem síðar kom. Það er kristaltært alveg í mínum huga.
Mínar uppáhaldsmyndir í þessari seríu eru og hafa verið From Russia with Love og Goldfinger. Auk þeirra stendur On Her Majesty´s Secret Service. Fyrir nokkrum vikum hefði mér sennilega varla órað fyrir að ég myndi segja að Daniel Craig myndi toppa bæði Roger Moore og Pierce Brosnan í hlutverkinu en sú er nú orðin raunin. Mér finnst Craig flottur í túlkun sinni. Hann færir okkur kærkomið fortíðarskot inn í heim James Bond. Það var sú hlið sem var að mestu horfin sem birtist okkur aftur hér. Mér fannst þetta stórfengleg mynd að öllu leyti. Sem mikill Bond-áhugamaður er ég því alsæll með allar hliðar myndarinnar. Það er engin feilnóta slegin í allri myndinni.
Það er enginn vafi í huga neins að Daniel Craig er kominn til að vera í hlutverki James Bond. Hann hefur endurbyggt arfleifð fallegasta hluta þessarar kvikmyndaraðar og gefið okkur heilsteyptan grundvöll í persónuna. Það er mjög mikið gleðiefni. Ég verð þó að viðurkenna að ég sé eftir Pierce Brosnan úr hlutverki James Bond. Mér fannst hann standa sig vel, en það sem klikkaði undir lokin á hans tíma í hlutverkinu var aðbúnaðurinn utan um allan pakkann. Handritin voru afspyrnuslæm og gervihliðin tók öll völd umfram það sem eðlilegt var. Því fór sem fór. En ég sé eftir Brosnan. En Craig tekur við af miklum krafti og hann lofar svo sannarlega góðu.
Í heildina vonast ég eftir jafn góðu í næstu myndum og var í Casino Royale. Ég skemmti mér í gærkvöldi og horfði á hina gömlu Casino Royale frá 1967, með Peter Sellers, David Niven og Woody Allen. Skemmtilega steikt mynd að öllu leyti. Gaman að sjá hana áður en skrifað er um Casino Royale anno 2006. Þessar myndir eiga fátt sameiginlegt nema að þungamiðja þeirra beggja er James Bond. Skemmtilega ólíkar myndir, báðar ómissandi á sinn skemmtilega hátt. Ég ætla nú næstu vikurnar að leggjast aftur yfir James Bond-safnið mitt og horfa á bestu myndirnar og upplifa þær aftur í ró og næði desember-mánaðar. Kærkomið það.
En Casino Royale byggir upp aftur grunn þess besta sem hefur einkennt James Bond-seríuna og við höldum aftur til upphafsins með stæl. Back to basics - það líkar mér. Sem Bond-fíkill segi ég og skrifa; meira svona!
![]() |
Roger Moore leikur í íslenskri auglýsingu á vegum UNICEF |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.11.2006 | 14:52
Tekur Þórarinn B. aftur sæti í bæjarstjórn?

Það er ekki óvarlegt að ætla að Þórarinn B. muni nú verða með fast sæti á bæjarstjórnarfundum, enda ólíklegt að Kristján Þór hafi í hyggju að vera fastur hluti bæjarstjórnarfunda sem óbreyttur bæjarfulltrúi. Hvort það verði sem varamaður í fjarveru nýs kjördæmaleiðtoga eða sem fastur bæjarfulltrúi eftir afsögn Kristjáns Þórs mun væntanlega ráðast brátt. Hvernig sem fer er annað óhjákvæmilegt en að Kristján Þór verði lítið áberandi á vettvangi bæjarmálanna á næstunni vegna nýs hlutverks síns.
Fari það svo að Þórarinn B. verði að nýju bæjarfulltrúi hlýtur hann að taka sæti í nefndum með sama þunga og krafti og var á síðasta kjörtímabili, þegar að hann var einn áhrifamesti bæjarfulltrúi meirihlutans, rétt eins og allt frá því að hann kom inn í bæjarstjórn árið 1994. Hann var t.d. mjög áberandi í skipulagsmálunum og fulltrúi flokksins þar mjög lengi.
Það er ekki óvarlegt að ætla að hann muni skipa sæti aftur í valdamiklum nefndum, enda hljóta allir óbreyttir bæjarfulltrúar að fara í nefndir og verða áberandi á þeim vettvangi. Það gerir Kristján Þór varla sem kjördæmaleiðtogi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.11.2006 | 12:25
Samstaða um Sigrúnu Björk sem bæjarstjóra

Kristján Þór lætur því formlega af embætti mjög fljótlega, en mun væntanlega klára fjárhagsáætlun næsta árs. Samfylkingin hefur lagt blessun sína yfir bæjarstjóraskiptin og þar ljóst að full samstaða er um þessa ákvörðun mála, enda er full samstaða innan Sjálfstæðisflokksins að Sigrún Björk sem önnur á lista flokksins í síðustu sveitarstjórnarkosningum taki við þessu embætti. Óvissan nú er um hvort Kristján Þór Júlíusson muni segja sig úr bæjarstjórn eða sitja þar sem óbreyttur bæjarfulltrúi er bæjarstjóraferlinum lýkur og hann tekur nú við leiðtogahlutverkinu í kjördæminu.
Sigrún Björk Jakobsdóttir, verðandi bæjarstjóri á Akureyri, er fædd 23. maí 1966. Hún er stúdent frá Menntaskólanum við Sund og útskrifaðist úr IHTTI hótelstjórnunarskólanum í Sviss árið 1990. Einnig hefur hún lokið námi í nútímafræðum við Háskólann á Akureyri og stjórnunarnámi á vegum Símenntunar HA. Sigrún hefur starfað sem hótelstjóri á Hótel Austurlandi, í sölu- og markaðsdeild Hótel Íslands, verið hótelstjóri á Hótel Norðurlandi, deildarstjóri hjá Úrvali-Útsýn, verkefnastjóri hjá Menntasmiðjunni á Akureyri og verkefnastjóri hjá Price Waterhouse Coopers. Sigrún Björk hefur verið bæjarfulltrúi á Akureyri frá vorinu 2002.
Við þessar breytingar mun uppstokkun verða á embætti forseta bæjarstjórnar og nefndum og ráðum innan Sjálfstæðisflokksins. Nýr forseti og formaður stjórnar Akureyrarstofu, verða valdir í kjölfarið, enda eru þetta þau embætti sem Sigrún Björk hefur gegnt. Eðlilegast er að Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar, taki við áhrifamiklu verkefni á borð við embætti forseta bæjarstjórnar, enda næst á eftir Sigrúnu Björk á framboðslistanum í vor, en nákvæmari ákvarðanir um nefndauppstokkun er væntanlega næsta verkefni nú.
![]() |
Niðurstaða prófkjörsins er draumauppstilling" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.11.2006 | 01:52
Mörgæsirnar skáka enn James Bond

Mundi það akkúrat í dag að ég á enn eftir að skrifa um þessa glæsilegu kvikmynd. Síðasta vikan var mjög annasöm hjá mér, en nú eru þær annir að baki og annað tekur við. Nú er pólitíkin komin í jólafrí hjá mér, utan líflegra skrifa hér. Nú fer desember að skella á, og þá hefur maður nægan tíma til að njóta góðra kvikmynda, bóka og notalegrar tilveru, algjörlega laus við stjórnmálavafstur.
Ég ætla því að skrifa á morgun um Casino Royale og fara yfir skoðanir mínar á henni, hefði átt að vera búinn að því fyrir löngu, enda fór ég á hana strax fyrsta daginn í bíói hérna, en ekki enn sest niður til að skrifa almennilega umsögn um hana. Bæti úr því hið snarasta. Er svo að hugsa um að rifja upp allar Bondmyndirnar næstu vikurnar, en ég á þær allar. Er ekkert rosalega langt síðan ég sá sumar, en nokkrar eru eftirminnilegri en aðrar og ég vil endilega rifja þær betur upp.
Þessi mynd er í grunninn séð gamaldags útgáfa af Bond. Heillaði mig mjög mikið og mér finnst þetta besta Bond-myndin frá On Her Majesty´s Secret Service og elstu myndunum, þeim klassískustu, sem skörtuðu Sir Sean Connery. Bestu myndirnar eru og verða From Russia with Love og Goldfinger. En þessi er ekki mjög fjarri þeim. Hver er uppáhaldsmyndin þín?
![]() |
Dansandi mörgæsir vinsælar í kvikmyndahúsum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.11.2006 | 00:24
Innihaldsríkt viðtal við Styrmi

Eva María er lagin að stýra góðum viðtölum, enda bæði mannlegur og beittur spyrill, skemmtileg blanda í raun. Það er gleðiefni að Eva María sé með spjallþátt á prime time sjónvarpstíma. Hún á hvergi annarsstaðar heima en með alvöru þátt á alvöru tíma. Það var gott að fá hana aftur á skjáinn í haust og þetta viðtal er það besta í þessum þætti í vetur frá fyrsta viðtali vetrarins, við Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra. Hvet alla til að horfa á þetta góða viðtal.
Viðtal við Styrmi Gunnarsson
Sjónvarp | Breytt 24.4.2008 kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)